Hæstiréttur íslands
Mál nr. 666/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 15. október 2013. |
|
Nr. 666/2013.
|
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Ásta Björk Eiríksdóttir hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. október sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. október 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 22. október 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að beitt verði vægari úrræðum. Að því frágengnu er þess krafist að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 4. október 2013. Í kröfugerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi sagði að hann og menn tengdir honum væru viðriðnir mansal eða smygl á fólki og byðu því til Íslands á fölskum forsendum með því að útvega vegabréfsáritanir hér á landi, en fólk það sem kæmi hingað á vegum varnaraðila færi til Evrópu og þá aðallega Ítalíu, Frakklands og Spánar. Í kröfugerðinni var rakið að umtalsvert peningastreymi væri um bankareikninga varnaraðila og hafi sjö einstaklingar lagt umtalsverðar fjárhæðir inn á þá á árunum 2010 til 2012. Einnig hafi komið fram við rannsókn málsins að varnaraðili hafi frá árinu 2009 keypt flugmiða fyrir verulegar fjárhæðir. Í kröfugerð sóknaraðila sagði að ,,af framburði aðila virðist þó sem flestum beri saman um að [varnaraðili] sé svokallaður skipuleggjandi hinna ætluðu brota hér á landi en [þau] virðast teygja sig til Evrópu og þá aðallega til Danmerkur og Ítalíu.“ Þessar fullyrðingar virðast ekki styðjast við önnur gögn en óundirritað og ódagsett bréf, stílað á ,,whom it may concern“, auk tölvusamskipta nafngreinds manns við lögreglumann á Suðurnesjum. Í gögnum málsins kemur þó ekkert frekar fram um hver sá maður sé eða hver séu tengsl hans við málið.
Krafa sóknaraðila er byggð á ætluðum brotum varnaraðila gegn ákvæðum 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 57. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Grunur um þessi brot styðst samkvæmt gögnum málsins við þau óformlegu bréf sem að ofan eru rakin auk skýrslna hjá lögreglu um að hann hafi útvegað tilgreindum mönnum vegabréfsáritanir hér á landi og útvegað og keypt farmiða fyrir þá. Þá er ekki rökstutt af hálfu sóknaraðila hvernig færa megi þá háttsemi hans undir 227. gr. a. almennra hegningarlaga. Ekki verður heldur ráðið undir hvaða ákvæði 57. gr. laga nr. 96/2002 háttsemi varnaraðila verði færð. Þannig hefur sóknaraðili ekki fært fram viðhlítandi rök fyrir því að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 11. október 2013.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. október 2013, klukkan 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að eftir beiðni Útlendingastofnunnar 16. júlí 2013 hafi embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum hafið rannsókn á X, [...] kærða, og aðilum tengdum honum vegna rökstudds gruns um að kærði sé að flytja fólk til Íslands gegn greiðslu. Útlendingastofnun hafi borist upplýsingar um að kærði og aðilar tengdir honum séu viðriðnir mansal og eða smygl á fólki og bjóði fólki til Íslands á fölskum forsendum með því að útvega þeim vegabréfsáritanir hér á landi og að fólkið fari til Evrópu og þá aðallega Ítalíu, Frakklands og Spánar. Einnig komi fram í upplýsingunum að kærði sé höfuðpaurinn í málinu. Þá hafi komið fram við rannsókn lögreglu að umtalsvert peningastreymi sé um bankareikninga kærða og hafi t.d. sjö einstaklingar lagt um 3.700.000 króna inn á reikninga hans á árunum 2010-2012. Þá hafi komið fram við rannsókn málsins að frá árinu 2009 hafi kærði keypt flugmiða fyrir að minnsta kosti 7.186.361 krónu. Líklegt sé að sú upphæð sé hærri þar sem að einhverjar flugbókanir í hans nafni hafi verið greiddar með gjafabréfum. Þessi farmiðakaup séu hjá flugfélögum víðs vegar um heim. Heildarúttektir á þremur greiðslukortum sem að kærði sé með frá mars 2009 séu 25.513.450 krónur þar til í lok júlí. Þess beri einnig að geta að kærði vinni sem [...] í [...].
Einnig kemur fram að 3. október síðastliðinn hafi lögregla framkvæmt húsleit á heimili kærða að undangengnum úrskurði og í kjölfarið handtekið kærða og [...] [...], Y. Hafi lögregla við húsleitina lagt hald á mikinn fjölda gagna í þágu rannsóknar málsins auk tveggja fartölva, níu síma og 15 símkort frá ýmsum löndum. Þá hafi lögregla leitað á fleiri stöðum hjá aðilum tengdum kærða og yfirheyrt fjöld aðila auk kærða. Kærði hafi verið í gæsluvarðhaldi frá 4. október síðastliðinn.
Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi og unnið hafi verið úr miklu magni gagna sem haldlögð hafi verið á heimili kærða og annarra ætlaðra samverkamanna hans og framburðum aðila en töluvert virðist bera á milli. Af framburði aðila virðist þó sem flestum beri saman um að kærði sé svokallaður skipuleggjandi hinna ætluðu brota hér á landi en hin ætluðu brot virðast teygja sig til Evrópu og þá aðallega til Danmerkur og Ítalíu. Rannsóknin hafi verið unnin í samskiptum við lögregluyfirvöld í Danmörku og eins virðist sem sambærilegt mál hafi verið stöðvað í Frakklandi í liðinni viku og sé nú unnið að því að bera þessar rannsóknir saman til að rannsaka hvort tengsl séu á milli þessara mála. Það sem af er hafi lögregla fundið í haldlögðum gögnum um 100 nöfn sem ætla megi að hafi verið boðið hingað til landsins með ólögmætum hætti. Beinist rannsókn lögreglu að ætluðu mansali og smygli á fólki, ætluð brot á ákvæðum 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 57. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Rannsókn málsins sé gríðarlega umfangsmikil. Telji lögregla að rannsóknarhagsmunir séu enn í húfi og ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus en ljóst sé að frekari aðgerða og rannsóknar lögreglu sé þörf í því skyni að upplýsa um hina ætluðu háttsemi kærða og ætlaðra samverkamanna hans. Sé það mat lögreglu að mjög brýnt sé að kærði geti ekki haft tal af vitnum og öðrum ætluðum samverkamönnum hans en kærði hafi þegar viðurkennt að hafa aðstoðað fjölda fólks frá [...] hingað til lands með því að útvega því vegabréfsáritanir hingað til lands eða fengið aðra [...] sína til verksins og greitt fyrir það fargjöld frá [...] til Íslands.
Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 227. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 57. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. október 2013 og að kærði sæti einangrun á þeim tíma.
Gögn málsins bera með sér að rannsókn lögreglu á máli kærða er umfangsmikil og því tímafrek. Fallist er á að kærði sé undir rökstuddum grun um afbrot sem varðað getur fangelsisrefsingu. Miklir rannsóknarhagsmunir eru í húfi en kærði hefur viðurkennt fyrir lögreglu að hafa aðstoðað fjölda manns til Íslands. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá ummerki brots, skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því uppfyllt í málinu. Þá er fallist á að uppfyllt séu skilyrði til að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til þess sem að framan er rakið, rannsóknargagna málsins og a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er fallist á kröfu Lögreglustjórans á Suðurnesjum þó þannig að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 22. október nk. kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.