Hæstiréttur íslands

Mál nr. 686/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á því stæði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2016 þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. október 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði ekki gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

               

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2016.

Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. október, kl 16:00, og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.   

Í greinargerð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að embættið rannsaki nú ætlað kynferðisbrot, líkamsárásir, húsbrot og valdstjórnarbrot kærða síðastliðinn sólarhring. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að haft hefði verið samband við lögreglu og henni tilkynnt um mann sem brotið hefði sér leið inn í íbúð að [...], íbúð [...], sem tilkynnandi, A, kvaðst hafa verið að gæta. Aðilinn héti X og væri í mjög annarlegur ástandi. A hafi sagst vera komin út úr íbúðinni sökum hræðslu við að hann kæmi aftur. Lögregla hafi komið á vettvang og rætt við A sem hafi sagt kærða hafa farið upp á næstu hæð og inn í íbúð barnsmóður sinnar, B. Þar væri hann með vinkonu sinni, C. A hafi vísað lögreglu að íbúð [...] en í íbúðinni hafi verið glerbrot um allt stofugólf. Búið hafi verið að sparka upp útidyrahurðinni með þeim afleiðingum að karmur hafi verið brotinn. A hafi sagt kærða hafa gert þetta. Hún hafi sagt að hann hafi komið ítrekað inn í íbúðina með hótanir og ráðist á sig, slegið sig í andlitið og tekið sig hálstaki. Kærði hefði einnig ráðist á vin A, D, sem hefði orðið fyrir fólskulegri árás og meðal annars hafi kærði ítrekað sparkað í hann liggjandi, þar á meðal í höfuð. A hafi lánað D lykla að bíl sínum og hann hefði farið á honum af vettvangi. Á vettvangi hafi einnig verið E en sökum annarlegs ástands hafi ekki verið unnt að taka af honum framburðarskýrslu.

                Lögregla hafi bankað á hurð að íbúð [...] og þegar inn hafi verið komið hefði mátt sjá að búið hafi verið að brjóta úr vegg við útidyrahurðina og hlutir hafi legið um allt gólf. Kærði hefði tekið á móti lögreglu í anddyri íbúðarinnar og greinilega verið undir miklum áhrifum áfengis/og eða fíkniefna. Hann hefði verið æstur, uppstökkur og árásargjarn og með báða hnefa kreppta. Við handtöku hefði hann látið mjög ófriðlega og haft í hótunum við lögreglumenn um að beita þá ofbeldi.

          Á vettvangi hafi verið rætt við C sem kvaðst hafa verið fegin að sjá lögreglu á þessum tímapunkti. Hún hafi sagt kærða hafa ætlað að fara að nauðga sér og það hefði gerst hefði lögregla ekki komið. Hún hafi sagt að hann hefði káfað á sér og reynt að kyssa sig. Hann hefði ítrekað káfað á henni innan klæða á brjóstum en utan klæða á kynfærum. C hafi sagst hafa verið verulega hrædd við kærða.

                Lögregla hafi haft samband símleiðis við eiganda íbúðar [...], B, sem einnig sé barnsmóðir kærða. B búi í íbúðinni ásamt tveimur ungum börnum þeirra. B hafi sagt kærða hafa verið í annarlegu ástandi fyrr um daginn. Hann hafi slegið hana og verið mjög árásargjarn. Hún hafi sagst vera með áverka eftir átökin. Hún hafi sagt að þetta hafi gerst um klukkan 15:00 í gærdag. Hún hefði þá flúið að heiman með börn þeirra sökum hræðslu við kærða. Rannsóknarlögreglumaður hafi svo rætt við B nú í morgun og sjá hafi mátt að B hafi verið með glóðarauga í kringum hægra auga sem hún hafi sagt að væri eftir hnefahöggið sem hún fékk frá kærða.

          Tekin hafi verið formleg skýrsla af kærða í dag og hann inntur eftir afstöðu sinni gagnvart sakarefnunum. Hafi kærði alfarið neitað sök. Hafi kærði sagst hafa verið að drekka áfengi með C, A og D. Kærði hafi svo sagst muna eftir því að hann hafi verið kominn upp í íbúð sína og C hafi verið með honum. Aðspurður hafi hann sagst einungis hafa verið að neyta áfengis. Kærði hafi sagt að hann myndi ekki neitt en að hann hefði ekki framið kynferðisbrot gegn stelpu sem hann væri búin að þekkja í 15 ár. Er hann hafi verið spurður að því hvaða erindi hann hafi átt í íbúð [...] hafi hann sagt að hann myndi það ekki en sagst hafa þurft að tala við C en hún muni hafa búið þarna. Aðspurður hvernig hann hefði farið inn í íbúðina hafi kærði sagst hafa bankað og maður að nafni X hefði opnað fyrir honum. Spurður um tengsl við A hafi kærði sagst ekki þekkja hana. Hann hafi sagst muna eftir samskiptum við hana og allt hafi verið í góðu. Kærði hafi ítrekað að hann myndi ekki eftir að hafa lamið neinn.

          Að mati lögreglu sé fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu eins og rakið hafi verið. Rannsókn máls þessa sé á frumstigi og sé ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi en meðal annars eigi eftir að yfirheyra sakborning frekar, svo og brotaþola og vitni í málinu. Mál þetta sé því enn á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.

          Ætluð brot séu talin varða við 106. gr., 194. gr., sbr. 20. gr., 217., 1. og 2. mgr. 218. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

          Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála, og b. liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.

Niðurstaða

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð lögreglu og rannsóknargögnum málsins er á það fallist að kærði sé undir rökstuddum grun um ýmis hegningarlagabrot sem fangelsisrefsing er lögð við, en brot þessi eiga að hafa átt sér stað 5. október sl. Kærði hefur játað lítinn hluta sakargifta en virðist neita sök að öðru leyti, þ. á m. um kynferðisbrot, húsbrot og líkamsárásir sem eiga að hafa átt sér stað í íbúð [...] að [...]. Rannsókn málsins er skammt á veg komin og á meðal annars eftir að taka gleggri skýrslur af ætluðum brotaþolum. Er á það fallist að aðstæður séu þannig að ætla megi að kærði muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða koma undan gögnum, fái hann að ganga laus. Skilyrðum 1. málsliðar og a-liðar 2. málsliðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fullnægt. Ber því að fallast á kröfu sækjanda um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett. Þá ber að fallast á kröfu sækjanda þess efnis að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Ásmundur Helgason héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

         Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. október kl. 16:00 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.