Hæstiréttur íslands

Mál nr. 311/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 12

 

Þriðjudaginn 12. júlí 2005.

Nr. 311/2005.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Guðjón Jóel Björnsson fulltrúi)

gegn

X

(Elísabet Sigurðardóttir hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. júlí 2005. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. júlí 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. júlí 2005 klukkan 11. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. júlí 2005.

Mál þetta barst dóminum 7. júlí s.l. með bréfi sýslumannsins á Akureyri dagsettu sama dag og var að yfirheyrslu lokinni yfir kærða tekið til úrskurðar samdægurs.

Krefst sýslumaðurinn þess að X, [kt. og heimilisfang], verði á grundvelli a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, úrskurðaður í gæsluvarðhald allt til föstudagsins 15. júlí n.k.

Af hálfu kærða er þess krafist að gæsluvarðhaldskröfunni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.

Sýslumaður kveður málsatvik vera þau að kærði X ásamt Y, [kt.] hafi verið handtekin 6. júlí 2005 á núverandi dvalarstað þeirra að [...], í framhaldi af húsleit sem þar hafi farið fram.

Kærði hafi margsinnis komið við sögu lögreglu og sé m.a. grunaður um að hafa stundað þjófnaði á nýlegum reiðhjólum, staðið í innbrotum auk fíkniefnabrota, en grunur leiki á að kærði stundi þjófnaði og innbrot til að fjármagna fíkniefnaneyslu.

Lögregla hafi rökstuddan grun um að kærði hafi komið við sögu í innbrotum og þjófnuðum sem átt hafi sér stað í bænum og víðar undanfarið.

Þann 4. júlí s.l. hafi verið tilkynnt um þjófnað á golfsetti úr sameign að [...], þar sem kærði mun hafa búið áður.

Þann 20. febrúar s.l. hafi verið tilkynnt um að brotist hefði verið inn í Árskógsskóla Dalvíkurbyggð og stolið tölvum, myndavélum og fleiri búnaði að verðmæti yfir 1.000.000. kr.

Þann 4. júlí s.l. hafi verið tilkynnt um að brotist hefði verið inn í skrifstofu Ísfélags Vestmannaeyja hf. í Krossanesi og tölvubúnaði stolið.

Þann 23. júní s.l. hafi verið tilkynnt um innbrot í KA heimilið, unnar hafi verið skemmdir og stolið m.a. peningum.

Auk þessa séu fleiri tilvik til rannsóknar hjá lögreglu þar sem kærði sé talinn hafa komið við sögu.

Ljóst sé að umtalsverðir fjármunir/verðmæti hafi horfið í innbrotum þessum.

Við húsleit 6. júlí s.l. hafi fundist mikið magn ætlaðs þýfis m.a. reiðhjól og reiðhjólahlutar, hljómflutningstæki og tölvubúnaður.  Þá hafi greinileg merki verið um fíkniefnineyslu og hafi þar m.a. verið að finna 40 cm. háa kannabisjurt.

Við handtöku X og Y hafi þau verið með ætlað þýfi úr verslunum hér í bæ.

Þar sem rannsókn málanna sé hvergi nærri lokið og taka þurfi frekari skýrslu af kærða og öðrum sem tengist hugsanlega málunum sé farið fram á að kærði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald þar sem talin sé veruleg hætta á að rannasóknarhagsmunum verði spillt gangi hann laus eins og staða rannsóknar málsins sé nú.

Brot ákærða sé talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, auk þess sem grunur sé um brot á fíkniefnalögum.

Í málinu liggja fyrir lögregluskýrslur sem styðja framangreint.  Þykir því grunur lögreglu um að kærði kunni að hafa framið a.m.k. einhver þeirra brota er að framan eru talin og varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.  Eru því lagaskilyrði fyrir hendi til að verða við kröfu sýslumanns.

Þykir hæfilegt að úrskurða kærða til að sæta gæsluvarðhaldi til föstudags 15. júlí n.k. kl. 11:00.

Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

Á L Y K T A R O R Ð :

Kærði X, [kt.], skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 15. júlí n.k. kl.11:00.