Hæstiréttur íslands
Mál nr. 118/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 3. mars 2010. |
|
Nr. 118/2010.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. mars 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. febrúar 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. mars 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 26. mars 2010 klukkan 16 en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Sóknaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms og kemur aðalkrafa hans því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. febrúar 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 26. mars 2010, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans hafi haft til rannsóknar mál er varði ætlaðan innflutning á miklu magni af amfetamíni hingað til lands. Rannsókn lögreglu hafi hafist er henni bárust upplýsingar um að X og Y væru að skipuleggja innflutning á fíkniefnum til landsins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem lögreglu hafi borist hafi átt að flytja fíkniefnin til landsins með skipinu A, en Y sé skipverji um borð í skipinu. Skipið hafi komið til landsins 12. janúar sl. Daginn eftir, 13. janúar, hafi Y verið handtekinn í þágu rannsóknar málsins. Við leit á honum hafi fundist rúmlega 4 kg af amfetamíni. Að sögn Y hafi hann átt að afhenda fíkniefnin í íbúð að M. Fíkniefnunum hafi verið skipt út fyrir gerviefni og þau afhent undir eftirliti lögreglu. Í íbúðinni hafi verið X. Hann hafi verið handtekinn í framhaldinu og hafi þeir báðir sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 14. janúar sl.
X hafi í fyrstu alfarið neitað sök. Hann hafi síðan breytt framburði sínum hjá lögreglu og játað að hafa staðið að innflutningi á ofangreindum fíkniefnum hingað til lands. Að sögn X hafi það verið óþekktur aðili sem hafi komið þeim Y saman. X hafi sagt þá Y hafa hist nokkrum sinnum og sammælst um að Y myndi flytja inn fíkniefni til landsins með skipi sem hann væri starfsmaður hjá. X hafi þá fundið aðila er hefði haft áhuga á að borga fyrir ofangreind fíkniefni. Þá muni X hafa farið til Hollands að beiðni þessa óþekkta aðila, ásamt öðrum óþekktum aðila. Að sögn X hafi þeir farið til Breda í Hollandi, en þar hafi óþekkti aðilinn sótt fíkniefnin og afhent þau X. Því næst hafi X hitt Y og afhent honum fíkniefnin. Þá hafi Y flutt fíkniefnin hingað til lands með skipinu A og komið síðan með fíkniefnin heim til X að M. X hafi greitt Y 400.000 kr. Að sögn X hafi hann ekki vitað hvað hann hafi átt að gera við fíkniefnin í framhaldinu.
X og Y hafi báðir sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 14. 29. janúar. Þá hafi þeir sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna frá 29. janúar sl. Rannsókn málsins sé nú lokið og málið hafi verið sent til viðeigandi meðferðar hjá embætti ríkissaksóknara fyrr í dag. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krefjist nú áframhaldandi gæsluvarðhalds fyrir hönd ríkissaksóknara.
Kærði þyki vera undir sterkum rökstuddum grun um aðild að broti sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Meint aðild kærða þyki mikil en hún sé talin tengjast skipulagningu, milligöngu og móttöku fíkniefnanna. Lögregla telji nær öruggt að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Þá sé einnig lagt til grundvallar kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald að um mjög mikið magn hættulegra fíkniefna sé að ræða. Hið ætlaða brot kærða þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar, en telja verði að ef sakborningur, sem hafi orðið uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli ljúki með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærilega stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr. 551/2009, 136/2008, 306/2008, 635/2007, 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að uppkvaðningu dóms þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Þá hafi Hæstiréttur fallist á það í máli nr. 56/2010 að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála varðandi gæsluvarðhald kærða.
Ekki sé talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, og sé skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, fullnægt í því máli sem hér um ræðir.
Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja er kærði undir sterkum grun um aðild að innflutningi á rúmlega 4 kg af amfetamíni. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 14. janúar sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en svo með vísan til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Rannsókn málsins er nú lokið og hefur málið verið sent til embættis ríkissaksóknara. Með hliðsjón af því magni amfetamíns sem um ræðir verður með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald, en ástæða þykir til að marka því skemmri tíma eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. mars 2010, kl. 16:00.