Hæstiréttur íslands

Mál nr. 585/2006


Lykilorð

  • Líkamsárás


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. mars 2007.

Nr. 585/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

Guðmundi Þóri Kristjánssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás.

G var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að X á heimili hans, slegið hann að minnsta kosti tvisvar í höfuðið og tvisvar í fót með stálkylfu, og bitið hann í löngutöng hægri handar, með þeim afleiðingum að X hlaut kúlu og skurð á hnakka, sár á löngutöng og mar á fæti. Í málinu lá fyrir að til átaka hafði komið milli G og X við heimili X í kjölfar þess að þeim varð sundurorða. Hins vegar var ekkert fram komið um að X hefði gefið G tilefni til að veitast að honum með hættulegri stálkylfu. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að árás G var fólskuleg, framin á heimili X þar sem stödd voru kona X og börn, og að við árásina beitti G hættulegu vopni sem hann beindi m.a. að höfði X. Þá rauf G með broti sínu skilorð eldri dóms þar sem hann var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi. Með vísan til þessa var refsing G hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða X nánar tilgreindar skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. október 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu en þyngingar á refsingu. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða X 807.568 krónur í skaðabætur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og greinir í ákæru.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu X verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. 

Í málinu er fram komið að ákærða og X varð sundurorða áður en til átaka milli þeirra kom. Hins vegar er ekkert fram komið um að X hafi gefið ákærða tilefni til að veitast að honum á heimili hans með hættulegri stálkylfu eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæða.

Ákvæði héraðsdóms um miskabætur, útlagðan kostnað og lögmannskostnað verða staðfest. Krafa hans um þjáningabætur er vanreifuð þar sem læknisfræðileg gögn vantar og verður henni því vísað frá héraðsdómi. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um vexti og dráttarvexti verða staðfest með þeim hætti sem greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málflutningslaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Guðmundar Þóris Kristjánssonar.

Kröfu X um þjáningabætur er vísað frá héraðsdómi.

Ákærði greiði X 292.556 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 200.000 krónum frá 16. október 2005 til 5. janúar 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 292.556 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 249.920 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 18. júlí 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. júní sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 6. janúar 2006 á hendur ákærða, Guðmundi Þóri Kristjánssyni, kt. 091263-3869, til heimilis að Sunnuflöt 1, Garðabæ;

„fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa síðdegis sunnudaginn 16. október 2005, ráðist á X [kennitala], á heimili hans að [...], og slegið hann þrjú högg í hnakka og tvö í vinstri fót með stálkylfu og bitið hann í löngutöng hægri handar. X hlaut af atlögunni kúlu og skurð aftan á hnakka, sár á löngutöng hægri handar, mar á læri og kálfa vinstri fótar.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreint brot.

X gerir kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða sér, skaða- og miskabætur, að fjárhæð kr. 807.568 ásamt 4,5% vöxtum frá 16. október til 25. desember 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9., sbr. 1 .mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.“

Skipaður verjandi ákærða, Hilmar Ingimundarson hrl., gerir aðallega þær kröfur fyrir hönd ákærða í refsiþætti málsins að ákærði verði sýknaður, en til vara að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er af hálfu ákærða þess jafnframt krafist aðallega að bótakröfu X verði vísað frá dómi, en til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunni.

I.

Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu barst lögreglunni á Akranesi tilkynning símleiðis frá fjarskiptamiðstöð lögreglu, sunnudaginn 16. október 2005, um kl. 16:55, þess efnis að aðstoðar væri óskað að [...] vegna líkamsárásar. Kom fram í tilkynningunni að ætlaður árásarþoli væri á leið á sjúkrahús en meintur árásarmaður á leið til Reykjavíkur í bifreiðinni OK-165. Fóru lögreglumenn þegar að [...].

Á vettvangi tók A á móti lögreglu og tjáði hún henni að tveir menn, ákærði í máli þessu og B, hefðu komið að heimili hennar og X og ákærði ráðist að X með barefli í anddyri hússins. Ákærði og félagi hans hefðu síðan yfirgefið vettvang á bifreiðinni OK-915.

Eftir að hafa rætt við A komu lögreglumenn á vettvangi upplýsingum um rétt bifreiðarnúmer til fjarskiptamiðstöðvar lögreglu. Stuttu síðar, eða laust fyrir kl. 17:30, handtók lögreglan í Reykjavík ákærða í Mosfellsbæ og var hann í kjölfarið færður á lögreglustöðina á Akranesi þar sem hann var vistaður í fangaklefa. Jafnframt lagði lögregla hald á barefli sem fannst í bifreiðinni OK-915.

X leitaði aðhlynningar á slysadeild í kjölfar framangreindra atburða. Í málinu liggur fyrir áverkavottorð C aðstoðarlæknis vegna áverka X, dags. 28. október 2005. Um niðurstöðu skoðunar á X segir eftirfarandi í vottorðinu:

„Talsvert er af storknuðu blóði aftan á hnakka sjúklings og niður með hálsi vinstra megin og niður á bringu. Er hann í rifnum bol um hálsmál. Talsvert stór kúla eða hematom er aftan á hnakka, ca. 3x3 cm í þvermál. Þykkt kúlu sjálfsagt um ½ cm. Eymsli eru við þreifingu þar og í kring. Einnig er aftan á hnakka vinstra megin skurður ca. 3 mm í þvermál, frekar hringlaga. Hætt er að blæða úr honum við komu en greinilegt að þar hefur blætt talsvert. Eymsli eru við þreifingu þar í kring. Á löngutöng hægri handar yfir DIP lið bæði medialt og lateralt eru tannaför eftir mannabit og nær það í gegnum húð. Hreyfigeta er þó góð í liðnum og ekki eymsli við palperingu þar. Ekki blæðir úr við skoðun en það hefur greinilega gert það áður. Á vinstri fæti er upphleypt svæði bæði á miðju læri lateralt sem og á miðjum kálfa lateralt sem gæti passað eftir högg af stálbarefli. Er upphleypta svæðið ca. 3 mm á breidd en ca. 10 cm að lengd. Ekki er að sjá merki um aðra áverka. “

II.

Ákærði sagði aðdraganda málsins þann að X hefði haft í vörslum sínum mótorhjól sem verið hefðu í eigu ákærða en skráð á nafn X. Hefði þetta fyrirkomulag helgast af fjárhagsstöðu ákærða á þessum tíma. Um tengsl þeirra X bar ákærði að X hefði unnið fyrir hann um hríð. Var á ákærða að skilja að milli hans og X hefði komið upp ágreiningur tengdur hjólunum og ákærða verið tekið að lengja eftir að fá þau til sín.

Nokkru fyrir 16. október 2005, sennilega viku áður, kvaðst ákærði hafa beðið félaga sinn, B, um að hafa símasamband við X. Hefði B borið það erindi upp við X að hann hefði áhuga á að skoða eitt hjólanna, sem ákærði hefði auglýst til sölu. X hefði þá svarað því til að hjólið væri ónýtt og hann í framhaldinu farið ófögrum orðum um ákærða.

Þegar ákærði hefði fengið fréttir af samtali B og X hefði honum þótt nóg vera komið „af þvælunni“. Ákærði hefði í framhaldinu fengið B til að fara með sér á sendiferðabíl upp á Akranes í þeim tilgangi að ná í eigur sínar. Aðspurður kannaðist ákærði við að eiga og hafa tekið með sér í ferðina kylfu þá sem lögregla haldlagði við rannsókn málsins. Kylfuna sagðist ákærði hafa tekið með sér þar sem hann hefði vitað að X væri vopnaður, „það er hans háttur“.

Þegar upp á Akranes var komið sagði ákærði þá B hafa farið að heimili X þar sem þeir hefðu hitt fyrir son hans sem verið hefði úti á tröppum hússins. Ákærði kvaðst hafa heilsað stráknum sem síðan hefði hlaupið inn og náð í föður sinn. X hefði komið í dyrnar og til orðaskipta komið milli hans og ákærða. X hefði lýst því yfir að ákærði ætti ekkert tilkall til hjólanna og hann síðan ausið svívirðingum yfir ákærða. Í kjölfarið hefði komið til handalögmála þeirra á milli. Aðspurður um hvor þeirra hefði átt upptökin að handalögmálunum kvaðst ákærði ekki geta sagt til um það en tók fram að áður en til þeirra kom hefði X verið búinn að hrækja framan í sig og ota glóandi sígarettu að andliti sínu. Einnig hefði hann sagt þeim B að hundskast í burtu.

Handalögmálum þeirra X lýsti ákærði nánar svo að um hefði verið að ræða tog og tusk. Vísaði ákærði til þess að forstofan sé mjög lítil og svigrúm til átaka því ekki mikið. Á einhverjum tímapunkti sagði ákærði X hafa ætlað að rífa út úr kjaftinum á sér „þá verður þetta bit til“. Í átökunum sagðist ákærði hafa tekið áðurnefnda kylfu fram en gat ekki nákvæmlega borið um hvenær það hefði verið. Kylfuna kvaðst hann aðspurður hafa geymt í buxnavasa. Ákærði viðurkenndi að hafa beitt kylfunni í átökunum og hefðu höggin komið ofarlega í X, sennilega í höfuðið á honum. Einnig kom fram hjá ákærða að kona X hefði einhvern þátt tekið í átökunum. Átökunum sagði ákærði hafa lokið með því að hann hefði hlaupið af vettvangi, með X á hælunum, og inn í sendibifreiðina. X hefði síðan látið tvö högg dynja með kylfu á rúðum bifreiðarinnar áður en B hefði náð að aka henni á brott.

Aðspurður kannaðist ákærði við að X hefði, á meðan á orðaskiptum þeirra stóð, farið í skó. Hann kvað hins vegar alrangt að hann hefði þá slegið X, eins og X hefði borið fyrir lögreglu.

 B sagði ákærði hafa yfirgefið vettvang þegar þeir X voru komnir „í hár saman“.

III.

X bar fyrir dómi að árið 2004 hefði hann unnið hjá ákærða. Kom fram hjá vitninu að ákærði hefði á þeim tíma verið að reyna að koma að nýju undir sig fótunum fjárhagslega og vitnið veitt honum nokkra aðstoð í því sambandi. Sagði vitnið ákærða standa í verulegri skuld við hann í dag vegna vangreiddra launa og næmi sú skuld rúmlega 2 milljónum króna.

Vitnið kvaðst hafa verið haldið „mótorhjóladellu“ er þeir ákærði kynntust og það átt mótorhjól. Vitnið hefði síðan keypt sér annað mótorhjól sem þeir ákærðu hefðu notað saman og ákærði í þeim tilgangi keypt sér hjálm og galla. Einhverju síðar kvaðst vitnið hafa keypt sér eitt hjól til viðbótar, svokallaðan krossara, og síðar hefðu þeir ákærði keypt annað slíkt hjól saman. Enn eitt hjólið hefði félag, D, sem stofnað hefði verið til utan um áðurnefndan atvinnurekstur, sem ákærði og vitnið hefðu átt saman, keypt handa syni vitnisins og hefði þar verið um fjórhjól að ræða. Þau kaup hefðu því í raun verið fjármögnuð af þeim ákærða í félagi.  Á þeim tíma sem nefnd hjól voru keypt kvaðst vitnið hafa verið búsett í Reykjavík.

Vitnið sagði aðstæður sínar hafa breyst er komið var fram á árið 2005. Elsti sonur vitnisins hefði flust heim til þess og þá hefði kona vitnisins verið orðin vanfær. Ákærði hefði því fengið annan aðila til að starfa með sér og sagði vitnið samstarfi þeirra ákærða hafa lokið með leiðindum í maí 2005. Er þar var komið sögu kvað vitnið ákærða hafa skuldað sér talsvert fé. Um sama leyti kvaðst vitnið hafa flutt búferlum upp á Akranes. Eftir það hefði vitnið ekki heyrt neitt af ákærða þess utan að hann hefði komið í sumarbústað til móður vitnisins með töluverðum látum og viljað taka áðurnefnt fjórhjól af henni. Þá hefði vitnið um viku áður en þau atvik gerðust, sem í ákæru er lýst, fengið símhringingu frá B nokkrum sem tjáð hefði vitninu að hann væri búinn að kaupa öll hjólin af ákærða.

Sunnudaginn 16. október 2005 sagði vitnið ákærða hafa komið að heimili þess að [...] við annan mann, sem vitnið kvaðst ekki hafa þekkt. Ákærði hefði barið að dyrum og kona vitnisins farið til dyra og síðan kallað vitnið til. Ákærði hefði tjáð vitninu að hann væri að sækja „dótið“ sem hann ætti. Vitnið hefði þá sagt ákærða að hann ætti einungis lítilræði hjá því sem yrði hjá vitninu áfram þar til þeir hefðu gert upp sín mál. Þeir ákærði hefðu síðan þrætt um stund. Hefði ákærði meðan á því stóð staðið í dyragættinni en félagi hans reglulega stigið inn í forstofuna og ögrað vitninu. Vitnið sagðist aftur á móti hafa forðast að ögra ákærða og neitaði alfarið ásökunum ákærða um að það hefði hrækt á hann eða otað að honum glóandi sígarettu. Vitnið kvaðst ítrekað hafa óskað eftir því við ákærða og félaga hans að þeir færu á brott, en án árangurs. Í þeim tilgangi að ná þeim frá húsinu, sem í hefðu verið börn, meðal annars eitt tveggja vikna gamalt, kvaðst vitnið hafa ákveðið að reyna að láta mennina elta sig að bifreið þeirra. Vitnið hefði því beygt sig niður til að klæða sig í skó en þá fengið mikið högg í höfuðið. Fullyrti vitnið að engir pústrar eða hrindingar hefðu áður gengið á milli sín og ákærða. Í kjölfarið hefði vitnið hlotið eitt eða tvö högg til viðbótar. Vitnið hefði náð að standa upp og grípa um hönd ákærða og þá séð að hann hélt á kylfu, er vitnið bar kennsl á fyrir dómi sem hina haldlögðu kylfu. Vitnið kvaðst því næst hafa gripið um hálsmál ákærða og ýtt honum upp að útidyrahurðinni og við það hefði rúða í hurðinni brotnað. Ákærði hefði náð að losa höndina og haldið áfram að berja vitnið, í kviðinn og lærin. Með einhverjum hætti hefði fingur vitnisins farið upp í ákærða sem bitið hefði í fingurinn. Vitnið kvaðst við það hafa rekið upp öskur og hundur sem vitnið eigi þá komið á vettvang og stokkið á ákærða. Við það hefði ákærði sleppt fingrinum, dottið og öskrað: „Komum okkur“. Þegar ákærði hefði stokkið af stað í burtu sagðist vitnið hafa hlaupið inn í svefnherbergi sitt og náð í barefli, sem það hefði vitað af þar, og því næst hlaupið út úr húsinu og út á götu og í veg fyrir bifreið ákærða og félaga hans. Vitnið hefði síðan barið í framrúðu bifreiðarinnar sem brotnað hefði við höggið.

Aðspurt sagði vitnið konu sína hafa komið á vettvang í forstofunni þegar atgangurinn var hafinn og hefði hún reynt að toga í ákærða. Fósturdóttir vitnisins hefði einnig verið á vettvangi öskrandi, sem og sonur vitnisins. Um það hvar félagi ákærða hefði verið meðan á átökunum stóð bar vitnið að sér fyndist eins og hann hefði verið kominn hálfur inn í forstofuna og verið að reyna að toga sig niður.

Fram kom hjá vitninu að fingur þess hefði verið „í rúst“ eftir átökin. Þá hefði það verið með mjög stóra kúlu á höfðinu, skurð á hnakka og einnig mar og hefðu áverkarnir samrýmst því að vitnið hefði fengið þrjú mikil högg á höfuðið. Aðspurt kvaðst vitnið ekki minnast þess að hafa í átökunum við ákærða skollið með höfuð í gólf eða veggi. Þá bar vitnið að það hefði jafnframt verið með marbletti á læri. Kvaðst vitnið hafa verið óvinnufært um hríð og átt í afleiðingunum árásar ákærða í á annan mánuð. Að lokum kom fram hjá vitninu að greinst hefði mar á heila þess og frumubreytingar í framhaldi af því. Hafði vitnið það eftir læknum að tíminn einn myndi leiða í ljós hverjar afleiðingar þessa yrðu fyrir vitnið, en tók fram að því fyndist afleiðingar árásarinnar ekki há því lengur.

A greindi svo frá fyrir dómi að sunnudaginn 16. október 2005 hefði hún setið inni í stofu á heimili sínu er henni hefði verið litið út um gluggann og hún þá komið auga á ákærða stíga út úr bifreið fyrir utan húsið ásamt öðrum manni sem hún hefði ekki kannast við. Mennirnir hefðu gengið upp að húsinu og barið að dyrum. Líklega hefði dóttir vitnisins farið til dyra en X síðan farið fram. Vitnið sagðist í fyrstu hafa staðið í holinu og horft fram í forstofuna en síðan sest aftur inn í stofu með tveggja vikna gamalt barn þeirra X í fanginu.

Einhverju síðar kvaðst vitnið hafa heyrt brothljóð. Það hefði þá hálfpartinn fleygt barninu frá sér, hrópað á dóttur sína 14 ára að taka við því, en síðan hlaupið fram og opnað hurðina fram í forstofu. Vitnið hefði þá séð hvar ákærði og X voru í stympingum og hefði blóð lekið niður hálsinn á X. Félaga ákærða sagði vitnið hins vegar hafa staðið á pallinum framan við útihurðina. Vitnið sagði einn fingur X hafa verið uppi í ákærða. Vitnið kvaðst hafa reynt að ganga á milli, en tók fram að atburðarásin væri öll þokukennd í huga sínum. Skyndilega hefði ákærði hlaupið í burtu og X þá farið inn í herbergi, náð í hafnaboltakylfu sem hann eigi og geymd hafi verið uppi í skáp, og hlaupið út á eftir ákærða. Ákærði og félagi hans hefðu síðan ekið á brot með miklum látum.

B lýsti málsatvikum svo að umræddan dag hefði hann farið frá Reykjavík og upp á Akranes ásamt ákærða þeirra erinda að sækja mótorhjól í eigu ákærða, sem X hefði tekið með sér upp á Akranes er hann flutti þangað og neitað að skila. Sagði vitnið hafa komið til tals milli þess og ákærða að erfitt gæti reynst að fá hjólin afhent. Valdbeiting hefði hins vegar ekki komið til tals í því sambandi og tók vitnið skýrt fram hefði ekki verið ætlan þeirra ákærða að taka hjólin af X með valdi.

Rak vitnið minni til þess að þeir ákærði hefðu rekist á son X fyrir utan heimili hans. Þeir hefðu síðan bankað uppá, X komið og ákærði beðið hann um að afhenda hjólin. X hefði neitað og borið því við að ákærði skuldaði honum peninga. Vitnið sagði í kjölfarið hafa komið til snarpra orðaskipta milli ákærða og X sem staðið hefðu hvor á móti öðrum úti á palli fyrir framan útidyrahurðina. Hefði X gert í því með orðum og ögrandi framkomu að æsa ákærða upp í þeim tilgangi að fá hann til að ráðast á sig. Á meðan á þessu stóð kvaðst vitnið hafa staðið til hliðar við tvímenningana.

Um það hvor þeirra ákærða og X hefði átt upptökin að líkamlegum átökum kvaðst vitnið ekki geta um það borið, það hefði litið til hliðar og skyndilega hefði allt verið komið „í bál og brand“ og ryskingar hafnar milli tvímenninganna. Kom fram hjá vitninu að það hefði hörfað undan niður tröppurnar og um það leyti hefði sambýliskonu X borið að. Vitnið hefði því næst gengið að bifreið þeirra ákærða og ákærði komið hlaupandi á eftir. X hefði síðan komið hlaupandi á eftir ákærða með hafnaboltakylfu og hefði hann brotið framrúðu bílsins og beyglað hliðar hans.

Aðspurt um hvort það hefði séð ákærða með kylfu í hendi meðan á átökum hans og X stóð svaraði vitnið því játandi en gat hins vegar ekki borið um með hvaða hætti ákærði hefði beitt kylfunni.

Eftir að vitnið og ákærði yfirgáfu heimili X kvað vitnið þá hafa ekið sem leið lá til Reykjavíkur en í Mosfellsbæ hefðu þeir verið stöðvaðir af lögreglu. Þar hefði ákærði verið handtekinn og færður upp á Akranes. Staðfesti vitnið að í kjölfar handtöku ákærða hefði hin haldlagða kylfa verið afhent lögreglu.

E skýrði svo frá fyrir dómi að 16. október 2005 hefði hann orðið var við mikinn gauragang á neðri hæð hússins að Suðurgötu 17. A hefði síðan komið og lamið á útihurðina á íbúð vitnisins. Vitnið hefði þá rokið út á svalir og séð Econoline bifreið æða á brott og hefði X þá staðið nærri bifreiðinni. Vitnið kvaðst strax hafa hlaupið niður og strax veitt athygli brotinni rúðu. Þá kvaðst vitnið hafa séð áverka á X. Hann hefði verið blóðugur aftan á hnakka og með áverka á fingri.

IV.

Fyrir liggur að síðdegis sunnudaginn 16. október 2005 fór ákærði ásamt B frá Reykjavík til Akraness þeirra erinda að sækja mótorhjól sem X hafði í sínum vörslum en ákærði taldi sig eiga. Samkvæmt framburði ákærða hafði hann stálkylfu meðferðis. Einnig er upplýst með framburði ákærða, X og B að til snarpra orðaskipta kom á milli ákærða og X í og við innganginn á heimili þess síðastnefnda að [...] eftir að hann neitaði að afhenda ákærða hjólin. Enn fremur liggur fyrir að í kjölfarið kom til átaka milli ákærða og X, þó svo tvímenninganna greini á um eðli átakanna og hver upptök þeirra hafi verið. Viðurkenndi ákærði fyrir dómi að hafa beitt áðurnefndri stálkylfu í átökunum og þá er upplýst að í þeim hlaut X talsvert stóra kúlu aftan á hnakka, 3x3 cm í þvermál, skurð vinstra megin á hnakka, bitsár á löngutöng hægri handar og mar á læri og kálfa vinstri fótar, sbr. áverkavottorð C aðstoðarlæknis, dags. 28. október 2005.

Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki geta sagt til um það hvor þeirra X hefði átt upptökin að átökum þeirra. Hann tók hins vegar fram að áður en til þeirra kom hefði X verið búinn að hrækja framan í hann og ota glóandi sígarettu að andliti hans. Átökunum lýsti ákærði svo að um hefði verið að ræða tog og tusk. Í þeim hefði X ætlað að rífa út úr kjaftinum á ákærða „þá verður þetta bit til“. Á einhverjum tímapunkti kvaðst ákærði hafa tekið stálkylfuna úr buxnavasa sínum og beitt henni í átökunum. Sagði hann höggin hafa komið ofarlega í X, sennilega í höfuðið á honum.

X lýsti upptökum átaka þeirra ákærða hins vegar svo að þegar hann hefði beygt sig niður til að klæða sig í skó hefði hann fengið mikið högg í höfuðið. Fullyrti X að engir pústrar eða hrindingar hefðu áður gengið á milli hans og ákærða. Í kjölfarið hefði ákærði veitt honum eitt eða tvö högg til viðbótar. Hann hefði náð að standa upp og grípa um hönd ákærða og þá séð að hann hélt á kylfu. X kvaðst því næst hafa gripið um hálsmál ákærða og ýtt honum upp að útidyrahurðinni en ákærði náð að losa höndina og haldið áfram að berja hann, í kviðinn og lærin. Þá hefði í fingur hans með einhverjum hætti farið upp í ákærða í átökunum og ákærði þá bitið í fingurinn.

Svo sem rakið hefur verið nýtur einungis framburða ákærða og X um upptök átaka þeirra. Við mat á framburðunum þykir mega líta til þess að ákærði fór, án þess að gera boð á undan sér, við annan mann að heimili X með stálkylfu í fórum sínum, sem hann síðan beitti gegn X. Einnig þykir mega líta til þess að X hafði eftir átökin áverka á hnakka, talsvert stóra kúlu og skurð, en aftur á móti verður ekki af gögnum málsins ráðið að ákærði hafi hlotið áverka í átökunum. Telja verður áverkana á hnakka X vera eindregið til stuðnings þeim framburði hans að ákærði hafi ráðist að honum að óvörum með þeim hætti sem að framan er rakið. Að þessu og öðru framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að veita megi framburði X svo mikið vægi að með honum teljist nægjanlega sannað, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum að ákærði hafi á þeim stað og tíma sem í ákæru greinir fyrirvaralaust veist að X og slegið hann a.m.k. tvisvar í höfuðið og tvisvar í vinstri fót með stálkylfu, og bitið hann í löngutöng hægri handar, með þeim afleiðingum sem í ákæru er lýst, sbr. framlagt læknisvottorð. Með þeirri háttsemi braut ákærði gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

V.

A.

Í málinu krefst brotaþoli, X, þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaða- og miskabætur, samtals að fjárhæð 807.568 krónur ásamt 4,5% vöxtum frá 16. október til 25. desember 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9., sbr. 1 .mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Brotaþoli kveðst hafa orðið fyrir mjög alvarlegri líkamsárás af hendi ákærða á heimili sínu. Árás ákærða hafi verið tilefnislaus og gróf. Skaða- og miskabótakröfu sína segir brotaþoli styðjast við almennar reglur skaðabótaréttar, einkum sakarregluna, en samkvæmt þeim skuli tjónvaldur bæta tjónþola allt það tjón hans sem af saknæmri háttsemi hins fyrrnefnda hafi leitt.

Í fyrsta lagi krefst brotaþoli 30.000 króna vegna útlagðs kostnaðar, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Í öðru lagi krefst brotaþoli þjáningabóta í 38 daga, samtals að fjárhæð 39.900 krónur. Hann kveðst hafa orðið fyrir andlegu og líkamlegu áfalli við árásina og þjáðst af stöðugum höfuðverk frá árásardegi. Hann eigi rétt á þjáningarbótum fyrir tímabilið frá því að árásin átti sér stað og þar til ástand hans var orðið stöðugt.

Í þriðja lagi krefst brotaþoli miskabóta að fjárhæð 600.000 krónur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en með umræddri árás hafi ákærði gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn friði og persónu brotaþola. Vísar brotaþoli til þess að árás ákærða hafi verið tilefnislaus, stórhættuleg, fólskuleg og niðurlægjandi. Þá hafi hún verið gerð með hættulegu vopni og inni á heimili brotaþola að viðstöddum konu hans og börnum. Árásin hafi verið til þess fallin að valda kæranda verulegum skaða, ótta og þjáningum. Enn fremur vísar brotaþoli til þess að ákærði hafi bitið hann í fingur sem mögulega hefði getað borið smit einhverra sjúkdóma til brotaþola. Óvissan um slíkt smit hafi valdið brotaþola vanlíðan og erfiðleikum.

Þá gerir brotaþoli að endingu kröfu um lögmannskostnað með virðisaukaskatti, samtals að fjárhæð 137.668 krónur, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.

B.

Samkvæmt framansögðu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir að hafa slegið og bitið brotaþola á áðurgreindum stað og tíma með þeim afleiðingum sem í ákæruskjali greinir. Er það niðurstaða dómsins að ákærði beri skaðabótaábyrgð á því tjóni brotaþola sem rekja má til hinnar refsiverðu háttsemi.

Krafa brotaþola um greiðslu 30.000 króna útlagðs kostnaðar er studd reikningum að hluta. Verður ekki annað séð en útlagður kostnaður, sem studdur er reikningum, að fjárhæð 12.566 krónur, falli undir ákvæði 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ber því að dæma ákærða til að greiða þá fjárhæð. Umræddur kröfuliður er að öðru leyti engum gögnum studdur og verður þegar af þeirri ástæðu ekki frekar á hann fallist.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga skal greiða þjáningabætur fyrir tímabilið frá því að tjón varð þar til heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, 1.300 kr. fyrir hvern dag sem hann er rúmfastur og 700 kr. fyrir hvern dag sem hann er veikur án þess að vera rúmfastur. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að greiða þjáningabætur þótt tjónþoli sé vinnufær. Nefndar fjárhæðir eru vísitölutengdar, sbr. 15. gr. laga nr. 50/1993.

Samkvæmt orðum 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga og dómaframkvæmd er það meginregla að tjónþoli fær ekki greiddar þjáningabætur þegar hann er vinnufær. Af gögnum málsins verður ekkert ráðið með vissu um óvinnufærni brotaþola eftir árás ákærða. Þá þykja að gögnum málsins virtum ekki vera efni til að dæma brotaþola þjáningabætur á grundvelli 2. ml. 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga. Kröfu brotaþola um þjáningabætur er því hafnað.

Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna árásarinnar á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun bótanna þykir verða að líta til þess að árás ákærða var gróf, hún var gerð með hættulegu vopni og á heimili brotaþola þar sem stödd voru kona hans og börn þeirra. Að þessu virtu þykja miskabætur til handa brotaþola hæfilega ákvarðaðar 200.000 krónur.

Bótakrafa brotaþola var kynnt ákærða 5. desember 2005 samkvæmt framlagðri lögregluskýrslu. Krafan ber því dráttarvexti samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá  5. janúar 2006 til greiðsludags.

Með vísan til alls framangreinds dæmist ákærði til að greiða brotaþola 212.556 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. október 2005 til 5. janúar 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála á brotaþoli rétt til bóta vegna lögmannskostnaðar sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni í málinu. Bætur til brotaþola á grundvelli nefnds ákvæðis þykja hæfilega ákveðnar 80.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

VI.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins var ákærði dæmdur til fangelsisvistar í einn mánuð 1993 fyrir þjófnað, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Í apríl 2001 gekkst hann undir sektargerð lögreglustjóra þess efnis að hann greiddi 80.000 króna sekt fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot. Með dómi 2. maí sama ár var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir nytjastuld. Í október 2002 gekkst hann undir sektargerð lögreglustjóra fyrir þjófnað þess efnis að hann greiddi 25.000 króna sekt.  Með dómi 16. júní 2003 var ákærði dæmdur til greiðslu 25.000 króna sektar fyrir vopnalagabrot. Þá var hann 7. apríl 2004 dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir húsbrot og eignaspjöll, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Var dómurinn frá 2. maí 2001 dæmdur með í því máli.

Með broti því sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir rauf hann skilorð dómsins frá 7. apríl 2004. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber að taka skilorðsdóminn upp og dæma hann með í máli þessu og ákvarða ákærða refsingu í einu lagi að teknu tilliti til 77. gr. laganna.

Svo sem rakið hefur verið var árás ákærða fólskuleg. Var hún framin á heimili brotaþola þar sem stödd voru kona hans og börn þeirra. Við árásina beitti ákærði hættulegu vopni og beindi henni meðal annars að höfði brotaþola.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi. Vegna sakaferils ákærða og að broti hans virtu þykir ekki fært að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.

Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála dæmist ákærði til að greiða allan kostnað sakarinnar. Með vísan til framlagðs sakarkostnaðaryfirlits dæmist ákærði til að greiða 21.010 krónur vegna áverkavottorðs. Ákærði dæmist jafnframt til að greiða útlagðan kostnað vegna starfa tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi, 31.227 krónur Að auki verður hann dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda, sem hæfilega teljast ákveðin 199.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og enn fremur ferðakostnað verjanda 27.770 krónur. Ákærði greiði því sakarkostnað samtals að fjárhæð 279.207 krónur.

Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Guðmundur Þórir Kristjánsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði greiði X 212.556 krónur auk vaxta af þeirri fjárhæð skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. október 2005 til 5. janúar 2006, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af nefndri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags og 80.000 krónur í lögmannskostnað.

Ákærði greiði 279.207 krónur í sakarkostnað, en þar af eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 199.200 krónur.