Hæstiréttur íslands
Mál nr. 146/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
Fimmtudaginn 17. mars 2011. |
|
|
Nr. 146/2011. |
Hafþór Hilmarsson O´Connor (Elvar Örn Unnsteinsson hrl.) gegn Lýsingu hf. (Árni Ármann hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
H kærði úrskurð héraðsdóms þar sem kveðið var á um skyldu L hf. til greiðslu málskostnaðar í máli sem H hafði höfðað á hendur L hf. en sátt orðið með aðilum um annað en málskostnað. Málið átti rætur að rekja til samnings aðila um bílakaup sem H mun hafa greitt upp að fullu en gerði síðar endurgreiðslukröfu á hendur L hf. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. að þegar litið væri til aðdraganda málshöfðunarinnar, þess að málið væri tiltölulega einfalt og að málskostnaðarreikningur sá sem H lagði fram í héraði hefði verið órökstuddur þætti málskostnaður hæfilega ákveðinn 120.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2011 þar sem varnaraðila var gert að greiða sóknaraðila 80.000 krónur í málskostnað í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sér 387.338 krónur í málskostnað en til vara aðra hærri fjárhæð en hinum kærða úrskurði greinir. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins undirrituðu málsaðilar svonefndan „Bílasamning Lýsingar“ 16. október 2006. Skuldbinding sóknaraðila vegna bílakaupa var samkvæmt samningnum gengistryggð að hálfu miðað við japönsk jen en að hálfu miðað við svissneska franka. Sóknaraðili mun hafa gert samninginn upp að fullu 5. desember 2008. Með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var staðfest að gengisviðmiðun skuldbindinga í hliðstæðum samningum væri ólögmæt. Sóknaraðili taldi sig í ljósi þessa hafa ofgreitt varnaraðila og krafði hann með bréfi 7. júlí 2010 um endurgreiðslu af þeim sökum. Þann 21. sama mánaðar svaraði varnaraðili bréfinu og kvað félagið vinna að því „hörðum höndum“ að endurreikna bílasamninga. Sóknaraðili ítrekaði endurgreiðslukröfu sína 6. ágúst 2010, en varnaraðili svaraði því til með tölvupósti þremur dögum seinna að ákvörðun hefði verið tekin um að bíða með endurútreikning lána eftir niðurstöðu Hæstaréttar um vexti af slíkum lánum. Dómur um það efni féll í Hæstarétti 16. september 2010 í máli nr. 471/2010. Sóknaraðili ítrekaði kröfu sína og sendi viðvörun um innheimtuaðgerðir með bréfi fjórum dögum síðar og enn sendi hann innheimtubréf 1. október 2010. Varnaraðili svaraði ekki þessum bréfum. Enn hélt sóknaraðili kröfu sinni fram með tölvupósti 18. sama mánaðar, sem stefndi svaraði degi síðar efnislega á þá leið að endurreikningi „virkra óbreyttra bílasamninga“ væri að ljúka en samningur sóknaraðila yrði endurreiknaður „í lokalotunni“. Sóknaraðili höfðaði mál þetta til innheimtu endurgreiðslukröfunnar 22. nóvember 2010. Á dómþingi 15. febrúar 2011 tókst sátt með aðilum um annað en málskostnað.
Í ljósi þess aðdraganda málshöfðunarinnar, sem að framan er rakinn, og þess að málið er tiltölulega einfalt og þegar litið er til þess að málskostnaðarreikningur sá sem sóknaraðili lagði fram í héraði var órökstuddur þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 120.000 krónur.
Eftir atvikum verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Varnaraðili, Lýsing hf., greiði sóknaraðila, Hafþóri Hilmarssyni O´Connor, 120.000 krónur í málskostnað í héraði.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2011.
Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar um ákvörðun málskostnaðar, sbr. 2. málslið 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, er höfðað af Hafþóri Hilmarssyni, kt. 131178-3959, Álakvísl 118, Reykjavík, með stefnu birtri 22. nóvember 2010, á hendur Lýsingu hf., kt. 621101-2420, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda voru þær að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.861.934 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. desember 2008 til greiðsludags.
Þá krafðist stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Á dómþingi 15. febrúar sl. tókst sátt með aðilum. Sáttin náði hins vegar ekki til málskostnaðarþáttar málsins en ákvörðun um fjárhæð hans var lögð í úrskurð dómsins án málflutnings.
Með hliðsjón af því að með sáttinni féllst stefndi á kröfu stefnanda og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála svo og með hliðsjón af kostnaði við að bera málið undir dómstólinn, því að málið er tiltölulega einfalt og að teknu tilliti til þess að stefnandi hafði í tvígang reynt að fá kröfuna greidda til þess að ekki kæmi til höfðunar dómsmáls þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 80.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til skyldu sóknaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Stefndi, Lýsing hf., greiði stefnanda, Hafþóri Hilmarssyni, 80.000 krónur í málskostnað.