Hæstiréttur íslands

Mál nr. 495/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Þriðjudaginn 2. október 2007.

Nr. 495/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. október 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                    Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 4. október nk. kl. 16.00.

Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að tilkynning hafi borist frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar í gær um að öryggisvörður í [...], Smáratorgi væri í slagsmálum við brjálaðan mann sem hafi verið að stela úr versluninni. Er lögregla kom á vettvang hélt öryggisvörðurinn kærða niðri í gólfinu fyrir framan inngang verslunarinnar. Að sögn öryggisvarðarins, A, hafi hann séð hvar kærði gekk um verslunina og stakk inn á sig vörum. Hafi hann því stöðvað kærða er hann kom út úr versluninni og tilkynnt honum að hann væri grunaður um þjófnað. Hafi kærði þá byrjað að tína upp úr vösum sínum hluti sem hann hafði stolið úr versluninni og kveðst A þá hafa tilkynnt honum að lögregla yrði kvödd á staðinn en við það hafi kærði orðið mjög æstur og tekið þrjár insúlínsprautur úr vasa sínum og hótað A að drepa hann með því að stinga hann með insúlíninu. Kvaðst A þá hafa slegið kærða með flötum lófa og náð að snúa honum niður og halda honum þar til lögregla kom. Í vösum kærða fundust munur úr versluninni alls að verðmæti krónur 1.703.

(M. 007-2007-74179)

Fyrr um daginn hafði lögreglu borist tilkynning um þjófnað úr bifreiðinni [...] sem stóð við bílastæði Háskólans í Reykjavík. Á myndbandsupptöku úr skólanum sést kærði í skólanum á sama tíma. Ekki hefur verið unnt að yfirheyra kærða vegna málsins.

(M. 007-2007-74146)

Þá hafi lögreglu borist tilkynning um innbrot í bifreiðina [...], þann 26. september sl., þar sem hún stóð fyrir utan [...], Reykjavík. Í bifreiðinni fannst Nokia N95 sími, en sá sími mun tilheyra kærða. Ekki hefur verið unnt að yfirheyra kærða vegna málsins.

(M. 007-2007-73900)

Þá hafi lögreglu borist tilkynning um innbrot í Digranesskóla 26. september sl. (M. 007-2007-73744). Lögregla gerði húsleit á dvalarstað kærða í gærdag. Fundust þar ýmsir munir sem lögreglu grunar að sé þýfi, en kærði sé grunaður um innbrot í fleiri bifreiðar, heimili og fyrirtæki. Fannst þar m.a. myndvarpi af tegundinni Epson snr. FCKG370760F merktur Digranesskóla, og hafi hann verið tekinn í innbrotinu þann 26. september sl. (M. 007-2007-73744). Þá fundust þar fleiri munir sem lögregla sé ekki búin að yfirfara og kanna hvort að þeir tilheyri einhverjum þeim innbrotum sem kærði sé grunaður um síðustu daga.

Rannsókn málanna sé skammt á veg komin. Nú snýr rannsókn þeirra að því að fara yfir þá muni sem fundust við húsleit á dvalarstað kærða 26. september sl. og kanna hvort þeir séu úr þeim innbrotum sem kærði sé grunaður um, en um sé að ræða alls 11 innbrot í bifreiðar í Reykjavík, eitt innbrot í heimahús og eitt innbrot í Digranesskóla öll framin dagana 26. og 27. september sl. Þá hafi ekki verið unnt að taka skýrslu af kærða sökum ástands hans, en héraðslæknir kom í dag á lögreglustöðina á Hverfisgötu til þess að meta ástand kærða.

Að mati lögreglu má ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málanna, svo sem með því að skjóta undan þýfinu. Lögregla telur það brýnt fyrir framgang málanna að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að staðreyna hvort að kærði eigi aðild að framangreindum innbrotum og koma í veg fyrir að kærði geti spillt rannsókn málanna.

Sakarefni málanna sé talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi allt að 6 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Með vísan til ofanritaðs og rannsóknargagna er fallist á með lögreglu að brýnt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að varna því að hann geti torveldað rannsókn málsins.  Teljast skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála uppfyllt og verður krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina eins og krafist er.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                                      Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærða, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 4. október nk. kl. 16.00.