Hæstiréttur íslands

Mál nr. 77/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 12

 

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002.

Nr. 77/2002.

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði

(enginn)

gegn

X

(Valgeir Kristinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. og c. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi. Talið var að ekki væru fyrir hendi þær aðstæður, sem um ræðir í a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Þá var ekki talin nægileg ástæða til að leggja til grundvallar að X myndi halda áfram brotum meðan máli hans væri ólokið, sbr. c. lið 1. mgr. 103. gr. áðurnefndra laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. febrúar sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. sama mánaðar, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16 „miðvikudaginn 21. febrúar 2002.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sína taka.

Samkvæmt gögnum málsins hefur varnaraðili viðurkennt að hafa brotist inn í söluturn í Reykjavík og stolið þaðan ýmsum varningi 21. janúar sl. í félagi við annan mann. Jafnframt hefur varnaraðili viðurkennt að hafa sama dag í félagi við umræddan mann brotist inn í nokkra vinnuskúra og gáma í Hafnarfirði og stolið þaðan ýmsum verkfærum. Kveðst varnaraðili hafa notað þýfið úr þessum innbrotum bæði til að kaupa fíkniefni og greiða skuld vegna kaupa á fíkniefnum. Ennfremur hefur varnaraðili viðurkennt að hafa 5. febrúar sl. í félagi við sama mann brotist inn í íbúðarhús í Garðabæ og stolið þaðan ýmsum munum. Þá liggur varnaraðili undir grun um að hafa brotist inn í tvö íbúðarhús, í Garðabæ og Reykjavík, 12. janúar og 5. febrúar sl. Er þessi grunur reistur á skýrslu sem áðurgreindur maður gaf við yfirheyrslu hjá lögreglu um þátttöku varnaraðila í brotunum. Í kröfugerð sinni skírskotar sóknaraðili til þess að rannsókn málsins sé á frumstigi og að varnaraðili liggi undir grun um að hafa brotist inn í fleiri ótilgreind hús á undanförnum vikum.

Með hinum kærða úrskurði var ekki tekin afstaða til þess hvort varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi með vísan til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili hefur viðurkennt aðild sína að nokkrum ofangreindra innbrota. Um þau tvö innbrot, sem varnaraðili neitar að hafa framið, liggur ekki annað fyrir en skýrsla nafngreinds manns fyrir lögreglu um þátttöku varnaraðila í þeim. Sóknaraðili hefur heldur ekki gert grein fyrir að hvaða atriðum rannsókn þessara mála beinist og með hvaða hætti varnaraðili geti torveldað rannsókn þeirra. Með hliðsjón af þessu eru ekki fyrir hendi þær aðstæður, sem um ræðir í a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Þegar litið er til þeirra brota, sem áður greinir og varnaraðili hefur gengist við, verður ekki talin nægileg ástæða til að leggja til grundvallar að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ólokið. Þá fengi slík niðurstaða heldur ekki sérstakan stuðning af sakaferli varnaraðila samkvæmt framlögðu sakavottorði hans. Er því ekki fullnægt skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. áðurnefndra laga til að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. febrúar 2002.

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði hefur krafist þess með skýrskotun til a- og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 21. febrúar 2002, kl. 16:00.

Við fyrirtöku málsins í gær mótmælti kærði kröfu um gæsluvarðald og krafðist þess að kröfunni yrði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi yrði markaður skemmri tími.

Í greinargerð sinni kveður sýslumaðurinn í Hafnarfirði málavexti vera þá að kærði sé grunaður um nokkur brot gegn ákvæði 244. greinar almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fyrst skuli nefna innbrot og þjófnað í íbúðarhús að A í Garðabæ, en þar búi [...] og [...]. Kærði hafi í gær við skýrslutöku hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði viðurkennt að hafa farið inn í umrætt íbúðarhúsnæði ásamt Y þriðjudaginn 5. febrúar 2002, og tekið þaðan ófrjálsri hendi ljósmyndavél, skartgripi, myndbandstæki, fartölvu og sjónvarp.  Hafi hann kveðið Z hafa verið með í för, en hún hafi beðið úti í bíl meðan að innbrotið hafi verið framið.  Hafi  X sagt við skýrslutöku að þýfið hafi verið selt í skiptum fyrir fíkniefni, utan fartölvu, myndbandstækis og skartgripa, sem X hafi vísað lögreglu á í herbergi sínu að [...]. 

Kærði sé grunaður um innbrot og þjófnað í B í Reykjavík, hinn 21. janúar síðast liðinn. Hafi kærði viðurkennt við lögregluyfirheyrslur að hafa brotist þar inn ásamt áðurnefndum Y, og stolið þaðan gosi, tóbaki, sælgæti og smámynt.  Einnig hafi kærði viðurkennt að hafa brotist inn í vinnuskúra í C í Hafnarfirði, þann 21. janúar sl., en brotist hafi verið inn í vinnuskúra við [...], og þaðan teknir ýmsir lausafjarmunir, þ.e. verkfæri, loftpressa, borvélar, slípirokkur og fleiri verkfæri.

Til viðbótar við framangreint sé kærði grunaður um innbrot í íbúðarhúsið að D, Reykjavík þann 5. febrúar sl. og innbrot og tilraun til þjófnaðar að E, Garðabæ þann 12. janúar sl., en húsráðandi að E, [...], hafi komið að tveimur ungum mönnum innandyra hjá sér, sem þegar hafi hlaupið á brott og af vettvangi, og hafi Y þegar viðurkennt það innbrot og sagt kærða X hafa verið þar með sér en kærði X hafi hjá lögreglu neitað aðild sinni að innbroti að E í Garðabæ. 

Í kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði kemur og fram að rannsókn lögreglu sé á frumstigi, en lögregla hafi kærða sterklega undir grun um að hafa staðið að og framið fleiri innbrot í fasteignir á undanförnum vikum.

 Þjófnaðarandlög innbrotanna kveður sýslumaður vera einatt mjög svipuð, þ.e. myndbandstæki, skartgripir, myndavélar og aðrir því umlíkir lausafjármunir sem geti auðveldlega gengið kaupum og sölum á götunni.   Ljóst sé að gangi kærði laus muni það geta torveldað til muna rannsókn lögreglu, auk þess sem telja verði brýna hættu á að kærði kunni að halda áfram brotum og geti reynt að skjóta undan munum og hafa áhrif á vitni og aðra meðseka, gangi hann laus, en brot þau sem kærði sé grunaður um að hafa framið, varða við ákvæði 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ljóst sé einnig að lögregla þurfi nauðsynlega að rannsaka skóför og aðrar tiltækar vísbendingar í málum sem kærði sé grunaður um að vera viðriðinn, en hann hafi neitað aðild að. Kærði sé vanaafbrotamaður og hafi alls hlotið 11 refsidóma í opinberum málum vegna fíkniefnalaga-, hegningarlaga- og umferðarlagabrota. Að auki hafi kærði gengist undir nokkrar lögreglustjórasáttir.

Sýslumaður vísar í kröfu sinni auk þess sem að framan greinir til þess að kærði sé vanaafbrotamaður, sem og til rannsóknarhagsmuna og þeirra einstaklingsbundnu fjárhagslegu verðmæta sem í húfi séu.

Um lagarök hefur af hálfu sýslumanns verið vísað til a- og c-liðar  1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 eins og áður segir.

Í skýrslu sinni fyrir dómi í gær viðurkenndi kærði að hafa framið þau brot sem fram koma í kröfu sýslumannsins um gæsluvarðahald yfir honum og fyrr eru talin.  Fram kemur í lögregluskýrslum yfir kærða sem lagðar hafa verið fram í málinu að þýfi úr viðkomandi innbrotum hafi kærði meðal annars notað til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína.  Þau brot sem kærði hefur viðurkennt að hafa framið eru öll framin í síðari hluta janúar mánaðar og í byrjun febrúar.  Samkvæmt gögnum málisins liggur kærði undir grun um að hafa hugsanlega framið fleiri innbrot á greindu tímabili.  Kærði var handtekinn daginn eftir síðasta innbrot sitt.  Kærði hefur í félagi við aðra gerst sekur um innbrot margsinnis á undanförnum mánuði og komið hefur fram að þýfi úr viðkomandi innbrotum var að minnsta kosti að hluta til notað til að fjármagna fíkniefnaneyslu.  Þegar þetta er virt verður að telja að komnar séu fram nægilegar líkur til þess að kærði muni halda uppteknum hætti gangi hann laus. Það styður og þessa niðurstöðu að kærði hefur langan sakarferil að baki og hafa ítrekaðar refsingar sem hann hefur hlotið ekki orðið til þess að hann hafi látið af afbrotum.  Kærði hefur viðurkennt nokkur brot sem hvert um sig getur varðað allt að 6 ára fangelsi.  Með vísan til þess sem að framan greinir fellst dómurinn því á að uppfyllt séu skilyrði c-liðar 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 um gæsluvarðhald yfir kærða. 

Að fenginni þessari niðurstöðu þykir ekki ástæða til að fjalla um það hvort skilyrði a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt.

Með vísan til þess sem að framan greinir og með vísan til c-liðar 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 er fallist á kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði um að kærði X sæti gæsluvarðahaldi allt til kl. 16:00 miðvikudaginn 21. febrúar næstkomandi.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði X sæti gæsluvarðhaldi allt til klukkan 16:00 miðvikudaginn 21. febrúar 2002.