Hæstiréttur íslands
Mál nr. 273/2014
Lykilorð
- Börn
- Faðerni
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 11. desember 2014. |
|
Nr. 273/2014.
|
A (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn M (enginn) |
Börn. Faðerni. Frávísun frá Hæstarétti.
Máli A gegn M var vísað frá Hæstarétti þar sem áfrýjunarstefna hafði ekki verið birt í samræmi við ákvæði 83. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2014. Hún krefst þess að viðurkennt verði að stefndi sé faðir sinn og að honum verði gert að greiða einfalt meðlag með sér frá fæðingardegi til fullnaðs 18 ára aldurs. Þá krefst hún þess að þóknun lögmanns hennar vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti verði greidd úr ríkissjóði.
Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eftir ákvörðun Hæstaréttar var málið skriflega flutt fyrir réttinum.
Svo sem fram kemur í héraðsdómi var mál þetta höfðað með stefnu sem birt var í Lögbirtingablaði [...] 2012 og það þingfest 22. nóvember sama ár. Stefndi sótti hvorki þing við þingfestingu málsins né er þinghald var háð 12. mars 2013, en málið var þá tekið til úrskurðar. Með úrskurði héraðsdóms 27. sama mánaðar var málinu vísað frá héraðsdómi án kröfu á þeim grundvelli að ekki væri ljóst af stefnu hver stefndi væri og gengi það gegn a. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með dómi Hæstaréttar 23. apríl 2013 í máli nr. 251/2013 var frávísunarúrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til frekari meðferðar.
Næstu þinghöld í málinu fóru fram 11. júní og 8. júlí 2013 þar sem mætt var af hálfu áfrýjanda en ekki stefnda. Var þeim tilmælum beint til lögmanns áfrýjanda að afla sönnunargagna í málinu, meðal annars í þeim tilgangi að unnt yrði að hafa samband við stefnda. Á dómþingi 28. ágúst 2013 var af hálfu áfrýjanda lagt fram tölvubréf sem mun hafa verið frá stefnda til móður áfrýjanda ásamt þýðingu, en ekki var sótt þing af hálfu stefnda. Dómþing var á ný háð 5. september sama ár og sótti nafngreindur héraðsdómslögmaður þing fyrir stefnda sem skipaður málsvari hans, sbr. 13. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í þinghaldinu lagði málsvarinn fram gögn yfir tilraunir sínar til að hafa uppi á stefnda og upplýsa hann um málið. Í þinghaldi 18. september 2013 gerði málsvarinn frekari grein fyrir tilraunum sínum í þá veru og mótmælti kröfum áfrýjanda. Að svo búnu var málið dómtekið. Hinn 27. september 2013 kvað héraðsdómur upp dóm í málinu þar sem kröfum áfrýjanda var hafnað. Með dómi Hæstaréttar 6. febrúar 2014 í máli nr. 655/2013 var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju á þeim grundvelli að ekki hefðu verið skilyrði til að fara með málið samkvæmt 1. og 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála auk þess sem aðstoðarmann dómara, sem kvað upp dóminn, hafi brostið vald til að leysa efnislega úr málinu.
Þinghald var á ný háð 13. mars 2014. Af hálfu stefnda sótti það nafngreindur héraðsdómslögmaður sem skipaður var málsvari hans samkvæmt 13. gr. barnalaga. Greindi málsvarinn frá ítrekuðum tilraunum sínum til að hafa samband við stefnda sem ekki hefðu borið árangur. Taldi málsvarinn ekki þörf á að leggja fram greinargerð í málinu, en mótmælti kröfum áfrýjanda og byggði á því að ekki væri komin fram „lögfull sönnun fyrir faðerni“ hennar. Aðalmeðferð fór fram 20. sama mánaðar og lagði málsvari stefnda þá fram gögn um frekari tilraunir sínar til að hafa uppi á honum auk þess sem tekin var skýrsla af móður áfrýjanda. Að svo búnu fór fram munnlegur málflutningur og var málið tekið til dóms. Í þinghaldi 24. sama mánaðar var málið endurupptekið með vísan til 104. gr. laga nr. 91/1991 og var þá á ný tekin skýrsla af móður áfrýjanda. Að því búnu var málið tekið til dóms og hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp 26. mars 2014 þar sem kröfum áfrýjanda á hendur stefnda var hafnað.
Áfrýjunarstefna í málinu var útgefin 22. apríl 2014. Var hún birt nafngreindum hæstaréttarlögmanni 13. maí sama ár sem áritaði hana með tilkynningu um að haldið yrði uppi vörnum af hálfu stefnda. Með bréfi til Hæstaréttar 4. júní sama ár var framangreind áritun afturkölluð þar sem hún hefði verið án heimildar og byggð á misskilningi um feril málsins.
Samkvæmt 5. mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991 verður að birta áfrýjunarstefnu eigi síðar en viku áður en frestur stefnda til að tilkynna Hæstarétti að hann hafi í hyggju að halda uppi vörnum í málinu er á enda, sbr. e. lið 1. mgr. greinarinnar. Að öðru leyti gilda ákvæði XIII. kafla laganna um birtingu áfrýjunarstefnu. Í málinu liggur fyrir að áfrýjunarstefna hefur hvorki verið birt fyrir stefnda né öðrum þeim sem bær er til að taka við henni í hans stað. Þá hefur hún ekki verið birt með öðrum hætti svo gilt sé samkvæmt 83. gr. laga nr. 91/1991. Af þessum sökum verður málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Með vísan til 11. gr. barnalaga greiðist málskostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar sem ákveðin er eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Málskostnaður áfrýjanda, A, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 150.000 krónur.