Hæstiréttur íslands
Mál nr. 245/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Gagnsök
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Miðvikudaginn 5. júní 2002. |
|
Nr. 245/2002. |
Jóhann Óli Guðmundsson(Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Lárusi L. Blöndal og Aðalsteini Karlssyni (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Gagnsök. Frávísun máls frá héraðsdómi.
L, A og G höfðuðu mál á hendur J og L hf. Af því tilefni höfðaði J gagnsök á hendur L og A þar sem hann krafðist þess að að viðurkennt yrði að gagnstefndu væru bótaskyldir gagnvart sér vegna vanefnda á hluthafasamkomulagi dags. 24. janúar 2001. Gagnsökinni var vísað frá héraðsdómi þar sem J hafði ekki sýnt fram á að hann hefði beðið tjón, þ.e. hvert tjónið væri og á hvern hátt það hefði orsakast af þeim atvikum sem hann teldi hafa valdið bótaábyrgð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. maí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2002, þar sem vísað var frá dómi gagnsök, sem sóknaraðili höfðaði í máli varnaraðila og Guðmundar A. Birgissonar á hendur sér og Lyfjaverslun Íslands hf. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka gagnsökina til efnismeðferðar. Þá krefst hann þess að varnaraðilum verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Jóhann Óli Guðmundsson, greiði varnaraðilum, Lárusi L. Blöndal og Aðalsteini Karlssyni, hvorum um sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2002.
Mál þetta var höfðað af Lárusi L. Blöndal, kt. 051161-2899, Rjúpnahæð 3, Garðabæ, Aðalsteini Karlssyni, kt. 121146-2749, Flókagötu 59, Reykjavík og Guðmundi A. Birgissyni, kt. 010761-2049, Lækjarási 5, Reykjavík með stefnu, birtri 17. júlí og 22. ágúst 2001, á hendur Jóhanni Óla Guðmundssyni, kt. 020954-5829, með skráð heimilisfang samkvæmt þjóðskrá á Gíbraltar, og Lyfjaverslun Íslands hf, Borgartúni 7, Reykjavík.
Samkvæmt stefnu er sú krafa gerð á hendur stefnda, Jóhanni Óla, einum að staðfest verði lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á 10. júlí 2001 við því að hann hagnýti sér þann rétt, sem fylgi hlutafjáreign hans í stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júlí 2001, samtals að nafnvirði 170.000.000 króna, eða ráðstafi umræddri hlutafjáreign sinni til þriðja aðila. Á hendur báðum stefndu er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að samningur milli þeirra, sem gengið var frá 20. júní 2001, um að stefndi, Jóhann Óli, selji og stefndi, Lyfjaverslun Íslands hf., kaupi allt hlutafé Frumafls hf., kt. 670700-2320, Hlíðarsmára 8, Kópavogi, sé ógildur. Þá var (sbr. síðar) þess krafist að stefnda, Jóhanni Óla, yrði dæmt skylt að afhenda stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., hlutafé það í félaginu, sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júní 2001, samtals að nafnvirði 170.000.000 króna. Að lokum er krafist málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu.
Samkvæmt greinargerð stefnda, Jóhanns Óla Guðmundssonar, er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnenda en til vara að hafnað verði kröfu stefnenda um ógildingu kaupsamnings Lyfjaverslunar Íslands hf. og hans að því er varðar sölu á 44,44 af hundraði hluta í Frumafli hf. og að synjað verði staðfestingar á lögbanni, dags. 10. júlí 2001, að því er varðar sölu á 44,44 af hundraði hluta í Frumafli hf. Stefndi krefst málskostnaðar óskipt úr hendi stefnenda.
Í greinargerð stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., er því lýst yfir að fallist sé á allar dómkröfur stefnenda.
Jafnhliða framlagningu greinargerðar sinnar í aðalsök þ. 6. september 2001 lagði stefndi, Lyfjaverslun Íslands hf., fram meðalgöngustefnu, sem birt var 22. ágúst s.á., á hendur stefnendum aðalsakar og stefnda, Jóhanni Óla Guðmundssyni, þar sem þess var krafist að honum yrði leyfð meðalganga í málinu og að meðalgöngustefndi, Jóhann Óli, yrði dæmdur til að afhenda honum hlutafé það í félaginu, sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júní 2001, samtals að nafnvirði 170.000.000 króna. Þá var krafist málskostnaðar úr hendi meðalgöngustefnda, Jóhanns Óla Guðmundssonar.
Í greinargerð meðalgöngustefnda, Jóhanns Óla Guðmundssonar, var þess krafist aðallega að synjað yrði um kröfu meðalgöngustefnanda um meðalgöngu eða kröfunni yrði vísað frá dómi og meðalgöngustefnanda verði gert að greiða honum málskostnað. Til vara krafðist þessi meðalgöngustefndi sýknu af kröfum meðalgöngustefnanda og að honum yrði gert að greiða sér málskostnað.
Í greinargerð annarra meðalgöngustefndu var lýst samþykki við meðalgöngu Lyfjaverslunar Íslands hf. svo og við efnislegum dómkröfum hans.
Jóhann Óli Guðmundsson höfðaði gagnsök 4. október 2001 á hendur Lyfjaverslun Íslands hf., Aðalsteini Karlssyni og Lárusi L. Blöndal þar sem hann gerir þær kröfur að viðurkennt verði með dómi að gagnstefndu séu bótaskyldir in solidum en til vara pro rata gagnvart sér á grundvelli vanefnda á skuldbindingum þeirra gagnvart sér samkvæmt hluthafasamkomulagi dags. 24. janúar 2001 og að þeim verði gert að greiða sér málskostnað.
Í greinargerðum af hálfu allra gagnstefndu er þess krafist aðallega að kröfum gagnstefnanda verði vísað frá dómi en til vara að þeir verði sýknaðir af kröfum hans og í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi hans.
Við munnlegan málflutning um frávísun meðalgöngusakar var því lýst yfir af hálfu stefnenda málsins, Lárusar L. Blöndals, Aðalsteins Karlssonar og Guðmundar A. Birgissonar, að þeir féllu frá þeirri kröfu að stefnda, Jóhanni Óla Guðmundssyni, verði dæmt skylt að afhenda meðstefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., hlutafé það í félaginu sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júní 2001, samtals að nafnvirði 170.000.000 krónur.
Meðalgöngusök var vísað frá dómi með úrskurði 15. febrúar 2002 sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 18. mars 2002(mál nr. 97/2002).
- - - - -
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa um frávísun gagnsakar sem var tekin til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi þ. 11. þ.m.
Bókað var að ósk lögmanns gagnstefnanda að fallið væri frá gagnsök á hendur Lyfjaverslun Íslands hf. þar sem hún hefði nú eingöngu stöðu varnaraðila vegna afdrifa meðalgöngusakar.
Af hálfu aðalstefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., er krafist málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda í þessum þætti málsins.
Af hálfu gagnstefndu er þess krafist að kröfum gagnstefnanda verði vísað frá dómi og honum gert að greiða þeim málskostnað í þessum þætti málsins.
Af hálfu gagnstefnanda eru gerðar þær kröfur að frávísunarkröfu gagnstefndu verði hrundið og honum úrskurðaður málskostnaður úr hendi þeirra svo og að hann verði sýknaður af málskostnaðarkröfu aðalstefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf.
Aðalfundur Lyfjaverslunar Íslands hf. var haldinn 2. apríl 2001. Á vormánuðum sama ár kom upp ágreiningur milli stjórnar félagsins og nokkurra hluthafa, m.a. Lárusar L. Blöndals og Aðalsteins Karlssonar, stefnenda máls þessa, vegna ráðagerða stjórnarinnar um að kaupa af stefnda, Jóhanni Óla Guðmundssyni, allt hlutafé í Frumafli ehf. og greiða fyrir það með hlutabréfum í Lyfjaverslun Íslands hf. Var þeim ráðagerðum hrundið í framkvæmd 20. júní 2001 en vegna þessa ágreinings var boðað til hluthafafundar í félaginu sem haldinn var 10. júlí 2001. Sama dag féll dómur Hæstaréttar í máli nr. 256/2001 þar sem fallist var á kröfu stefnenda máls þessa um að lagt yrði lögbann við því að stefndi, Jóhann Óli, hagnýtti sér þann rétt, sem fylgdi hlutabréfum hans í Lyfjaverslun Íslands hf. sem honum voru afhent sem endurgjald fyrir hlutabréf í Frumafli ehf., eða ráðstafaði hlutabréfunum til þriðja manns.
Um málsástæður sínar í gagnsök vísar gagnstefnandi til yfirlýsingar, sem frammi liggur, dags. 24. janúar 2001, svohljóðandi:
“Lyfjaverslun Íslands hf. lýsir því hér með yfir að fyrirtækið ábyrgist gagnvart seljendum samkvæmt samningi dags. 1. desember 2000 milli Lyfjaverslunar Íslands hf. og eigenda hluta í A. Karlssyni hf. að með samþykki hluthafafundar í Lyfjaverslun á hlutafjáraukningu í dag telst samningurinn endanlega samþykktur, þar með hvað varðar verð og greiðslutilhögun og að ekki verði frá því vikið. Nær ábyrgð þessi til þess að umsamdar greiðslur verði inntar af hendi sem fyrst og ekki síðar en segir í samningnum sbr. viðauka dags. 22. janúar 2001.
Þá lýsir Aðalsteinn Karlsson því yfir að hann muni ekki gera athugasemdir sem verðandi hluthafi í Lyfjaverslun Íslands hf. við það að samið verði við Fumafl ehf. vegna svokallaðs “Sóltúnsmáls” í samræmi við óformlegt samkomulag milli stjórna Lyfjaverslunar og Frumafls sbr. ódagsett minnisblað.
Þá skuldbindur Aðalsteinn Karlsson sig til þess að andmæla ekki nýtingu frekari kaupréttar á viðbótarhlutafé í Frumafli hf. ef meirihluti stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. samþykkir að nýta kaupréttinn.”
Undir yfirlýsinguna rita f.h. Lyfjaverslunar Íslands hf. stjórnarmenn þess fyrirtækis, Aðalsteinn Karlsson “f.h. seljenda” og Jóhann Óli Guðmundsson “samþykkur sem stærsti hluthafi Lyfjaverslunar Íslands hf.”
Minnisblað það, sem hér var vísað til, liggur einnig frammi, undirritað með upphafsstöfum, sem munu vera þáverandi stjórnarmanna í Lyfjaverslun Íslands hf. Þar segir m.a.: “LÍ kaupir 44,44% af hlutafé Frumafls og greiðir með 80 milljónum í hlutafé LÍ. LÍ fær kauprétt á 27,78% af hlutafé Frumafls til 6 mánaða, frá undirritun samnings, og kauprétt á öðrum 27,78% til 12 mánaða. Viðmiðunargengi verður 4,78 eins og áður hafði verið ákveðið. Nýta má allan kauprétt innan 6 mánaða.”
Málsókn gagnstefnanda er byggð á því að “samkomulagið frá 24. janúar 2001” milli gagnstefnanda, L.Í. og gagnstefndu sé skuldbindandi samkvæmt almennum reglum samningaréttar og þeir hafi vanefnt samningsskyldur sínar samkvæmt greindu samkomulagi með bótaskyldum hætti með því:
a) Að lýsa yfir andstöðu við það að formlegur samningur yrði gerður á grundvelli minnisblaðsins og jafnframt að umsaminn kaupréttur L.Í. yrði nýttur af félaginu.
b) Að hlutast til um setningu lögbanns á ráðstöfun hlutabréfa gagnstefnanda í L.Í. og lögbann við hagnýtingu atkvæðisréttar þeim fylgjandi.
c) Að höfða ógildingarmál á hendur L.Í. og gagnstefnanda til þess að ógilda samninginn og að öðru leyti koma í veg fyrir að samningur um hlutina í Frumafli ehf. yrði formlega gerður og efndur af hálfu L.Í.
Málsástæður gagnstefndu fyrir frávísunarkröfu þeirra eru þessar:
Í gagnstefnu sé ekki að finna eitt einasta orð um tjónið sem stefnandinn telji sig hafa orðið fyrir við þá atburði sem hann byggi málsókn sína á. Yrði talið heimilt á grundvelli 31. gr. laga nr. 91/1991 að höfða mál með einberri kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu hljóti að vera óhjákvæmilegt skilyrði að stefnandi slíks máls sýni fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirra atburða sem hann reisi kröfugerð sína á. Að öðrum kosti sé aðeins verið að leita álits dóms um lögfræðilegt efni án þess að það geti talist nauðsynlegt til úrlausnar um ákveðna kröfu, sbr. 1. mgr. 25. gr. tilvitnaðra laga. Allur málatilbúnaður gagnstefnanda (stefnda í aðalsök) sé reistur á því að hann hafi alls ekki orðið fyrir fjártjóni við að Lyfjaverslun Íslands hf. keypti ekki af honum hlutaféð í Frumafli ehf. þar sem hann haldi því fram að kaupverðið, sem hann telji sig hafa átt að fá fyrir hlutaféð, hafi verið eðlilegt, þ.e.a.s. numið sem næst raunverulegu verðmæti þess. Á þetta sé bent til að sýna hversu fráleitt geti verið að leyfa kröfugerð af því tagi sem gagnstefnandi hafi uppi.
Þá sé sú dómkrafa, sem gagnstefnandi geri til vara, þ.e. um “pro rata” ábyrgð gagnstefndu, án þess að greina hlutföll slíkrar ábyrgðar, ekki dómtæk.
- - - - -
Ákvæði 31. gr. laga nr. 91/1991 um heimild dómara til að skipta sakarefni að ósk aðila tekur ekki til þess ágreiningsefnis sem er til úrskurðar.
Á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til viðurkenningar á skaðabótaábyrgð. Óhjákvæmilegt skilyrði slíkrar málsóknar er þó að stefnandi sýni fram á að hann hafi beðið tjón og hvert tjónið sé, þ.e. í hverju það sé fólgið þótt ákvörðun bótafjárhæðar sé látin bíða, og á hvern hátt það hafi orsakast af þeim atvikum sem eru talin hafa valdið bótaábyrgð.
Í þeim kafla gagnstefnu þar sem málsástæður eru raktar, eins og áður er fram komið, segir hins vegar einungis að á grundvelli þeirra sé á því byggt að gagnstefndir hafi fellt á sig bótaskyldu gagnvart gagnstefnanda vegna alls þess fjártjóns sem leiða kunni af hinni bótaskyldu háttsemi þeirra sem lýst hafi verið. Í þeim kafla þar sem gagnstefnandi rekur málsatvik er hinu ætlaða tjóni heldur eigi lýst heldur segir aðeins að vegna brota á samkomulagi aðila frá 24. janúar hafi gagnstefnandi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni og hafi hann því ákveðið að gagnstefna til viðurkenningar á bótaskyldu hinna gagnstefndu.
Framangreind skilyrði eru þannig ekki uppfyllt og úr þeim ágalla, sem hér um ræðir, verður eigi bætt síðar, sbr. e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt þessu ber að vísa gagnsökinni frá dómi. Ákvörðun málskostnaðar, bæði að því er tekur til ágreinings aðila gagnsakar og kröfu aðalstefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., bíður dóms.
Úrskurðinn kveður upp Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Gagnsök er vísað frá dómi.