Hæstiréttur íslands
Mál nr. 386/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. maí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til sunnudagsins 19. júní 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að sér verði gert að dvelja á viðeigandi stofnun, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til sunnudagsins 19. júní 2016, kl. 16.00, á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að embætti hans hafi nú til rannsóknar eftirfarandi mál er varða kærða, X.
Mál lögreglu nr. 007-2016-[...] Mál lögreglu nr. 007-2016-[...] Kærði er grunaður um þjófnað, með því að hafa föstudaginn 20. maí 2016 brotist inn og stolið í félagið við annan mann, tveimur tölvum í húsnæði [...] að [...], Reykjavík. Kl. 05:58 hafi lögreglu borist tilkynning um yfirstandandi innbrot í húsnæði [...], tveir menn hafi spennt upp rennihurð að aðalinngangi en komist undan þegar þeirra hafi orðið vart með tvær Apple IMac tölvur undir hendinni. Þeir hafi síðan hlaupið í burtu og í bifreiðina [...]. X hafi verið handtekinn laugardaginn 21. maí vegna mál 007-2016-[...] í [...]. Hann hafi verið rænulaus vegna vímuefnaneyslu þegar komið hafi verið með hann á lögreglustöðina. Tekin hafi verið skýrsla af X sunnudaginn 22. maí 2016. X kveðst ekki muna eftir að hafa farið þarna og neiti að hafa gert það sem honum sé gefið að sök. Þá neiti X að mynd úr eftirlitsmyndavélakerfi sé af honum, en lögreglumenn hafi borið kennsl á X á myndinni.
Kærði er einnig sterklega grunaður um eftirgreind brot:
- Mál lögreglu nr. 007-2016-[...] Nytjastuld og þjófnað, með því að hafa mánudaginn 16. maí 2016 stolið bifreiðinni [...] þar sem hún hafi staðið á bifreiðastæði utan við [...], rótað á kaffistofu starfsmanna [...] og stolið þaðan lyklakippu sem á hafi verið lyklar af bifreiðinni [...] og stolið úr bifreiðinni Ray Ban sólgleraugum. Kærði hafi verið handtekinn skömmu síðar þar sem að hann hafi falið sig í geymslu í kjallara að [...]. Við yfirheyrslu hafi hann játað nytjastuld og þjófnað.
- Mál lögreglu nr. 007-2016-[...]. Innbrot og þjófnað, nytjastuld bifreiðanna [...] og [...], að [...]. Þarna hafi verið brotist inn í bílskúr við [...] og stolið þaðan m.a. sjónvarpi og lyklum að tveimur bifreiðum. Bifreiðarnar hafi verið fyrir utan bílskúrinn og hafi þær verið horfnar. Ábending hafi borist um að önnur bifreiðin [...] væri utan við heimili kærustu kærða. Rannsókn þessa máls sé enn í gangi og ekki hafi gefist færi á að yfirheyra kærða vegna málsins.
- Mál lögreglu nr. 007-2016-[...] Fjarsvik með því að hafa miðvikudaginn 11. maí 2016 reynt að nota greiðslukort sem ekki hafi verið í hans eigu í verslun [...], [...], en tilkynning hafi borist frá versluninni að X væri þar í annarlegu ástandi að reyna að nota greiðslukort annars einstaklings.
- Mál lögreglu nr. 007-2016-[...] Nytjastuld með því að hafa miðvikudaginn 11. maí 2016 stolið bifreiðinni [...] í félagi við annan mann. Lögreglu hafi borist tilkynning þann 11. maí sl. um að bifreiðin hafi fundist utan vega við Kjósarskarðsveg þar sem tveir menn í annarlegu ástandi hefðu verið að fara frá henni. Málið sé til rannsóknar, ekki hafi verið tekin skýrsla af kærða vegna þess.
- Mál lögreglu nr. 318-2016-[...] Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 11. maí 2016 brotist inn í sumarhús og stolið þaðan sjónvarpi, tveimur golfkylfum, hárblásara, snyrtivörum, lyfjum og matvælum, ekki hafi verið tekin skýrsla af kærða vegna þessa.
- Mál lögreglu nr. 007-2016-[...] Nytjastuld, með því að hafa í félagi við annan aðila stolið bifreiðinni [...] af bílastæði við bílasöluna [...] að [...] í [...]. Ekki hafi verið tekin skýrsla af kærða vegna þessa.
- Mál lögreglu nr. 007-2016-[...] Þjófnað með því að hafa sunnudaginn 8. maí 2016 stolið farsíma að verðmæti kr. 41.000. Ekki hafi verið tekin skýrsla af kærða vegna þessa.
- Mál lögreglu nr. 007-2016-[...] Þjófnað með því að hafa sunnudaginn 17. apríl, í félagi við annan mann brotist inn húsnæði að [...] í Reykjavík og stolið þaðan Mac book Air, Mac Book pro, Canon 600 D myndavél, Canon ljósmyndalinsu, Og Pro Hero Silver myndavél, bakpoka, tveimur borvélum, rafmagnssög, 66N úlpu. Ekki hafi verið tekin skýrsla af kærða vegna þessa.
- Mál lögreglu nr. 007-2016-[...] Umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 16. apríl 2016, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna í blóði hafi mælst 85 ng/ml af amfetamín og 1,1 ng/ml af tetrahýdrókannabínól. Kærði hafi játað brotið.
- Mál lögreglu nr. 008-2016-[...] Innbrot og tilraun til þjófnaður úr heimahúsi, [...], [...], með því að hafa þriðjudaginn 12. apríl farið inn í húsið ásamt öðrum og fyllt þar íþróttatösku og plastpoka með munum úr húsinu. Vitni hafi séð þau fara inn í húsið og lögregla hafi komið þar fljótt að og sé X handtekinn ásamt öðrum. Þá hafi þar fyrir utan verið bifreiðin [...] sem hafi verið stolið. Kærði kveðst hafa fengið bifreiðina lánaða hjá vini sínum og hann bara farið þangað sem hann hafi verið beðinn um að fara með samferðamönnum sínum og hann hafi talið að hún hafi farið inn með lykli og hann farið inn. Framburður hans verði að teljast mjög ótrúverðugur.
Þá megi sjá fleiri mál í dagbók lögreglunnar þar sem meint brot kærða, umferðarlagabrot, nytjastuldur og þjófnaðarbrot séu til rannsóknar og þar m.a:
· Mál 007-2016-[...], 17. apríl 2016, nytjastuldur á bifreiðinni [...].
· Mál 007-2016-[...], 18. mars 2016, þjófnaður á verkfæurm að [...], Reykjavík.
Kærði eigi að baki þó nokkurn sakaferil fyrir auðgunarbrot og sérrefsilagabrot. Kærði hafi síðast hlotið dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 28. apríl á síðasta ári og lokið afplánun í janúar sl.
Það sé mat lögreglu að hér sé um að ræða afbrotahrinu sem nauðsynlegt sé fyrir lögreglu að stöðva og reyna að ljúka málum kærða. Brotaferill kærða hafi verið samfelldur frá því hann hafi lokið afplánun sbr. ofangreint. Ljóst sé að kærði sé í mikilli neyslu vímuefna og fjármagni neyslu sína m.a. með innbrotum.
Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og það sé brýnt fyrir lögreglu að kærði sæti gæsluvarðhaldi uns málum hans sé lokið hjá lögreglu og eftir atvikum fyrir héraðsdómi. Það sé mat lögreglu að sakborningur muni ekki fá skilorðsbundinn dóm, vegna fjölda málanna og alvarleika brotanna.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Kærði á að baki þó nokkurn sakaferil og kvaðst hafa verið fjórum sinnum í fangelsi. Í janúar sl. lauk hann afplánun á dómi er hann hlaut 28. apríl 2015. Í fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar kvaðst kærði hafa verið í mikilli neyslu undanfarið og misst tökin.
Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa oft, í apríl til maí sl., framið brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og sérrefsilögum, sem öll geta varðað hann fangelsisrefsingu, sannist sök, svo sem rakið er í greinargerð lögreglustjórans. Af því sem fram hefur komið fyrir dómi verður ráðið að miklar líkur séu á að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fullnægt svo fallast megi á kröfu lögreglustjórans. Ekki þykir tilefni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Verður krafan því tekin til greina eins og í úrskurðarorði greinir.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi til sunnudagsins 19. júní 2016, kl. 16.00.