Hæstiréttur íslands
Mál nr. 4/2020
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Vinnuslys
- Meðdómsmaður
- Ómerking dóms Landsréttar
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2020. Hann krefst viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu vegna afleiðinga vinnuslyss er hann varð fyrir 18. janúar 2013. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Stefndu krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði látinn niður falla.
I
Í málinu greinir aðila á um hvort áfrýjandi eigi rétt til bóta úr ábyrgðartryggingu stefnda, B ehf., hjá stefnda, Verði tryggingum hf., vegna líkamstjóns er hann varð fyrir í slysi 18. janúar 2013 á vinnustað sínum, álframleiðslufyrirtækinu BB ehf., í álverinu á […].
Af hálfu áfrýjanda er á því byggt að vanbúnaður á vél þeirri er hann vann við er slysið varð hafi valdið slysinu. Það verði því rakið til sakar vinnuveitanda hans. Stefndu telja á hinn bóginn slysið hafa verið óhappatilvik sem ekki verði rakið til vanbúnaðar á vinnustað, sem stefndu beri ábyrgð á.
Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grundvelli að dómur í því gæti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðni var reist á.
II
Mál þetta lýtur að slysi sem áfrýjandi varð fyrir er hann var að vinna við vélasamstæðu hjá álvinnslunni BB ehf., sem nú ber heiti stefnda, B ehf., föstudagskvöldið 18. janúar 2013. Í dómi héraðsdóms er vélasamstæðunni lýst á þann hátt að annar hluti hennar hafi verið ofn og hinn hlutinn tæki, svokallaður fæðari notaður til að koma álgjalli inn í ofninn. Ofninn hafi verið tunnulaga tromla og inn um op á annarri hlið hans hafi álgjallið verið sett. Stærsti hluti fæðarans hafi verið skúffa úr málmi. Á þeim enda er sneri að ofninum hafi skúffan ekki verið lokuð, heldur hafi þar tekið við opin, lárétt, trektlaga renna. Trektin eða rennan hafi verið þannig löguð að hún hafi mjókkað nægilega mikið til þess að geta gengið inn í opið á ofninum. Fyrir ofan rennuna og upp af skúffunni hafi verið hleri sem unnt var að fella niður. Væri það gert féll hann fram og yfir trektina. Hlerinn hafi verið festur með hjörum á efri brún rennunnar.
Þegar slysið varð mun áfrýjandi hafa staðið á stigapalli við enda skúffunnar. Áfrýjandi féll niður á steinsteypt gólf og úlnliðsbrotnaði og var fluttur af slysstað með sjúkrabifreið. Lögreglu var samstundis tilkynnt um slysið en hún kom ekki á vettvang. Þá tilkynnti fyrirsvarsmaður BB ehf. Vinnueftirlitinu um slysið mánudaginn 21. janúar 2013, en það kom heldur ekki á vettvang. Í tilkynningunni var slysinu lýst á þann hátt að áfrýjandi hefði verið að teygja sig í álstykki sem staðið hafi fast í opi ofnsins, en dottið og trúlega lent á annarri hendinni. Við skýrslutökur fyrir héraðsdómi bar fyrirsvarsmaðurinn að hann hefði ekki verið á vinnustaðnum er slysið varð, en honum verið tilkynnt um að áfrýjandi hefði dottið og meitt sig.
Með bréfi þáverandi lögmanns áfrýjanda til stefnda Varðar trygginga hf. 7. janúar 2014, var slysinu lýst á þann veg að fyrrnefndur fæðari hefði losnað frá ofninum og slegist í höfuð áfrýjanda og hann því fallið af stigapallinum sem hann stóð á. Ástæða þess að fæðarinn hefði losnað hefði verið sú að splitti, sem átt hefði að halda honum stöðugum hefði losnað. Við skýrslutökur fyrir héraðsdómi rakti áfrýjandi tildrög slyssins á hinn bóginn til þess að framangreindur hleri hefði losnað og fallið fram. Við það hefði handfang á þeirri hlið hlerans sem vísað hafi að honum rekist í hjálm sem hann bar á höfði. Við höggið hefði hann misst jafnvægið og dottið fram af pallinum sem hann stóð á niður á steypt gólf. Taldi áfrýjandi hlerann hafa losnað vegna þess að splitti sem átti að halda honum á sínum stað hefði ekki verið klofið eins og það átti að vera. Það hefði því losnað við titring rennunnar á meðan álgjall mjakaðist úr henni í ofninn.
Í málinu liggja fyrir þrjár ljósmyndir af vélinni, en þær munu hafa verið teknar af öðru tilefni en því sem um er deilt í máli þessu.
Samkvæmt örorkumati bæklunarlæknis 18. desember 2014 var varanleg örorka áfrýjanda vegna afleiðinga slyssins metin 15%.
III
Héraðsdómur var kveðinn upp í máli þessu 27. febrúar 2018. Dómurinn var skipaður sérfróðum meðdómsmanni auk tveggja embættisdómara. Samkvæmt niðurstöðu meirihluta dómsins var viðurkennd bótaábyrgð stefnda Varðar trygginga hf. á afleiðingum slyss áfrýjanda. Dómurinn taldi að vinnuveitandi áfrýjanda, BB ehf., hefði vanrækt að rannsaka eða láta rannsaka slysið þegar það varð. Slík rannsókn hefði getað eytt óvissu um hvort slysið yrði rakið til ágalla eða vanbúnaðar á vélinni sem áfrýjandi vann við. Þar sem óvissa væri um orsök slyssins ætti áfrýjandi ekki að bera hallann af sönnunarskorti þar um og var skaðabótaábyrgð því felld á stefndu. Annar embættisdómaranna skilaði sératkvæði og taldi að á áfrýjanda hefði hvílt sú skylda að skýra fyrr frá þeim atvikum sem hann taldi hafa valdið því að hann féll af stigapallinum. Þar sem hann hafi dregið það í tæpt ár yrði sönnunarbyrði um orsakir slyssins ekki snúið við og lögð á vinnuveitanda hans.
Með hinum áfrýjaða dómi, sem skipaður var þremur embættisdómurum, voru stefndu sýknaðir af kröfu áfrýjanda, en einn dómara skilaði sératkvæði. Í niðurstöðu meirihluta dómsins kom fram að engin gögn styddu staðhæfingar áfrýjanda um að slysið yrði rakið til þess að hleri vélarinnar sem hann vann við hefði slegist í höfuð hans. Væri við hann einan að sakast að hafa dregið í tæpt ár að lýsa slysinu á þann hátt sem gert hafi verið í stefnu og í því efni gæti hann ekki borið fyrir sig tungumálaörðugleika. Taldi meirihluti dómsins ósannað að vanbúnaður vélarinnar hafi valdið slysi áfrýjanda.
Í sératkvæði eins dómara voru reifuð sjónarmið um þær sönnunarreglur sem mótast hafi í dómaframkvæmd þegar atvik að vinnuslysum eru óljós. Þar sagði að miða yrði við frásögn áfrýjanda af slysinu, enda hefði það staðið vinnuveitanda hans nær að tryggja sönnun um atvik málsins. Var ábyrgð á slysinu felld á vinnuveitanda áfrýjanda, enda yrði slysið rakið til ófullnægjandi frágangs á hlera þeim sem áfrýjandi kveður hafa fallið á sig og valdið slysinu.
IV
Í niðurstöðukafla hins áfrýjaða dóms kemur fram að í málinu hafi verið borin fram sú málsástæða að vanbúnaður á vél þeirri sem áfrýjandi vann við hafi valdið slysinu. Hafi því borið að kveðja til meðdómsmann í héraði með sérkunnáttu á þessu sviði, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en ekki verði ráðið af starfsheiti meðdómsmannsins að hann hafi yfir þeirri sérþekkingu að ráða. Samkvæmt framangreindu var við endurskoðun Landsréttar á héraðsdómi ekki tekið tillit til þess hvaða áhrif sérþekking meðdómsmannsins hefði haft á niðurstöðu málsins. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð ferilskrá hins sérfróða meðdómsmanns. Verður af henni ráðið að hann hafi nægilega sérkunnáttu á því sviði sem á reynir í máli þessu.
Í Landsrétti voru hafðar uppi sömu málsástæður og í héraði um að vanbúnaður á vélinni sem áfrýjandi vann við hefðu valdið því að hann slasaðist. Við þær aðstæður og eins og málið liggur fyrir, án þess að fram hafi farið nein rannsókn Vinnueftirlitsins og lögreglu, bar Landsrétti að kveðja til sérfróðan meðdómsmann til þess að fjalla um málsástæður sem hafðar voru uppi um þennan þátt málsins, sbr. 2. gr. a. laga nr. 91/1991. Það lét Landsréttur á hinn bóginn ógert og mat ekki við endurskoðun héraðsdóms hvaða áhrif sérþekking meðdómsmannsins hefði haft á niðurstöðu málsins. Málið var því ekki dæmt á réttum grundvelli og er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Rétt er að hver aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 800.000 krónur.
Dómur Landsréttar 29. nóvember 2019.
Mál þetta dæma landsréttardómararnir Eiríkur Jónsson og Kristbjörg Stephensen og Arngrímur Ísberg, settur landsréttardómari.
Málsmeðferð og dómkröfur aðila
1 Áfrýjendur skutu málinu til Landsréttar 22. mars 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2019 í málinu nr. E-3643/2017.
2 Áfrýjendur krefjast þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og þeir verði sýknaðir af kröfum stefnda. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.
3 Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Landsrétti.
Málsatvik og sönnunarfærsla
4 Samkvæmt gögnum málsins slasaðist stefndi á vinnustað sínum, álvinnslu BB ehf., að kvöldi föstudagsins 18. janúar 2013. Slysið var tilkynnt til lögreglu samdægurs og var tilkynningin móttekin klukkan 22:44. Í lögregluskýrslu segir að tilkynning hafi borist um að maður hafi dottið niður úr stiga á Grundartanga og sé eitthvað slasaður. Enn fremur hafi komið fram í tilkynningunni að sjúkrabifreið væri á leið á vettvang frá Akranesi. Lögreglumenn fóru ekki á vettvang, enda uppteknir í öðru verkefni, eins og segir í skýrslunni. Síðan segir í skýrslunni: „Ræddi síðar við tilkynnanda, C, sem sagði að A hafi verið þarna við vinnu er hann hafi dottið niður úr stiga og brotið á sér vinstri handlegginn. Ræddi einnig við eiganda D, eiganda fyrirtækisins, og sagði hann að þarna hafi átt sér stað slys og að vinnueftirlitinu hafi verið gert viðvart.“ Lögregluskýrslan var gerð þriðjudaginn 19. febrúar 2013.
5 Í læknisvottorði frá sjúkrahúsinu á Akranesi segir svo um stefnda: „Slysdag um kl. 22 féll hann úr stiga, u.þ.b. 1 ½ m og lenti á steyptu undirlagi. Kom niður á vi. síðu og bar fyrir sig vi. hendi. Fann strax til verkja í vi. hendi og síðu. Var fluttur hingað á slysadeild í sjúkrabíl. Við skoðun var hann með fullri meðvitund. Taugaskoðun var eðlileg. Vi. framhandleggur var greinilega aflagaður en blóðflæði, skyn og hreyfing í vi. hendi óskert. Þá voru bein og óbein eymsli yfir brjósti framan til vi. megin yfir neðstu rifjum. Þá var rispa og mar á vi. fótlegg. Röntgenrannsókn af vi. úlnlið sýndi brot í vi. sveif í úlnliðnum.“
6 Meðal gagna málsins er tilkynning, dagsett 21. janúar 2013, um vinnuslys til Vinnueftirlitsins undirrituð af D er þá var eigandi BB ehf., vinnuveitanda stefnda. Á tilkynninguna er ritað: „kom 21/1 13 SS“. Í tilkynningunni er slysinu lýst svo: „Skv. lýsingu samstarfsmanns: stóð upp í annarri til þriðju tröppu og var að teygja sig í ál stykki sem stóð fast í opinu á 1000 gráðu heitum ofninum dettur við þetta og lendir trúlega á höndinni.“ Í tilkynningunni er merkt við nokkur atriði varðandi stefnda og slysið. Þar kemur fram að hann hafi verið ófaglærður launþegi er hafi unnið lengur en mánuð hjá fyrirtækinu í vaktavinnu. Slysið hafi orðið við framleiðslustörf, orsökin hafi verið fall af hærri stað og orsakavaldur „menn“ og „annað“. Þá kemur fram að úlnliður/hönd hafi brotnað og stefndi orðið óvinnufær.
7 Með ódagsettum tölvupósti óskaði lögmaður stefnda eftir afstöðu áfrýjandans Varðar trygginga hf. til bótaskyldu vegna slyssins. Jafnframt var óskað eftir gögnum frá áfrýjanda. Í svari áfrýjanda 20. júní 2013 kemur fram að hann hafi ekki önnur gögn en framangreinda lögregluskýrslu. Lögmaðurinn ritaði Vinnueftirlitinu bréf 26. júní sama ár og óskaði eftir afriti af tilkynningu um slysið. Í bréfinu segir að stefndi hafi verið við vinnu hjá áfrýjanda BB ehf., nú B ehf., „er hann féll niður 3 metra frá ofni sem hann starfaði við. Fólst starfið aðallega í því að halda hita á ofninum og gæta þess að ál sem þar fór inn myndi ekki detta út. Afleiðingar þess að umbj. minn féll 3 metra niður á gólf voru brot á vinstri hönd ofan við úlnlið og rifbeinsbrot.“ Svar Vinnueftirlitsins er svohljóðandi: „Vinnuslys þetta hefur ekki verið rannsakað af Vinnueftirlitinu þar sem það var ekki tilkynnt þegar það átti sér stað. Meðfylgjandi er skrifleg tilkynning frá fyrirtækinu um slysið, sem barst stofnuninni þann 21. janúar 2013.“
8 Lögmaður stefnda ritaði áfrýjandanum Verði tryggingum hf. bréf 16. september 2013 og krafðist bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu BB ehf., nú áfrýjandans B ehf. Í bréfinu er tildrögum slyssins lýst á sama hátt og að framan var rakið. Kröfunni var hafnað með bréfi áfrýjanda Varðar trygginga hf. 23. september sama ár. Segir í bréfinu að krafa stefnda sé engum gögnum studd og sök því ósönnuð.
9 Lögmaður stefnda ritaði áfrýjanda Verði tryggingum hf. aftur bréf 7. janúar 2014 og ítrekaði kröfu um bætur úr frjálsri ábyrgðartryggingu áfrýjanda BB ehf. Í bréfinu segir lögmaðurinn að stefndi tali enga íslensku og litla ensku. Á fundi stefnda og lögmannsins hafi verið túlkur og hafi stefndi lýst slysinu með eftirfarandi hætti: „Ofninn sem umbj. minn starfaði við að setja ál innan í virkar þannig að efnið sem fer í ofninn er hrist niður svokallaðan fæðara (e. feeder), sem hefur það hlutverk að ýta álinu inn í ofninn sem hitar það. Fæðarinn losnaði frá ofninum og slóst í höfuð umbj. míns með þeim afleiðingum að hann féll niður 3 metra á steinsteypt gólf. Ástæðan fyrir því að fæðarinn losnaði var vegna þess að splitti sem átti að halda fæðaranum á sínum stað losnaði við atgang hristarans. Slíkt á ekki að geta gerst þegar splitti er klofið, en tilgreint splitti var það aftur á móti ekki. Féll því splittið úr ofninum með fyrrgreindum afleiðingum. Við tilkynningu slyssins voru sendar myndir þar sem sjá má splittið, fæðarann og ofninn.“ Þá vitnar lögmaðurinn til þess að slysið hafi ekki verið rannsakað. Vinnueftirlitið hafi tjáð sér að það hafi ekki verið rannsakað vegna þess að ekki var tilkynnt um slysið. Tilkynning hafi svo borist síðar. Í bréfinu heldur lögmaðurinn því fram að samkvæmt dómafordæmum beri vinnuveitandi hallann af því ef atvik slyss eru ekki nægilega upplýst vegna þess að það var ekki rannsakað. Áfrýjandi hafnaði bótaskyldu á ný með bréfi 15. maí 2014.
10 Stefndi skaut málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 27. júní 2014. Nefndin úrskurðaði í málinu 12. ágúst sama ár og hafnaði kröfu stefnda. Í úrskurðinum segir að lýsing stefnda á slysinu hafi fyrst komið fram 7. janúar 2014 eða tæpu ári eftir slysið. „Engin gögn liggja fyrir í málinu sem með einhverju móti skjóta stoðum undir lýsingu M [stefnda], en ætla verður að frekari gagna hefði mátt afla um aðstæður á vettvangi og hvort lýsing M geti átt við rök að styðjast. Í ljósi þessa, svo og þess hversu seint var gerð grein fyrir orsökum slyssins af hálfu M, verður sönnunarbyrði um það hvernig slysið bar að höndum ekki varpað yfir á V [áfrýjanda B ehf., áður BB ehf.]. Þessu breytir ekki þótt M telji tungumálaörðugleika í samskiptum við lögmann sinn hafa valdið því hversu seint lýsing hans á málsatvikum og orsökum slyssins hafi komið fram. Eins og mál þetta liggur fyrir verður því ekki talið að sýnt hafi verið fram á að slysið verði rakið til vanbúnaðar í tækjabúnaði sem M vann við eða annarra atvika sem V getur borið ábyrgð á. Af því leiðir að M á ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu V hjá X [Verði tryggingum hf.].“
11 Stefndi höfðaði hið áfrýjaða mál á hendur áfrýjendum með stefnu sem þingfest var 16. nóvember 2017. Í stefnunni er málavöxtum lýst á þennan hátt: „Vinna stefnanda fólst aðallega í því að halda hita á svokölluðum ofni og gæta þess að ál sem fór inn myndi ekki detta út. Við vinnu sína sá stefnandi um að setja ál innan í þennan ofn, en álið fer fyrst niður svokallaðan fæðara sem hefur það hlutverk að ýta álinu inn í ofninn sem svo bræðir það. Á ofninum er svokallaður hristari sem hjálpar til við að koma álinu áleiðis inn í ofninn. Þegar stefnandi stóð þarna við vinnu sína losnaði fæðarinn frá ofninum og slóst í höfuð hans með þeim afleiðingum að stefnandi féll niður 3 metra á steinsteypt gólf. Ástæða þess að fæðarinn losnaði var sú að splitti sem átti að halda fæðaranum á sínum stað losnaði, en það losnaði við atgang hristarans. Slíkt á ekki að geta gerst þegar splitti er klofið, en splittið sem losnaði umrætt sinn hafði ekki verið klofið. Splittið hafi því fallið úr ofninum með fyrrgreindum afleiðingum.“
12 Í héraði byggði stefndi kröfur sínar á því að framangreindur vanbúnaður á vélinni hefði valdið slysinu og að á þessum vanbúnaði bæri vinnuveitandi hans ábyrgð. Þá var einnig byggt á því að slysið hefði ekki verið rannsakað, en það hefði vinnuveitandanum borið að hlutast til um að yrði gert. Ekki hefði nægt að tilkynna Vinnueftirlitinu um slysið. Stefndi sé pólskur og tali enga íslensku og litla ensku. Honum hafi því ekki verið ljós réttarstaða sín og heldur ekki hvað þurft hafi að upplýsa um tildrög slyssins til að hann ætti rétt á bótum frá tryggingafélagi vinnuveitandans.
13 Áfrýjendur mótmæltu ekki framangreindri málavaxtalýsingu í héraði en bentu á að hún hefði fyrst komið fram 7. janúar 2014. Í tilkynningu til lögreglu og Vinnueftirlits hefði komið fram að stefndi hefði dottið úr stiga. Þeir byggðu sýknukröfu sína á því að ósannað væri að vanbúnaður vélar, sem áfrýjendur bæru ábyrgð á, væri valdur að slysinu. Þá hafi verið uppfyllt skylda um að tilkynna slysið og yrði sönnunarbyrðin ekki felld á vinnuveitandann vegna vanrækslu á tilkynningu.
14 Við aðalmeðferð í héraði lýsti stefndi því að hann hefði unnið við vél sem hefði flutt álefni að ofni. Stór biti hafi komið og hefði hann þurft að gæta þess að hann færi í rétta átt og stíflaði ekki leiðina í ofninn. Bitinn hefði legið þversum og meðan hann var að reyna að snúa bitanum hefði stykki fallið niður og rekist í höfuð hans. Um hafi verið að ræða eins konar höldu til að opna og loka lokinu, eins og hann bar. Það bara datt niður af því það er á lömum, eins og hann sagði. Nánar spurður kvað hann þetta hafa verið stórt og mikið járnstykki, eins konar handfang sem hefði rekist í höfuð hans þegar það féll. Hann kvaðst ekki vita af hverju stykkið hefði dottið en taldi að pinni sem átti að halda því á sínum stað hefði getað dottið úr. Þá kvað hann samstarfsmann sinn hafa verið vitni að slysinu og hefði hann hringt strax í vinnuveitanda til að tilkynna um slysið. Hann kvað stykkið, sem féll, geta verið tvö hundruð til þrjú hundruð kíló. Lýsing á slysinu sem kemur fram í skýrslu til Vinnueftirlitsins var borin undir hann og benti hann á að enginn hefði talað við sig og þessi lýsing væri röng. Nánar spurður um hvernig hann slasaðist kvað hann lokið ekki hafa dottið á sig heldur hefði stykki sem notað er til að opna og loka rekist í sig og hann dottið niður. Þetta stykki hefði verið fest við hlerann með pinna. Hann kvaðst ekki vita hvort pinninn hefði dottið úr. Þá kvaðst hann hafa verið með hjálm við vinnu sína.
15 Samstarfsmaður stefnda bar að hafa séð lokið fara niður og ekki séð stefnda. Hann hefði því farið að athuga með hann og séð hann liggjandi á gólfinu. Í framhaldinu hefði hann hringt í 112 og í vinnuveitandann. Hann kvaðst hafa sagt lögreglu að stefndi hefði dottið og höndin á honum hefði brotnað. Eftir það hefði enginn haft samband við sig til að spyrja um slysið. Eftir að stefndi slasaðist kvaðst samstarfsmaðurinn hafa lent í sams konar slysi, pinninn hefði losnað og sami hlutur rekist í höfuð hans og hefði rekist í stefnda.
16 Þáverandi eigandi fyrirtækisins mundi eftir að hafa tilkynnt um slysið til Vinnueftirlitsins en mundi ekki eftir því hvort hann hefði fylgt þeirri tilkynningu eftir. Þá gat hann lítið borið um vélina, þyngd hennar og fleira þess háttar, en sagði að svona gæti „gerst þegar menn eru að gera eitthvað sem þeir eiga ekki að gera.“ Spurður um hvað hann ætti við svaraði hann að þessi „vél er ekki til þess að hanga utan á og teygja sig inn í eitthvað sem að, til þess að gera eitthvað.“
Niðurstaða
17 Hér að framan hafa atvik málsins verið rakin. Eins og þar greinir var það fyrst með bréfi lögmanns stefnda 7. janúar 2014, eða tæpu ári eftir slysið, sem því er lýst að vanbúnaður vélar hafi valdið slysinu. Fram að þeim tíma var ekki annað upplýst um tildrög slyssins en að stefndi hefði dottið úr stiga og fallið á steinsteypt gólf með framangreindum afleiðingum. Hvorki lögregla né Vinnueftirlitið kom á slysstað, eins og rakið var. Meðal gagna málsins eru myndir af vél sem nefnist fæðari og á að vera vél sú sem stefndi vann við er hann slasaðist, en lýsingar á henni að öðru leyti og því hvernig unnið var við vélina eru ekki meðal gagna málsins umfram það sem rakið var úr vitnaleiðslum í héraði hér að framan. Það eru því engin gögn sem styðja þá fullyrðingu stefnda að sá hluti vélarinnar sem stefndi lýsir og er eins konar hleri, hafi losnað og slegist í höfuð hans með þeim afleiðingum að hann féll. Er þar ekki við neinn nema stefnda sjálfan að sakast sem dró það í tæplega ár að lýsa slysinu á þann hátt sem hann lýsti í stefnu í héraði. Ekki er hægt að fallast á að tungumálaörðugleikar geti átt hér hlut að máli, enda verður ekki betur séð af gögnum málsins en að stefndi hafi notið aðstoðar lögmanns að minnsta kosti frá því í júní 2013. Samkvæmt þessu er ósannað að vanbúnaður vélarinnar hafi valdið því að stefndi slasaðist.
18 Stefndi byggir einnig á því að slysið hafi ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins og þess vegna hafi upplýsingar um það glatast. Þetta eigi að leiða til þess að áfrýjendur verði að bera hallann af því að tildrög slyssins voru ekki rannsökuð sem skyldi. Hér að framan var gerð grein fyrir því að lögreglu var strax tilkynnt um slysið en hún kom ekki á slysstað og bar við önnum. Lögreglan sá ekki síðar ástæðu til að rannsaka málið og hefur ekki verið leitað skýringa á því. Þá var það einnig rakið að vinnuveitandi stefnda tilkynnti Vinnueftirlitinu um slysið og tók það við tilkynningunni 21. janúar sem var mánudagur en slysið varð föstudagskvöldið 18. sama mánaðar. Þrátt fyrir að í tilkynningunni kæmi fram að stefndi hefði beinbrotnað og orðið óvinnufær sá Vinnueftirlitið ekki ástæðu til að rannsaka slysið og bar því við að slysið hefði ekki verið tilkynnt „þegar það átti sér stað“, eins og segir í tölvupósti eftirlitsins til lögmanns stefnda 27. júní 2013. Í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum segir að atvinnurekandi skuli án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings. Í 2. mgr. segir að atvinnurekandi skuli innan viku tilkynna skriflega um slysið til Vinnueftirlitsins. Í 1. mgr. 81. gr. laganna segir að Vinnueftirlitið skuli rannsaka orsakir slysa og óhappa sem tilkynnt er um samkvæmt 79. gr. Í 2. mgr. 81. gr. segir að þegar Vinnueftirlitinu hafi borist tilkynning skuli starfsmenn þess fara á staðinn án ástæðulauss dráttar til að hefja vettvangskönnun. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir því að áfrýjandi tilkynnti um slysið til Vinnueftirlitsins og hvað kom fram í tilkynningunni. Þrátt fyrir það sá það ekki ástæðu til að fara á vettvang sem þó er boðið í nefndri lagagrein. Á þessu geta áfrýjendur, eins og atvikum er háttað hér, ekki borið ábyrgð.
19 Samkvæmt framansögðu er ósannað að vanbúnaður á vélinni hafi valdið slysinu og þar með áverkum stefnda. Þá vanrækti forsvarsmaður áfrýjanda, BB ehf., nú B ehf., ekki að tilkynna Vinnueftirlitinu um slysið svo sem lögboðið er. Áfrýjendur verða því sýknaðir af kröfum stefnda en málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti þykir mega falla niður.
20 Það athugast að samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafa aðilar máls forræði á öflun sönnunargagna, þar á meðal um hvaða vitni eru leidd fyrir dóm og um hvað þau eru spurð. Það er þó hlutverk dómara, samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 56. gr. laganna, að krefja vitni frekari skýringa á svari þannig að efni þess komi skýrt fram svo og að leggja spurningar sjálfstætt fyrir vitni. Við yfirheyrslu yfir stefnda við aðalmeðferð í héraði voru afskipti dómsformanns af skýrslutökunni mjög mikil frá upphafi og skýrslutakan því ekki í samræmi við framangreind fyrirmæli laga nr. 91/1991. Þessa gætti einnig að nokkru þegar skýrslur voru teknar af vitnum.
21 Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari kvatt til sérfróðan meðdómsmann þegar deilt er um staðreyndir sem bornar eru fram sem málsástæður og dómari telur sérkunnáttu þurfa til að leysa úr ágreiningsefninu. Í málinu var borin fram sem málsástæða að vanbúnaður á vél hefði valdið slysinu og þar með áverkum stefnda. Það hefði því borið að kveðja til sérfróðan meðdómsmann á þessu sviði en ekki verður ráðið af starfsheiti meðdómsmannsins að hann hafi þá sérkunnáttu.
22 Þrátt fyrir framangreinda annmarka á héraðsdóminum, sem eru aðfinnsluverðir, eru ekki efni til að ómerkja hann.
Dómsorð:
Áfrýjendur eru sýknaðir af kröfum stefnda.
Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti fellur niður.
Sératkvæði
Eiríks Jónssonar
1 Ég er ósammála niðurstöðu meirihluta dómenda og tel að eins og málið liggi fyrir og sönnunarstöðu sé háttað beri að fallast á viðurkenningarkröfu stefnda.
2 Í málinu er deilt um hvernig það atvikaðist að stefndi féll niður og slasaðist við vinnu sína hjá BB ehf., nú áfrýjandanum B ehf., 18. janúar 2013. Nokkur óvissa er uppi um málsatvik enda telja málsaðilar tjónsatvikið hafa gerst með mismunandi hætti. Þarf því að leysa úr því hvað beri að telja sannað og leggja til grundvallar í málinu.
3 Engin rannsókn fór fram á slysinu en slík rannsókn hefði verið til þess fallin að upplýsa um atvik að slysinu og ástæður þess. B ehf. sendi skriflega tilkynningu til Vinnueftirlitsins þremur dögum eftir slysið en í bréfi stofnunarinnar, sem liggur fyrir í málinu, segir að slysið hafi ekki verið rannsakað „þar sem það var ekki tilkynnt þegar það átti sér stað“. Samstarfsmaður stefnda, C, tilkynnti slysið til lögreglunnar en hún kom ekki á vettvang með vísan til þess að hún væri upptekin í öðru verkefni.
4 Þær sönnunarreglur sem mótast hafa í dómaframkvæmd um þá aðstöðu er atvik að vinnuslysum eru óljós snúast að verulegu leyti um hvorum málsaðila það hafi staðið nær að leitast við að upplýsa atvikin og tryggja sönnun um þau. Vinnuveitandi sem ekki tilkynnir vinnuslys til samræmis við 79. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 þarf þannig að bera hallann af því að rannsókn Vinnueftirlitsins hafi ekki farið fram, ef atvik teljast ekki nægilega upplýst af þeim sökum, enda leiðir af sjálfu sér að upp á hann stendur að sinna lögbundinni tilkynningarskyldu sinni. Jafnframt er ljóst að þótt vinnuveitandi hafi uppfyllt hina lögbundnu tilkynningarskyldu getur hann orðið að bera halla af því að málsatvik séu ekki nægilega upplýst, ef það verður talið hafa staðið honum nær að leitast við að upplýsa atvik frekar, til dæmis með því að fylgja tilkynningu eftir eða hlutast á annan hátt til um rannsókn eða varðveislu sönnunargagna.
5 Svo vikið sé að lýsingu málsaðila á atvikum þá byggir stefndi á því, líkt og nánar er rakið um framburð hans í hinum áfrýjaða dómi, að hleri á hinum svonefnda fæðara, sem hann vann við, hafi losnað og fallið fram. Við þetta hafi handfang á hleranum rekist í hjálminn sem stefndi bar á höfði og hann við það misst jafnvægið og dottið fram af þeim palli sem hann stóð á. Taldi hann hlerann hafa losnað vegna þess að pinni, sem átti að halda hleranum á sínum stað, hafi losnað við stöðugan titring fæðarans. Þrátt fyrir að framangreind lýsing fyrir dómi hafi ekki verið að öllu leyti til samræmis við það sem lýst er í stefnu þá rúmast hún fyllilega innan þess málsgrundvallar sem þar er lagður og málsástæðna sem þar eru settar fram. Í reynd hafa síðari lýsingar stefnda á slysinu falið í sér nánari útskýringar á því hvernig það kom til að hann féll niður. Verður ekki talið óeðlilegt að hann hafi í fyrstu, að því marki sem yfirleitt var kallað eftir lýsingu hans á slysinu, einblínt á fallið sjálft, sem orsakaði þá áverka sem hann hlaut, fremur en ástæðurnar fyrir fallinu. Hér er og til þess að líta að stefndi virðist nánast eingöngu tala pólsku, auk þess sem hann var fluttur á brott af slyssstað með sjúkrabifreið og var síðan óvinnufær og frá vinnu í tvo mánuði.
6 Framangreind lýsing stefnda á atvikum að slysinu fyrir dómi fær stoð í skýrslu vitnisins C. Þannig bar C fyrir dómi að hann hefði séð hlerann sveiflast niður. Hann hafi ekki séð stefnda og því hlaupið til hans og séð að hann hefði dottið niður. Hann kvaðst einnig hafa lent í svipuðu atviki, eftir að slys stefnda varð, þar sem umrætt stykki hafi rekist í höfuð hans. Lýsti hann því að pinni hefði verið laus, vélin væri gömul og hristist stanslaust, sem valdi því að pinni geti losnað. Stefndi og C, sem eru þeir einu sem voru að störfum umrætt sinn og því þeir einu sem borið geta um atvik að slysinu, báru samkvæmt þessu á svipaða lund fyrir dómi, að því marki sem C sá hvað átti sér stað, og þótt þeir séu svilar getur það ekki orðið til þess að litið verði fram hjá skýrslu vitnisins.
7 Áfrýjendur vísa á hinn bóginn til tilkynningar BB ehf. til Vinnueftirlitsins en þar var tildrögum slyssins lýst svo: „Skv. lýsingu samstarfsmanns: stóð upp í annarri til þriðju tröppu og var að teygja sig í ál stykki sem stóð fast í opinu á 1000 gráðu heitum ofninum dettur við þetta og lendir trúlega á höndinni.“ Ekki er fyllilega ljóst hvaðan þessi lýsing er komin en hún fær litla stoð í gögnum málsins. Sá sem ritaði undir tilkynninguna, þáverandi eigandi BB ehf., kvaðst fyrir dómi eingöngu hafa heyrt af slysinu í gegnum síma. Hann kvaðst hafa vitað að stefndi hefði meitt sig en hann hefði „enga hugmynd um hvar eða hvernig, nákvæmlega“. Hann mundi ekki eftir því að hafa rætt við stefnda eða spurt hann sjálfan út í slysið og stefndi kvað engan hafa rætt við sig eftir slysið, hvorki vinnuveitandann né lögreglu eða Vinnueftirlitið. Þegar stefndi setti síðar fram frekari lýsingu á atvikum að slysinu var bótaábyrgð hafnað af hálfu áfrýjenda en ekkert aðhafst frekar til að leitast við að upplýsa málsatvik. Þannig eru til að mynda einu gögnin sem liggja fyrir í málinu um þá vélasamstæðu sem stefndi vann við, nánar tiltekið þrjár ljósmyndir, lagðar fram af stefnda en ekki af áfrýjendum.
8 Eins og málið liggur fyrir verður ekki talið að BB ehf. hafi vanrækt að tilkynna Vinnueftirlitinu um slysið samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980. Líkt og rakið hefur verið að framan gerði BB ehf. hins vegar ekkert frekar til að upplýsa málið en að senda umrædda tilkynningu til Vinnueftirlitsins. Sú tilkynning, sem leiddi ekki til neinnar rannsóknar, innihélt lýsingu á atvikum sem fær litla stoð í gögnum málsins og var send af fyrirsvarsmanni sem kvaðst fyrir dómi ekki hafa hugmynd um hvar eða hvernig slysið nákvæmlega átti sér stað og ræddi ekki við stefnda áður en tilkynningin var send. Þegar stefndi fór að lýsa nánar atvikum að slysinu var ekki leitast við að upplýsa atvikin frekar og það litla sem liggur fyrir í málinu um vélasamstæðuna sem um ræðir, sem ekki er lengur í notkun, er frá stefnda komið. Stefndi er ófaglærður verkamaður sem virðist nánast eingöngu tala pólsku, hafði nýlega hafið störf hjá fyrirtækinu, var fluttur burtu slasaður með sjúkrabifreið og var síðan frá vinnu að fullu í tvo mánuði. BB ehf. var á hinn bóginn vinnuveitandi og bar sem slíkur ríkar skyldur samkvæmt lögum nr. 46/1980. Þegar litið er til framangreindra atvika og aðstöðumunar aðila er óhjákvæmilegt að telja að það hafi staðið BB ehf., nú B ehf., nær að leitast við að upplýsa atvikin að slysinu betur og tryggja sönnun um þau. Þegar við bætist að sú lýsing sem áfrýjendur byggja á fær litla stoð í gögnum málsins, á meðan lýsing stefnda fyrir dómi fær stoð í framburði vitnis, sem var eitt að störfum með stefnda umrætt sinn, þykir verða að leggja lýsingu stefnda á atvikum að slysinu til grundvallar niðurstöðu í málinu.
9 Verður samkvæmt því að miða við að fyrrnefndur hleri hafi fallið niður og handfang á honum rekist í hjálm stefnda þannig að hann féll niður af þeim palli sem hann stóð á. Það var á ábyrgð BB ehf., nú áfrýjandans B ehf., að tryggja að hlerinn væri festur með fullnægjandi hætti en félli ekki niður með umræddum hætti. Þannig verður að telja að slysið verði rakið til saknæmrar háttsemi hans eða starfsmanna hans, annarra en stefnda, enda hefur ekkert komið fram um hlutverk hans að því leyti. Ber áfrýjandinn B ehf. því bótaábyrgð á tjóni stefnda, sbr. sakarregluna og óskráða reglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð, og áfrýjandinn Vörður tryggingar hf. sem ábyrgðartryggjandi hans.
10 Samkvæmt framansögðu tel ég að staðfesta beri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms og dæma áfrýjendur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Landsrétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2018.
Þetta mál, sem var tekið til dóms 31. janúar 2019, höfðar A, kt. […], […], Hafnafirði, með stefnu birtri 7. nóvember 2017, á hendur Verði tryggingum hf., kt. […], […], Reykjavík og birtri 8. nóvember 2017 á hendur BB ehf., kt. […],[…], Akranesi.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda, BB ehf., vegna varanlegra líkamsáverka sem stefnandi hlaut 18. janúar 2013 í starfi sínu hjá stefnda í álverinu á [...].
Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda auk álags er nemi virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Stefndi, Vörður tryggingar hf., krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
Málsatvik
Þetta mál varðar slys sem stefnandi lenti í við störf sín hjá álvinnslunni BB ehf., á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga, kl. 22.30, föstudagskvöldið 18. janúar 2013. Stefnandi hafði verið starfsmaður BB ehf. í rúman mánuð, frá 1. desember 2012. BB ehf., sem heitir nú B ehf., endurvann ál úr álgjalli. Félagið hafði keypt ábyrgðartryggingu vegna starfsemi sinnar hjá stefnda, Verði tryggingum ehf.
Fyrirsvarsmaður B bar fyrir dómi að hann hefði keypt til álvinnslunnar notaða vélasamstæðu frá Þýskalandi. Hún hefði verið í tveimur hlutum. Annars vegar var ofn og hins vegar var tæki til þess að koma álgjalli inn í ofninn, kallað fæðari. Ofninn var tunnulaga tromla, sem lá á hliðinni. Inn um op á annarri hlið ofnsins var álgjallið sett. Fæðarinn var sérstaklega hannaður fyrir það verk. Stærsti hluti hans var skúffa úr málmi, á stærð við stóran, en stuttan, vörubílspall. Á þeim enda sem vísaði að ofninum var skúffan ekki lokuð heldur tók þar við opið, lárétt, trektlaga stykki, renna. Trektin var þannig löguð að hún mjókkaði nóg til þess að geta gengið inn í opið á annarri hlið álbræðsluofnsins. Fyrir ofan þessa rennu og upp af skúffunni, en festur með hjörum á efri brún hennar, var hleri sem unnt var að fella niður. Væri það gert féll hann fram og yfir trektina.
Álgjallinu var mokað upp í skúffu fæðarans með gröfu. Úr skúffunni fór það í gegnum rennuna inn í ofninn. Í botni skúffunnar var hristibúnaður. Til þess að gjallið mjakaðist þessa leið inn í ofninn hristist fæðarinn, þ.e.a.s. trektin og skúffan, stöðugt eftir að lokið hafði verið tekið af opinu á hlið ofnsins og rennunni á fæðaranum rennt inn í það.
Fyrirsvarsmaður B bar að nýr stjórnbúnaður hefði verið hannaður og smíðaður hér á landi og með þeirri iðntölvu hefði vélasamstæðunni verið stýrt.
Starfsmenn unnu á tveimur tólf tíma vöktum og voru einungis tveir á vakt í senn. Annar vann á gröfunni og fyllti fæðarann af álgjalli. Að því búnu var lokið tekið af opinu á ofninum, fæðaranum rennt upp að ofninum og rennunni komið fyrir í opinu. Titringurinn á fæðaranum átti að sjá til þess að álgjallið mjakaðist inn í ofninn. Hinn starfsmaðurinn stóð á stigapalli, sem var fastur við fæðarann, og fylgdist með að álgjallið bærist greiðlega eftir rennunni inn í ofninn.
Stefnandi bar að hann hefði staðið á þessum stigapalli við þann enda skúffunnar þar sem rennan tekur við. Hann hafi átt að tryggja að álgjallið bærist hnökralaust eftir rennunni inn í ofninn. Til þess verks hafi hann notað stjaka. Hann hafi með stjakanum verið að stýra stóru stykki af álgjalli sem hafi legið þversum í rennunni. Þá hafi hlerinn, sem áður var lýst og hann stóð til hliðar við, losnað þannig að hann féll fram og yfir rennuna. Við þetta hafi handfang á þeirri hlið hlerans sem vísaði að stefnanda rekist í hjálminn sem hann bar á höfði. Við höggið hafi hann misst jafnvægið á pallinum og dottið fram af honum og niður á steypt gólfið.
Af myndum að dæma er stiginn brattur og í honum eru fimm þrep og sjötta uppstigið er upp á stigapallinn. Því má ætla að fallið hafi verið nærri 1,5 metri. Eins og áður segir er önnur langhlið pallsins upp við og samsíða skúffu fæðarans. Handrið er við hina langhliðina. Fyrir aftan starfsmanninn er brattur stigi upp á annan stigapall. Fyrir ofan fremri stigann, og því fyrir framan starfsmanninn þegar hann er að stýra álgjallinu eftir trektinni, er hvorki handrið né sjálflokandi hlið. Þar er því ekkert sem kemur í veg fyrir að starfsmaður falli af pallinum, missi hann af einhverjum ástæðum jafnvægið.
Stefnandi taldi hlerann hafa losnað vegna þess að splitti, sem átti að halda honum á sínum stað, hafi losnað við stöðugan titring fæðarans á meðan álgjallið mjakaðist úr honum inn í ofninn.
Vitnið C, svili stefnanda og samstarfsmaður, kvaðst hafa verið staddur hinum megin við fæðarann og ofninn, þeim megin sem álgjallinu er mokað ofan í fæðarann með gröfu. C kvaðst ekki hafa séð nákvæmlega hvernig það gerðist að stefnandi féll niður af pallinum. Hann kvaðst hafa séð hlerann sveiflast fram og niður og séð að stefnandi stóð ekki lengur við trektina/rennuna. Vitnið hafi þá hlaupið yfir á þann stað þar sem stefnandi vann og séð hann liggja í gólfinu og að hönd hans var brotin.
Vitnið kvaðst hafa hringt í 112. Hann hafi verið beðinn um að gefa upp staðsetningu til þess að hægt væri að senda sjúkrabíl á staðinn. Vitnið kvaðst einnig hafa hringt í eiganda fyrirtækisins. Hann hefði sagt eigandanum að stefndi hefði dottið niður af stiganum og handleggsbrotnað.
Í stefnu er sagt þannig frá atvikum að fæðarinn hafi losnað frá ofninum og slegist í höfuð stefnda með þeim afleiðingum að stefnandi féll þrjá metra niður á steinsteypt gólf. Dómurinn telur þáverandi lögmann stefnanda hafa misskilið stefnanda að hluta til en telur þennan misskilning ekki hafa neina þýðingu fyrir málið. Ótvírætt var af framburði stefnanda fyrir dómi að hann átti við að hlerinn sem var festur á fæðarann hafi losnað og að handfang á hleranum hafi slegist í hjálminn sem hann bar á höfði.
Eftir því sem næst verður komist veit enginn hvað varð af þessari vélasamstæðu né hvenær var hætt að nota hana. Hvorki virðast til teikningar af henni né handbók framleiðanda, sem hefði átt að fylgja samstæðunni þegar hún var keypt hingað til lands, né uppfærð gögn sem B hefði átt að gera um tækið í heild sinni þegar settur var nýr stjórnbúnaður á vélina, sbr. kröfur reglugerðar 1005/2009 um vélar og tæknilegan búnað, sbr. 4., 6., og 7. gr., svo og I., II. og VII. viðauka við reglugerðina. Stefnandi lagði hins vegar fram þrjár ljósmyndir sem gefa heildarmynd af vélastæðunni en splittið og sá frágangur sem hélt hleranum í lóðréttri stöðu ofan við rennunna á fæðaranum sést hins vegar ekki. Myndirnar virðast teknar af öðru tilefni en því atviki sem deilt er um í þessu máli.
Lögregla var kölluð á slysstað en kom ekki vegna anna. Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild á Akranesi. Hann fékk áverka á vinstri síðu og vinstri úlnliður brotnaði. Hann fór því í aðgerð hjá handarskurðlækni 24. janúar 2013 þar sem úlnliðsbrotið var dregið rétt og fest með fjórum pinnum.
Stefnandi tilkynnti atvinnurekanda sínum, stefnda BB ehf., slysið samdægurs, enda var líkamstjón hans þess eðlis að flytja þurfti hann frá vinnustaðnum á Sjúkrahúsið á Akranesi til aðhlynningar.
Fyrirsvarsmaður B sendi Vinnueftirlitinu skriflega tilkynningu um slysið næsta virka dag, mánudaginn 21. janúar 2013. Þar er tildrögum slyssins lýst á þennan hátt:
skv. lýsingu samstarfsmanns:
stóð upp í annarri til þriðju tröppu og var að teygja sig í álstykki sem stóð fast í opinu á 1000 gráðu heitum ofninum dettur við þetta og lendir trúlega á höndinni.
Lögregla ritaði skýrslu um atvikið 19. febrúar 2013, mánuði eftir að það varð. Þar segir að tilkynning hafi borist þess efnis að maður hefði dottið niður úr stiga á Grundartanga og væri eitthvað slasaður og að sjúkrabifreið hefði komið strax á staðinn. Lögregla hafi verið upptekin og hafi ekki farið á vettvang. Í skýrslunni segir að lögregla hafi síðar rætt við þann sem tilkynnti slysið, C. Hann hefði lýst slysinu þannig að stefnandi hefði verið við vinnu þegar hann hafi dottið niður úr stiga og brotið á sér vinstri handlegginn. Í skýrslunni segir jafnframt að lögregla hafi rætt við eiganda fyrirtækisins sem hafi sagt að Vinnueftirlitinu hefði verið gert viðvart um slysið.
Stefnandi tilkynnti stefnda, Verði tryggingum hf., sem vátryggjanda BB ehf., slys sitt tveimur mánuðum eftir atvikið, 15. mars 2013. Rúmum mánuði síðar svaraði tryggingafélagið og óskaði eftir að lögmaðurinn útvegaði tilkynningu vinnuveitanda til Vinnueftirlitsins. Lögmaður stefnanda athugaði, 27. júní 2013, hvort starfsmaður Vinnueftirlitsins hefði rannsakað þetta vinnuslys. Því var svarað að engin rannsókn hefði farið fram vegna þess að slysið hefði ekki verið tilkynnt þegar það varð.
Stefnandi aflaði læknisvottorðs 31. ágúst 2013 um afleiðingar slyssins fyrir hann. Um miðjan september sama ár krafðist stefnandi greiðslu úr frjálsri ábyrgðartryggingu B hjá Verði. Stefndi Vörður hafnaði kröfunni viku síðar með þeim rökum að stefnandi hefði ekki sýnt fram á neina sök vinnuveitanda síns. Um miðjan desember 2013 féllst Vörður á að greiða stefnanda bætur úr slysatryggingu launþega.
Þáverandi lögmaður stefnanda ritaði stefnda Verði bréf 7. janúar 2014, tæpu ári eftir slysið. Þar var gerð grein fyrir því að stefnandi hefði fengið aðstoð túlks til þess að segja frá atvikum slyssins. Í bréfinu er því lýst að fæðari, sem ýti álinu inn í ofninn, hafi losnað þegar splitti, sem eigi að halda honum, hafi færst úr stað. Fæðarinn hafi slegist í höfuð stefnanda og hann hafi, vegna þessa höggs, fallið ofan af stigapalli sem hann stóð á niður á gólf verksmiðjunnar. Ástæða þess að fæðarinn losnaði hafi verið að splitti, sem átti að halda honum föstum, hafi losnað vegna stöðugs titrings fæðarans.
Í lok bréfsins er tryggingafélagið, stefndi Vörður, hvatt til þess að afla gagna um öryggisstaðla, aðbúnað og fleira frá vinnuveitanda sem honum sem atvinnurekanda beri að tryggja í samræmi við 13. gr. laga nr. 46/1980 svo kanna megi hvort öryggisbúnaði ofnsins hafi verið áfátt þegar slysið átti sér stað. Ítrekað var að vinnuveitandi bæri hallann af því væru tildrög slyss og aðstæður ekki upplýst nægjanlega enda yrði ekki séð hvernig tryggingafélagið gæti tekið afstöðu til slyssins nema það hefði verið rannsakað.
Rúmum fjórum mánuðum síðar svaraði tryggingafélagið með bréfi dags. 15. maí 2014. Það hafnaði kröfu stefnanda um bætur úr ábyrgðatryggingu stefnda, BB ehf. Í bréfinu var vísað til þess að vinnuveitandinn hefði ekki brugðist tilkynningarskyldu sinni þar eð hann hefði sent Vinnueftirlitinu tilkynningu næsta virka dag eftir slysið. Hann geti ekki borið ábyrgð á þeirri ákvörðun Vinnueftirlitsins að rannsaka ekki slysið. Auk þess bendi gögn málsins ekki til annars en að slysið verði rakið til aðgæsluleysis tjónþola enda mótmæli vinnuveitandinn því að vanbúnaður eða bilun hafi valdið slysinu. Í fyrstu tilkynningu tjónþola til félagsins 15. mars 2013 hafi ekki verið minnst á bilun í tækinu eða vanbúnað þess. Þar eð hvorki lögregla né Vinnueftirlit hafi komið á slysstað verði sönnunarbyrði ekki velt á vinnuveitandann með nýjum upplýsingum tæpu ári eftir slysið.
Ágreiningnum var skotið til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem komst að þeirri niðurstöðu, 12. ágúst 2014, að stefnandi ætti ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingunni hjá stefnda. Nefndin byggði á því að engin gögn skytu stoðum undir fullyrðingu stefnanda um orsök slyssins. Í því ljósi, og vegna þess hversu seint stefnandi gerði grein fyrir orsökum slyssins, yrði sönnunarbyrði um orsök þess ekki velt yfir á vinnuveitandann. Því væri ekkert sem sýndi fram á að slysið yrði rakið til vanbúnaðar í tækjum eða annarra atvika sem vinnuveitandi gæti borið ábyrgð á.
Stefnandi hlaut varanlegt líkamstjón af slysinu. Í matsgerð E læknis, dags. 18. desember 2014, er læknisfræðileg örorka hans metin 15%. Uppgjör úr slysatryggingu launþega fór fram í byrjun árs 2015. Stefnandi hefur þurft á talsverðri sjúkraþjálfun og eftirliti að halda vegna meiðsla sinna.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu, BB ehf. og Varðar trygginga hf., sem vátryggjanda BB ehf., vegna líkamstjóns hans. Þá kröfu byggir hann á sakarreglunni, ólögfestri meginreglu skaðabótaréttar.
Eins og áður segir virðist þáverandi lögmaður stefnanda hafa misskilið að hluta til hvaða stykki það var sem losnaði og féll á stefnanda. Þessi misskilningur haggar þó ekki málsástæðum hans. Það þykir nægja að árétta þá frásögn stefnanda fyrir dómi að það hafi verið handfang á hlera á fæðaranum sem hafi slegist í hjálm hans þegar hlerinn losnaði en ekki fæðarinn sjálfur. Lesa má málsástæður og lagarök stefnanda með þeirri útskýringu en textinn sem hér fer á eftir verður ekki leiðréttur til samræmis við frásögn stefnanda af atvikum fyrir dómi.
Tildrög slyssins ekki nægjanlega rannsökuð
Að sögn stefnanda var það óklofið splitti í fæðara ofnsins sem olli því að fæðarinn losnaði og slóst í höfuð hans með þeim afleiðingum að hann féll niður stiga. Samstarfsmaður stefnanda, C, hafi orðið vitni að þessu. Stefnandi hafi talið öruggt, þar eð sjúkrabifreið var kölluð á vettvang, að Vinnueftirlitið eða vinnuveitandi hans myndu rannsaka eða láta rannsaka slysið en það hafi ekki verið gert. Stefnandi sé ólöglærður og tali einungis pólsku og hafi ekki, þegar hann leitaði réttar síns í upphafi, getað vitað að vanbúnaður tækja á slysstað hefði úrslitaáhrif um greiðslu úr tryggingu vinnuveitanda. Hann hafi lýst slysinu með aðstoð manns sem sé ekki túlkur. Af þeim sökum hafi ekki verið tekið fram, þegar tryggingafélaginu Verði var tilkynnt um slysið, hver hefði verið ástæða þess að hann féll úr stiganum. Hann hafi ekki gert sér ekki grein fyrir því að það skipti máli að láta vita að fæðari hefði slegist í höfuðið á honum og hafi því ekki nefnt orsök þess að hann féll. Tungumálaörðugleikar hafi jafnframt gert honum erfitt að lýsa tildrögum slyssins á slysadeild en hann hafi sagt það sem skipti máli, að hann féll úr stiga. Hefði Vinnueftirlitið rannsakað slysið á fullnægjandi hátt telur stefnandi að það hefði leitt í ljós að óklofið splitti í fæðara hafi valdið því að fæðarinn slóst til. Stefndi verði að bera hallann af því að það hafi ekki verið rannsakað nægjanlega.
Aðstæður á slysstað
Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til þess að aðstæður á vinnustað hans, á vegum BB ehf., hafi verið óforsvaranlegar þar eð frágangur búnaðarins sem stefnandi þurfti að nota, þ.e. ofninn, hafi verið með öllu ófullnægjandi. Á ofninum sé svokallaður fæðari sem hafi það hlutverk að ýta áli inn í ofninn þar sem það bráðni. Fæðarinn sé festur með splitti. Stefnandi hafi hlotið líkamstjón þegar umrætt splitti hafi losnað og fæðarinn slegist í höfuð hans og högg sem stefnandi fékk við það hafi valdið því að hann féll niður þrjá metra á steinsteypt gólf. Slíkt eigi ekki að geta gerst þegar splitti sé klofið en það splitti sem hélt hleranum hafi ekki verið klofið. Af þessu sé ljóst að orsakatengsl séu á milli vanbúnaðarins og tjóns stefnanda.
Einnig beri að hafa í huga eðli vinnunnar en gera eigi ríkari kröfur til vinnuveitanda, á jafn hættulegum vinnustöðum og þessum, til þess að hann tryggi fyllsta öryggi starfsmanna sinna. Því þyki stefndu, Vörður tryggingar hf. og BB ehf., bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda vegna vanbúnaðarins.
Fyrir liggi að skrifleg tilkynning um slysið hafi ekki borist Vinnueftirlitinu fyrr en mánudaginn 21. janúar 2013. Jafnframt liggi fyrir að hvorki Vinnueftirlitið né vinnuveitandi stefnanda hafi hlutast til um rannsókn á tildrögum slyssins. Samkvæmt svari Vinnueftirlitsins hafi það ekki rannsakað slysið vegna þess að það var ekki tilkynnt þegar það varð. Enn fremur liggi fyrir að lögreglan hafi ekki rannsakað vettvang slyssins vegna anna sem ollu því að starfsmenn hennar komu ekki á staðinn.
Slysið sé ótvírætt tilkynningarskylt skv. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. BB ehf. hafi því borið að tilkynna Vinnueftirlitinu slysið innan sólahrings frá því að það varð. Sú vanræksla stefnda, BB ehf., að tilkynna slysið ekki á réttan hátt, og að hafa ekki hlutast til um rannsókn á vettvangi, hafi valdið því að tildrög slyssins séu óupplýst og aðeins uppi tilgátur aðilanna sjálfra um orsakir slyssins. Það sé ekki sanngjarnt að vanræksla stefnda BB ehf. bitni á stefnanda. Stefnandi telji, í ljósi þessa, að líta beri til dómaframkvæmdar Hæstaréttar í sams konar málum, sem sýni að þegar tilkynningarskylda hafi verið vanrækt hafi það þau áhrif að vinnuveitandi beri hallann af skorti á sönnun og frásögn tjónþola er lögð til grundvallar í málinu, sbr. H 363/2008 og H 272/2008.
Dómkröfur stefnanda byggist á því að slys hans 18. janúar 2013 sé bótaskylt úr ábyrgðartryggingu sem B hafði í gildi á slysdegi. Krafa stefnanda byggist á heimild 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að höfða viðurkenningarmál. Vísað er til matsgerðar um afleiðingar slyssins sem sýna fram á varanlegt líkamstjón stefnanda og hagsmuni hans af þessari málsókn.
Til stuðnings bótaábyrgð stefndu vísar stefnandi til meginreglna íslensks skaðabótaréttar svo og almennu sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Hann vísar einnig til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, og til laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Jafnframt vísar hann til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem og þeirra reglna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli laganna. Aðild stefnda er byggð á III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum ákvæði 16. og 17. gr. Aðild stefnda Varðar er byggð á 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, hann sé greiðsluskyldur vegna frjálsrar ábyrgðartryggingar sem stefndi BB ehf. var með í gildi hjá stefnda á slysdegi. Varnarþing byggist á V. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi málskostnað vísar stefnandi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi Vörður tryggingar hf. áréttar að stefnandi byggi kröfu sína um viðurkenningu skaðabótaskyldu B á tjóni hans á sakargrundvelli. Þar eð stefnandi hafi ekki fært nein rök fyrir sök BB ehf. beri að sýkna. Að mati stefnda er orsök slyss stefnanda óhapp sem verði ekki rakið til mistaka vinnuveitanda eða vanbúnaðar á vinnustað. Því er mótmælt sem röngu og ósönnuðu að vanbúnaður hafi valdið slysi stefnanda.
Málatilbúnaður stefnanda um meintan vanbúnað sem orsök slyssins fái enga stoð í samtímagögnum sem séu til um slysið, hvorki skýrslu lögreglu né tilkynningu til Vinnueftirlitsins. Lýsing stefnanda á hinum meinta vanbúnaði sem orsök slyssins komi fyrst fram ári eftir slysið í bréfi lögmanns hans dags. 7. janúar 2014. Þá fyrst komi fram sú lýsing að splitti hafi losnað. Það hafi valdið því að fæðari við brennsluofn hafi losnað og slegist í höfuð stefnanda með þeim afleiðingum að hann féll úr stiganum og handleggsbrotnaði. Stefnandi skýri tómlæti sitt við að lýsa nákvæmum tildrögum slyssins með þeim rökum að hann komi frá Póllandi og tungumálaörðugleikar hafi gert honum erfitt fyrir að lýsa tildrögum þess. Þar að auki hafi hann ekki áttað sig á réttarstöðu launamanna vegna mögulegs vanbúnaðar á slysstað. Stefndu telja þessa skýringu stefnanda ekki hafa áhrif á sönnunarstöðuna og að sönnunarbyrðin um vanbúnað og orsakatengsl hvíli á stefnanda, sem endranær. Ólíkt þeim dómum sem stefnandi vísi til sé ástæða þess að meintur vanbúnaður var ekki rannsakaður frekar í þessu tilviki eingöngu tómlæti stefnanda. Vátryggingataki hafi uppfyllt tilkynningarskyldu sína með tilkynningu til Vinnueftirlitsins. Hann geti ekki borið ábyrgð á því að eftirlitið taldi ekki ástæðu til þess að koma á vettvang í kjölfar slyssins.
Stefndi bendir jafnframt á að umræddur búnaður sé mikill og þungur og hefði hann losnað og/eða slegist í stefnanda á þann hátt sem stefnandi lýsi ættu áverkar hans eða ástand hans í kjölfar slyssins að gefa það til kynna. Svo sé hins vegar ekki að sjá af gögnum málsins. Í fyrsta áverkavottorði F læknis, hafi stefnandi verið með fullri meðvitund við komu á slysadeild og hvergi minnst á neina höfuðáverka eða höfuðverki. Hefði stefnandi fengið á sig svo þungan og stóran búnað eins og þann sem er við álbrennsluofninn, hefði ástand hans strax eftir slysið gefið það til kynna. Að minnsta kosti hefði höfuðhöggið átt að leiða til skertrar meðvitundar eða alvarlegri afleiðinga en úlnliðsbrots. Atvikalýsing stefnanda fái því ekki stoð í þessum vottorðum eftir slysið, hvorki í áverkunum sjálfum né neinum lýsingum stefnanda sjálfs í því hvað gerðist. Þá komi þessi lýsing stefnanda eingöngu og fyrst fram í bréfi lögmanns hans ári eftir slysið. Stefndi byggi þannig á því að stefnandi hafi ekki sannað að slysið sé rakið til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á, enda styðjist atvikalýsingin sem stefnandi vilji leggja til grundvallar hvorki við atvik né gögn málsins.
Stefndi Vörður áréttar að á stefnanda hvíli sönnunarbyrði fyrir orsök tjóns síns. Ekki séu nein skilyrði til þess að snúa sönnunarbyrðinni við í þessu tilviki. Að mati stefnda benda gögn málsins til þess að slysið sé óhapp eða það verði rakið til eigin gáleysis stefnanda. Í fyrsta samtímagagni um slysið, tilkynningu vinnuveitanda til Vinnueftirlitsins, sé tildrögum slyssins lýst á þennan hátt:
skv. lýsingu samstarfsmanns:
stóð upp í annarri til þriðju tröppu og var að teygja sig í álstykki sem stóð fast í opinu á 1000 gráðu heitum ofninum dettur við þetta og lendir trúlega á höndinni.
Eins og mynd, sem stefnandi leggi fram, sýni sé veglegt og hátt handrið í kringum stigann, sem stefnandi stóð í. Þá liggi ekkert fyrir um það af hverju stefnandi hafi við þessar aðstæður kosið að beita því verklagi sem sé lýst í tilkynningu vinnuveitanda hans til Vinnueftirlitsins. Stefndi áréttar að stefnandi byggi ekki á því að verkstjórn hafi á einhvern hátt verið ábótavant. Sú ákvörðun hans að haga verkinu á þennan hátt sé ekki á ábyrgð neins annars en hans sjálfs.
Stefndi mótmælir því að aðstæður á vinnustaðnum eða frágangur búnaðar hafi ekki verið forsvaranlegar. Þvert á móti hafi stefndi hagað vinnuaðstæðum eins og best var á kosið. Að mati stefnda er orsök slyss stefnanda óhapp sem sé ekki á ábyrgð stefnda.
Stefndi mótmælir því að tilkynning á slysinu hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 46/1980. Stefnandi vísi til 79. gr. laganna og þess að tilkynningarskylda hafi verið vanrækt. Samkvæmt ákvæðinu sé atvinnurekanda skylt að tilkynna Vinnueftirlitinu án ástæðulausrar tafar öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags, sem slysið varð. Slys þar sem líkur séu á því að starfsmaður hafi hlotið langvinnt eða varanlegt heilsutjón skuli tilkynna eigi síðar en innan sólarhrings. Almennt sé frestur til tilkynningar ein vika, sbr. 2. mgr. 79. gr. laganna. Stefndi bendir í þessu sambandi á að slysið hafi orðið kl. 22.30 á föstudagskvöldi 18. janúar 2013. Stefndi hafi tilkynnt það strax næsta mánudag 21. janúar 2013. Slysið hafi því verið tilkynnt fyrsta virka vinnudag eftir að það varð og sama dag og ljóst var að stefnandi yrði frá vinnu vegna þess. Lögreglunni hafi hins vegar verið tilkynnt um slysið strax í kjölfar þess. Því sé ljóst að stefndi hafi ekki dregið að tilkynna slysið. Með vísan til ofangreinds mótmæli stefndi því sem röngu að hann hafi vanrækt lögboðna tilkynningarskyldu. Í tilviki stefnanda hefði engu breytt hvort Vinnueftirlitinu hefði borist tilkynningin á föstudagskvöldi eða strax næsta mánudag. Stefnandi hafi sjálfur ekki gert grein fyrir tildrögum slyssins fyrr en ári eftir slysið. Það að hvorki Vinnueftirlit né lögregla hafi talið ástæðu til þess að rannsaka slysið betur tengist beint frásögn stefnanda sjálfs af slysinu þegar eftir það. Hefði hann lýst því strax að vanbúnaður væri orsök slyssins hefðu fullyrðingar hans um vanbúnað líklegast verið rannsakaðar. Stefnandi hafi hins vegar kosið að segja ekki frá orsökum slyssins fyrr en ári síðar. Það geti ekki verið á ábyrgð stefnda. Um hinn meinta vanbúnað liggi ekkert fyrir og því beri að hafna honum sem röngum og ósönnuðum. Þar sem málsókn stefnanda eigi ekki við nein rök að styðjast sé sýkna stefnda einboðin.
Stefndi vísar til áðurgreindra lagaraka er varði sýknukröfu sem og ákvæða laga nr. 50/1993 og nr. 46/1980. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en jafnframt er krafist álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti. Stefndi reki ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi og honum sé því nauðsynlegt að fá dæmt álag úr hendi stefnanda er nemi þeim skatti.
Niðurstaða
Það er óumdeilt að stefnandi slasaðist við vinnu sína hjá stefnda B að kvöldi föstudagsins 18. janúar 2013 svo og að hann féll þá úr stiga eða af stigapalli vélar sem hann vann við.
Það er hins vegar umdeilt hver var ástæða þess að hann féll. Tvær ástæður hafa verið gefnar. Annars vegar lýsti vinnuveitandi stefnanda því í tilkynningu til Vinnueftirlitsins 21. janúar 2013 að stefnandi hefði verið að teygja sig eftir álgjallsbita sem stóð fastur í opi á 1000°C heitum ofni sem hann vann við. Stefnandi hefði af þeim sökum dottið úr stiga sem hann stóð í. Stefndi lítur því svo á að slysið sé óhapp eða verði rakið til gáleysis stefnanda sjálfs.
Eins og áður segir talar stefnandi hvorki íslensku né ensku. Fyrsta skráða lýsing á atvikinu er í sjúkraskrá hans hjá sjúkrahúsinu á Akranesi. Þar segir að stefnandi hafi unnið hjá fyrirtækinu B. Um kl. 22.00 á slysdegi hafi hann fallið þar úr stiga um 1,5 metra og niður á steinsteypt gólf. Ekki liggur ótvírætt fyrir hver gaf þá lýsingu en C, samstarfsmaður stefnanda sem talar ensku, hringdi í 112 auk þess sem sjúkraflutingamenn komu á staðinn og sáu aðstæður.
Stefnandi sjálfur greindi þannig frá, tæpu ári eftir atvikið, að búnaður á vélinni sem hann vann við hefði losnað og slegist í hann og hann hafi af þeim sökum fallið af pallinum þar sem hann stóð og vann verk sitt. Þessi búnaður hafi slegist í hann vegna þess að splitti sem átti að halda búnaðinum hafi losnað við titring vélarinnar en splittið hafi ekki verið klofið. Hefði það verið klofið hefði það ekki losnað þrátt fyrir titring vélarinnar.
Þar eð stefnandi telur þetta orsök slyssins byggir hann á því að vélin sem hann vann við hafi verið vanbúin og vinnuaðstæður hans af þeim sökum ekki hættulausar. Slys hans verði því rakið til sakar vinnuveitanda hans. Orsök slyssins hafi ekki verið rannsökuð en á því beri vinnuveitandinn ábyrgð. Stefnda Verði tryggingum beri því að bæta stefnanda tjón hans þar eð félagið hafi selt vinnuveitanda stefnanda ábyrgðartryggingu.
Þá lýsingu á orsökum slyssins sem stefndi gengur út frá að sé rétt ritaði eigandi BB ehf. í tilkynningu sína til Vinnueftirlitins. Hún er svofelld:
skv. lýsingu samstarfsmanns:
stóð upp í annarri til þriðju tröppu og var að teygja sig í álstykki sem stóð fast í opinu á 1000 gráðu heitum ofninum dettur við þetta og lendir trúlega á höndinni.
Fyrir dómi mundi vinnuveitandinn ekki hver það var sem greindi honum frá því að stefnandi hefði staðið í stiganum og borið sig svona að áður en hann féll á gólfið. Vitnið C þvertók fyrir að þetta væri haft eftir honum enda hefði hann ekki séð stefnanda detta. Hann hefði verið hinum megin við vélina og séð hlerann á fæðaranum falla fram og síðan tekið eftir því að hann sá ekki lengur í stefnanda.
Stefnandi bar að hann hefði ekki teygt sig yfir rennuna heldur hefði hann verið að reyna að stýra álgjallsbitanum með stjaka sem hann hafi haft til þess að vinna verk sitt með. Stefnandi bar jafnframt að ekki nokkur maður hefði haft samband við hann og beðið hann að greina frá því hvernig slysið vildi nákvæmlega til, hvorki lögregla, starfsmaður Vinnueftirlits né starfsmaður vinnuveitanda.
Vitnið C bar að hann hefði hringt í vinnuveitandann og sagt honum að stefnandi hefði dottið og handleggsbrotnað. Hann bar einnig að skömmu eftir að atvikið varð hafi starfsmaður […] komið á vettvang og spurt hann hvað hefði gerst. Við vaktaskiptin, kl. 06.00 um morguninn, hafi Steindór verkstjóri komið á dagvakt og spurt vitnið að því sama. C bar jafnframt að lögreglan hefði aldrei haft samband við hann. Sú fullyrðing í lögregluskýrslunni væri því ekki rétt.
Dómurinn telur því alls ekki upplýst eftir hverjum lýsingin í tilkynningu til Vinnueftirlitsins er höfð og þar á meðal hvort hún er höfð eftir einhverjum sem ræddi við stefnanda eða vitnið C. Hún er í það minnsta ekki höfð eftir sjónarvotti.
Til viðbótar því að tækið sem stefnandi vann við hafi verið vanbúið og hættulegt byggir stefnandi sök stefndu á því að vinnuveitandinn hafi vanrækt tilkynningarskyldu sína og hann hafi látið hjá líða að tryggja að slysið yrði rannsakað, annað hvort sjálfur eða með því að knýja Vinnueftirlitið til þess að koma á vettvang.
Þótt vinnuveitandi stefnanda hafi látið við það sitja að tilkynna slysið næsta virkan dag eftir að það varð verður ekki séð að það eitt og sér sé saknæmt eins og aðstæðum á slysstað var háttað. Búnaðurinn sem stefnandi vann við er úr steyptu járni sem er ýmist logsoðið saman eða skrúfað saman með öflugum boltum og skrúfum. Þótt ofninn velti eins og tunna er hann þó ætíð á sama stað og fæðarinn færist að og frá ofninum eftir brautum. Vinnuaðstæður virðast því ekki hafa verið hvikular að öðru leyti en því að hægt var að hreyfa hlerann á fæðaranum úr lóðréttri stöðu í lárétta með því að losa splitti sem hélt honum. Ekkert liggur fyrir um að ekki hefði verið unnt að rannsaka atvik slyssins á fullnægjandi hátt þann dag sem tilkynningin barst eða jafnvel síðar.
Það er lögboðin skylda Vinnueftirlitsins að rannsaka orsakir slysa, sbr. 81. gr. laga nr. 46/1980. Tilgangur rannsóknar eftirlitsins er að tryggja að sambærileg slys endurtaki sig ekki á vinnustöðum yfirleitt. Samkvæmt mörgum ákvæðum laga og reglugerða um öryggi á vinnustöðum hvílir jafnframt rannsóknarskylda á vinnuveitandanum. Sinni hann henni ekki getur hann ekki uppfyllt þá skyldu að endurskoða áhættumat og áætlun sína um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum í því skyni að koma í veg fyrir að sambærilegt atvik endurtaki sig á vinnustaðnum hans. Hér má benda á 65., 65.gr. a, og 66. gr. laga nr. 46/1980, en jafnframt 37. gr., svo og 30. gr. reglugerðar nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, ásamt 4., 5., 6., 7., 8. og 10. gr. reglugerðar 367/2006 um notkun tækja.
Í dómaframkvæmd hefur verið byggt á þessari rannsóknarskyldu vinnuveitanda. Litið hefur verið svo á að hann losni ekki undan ábyrgð á afleiðingum slyss við það eitt að hafa tilkynnt Vinnueftirlitinu slys, sérstaklega ekki séu orsakir þess ekki að fullu upplýstar. Hann verði þrátt fyrir tilkynninguna að tryggja að fullnægjandi rannsókn fari fram á orsökum slyssins og jafnframt ganga eftir því að Vinnueftirlitið sinni rannsóknarskyldu sinni.
Vinnuveitandi stefnanda kvaðst hafa fengið lýsingu einhvers samstarfsmanns stefnanda, sem vann þó ekki á þeirri vakt sem slysið varð, á því hvað var talið hafa gerst. Þótt svo væri gat vinnuveitandinn ekki litið svo á að atvikið væri að fullu upplýst því enginn sá hvað gerðist. Stefnandi og C voru tveir á vakt. C sá einungis það sem var sýnilegt frá þeim stað þar sem hann stóð, það er að hlerinn sveiflaðist fram og stefnandi hvarf á sama tíma sjónum hans. Hann kom síðan að stefnanda handleggsbrotnum liggjandi á gólfinu neðan við stigann. Þótt hann sé sá eini sem var á staðnum rataði þessi lýsing hans ekki í tilkynningu vinnuveitandans til Vinnueftirlitsins. Vinnuveitandinn ræddi heldur aldrei við stefnanda um orsakir slyssins eða hafði samband við hann yfirhöfuð.
Þar eð vinnuveitandinn gat ekki gengið út frá því að orsök slyssins væri að fullu upplýst var augljóst að rannsaka þyrfti tildrög þess. Hann gat því ekki látið hjá líða að þrýsta á að Vinnueftirlitið sinnti hinni lögboðnu skyldu sinni. Eins og áður segir var honum sjálfum jafnframt ótvírætt skylt að rannsaka tildrög slyssins þegar í upphafi þótt honum tækist ekki að fá eftirlitið á staðinn.
Stefndi Vörður hf. ber því við að tómlæti stefnanda sé um það að kenna að slysið var ekki rannsakað. Eins og rakið hefur verið telur dómurinn þá skyldu hafa hvílt á vinnuveitandanum þegar í upphafi að tryggja að slysið yrði rannsakað.
Þótt farist hefði fyrir hjá vinnuveitandanum að ganga eftir því að Vinnueftirlitið kæmi og rannsakaði slysið í upphafi, svo og að hann hafi látið hjá líða að rannsaka það sjálfur, fékk hann tækifæri til úrbóta.
Þáverandi lögmaður stefnanda ritaði stefnda Verði bréf 7. janúar 2014, tæpu ári eftir slysið. Þar kemur fram að stefnandi hafi fengið aðstoð túlks til þess að gera grein fyrir atvikum slyssins. Samkvæmt frásögn hans hafi fæðari, sem ýti álinu inn í ofninn, slegist í höfuð stefnanda og hann hafi vegna þessa höggs fallið ofan af stigapalli sem hann stóð á og niður á gólf verksmiðjunnar. Ástæða þess að fæðarinn hafi losnað hafi verið sú að splitti, sem hafi átt að halda honum á sínum stað, hafi losnað. Það hafi gerst vegna þess að splittið var ekki klofið og af þeim sökum hafi það hreyfst við titring vélarinnar.
Í þessari frásögn er endurtekinn sá grunnatburður, sem kemur fram í öllum samtímagögnum, svo sem lögregluskýrslu, áverkavottorði og læknisvottorði, að stefnandi hafi fallið úr stiga/ofan af stigapalli við vinnu sína hjá B. Hins vegar er orsök þess að hann féll tilgreind önnur en sú sem vinnuveitandinn tilkynnti Vinnueftirlitinu.
Í lok bréfsins er tryggingafélagið, stefndi Vörður, hvatt til þess að afla gagna um öryggisstaðla, aðbúnað og fleira frá vinnuveitandanum sem honum, sem atvinnurekanda, beri að tryggja í samræmi við 13. gr. laga nr. 46/1980 svo kanna megi hvort öryggisbúnaði ofnsins hafi verið áfátt þegar slysið átti sér stað. Ítrekað er að vinnuveitandi beri hallann af því séu tildrög slyss og aðstæður ekki upplýst nægjanlega enda verði ekki séð hvernig tryggingafélagið geti tekið afstöðu til slyssins nema það hafi verið rannsakað.
Ekki var liðið ár þegar stefnandi fékk, með aðstoð túlks, tækifæri til þess að gera betur grein fyrir því hvernig það vildi til að hann féll niður af stigapallinum á fæðaranum að kvöldi föstudagsins 18. janúar 2013. Eins og áður segir talar stefnandi hvorki íslensku né ensku. Þegar litið er til þess hversu erfitt er fyrir fólk í þeirri stöðu, hvort tveggja að afla sér upplýsinga um réttindi sín og koma frásögn sinni á framfæri við þá sem gætu liðsinnt þeim að leita réttar síns, telur dómurinn að það verði ekki talið honum til tómlætis að hann skýrði ekki ítarlegar frá atvikinu fyrr en tæpu ári eftir slysið.
Í bréfinu sem lögmaður stefnanda sendi stefnda Verði tryggingum 7. janúar 2014 er tryggingafélagið hvatt til þess að afla upplýsinga frá atvinnurekandanum eins og áður er rakið. Meðal gagna málsins er ekkert sem bendir til þess að tryggingafélagið hafi orðið við þessari áskorun.
Rúmum fjórum mánuðum síðar svaraði tryggingafélagið með bréfi dags. 15. maí 2014. Í bréfinu var í fyrsta lagi vísað til þess að vinnuveitandinn hefði ekki brugðist tilkynningarskyldu sinni þar eð hann hefði sent Vinnueftirlitinu tilkynningu næsta virka dag eftir slysið. Í öðru lagi bendi gögn málsins ekki til annars en að slysið verði rakið til aðgæsluleysis tjónþola enda mótmæli vinnuveitandinn því að vanbúnaður eða bilun hafi valdið slysinu. Þar eð hvorki lögregla né Vinnueftirlit hafi komið á slysstað verði sönnunarbyrði ekki velt á vinnuveitandann með nýjum upplýsingum tæpu ári eftir slysið.
Í bréfi tryggingafélagsins kemur
ekki fram að vélin sé ekki lengur í fyrirtækinu eða að henni hefði verið
fargað. Þar segir ekki heldur að teikningar af henni eða handbækur sem ættu að
hafa fylgt henni frá seljanda né tækniskjöl, sem B hefði átt að vinna þegar
fyrirtækið setti vélina upp og breytti með nýjum stjórnbúnaði eins og eigandi
B greindi frá við vitnaleiðslur, hafi ekki fundist eða nokkuð annað tilgreint
sem gæti réttlætt að ekki væri hægt að rannsaka hvort frásögn stefnanda kynni
að eiga við rök að styðjast. Samkvæmt viðauka VII við reglugerð nr. 1005/2009
um vélar og tæknilegan búnað, ber að varðveita slík skjöl í a.m.k. 10 ár eftir
framleiðsludag vélar. Hann teldist í þessu tilviki vera frá og með
uppsetningu og breytingum vélarinnar á starfsvæði A.
Ekkert liggur því fyrir um það að þá hafi verið um seinan að athuga vettvang slyssins, meðal annars hvort búnaður, sem var við vinnusvæði stefnanda á pallinum, væri festur með splitti og hvort þannig væri gengið frá splittinu að það gæti losnað við titring fæðarans.
Eins og komið er fram byggði tilkynning vinnuveitandans til Vinnueftirlitsins hvorki á frásögn stefnanda né C. Eftir því sem næst verður komist byggði hún á því sem einhver starfsmaður fyrirtækisins, sem þó var ekki á staðnum þegar atvikið varð, taldi að hefði gerst.
Þegar fyrir lá að frásögn stefnanda samræmdist ekki þeirri lýsingu sem vinnuveitandinn hafði gefið Vinnueftirlitinu hlaut að vera augljóst að það hefði þýðingu í málinu hvor orsökin reyndist rétt og því væri nauðsynlegt að rannsaka tækið og ræða við stefnanda, með liðsinni góðs túlks, og hugsanlega við aðra starfsmenn fyrirtækisins.
Ekkert í gögnum málsins bendir til annars en að tækið sem stefnandi vann við hafi verið óbreytt á þeim tíma þegar skorað var á stefnda að afla gagna frá vinnuveitandanum um búnaðinn, frágang á honum og hvort þar hafi verið gætt fyllsta öryggis starfsmanna. Þegar litið er til þessa, auk fyrirmæla laga og reglugerða um rannsókn atvinnurekanda á vinnuslysum í því skyni að fyrirbyggja frekari slys, og kröfur um varðveislu gagna, telur dómurinn að stefndi Vörður geti ekki byggt á því að sú töf sem varð á því að stefnandi greindi frá atvikum slyssins kæmi í veg fyrir að vettvangur og orsakir slyssins yrðu rannsakaðar, þótt tæpt ár væri liðið frá atvikinu.
Það er því niðurstaða dómsins að vinnuveitandi stefnanda hafi vanrækt að rannsaka og láta rannsaka slysið þegar það varð. Hann átti kost á að bæta þar úr en nýtti sér það ekki. Eins og áður segir hefur ekkert verið lagt fram um það að neinu hafi verið breytt á vinnustaðnum sem kom í veg fyrir rannsókn á vélinni þótt tæpt ár væri liðið frá slysinu.
Miða verður við að slík rannsókn, einkum í upphafi en einnig síðar, hefði
getað eytt þeirri óvissu sem er um það hvort slysið verði rakið til ágalla eða
vanbúnaðar á fæðaranum sem stefnandi vann við eða hvort eittvað annað var
orsök slyssins. Þar eð óvissa er um orsök vinnuslyssins, sem leggja verður til
grundvallar að ráðist af því að vinnuveitandinn hlutaðist ekki til um að
orsakir þess væru rannsakaðar, verður að snúa sönnunarbyrði um orsökina við og
fella skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á vinnuveitanda hans BB ehf.
Annar meðdómsmanna, Kolbrún Sævarsdóttir, er ekki sammála þessari niðurstöðu. Hún telur fyrirsvarsmann stefnda BB ehf. hafa fullnægt tilkynningarskyldu sinni skv. 79. gr. laga nr. 46/1980. Í ljósi upphaflegrar frásagnar stefnanda telur hún jafnframt að vinnuveitandinn hafi ekki haft neitt tilefni til þess að hlutast til um rannsókn á atvikum né heldur knýja Vinnueftirlitið til þess að koma á staðinn og rannsaka aðstæður og tæki. Að hennar mati bar stefnanda, sem naut liðsinnis lögmanns frá upphafi, að greina mun fyrr frá þeim atvikum sem hann taldi hafa valdið því að hann féll ofan af stigapallinum. Þar eð hann hafi dregið það í næstum ár verði sönnunarbyrðinni ekki snúið við og varpað á vinnuveitandann. Af þeim sökum beri að sýkna tryggingafélag vinnuveitandans, stefnda Vörð tryggingar hf.
Stefnandi stefnir bæði BB ehf. og tryggingafélagi hans, Verði tryggingum. Dómkrafan er þó einungis orðuð þannig að viðurkennd sé skaðabótaskylda stefnda BB ehf. vegna varanlegra líkamsáverka sem stefnandi hlaut þegar hann slasaðist við vinnu sína hjá stefnda á Grundartanga. Dómurinn telur að skilja verði dómkröfuna þannig að þess sé jafnframt krafist að viðurkennd verði skylda stefnda Varðar trygginga hf., sem tryggingafélags stefnda B, til þess að greiða stefnanda bætur úr frjálsri ábyrgðartryggingu B hjá Verði. Ekki verður annað séð en stefndi Vörður hafi lesið dómkröfuna þannig því í greinargerð til varnar er þess einungis krafist að stefndi Vörður tryggingar hf. verði sýknað af öllum kröfum stefnanda.
Meirihluti dómenda hefur fallist á að B ehf. beri fulla ábyrgð á því tjóni sem stefnandi hlaut þegar hann féll niður af stigapalli sem hann stóð á við vinnu sína á vél fyrirtækisins 18. janúar 2013. Stefndi Vörður tryggingar, sem seldi vinnuveitandanum ábyrgðartryggingu, hefur með því tekið á sig að greiða bætur vegna þeirrar ábyrgðar sem fellur á vinnuveitandann.
Dómurinn hefur því fallist á málsástæður stefnanda og kröfur hans. Af þeim sökum verður, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að dæma stefnda til þess að greiða honum málskostnað. Þegar litið er til umfangs málsins þykir málflutningsþóknun, að teknu tilliti til virðisaukaskatts og kostnaðar við túlkun fyrir stefnanda við aðalmeðferð, hæfilega ákveðin 1.500.000 krónur.
Ingiríður Lúðvíksdóttir og Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómarar og Árni Jósteinsson vinnuverndarsérfræðingur kveða upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð:
Viðurkennd er bótaábyrgð stefnda, Varðar trygginga hf., á afleiðingum vinnuslyss sem stefnandi, A, lenti í 18. janúar 2013 á starfsstöð BB ehf.
Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.