Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-126
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamsárás
- Neyðarvörn
- Neyðarréttur
- Hæfi dómara
- Réttlát málsmeðferð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 14. apríl 2021 leitar Kristján Örn Elíasson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. mars sama ár í málinu nr. 42/2020: Ákæruvaldið gegn Kristjáni Erni Elíassyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa, í anddyri húsnæðis Landsbankans við Austurstræti í Reykjavík, veist með ofbeldi að brotaþola, sem þar sinnti störfum sem öryggisvörður. Var ákærða meðal annars gefið að sök að hafa tekið brotaþola kverkataki aftan frá og þannig dregið hann út um anddyri bankans að tröppum þar sem hann féll niður á tröppurnar með nánar tilgreindum afleiðingum. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í tvo mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða brotaþola skaðabætur.
4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann byggir á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant þar sem einn dómenda sem þá var settur landsréttardómari, hafi verið vanhæfur til að fara með málið vegna þess að hann hafi verið dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur þegar dómur í máli leyfisbeiðanda þar fyrir rétti var kveðinn upp 20. nóvember 2019 og að sama skapi þegar hann dæmdi í málinu í Landsrétti. Þá verði ekki betur séð en að umræddur dómari hafi verið settur dómari við Landsrétt án auglýsingar og undangengins hæfnismats. Leyfisbeiðandi byggir á því að réttmæt ástæða sé til þess að draga í efa að hann hafi hlotið réttláta málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Að auki hafi honum verið neitað um að tjá sig stuttlega um sakarefni málsins fyrir réttinum. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem ekki hafi verið metin með réttum hætti þau sjónarmið sem búi að baki 12., sbr. 13. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt telur hann að úrlausn málsins hafi verulega almenna þýðingu.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.