Hæstiréttur íslands

Mál nr. 62/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


Fimmtudaginn 22. janúar 2015

Nr. 62/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Nálgunarbann.

Felld var úr gildi ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni í sex mánuði þar sem ekki var talið að fullnægt væri skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2015 þar sem staðfest var ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 13. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með framangreindri ákvörðun sóknaraðila 13. janúar 2015 var varnaraðila gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að honum var bannað að veita fyrrum sambúðarkonu sinni og barnsmóður, A, eftirför, nálgast hana á almannafæri sem næmi 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti. Í ákvörðuninni var rakið að A hafi skýrt frá ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir af hálfu varnaraðila frá árinu 2011, þar af í tvö skipti í júlí 2014, meðan þau voru enn í sambúð, svo sem nánar er gerð grein fyrir í úrskurði héraðsdóms. Var ákvörðun sóknaraðila rökstudd með þeim hætti að þau gögn sem lögregla hefði undir höndum bæru með sér að háttsemi varnaraðila hafi valdið A miklum ótta og vanlíðan. Í því ljósi taldi sóknaraðili að fullnægt væri skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011, en varnaraðili lægi undir rökstuddum grun um að hafa beitt A líkamlegu ofbeldi 30. júlí 2014 og sent kynlífsmynd og nektarmyndband til vinkonu hennar og vinnufélaga. Þá hefði háttsemi varnaraðila gefið til kynna að hann myndi halda áfram að raska friði A og yrði ekki talið sennilegt að friðhelgi hennar yrði vernduð með öðrum og vægari hætti.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt framansögðu. Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa beitt A líkamlegu ofbeldi í eitt skipti í júlí 2014. Þá liggur jafnframt fyrir að varnaraðili hefur játað að hafa sent kynlífsmynd og nektarmyndband til vinkonu A og vinnufélaga í janúar 2015. Jafnvel þótt varnaraðili hafi með háttsemi sinni í hinu síðarnefnda tilviki gróflega rofið friðhelgi einkalífs A verður ekki talið að nálgunarbann á grundvelli laga nr. 85/2011 veiti henni vernd gagnvart slíkri háttsemi. Þá er nokkur tími liðinn frá því atvik 30. júlí 2014 áttu sér stað. Er ekkert í gögnum málsins málsins sem bendir til að varnaraðili hafi eftir það tímamark beitt A líkamlegu ofbeldi eða að hætta sé á að hann muni brjóta gegn henni með þeim hætti. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki ráðið að fullnægt sé skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni og verður það því fellt úr gildi.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Felld er úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 13. janúar 2015, sem birt var degi síðar, um að varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni í sex mánuði samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011.

Þóknun verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 13. janúar sl. þess efnis að X skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann veiti A kt. [...] eftirför, nálgist hana á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.

Varnaraðili, X, krefst þess að ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að hann sæti nálgunarbanni verði felld úr gildi, en til vara krefst hann þess að því verði markaður skemmri tími en sex mánuðir. Þá krefst skipaður verjandi varnaraðila þóknunar sér til handa úr ríkissjóði að mati réttarins.

Skipaður réttargæslumaður brotaþola tekur undir kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um staðfestingu nálgunarbanns og krefst þóknunar sér til handa úr ríkissjóði að mati dómsins.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögregla rannsaki nú líkamsárás frá 30. júlí sl. þar sem X liggi undir rökstuddum grun um að hafa ráðist á A, sem þá hafi verið sambýliskona hans, með því að hafa, á heimili þeirra að [...], ýtt henni margsinnis og þegar hún hafi ætlað að henda áfengi hans fram af svölunum hafi hann hlaupið á eftir henni og ýtt henni á hurð með þeim afleiðingum að sprunga hafi myndast í neðri vör hennar. Hann hafi einnig hent ferðatösku í tíu ára dóttur hennar. Varnaraðili hafi svo farið í beinu framhaldi af því að hafa hent brotaþola í gólfið. Varnaraðili hafi verið yfirheyrður vegna málsins og neiti sök (mál 007-2014-[...]).

Í greinargerðinni kemur einnig fram að brotaþoli hafi auk þess skýrt frá ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir af hendi varnaraðila í sumarleyfi á [...] þann 27. júlí sl. Hún hafi skýrt svo frá að varnaraðili hafi hent henni niður stiga í viðurvist barnanna. Þegar þetta hafi gerst hafi hann verið með unga dóttur þeirra í fanginu. Varnaraðili hafi einnig hent henni inn í eldhús á eldhúsinnréttingu og hafi krafturinn verið það mikill að hún hafi þeyst yfir og höfuð hennar rekist í eldhúsbekkinn hinu megin í eldhúsinu. Varnaraðili hafi verið yfirheyrður vegna málsins og neiti sök.

Í greinargerð lögreglustjóra greinir og frá því að varnaraðili liggi undir rökstuddum grun um að hafa sent kynlífsmynd af brotþola á vinkonu hennar og vinnufélaga þann 9. janúar sl., og að hafa sent nektarmyndband af brotaþola á vinnufélaga brotaþola þann 12. janúar sl. Varnaraðili hafi verið yfirheyrður vegna þessa og játi sök. Í bókunarkerfi lögreglu sé að finna fjölda tilkynninga milli varnaraðila og brotaþola í kjölfar árásinnar frá 30. júlí sl. (sjá bókanir 007-2014-[...], [...], [...] og [...]). Beri framangreindar tilkynningar með sér að varnaraðili og brotaþoli takist á um dóttur þeirra og eignir.

Lögreglustjóri telur að þau gögn sem hann hafi undir höndum beri með sér að varnaraðili hafi brotið með refsiverðum hætti gegn brotaþola og að hann hafi með framferði sínu valdið brotaþola mikilli vanlíðan en varnaraðili liggi undir rökstuddum grun um að hafa beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi þann 30. júlí sl. og að hafa sent kynlífsmynd og nektarmyndband á vinkonu brotaþola og vinnufélaga. Þá hafi háttsemi varnaraðila að undanförnu gefið til kynna að hætta sé á að hann muni halda áfram að raska friði brotaþola njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.

Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 1. og 2. töl. 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt að því leyti að hætta sé á að varnaraðili muni halda áfram að raska friði brotaþola í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Það sé ekki talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.

                Niðurstaða

Nálgunarbann er skilgreint í 1. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011, þannig að með nálgunarbanni sé átt við þau tilvik þegar manni er bannað að koma á tiltekinn stað eða svæði, veita eftirför, heimsækja eða setja sig með öðru móti í samband við annan mann. Tilgangur nálgunarbanns er að veita þolendum ofbeldis og ofsókna vernd og fyrirbyggja frekari brot. Nálgunarbann er í eðli sínu íþyngjandi ákvörðun, en samkvæmt 4. mgr. 66. gr. Stjórnarskrá Íslands nr. 33/1994 er heimilt að setja meginreglunni um að menn skuli vera frjálsir ferða sinna takmarkanir með lögum. Slíkar takmarkanir eru heimilar samkvæmt lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Skilyrði fyrir beitingu nálgunarbanns koma fram í 4. gr. laga nr. 85/2011, en samkvæmt a. lið nefndrar greinar, er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola, eða, samkvæmt b. lið sömu greinar, að hætta sé á að viðkomandi muni brjóta gegn brotaþola samkvæmt a. lið áðurnefndrar lagagreinar. Samkvæmt 6. gr. laganna nr. 85/2011, verður nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafnaði samkvæmt gögnum málsins þann 13. janúar sl. beiðni brotaþola um brottvísun varnaraðila af heimilinu að [...] og hafnaði lögreglustjórinn jafnframt kröfu hennar um nálgunarbann gagnvart henni sjálfri, dóttur hennar og varnaraðila og tveimur börnum brotaþola, auk kröfu um bann við komu varnaraðila að [...] í [...]. Sama dag, 13. janúar sl. tók lögreglustjóri, á grundvelli 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011, að eigin frumkvæði til skoðunar mál brotaþola og ákvað að leggja nálgunarbann á varnaraðila í sex mánuði gagnvart brotaþola sjálfri, eins og nánar er lýst hér að framan, með ákvörðun sem varnaraðila var birt 14. janúar sl. Lögreglustjórinn sendi Héraðsdómi Reykjavíkur ákvörðun sína 16. janúar sl. með kröfu um staðfestingu hennar, sbr. 12. gr. laga nr. 85/2011 og tók dómurinn kröfuna til úrskurðar í gær, 19. janúar 2015. Þessi málsmeðferð samrýmist fyrrgreindri meðalhófsreglu 6. gr. laga nr. 85/2011.

Sú háttsemi sem varnaraðili er grunaður um og kærður fyrir að hafa uppi er rakin í kröfugerð lögreglustjóra svo sem greint er frá hér að framan. Felst sú háttsemi meðal annars í því að rjúfa friðhelgi einkalífs brotaþola í tvígang í janúar 2015, með sendingum mynda og myndskeiða af henni við kynlífsathafnir til vinnufélaga hennar og vinkonu. Þessa refsiverðu háttsemi, sem lögreglustjóri telur varða við 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hefur varnaraðili játað.

Þá hefur lögreglustjóri enn fremur til rannsóknar mál þar sem brotaþoli hefur kært varnaraðila fyrir að hafa beitt hana líkamlegu ofbeldi í tvígang í júlí 2014. Þá háttsemi hefur varnaraðili neitað að hafa viðhaft með þeim hætti sem brotaþoli lýsir. Fyrir liggja gögn lögreglu frá 30. júlí 2014, um áverka á brotaþola, sprungna vör, sem hún segir af völdum varnaraðila, en hann neitar að hafa valdið henni. Samkvæmt gögnum málsins höfðu brotaþoli og varnaraðili átt í deilum á heimili sínu þegar hún hlaut áverkann, en varnaraðili hafði yfirgefið vettvang þegar lögreglu bar að garði. Þá hefur varnaraðili viðurkennt hjá lögreglu að hafa ýtt brotaþola til hliðar í tröppum á [...] 27. júlí 2014, en lýsir aðdraganda og atburðum með öðrum hætti fyrir lögreglu en brotaþoli hefur gert.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram fyrir dóminum að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 til þess að leggja nálgunarbann á varnaraðila séu ekki fyrir hendi vegna þess að hann hefði ekki gerst sekur um þau ofbeldisbrot sem brotaþoli sakar hann um. Þá hafi myndsendingar varnaraðila í janúar ekki verið tilefnislausar og feli ekki í sér refsiverð brot, en þær hafi komið til í kjölfar og sem viðbrögð við umfjöllun brotaþola um málefni fjölskyldunnar í fjölmiðlum. Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að krafa brotaþola um nálgunarbann hafi verið sett fram til þess eins að hún kæmist hjá því að taka þátt í sáttameðferð á embætti sýslumanns varðandi ágreining aðila um forsjá og lögheimili dóttur þeirra. Brotaþoli hafi ákveðið að flytja í Kvennaathvarfið að tilefnislausu, hún dveldi þar virka daga en færi út um helgar.

Samkvæmt gögnum málsins hafa varnaraðili og brotaþoli átt í deilum vegna sambúðarslita um forsjá og lögheimili barns þeirra sem og um uppgjör fjármála. Sambúð varnaraðila og brotaþola mun hafa lokið fyrir um það bil þremur mánuðum, en þau fara saman með forsjá ungrar dóttur þeirra, sem mun hafa dvalist hjá foreldrum sínum á víxl. Nálgunarbannið, sem krafist er staðfestingar á í máli þessu, tekur hvorki til heimilis barnsins né þess sjálfs, heldur er nálgunarbanninu ætlað að vernda persónu brotaþola gegn áreiti af hálfu varnaraðila. Nálgunarbannið er ekki til þess fallið að skerða samvistir varnaraðila og barnsins eða hindra það að samkomulag náist milli hans og brotaþola um málefni barnsins. Nýtur í því efni úrræða barnalaga nr. 76/2003. Þá kemur nálgunarbann ekki í veg fyrir að unnt sé að ljúka fjárskiptum varnaraðila og brotaþola vegna sambúðarslita þeirra, t.d. með aðkomu lögmanna eða annarra umboðsmanna þeirra.

Með vísan til þess sem fram er komið er fallist á það með lögreglustjóra að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að varnaraðili hafi framið refsiverð brot gegn brotaþola og að með framferði sínu hafi hann valdið brotaþola mikilli vanlíðan og raskað friði hennar. Þá er fallist á það með lögreglustjóra, með vísun til nýlegra brota varnaraðila gegn friðhelgi brotaþola, sem hann hefur játað, að hætta sé á að varnaraðili haldi áfram að brjóta gegn brotaþola. Á það mat meðal annars stoð í þeim gögnum sem varnaraðili afhenti lögreglu við skýrslutöku í málinu og sýna hvernig samskiptum varnaraðila og brotaþola er háttað.

Með hliðsjón af öllu framansögðu er það niðurstaða dómsins að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 til að beita nálgunarbanni séu fyrir hendi og verður ekki séð að önnur og vægari úrræði dugi til að vernda brotaþola gegn þeirri hættu sem talin er vera fyrir hendi á því að varnaraðili raski friði hennar eða brjóti gegn henni með refsiverðum hætti. Þeir hagsmunir brotaþola sem nálgunarbanninu er ætlað að vernda verða taldir ríkari en þeir hagsmunir sem varnaraðili hefur af því að geta óhindrað nálgast brotaþola með eftirför, nálgast hana innan 50 metra radíus á almannafæri, eða sett sig í samband við hana með öðrum hætti, þegar honum sýnist svo.

Atvik máls þykja ekki gefa tilefni til að marka nálgunarbanninu skemmri tíma en sex mánuði eins og lögreglustjóri ákvað, að því virtu að lögreglustjóra ber að fella bannið úr gildi með nýrri ákvörðun þegar ástæður þær sem lágu til grundvallar beitingar úrræðisins eru ekki lengur fyrir hendi, sbr. 11. gr. laganna. Verður ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu því staðfest svo sem krafist er.

                Með vísan til annars vegar 3. mgr. 38. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og hins vegar 3. mgr. 48. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011, greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Brynjólfs Eyvindssonar hdl. og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl. sem ákveðin er 80.000 krónur til hvors lögmanns.

                Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem birt var 14. janúar 2015 fyrir X, kt. [...], þess efnis að hann skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði, þannig, að lagt er bann við því að hann veiti A, kt. [...], eftirför, nálgist hana á almannafæri sem nemi 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni, eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti. Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 80.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola,  Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 80.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.