Hæstiréttur íslands

Mál nr. 594/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


         

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007.

Nr. 594/2007.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Júlíus Magnússon fulltrúi)

gegn

X

(Ingimar Ingimarsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann.

 

Á grundvelli 110. gr., sbr. b. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var X gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 12. desember 2007.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt til 21. desember 2007, kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á forsendur hins kærða úrskurðar um að skilyrði séu til þess að varnaraðili sæti farbanni samkvæmt 110. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19/1991. Fyrir liggur að búið er að taka skýrslur af þeim aðilum sem staddir voru á vettvangi hins ætlaða brots varnaraðila. Verður því ekki séð að sex vikur þurfi til að ljúka lögreglurannsókn og taka ákvörðun um saksókn. Með þessari athugasemd verður farbann yfir varnaraðila staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 12. desember 2007 kl. 16.

 

                        Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. nóvember 2007.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur krafist þess með beiðni dagsettri í dag að X, pólskum ríkisborgara, kt. [...], [heimilisfang], Reykjanesbæ, verði með úrskurði gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 21. desember 2007 kl. 16:00.

Kærði mótmælir ekki framkominni kröfu en krefst þess að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Atvik máls eru þau að lögreglan á Suðurnesjum fékk kl. 01:44 aðfaranótt 8. nóvember sl. tilkynningu um slasaðan mann við [heimilisfang] í Reykjanesbæ. Þar lá A, pólskur ríkisborgari, og var hann með sár á hálsi og hafði misst töluvert blóð. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahús.

Fjórir pólskir menn, kærði, framangreindur brotaþoli og vitnin B og C búa í íbúð að [...]. Kærði hefur kannast við það í yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa verið í átökum við brotaþola og þá hefur brotaþoli sagt kærða hafa ráðist á sig og vitnin B og C hafa báðir borið að þeir hafi séð kærða og brotaþola í átökum. Þá hefur vitnið B borið að hafa séð kærða kýla eða stinga brotaþola með brotinni flösku.

Lögregla kveður rannsókn málsins á byrjunarstigi og þyki nauðsynlegt að kæra, sem sé útlendur maður, sem dvelji tímabundið á landinu við vinnu, verði með úrskurði gert að sæta farbanni til þess tíma er að framan greinir, eða þar til lögreglurannsókn lýkur í máli hans, ákæruvaldið tekur ákvörðun um framhald máls og, eftir atvikum, dómur gengur í málinu, komi til dómsmeðferðar.

Sækjandi telur nauðsynlegt að tryggja nærveru kærða á landinu til þess tíma er meðferð máls hans lýkur en hann sé grunaður um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brotið geti varðað fangelsi allt að 16 árum. Farbannskrafan er reist á ákvæðum 110. gr., sbr. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991 og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Rökstuddur grunur er fram kominn um að kærði hafi framið þann verknað sem að framan greinir. Kærði er erlendur ríkisborgari sem er nú án atvinnu hér á landi. Ekki verður séð að hann hafi þau tengsl við landið sem séu líkleg til að valda því að hann yfirgefi ekki landið eða komi sér ekki undan saksókn. Þykir heimilt á grundvelli 110 gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að samþykkja að kærða verði gert að sæta farbanni. Rannsókn málsins er á byrjunarstigi og eru ekki efni til að marka farbanninu skemmri tíma en krafist er.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kærði, X, skal sæta farbanni og er óheimil brottför frá Íslandi frá deginum í dag allt til kl. 16:00 föstudaginn 21. desember 2007.