Hæstiréttur íslands

Mál nr. 284/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Útlendingur


Þriðjudaginn 10. maí 2011.

Nr. 284/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingar. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu L um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili skyldi sæta gæsluvarðhaldi. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 13. maí 2011.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur en til vara að hann verði látinn sæta farbanni.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, uns Útlendingastofnun hefur tekið ákvörðun um frávísun/brottvísun kærða þó ekki lengur en til föstudagsins 13. maí 2011 kl. 16:00.

Í greinargerð kemur fram að í gær, miðvikudaginn 4. maí hafi kærði ásamt meðkærða Y verið handtekinn í verslun [...] í [...] í [...] grunaður um þjófnað á vörum úr versluninni. Hafi þeir verið færðir á lögreglustöð til að kanna mál þeirra nánar. Kærði hafi neitað sök en á myndbandsupptökum af atvikinu megi sjá að kærði og meðkærði  hafi unnið saman að þessum þjófnaði, sjá mál lögreglu nr. 007-2011-26388.

Við athugun hafi komið í ljós að kærði ásamt meðkærða hafi komið til landsins 1. maí sl. og hefðu þeir einnig verið teknir fyrir þjófnað í verslun [...] í [...] í Reykjavík þann 2. maí sl., sjá mál lögreglu nr. 007-2011-25687. Í síðastnefnda málinu höfðu kærði og meðkærði stolið snyrtivörum úr versluninni að verðmæti kr. 37 þúsund og hafi þeir viðurkennt þann verknað.  

Við yfirheyrslur hjá lögreglu hafi komið fram hjá báðum aðilum að þeir séu peningalausir og dvelji saman í mjög litlu herbergi við [...] í Reykjavík. Hafi þeir enga atvinnu og enga fjármuni til að framfleyta sér hér á landi og því óljóst hvernig þeir ætli að framfleyta sér með lögmætum hætti. Kærði og meðkærði hafi engin sérstök tengsl við landið þó kærði segist eiga bróður sem búi í Reykjavík.

Kærði og meðkærði hafi því verið á landinu í 3 daga og þegar verið staðnir að tveimur þjófnaðarmálum í verslunum, þeir hafi enga atvinnu og enga fjármuni til að framfleyta sér og með hliðsjón af framangreindu sé hægt að álykta að þeir verði að framfleyta sér með ólögmætum hætti. Að mati lögreglustjóra heyri framangreind hegðun kærða og meðkærða undir ákvæði 1. mgr. 42. gr. útlendingalaga nr. 96/2002 hvað varði röskun á allsherjarreglu. Af þessum sökum hafi lögreglustjóri þegar haft samband við Útlendingastofnun í því skyni að leggja fram beiðni um að kærða og meðkærða verði gert að sæta úrskurði um frávísun á grundvelli 41. gr. útlendingalaga og gæsluvarðhaldskrafan því lögð fram í því skyni að tryggja nærveru þeirra á meðan á afgreiðslu þeirra mála standi yfir hjá Útlendingastofnun.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat lögreglustjóra að skýrar forsendur séu til þess, með vísan í 7. mgr. 29. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 18. gr. laga nr. 86/2008 og til b- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að krefjast þess að X verði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Í framangreindu ákvæði laga um útlendinga segi að heimilt sé að handtaka útlending og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð sakamála ef hann sýni af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum stafi hætta. Hegðun kærða og meðkærða þessa þrjá daga sem þeir hafi verið staddir á landinu og aðstæður þeirra undirstriki þetta. Þá sé til rannsóknar ætlað brot kærða og meðkærða gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem geti varðað allt að 6 ára fangelsi ef sök sannast.

Með vísan til b- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og 7. mgr. 29. gr. laga um útlendinga með síðari breytingum þyki brýna nauðsyn bera til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 19. maí nk. kl. 16:00.

Niðurstaða:

Kærði er sakaður um að hafa, í tvö aðskilin skipti, stolið annars vegar snyrtivörum að andvirði 37.000 krónur og hins vegar sokkapörum að andvirði 3.980 krónur. Myndi refsing fyrir brotin aðeins hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna fangelsisrefsingu. Með vísan til 3. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008  er ekki því ekki heimilt að úrskurða kærða í gæsluvarðhald á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr. laganna.

Lögreglustjóri styður jafnframt kröfu sína við 7. mgr. 29. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 18. gr. laga nr. 86/2008. Í umræddu ákvæði er kveðið á um að heimilt sé að úrskurða útlending í gæsluvarðhald m.a. ef hann sýni af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum stafi hætta. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 86/2008 er nefnt sem dæmi um að þetta geti átt við í þeim tilvikum þegar um hótanir um líkamsmeiðingar gagnvart öðrum útlendingum, sem dvelja á sama gististað, sé að ræða.  Að mati dómsins eru ætluð þjófnaðarbrot kærða, á snyrtivörum og sokkum að samtals að andvirði rúmlega 40.000 krónur, ekki nægileg til að telja skilyrðum ákvæðisins fullnægt, þ.e. að hann teljist hættulegur. Þá er þess að geta að í kröfu lögreglustjóra er vísað til þess að gæsluvarðhaldskrafan sé sett fram í því skyni að tryggja nærveru kærða á meðan á afgreiðslu máls hans stendur yfir hjá Útlendingastofnun. Telja verður að nærveru þessa megi tryggja með vægari úrræðum, sbr. að í ákvæði 7. mgr. 29. gr. laga um útlendinga er heimild til handa lögreglu til þess að leggja fyrir útlending að tilkynna sig eða halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði. Er því kröfu lögreglu um gæsluvarðhald hafnað en ekki þykir ástæða til að úrskurða kærða í farbann þar sem lögregla hefur framangreinda heimild.

Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi, er hafnað.