Hæstiréttur íslands

Mál nr. 18/2002


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Banki
  • Vextir
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. október 2002.

Nr. 18/2002.

Stígandi ehf.

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Gunnar Sólnes hrl.)

og gagnsök

 

Skuldabréf. Bankar. Vextir. Vanreifun. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

S gaf út tvö veðskuldabréf í japönskum yenum til L, annað árið 1992 en hitt árið 1996. Vanskil urðu á greiðslum samkvæmt bréfunum og eftir uppgjör þeirra taldi S að L hafi ranglega reiknað út afborganir og vexti og þannig fengið ofgreiddar rúmlega sex og hálfa milljón króna. Í veðskuldabréfinu frá 1992, kom skýrlega fram að það væri fyrir endurlánuðu lánsfé, sem L hafði tekið við erlendan banka. Með hliðsjón af því og þeirri staðhæfingu L, sem ekki hafi verið andmælt, að bankinn hafi orðið að standa skil á greiðslum til erlenda bankans á gjalddaga hverju sinni án tillits til vanskila S, þóttu ekki efni til annars en að skýra ákvæði veðskuldabréfsins frá 1992 eftir orðanna hljóðan. Fjárhæð afborgana hafi þannig átt að færast yfir í íslenskar krónur eftir sölugengi japansks yens á gjalddaga hverju sinni og vera upp frá því í innlendum gjaldmiðli ef vanskil yrðu af hendi félagsins. Um dráttarvexti hlyti því að fara samkvæmt reglum um dráttarvexti af peningakröfum í íslenskum gjaldmiðli. Samkvæmt þessu varð ekki fallist á með S að L hafi krafið hann um of háar greiðslur af þessum ástæðum. Veðskuldabréfið frá 1996 var ekki fyrir endurlánuðu lánsfé og þar var tekið berum orðum fram að afborganir og vextir af skuldinni skyldu reiknast „með sölugengi hinnar erlendu myntar á greiðsludegi.“ Var L ekki talið heimilt að reikna út fjárhæð afborgana og vaxta í íslenskum krónum miðað við sölugengi japansks yens á gjalddaga hverju sinni, heldur hafi honum borið að miða við gengi á greiðsludegi. Var L gert að endurgreiða S þann mismun sem af þessu leiddi. Kröfu S um endurgreiðslu vegna oftekinna vaxta var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir og Markús Sigurbjörnsson og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. janúar 2002. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 6.685.515 krónur með nánar tilgreindum ársvöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 6.037.087 krónum frá 4. júní 1997 til 25. júlí sama árs og af 6.685.515 krónum frá þeim degi til 30. júlí 1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 25. febrúar 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda, svo og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt málflutningi aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti hefur stefnandi málsins í héraði, Sædís ehf., nú sameinast Stíganda ehf. Því til samræmis hefur síðastnefnda félagið tekið við aðild að málinu fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gaf Sædís hf. út veðskuldabréf 21. apríl 1992 til gagnáfrýjanda. Sagði þar að félagið viðurkenndi að skulda honum 45.000.000 japönsk yen eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum miðað við sölugengi þess gjaldmiðils „í íslenskum bönkum á gjalddaga.“ Tekið var fram að þessi fjárhæð væri endurlánað lánsfé frá nafngreindum erlendum banka. Skuld þessa bar Sædísi hf. að endurgreiða með tíu jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti og skyldi fyrsti gjalddagi afborgana vera 13. október 1992. Á sömu gjalddögum bar að greiða vexti, sem reiknast áttu frá 13. apríl 1992. Skyldu þetta vera „breytilegir vextir 0,7187% yfir Libor á hverjum tíma“, að viðbættu álagi samkvæmt kjörvaxtaflokkun viðskiptamanna gagnáfrýjanda, sem væri „nú 2,75%“, en vextirnir væru samkvæmt þessu „nú samtals 8,1875% á ári.“ Þá var mælt svo fyrir í veðskuldabréfinu að greiða bæri dráttarvexti „af gjaldfallinni fjárhæð, eins og þeir eru ákveðnir hæstir á hverjum tíma“, ef dráttur yrði á greiðslu afborgana og vaxta af skuldinni eða hún félli af öðrum ástæðum í gjalddaga.

Fyrir liggur í málinu að samfelld vanskil urðu af hendi Sædísar hf. á afborgunum og vöxtum af framangreindu veðskuldabréfi allt frá fyrsta gjalddaga og þar til félagið gekk til uppgjörs við gagnáfrýjanda 18. apríl 1996, sem jafnframt tók til nokkurra annarra skulda félagsins. Nánar tiltekið greiddi Sædís hf. þá meðal annars sjö fyrstu afborganirnar af veðskuldabréfinu ásamt umsömdum vöxtum og dráttarvöxtum af skuldinni, allt samkvæmt útreikningi gagnáfrýjanda á því, sem greiða bæri, samtals 32.385.048,27 krónur. Vegna annarra skulda, sem vörðuðu ekki veðskuldabréfið, virðist uppgjörið alls hafa tekið til 42.554.510,50 króna. Af þeirri fjárhæð taldist Sædís hf. greiða 31.851.999,17 krónur með andvirði veðskuldabréfs, sem það gaf út á nafn gagnáfrýjanda 17. janúar 1996, en óumdeilt er að vegna ástæðna, sem vörðuðu félagið, keypti hann ekki veðskuldabréfið fyrr en á þeim tíma, sem uppgjörið fór fram. Það, sem eftir stóð, virðist félagið hafa greitt gagnáfrýjanda með peningum.

Síðastnefnt veðskuldabréf, sem Sædís hf. gaf út til gagnáfrýjanda 17. janúar 1996, var að fjárhæð 52.221.976,76 japönsk yen. Þessa skuld átti félagið að greiða með 24 afborgunum á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 17. júlí 1996, ásamt vöxtum, sem skyldu vera breytilegir, en væru „nú 0,5833% Libor“ að viðbættu álagi samkvæmt kjörvaxtaflokkun viðskiptamanna gagnáfrýjanda, sem þá væri 4,5%. Meðal þess, sem að öðru leyti sagði í veðskuldabréfinu, var eftirfarandi: „Lán þetta er bundið sölugengi ofangreinds gjaldmiðils. Við greiðslu afborgana og vaxta skal greiðslan reiknast með sölugengi hinnar erlendu myntar á greiðsludegi.“

Í framhaldi af þeim atvikum, sem að framan greinir, urðu aftur vanskil af hendi Sædísar hf. við gagnáfrýjanda, þar til hann fékk 4. júní 1997 greiddar frá Sparisjóðabanka Íslands hf. í þágu félagsins samtals 14.041.106,44 krónur. Með þeirri fjárhæð voru gagnáfrýjanda greiddar þrjár síðustu afborganirnar af veðskuldabréfinu frá 21. apríl 1992 og tvær fyrstu afborganirnar af veðskuldabréfinu frá 17. janúar 1996. Svaraði framangreind greiðsla til samanlagðrar fjárhæðar þessara afborgana, sem þá voru allar gjaldfallnar, að viðbættum umsömdum vöxtum samkvæmt veðskuldabréfunum og dráttarvöxtum af greiðslum í vanskilum, allt eftir útreikningum gagnáfrýjanda. Hinn 25. júlí 1997 fékk síðan gagnáfrýjandi greiddar frá Sparisjóðabanka Íslands hf. samtals 30.500.578,44 krónur. Af þeirri fjárhæð gengu 2.149.648,22 krónur til greiðslu þriðju afborgunarinnar af veðskuldabréfinu frá 17. janúar 1996, sem þá var komin í gjalddaga, en að öðru leyti voru með þessu greiddar ógjaldfallnar eftirstöðvar veðskuldabréfsins, sem gagnáfrýjandi framseldi Sparisjóðabanka Íslands hf.

Með bréfi 2. desember 1997 gerði Sædís ehf. athugasemdir við gagnáfrýjanda um útreikning á þeim skuldum, sem áður er getið. Í meginatriðum lutu þessar athugasemdir annars vegar að því við hvaða tíma miða hefði átt umreikning á kröfum gagnáfrýjanda samkvæmt veðskuldabréfunum úr erlendum gjaldmiðli yfir í íslenskar krónur og hins vegar til hverra dráttarvaxta hann hafi átt rétt. Eftir nokkur bréfaskipti milli aðilanna af þessu tilefni mun Sædís ehf. hafa höfðað mál á hendur gagnáfrýjanda 23. júní 1998, en því var vísað frá dómi 11. júní 1999.

Sædís ehf. höfðaði mál þetta 20. desember 2000 til greiðslu þeirrar fjárhæðar, sem aðaláfrýjandi krefst nú fyrir Hæstarétti og áður greinir. Þessa kröfu reisir aðaláfrýjandi í fyrsta lagi á því að gagnáfrýjandi hafi ranglega reiknað út afborganir af veðskuldabréfinu frá 21. apríl 1992 með því að hann hafi fært fjárhæð þeirra úr japönskum yenum yfir í íslenskar krónur eftir sölugengi á hverjum gjalddaga og lagt svo við dráttarvexti til greiðsludags samkvæmt reglum, sem gilt hafi um kröfur í íslenskum krónum, í stað þess að miða við sölugengi á greiðsludegi og reikna dráttarvexti af vanskilum fram til þess tíma eftir ákvörðunum Seðlabanka Íslands, sem gilt hafi um kröfur í japönskum yenum. Með þessu hafi gagnáfrýjandi fengið ofgreiddar samtals 5.858.854,59 krónur. Í öðru lagi ber aðaláfrýjandi fyrir sig að gagnáfrýjandi hafi á sama hátt farið ranglega að við útreikning á kröfum sínum samkvæmt veðskuldabréfinu frá 17. janúar 1996, en með því hafi hann fengið ofgreiddar 140.869,32 krónur. Loks hafi gagnáfrýjandi í þriðja lagi áskilið sér hærri vexti af skuld Sædísar hf. en rétt hefði verið og félagið þannig ofgreitt honum 685.791,35 krónu af þeim sökum. Fjárhæðir þessar, sem samtals nema 6.685.515 krónum, eru allar studdar við matsgerð tryggingarstærðfræðings 31. mars 2000, sem Sædís ehf. fékk dómkvaddan til að reikna út það, sem félagið taldi sig hafa ofgreitt gagnáfrýjanda af framangreindum ástæðum. Fyrir Hæstarétti lýstu aðilarnir því yfir að enginn ágreiningur væri um útreikning dómkvadda matsmannsins á þessum fjárhæðum.

II.

Í veðskuldabréfinu, sem Sædís hf. gaf út til gagnáfrýjanda 21. apríl 1992, kom skýrlega fram að það væri fyrir endurlánuðu lánsfé, sem gagnáfrýjandi tók í þessu skyni við nafngreindan erlendan banka. Þegar svo er ástatt verður almennt að ætla að viðskiptabanki, sem hefur milligöngu um útvegun slíks lánsfjár, miði að því að skilmálar um endurgreiðslu lántakans til sín svari til þeirra skilmála, sem gildi um endurgreiðslur hans sjálfs til erlenda lánveitandans, og færi þannig á herðar lántakans áhættuna af breytingum á gengi þess gjaldmiðils, sem lánið var tekið í. Aðaláfrýjandi hefur ekki vefengt að þannig hafi verið farið að í þessu tilviki. Hann hefur heldur ekki andmælt þeirri staðhæfingu gagnáfrýjanda að hann hafi orðið að standa skil á greiðslum til erlenda bankans á gjalddaga hverju sinni án tillits til þeirra vanskila, sem urðu af hendi Sædísar hf. við hann. Þegar þessa er gætt eru ekki efni til annars en að skýra áðurgreint ákvæði veðskuldabréfsins eftir orðanna hljóðan, þannig að fjárhæð afborgana Sædísar hf. hafi átt að færast yfir í íslenskar krónur eftir sölugengi japansks yens á gjalddaga hverju sinni og vera upp frá því í innlendum gjaldmiðli ef vanskil yrðu af hendi félagsins. Um dráttarvexti, sem féllu til vegna slíkra vanskila, hlaut því að fara eftir reglum 10. gr. þágildandi vaxtalaga um dráttarvexti af peningakröfum í íslenskum gjaldmiðli. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á með aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi hafi krafið hann um of háar greiðslur af þeim ástæðum, sem hér um ræðir.

Veðskuldabréfið, sem Sædís hf. gaf út til gagnáfrýjanda 17. janúar 1996, hljóðaði á skuld í erlendum gjaldmiðli, en var þó ekki fyrir endurlánuðu erlendu lánsfé. Eins og áður greinir var þar tekið berum orðum fram að afborganir og vextir af skuldinni skyldu reiknast „með sölugengi hinnar erlendu myntar á greiðsludegi.“ Afborganir og vextir af þessu skuldabréfi, sem félagið innti af hendi til gagnáfrýjanda, voru samkvæmt áðurgreindu alltaf greiddar eftir gjalddaga. Eftir ótvíræðu orðalagi veðskuldabréfsins var gagnáfrýjanda þá ekki heimilt að reikna út fjárhæð afborgana og vaxta í íslenskum krónum miðað við sölugengi japansks yens á gjalddaga hverju sinni, heldur bar honum að miða við gengi á greiðsludegi. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að gagnáfrýjandi hafi á þennan hátt krafið félagið um greiðslu á 140.869 krónum meira en hann átti rétt til.

Auk þess, sem að framan greinir, krefst aðaláfrýjandi þess sem áður segir að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 685.791,35 krónu vegna oftekinna vaxta. Í héraðsdómsstefnu studdi Sædís ehf. þennan lið í kröfu sinni þeim rökum að gagnáfrýjandi „hafi notað ranga Libor-vexti við útreikninga sína“, en hann hafi „skuldbundið sig til að miða við Libor-vexti við vaxtaútreikninga sína.“ Var síðan vísað til fyrrnefndrar matsgerðar dómkvadds manns um að talsverður munur hafi verið „á vöxtum þeim“, sem gagnáfrýjandi hafi reiknað, og „þeim er gefnir voru út af Seðlabanka Íslands.“ Ætti þetta við um útreikning gagnáfrýjanda á vöxtum samkvæmt báðum skuldabréfunum, sem um ræðir í málinu. Að öðru leyti voru ekki sérstakar skýringar á þessu atriði málsins í héraðsdómsstefnu. Af matsgerðinni, sem þessi kröfuliður virðist að öðru leyti hafa átt að skýrast af, verður ekki ráðið að dómkvaddi matsmaðurinn hafi fundið því stoð að vextir, sem gagnáfrýjandi áskildi sér af veðskuldabréfinu frá 17. janúar 1996, hafi verið hærri en ákvæði þess heimiluðu. Verður að ætla að þetta sé í samræmi við málatilbúnað aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti, þar sem aðeins er rætt um að gagnáfrýjandi hafi notað „ranga Liborvexti við útreikninga sína á grundvelli skuldabréfsins frá 21. apríl 1992“. Að því er varðar útreikning vaxta af síðastnefndu veðskuldabréfi kemur fram í matsgerðinni að þar hafi matsmaðurinn stuðst við þá ályktun sína að nota hafi átt það, sem hann nefndi sex mánaða Libor-vexti miðað við japanskt yen, fyrst afborganir af veðskuldabréfinu hafi átt að greiðast á sex mánaða fresti og einskis verið nánar getið þar um hvaða Libor-vöxtum hafi átt að beita. Að gefinni þessari ályktun og að fengnum upplýsingum Seðlabanka Íslands um hæð þeirra vaxta, sem matsmaðurinn taldi rétt að miða við, reyndust Libor-vextir, sem gagnáfrýjandi virðist hafa krafið Sædísi hf. um, tvívegis hafa verið lægri en þeir, sem matsmaðurinn taldi að styðjast ætti við, en í átta tilvikum hafa verið hærri, þegar litið væri til allra tíu afborgana af veðskuldabréfinu frá 21. apríl 1992. Í matsgerðinni var þess jafnframt getið að samkvæmt upplýsingum, sem matsmaðurinn aflaði sér munnlega hjá nafngreindum starfsmanni gagnáfrýjanda, hafi svokallað kjörvaxtaálag, sem var eins og áður greinir þáttur í heildarvöxtum samkvæmt ákvæðum umrædds veðskuldabréfs, hækkað 21. júní 1994 úr þeim 2,75%, sem þar um ræddi, í 4%. Tekið var fram í matsgerðinni að ekki lægi fyrir hvort þessi hækkun álagsins hafi verið tilkynnt skuldara eða hvort þess hafi verið þörf. Í niðurstöðum matsgerðarinnar var tekið fram að í útreikningi á 685.791,35 krónu, sem aðaláfrýjandi krefur gagnáfrýjanda um í þessum lið dómkröfu sinnar, sé beitt svokölluðum sex mánaða Libor-vöxtum miðað við japanskt yen, sem Seðlabanki Íslands hafi veitt upplýsingar um, en gengið hafi verið út frá því að kjörvaxtaálag, 2,75%, hafi verið óbreytt allan lánstímann. Af þessu verður ekki annað ráðið en að sú fáorða skýring, sem aðaláfrýjandi hefur gefið á forsendum fyrir þessum lið í dómkröfu sinni og áður er getið, sé ekki í samræmi við matsgerðina, þar sem munurinn á útreikningi matsmannsins og þeim vöxtum, sem gagnáfrýjandi fékk greidda, virðist ekki aðeins skýrast af hæð Libor-vaxta, heldur einnig því að matsmaðurinn reiknaði ekki með þeirri hækkun á kjörvaxtaálagi, sem gagnáfrýjandi virðist hafa talið sér heimilt að krefjast. Um síðastgreint atriði hefur málatilbúnaður aðilanna að engu leyti snúist. Að því virtu er málið að þessu leyti svo vanreifað af hendi aðaláfrýjanda að vísa verður þessum lið í dómkröfu hans sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Samkvæmt því, sem að framan greinir, er fallist á með aðaláfrýjanda að vegna þeirrar aðferðar, sem gagnáfrýjandi beitti við útreikning afborgana, vaxta og dráttarvaxta af veðskuldabréfinu frá 17. janúar 1996, hafi hann fengið greiðslu á 140.869 krónum meira en hann átti rétt á. Aðaláfrýjandi hefur engin viðhlítandi rök fært fyrir því að gagnáfrýjandi geti með háttsemi sinni í þessum efnum hafa bakað sér skaðabótaskyldu eftir almennum reglum. Með því að gagnáfrýjandi hefur á hinn bóginn ekki andmælt því sérstaklega að fullnægt sé hér skilyrðum fyrir því að aðaláfrýjandi geti krafið hann um endurgreiðslu ofgreidds fjár, verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða framangreinda fjárhæð. Þar sem hér er ekki um að ræða greiðslu á skaðabótum verða aðaláfrýjanda ekki dæmdir vextir af henni á grundvelli 7. gr. vaxtalaga, svo sem hann hefur krafist. Gagnáfrýjandi verður hins vegar dæmdur til að greiða dráttarvexti í samræmi við dómkröfu aðaláfrýjanda, eins og nánar greinir í dómsorði.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi kröfu aðaláfrýjanda, Stíganda ehf., um greiðslu á 685.791 krónu úr hendi gagnáfrýjanda, Landsbanka Íslands hf.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 140.869 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. júlí 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2001.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 24. september sl., var höfðað 20. desember 2000.

Stefnandi er Sædís ehf., kt. 590881-0829, Kirkjuvegi 3, Ólafsfirði.

Stefndi er Landsbanki Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.685.515,26 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 6.037.087,87 krónum frá 4. júní 1997 til 25. júlí 1997, en af stefnufjárhæð frá þeim degi til 30. júlí 1998, en með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

I - Óumdeild málsatvik og helstu ágreiningsefni

Stefnandi gaf út veðskuldabréf til stefnda 21. apríl 1992 til endurgreiðslu á láni frá stefnda. Samkvæmt skuldabréfinu viðurkenndi stefnandi að skulda stefnda 45.000.000 japönsk jen (JPY) eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum, miðað við sölugengi JPY í íslenskum bönkum á gjalddaga. Þá kom fram í bréfinu að fjárhæð þessa, sem væri endurlánað erlent lánsfé, upphaflega hafið hjá Sumitomo Bank LTD, skuldbindi stefnandi sig til að greiða að fullu á næstu 5 árum, með 10 jöfnum afborgunum á 6 mánaða fresti, í fyrsta skipti 13. október 1992. Önnur ákvæði skuldabréfsins sem máli skipta voru, að vextir skyldu miðaðir við vaxtaflokk V samkvæmt reglum bankans um kjörvexti. Vextirnir væru breytilegir og bankanum heimilt hvenær sem væri á lánstímanum að hækka eða lækka vextina, þ.m.t. vaxtaálag í samræmi við vaxtaákvarðanir bankans á hverjum tíma. Yrði dráttur á greiðslu afborgana og vaxta af skuldabréfinu skyldu greiðast dráttarvextir af gjaldfallinni fjárhæð, eins og þeir væru ákveðnir á hverjum tíma.

Stefnandi greiddi enga afborgun af skuldabréfinu og var það sent lögmanni til innheimtu. Í innheimtubréfi lögmanns, dags. 7. maí 1993, var höfuðstóll skuldarinnar gjaldfelldur miðað við 5. maí 1993 og krafist greiðslu á honum og dráttarvöxtum frá 5. maí 1993 til greiðsludags. Í greiðsluáskorun lögmanns, dags. 14. júní 1993,  var gjaldfelling miðuð við þann dag. Beiðni um nauðungarsölu var send Sýslumanninum á Ólafsfirði 30. ágúst 1993 og gjaldfelling þá miðuð við sölugengi JPY þann dag. Stefnanda var veitt greiðslustöðvun 29. ágúst 1994 og hún síðar framlengd til 6. febrúar 1995. Í framhaldi af því var stefnanda heimilað að leita nauðasamninga og var nauðasamningur staðfestur 8. maí 1995.

Síðari hluta árs 1995 leitaði stefnandi eftir skuldbreytingu á þeim lánum sem hann var með í vanskilum hjá stefnda. Í árslok 1995 var um það samið, að stefnandi greiddi upp öll vanskil hjá stefnda og jafnframt var samið um, að stefnandi fengi nýtt lán til þess að greiða upp vanskil á fyrra láninu. Stefnandi gaf út nýtt skuldabréf 17. janúar 1996 að fjárhæð JPY 52.221.976,76, þá að jafnvirði 32.696.179,65 króna, til uppgjörs á þeim 7 afborgunum af upphaflegu skuldabréfi sem komnar voru í vanskil.

Við útgáfu síðara skuldabréfsins voru vanskil reiknuð þannig að hver gjaldfallin afborgun í JYP var reiknuð yfir í íslenskar krónur miðað við sölugengi JYP á hverjum gjalddaga og síðan reiknaðir dráttarvextir af fjárkröfum í íslenskum krónum á þá fjárhæð til útgáfudags skuldabréfsins. Samtala umræddra 7 gjalddaga í íslenskum krónum var síðan umreiknuð í JPY miðað við gengi á útgáfudegi bréfsins.

Í síðara bréfinu stóð að lánsfjárhæðin væri endurlánað erlent fé af innistæðum á erlendum gjaldeyrisreikningum. Lánið skyldi endurgreiða með 24 afborgunum á 6 mánaða fresti, í fyrsta skipti 17. júlí 1996. Í vexti af skuldinni, eins og hún væri á hverjum tíma, skyldi greiða breytilega vexti, þá 0,5833 Libor en þar við bættist álag samkvæmt kjörvaxtaflokkum viðskiptamanna Landsbanka Íslands, þá 4,5%. Þá kom fram í texta bréfsins að lánið væri bundið sölugengi JYP og að við greiðslu afborgana og vaxta skyldi greiðslan reiknast með sölugengi hinnar erlendu myntar á greiðsludegi. Yrði dráttur á greiðslu afborgana og vaxta af skuldabréfinu skyldi heimilt að fella skuldina í gjalddaga, fyrirvaralaust og án uppsagnar. Bæri skuldin þá dráttarvexti í samræmi við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð. Á öðrum stað í bréfinu segir hins vegar að skuldara bæri að greiða dráttarvexti af skuldinni, eins og um erlenda skuld væri að ræða, í samræmi við hæstu leyfilega dráttarvexti hverju sinni.

Vegna tafa sem urðu var bréfið ekki keypt fyrr en 18. apríl 1996, en þá hafði fallið í gjalddaga 8. afborgun, dags. 15. apríl 1996, af upphaflegu skuldabréfi.

Stefnandi samdi við Sparisjóðabanka Íslands hf. um lán til greiðslu á ofangreindum skuldabréfakröfum stefnda. Haft var samband við stefnda sem reiknaði stöðu beggja skuldabréfanna. Sparisjóðabankinn greiddi stefnda 4. júní 1997 eftirstöðvar fyrra skuldabréfsins með 9.422.467,80 krónum og til viðbótar tvær gjaldfallnar afborganir af síðara skuldabréfinu með 4.618.638,64 krónum og kom því þar með í skil. Sparisjóðabankinn greiddi síðan stefnda 25. júlí 1997 afborgun af síðara bréfinu, sem gjalfallið hafði 17. júlí 1997, eða 2.149.648,22 krónur og leysti til sín eftirstöðvar síðara skuldabréfsins með greiðslu á 28.350.930,22 krónum. Í framhaldinu fékk Sparisjóðabankinn bréfin framseld til sín. Sparisjóðabankinn og stefnandi gerðu viðauka við skuldabréfin og var myndaður nýr höfuðstóll af skuldinni, jafnhár þeirri fjárhæð sem greidd hafði verið til stefnda. Var þetta gert til þess að Sparisjóðabankinn héldi veðrétti samkvæmt bréfunum.

Stefnandi kveður greiðslur Sparisjóðabanka Íslands hf. til stefnda hafa verið inntar af hendi með fyrirvara um réttmæti útreikninganna, samkvæmt beiðni stefnanda. Stefndi kveður umræddan fyrirvara hafa verið skráðan á miða um skuldfærslur milli banka, sem Sparisjóðabankinn hafi notað sem færsluskjöl hjá sér, en stefndi aldrei fengið afrit af.

Stefnandi hefur látið dómkvaddan matsmann gefa skriflegt og rökstutt álit á útreikningum stefnanda í málinu. Matsmaðurinn, dr. Pétur H. Blöndal tryggingastærðfræðingur, skilaði matsgerð 31. mars 2000. Í matsgerð kemur fram að útreikningar matsmanns séu í samræmi við skilning aðila á forsendum matsbeiðninnar.

Í matsgerð segir að útreikningar matsmanns miðist við þær forsendur, að allar kröfur vegna skuldabréfanna hafi átt að reikna í JPY fram til greiðsludaga. Á greiðsludögum 4. júní og 25. júlí 1997 hafi JPY verið umreiknuð í krónur. Dráttarvextir hafi verið reiknaðir á vanskil, samkvæmt auglýsingum Seðlabanka Íslands um dráttarvexti á kröfur í JPY. Þeir hafi verið lagðir við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Notaðir hafi verið vextir, sem fram komi á greiðsluyfirlitum matsþola, við útreikning á því hvað kostað hefði stefnanda, í JPY, að greiða fyrra skuldabréfið í skil, miðað við að gjaldfallnar afborgarnir þess hafi verið greiddar 18. apríl 1996 að undanskildum gjalddaga 15. apríl 1996 og við útreikninga á því hvað kostað hefði stefnanda að koma síðara skuldabréfinu í skil miðað við 4. júlí 1997.

Með vísan til framangreindra forsendna taldi matsmaður að það hefði átt að kosta stefnanda 44.498.066,05 JPY að koma fyrra skuldabréfinu í skil, miðað við að gjaldfallnar afborganir þess hafi verið greiddar 18. apríl 1996, að undanskildum gjalddaga 15. apríl 1996, þ.e. 7 fyrstu afborganir fyrra skuldabréfsins.

Matsmaður taldi að gjalddagi 15. apríl 1996 hefði með dráttarvöxtum í 3 daga átt að kosta JPY 4.875.042,82, miðað við greiðslu 18. apríl 1996. Samtals hefðu því JPY 3.519.891,71 átt að standa eftir af verðmæti síðara skuldabréfsins og miðaði matsmaður við að sú fjárhæð hefði átt að fara til að lækka eftirstöðvar fyrra skuldabréfsins og eftirfarandi afborganir af því hlutfallslega. Þeir 2 gjalddagar sem eftir stóðu af fyrra skuldabréfinu hafi, með dráttarvöxtum miðað við 4. júní 1997, átt að vera samtals JYP 5.839.119,65 eða sem svarar 3.564.198,63 krónum. Þar sem Sparisjóðabankinn hafi greitt stefnda eftirstöðvar fyrra skuldabréfsins með 9.423.53,22 krónum 4. júní 1997  hafi verið 5.858.854,59 krónur verið ofgreiddar miðað við forsendur matsins.

Matsmaður taldi ennfremur að miðað við forsendur matsins hefði það átt að kosta stefnanda 4.440.404,72 krónur að greiða síðara skuldabréfið í skil 4. júní 1997. Um var að ræða 2 fyrstu gjalddaga bréfsins með dráttarvöxtum í JYP til 4. júní 1997 eða JPY 7.274.581,79. Þar sem Sparisjóðabankinn hafi greitt síðara skuldabréfið í skil með 4.618.638 krónum hafi 178.233,28 krónur verið ofgreiddar miðað við forsendur matsins.

Þá taldi matsmaður að það hefði átt að kosta stefnanda 30.537.942,40 krónur að greiða eftirstöðvar síðara skuldabréfsins 25. júlí 1997. Þar sem Sparisjóðabankinn hafi greitt eftirstöðvar síðara skuldabréfsins með 30.500.578,44 krónum 25. júlí 1997 hafi 37.363,96 krónur verið vangreiddar miðað við forsendur matsins.

Loks taldi matsmaður að stefndi hefði ekki miðað vaxtaútreikninga sína við þá Liborvexti sem almennt væru reiknaðir af sambærilegum skuldabréfum. Matsmaður miðaði samanburðinn við 6 mánaða Liborvexti, 2 dögum fyrir fyrsta vaxtadag, samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands og taldi að ofgreiðsla við uppgjör á fyrra skuldabréfinu hækkaði um 685.791,35 krónur vegna þessa vaxtamunar.

Matsmaður kvað vexti af síðara skuldabréfinu ekki hafa verið frábrugðna vöxtum sem Seðlabankinn gaf upp. Því hafi ekki komið til mismunar vegna þessa þáttar við uppgjör síðara bréfsins.

 Dómkröfur stefnanda eru grundvallaðar á niðurstöðum matsgerðarinnar og sundurliðast þannig:

Ofgreitt 4. júní 1997 vegna skuldabréfs, útg. 21. apríl 1992                                kr.            5.858.854,59

Ofgreitt 4. júní 1997 vegna skuldabréfs, útg. 17. janúar 1996                            kr.               178.233,28

Vangreitt 25. júlí 1997 skuldabréfs, útg. 17. janúar 1996                                     kr.              -  37.363,96

Ofgreitt vegna rangra Libor-vaxta                                                                         kr.               685.791,35

Samtals                                                                                                                       kr.            6.685.515,26

Stefndi höfðaði mál á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna sömu lögskipta 23. júní 1998 og hlaut málið númerið E-3403/1998. Málinu var vísað frá dómi án kröfu 2. júlí 1999.

II - Málsástæður og lagarök aðila

Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefndi hafi reiknað út skuld stefnanda á annan hátt en samið hafði verið um í samningum aðila og hafi þannig valdið sér tjóni. Skuld stefnanda hafi hækkað sem nemur höfuðstól stefnufjárhæðarinnar í máli þessu.

Varðandi skuldabréf útgefið 21. apríl 1992:

Stefnandi telur að stefnda hafi ekki verið heimilt að breyta skuldinni einhliða, án samþykkis hans, úr japönskum jenum yfir í íslenskar krónur og krefjist dráttarvaxta af skuldinni eins og um kröfu í íslenskum krónum væri að ræða. Stefnandi telur augljóst af orðalagi bréfsins og af öðrum gögnum málsins að skuldin hafi verið í japönskum jenum. Skuldabréfið hafi veitt skuldara heimild til að velja hvort hann greiddi skuldina í japönskum jenum eða íslenskum krónum, og þá miðað við sölugengi japanskra jena. Stefnandi hafi ekki átt þetta val. Stefnandi telur að stefndi hefði þurft að taka það fram með skýrum og ótvíræðum hætti í texta skuldabréfsins ef hann vildi áskilja sér slíkan rétt. Stefnandi vísar til skuldabréfa sambærilegra lánastofnana sem hafi slíkt ákvæði í skuldabréfum sínum, áskilji þau sér þennan valmöguleika.

Stefnandi vísar til þess að skuldabréfið hafi verið gefið út á stöðluðu formi sem stefndi hafi samið og að stefndi hafi yfir að ráða sérfræðilegri þekkingu og reynslu í viðskiptum sem þessum. Gera verði ríkar kröfur til bankastofnana um að slíkir samningar sem þessi skuldabréf eru, séu glöggir og ótvíræðir. Stefnda hafi verið í lófa lagið að taka skýrlega fram í skuldabréfinu að hann áskildi sér rétt til að umreikna skuldina i íslenskar krónur á gjalddaga ef vanskil yrðu. Það hafi stefndi ekki gert og verði að bera hallann af því.

Þar sem stefnda hafi verið óheimilt að færa lánið einhliða yfir í íslenskar krónur hafi honum einnig verið óheimilt að reikna dráttarvexti eins og um íslenska skuld væri að ræða. Þá vísar stefndi til þess að í III. kafla vaxtalaga komi fram að erlend peningakrafa skuli bera dráttarvexti í viðkomandi mynt samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni.

Stefnandi telur að eina lögmæta leiðin til að reikna skuldina í íslenskum krónum vera þá, að reikna kröfuna ásamt kostnaði, þ.á m. dráttarvöxtum af JPY, í þeim gjaldmiðli til greiðsludags. Þegar að greiðslu komi geti skuldari ákveðið hvort hann greiði í JPY eða krónum. Ákveði skuldari að skipta JPY í krónur, kröfuhafa til hagræðis, áður en hann borgi, sé fráleitt að skuldin hækki um margar milljónir íslenskra króna þar sem skuldin sé endurreiknuð með dráttarvöxtum á íslenskar krónur. Skuldin hljóti alltaf að vera sú sama á greiðsludegi, hvort sem skuldari greiði í JPY eða krónum.

Stefnandi bendir sérstaklega á að stefndi hafi margoft gjaldfellt fyrra skuldabréfið og ávallt hafi uppgjör kröfunnar í íslenskum krónum verið miðað við nýja gjaldfellingardaga. Stefnandi telur óeðlilegt að stefndi geti valið sér dagsetningu eftirá til þess að reikna kröfuna yfir í íslenskar krónur miðað við hvað honum sé hagstæðast miðað við gengis- og vaxtaþróun.

Í öðru lagi telur stefnandi að stefndi hafi notað ranga Libor-vexti við útreikninga sína og hafi valdið stefnanda tjóni með þeirri háttsemi sinni. Stefndi hafði skuldbundið sig til að miða við Libor-vexti við vaxtaútreikninga sína. Eins og sjá má í matsgerð hins dómkvadda matsmanns sé talsverður munur á vöxtum þeim er stefndi notaði við útreikninga sína og þeim er gefnir voru út af Seðlabanka Íslands.

Varðandi skuldabréf útgefið 17. janúar 1996.

Stefnandi telur einnig að stefndi hafi reiknað skuld stefnanda samkvæmt síðara skuldabréfinu rangt út. Í skilmálum bréfsins segir með skýrum og ótvíræðum hætti að við greiðslu afborgana og vaxta skuli greiðslan reiknast með sölugengi hinnar erlendu myntar á greiðsludegi. Stefndi hafi hins vegar í útreikningum sínum  miðað við gengi JPY á gjalddögum lánsins og reiknað dráttarvexti á skuldina eins og um íslenska skuld væri að ræða. Með þessari útreikningsaðferð hafi stefndi valdið stefnanda tjóni.

Vaxtakrafa stefnanda er miðuð við að skaðabótavextir samkvæmt 7. grein vaxtalaga reiknist á greiðslur stefnanda frá 4. júní og 25. júlí 1997 fram til þess er einn mánuður leið frá þingfestingu stefnu í fyrra máli milli aðila um kröfur þessar sem vísað var frá dómi með úrskurði uppkveðnum 2. júlí 1999, allt í samræmi við 7. og 15. grein vaxtalaga. Frá þeim degi sé krafist dráttarvaxta.

Krafa stefnanda byggir á að stefndi hafi reiknað skuld stefnanda rangt út og valdið honum tjóni með því, þar sem skuld stefnanda hafi hækkað svo nam mörgum milljónum króna. Kröfugerðin sé byggð á því að fundið sé út hvað skuld stefnanda hefði verið mikil þegar Sparisjóðabanki Íslands hf. greiddi stefnda, ef skuldin hefði verið reiknuð út á lögmætan hátt. Helstu forsendur útreikninganna séu þessar:

1. Miðað sé við að skuldabréfin séu kröfur í erlendri mynt, JPY.

2. Miðað sé við að á skuldina reiknist vextir samkvæmt ákvæðum skuldabréfanna.

3. Miðað sé við að dráttarvextir reiknist á bréfin samkvæmt útgefnum dráttarvöxtum Seðlabanka Íslands á fjárkröfur í JPY.

4. Miðað sé við að fyrra skuldabréfinu hafi verið komið í skil með andvirði síðara skuldabréfsins og að auki hafi andvirði síðara skuldabréfsins dugað til greiðslu á hluta ógjaldfallinna gjalddaga skuldabréfs.

Stefnandi kveður fjárhæðir einstakra kröfuliða vera byggða á útreikningum og niðurstöðum í matsgerð dómkvadds matsmanns.

 

 

 

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að útreikningur hans á skuldabréfum þeim, sem stefnandi hafi verið skuldari að hafi verið í samræmi við ákvæði skuldabréfanna sjálfra og í engu hallað á stefnanda við uppgjör á þeim. Stefnandi hafi verið í miklum vanskilum með greiðslur afborgana af upphaflegu skuldabréfaláni. Stefndi hafi orðið við ósk stefnanda um að fá að greiða upp vanskil með nýju láni. Í því skyni hafi hafi verið gengið frá nýju skuldabréfi 17. janúar 1996 og upphæð þess miðuð við að vanskil á fyrra skuldabréfi greiddust upp. Engar athugasemdir hafi komið fram af hálfu stefnanda við þessa afgreiðslu stefnda á málinu fyrr en með bréfi 2. desember 1997.

 Stefndi kveður þær lánveitingar sem hann annist vera íslenskar þar sem hann sé íslenskur viðskiptabanki, þó svo að einstök lán geti verið í erlendri mynt. Ekki hafi áhrif í þessu máli hvort litið verði á lánið sem íslenskt eða erlent.

Af hálfu stefnda er því ekki mótmælt, að stefnandi hafi átt val um það hvort hann greiddi af lánunum í íslenskum krónum eða japönskum jenum á gjalddögum skuldabréfanna. Stefnandi hafi hins vegar ekki haft fjárhagslega getu til þess að greiða á gjalddaga, hvorki í JPY né krónum. Sparisjóðabanki Íslands hf. hafi loks greitt upp hin umdeildu skuldabréf 4. júní og 25. júlí 1997 og fengið þau framseld til sín. Stefndi kveður engar athugasemdir hafa komið frá Sparisjóðabanka Íslands hf. við útreikning á skuldum stefnanda við stefnda. Meintir fyrirvarar bankans hafi heldur ekkert haft með gengismun að gera. Stefndi telur ekki tíðkast í millibankaviðskiptum, að gerðir séu fyrirvarar um útreikninga en mistök séu leiðrétt ef þau komi í ljós.

Af hálfu stefnda er bent á, að í texta skuldabréfs útgefins 21. apríl 1992 sé skýrt tekið fram að stefnandi skuldi stefnda JYP 45.000.000 eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum, miðað við sölugengi JPY í íslenskum bönkum á gjalddaga. Jafnframt sé tilgreint í skuldabréfinu að þessi fjárhæð sé endurlánað erlent lánsfé, sem þýði einfaldlega að stefndi þurfti að greiða hinum erlenda lánveitanda á gjalddögum án tillits til þess hvort stefnandi hafði staðið í skilum eða ekki.

Stefnandi hafi samkvæmt texta skuldabréfsins skuldbundið sig til þess að endurgreiða stefnda allan kostnað er bankinn þyrfti að greiða vegna lántökunnar og endurgreiðslu lánsins að engu undanskildu. Stefndi hafi reiknað út hvað stefnanda bæri að greiða af skuldabréfunum í samræmi við þetta. Á sama hátt og stefnda hafi verið heimilt að yfirfæra afborganir og vexti yfir í íslenskar krónur á gjalddaga hverrar afborgunar, hafi honum heimilt að reikna dráttarvexti í íslenskum krónum.

Því er mótmælt af hálfu stefnda að hann hafi notað ranga Liborvexti við útreikninga sína og með því valdið stefnanda tjóni. Í skuldabréfunum hafi verið tekið fram, að vextir af þeim væru breytilegir og að stefnda væri heimilt hvenær sem er á lánstímanum að hækka eða lækka vexti þar með talið vaxtaálag, í samræmi við vaxtaákvarðanir bankans á hverjum tíma og/eða færa lánin á milli vaxtaflokka. Allar vaxtagreiðslur stefnanda hafi verið reiknaðar út í samræmi við þessi vaxtaákvæði skuldabréfanna. Ekki hafi verið í bréfunum ákvæði um að vaxtaútreikningar ættu að vera samkvæmt vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands.

Af hálfu stefnda er bent á, að starfsmenn Sparisjóðabanka Íslands hf. búi yfir sömu sérfræðiþekkingu og starfsmenn stefnda. Með framangreindum viðskiptum hafi Sparisjóðabankinn ekki eignast neina kröfu á hendur stefnda og því síður hafi Sparisjóðabankinn getað framselt þriðja aðila einhverja kröfu vegna þeirra.

III - Niðurstaða

   Fyrir liggur að þegar stefndi féllst á að stefnandi gæfi út nýtt skuldabréf 17. janúar 1997 til þess að greiða upp vanskil á skuldabréfi útgefnu 21. apríl 1992 voru vanskil reiknuð á þann hátt að hver afborgun í japönskum jenum var breytt í krónur, miðað við sölugengi jens gagnvart krónu á hverjum gjalddaga, og dráttarvextir reiknaðir á þá fjárhæð miðað við kröfu í íslenskum krónum. Stefndi miðaði útreikninga því ekki við að öll fjárhæð bréfsins hefði verið gjaldfelld vegna vanskila stefnanda og verður að miða við að samkomulag hafi verið um uppgjörsaðferð vegna vanskilanna að þessu leyti. Fyrri gjaldfellingar lögmanns stefnda á skuldinni og mismunandi útreikningar á stöðu hennar þykja engu skipta við úrlausn málsins.

   Sú túlkun á ákvæðum skuldabréfsins er óumdeild að stefnandi hafi mátt greiða skuldina á gjalddaga í japönskum jenum. Það gerði hann hins vegar ekki.

   Við úrlausn þess hvort stefnda hafi verið heimilt að reikna hverja gjaldfallna fjárhæð í íslenskum krónum miðað við gengi japanskra jena á gjalddaga og reikna síðan dráttarvexti í krónum af þeirri fjárhæð, verður fyrst og fremst að líta til samnings aðila eins og hann kemur fram í texta skuldabréfs útgefins 21. apríl 1992. Skuldabréfið er gefið út á stöðluðu skuldabréfaformi stefnda. Þar segir orðrétt: „Undirritað firma Sædís hf., [...] viðurkennir hér með að skulda Landsbanka Íslands JPY 45.000.000,00, [...] eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum, miðað við sölugengi JPY í íslenskum bönkum á gjalddaga." Skuldin var því ekki alfarið bundin við JPY heldur viðurkenndi skuldari einnig að skulda jafngildi 45 milljóna japanskra jena í íslenskum krónum og gengisviðmiðunin var sölugengi JPY á gjalddaga. Þá verður að líta til þess að í texta skuldabréfsins kom fram að lánsfjárhæðin væri endurlánað erlent lánsfé. Eftir að stefnandi stóð ekki skil á afborgunum er þær féllu í gjalddaga var stefnda rétt að líta á þær sem kröfur í íslenskum krónum.

   Ekki verður fallist á með stefnanda að líta beri til skuldabréfaforma annarra lánastofnana, annars efnis, við úrlausn ágreinings þessa.

   Með vísan til framangreindra athugasemda þykir miklu nærtækara að líta svo á að stefndi fremur en stefnandi hafi getað valið að skuldin yrði reiknuð í íslenskar krónur á gjalddaga en vegna orðalags skuldabréfsins var ekki unnt að yfirfæra gjaldfallnar afborganir í íslenskar krónur miðað við annað tímamark. Eftir að vanskil voru orðin gat stefndi því með réttu krafist greiðslu á skuldinni í íslenskum krónum miðað við gengi JPY á gjalddaga og reikna eftir það dráttarvexti á vanskilin miðað við peningakröfur í íslenskum krónum. Ber því að sýkna stefnda af þessum kröfulið.

   Texti skuldabréfs, sem stefnandi gaf út til stefnda 17. janúar 1996 og stefndi keypti 18. apríl það ár til uppgjörs á vanskilum á skuldabréfi útgefnu 21. apríl 1992,  var verulega frábrugðin texta fyrra bréfsins. Í upphafi bréfsins segir: „Undirritað firma Sædís hf. [...] viðurkennir hér með að skulda Landsbanka Íslands, Akureyri JPY. 52.221.976,76. [...] Nú að jafnvirði íslenskar krónur 32.696.179,65. Fjárhæð þessa, sem er endurlánað erlent fé af innistæðum á erlendum gjaldeyrisreikningum, skuldbindum vér oss til að endurgreiða að fullu með tuttugu og fjórum afborgunum, á sex mánaða fresti, í fyrsta skipti 17.07.1996." Síðar í skuldabréfinu segir orðrétt: „Lán þetta er bundið sölugengi ofangreinds gjaldmiðils. Við greiðslu afborgana og vaxta skal greiðslan reiknast með sölugengi hinnar erlendu myntar á greiðsludegi." Um dráttarvexti eru tvö ákvæði í texta bréfsins. Annars vegar segir að gjaldfallin skuld beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Hins vegar segir að skuldara beri að greiða hæstu leyfilega dráttarvexti af skuldinni, eins og um erlenda skuld væri að ræða, í samræmi við hæstu leyfilega dráttarvexti hverju sinni.

   Þess ber að geta að í III. kafla þá gildandi vaxtalaga voru ákvæði í 10. gr. um dráttarvexti af peningakröfu í íslenskum gjaldmiðli en í 11. gr. um dráttarvexti af peningakröfu í erlendum gjaldmiðli.

   Framangreint orðalag skuldabréfsins þykir taka af öll tvímæli um stefnda hafi ekki verið heimilt að reikna gjaldfallnar afborganir af skuldabréfinu yfir í íslenskar krónur á einstökum gjalddögum og reikna síðan dráttarvexti á vanskilin miðað við dráttarvexti af kröfu í íslenskum krónum. Fallast má á þann skilning stefnanda að rétt hafi verið að miða kröfuna við japönsk jen fram að greiðsludegi og reikna dráttarvexti af gjaldföllnum afborgunum fram til 4. júní 1997, miðað við auglýsingar Seðlabanka Íslands um dráttarvexti af kröfum í þeim gjaldmiðli. Í samræmi við ákvæði skuldabréfsins bar að umreikna vanskilin, þannig reiknuð, úr japönskum jenum í íslenskar krónur á greiðsludegi 4. júní 1997. Ekki er ágreiningur um að leggja beri útreikninga matsmanns til grundvallar um mismun á þeirri fjárhæð sem Sparisjóðabanki Íslands hf. greiddi og þeirri fjárhæð sem honum bar að greiða samkvæmt framangreindu. Samkvæmt niðurstöðu matsmanns voru 178.233,28 krónur ofgreiddar.

   Á sama grundvelli og að framan greinir ber að leggja þá niðurstöðu matsmanns til grundvallar að þegar Sparisjóðabankinn greiddi, 25. júlí 1997, gjaldfallna afborgun 17. júlí 1997 af síðara skuldabréfinu og auk þess ógjaldfallnar eftirstöðvar bréfsins með 30.500.578,44 krónum hafi 37.363,96 krónur verið vangreiddar.

   Í framlögðu ljósriti af tveimur skjölum frá Sparisjóðabanka Íslands hf. sem dagsett eru 4. júlí 1997, og bæði bera yfirskriftina skuldfærsla milli banka, kemur fram fyrirvari af hálfu bankans um réttmæti reiknaðra dráttarvaxta við millifærslu á millibankareikning nr. 666666 í Landsbanka Íslands á Akureyri. Stefndi hefur mótmælt því, að þessi fyrirvari hafi borist honum. Sönnun um þetta atriði getur þó ekki ráðið úrslitum í málinu þar sem í greinargerð stefnda kemur fram, að þótt ekki tíðkist í millibankaviðskiptum að gera slíka fyrirvara, séu mistök sem í ljós koma leiðrétt.

   Stefnandi telur að stefndi hafi notað ranga Liborvexti við útreikninga sína og hafi valdið honum tjóni með þeirri háttsemi. Í skuldabréfi útgefnu 21. apríl 1992 sagði um samningsvexti að þeir væru breytilegir, 0,7187% yfir Libor á hverjum tíma, þar við bættist álag samkvæmt kjörvaxtaflokkun viðskiptamanna stefnda, þá 2,75% og væru vextir af skuldinni því á útgáfudegi samtals 8,1875% á ári. Upplýst er í málinu að stefndi breytti kjörvaxtaflokkun skuldabréfsins einhliða 21. júní 1994 í 4%. Þá er einnig upplýst með framlagðri matsgerð að viðmiðunarvextir stefnda, að frátöldu álagi vegna kjörvaxtaflokkunar og álagi á Liborvexti, voru að jafnaði hærri en 6 mánaða Liborvextir samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands 2 dögum fyrir gjalddaga skuldabréfsins.

   Liborvextir eða "London interbank offered rate" eru ekki fastákveðnir vextir heldur geta þeir verið nokkuð mismunandi eftir því hvaða forsendur eru notaðar við útreikning þeirra. Í fyrrgreindu skuldabréfi var ekki vísað þess hvaða viðmið Liborvaxta bæri að nota og ekki vísað til upplýsinga Seðlabanka Íslands um slíka vexti. Tilgreining Liborvaxta í skuldabréfi útgefnu 21. apríl 1992 er að þessu leyti nokkuð ónákvæm. Þrátt fyrir það þykir stefndi ekki hafa verið bundinn við að nota þá Liborvexti samkvæmt upplýsingum Seðlabanki Íslands.

   Stefnandi byggir útreikninga á þessum kröfulið á matsgerð dómkvadds matsmanns sem reiknaði út mismun á samningsvöxtum þeim sem stefnandi áskildi sér af fyrra bréfinu og vöxtum miðað við 6 mánaða Liborvexti samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands tveimur dögum fyrir fyrsta vaxtadag.

   Þar sem stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að stefndi hafi notað ranga Liborvexti við útreikninga á fyrra láninu og stefnandi hefur ekki byggt á því að samningsvextir hafi af öðru leyti verið ofreiknaðir ber að sýkna stefnda af þessum kröfulið.

   Fallast verður á með stefnanda, að stefndi hafi, með framangreindum röngum útreikningum á dráttarvöxtum af skuldabréfi útgefnu 17. janúar 1996, valdið því að Sparisjóðabanki Íslands hf. gerði skuldir stefnanda við stefnda upp með hærri fjárhæð en stefndi átti rétt á samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins. Leiddi þetta óhjákvæmilega til þess að skuld stefnanda við Sparisjóðabanka Íslands hf., sem fékk framselda kröfu stefnda á hendur stefnanda, varð hærri en ella hefði verið sem nam 140.869 krónum (178.233-37.364). Ber að líta svo á að stefndi hafi með framangreindum útreikningi kröfunnar valdið stefnanda tjóni sem stefnda bera að bæta með 140.869 krónum.

   Vaxta- og dráttarvaxtakröfu hefur ekki verið mótmælt sérstaklega og reiknast skaðabótavextir og dráttarvextir eins og í dómsorði greinir í samræmi við vaxtalög nr. 25/1987 fram til 1. júlí 2001 en frá þeim degi reiknast almennir dráttarvextir í samræmi við 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.  

   Enda þótt stefnandi hafi einungis náð fram litlum hluta krafna sinna í málinu verður við ákvörðun málskostnaðar að líta til þess að stefndi hefur ekki fallist á neina leiðréttingu á uppgjöri skuldabréfanna og stefnandi þurft að afla sér matsgerðar til að tryggja sér sönnur um þann hluta kröfunnar sem stefndi er dæmdur til að greiða. Með hliðsjón af framangreindu þykir rétt að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Baldvin Björn Haraldsson hdl. en Gunnar Sólnes hrl. af hálfu stefnda.

Dóm þennan kveður upp Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum Erlendi Magnússyni framkvæmdastjóra og Margeiri Péturssyni héraðsdómslögmanni.

D ó m s o r ð.

    Stefndi, Landsbanki Íslands hf., greiði stefnanda, Sædísi ehf., 140.869 krónur, auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 178.233 krónum frá 4. júní 1997 til 25. júlí 1997 en af 140.869 krónum frá þeim degi til 30. júní 1998, en auk almennra dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.

   Málskostnaður fellur niður.