Hæstiréttur íslands

Mál nr. 39/2000


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Skuldabréf
  • Lán


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. maí 2000.   

Nr. 39/2000.

 

Jón Guðmundsson og

Leó E. Löve

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

Samvinnusjóði Íslands hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

 

Lausafjárkaup. Skuldabréf. Lánveiting.

S veitti L skuldabréfalán með sjálfskuldarábyrgð J og fyrsta veðrétti í bifreiðinni T, sem félagið B seldi L. Vanskil urðu á láninu og höfðaði S skuldabréfamál samvkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 á hendur L og J. Báru L og J fyrir sig að S hefði ranglega afhent B lánsfjárhæðina í stað þess að greiða hana til L. Viðurkennt var að B hefði haft alla milligöngu um töku og frágang lánsins og að S hefði greitt lánsféð til B. Var afsal fyrir bifreiðinni talið bera það með sér að hún væri að fullu greidd og hefði S mátt ætla að það hefði gerst með afhendingu skuldabréfsins til B. Voru L og J því ekki taldir hafa sannað, á þann hátt sem getur í 3. mgr. 118. gr.  laga nr. 91/1991, að haga hefði átt viðskiptunum á annan hátt. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að L og J væru skuldarar samkvæmt skuldabréfinu og bæri að greiða skuld samkvæmt því.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.

Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 1. febrúar 2000. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Mál þetta var höfðað sem skuldabréfamál samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem nánar segir í héraðsdómi. Samkvæmt 118. gr. þeirra laga geta áfrýjendur aðeins haft uppi þær varnir í skuldabréfamáli sem um er getið í 1. og 3. mgr. greinarinnar. Ekki reynir á ákvæði 1. mgr. 118. gr. í máli þessu, en áfrýjendur telja sig hafa varnir sem að komist samkvæmt 3. mgr. Ákvæðið hljóðar svo: „Í skuldabréfamáli má stefndi (hér áfrýjendur) einnig koma að vörnum ef hann á ekki að sanna þær staðhæfingar sem varnirnar byggjast á eða unnt er að sanna staðhæfingarnar með skjölum sem hann leggur þegar fram.“ Áfrýjendur halda því fram að stefndi hafi ranglega afhent lánsfjárhæðina til BT-Bíla ehf. í stað þess að greiða hana út til lántakandans Leós E. Löve og telja sig geta sýnt fram á það með framlögðum skjölum.

Stefndi veitti áfrýjanda, Leó E. Löve, skuldabréfalán 23. febrúar 1998 að fjárhæð 2.188.754 krónur með sjálfskuldarábyrgð áfrýjanda, Jóns Guðmundssonar, og fyrsta veðrétti í bifreiðinni TF-918, Chrysler Intrepid, árgerð 1995, sem flutt var notuð til landsins og BT-Bílar ehf. seldu Leó E. Löve fyrir sömu fjárhæð með afsali sama dag. Sótt var um lánið sem bílalán og er viðurkennt að BT-Bílar ehf. hafi haft alla milligöngu um töku þess og frágang. Stefndu greiddu lánsféð til fyrirtækisins eftir að hafa fengið skuldabréfið undirritað í hendur og fullvissað sig um að veðrétturinn og eigendaskipti að bifreiðinni væru trygg. Afsalið ber það með sér að bifreiðin var að fullu greidd og mátti stefndi ætla eins og hér stóð á að það hefði gerst með afhendingu skuldabréfsins til BT-Bíla ehf. Áfrýjendur hafa því ekki sannað á þann hátt, sem um getur í 3. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991, að haga hefði átt þessum viðskiptum á annan hátt. Vaxtakröfu er ekki sérstaklega mótmælt. Samkvæmt þessu ber að staðfesta héraðsdóm.

Rétt er að áfrýjendur greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                    Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Leó E. Löve og Jón Guðmundsson, greiði stefnda, Samvinnusjóði Íslands hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 1999.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 22. nóvember sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu, birtri 11. apríl 1999. Málið var þingfest 29. apríl 1999. 

Stefnandi er Samvinnusjóður Íslands hf., kt. 691282-0829, Sigtúni 41, Reykjavík.

Stefndu eru Leó E. Löve, kt. 250348-2909, Klapparstíg 1, Reykjavík og Jón Guðmundsson, kt. 200442-2539, Hegranesi 24, Garðabæ.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 2.235.618 krónur, auk dráttarvaxta af þeirri fjárhæð, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 2. apríl 1998 til greiðsludags svo og til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefndu eru þær, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað með álagi, eftir ákvörðun dómsins.

II

Óumdeild málsatvik og helstu ágreiningsefni

Krafa stefnanda er byggð á skuldabréfi, upphaflega að fjárhæð 2.188.754 krónur, sem stefndi, Leó E. Löve, gaf út til stefnanda 23. febrúar 1998. Skuldabréfið var óverðtryggð en stefndi skuldbatt sig til að greiða 10.65% ársvexti af höfuðstól lánsins, skyldu samningsvextirnir reiknast frá 20. febrúar 1998 og greiðast á sömu gjalddögum og afborganir af láninu. Stefndi skuldbatt sig til að endurgreiða lánið með 54 jöfnum, (annuitet) mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta skiptið 2. apríl 1998. Fjárhæð hverrar afborgunar var 51.194­ krónur.

Stefndi, Jón Guðmundsson, tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á láninu. Jafnframt var stefnanda sett að veði til tryggingar kröfunni bifreiðin, TF-918, Chrysler Intrepid árgerð 1995.

Tildrög lánveitingarinnar voru þau að Jón Waltersson f.h. BT-Bíla ehf. og stefndi Leó E. Löve undirrituðu ódagsetta umsókn til stefnanda um bílalán. Í umsókninni er kaupverð bifreiðarinnar sagt 2.800.000 krónur, innborgun 700.000 krónur og lánsfjárhæð 2.100.000 krónur en höfuðstóll láns með lántökukostnaði 2.188.754. Í umsókninni segir nánar svo:

"Eigandi skuldabréfs er óafturkallanlega tilnefndur rétthafi til vátryggingabóta komi þær til útborgunar. Umsókn þessi er bindandi fyrir umsækjanda enda hafi hann einnig gengið frá kaupunum við viðkomandi seljanda. Umsóknin er fyrst bindandi fyrir Samvinnusjóð Íslands hf. þegar leyfisnúmer hefur verið gefið og umsækjandi undirritað skuldabréfið. Lánveitingin er háð því skilyrði, að hin veðsetta bifreið sé ábyrgðar- ­og kaskótryggð, þar til lán er að fullu greitt. Lántakanda er jafnframt óheimilt að framselja bifreiðina þar til lánið er að fullu greitt nema með samþykki sjóðsins. Ef lánið er greitt upp fyrir lokagjalddaga á skuldari rétt á lækkun lánskostnaðar sem nemur þeim vöxtum eða öðrum kostnaði sem greiða átti eftir greiðsludag. Undirritaður hefur kynnt sér alla skilmála lánsins og er samþykkur þeim."

Fyrir liggur að skuldabréfið var útbúið af stefnanda og undirritað af stefndu. Sendiboði frá BT-bílum ehf. kom bréfinu frá stefndu til stefnanda. Bréfinu var því næst þinglýst og lánsfjárhæðin síðan greidd BT-Bílum ehf.

Upplýst er að sótt var um bílalánið vegna kaupa stefnda Leós á bifreiðinni TF-918, Chrysler Intrepid árg. 1995. Lagt hefur verið fram í málinu afsal frá BT-Bílum ehf. til stefnda Leós, dagsett 23. febrúar 1998, fyrir umræddri bifreið. Í afsalinu kemur fram að umsamið kaupverð 2.188.754 krónur hafi að fullu verið greiddar. Óumdeilt er að stefndi Leó er enn eigandi umræddrar bifreiðar.

Vanskil urðu á greiðslu fyrstu afborgunar af bréfinu og hefur ekkert verið greitt af láninu. Í kjölfar innheimtubréfs, skriflegra mótmæla stefnda Leós og birtingar greiðsluáskorunar frá lögmanni stefnanda var krafist nauðungarsölu á bifreiðinni TF-918. Af hálfu sýslumannsins í Reykjavík var fallist á mótmæli stefnda Leós við nauðungarsölunni 26. mars 1999. Stefndi Leó krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að fá umrætt skuldabréf afhent sér með innsetningargerð. Með úrskurði dómsins 2. júní 1999 var þeirri kröfu hafnað og staðfesti Hæstiréttur Íslands úrskurðinn með dómi 24. ágúst 1999.

Aðilar deila um það hvort þær varnir stefnanda komist að í málinu, að ekki sé um skuld að ræða samkvæmt skuldabréfinu þar sem lánsféð hafi verið greitt út til rangs aðila. Einnig deila þeir um það hvort stefnandi hafi haft heimild til að greiða BT-bílum ehf. lánsfjárhæðina.

 

III

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er krafist greiðslu á skuld samkvæmt skuldabréfinu. Vanskil hafi orðið á fyrsta gjalddaga bréfsins 2. apríl 1998 og það hafi verið gjaldfellt miðað við þann dag. Krafist er greiðslu á höfuðstól bréfsins 2.188.754 krónum, ásamt 46.864 króna áföllnum samningsvöxtum frá 20. febrúar 1998 til 2. apríl 1998 eða samtals 2.235.618­ krónum.

Stefnandi byggir málshöfðunina á 17. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Vísað er til þess að einungis þær varnir sem tilgreindar séu í 1. og 3. mgr. 118. gr. laganna komist að í skuldabréfamáli. Því er mótmælt að varnir varðandi viðskiptin að baki bréfinu komist að í málinu. Sérstaklega er mótmælt að sú vörn að lánið hafi ekki verið greitt út til rétts aðila og engin skuld sé því til staðar komist að.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að um bílalán hafi verið að ræða eins og ráða megi af lánsumsókn sem undirrituð hafi verið af fulltrúa seljanda bifreiðarinnar og stefnda Leó, sem kaupanda og lántakanda. Stefndi Leó sé eigandi bifreiðarinnar og hafi greitt kaupverðið með umræddu láni eins og glöggt megi sjá í framlögðu afsali fyrir bifreiðinni. Þá hafi bifreið stefnda Leós verið veðsett til tryggingar láninu.

Stefnandi kveður stefndu við undirritun skuldabréfsins hafa tekið á sig skuldbindingu um að greiða lánið. Því er haldið fram að það hafi verið í samræmi við vilja málsaðila að lánið yrði greitt út til BT-Bíla ehf. og hafi handhöfn félagsins á skuldabréfinu veitt stefnanda rétt til að greiða því andvirði lánsins. Ágreiningslaust sé að stefndu og BT-Bílar ehf.  hafi verið í viðskiptasambandi. Af hálfu stefnanda er fullyrt að það sé venja við afgreiðslu slíkra bílalána að lánið sé greitt beint út til seljanda bifreiðar. Slík viðskipti geti ekki gengið fyrir sig með öðrum hætti þar sem útilokað sé að kaupandi bifreiðar, sem sett hafi verið sem trygging fyrir láni, fái lánsfjárhæðina greidda sér. Seljandi sem þegar hafi afsalað bifreið hafi þá enga tryggingu fyrir því að fá kaupverðið greitt.

Af hálfu stefnanda er því ennfremur haldið fram að stefndu hefðu þurft að tilkynna sérstaklega ef afgreiðsla lánsins hefði átt að vera með öðrum hætti en venju samkvæmt. Stefnandi kveður viðskipti BT-bíla ehf. og stefndu málinu óviðkomandi og telur fullyrðingar stefndu um að þeir hafi átt að fá bæði bifreiðina og lánsféð rangar og ósannaðar. Stefnandi telur að ef kröfur stefndu um sýknu nái fram að ganga þurfi stefndi Leó alls ekki að greiða andvirði umræddrar bifreiðar.

Um lagarök vísar stefnandi m.a. til meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, samanber samningalög nr. 7/1936. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

IV

Málsástæður og lagarök stefndu

Af hálfu stefndu er því haldið fram að til hafi staðið að þeir fengju lán hjá stefnanda í tengslum við viðskipti sín og í því skyni hafi umrætt skuldabréf verið útbúið. Af lántökunni hafi aldrei orðið þótt skuldabréfið væri útbúið, því þinglýst og komið til starfsstofu stefnanda. Stefnandi hafi greitt út fé það sem skuldabréfið hljóði um til þriðja manns án umboðs eða annarrar heimildar frá stefndu. Sé því ekki um neina skuld að ræða.

Nokkrum dögum eftir að mistök stefnanda um útborgun fjárins hafi orðið ljós hafi stefndu gert árangurslausar tilraunir til að finna ásættanlega lausn fyrir báða málsaðila. Stefndu benda á að sýslumaðurinn í Reykjavík hafi synjaði um framgang nauðungarsölu vegna mótmæla þeirra. Af hálfu stefnanda hafi verið lýst yfir að þeirri ákvörðun yrði skotið til héraðsdóms en af því hafi ekki orðið. Þess í stað hafi stefnandi höfðað mál þetta á hendur stefndu á grundvelli 17. kafla laga nr. 91/1991.

 Fjármálaeftirlitið hafi fjallað um málið að beiðni stefnda Leós. Að mati þess mátti stefnandi ætla að umrædd ráðstöfun væri í samræmi við samkomulag stefnda Leós við seljanda bifreiðarinnar. Fjármálaeftirlitið hafi þó talið að sjóðnum hefði borið að ganga úr skugga um að svo væri eða afla samþykkis Leós vegna umræddrar ráðstöfunar á andvirði lánsins.

Af hálfu stefndu eru viðskipti þeirra við BT-bíla ehf. skýrð þannig að aðilar tengdir bílasölunni hafi skuldað þeim stefndu peninga. Ákveðið hafi verið að BT-bílar ehf. flyttu inn bifreið sem afsalað yrði til stefndu, tekið yrði fullt bílalán til að fjármagna kaupin og andvirði lánsins rynni til stefndu. Væntanlegur söluhagnaður af bifreiðinni átti að renna upp í skuldina. Með því að stefndu fengju lánsféð í hendur gætu þeir tryggt að því yrði varið til að greiða kaupverð fleiri bifreiða erlendis en söluhagnaður þeirra skyldi með sama hætti renna til að greiða niður skuldina við stefndu. BT-bílar ehf. hafi notað lánsféð í annað og það því ekki skilað sér í bifreiðaviðskipin með þeim afleiðingum að skuldin við stefndu sé enn ógreidd. Stefndi Léo kveður bifreið þá sem hann hafi keypt enn standa óselda á bílasölu.

Stefndu byggja á því að ekki sé um skuld að ræða heldur aðeins skuldabréf. Stefnandi, sem sé fjármálastofnun, hafi ekki getað sannað að skuldabréfið hafi verið keypt eða andvirði þess greitt til meintra skuldara. Skuldabréfið sé lánssamningur á milli aðila máls þessa, en þar sem lán hafi ekki verið greitt út samkvæmt honum geti ekki verið um skuld að ræða.

Af hálfu stefndu er vísað til þess að mál þetta sé höfðað á grundvelli 17. kafla laga nr. 91/1991. Samkvæmt c-lið 117. gr. þeirra laga sé gert ráð fyrir að krafist sé greiðslu skuldar. Það eigi ekki við í máli þessu þar sem ekki sé um skuld að ræða. Samkvæmt 3. mgr. 118. gr. laganna komist að varnir sem þannig háttar um að stefndi þarf ekki að sanna þær staðhæfingar sem varnirnar byggjast á. Lögð hafi verið fram í málinu gögn sem sýni með óyggjandi hætti að umrætt lán hafi verið greitt til rangs aðila og því sé ekki um skuld að ræða. Þetta hafi stefnandi viðurkennt og því þurfi stefndi ekki að sanna þessa staðhæfingu. Varnirnar hljóti því að komast að í málinu.

Stefndu kveða stefnanda aðeins hafa sannað tilvist skuldabréfs en ekki skuldar og þótt skuldabréfið hafi verið afhent starfsmönnum stefnanda, hafi ekkert traustfang sendilsins fylgt því, svo sem haldið sé fram af hálfu stefnanda. Þá hafi sendillinn ekki haft stöðuumboð til að taka við lánsfénu.

Stefndu vísa ennfremur til þess að stefnandi sé fjármálastofnun sem hafi tilskilin leyfi til starfsemi sinnar. Ætlast verði til vandaðra vinnubragða af hálfu slíkra stofnana, m.a. að fé sé ekki greitt út eftir óljósum hugboðum eða ályktunum starfsmanna. Fráleitt sé að slík stofnun geti komist upp með vinnubrögð sem þessi og jafnvel reynt að fá atbeina dómskerfisins til ólögmætrar starfsemi. Sérfræðiþekking sé eitt af skilyrðum leyfisveitingar til slíkrar starfsemi og meðferð máls þessa beri ekki merki þeirrar sérfræðiþekkingar sem ætlast megi til.

Af hálfu stefndu er ennfremur vísað til þess að starfsmenn stefnanda hafi haft vitneskju um þau viðskipti stefndu sem hafi verið grundvöllur að umræddri lánsumsókn og því hafi þeim borið að gæta þess að greiða engum öðrum en stefndu lánsfjárhæðina eða afla sér upplýsinga hjá þeim áður en hún væri greidd út.

Af hálfu stefndu er einnig byggt á því ex tuto að víkja beri lánssamningnum til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 11/1986. Stefnandi hafi, með því að vísa til samningalaga í stefnu, í raun heimilað að varnir byggðar á þeim komist að í málinu.

Stefndi telur að dæma eigi álag á málskostnað sem stefnanda verði gert að greiða þeim og vísa um það til 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu telja ótrúlegt að stefnandi skuli halda málinu áfram eftir ábendingar sýslumannsins í Reykjavík, Fjármálaeftirlitsins og Hæstaréttar. Varðandi málskostnað er ennfremur bent á að stefndi Jón sé ekki virðisaukaskattsskyldur.

V

Niðurstaða

Mál þetta er höfðað sem skuldabréfamál á grundvelli 17. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, samanber c-liður 117. gr. Í texta skuldabréfs þess sem málið er sprottið af er ákvæði um að rísi mál út af skuld samkvæmt bréfinu megi reka það samkvæmt ákvæðum kaflans.

Í 1. og 3. mgr. 118. gr. einkamálalaga eru tilteknar þær varnir sem stefndi getur haft uppi í skuldabréfamáli. Varnir stefnda komast ekki að á grundvelli 1. mgr. 118. gr. Í 3. mgr. 118. gr. segir að í skuldabréfamálum geti stefndi einnig komið að vörnum ef hann á ekki að sanna þær staðhæfingar sem varnirnar byggjast á eða unnt er að sanna staðhæfingar með skjölum sem hann leggur þegar fram.

Óumdeilt er að lán samkvæmt skuldabréfinu var greitt út til BT-bíla ehf. en ekki stefndu. Sú málsástæða að ekki sé um skuld að ræða kemst að í málinu að því leyti sem hún hefur stoð gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu andmælalaust. Verður því að taka afstöðu til allra þeirra varna stefndu sem byggðar eru á framlögðum skjölum.

Fallist er á með stefnanda að í bifreiðakaupum sem fjármögnuð eru með bílalánum, tryggðum með veði í hinni keyptu bifreið, teljist það eðlilegir viðskiptahættir hjá lánveitanda að greiða lánsfjárhæð, sem ætlað er að vera hluti kaupverðs bifreiðarinnar, til seljanda þegar fyrir liggur að búið er að ganga frá yfirfærslu eignarréttar að bifreiðinni. Þetta er þó háð því að kaupandi og seljandi hafi ekki óskað eftir því að annar háttur verði hafður á eða lánveitandi hafi ástæðu til að ætla að greiðsla lánsins til seljanda sé varhugaverð.

Fyrir liggur að sótt var um umrætt lán til að fjármagna bifreiðakaup stefnda Leós og að auk hans var ritað undir lánsumsókn af hálfu BT-bíla ehf. Í umsókninni kom fram að kaupverð bifreiðarinnar væri 2.800.000 krónur en lánsfjárhæðin með lántökukostnaði 2.188.754 krónur. Óumdeilt er að gengið var frá kaupum stefnanda á bifreiðinni TF-918, Chrysler Intrepid árgerð 1995, sama dag og skuldabréfið var gefið út af stefnda Leó og stefndi Jón undirgekkst sjálfskuldarábyrgð. Bifreiðin, sem þá var orðin eign stefnda Leós, var veðsett til tryggingar greiðslu skuldabréfsins.

Með vísan til þess að í afsalinu er verð bifreiðarinnar tilgreint það sama og fjárhæð skuldabréfsins og kaupverð sagt að fullu greitt verður að líta svo á að það hafi verið greitt með andvirði skuldabréfsins. Stefndi Leó kveðst enn vera eigandi umræddrar bifreiðar.

Þá er óumdeilt að starfsmaður BT-bíla ehf. kom með skuldabréfið með undirritun stefndu til stefnanda.

Stefndu hafa lagt fram í málinu skjal dagsett 30. október 1997 sem ber yfirskriftina ávísun. Í skjalinu, sem er undirritað af Hörpu Hannibalsdóttur pr.pr. Bílar & Tæki, segir m.a. svo:

"Á næstu dögum mun fyrirtækið Bílar & Tæki, kt. 540696-2769 Sóltúni 24, 105 Reykjavík flytja inn bifreiðar sem fjármagnaðar verða m.a. með lánum frá lánafyrirtækjum, (t.d. Samvinnusjóði Íslands h/f.) Hér með er ávísað til hr. Jóns Guðmundssonar kt: 200442-2539, fyrstu kr. 1.700.000... sem til verða af framansögðum ástæðum."

Á skjalið hefur verið vélritað: "Samvinnusjóður Íslands hf. mun ekki fjármagna ofangreind bifreiðaviðskipti". Athugasemdin er dagsett 6. nóvember 1997 og undirrituð af starfsmanni sjóðsins.

Af hálfu stefndu er því haldið fram að umrædd ávísun og áritun lögmanns stefnanda á hana sýni að stefnanda hafi verið kunnugt um þau viðskipti sem að baki útgáfu umrædds skuldabréfs bjó og hafi því borið að sýna sérstaka varkárni og ekki greiða andvirði skuldabréfsins til annars en stefndu nema með samþykki þeirra.

Umrædd ávísun er gefin út af öðru fyrirtæki en BT-Bílum ehf. til ábyrgðarmanns á skuldabréfi því sem hér um ræðir tæpum fjórum mánuðum fyrir útgáfu skuldabréfsins. Orðalag ávísunarinnar ber ekki skýrt með sér hvers kyns viðskipti var um að ræða. Af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu verður ekki með góðu móti séð hvort Bílar & Tæki, Jón Þorvaldur Waltersson eða Hlöðver Örn Vilhjálmsson skulduðu öðrum eða báðum stefndu peninga eða hversu mikið. Mjög óljóst er hvernig standa átti að endurgreiðslu hinnar meintu skuldar og hvernig lánsfé frá stefnanda átti að koma þar við sögu. Ekki verða færðar frekari sönnur að umræddum atvikum í skuldabréfamáli þessu.

Með hliðsjón af framangreindu þykir ekki í ljós leitt að móttaka framangreindrar ávísunar hafi gefið stefnanda sérstakt tilefni til varkárni varðandi útborgun lánsins til seljanda bifreiðarinnar.

Ekki liggur fyrir að stefndu hafi óskað eftir því að lánsfjárhæðin yrði greidd þeim sem þó hefði verið full ástæða ef frásögn þeirra um tilgang lántökunnar á við rök að styðjast. Þvert á móti létu þeir skuldabréfið undirritað í hendur viðsemjendum sínum til afhendingar hjá stefnanda.

Sameiginleg umsókn BT-bíla ehf. og stefnda Leós um bílalán hjá stefnanda og það sem í ljós þykir leitt um bílaviðskipti BT-Bíla ehf. og aðdragandann að útgáfu skuldabréfsins þykir ekki hafa gefið stefnanda ástæðu til annars en að ætla að eðlilegt væri og í samræmi við vilja og hagsmuni kaupanda og seljanda bifreiðarinnar að greiða BT-Bílum ehf. út andvirði skuldabréfsins eftir að gengið hafði verið frá skjölum um eignayfirfærslu bifreiðarinnar til stefnda Leós.

Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu þykir ekki annað í ljós leitt en að starfsmenn stefnanda hafi verið í góðri trú um að þeir væru að ráðstafa lánsfjárhæðinni í þágu stefnda Leós til greiðslu á kaupverði bifreiðar sem hann hafði fest kaup á. Ekki er heldur annað í ljós leitt en að svo hafi verið. Þá verður ekki betur séð en að stefndi Leó hefði getað firrt stefndu mögulegu tjóni með því að selja bifreiðina og ná fram þeim söluhagnaði sem þeir halda fram að hafi verið tilgangur viðskiptanna að afla.

Ekki verður fallist á með stefndu að með tilvísun til samningalaga nr. 7/1936 í stefnu hafi stefnandi hleypt að vörnum byggðum á 36. gr. laganna. Þær varnir þykja heldur ekki hafa stuðning af neinum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu og verður ekki á þær fallist.

Samkvæmt framansögðu teljast stefndu skuldarar samkvæmt skuldabréfinu og ber samkvæmt skýrum og ótvíræðum ákvæðum þess að greiða skuld samkvæmt því. Ber því að taka kröfu stefnanda til greina að öllu leyti en vaxtakröfu hefur ekki verið mótmælt sérstaklega.

Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndu greiði stefnanda málskostnað sem með hliðsjón af atvikum öllum þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af lögmannsþóknun.

Leifur Árnason hdl. flutti málið af hálfu stefnanda en Leó E. Löve hrl. af hálfu stefndu.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð

Stefndu, Leó E. Löve og Jón Guðmundsson, greiði óskipt stefnanda, Samvinnusjóði Íslands hf., 2.235.618 krónur, auk dráttarvaxta af þeirri fjárhæð, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 2. apríl 1998 til greiðsludags og 200.000 krónur í málskostnað.