Hæstiréttur íslands

Mál nr. 318/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Afhending gagna
  • Verjandi
  • Gagnaöflun
  • Sönnunargögn


                                              

Föstudaginn 10. maí 2013.

Nr. 318/2013.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

Kærumál. Afhending gagna. Verjandi. Gagnaöflun. Sönnunargögn. 

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem ákæruvaldinu var gert að afhenda X nánar tilgreindar greinargerðir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að hvorki væri um að ræða málsóknarskjal í sakamáli né sönnunargagn um atvik máls. Ákæruvaldinu væri því ekki skylt að leggja það fram við meðferð sakamáls. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. maí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2013, þar sem sóknaraðila var gert að afhenda varnaraðila nánar tilgreindar greinargerðir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti eru áréttuð þau sjónarmið sem fram koma í beiðni hans til héraðsdóms um afhendingu fyrrgreindra greinargerða og er þar jafnframt vísað til rökstuðnings í hinum kærða úrskurði. Verður því litið svo á að varnaraðili krefjist staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Skjal eins og það, sem hér um ræðir, er hvorki málsóknarskjal í sakamáli á sama hátt og ákæra né sönnunargagn um atvik máls sem ákæruvaldinu er skylt að leggja fram við meðferð sakamáls. Samkvæmt því verður hafnað beiðni varnaraðila um framlagningu þess. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2013.

Árið 2013, miðvikudaginn 8. maí. er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður í málinu nr. S-190/2013: Ákæruvaldið gegn X, en málið var tekið til úrskurðar 6. þ.m.

                Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 8. mars 2013, á hendur X fyrir fjölmörg kynferðisbrot og fyrir brot gegn barnaverndarlögum. Önnur ákæra á hendur ákærða var gefin út 4. apríl 2013, fyrir kynferðisbrot og fyrir brot gegn barnaverndarlögum. Málin voru sameinuð.

                Verjandinn hefur óskað eftir því við embætti ríkissaksóknara að fá afhent tiltekin gögn sem embætti ríkissaksóknara hafnað að afhenda.

                Eftir að sú afstaða lá fyrir krefst verjandinn þess að að ríkissaksóknara verði með dómsúrskurði gert skylt að afhenda tiltekin skjöl sem embættið hefur neitað að afhenda verjandanum. Verjandinn lýsir því svo að um sé að ræða greinargerðir Sigríðar Hjaltested lögfræðings hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, eða annars lögfræðings embættisins sem fylgdu með rannsóknargögnum málsins til ríkissaksóknara. Gögnin séu rannsóknargögn er varði síðari ákæru málsins, dagsetta 4. apríl 2013. Verjandinn bendir á að greinargerðir fylgi rannsóknargögnum vegna fyrri ákæru málsins. Krafa hans lúti að því að fá sams konar greinargerðir afhentar sem tengjast síðari ákæru málsins. Vegna kröfunnar er vísað til ákvæða 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008.

Ákæruvaldið hefur hafnað ósk verjandans um hin umbeðnu gögn og krefst þess að kröfunni verði hafnað. Bendir ákæruvaldið á að greinargerðirnar sem verjandinn vísar til og tengjast fyrri ákæru málsins og fylgi með gögnum málsins hafi gert það fyrir mistök. Greinargerðirnar hafi með réttu ekki átt að fylgja gögnum málsins. Gögnin séu vinnugögn ákæruvaldsins og ekki hluti rannsóknargagna og falli því ekki undir 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Gögnin hafi ekki þýðingu fyrir dómsmeðferð málsins og krafa ákæruvaldsins sé því sú að kröfu verjandans verði hafnað.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, skal verjandi jafn skjótt og unnt er fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, eins og nánar er lýst í lagagreininni. Ríkissaksóknari fer með ákæruvald í máli þessu. Greinargerðirnar sem verjandinn krefst afhendingar á eru ritaðar af rannsóknaraðilanum og vægi gagnanna takmarkast af því. Ákæruvaldið sendi dóminum ákæru ásamt sýnilegum sönnunargögnum sem það hyggst leggja fram í málinu, sbr. 154. gr. laga nr. 88/2008. Greinargerðir vegna fyrri ákæru málsins eru meðal gagna sem fylgdu þeirri ákæru. Af þeim sökum og til að samræmis sé gætt við meðferð beggja ákæranna fyrir dómi að þessu leyti þykir rétt, eins og á stendur og með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, að gera ákæruvaldinu að afhenda hinar umbeðnu greinargerðir.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari, kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Embætti ríkissaksóknara afhendi verjanda greinargerðir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem fylgdu með rannsóknargögnum ákæru dagsettrar 4. apríl 2013.