Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-115

Snæfellsbær (Hróbjartur Jónatansson lögmaður)
gegn
þrotabúi ICEGP ehf. (Guðmundur Óli Björgvinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Ómerking héraðsdóms
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 6. apríl 2020 leitar Snæfellsbær leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 24. mars 2020 í málinu nr. 52/2020: Þrotabú ICEGP ehf. gegn Snæfellsbæ á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þrotabú ICEGP ehf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um endurgreiðslu ofgreiddra fasteignaskatta fyrir tímabilið 2010 – 2014, sem gerðir voru upp við nauðungarsölu fasteignarinnar að Kólumbusarbryggju 1 í Snæfellsbæ með greiðslum á árunum 2014 og 2015. Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 7. janúar 2020 var kröfu gagnaðila vísað frá dómi. Úrskurður héraðsdóms var felldur úr gildi með framangreindum úrskurði Landsréttar og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Leitar leyfisbeiðandi kæruleyfis til að fá þeirri niðurstöðu hnekkt.

Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar í kærumálum þegar svo er mælt fyrir í öðrum lögum. Hvorki er í lögum nr. 91/1991 né öðrum lögum mælt fyrir um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra dóm Landsréttar um það efni sem hér um ræðir. Er beiðninni því hafnað.