Hæstiréttur íslands
Mál nr. 703/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Samlagsaðild
|
|
Fimmtudaginn 6. nóvember 2014. |
|
Nr. 703/2014.
|
Sigurður Pétur Hauksson (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Samlagsaðild. Sakaukastefna.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfum S á hendur V hf. sem settar voru fram með sakaukastefnu í máli S gegn H. Var vísað til þess að kröfurnar yrðu ekki raktar til sama atviks, aðstöðu eða löggernings og því væri ekki fullnægt skilyrðum 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að unnt væri að stefna báðum aðilum til samlagsaðildar í máli um kröfurnar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2014, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sigurður Pétur Hauksson, greiði varnaraðila, Vátryggingafélagi Íslands hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2014.
Mál þetta höfðaði Sigurður Pétur Hauksson, Leirubakka 12, Reykjavík, með stefnu birtri 15. maí 2014, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík. Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 24. september sl.
Stefna málsins hefur fyrirsögnina Sakaukastefna og vísar til héraðsdómsmálsins nr. E-4712/2013, Sigurður Pétur Hauksson gegn Halldóri H. Backman. Í sakaukastefnunni eru gerðar þessar kröfur: „Stefnandi gerir þær dómkröfur á Vátryggingafélag Íslands hf., ef Halldór Backman, stefndi í aðalsök verður sýknaður af dómkröfu stefnanda, að Vátryggingafélag Íslands hf. verði dæmt til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 65.000.000 krónur, til vara 41.900.000 krónur og að því frágengnu 25.000.000 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. maí 2002 til greiðsludags.“ Þá er og krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst þess að málinu verði vísað frá dómi. Þá krefst hann málskostnaðar.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu verði hafnað. Hann krefst málskostnaðar sérstaklega í þessum þætti.
Upphaf málsins er á árinu 1991 er Íslandsbanki hóf að innheimta skuldir hjá stefnanda. Fasteign hans við Kirkjubraut á Akranesi var seld á nauðungaruppboði í febrúar 1992. Í kjölfarið var bú stefnanda tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu bankans. Gekk úrskurður í skiptarétti Akraness 14. maí 1992. Skiptum var lokið 30. september 1996.
Í maí 2001 höfðaði stefnandi mál á hendur Íslandsbanka. Því máli lauk með Hæstaréttardómi 15. apríl 2003. Þar var fallist á tiltekna niðurfærslu skulda hans við bankann, vegna þess að fasteignin við Kirkjubraut var talin hafa verið lögð bankanum út á lægra verði en sannvirði.
Stefnandi höfðaði annað mál á hendur bankanum með stefnu er birt var 14. maí 2002. Í því máli krafðist hann skaðabóta vegna þess að ekki hefðu verið skilyrði til þess af hálfu bankans að krefjast gjaldþrotaskipta á búi hans á árinu 1992. Lauk því máli ekki fyrr en með Hæstaréttardómi 10. nóvember 2011. Segir svo í dóminum:
„... krafa stefnda um gjaldþrotaskipti á búi áfrýjanda var komin til skiptaráðandans á Akranesi fyrir 13. maí 1992. Fallist verður á forsendur héraðsdóms um að miða beri upphafsdag fyrningarfrests skaðabótakröfu, sem reist er á 2. mgr. 20. gr. þágildandi gjaldþrotalaga nr. 6/1978, við þann dag er gjaldþrotaskipta er krafist en ekki við úrskurðardag um gjaldþrot eins og áfrýjandi heldur fram. Fyrningarfrestur kröfunnar var 10 ár samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Áfrýjandi hafði ekki uppi ráðstafanir sem samkvæmt lögum geta rofið fyrningu kröfunnar fyrr en hann lét birta stefnu í máli þessu. Krafa áfrýjanda, hafi hún verið fyrir hendi að einhverju leyti, var því fyrnd þegar málið var höfðað. Verður hinn áfrýjaði dómur því þegar af þessari ástæðu staðfestur.“
Aðalmálið höfðaði stefnandi til heimtu skaðabóta úr hendi lögmanns, stefnda Halldórs H. Backman. Segir stefnandi að hann hafi valdið sér tjóni með því að höfða fyrir sig skaðabótamál á hendur Íslandsbanka of seint, þannig að bankinn hafi verið sýknaður vegna fyrningar. Hann stefndi einnig Vátryggingafélagi Íslands, en málinu á hendur félaginu var vísað frá dómi með úrskurði 2. apríl 2014, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 9. maí 2014.
Aðild sakaukastefnda var byggð á því að hann væri ábyrgðartryggjandi stefnda Halldórs H. Backman, sbr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar var talið að um kröfu stefnanda færi eftir eldri lögum um vátryggingarsamninga, lögum nr. 20/1954, og því væri ekki heimilt að stefna ábyrgðartryggjanda til fullrar aðildar.
Í sakaukastefnu er byggt á því að bótakröfu hafi verið beint að félaginu þann 20. febrúar 2012. Þetta hafi verið gert eftir að lögmaður stefnanda hafi átt fundi með starfsmönnum stefnda og lögmanni. Kröfubréfinu hafi ekki verið svarað fyrr en 10. maí 2012. Í niðurlagi bréfsins sé vísað til 2. mgr. 51. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og sagt að stefnandi myndi glata rétti sínum til bóta, yrði ekki krafist meðferðar hjá Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum eða málinu stefnt fyrir dómstóla innan árs frá dagsetningu bréfsins.
Stefnandi kærði höfnun félagsins til úrskurðarnefndarinnar. Í úrskurði nefndarinnar 13. júní 2013 var viðurkenndur bótaréttur stefnanda, að því marki er sýnt yrði fram á fjártjón sökum þess að skaðabótakrafa stefnanda á hendur Glitni banka hf. hefði orðið fyrningu að bráð.
Stefnandi segir að félagið hafi kynnt þá afstöðu sína að úrskurðurinn væri rangur og að það vildi ekki vera bundið af þessari niðurstöðu. Stefnandi hafi þá höfðað mál á hendur Halldóri H. Backman og félaginu. Hafi hann tilkynnt félaginu áform sín bréflega, sbr. 44. gr. laga nr. 30/2004. Félagið hafi svarað bréflega og ekki neitað aðild sinni, en beðið um að Halldóri H. Backman yrði stefnt til aðildar við hlið félagsins.
Er á hólminn kom hafi félagið snúið við blaðinu, hafi ekki viljað eiga aðild að málinu og fengið því vísað frá dómi. Stefnandi kveðst ekki sætta sig við þennan viðsnúning félagsins og kveðst telja að félagið hafi annað hvort blekkt hann vísvitandi eða gert ákveðin mistök, sem það beri ábyrgð á.
Stefnandi byggir á því í sakaaukamálinu að verði Halldór H. Backman sýknaður vegna þess að málið hafi verið of seint höfðað, þá hafi það verið vegna þeirrar afgreiðslu og afstöðu sem félagið viðhafði er stefnandi leitaði eftir bótagreiðslu, eftir hæstaréttardóminn í nóvember 2011. Félagið hafi fundað með stefnanda án þess að niðurstaða fengist. Hafi verið sent kröfubréf sem félagið hafi dregið í tæplega þrjá mánuði að svara. Í svarbréfinu hafi verið sagt að réttur til bóta glataðist ef ekki yrði aðhafst innan eins árs og vísað til 2. mgr. 51. gr. laga nr. 30/2004.
Bréf félagsins hafi verið sent 10. maí 2012, fjórum dögum fyrir 14. maí, en þann dag hafi verið liðin 10 ár frá tjónsatburðinum að því er segi í bréfinu. Stefnandi segir að í bréfinu komi fram skýr yfirlýsing félagsins um að það standi í samningssambandi við Halldór H. Backman vegna starfsábyrgðartryggingar hans á grundvelli laga nr. 30/2004. Samkvæmt almennum réttlætissjónarmiðum eigi félagið ekki að komast upp með það að beina málinu í rangan farveg. Byggir stefnandi á því að hann hafi mátt trúa því að tilvísun félagsins til 2. mgr. 51. gr. laga nr. 30/2004 stæðist og væri rétt. Skipti ekki máli hvort hann hafi haft lögmann sér til aðstoðar.
Þá hafi bréfi lögmanns stefnanda frá 20. febrúar 2012 verið svarað alltof seint miðað við reglur um tilkynningaskyldur tryggingafélaga almennt, sbr. og 31. gr. laga nr. 30/2004, greinilega til að draga málið á langinn, og svarið hafi verið villandi.
Stefnandi byggir í öðru lagi á því að ef félagið hefði strax látið hann vita um afstöðu sína til aðildar að málinu, hefði hann beint kröfum sínum að Halldóri H. Backman þegar á fyrri hluta ársins 2012, áður en liðin voru meira en tíu ár frá meintum tjónsatburði. Beri félagið vinnuveitandaábyrgð á gerðum lögfræðings þess sem undirritaði bréfið þann 10. maí 2012. Hann hafi af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi valdið stefnanda því tjóni sem hann krefji félagið um.
Stefnandi kveðst telja að tryggingafélögum beri að ástunda eðlilega viðskiptahætti og gæta neytendasjónarmiða. Það hafi ekki verið gert í þessu máli og hann hafi nánast verið plataður.
Stefnandi kveðst um formhlið byggja á því að krafa á hendur félaginu byggi á sama atviki, aðstöðu og eða löggerningi og byggt sé á gagnvart Halldóri H. Backman. Kröfu á hendur félaginu sem byggði á vátryggingarsamningnum hafi verið vísað frá dómi. Í þessum hluta málsins byggi hann hins vegar á almennu skaðabótareglunni og sök félagsins. Sé eðlilegt að krafan á félagið sé til vara. Stefnandi vísar til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. Þá vísar hann til 2. mgr. 19. gr. um aðild til vara.
Sakaukastefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að skilyrði 19. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki uppfyllt. Hann segir að skilyrði 3. mgr., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 (eml.), séu þau að kröfur á hendur báðum aðilum séu af sömu rót runnar, þ.e. að þær megi rekja til sama uppruna, sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Þetta sé einnig skilyrði þótt aðild sé höfð uppi til vara. Þá verði það metið stefnanda til vanrækslu að hafa ekki stefnt sakaukastefnda áður en aðalmálið var þingfest.
Nánar segir stefndi að kröfur á hendur stefnda Halldóri H. Backman séu byggðar á meintri saknæmri vanrækslu hans á árinu 2002. Kröfur á hendur sér séu byggðar á meintum saknæmum aðgerðum og rangri upplýsingagjöf í skiptum við stefnanda og lögmann hans á árunum 2012 og 2013. Því verði kröfurnar ekki raktar til sömu atvika eða aðstöðu. Loks séu þær ekki byggðar á löggerningum, en krafist sé skaðabóta utan samninga.
Niðurstaða
Stefnandi höfðar mál þetta og krefst þess að það verði sameinað máli er hann hefur höfðað á hendur Halldóri H. Backman. Vill hann hafa uppi kröfur á hendur stefnda til vara. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 er þetta heimilt, að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. til samlagsaðildar. Þar sem báðum stefndu er ekki stefnt á sama tíma verður einnig að fullnægja skilyrði 3. mgr. um að stefnanda verði ekki metið það til vanrækslu að hafa ekki höfðað mál á hendur báðum aðilum í einu.
Krafa á hendur stefnda Halldóri H. Backman byggist á því að hann hafi með vanrækslu sinni dregið að höfða skaðabótamál á hendur Íslandsbanka með þeim afleiðingum að bankinn hafi verið sýknaður vegna fyrningar og krafan því tapast. Á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands er nú byggt á því að starfsmenn félagsins hafi beitt hann blekkingum og dregið að svara bréfi hans í því skyni að krafan fyrndist. Þótt hér sé krafist bóta fyrir sama tjónið, er kröfurnar ekki að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings eins og stefnandi hefur lagt upp sakaukastefnu sína. Er því ekki fullnægt skilyrðum 19. gr. laga nr. 91/1991 til að unnt sé að stefna báðum stefndu til samlagsaðildar í máli um þessar kröfur. Verður því að vísa málinu frá dómi að því er sakaukastefnda varðar.
Rétt er að málskostnaður falli niður. Er þá litið til þess að hið stefnda félag hafði í skiptum sínum við stefnanda ítrekað vísað til laga nr. 30/2004, en samkvæmt þeim lögum er heimilt að stefna ábyrgðartryggjanda til beinnar aðildar í skaðabótamáli.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Máli þessu á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.