Hæstiréttur íslands

Mál nr. 715/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


                                     

Fimmtudaginn 6. nóvember 2014.

Nr. 715/2014.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Gísli M. Auðbergsson hrl.)

Kærumál. Vitni.  

Úrskurður héraðsdóms, um að ákæruvaldinu væri heimilt að leiða tvö nafngreind vitni í sakamáli sem höfðað hafði verið á hendur X, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 31. október 2014 þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að tvö nafngreind vitni yrðu leidd fyrir dóminn. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila verði synjað um að leiða vitnin fyrir dóm.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 31. október 2014.

Ákæruvaldið hefur krafizt þess að A og B beri vitni í máli þessu. Ákærði krefst þess að synjað verði um vitnaleiðsluna.

Í upphafi aðalmeðferðar máls þessa í dag krafðist ákæruvaldið þess að vitnin yrðu leidd. Væri annað þeirra vinkona eða samstarfskona brotaþola og gæti hún upplýst um atvik sem tengist ákærulið I, en hitt væri tilkynnandi þess atviks sem fjallað væri um í ákærulið II. Ákærði segir að allt of seint sé að kynna ný vitni til dómsins nú þegar undirbúningi af hálfu ákærða sé lokið. Með þessu sé málsgrundvelli raskað.

Það er meginregla í sakamálaréttarfari að mál skal upplýst eins og kostur er. Að mati dómsins verður því ekki vísað á bug að umrædd vitni geti varpað ljósi á málavexti, þótt lögregla muni ekki hafa yfirheyrt þau á rannsóknarstigi. Verður það metið ákæruvaldinu afsakanlegt að hafa ekki fyrr gert sér grein fyrir því að efni væru til að kalla vitnin fyrir dóm. Þykja lög ekki standa því í vegi að það verði gert. Verður ákæruvaldinu heimilað að leiða vitnin fyrir dóm.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákæruvaldinu er heimilt að leiða vitnin A og B fyrir dóm í máli þessu.