Hæstiréttur íslands

Mál nr. 90/2013


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Vinnuslys
  • Réttargæsla
  • Aðild
  • Sératkvæði


                                     

Miðvikudaginn 19. júní 2013.

Nr. 90/2013.

Guðrún Daníelsdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Latabæ ehf.

og til réttargæslu

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Gunnar Sturluson hrl.)

og

J&L ehf.

og til réttargæslu

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

Skaðabætur. Vinnuslys. Réttargæsla. Aðild. Sératkvæði.

G krafðist þess aðallega að viðurkennd yrði óskipt skaðabótaskylda L ehf. og J ehf., vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir er hún starfaði fyrir J ehf. í kvikmyndaveri L ehf., er ljósastandur sem verið var að vinna við féll á hana. Til vara krafðist hún þess að viðurkenndur yrði réttur sinn til greiðslu bóta úr launþegatryggingu J ehf. hjá T hf. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. vísað til þess að G hefði haldið áfram stöfum sínum eftir slysið og hefði hún ekki orðið óvinnufær af þess völdum. Hefði slysið því ekki verið tilkynningaskylt samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Ekkert væri fram komið sem benti til þess að slysið mætti rekja til vanhirðu eða annarrar saknæmrar framgöngu starfsmanna L ehf. varðandi viðhald eða uppsetningu standsins eða að ástand hans hefði verið þannig að sjá hefði mátt fyrir að notkun hans fylgdi sérstök slysahætta. Með vísan til 1.mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 var lagt til grundvallar að ljósamaður, sem átti við ljósastandinn umrætt sinn, hefði ekki valdið slysinu með gáleysi við meðhöndlun ljóssins, en G hafði borið fyrir héraðsdómi að hún teldi að ekki hefði verið hægt að haga vinnunni við standinn með öðrum hætti. Varð krafa G á hendur J ehf. því ekki reist á reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Voru J ehf. og L hf. því sýknaðir af aðalkröfu G. Að því er varðaði varakröfu G vísaði Hæstiréttur til þess að í héraði hefði T hf. verið stefnt til réttargæslu, en að í áfrýjunarstefnu væri varakröfunni beint að félaginu. Með vísan til 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um að kröfur yrðu ekki gerðar á hendur þeim sem stefnt væri til réttargæslu var varakröfu G á hendur réttargæslustefnda T hf. vísað frá Hæstarétti. Þá var J ehf. sýknaður af varakröfunni á grundvelli aðildarskorts.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. febrúar 2013. Hún krefst þess aðallega að viðurkennd verði óskipt skaðabótaskylda stefndu, Latabæjar ehf. og J&L ehf., vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir 17. október 2010 er hún starfaði fyrir J&L ehf. í kvikmyndaveri Latabæjar ehf. Til vara krefst hún þess að viðurkenndur verði réttur sinn til greiðslu bóta úr launþegatryggingu J&L ehf. hjá Tryggingamiðstöðinni hf. og er varakröfunni beint að Tryggingamiðstöðinni hf. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi, Latibær ehf., krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að sök verði skipt í málinu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi, J&L ehf., og réttargæslustefndi, Tryggingamiðstöðin hf., krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti

Réttargæslustefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi stefndi Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu í héraði og verður stefna ekki skilin á annan hátt en þann að varakröfu um viðurkenningu á rétti áfrýjanda til bóta úr launþegatryggingu stefnda J&L ehf. hafi með stefnunni verið beint að því félagi. Stefndi J&L ehf. tók til varna á þeim grunni og krafðist sýknu með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem kröfunni væri ranglega beint að sér. Í áfrýjunarstefnu beinir áfrýjandi varakröfu sinni að Tryggingamiðstöðinni hf. Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 verða kröfur ekki gerðar á hendur þeim sem stefnt er til réttargæslu. Varakröfu áfrýjanda á hendur réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðinni  hf. er því vísað frá Hæstarétti.

II

Málsatvik eru þau að 17. október 2010 var verið að vinna við gerð auglýsingar sem stefndi J&L ehf. hafði tekið að sér að gera. Fór vinnan fram í myndveri að Miðhrauni 4 í Garðabæ. Myndver þetta mun hafa verið í umráðum 380° Studios ehf., sem samkvæmt gögnum málsins leigði það stefnda J&L ehf. í fjóra daga til verksins.  Við gerð auglýsingarinnar munu hafa unnið 10 til 15 manns á vegum stefnda J&L ehf., þeirra á meðal áfrýjandi sem gegndi starfi aðstoðarleikstjóra. Um klukkan 11 árdegis var Ásgrímur Guðbjartsson, sem gegndi starfi  ljósamanns, að vinna við ljósastand í myndverinu. Standur þessi mun vera á hjólum og um fjögurra metra hár. Ofan á hann mun hafa verið fest um fimm metra löng þverslá. Var miðja hennar fest við lóðrétta burðarsúlu standsins. Ljós var fest við annan enda þverslárinnar en sandpokar á hinn til mótvægis. Ójafnvægi komst á standinn og féll hann niður og lenti á efri hluta baks og hálsi áfrýjanda, en samstarfskona hennar Sara Jónsdóttir, sem gegndi starfi framleiðanda við gerð auglýsingarinnar, varð einnig fyrir standinum. Lögregla og sjúkralið voru kölluð til. Samkvæmt skýrslu lögreglu var vinna í fullum gangi í myndverinu þegar hana bar að garði og engin ummerki að sjá eftir óhappið. Kváðust áfrýjandi og Sara hissa á að sjá lögreglu og sjúkralið enda hefðu þær ekki beðið um slíka aðstoð. Segir í skýrslunni að þær hafi kennt sér engra eða lítilla eymsla og hafi hvorki þær né sjúkraflutningamenn talið frekari aðstoðar þörf. Skömmu síðar um daginn leitaði áfrýjandi til bráðadeildar Landsspítala háskólasjúkrahúss. Var talið að hún hafði tognað á hálshrygg, brjósthrygg og olnboga. Sneri áfrýjandi að því búnu aftur til vinnu sinnar og lauk verkefni dagsins, en ekki þrautalaust. Áfrýjandi kvaðst ekki hafa verið óvinnufær eftir slysið en eftir að töku umræddrar auglýsingar lauk hefðu liðið 10 dagar þar til hún hóf vinnu við næsta verkefni, sem var fyrir aðila ótengdan þessu máli. Meðal gagna málsins er vottorð Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis 25. febrúar 2011. Samkvæmt því hafði hann skoðað áfrýjanda 30. desember 2010. Greindist hún með tognun og ofreynslu á hálshrygg, brjósthrygg og olnboga og tognun á vinstri úlnlið og væri ekki frekari bata að vænta.

Myndver það sem slysið varð í mun vera notað til gerðar sjónvarpsþátta um Latabæ, en er leigt út til annarra verkefna þegar hlé verða á upptökum þáttanna. Myndverið er leigt út án starfsfólks. Á vegum leigusala er þó húsvörður og gegndi Hannes Karl Björgvinsson því hlutverki þegar slysið varð. Samkvæmt skýrslu hans fyrir héraðsdómi fólst það í því einu að opna húsið og gæta eigna leigusala. Hann kvaðst hins vegar vera smiður og jafnframt hafa verið í vinnu þennan dag fyrir stefnda J&L ehf. við gerð leikmyndar. Kvaðst hann vinna hjá félagi sem nefnist HKB verktak sem geri húsráðanda reikning fyrir störf sín. Á reikningi fyrir leigu myndversins kemur ekki fram hvaða tæki fylgdu með leigunni og ekki voru allir sem skýrslu gáfu fyrir héraðsdómi vissir um hvort ljósastandurinn hefði verið í eigu leigusala eða hvort hann hefði verið notaður með heimild hans. Með skýrslum Hannesar Karls og Karls Óskarssonar kvikmyndatökustjóra fyrir héraðsdómi, en sá síðarnefndi þekkti vel til myndversins, verður talið sannað að ljósastandurinn hafi verið í eigu leigusala og notaður af stefnda J&L ehf. með hans heimild.

Eins og framan er rakið varð slysið sem er tilefni þessa máls við gerð auglýsingar á vegum stefnda J&L ehf. Skipulagi þeirrar vinnu var hagað með þeim hætti að fyrrnefnd Sara Jónsdóttir, sem nefndist framleiðandi auglýsingarinnar, réð sérhæfða menn, svo sem kvikmyndatökustjóra, ljósamann og aðstoðarleikstjóra, til að sinna einstökum þáttum verksins. Þá sá hún um að útvega þau tæki og tól sem þessir starfsmenn töldu sig vanhaga um.  Allir þessir menn voru ráðnir sem verktakar til að sinna þessu afmarkaða verkefni og kemur fram í skýrslum fyrir héraðsdómi að sá háttur sé jafnan hafður á við kvikmyndaframleiðslu af þessu tagi. Áfrýjandi kvaðst í aðilaskýrslu sinni fyrir héraðsdómi hafa verið ráðin til verksins sem verktaki en ekki hafa gert skriflegan samning um verkið. Kvaðst hún gera kröfu um tiltekna greiðslu fyrir hvern vinnudag en ekki fyrir unna tíma. Einkahlutafélagið Eldar & Skuggi gerði stefnda J&L ehf. reikning fyrir vinnu hennar, en áfrýjandi er eini stjórnarmaður þess félags. Ásgrímur Guðbjartsson ljósamaður kvaðst einnig hafa verið ráðinn sem verktaki og gerði hann stefnda J&L ehf. reikning fyrir verkið í eigin nafni. Verður af honum ráðið að hann miði endurgjald við tiltekna fjárhæð fyrir hvern vinnudag.

Umræddur ljósastandur féll er Ásgrímur ljósamaður var í stiga að eiga við ljósið á öðrum enda þverslár þeirrar sem á standinum hvíldi. Stutt frásögn af atburðinum er höfð eftir honum í símaskýrslu lögreglu 27. janúar 2011 og hann gaf einnig skýrslu fyrir héraðsdómi. Er skýrsla hans um margt óljós þannig að ekki er auðvelt af lestri hennar að fá glögga mynd af því sem gerðist. Í lögregluskýrslunni kvaðst Ásgrímur hafa verið að vinna við að taka niður ljósið en fyrir dómi var hann ekki viss um hvort hann hefði verið að taka ljósið niður eða breyta stefnu þess. Hvort sem verið sé að breyta stillingu ljóssins eða taka það niður þurfi að byrja með að losa um skrúfu sem skorði ljósið, en ef taka eigi það niður þurfi að losa skrúfuna alveg og taka síðan úr splitti sem festi ljósið við hólk, sem festing ljóssins tengist, á enda þverslárinnar. Þegar hann hafði losað skrúfuna kvaðst hann hafa heyrt hljóð og þá hafi verið eins og eitthvað losnaði, hann hafi staðið með ljósið í fanginu en þversláin hafi skotist upp, væntanlega vegna fargsins á hinum enda hennar, og standurinn fallið afturábak. Dró hann þá ályktun að hljóðið hefði myndast er splittið hafi skotist úr festingu sinni. Þegar hann hafi farið upp í stiganna hafi þetta litið „allt í lagi út“ en er hann hafði losað um ljósið „rifnar þetta bara laust“ af ástæðum sem hann átti sig ekki á. Í símaskýrslu lögreglu kvaðst hann hafa haldið um ljósið á meðan verið var að taka niður sandpoka á hinum enda slárinnar, en af skýrslu hans fyrir héraðsdómi verður ekki ráðið að ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir að ójafnvægi skapaðist vegna fargsins á hinum enda þverslárinnar. Af framburði annarra vitna fyrir héraðsdómi verður helst ráðið að Ásgrímur hafi verið einn að verki og ekkert þeirra nefnir að aðrir menn hafi unnið við að fjarlægja fargið eða gæta þess á meðan Ásgrímur átti við ljósið.

III

Áfrýjandi gerir kröfu um að viðurkennd verði óskipt skaðabótaábyrgð stefndu Latabæjar ehf. og J&L ehf. vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir umrætt sinn. Kröfunni beinir hún að stefnda Latabæ ehf. sem umráðamanni myndversins sem leigt hafi verið stefnda J&L ehf. Eins og að framan er rakið var það 380° Studios ehf. en ekki Latibær ehf. sem hafði umráð myndversins og leigði það út, en af gögnum málsins verður ráðið að náin tengsl séu milli félaganna. Latibær ehf. tók til varna í héraði og var því lýst yfir í greinargerð félagsins til héraðsdóms að óumdeilt væri að Latibær ehf. hafi leigt meðstefnda verið ásamt búnaði. Er félagið við þá yfirlýsingu bundið.

Eins og að framan er rakið hélt áfrýjandi áfram störfum sínum eftir slysið og varð ekki óvinnufær af þess völdum. Slysið var því ekki tilkynningaskylt samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Vegna þess og þar sem forsvarsmenn stefndu höfðu ella ekki ástæðu til að ætla í upphafi að slysið hefði varanlegar afleiðingar í för með sér hefur það ekki áhrif á sönnunarstöðu í málinu að Vinnueftirliti ríkisins var ekki til kvatt.

Áfrýjandi heldur því einnig fram að af ákvæðum laga nr. 124/2009, en með þeim var nýrri grein, 23. gr. a., bætt í skaðabótalög nr. 50/1993, leiði hlutlæg ábyrgð   eða að minnsta kosti ströng sakarábyrgð vinnuveitenda í vinnuslysamálum. Hvorki verður ráðið af orðalagi ákvæðisins né lögskýringargögnum með því að slík regla hafi þá verið lögfest, sbr. dóm Hæstaréttar 15. mars 2012 í máli nr. 472/2011. Breytir ákvæðið engu um að á áfrýjanda hvílir að sanna að líkamstjón hennar verði rakið til saknæmrar háttsemi eða athafnaleysis stefndu.

Kröfu sína reisir áfrýjandi í fyrsta lagi á því að báðir stefndu hafi vanrækt að tryggja öryggi og heilsusamleg starfsskilyrði á vinnustað í samræmi við ákvæði laga nr. 46/1980 og reglna settra á grundvelli þeirra. Vitnar áfrýjandi sérstaklega í því sambandi til ákvæða 13. gr., 14. gr. og 37. gr. laganna og að því er varðar ábyrgð stefnda Latabæjar ehf. til 17. gr. þeirra. Áfrýjandi hefur ekki tilgreint nein einstök atriði í starfsháttum stefndu sem leitt geta til ábyrgðar samkvæmt þessum lagaákvæðum en þau eru mjög almenns eðlis. Verður ábyrgð stefndu ekki reist á því einu að vitna til þeirra með almennum hætti.

 Þá reisir áfrýjandi kröfu sína á því að rekja megi orsök slyssins til vanbúnaðar ljósastandsins sem annað hvort hafi verið haldinn galla eða hann hafi bilað vegna vanhirðu starfsmanna stefnda Latabæjar ehf. eða rangrar uppsetningar standsins. Í málinu eru engin gögn sem benda til þess að slysið megi rekja til vanhirðu eða annarrar saknæmrar framgöngu starfsmanna Latabæjar ehf. varðandi viðhald eða uppsetningu standsins. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að ástand standsins hafi verið þannig að stefndu hafi mátt sjá það fyrir að notkun hans fylgdi sérstök slysahætta. Má í því sambandi vísa til framangreindra ummæla Ásgríms Guðbjartssonar ljósamanns, sem sérfróður er í þessum efnum, um að þegar hann hafi farið upp í stigann til að eiga við ljósið hafi þetta litið „allt í lagi út.“

Fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi kröfu sína á hendur stefnda J&L ehf. einnig á því að slysið megi rekja til gáleysis Ásgríms Guðbjartssonar en á því beri þessi stefndi ábyrgð á grundvelli reglna skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Þessari málsástæðu er á hálfu stefnda mótmælt sem of seint fram kominni. Í héraðsstefnu reisti áfrýjandi kröfu sína á því að stefndu bæru ábyrgð á tjóni sínu á grundvelli sakarreglu. Í því verður talið að falist hafi að átt væri við reglu um vinnuveitendaábyrgð sem byggist á sök starfsmanna, sbr. dóm Hæstaréttar 23. febrúar 2012 í máli nr. 76/2012. Áfrýjandi kvað við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti málsatvik hafa skýrst við meðferð málsins í héraði og krafa verið reist með nánari hætti á þessari málsástæðu við munnlegan flutning þar fyrir dómi. Er í hinum áfrýjaða dómi tekin efnisleg afstaða til þessarar málsástæðu. Hún verður ekki talin of seint fram komin. Eins og að framan er rakið er skýrsla Ásgríms Guðbjartssonar um það hvort hann umrætt sinn hugðist breyta stefnu ljóssins sem á standinum hvíldi eða taka það niður sem og hvernig að verki var staðið harla óljós. Þegar áfrýjandi gaf aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi var hún um það spurð hvort hún teldi að einhver mistök hefðu verið gerð þegar átt var við ljósabúnaðinn. Taldi hún svo ekki vera. Kvaðst hún ekki halda að hægt hefði verið að haga vinnunni við standinn með öðrum hætti. Verður þegar á þeim grunni að leggja til grundvallar að Ásgrímur hafi ekki valdið slysinu með gáleysi við meðhöndlun ljóssins umrætt sinn, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991.

Skilja verður málatilbúnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti svo að auk þess að beina varakröfu sinni að réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðinni hf., sbr. það sem að framan segir, beini hún varakröfunni einnig að stefnda J&L ehf. Um er að ræða slysatryggingu þar sem til álita kemur hvort áfrýjandi hafi sjálf verið vátryggð og eigi rétt til bóta úr hendi Tryggingamiðstöðvarinnar hf. á grunvelli þeirra skilmála sem um vátrygginguna gilda. Getur hún ekki beint viðurkenningarkröfu þar að lútandi að stefnda  J&L ehf. og verður hann því sýknaður af varakröfunni vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/991.

Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um annað en málskostnað á þann hátt er í dómsorði greinir.

Eftir atvikum er rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Kröfu áfrýjanda, Guðrúnar Daníelsdóttur, á hendur réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðinni hf., er vísað frá Hæstarétti.

Stefndu, Latibær ehf. og J&L ehf., eru sýknir af kröfum áfrýjanda.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Um málsatvik vísast til lýsingar í atkvæði meirihluta dómenda, en hinn fjögurra metra hái ljósastandur féll á áfrýjanda er Ásgrímur Guðbjartsson ljósmaður var í stiga að eiga við ljós sem var á öðrum enda fimm metra langrar þverslár sem hvíldi á standinum. Á hinum enda þverslárinnar voru sandpokar svo jafnvægi myndaðist á slánni. Eins og greinir í atkvæði meirihlutans verður við það miðað að standurinn hafi fallið vegna þess að ljósið var losað á öðrum enda þverslárinnar og fór af henni þannig að ójafnvægi skapaðist vegna fargsins á hinum enda slárinnar. Virðist sem menn á vettvangi hafi fyrst talið að splitti hafi hrokkið úr festingu á ljósastandinum áður en hann féll, sbr. skýrslu Ásgríms hjá lögreglu 27. janúar 2011 en framburður hans fyrir dómi er ekki glöggur um það. Þau atriði sem skipta máli í skýrslu Ásgríms fyrir dómi eru rakin í atkvæði meirihlutans, en eins og þar greinir er skýrslan um margt óljós. Þá er hún ekki í samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu.

Af framburði þeirra sem skýrslur gáfu við meðferð málsins fæst ekki skýr lýsing á slysinu. Ég er sammála meirihluta dómenda um að um að ekki sé sýnt fram á að orsök þess megi rekja til vanhirðu eða annarrar saknæmrar framgöngu starfsmanna stefnda Latabæjar ehf. varðandi viðhald, uppsetningu eða ástand umrædds ljósastands og því beri að sýkna það félag. Af framburði Ásgríms og Söru Jónsdóttur, er var framleiðandi auglýsingarinnar, verður á hinn bóginn ekki séð að hugað hafi verið að farginu á öðrum enda þverslárinnar á standinum er átt var við ljósið á hinum enda hennar. Virðist sem Ásgrímur hafi verið einn að eiga við ljósið en ekki gætt þess hvort aðrir myndu huga að farginu á hinum enda þverslárinnar. Verður því við það miðað að ástæðu slyssins megi rekja til þessarar óvarkárni. 

Ég er samþykkur því sem greinir í atkvæði meirihluta dómenda um að krafa áfrýjanda á hendur stefnda J&L ehf. á grundvelli reglna um vinnuveitandaábyrgð vegna sakar starfsmanna hafi ekki komið of seint fram, sbr. dóm Hæstaréttar 23. febrúar 2012 í máli nr. 76/2012. Ég er á hinn bóginn ósammála meirihlutanum að vegna skýrslu áfrýjanda í héraðsdómi verði, með vísan til 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ekki lagt til grundvallar að Ásgrímur hafi valdið slysinu með gáleysi við meðhöndlun ljóssins umrætt sinn.

Við skýrslugjöf hjá lögreglu 26. janúar 2011 var haft eftir áfrýjanda að hún vissi ekki hvers vegna ljósastandurinn féll og staðfesti áfrýjandi þessa skýrslu sína við upphaf skýrslugjafar fyrir héraðsdómi. Gaf hún í raun enga aðra lýsingu á slysinu en að að hún hafi skyndilega fengið högg á bakið. Síðar í skýrslugjöfinni var gengið á hana um ályktanir um ástæður slyssins. Var hún þá spurð af þáverandi lögmanni stefnda J&L ehf. hvort hún teldi að mistök hefðu verið gerð þegar unnið var við ljósabúnaðinn. Þessu svaraði áfrýjandi neitandi. Þá var hún spurð: „Áttar þú þig á því?“ Aftur var svar hennar nei. Næst var spurt: „Eða bara telur þú að það hafi ekki verið?“ Svar hennar var: „Ég tel það ekki, ég bara átta mig ekki á því, en í 21 ár hef ég aldrei séð bara ekki heyrt þetta, ekki ég sko.“ Áfram var spurt: „Okey. Heldur þú að það sé eitthvað sem að gerðist sem að hefði verið hægt að koma í veg fyrir?“ Svaraði áfrýjandi því neitandi. Enn var spurt: „Þegar þú hugsar þetta, ekkert sem að kemur upp í hugann sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir í raun?“ Svar hennar var: „Jú, sleppa því að nota standinn.“ Því næst var spurt hvort „það hefði ekki verið hægt að haga vinnunni við standinn eða það sem að var verið að gera þarna þegar þetta gerist, með öðrum hætti?“ Svaraði áfrýjandi: „Það held ég ekki.“ Síðar í skýrslugjöfinni kvaðst áfrýjandi halda að ljósamaðurinn hafi verið að stilla ljósið er standurinn féll. Fram kom hjá áfrýjanda að hún hafi borið traust til Ásgríms ljósamanns sem fagmanns. Í lok skýrslugjafar sinnar um málsatvik sagði áfrýjandi meðal annars: „Ég tel mig hafa þarna rotast en ég hef ekki sérfræðiþekkingu á því hvað gerðist, aftur á móti þjappaðist allt atvikið niður í nokkrar sekúndur.“

Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er kveðið á um áhrif viðurkenningar aðila á atriði sem er honum í óhag í máli. Skal viðurkenning aðilans að jafnaði lögð til grundvallar, enda þyki dómara hún hafa verið gefin af nægilegri þekkingu og skilningi og ekkert komi fram sem hnekki henni eða veiki hana verulega. Kröfugerð áfrýjanda grundvallast á sakarreglunni. Að virtu því sem að framan er rakið tel ég ekki að áfrýjandi hafi með svörum sínum við skýrslugjöf í héraðsdómi ráðstafað sakarefninu þannig að lagt verði til grundvallar að gáleysi við meðhöndlun ljóssins hafi ekki verið orsök slyssins. Áfrýjandi hefur  hvorki fallið frá þessari málsástæðu sinni í héraði né hér fyrir dómi.

Fram kom hjá Agnari Tryggva Le´macks, eiganda stefnda J&L ehf., og áðurnefndri Söru að þau voru ekki viss um hvort Sara hefði verið sjálfstæður verktaki eða launaður starfsmaður stefnda. Verður því miðað við hið síðarnefnda. Nánar aðspurð fyrir dómi í hverju starf hennar fólst, svaraði Sara: „Þá geri ég kostnaðaráætlun fyrir auglýsingaframleiðsluna og ræð til okkar fólk sem gegnir hinum og þessum störfum eins og kvikmyndatökuliðið allt og leikarar og leikmyndafólk og slíkt. Sé um já allt sem til þarf, þú veist eins og að panta inn græjur og þess háttar.“ Venjan hefði verið að ráða þá sem að framan greinir sem verktaka. Hver hefði haft sitt verksvið og hefði hún til að mynda ekki hafa komið „nálægt því hvar ljós eru sett upp“. Aðspurð hver hefði verið yfirmaður á staðnum og tekið ákvarðanir, svaraði hún: „Ég er framleiðandinn, f.h. Jónsson og Le´macks.“ Aðspurð hvort ekki hefði verið „beinn verkstjóri“ á staðnum, sagði hún: „Nei í rauninni ekki, það eru bara deildir og síðan er það ég sem producent, jú þá væri ég væntanlega talin sem verkstjóri út af því að ef það á að breyta einhverju út frá upprunalegu plani, þá þarf að tala við mig.“ Aðspurður um hvort ekki hefði verið yfirmaður á staðnum svaraði hann: „[Sara] fyrir okkar hönd stýrði hún þessu“. Hafi hún verið verkstjóri, en síðan hafi tökumaður haft yfirumsjón með ljósum. Af framburði Agnars Tryggva og Söru má ráða að 10 til 15 manns hafi verið við vinnu í myndverinu umrætt sinn, en ekki er fram komið hvort fleiri en einn ljósamaður hafi verið til staðar eða hvort honum hafi verið útveguð aðstoð við tilfærslur á ljósum.

Starfsemi stefnda J&L ehf. er auglýsingagerð og slysið varð er stefndi var við gerð auglýsingar en verkið var umfangsmikið. Nægilega er fram komið að stefndi hafði umráð yfir þeim tækjum og tólum sem voru í myndverinu. Þá er fram komið að þessi stefndi tók helstu ákvarðanir um hvernig verki skyldi hagað í stórum dráttum, þar á meðal hverjir og hversu margir skyldu ráðnir til starfa meðal annars við stjórnun þess ljósabúnaðar sem stefndi J&L útvegaði. Af því sem fram er komið í málinu verður talið að ýmislegt hafi verið óljóst eða laust í reipunum um verkstjórn og var það á ábyrgð stefnda J&L ehf. Þegar allt þetta  er virt hefur það ekki úrslitaþýðingu hvernig þóknun til ljósamannsins fyrir störf hans hjá stefnda J&L ehf. var hagað og enn síður hvort tjónþoli hafi verið sjálfstæður verktaki.

Samkvæmt öllu framansögðu má rekja slysið til gáleysis ljósamanns sem vann undir boðvaldi stefnda J&L ehf. þar sem skortur var á verkstjórn. Af þessum sökum ber stefndi J&L ehf. skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda, en ekkert er fram komið um eigin sök hennar. Eftir þessum úrslitum tel ég að stefndi J&L ehf. eigi að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en um önnur atriði málsins vísast til atkvæðis meirihluta dómenda.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. nóvember 2012.

Mál þetta, sem var þingfest 7. september 2011, var höfðað af Guðrúnu Daníelsdóttur, kt. [...], Hafnargötu 10, 233 Reykjanesbæ, með birtingu stefnu 12. ágúst 2011 gegn Latabæ ehf., kt. [...], Miðhrauni 4, 210 Garðabæ, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. [...], Ármúla 3, 108 Reykjavík, til réttargæslu, og J&L ehf., kt. [...], Laugavegi 26, 101 Reykjavík, og Tryggingamiðstöðinni hf., kt. [...], Síðumúla 24, 108 Reykjavík, til réttargæslu, til viðurkenningar á skaðabótaskyldu og til greiðslu málskostnaðar.

Dómkröfur.

Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefndu in solidum, vegna líkamstjóns stefnanda á hálshrygg, brjósthrygg, olnboga og úlnlið, sem hún hlaut í vinnuslysi þann 17. október 2010, er hún starfaði fyrir J&L ehf., í kvikmyndaveri Latabæjar ehf. að Miðhrauni 4, Garðabæ.

Til vara gerir stefnandi þær kröfur að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til greiðslu bóta úr launþegatryggingu J&L ehf. hjá Tryggingamiðstöðinni hf. Þá er í báðum tilvikum gerð krafa um málskostnað að skaðlausu auk virðisaukaskatts.

Stefndi Latibær ehf. gerir aðallega þá  kröfu að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er gerð krafa um að Latibær ehf. verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og til þrautavara að sök verði skipt í málinu. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Af hálfu réttargæslustefnda VÍS er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda en að öðru leyti eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur á hendur stefnanda, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.

Stefndi J&L ehf. krefst þess að félagið verði sýknað af öllum kröfum  stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.

Af hálfu réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu en að öðru leyti eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur á hendur stefnanda, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.

Stefndu kröfðust þess, í greinargerð sinni, að málinu yrði vísað frá dómi og fór fram munnlegur málflutningur þann 11. janúar 2012. Var kröfum stefnanda vísað frá dómi með úrskurði uppkveðnum þann 20. janúar 2012. Með dómi Hæstaréttar var þeim úrskurði hnekkt og lagt fyrir héraðsdómara að leggja efnisdóm á málið.

Stefnandi krafðist í kjölfar ofangreinds dóms að dómari viki sæti. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði þann 12. apríl 2012. Aðalmeðferð fór fram þann 17. október sl. og hófst með vettvangsgöngu í myndver Latabæjar ehf. Að málflutningi loknum var málið dómtekið.

Atvikalýsing.

Stefnandi í máli þessu kveður málsatvik vera þau að stefnandi hafi verið við vinnu á vegum auglýsingastofunnar J&L ehf., í myndveri Latabæjar að Miðhrauni 4, Garðabæ, þann 17. október 2010. Ljósamaður hafi verið að vinna við ljósastand þegar splitti, sem notað hafi verið til þess að festa ljóskastara á þverslá ljósastandsins, hafi skyndilega hrokkið úr festingu með þeim afleiðingum að standurinn féll á stefnanda eftir að hafa haft viðkomu í borði. Stefnandi hafi staðið við ljósastandinn ásamt samstarfskonu sinni, Söru Jónsdóttur, þegar standurinn hafi lent á efri hluta baks hennar og hálsi. Lögregla hafi verið kölluð á staðinn en í skýrslu hennar sé ekki að sjá að tildrög slyssins hafi verið könnuð. Ekki hafi verið kallað á Vinnueftirlit ríkisins.

Stefndi J&L ehf. hafi leigt aðstöðu til auglýsingagerðar í kvikmyndaveri Latabæjar ehf., Miðhrauni 4, Garðabæ, af Latabæ ehf. Hafi ljósastandurinn verið í eigu stefnda Latabæjar ehf., og því einnig leigður til J&L ehf., ásamt húsnæðinu. Er stefnandi hafi slasast hafi menn verið að hefja verk til auglýsingagerðar. Hafi stefnandi verið að bíða eftir að ljóskastarinn á ljósastandinum væri kominn í rétta stöðu, til að hún gæti hafið kvikmyndun. Á staðnum hafi verið Hannes Björgvinsson, starfsmaður Latabæjar ehf., sem hafi haft eftirlit með kvikmyndaverinu. Hann hafi hringt í lögreglu og tilkynnt slysið. Eftir slysið virðist hins vegar ekki hafa verið hirt um að athuga það splitti sem hafi hrokkið úr standinum og ganga úr skugga um hvað hafi farið úrskeiðis.

Þá segir að umræddur ljósastandur sé T-laga, um það bil fjögurra metra hár og fimm metra breiður (þverslá) og standi á hjólum. Á öðrum enda þverslárinnar sé festur hólkur. Inn í hólkinn gangi hluti af ljóskastaranum, sem þar sé festur með splitti og hert sé að með þumalskrúfu. Splittið sjái um að halda kastaranum í hólknum og þar með á þverslánni á meðan þumalskrúfuna megi losa til þess að breyta ljósstefnu kastarans. Á hinum enda þverslárinnar sé farg til móts við þyngd ljóskastarans, sem sjái um að halda jafnvægi.

Stefnandi hafi farið rakleiðis á slysadeild LSH eftir slysið. Stefnandi hafi verið greind með tognun og ofreynslu á hálshrygg, brjósthrygg og olnboga. Stefnandi hafi einnig leitað til Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis vegna áverka sinna. Í vottorði Boga komi fram að stefnandi sé greind með tognun og ofreynslu á hálshrygg, brjósthrygg og olnboga auk tognunar á vinstri úlnlið.

Þá segir að Tryggingamiðstöðin hafi hvorki fallist á bótaskyldu úr slysatryggingu launþega né skaðabótaskyldu J&L ehf. Málinu hafi verið skotið til Úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum sem hafi úrskurðað að stefnandi ætti ekki rétt á greiðslu úr slysatryggingu launþega. Þá hafi VÍS hf. hafnað skaðabótaskyldu Latabæjar ehf. Stefnandi eigi því ekki annarra kosta völ en að höfða mál þetta til viðurkenningar á skaðabótaskyldu og bótum úr slysatryggingu launþega.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því, með vísan til læknisvottorðs og sjúkraskrár, að sannanlega sé leitt í ljós að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni við umrætt slys. Orsakatengsl, milli slyssins og líkamsáverka stefnanda, séu leidd í ljós, en stefnandi hafi farið strax eftir slysið á slysadeild LSH, þar sem áverkar hennar hafi verið greindir. Stefnandi byggir dómkröfur sínar á að stefndu beri sameiginlega ábyrgð á að tryggja góðan aðbúnað, heilsusamlegt og örugg starfsskilyrði á vinnustað skv. 17. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Stefndu séu báðir atvinnurekendur og hafi átt aðild að starfseminni á umræddum vinnustað. Því beri stefndu skaðabótaábyrgð in solidum á því tjóni sem rekja megi til vanrækslu á þeim reglum sem lög nr. 46/1980 mæli fyrir um.

Stefnandi kveðst byggja á að orsök slyssins sé að rekja til vanbúnaðar ljósastandsins. Í skýrslu, sem lögregla hafi tekið af vitninu Ásgrími Guðbjartssyni, komi fram að öryggissplitti hafi hrokkið úr festingu og við það hafi jafnvægi ljósastandsins brenglast, með þeim afleiðingum að standurinn féll á stefnanda.

Stefnandi byggir á að annaðhvort hafi verið um að ræða galla í umræddum ljósastandi eða að uppsetningu og umhirðu starfsmanna stefnda, Latabæjar ehf., á ljósastandinum hafi verið ábótavant. Þar sem stefndu hafi ekki kallað til Vinnueftirlit ríkisins, eins og þeim beri skylda til að gera skv. 79. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, hafi nákvæm tildrög slyssins og ástand ljósastandsins ekki verið rannsökuð. Telur stefnandi því að stefndu beri hallann af sönnunarskorti í samræmi við almennar sönnunarreglur. Byggir stefnandi einnig á að stefndi Latibær ehf. beri sönnunarbyrði um hvað hafi farið úrskeiðis er splittið hrökk úr þeirri festingu sem það var í og af hvaða orsökum, burt séð frá því hvort tilkynna hefði átt slysið til Vinnueftirlits ríkisins, eins og stefnandi byggir einnig á.

Stefnandi byggir því á að umræddur ljósastandur hafi ekki verið í því ástandi að geta talist öruggur. Öryggissplitti eigi að vera þannig búin að þau haldist í stæði sínu og skjótist ekki úr festingu fyrirvaralaust. Stefnandi telur ljóst að ef ljósastandurinn hefði verið í eðlilegu ásigkomulagi og uppsetning hans rétt, þá hefði slys þetta ekki átt sér stað. Ljósastandurinn hafi því í raun verið haldinn öryggisgalla.

Þá byggir stefnandi á því að stefndu beri ábyrgð, skv. hlutlægri ábyrgðarreglu eða sakarreglu með ströngum sönnunarkröfum til stefndu, á galla ljósastandsins. Stefnandi byggir enn fremur á að stefndu beri ábyrgð á uppsetningu ljósastandsins, skv. sakarreglunni og reglunni um nafnlaus mistök. Uppsetning ljósastandsins hafi verið í höndum stefnda Latabæjar ehf. og á ábyrgð félagsins.

Stefnandi byggir á að vanbúnaður ljósastandsins brjóti í bága við 13. gr. og 42. gr. laga nr. 46/1980. Stefndu beri sameiginlega ábyrgð á því að tryggja góðan aðbúnað, heilsusamleg og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum skv. 17. gr. sömu laga. Þá hafi slysið ekki verið tilkynnt til vinnueftirlits ríkisins og þar með hafi ekki farið fram nein rannsókn á orsökum slyssins. Telur stefnandi að með því að vanrækja tilkynningarskyldu 79. gr. laga nr. 46/1980, beri stefndu hallann af þeim sönnunarskorti sem uppi sé í málinu. Ljóst sé að aðbúnaður ljósastandsins hafi ekki verið fullnægjandi og telur stefnandi því að stefndu beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda.

Stefnandi byggir enn fremur á því að þegar líkamstjón megi rekja til þess að vinnuveitandi hafi ekki farið eftir reglum sem gildi um öryggi á vinnustað, beri hann ábyrgð á slysi sem verði á starfsmanni hans, hvort sem slysinu sé valdið af gáleysi eða ásetningi. Vinnuveitanda sé skylt að tryggja að aðstæður á vinnustað tefli ekki öryggi starfsmanna í tvísýnu, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980. Reglurnar um að vinnuveitandi tryggi öryggi á vinnustað, nái ekki markmiðum sínum á skilvirkan hátt, ef ekki sé jafnframt fallist á bótaábyrgð hans þegar út af bregði. Fái þetta stoð í 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 89/391/EBE sem og dómi EFTA dómstólsins í máli nr. E-2/10, þar sem segi að skyldur starfsmanna á sviði öryggis og hollustu við vinnu sína skuli ekki hafa áhrif á meginregluna um ábyrgð vinnuveitanda. Ábyrgðin á öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustað hvíli fyrst og fremst á vinnuveitanda. Byggir stefnandi á að ekki sé um óvenjulegar eða ófyrirsjáanlegar kringumstæður að ræða, heldur venjulega vinnu við auglýsingagerð í myndveri. Þar með beri vinnuveitandi meginábyrgðina á öryggi og heilsu starfsmanna sinna á vinnustað. Hefði öllum öryggisreglum verið fylgt, hefði stefnandi einfaldlega ekki orðið fyrir líkamstjóni. Af því leiði að ekki geti verið um stórfellt gáleysi stefnanda að ræða, sbr. 23. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum.

Stefnandi bendir á að í bréfi Vinnueftirlits ríkisins komi fram að Latibær ehf. hafi ekki tilkynnt starfsemi sína til Vinnueftirlitsins eins og skylt sé skv. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 46/1980. Þar með sé ekki ljóst hvort Latibær ehf. hafi gert áhættumat, þ.e. skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum eins og þeim beri skylda til skv. 65. gr. sömu laga.

Varðandi varakröfu stefnanda, um greiðslu úr slysatryggingu launþega, byggir stefnandi á því að þrátt fyrir að hún hafi þegið greiðslur sem verktaki, hafi hún í raun verið starfsmaður stefnda J&L ehf. Stefnandi hafi reglulega unnið fyrir stefnda og að verkefni hennar séu í svo nánum tengslum við þá starfsemi sem félagið fáist við, að vinna stefnanda sé í raun eðlilegur þáttur í starfsemi stefnda. Stefndi sé auglýsingastofa og hafi á sínum snærum starfsfólk sem vinni við að semja og útfæra auglýsingar fyrir viðskiptavini sína. Stefnandi, sem sé kvikmyndagerðarmaður, vinni við upptökur á þeim auglýsingum sem stefndi framleiði. Stefnandi lúti þar af leiðandi algjörlega boðvaldi stefnda og annarra starfsmanna hans eftir atvikum, auk þess sem stefndi útvegi öll áhöld til vinnunnar. Stefnandi leggi í raun aðeins fram vinnu sína og fái greitt fyrir  það laun í formi verktakagreiðslna. Stefnandi þurfi að vinna vinnu sína á þeim stöðum sem stefndi ákveði og sé því berskjölduð gagnvart vinnuslysum að völdum þeirrar starfsemi sem stefndi standi fyrir. Launþegatrygging hafi það hlutverk að bæta stöðu þeirra starfsmanna sem vinni við slíkar aðstæður. Telji stefnandi að samningssamband aðilanna sé í raun vinnusamningur ef tekið sé mið af eðli þess starfs sem stefnandi vinni og falli því stefnandi undir þá launþegatryggingu sem J&L ehf. hafi hjá Tryggingamiðstöðinni hf.

Byggir stefnandi á að þótt greiðslufyrirkomulag fyrir vinnu stefnanda sé í formi verktakagreiðslna, bendi eðli og högun starfsins fremur til þess að stefnandi hafi verið starfsmaður stefnda og eigi því rétt á bótum úr slysatryggingu launþega. Ótækt sé að stefndi afsali réttindum starfsmanna sinna með því einu að greiða þeim laun í formi verktakagreiðslna. Stefnandi tekur einnig fram að öðrum starfsmönnum á vegum stefnda þennan dag, sem og aðra daga, hafi verið greitt í formi verktakagreiðslna.

Stefnandi vísar varðandi skaðabótaábyrgð stefndu in solidum á galla í ljósastandinum til reglunnar um hlutlæga ábyrgð vegna bilunar eða galla tækis og vísar til kafla í riti úr skaðabótarétti eftir Arnljót Björnsson, 2. kafla, bls. 60-72. Varðandi sök stefndu vísar stefnandi til sakarreglunnar, reglunnar um vinnuveitendaábyrgð og reglunnar um nafnlaus mistök. Þá byggir stefnandi á 23. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum að því er viðkemur eigin sök stefnanda. Varðandi sameiginlega ábyrgð stefndu á vinnustaðnum vísar stefnandi til 17. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980. Enn fremur byggir stefnandi á að stefndu hafi vanrækt þær skyldur sem lagðar séu á þá í 13. gr. , 42. gr. 79. og 1. mgr. 95. gr. sömu laga, svo og tilskipun 89/391EBE, sbr. 3. mgr. 5. gr. Varðandi varakröfuna vísar stefnandi til laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 og grundvallarreglna um kjarasamninga.

Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins sem rakin er í forsendum.

Málsástæður og lagarök stefnda J&L ehf. og VÍS til réttargæslu.

Stefndi J&L ehf. krefst sýknu af aðalkröfu stefnanda. Stefndi telur ósannað að slys stefnanda megi rekja til atvika sem stefndi J&L ehf. beri skaðabótaábyrgð á og því sé bótaskylda úr ábyrgðartryggingu stefnda ekki fyrir hendi. Að mati stefnda J&L ehf. verði ekki byggt á kröfu stefnanda vegna vanreifunar. Hvergi sé tilgreint sérstaklega í hverju skaðabótaábyrgð stefnda J&L ehf. sé fólgin.

Stefndi J&L ehf. hafnar því að tjónið megi rekja til vanrækslu eða brots af hans hálfu á reglum sem lög nr. 46/1980 mæli fyrir um. Af hálfu stefnanda hafi ekki verið sýnt fram á að aðbúnaði hafi verið áfátt né að skort hafi á heilsusamleg og örugg starfsskilyrði. Þá hafnar stefndi J&L ehf. því að slysið megi rekja til brots á 17. gr. laganna eða brots á öryggisreglum.

Stefndi mótmælir því að orsök slyssins megi rekja til ófullnægjandi aðbúnaðar, vanbúnaðar eða galla ljósastandsins, en stefnandi byggi á og vísi til. framburðar vitnisins Ásgríms Guðbjartssonar ljósamanns. Þessu hafnar stefndi J&L ehf. og telur ósannað að ljósastandurinn hafi verið vanbúinn, gallaður eða brotið í bága við ákvæði laga nr. 46/1980. Ekki hafi verið sýnt fram á að ljósastandurinn eða búnaður honum tengdur hafi verið ónothæfur eftir atvikið. Þá sé bent á upplýsingar í lögregluskýrslu um að starfsemi hafi verið í fullum gangi þegar lögreglu bar að og engin ummerki  að sjá eftir óhappið. Telji dómurinn sannað að vanbúnaður eða galli í ljósastandi, eða búnaði honum tengdum, hafi valdið slysinu bendir stefndi J&L ehf. á að allur búnaður hafi verið í eigu stefnda Latabæjar ehf. Hinn síðarnefndi hafi leigt út myndverið ásamt öllum ljósabúnaði. Hafi búnaðurinn eða hluti hans verið vanbúinn eða gallaður telji stefndi J&L ehf. að slíkt geti ekki verið á ábyrgð hans. Hann geti ekki talist í neinni stöðu til að hafa vitneskju um galla eða vanbúnað né hafi hann mátt vita af slíku þar sem búnaðurinn hafi ekki verið í hans eigu eða varanlegri umsjá.

Einnig byggi stefnandi á að uppsetningu og umhirðu starfsmanna stefnda Latabæjar ehf. á ljósastandinum hafi verið ábótavant. Stefndi J&L ehf. geti ekki borið ábyrgð á störfum starfsmanna stefnda Latabæjar ehf. Þá geti það ekki haft áhrif við mat á bótaábyrgð stefnda J&L ehf. ef stefndi Latibær ehf. hafi ekki sinnt tilkynningarskyldu varðandi starfsemi sína til Vinnueftirlits ríkisins. Enn fremur geti það ekki haft þýðingu gagnvart stefnda J&L ehf. þótt stefndi Latibær ehf. hafi ekki gengið frá gerð áhættumats.

Stefndi hafnar því að hann beri hallann af sönnunarskorti á nákvæmum tildrögum slyssins og skorti á rannsókn ljósastandsins. Í ákvæði 79. gr. fyrrgreindra laga sé kveðið á um að atvinnurekandi skuli tilkynna til Vinnueftirlitsins öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Í skýrslum lögreglu um málið komi fram að stefnandi hafi afþakkað flutning með sjúkrabíl af vettvangi. Einnig hafi bæði hún og Sara Jónsdóttir orðið hissa þegar lögreglu og sjúkralið bar að garði. Kváðust þær ekki hafa óskað eftir slíkri aðstoð. Starfsemi hafi verið komin í fullan gang í  myndverinu þegar lögreglu bar að og engin ummerki að sjá um óhappið. Þær hafi kennt sér engra eða lítilla eymsla á vettvangi en hafi engu að síður farið, að áeggjan sjúkraflutningamanna, til skoðunar á slysadeild á eigin vegum. Að skoðun lokinni hafi þær báðar snúið aftur til vinnu í myndverinu og unnið lengi fram eftir. Ekki hafi verið um óvinnufærni stefnanda að ræða í kjölfar atviksins og ekkert sem hafi gefið til kynna að hún hafi hlotið langvinnt eða varanlegt heilsutjón. Stefndi J&L ehf. mótmælir því að atvik hafi verið með þeim hætti að tilkynningarskylda skv. 79. gr. hafi hvílt á stefndu vegna óhappsins.

Þá mótmælir stefndi J&L ehf. því að hann eigi að bera hallann af sönnunarskorti á því hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis í tengslum við sjálfan ljósabúnaðinn eða festingar. Stefnandi virðist  auk þess byggja á því í stefnunni að stefndi Latibær ehf. beri sönnunarbyrðina um þann þátt þar sem allur búnaðurinn hafi verið í þeirra eigu. Stefnandi leggi þó til grundvallar, með nokkuð óljósum hætti, að stefndu beri ábyrgð á uppsetningu ljósastandsins skv. sakarreglunni og reglunni um nafnlaus mistök. Þessu hafni stefndi J&L ehf. Vissulega hafi verkefnið sem þarna var unnið, þ.e. gerð auglýsingar, verið á vegum stefnda J&L ehf. Framleiðandi verksins hafi verið starfsmaður stefnda J&L ehf. Vegna verksins hafi fyrirtækið tekið á leigu myndver hjá stefnda Latabæ ehf. ásamt öllum helsta búnaði, m.a. ljósabúnaði. Eins og almennt tíðkist í þessum starfsgeira hafi verið fengnir til starfa fagaðilar á hverju sviði, s.s. leikstjóri, kvikmyndatökumaður og ljósamenn. Stefnandi hafi verið fenginn til starfa sem aðstoðarleikstjóri. Í hverju rúmi hafi þannig verið sérfræðingar með mikla reynslu sem allir störfuðu sem undirverktakar hjá J&L ehf. í þessu verkefni og báru þannig sjálfir ábyrgð á sínum störfum.

Af málsgögnum virðist ljóst að slys stefnanda hafi orðið í myndveri Latabæjar þegar sjálfstæður og faglærður ljósamaður, Ásgrímur Guðbjartsson, sem hafi starfað sem undirverktaki á vettvangi, vann við ljósabúnað sem var í eigu stefnda Latabæjar ehf. Hann hafi verið yfirmaður ljósamála og sá eini á vettvangi sem greint gat frá tildrögum slyssins. Ásgrímur hafi áralanga reynslu af störfum sem ljósamaður og þekki vel til ljósabúnaðarins í myndveri Latabæjar ehf. Að mati stefnda J&L ehf. hafi ekki verið sýnt fram á að fyrirtækið hafi haft þannig stjórn eða afskipti af ljósamönnum, eða öðrum þeim fagaðilum sem hafi unnið mjög sérhæfð störf við gerð auglýsingarinnar, að leitt geti til ábyrgðar stefnda J&L ehf., ef talið verði að einhverjum þeirra hafi orðið á mistök í starfi sínu. Þannig verði að telja ósannað að starfsmenn hafi valdið slysinu sem stefndi J&L ehf. beri ábyrgð á.

Stefndi  J&L ehf. hafnar tilvísun stefnanda í dóm EFTA-dómstólsins í máli nr. E-2/10 en ágreiningur þar fjallar í meginatriðum um að stefnandi í því máli hafi verið látinn bera ábyrgð á slysi vegna eigin sakar. Aðstæður í málinu séu ekki sambærilegar atvikum í máli því sem hér sé til skoðunar og hafi það því ekki fordæmisgildi. Þá telji stefndi J&L ehf. að ákvæði 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 89/391/EBE eigi ekki við í málinu þar sem ágreiningur í máli þessu fjalli ekki sérstaklega um skyldur stefnanda á sviði öryggis og hollustu við vinnu sína eða eigin sök hennar á slysinu.

Þá kveður stefndi J&L ehf. að í stefnu vísi stefnandi ýmist almennt til ábyrgðar beggja stefndu á meintum galla ljósastandsins og uppsetningu eða sérstaklega til ábyrgðar stefnda Latabæjar ehf. á þessum þáttum. Þannig sé öll reifun stefnanda á ábyrgð stefnda J&L ehf. mjög óljós og hvergi tilgreint með skýrum hætti í hverju ábyrgð hans sé fólgin.

Stefndi J&L ehf. telur ekkert fram komið í máli þessu sem sýni fram á að slysið verði rakið til atvika, starfsmanna eða búnaðar sem stefndi geti borið skaðabótaábyrgð á. Stefndi J&L ehf. hafnar því að ófullnægjandi vinnuaðstæður hafi orsakað slysið. Þannig séu engin efni til að fallast á kröfu stefnanda eins og hún sé lögð fram.

Stefndi J&L ehf. krefst sýknu af varakröfu stefnanda. Kveður stefndi sýknukröfuna aðallega byggða á því að hér sé um slysatryggingu að ræða þar sem til skoðunar sé hvort stefnandi hafi sjálf verið vátryggð og eigi rétt til bóta beint úr hendi réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. Nánar um ákvörðun bóta og uppgjör þeirra fari eftir því sem kveðið sé á um í skilmálum þeim sem um vátrygginguna gilda. Eins og málatilbúnaður í stefnu sé lagður fram eigi stefnandi engan rétt til að krefjast þeirra bóta, sem hann krefst viðurkenningar fyrir, beint úr hendi stefnda J&L ehf. Ber því að sýkna stefnda J&L ehf. vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé Tryggingamiðstöðinni hf. einungis stefnt til réttargæslu í máli þessu og engar kröfur gerðar á hendur henni.

Þá krefst stefndi einnig sýknu af varakröfu stefnanda með vísan til þess að í gögnum málsins komi ítrekað fram að stefnandi hafi verið við vinnu sína sem undirverktaki er slysið átti sér stað. Stefnandi hafi ekki verið á launaskrá fyrirtækisins heldur gert reikning fyrir vinnu sinni í hvert sinn. Þá komi fram í tölvupósti stefnda J&L ehf. til réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf., þann 23.02.2011, að þau skipti sem stefnandi hafi starfað fyrir stefnda J&L ehf. hafi hún unnið sem aðstoðarleikstjóri. Á árinu 2010 hafi hún fengið greitt gegn framvísun reikninga. Þær greiðslur hafi verið greiddar af stefnda J&L ehf. til einkahlutafélags stefnanda - Elda & Skugga ehf. 

Þá kveður stefndi að verkefni stefnanda hjá stefnda J&L ehf. hafi verið tilfallandi og hún hafi sinnt verkefnum fyrir önnur fyrirtæki inn á milli þeirra. Stefnandi hafi þannig sinnt einstaka verkefnum sem til hafi fallið fyrir stefnda J&L ehf. og megi það m.a. ráða af greiðslutilhögun til hennar. Þá hafi samningssambandið einnig verið óreglulegt sem sjáist af fjárhæðum og fjölda greiðslna á árinu 2010. 

Stefndi mótmælir því að félagið hafi lagt stefnanda til öll tæki og allan búnað til verksins og að stefndi hafi haft boðvald yfir stefnanda. Mótmælir stefndi því að  samningssamband aðila sé í raun vinnusamningur. Stefnandi sinni störfum aðstoðarleikstjóra við töku auglýsinga en út frá hlutverki aðstoðarleikstjóra sé vandséð hvaða tæki og búnað hún eigi að leggja til verksins. Þá sé hún ráðin inn sem fagaðili og beri ábyrgð á sínum störfum sem slíkur. Skýr verkaskipting sé á tökustað hverju sinni og hlutverk hvers og eins afmarkist af sérfræðiþekkingu. Staðhæfing um að stefnandi lúti í einu og öllu boðvaldi stefnda J&L ehf. sé röng og ósönnuð. Stefnandi hafi hvorki lagt fram gögn né beri atvik það með sér að hún hafi verið í ráðningarsambandi við stefnda J&L ehf. þegar slysið varð þann 17.10.2010. Þvert á móti beri fyrirliggjandi gögn og önnur atvik með sér að stefnandi hafi verið verktaki að efninu til eins og hún telji sig reyndar sjálfa vera, a.m.k. að forminu til skv. m.a. fyrirliggjandi umboði til lögmanns hennar, dags. 29.12.2010.

Réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðinni hf. sé ekki stefnt til að þola efnisdóm í málinu og verði kröfur því ekki gerðar á hendur félaginu né geti það gert kröfu í málinu um annað en málskostnað, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991.

Um lagarök vísast, auk ofangreinds, til almennra reglna skaðabótaréttarins um húsbóndaábyrgð og til almennu skaðabótareglunnar, sakarreglunnar. Málskostnaðarkrafa stefnda styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áskilinn er réttur til að koma síðar að athugasemdum við málskostnaðarkröfur stefnanda eftir því sem tilefni verður til.

Málsástæður og lagarök stefnda Latabæjar ehf. og VÍS til réttargæslu.

Stefndi Latibær ehf. kveður að um skaðabótaábyrgð í málinu fari eftir almennum skaðabótareglum.  Það þýði að aðili verður ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni annars aðila nema það sé að rekja til sakar hans eða einhverra sem hann beri ábyrgð á að lögum. Sönnunarbyrðin um meinta sök Latabæjar eða að hlutlæg ábyrgðarregla eigi við hvílir því alfarið á stefnanda sem og að eitthvert tjón hafi orðið ásamt umfangi þess. 

Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi byggð á því að stefnandi beini kröfum sínum ranglega að Latabæ ehf. og því beri að sýkna félagið á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi kveður stefnanda hafa orðið fyrir óhappi þegar hún var að vinna í myndveri í eigu Latabæjar. Umrædd vinna hafi ekki farið fram á vegum Latabæjar eða fyrir félagið. Félagið sé rekið af 360° Studios ehf., sem aftur sjái um að leigja út rekstur Latabæjar og myndver. Fyrir liggi að stefnandi var að vinna sem verktaki hjá meðstefnda þegar umrætt atvik gerðist og undir verkstjórn þess félags. Skipti engu máli í því sambandi þótt unnið væri í myndveri í eigu Latabæjar, enda hafi enginn komið á vegum Latabæjar að verkinu eða haft af því nokkur afskipti. Þá sé það rangt að Hannes Björgvinsson sé starfsmaður Latabæjar og að hann hafi verið staddur í myndverinu sem slíkur og til að hafa eftirlit með því. Hið rétta sé að Hannes sé sjálfstæður verktaki og hafi starfað sem slíkur hjá meðstefnda við umrætt verk sem félagið hafði leigt myndver Latabæjar til. Ljóst megi því vera að meðstefndi hafi einn borið fulla ábyrgð á öllu verkinu og framkvæmd þess, hvort sem var meðferð ljósabúnaðarins eða annað. Á engan hátt hafi Latibær átt þátt í neinni vinnu sem fór fram í myndverinu þegar meðstefndi hafði það á leigu. Kröfum vegna meintrar sakar við framkvæmd verksins verði því ekki beint að Latabæ, enda ekkert það samband milli stefnanda og Latabæjar sem leiði til þess að stefnandi kunni að eiga bótarétt á hendur félaginu vegna þessa atviks, hafi orðið einhverjar afleiðingar af því. 

Stefndi mótmælir því að stefndi Latibær hafi átt einhverja aðild að starfsemi þeirri sem var í gangi í myndverinu umrætt sinn í skilningi 17. gr. laga nr. 46/1980 og þannig haft einhverjum skyldum að gegna sem slíkur. Þótt myndverið sé í eigu Latabæjar geri það ekki félagið að vinnuveitanda þegar myndverið er leigt út í tökur sem að öllu leyti séu á vegum leigutakans. Það sé eingöngu sá aðili sem leigi staðinn sem teljist vinnuveitandi í skilningi ákvæðisins, enda starfsemin þá á hans vegum og þar með á hans ábyrgð. Á sömu forsendum sé því jafnframt alfarið hafnað að á Latabæ hafi hvílt einhverjar þær skyldur samkvæmt lögum nr. 46/1980 sem stefnandi haldi fram, enda hafi hann ekki verið með neina starfsemi í gangi tengda leigutakanum í það sinn. Ekkert liggi því fyrir í málinu um að Latibær beri skyldur lögum samkvæmt gagnvart stefnanda þannig að um aðild félagsins að þessu máli sé að ræða og beri því að sýkna Latabæ af öllum kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga  um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Sýknukrafan stefnda Latabæjar er í öðru lagi byggð á því að Latibær beri að lögum ekki ábyrgð gagnvart stefnanda vegna óhappsins. Eins og þegar hafi verið rakið sé málatilbúnaður stefnanda í stefnu verulega óskýr og óljóst á hvaða málsástæðum hann byggi gagnvart Latabæ. Virðist sem byggt sé á að Latibær beri ábyrgð á því að vinnustaðurinn hafi verið vanbúinn og Vinnueftirlitið hafi ekki verið kallað til og ljósastandurinn hafi ýmist verið vanbúinn, bilaður, gallaður eða uppsetningu eða umhirðu hans verið ábótavant. Megi ráða af þessu að allur málatilbúnaður stefnanda á hendur Latabæ virðist grundvallast á því að Latibær hafi verið vinnuveitandi, hvort sem var stefnanda eða annarra sem voru í myndverinu, en kröfugerðin er frekar óljós um vinnuveitandi hvers Latibær er talinn vera. Virðist stefnandi telja að skaðabótaábyrgð Latabæjar gagnvart sér grundvallist á því annars vegar að Latibær beri hlutlæga ábyrgð sem vinnuveitandi á bilun eða galla í tæki, og hins vegar að um sakarábyrgð sé að ræða, á grundvelli sakarreglunnar, reglunnar um vinnuveitendaábyrgð og reglunnar um nafnlaus mistök.

Því er alfarið mótmælt af Latabæ að félagið geti á einhvern hátt borið ábyrgð gagnvart stefnanda með þeim hætti sem haldið sé fram. Til að svo geti verið verði að liggja fyrir með óyggjandi hætti að Latibær hafi verið vinnuveitandi einhvers sem starfaði í myndverinu í umrætt sinn en slíkt sé ófrávíkjanlegt skilyrði vinnuveitendaábyrgðar. Eignarhald Latabæjar á kvikmyndaverinu geri Latabæ ekki sjálfkrafa að vinnuveitanda allra þeirra sem þar sinni einhverjum verkum heldur þurfi annað og meira til að koma, eins og samband sem jafna megi til ráðningarsambands. Engu slíku hafi verið til að dreifa, hvorki við stefnanda eða aðra í myndverinu, í umrætt sinn og Latibær þar með ekki vinnuveitandi þeirra og ábyrgur gagnvart þeim sem slíkur.

Þá mótmælir stefndi alfarið að Latibær beri hlutlæga ábyrgð gagnvart stefnanda vegna bilunar eða galla í tæki. Fyrir það fyrsta þá sé ekki lengur til staðar í íslenskum rétti ólögfest hlutlæg ábyrgðarregla vinnuveitanda vegna líkamstjóns starfsmanna hans sem verður vegna bilunar eða galla í tæki. Hefur Hæstiréttur frá 1970 hafnað því að slík regla sé til staðar, án þess að fyrir því væri bein stoð í settum lögum, og gert að skilyrði að um sök sé að ræða. Í annan stað þá sé með öllu ósannað í málinu að umræddur ljósastandur hafi verið bilaður eða gallaður en stefnandi hafi alla sönnunarbyrðina fyrir því. Dugi ekki að halda því eingöngu fram að standurinn hafi verið bilaður eða haldinn galla heldur verði stefnandi að sanna í hverju sú bilun eða galli fólst og að sök hafi verið fyrir hendi af hálfu einhvers sem Latibær beri ábyrgð á. Slík sönnun liggi ekki fyrir í málinu.

Þá mótmælir stefndi því að Latibær geti borið ábyrgð sem vinnuveitandi gagnvart stefnanda, hvort sem miðað sé við sakarregluna, vinnuveitendaábyrgð eða regluna um nafnlaus mistök. Til að um vinnuveitendaábyrgð Latabæjar geti verið að ræða þurfi starfsmaður Latabæjar að hafa valdið óhappi stefnanda. Sök starfsmanns Latabæjar sé ófrávíkjanlegt skilyrði slíkrar ábyrgðar. Eins og þegar hafi verið gerð grein fyrir tók enginn starfsmaður Latabæjar þátt í ofangreindu verkefni. Þegar af þeirri ástæðu kemur vinnuveitendaábyrgð Latabæjar ekki til álita.  

Þá bætir stefndi því við að umrætt óhapp hafi orðið þegar ljósastandur féll niður þegar verið var að taka niður ljós af þverslá, sem var áföst ljósastandinum, eða færa það til. Hvort sem ástæðu þess að standurinn tapaði jafnvægi og féll sé að rekja til sakar einhvers sem sinnti því verki eða ekki þá liggi fyrir að enginn af þeim aðilum hafi verið starfsmaður Latabæjar eða unnið þar á ábyrgð félagsins. Latibær geti því aldrei borið ábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli reglna um vinnuveitendaábyrgð. Eigi það sama við um regluna um nafnlaus mistök en hún grundvallist á sjónarmiðum vinnuveitendaábyrgðar. Sé algjört grundvallaratriði og ófrávíkjanlegt skilyrði þeirrar reglu að tjón sé sannanlega að rekja til ábyrgðar einhvers starfsmanna viðkomandi vinnuveitanda til að unnt sé að leggja ábyrgðina á hann á grundvelli reglunnar.  Latibær hafi hvorki verið vinnuveitandi í þeim skilningi né hafi starfsmenn félagsins verið að störfum sem slíkir hjá meðstefnda við umrætt verk.

Telur Latibær leiða af öllu framangreindu að sýkna beri félagið af öllum kröfum stefnanda þar sem sýnt sé að sá grundvöllur sem byggt er á gagnvart Latabæ standist engan veginn sem bótagrundvöllur.

Jafnframt sé því alfarið hafnað að sök Latabæjar geti byggst á því að Vinnueftirlitið hafi ekki verið kallað á staðinn eins og stefnandi virðist gera í stefnu.  Fyrir það fyrsta þá hafi Latibær ekki verið vinnuveitandi á staðnum í umrætt sinn eins og margoft hafi komið fram. Það verk sem verið var að vinna hafi verið á vegum meðstefnda, og hafi hvílt einhver skylda til að kalla Vinnueftirlitið til megi ætla að sú skylda hafi hvílt á meðstefnda. Í annan stað þá verði ekki séð að skylt hafi verið að kalla Vinnueftirlitið til því eins og segir í 79. gr. laga nr. 46/1980 sé það eingöngu skylt þegar starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga og þegar líkur séu á því að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni vegna slyss. Ekkert af þessu eigi við um stefnanda en það hafi komið fram hjá stefnanda að hann hélt vinnu sinni áfram samdægurs eftir að hann hafði leitað læknis.  Ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi verið óvinnufær vegna atviksins né að heilsutjón hafi verið langvinnt og varanlegt. 

Stefndi hafnar því sérstaklega, sem stefnandi heldur fram, að sök Latabæjar sé byggð á því að brotið hafi verið gegn ákvæðum 13. og 42. gr. laga nr. 46/1980.  Eins og þegar hafi komið fram hafi hvorki Latibær né neinn á vegum félagsins afskipti af vinnustaðnum eða verkframkvæmdum, enda verkið að öllu leyti unnið fyrir og á vegum meðstefnda. Þá liggi ekki fyrir nein sönnun þess að vinnustaðurinn og/eða vinnuaðstæður hafi á einhvern hátt verið óviðunandi eða í andstöðu við ákvæði laganna. Að auki bendir stefndi á að þau ákvæði laganna, sem stefnandi vísi til að hafi verið brotið gegn, séu almennar leiðbeiningarreglur um það hvernig vinnu skuli háttað og hvernig vinnustaðir eigi að vera en veiti ekki leiðbeiningar um sakarmat. Hafi stefnandi ekki fært sönnur á eða sýnt fram á með beinum hætti á hvern hátt brotið hafi verið gegn þessum almennu hátternis- og leiðbeiningarreglum, hvorki af hálfu Latabæjar eða meðstefnda. Ef litið verði svo á að umrætt atvik sé að rekja til þess að brotið hafi verið gegn lögum nr. 46/1980 með þeim hætti sem stefnandi haldi fram þá sé ljóst að öll sakarábyrgðin, ef um sé að ræða, hljóti að liggja hjá meðstefnda þar sem verkið var unnið fyrir hann og á hans vegum. Þá er því sérstaklega mótmælt að það geti skipt einhverju máli um meinta sök Latabæjar að félagið hafi ekki tilkynnt um starfsemi sína til Vinnueftirlitsins en skilja megi málatilbúnað stefnanda sem svo að það hafi áhrif á sakarmatið.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í þriðja lagi á því að umrætt atvik hafi verið óhappatilvik sem enginn beri ábyrgð á að lögum. Eins og fram hafi komið liggi ekkert fyrir um það að umræddur ljósastandur hafi á einhvern hátt verið bilaður, gallaður eða vanbúinn með þeim hætti sem stefnandi haldi fram. Það að splitti hafi skotist úr festingu þegar ljósamaðurinn var að taka ljóskastara niður sé eingöngu tilviljunarkenndur atburður sem ekki hafi verið neinum að kenna og enginn beri ábyrgð á.

Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu stefnda Latabæjar, heldur litið svo á að viðurkenna beri skaðabótaskyldu Latabæjar gagnvart stefnanda, er gerð sú krafa til þrautavara að sök verði skipt í málinu. Byggir stefndi þá kröfu á því að eðlilegt sé að stefnandi beri sjálf mestan hluta tjóns síns vegna eigin sakar enda hafi hún sjálf átt sinn þátt í því með því að gæta ekki að sér. Fyrir liggi að stefnandi var aðstoðarleikstjóri við það verk sem verið var að vinna á vegum meðstefnda í umrætt sinn. Hún hafi því verið yfirmaður á svæðinu og borið ábyrgð sem slík, m.a. á því að verkframkvæmd gengi fyrir sig með eðlilegum og öruggum hætti.  Ljóst megi því vera að stefnandi var ekki að fylgjast með verkframkvæmdum og því hvort rétt væri að þeim staðið og hafi þannig ekki sinnt hlutverki sínu sem með fullnægjandi hætti. 

Vísar stefndi Latibær ehf. til almennra reglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar, reglunnar um vinnuveitendaábyrgð og meginreglna um sönnun og sönnunarbyrði og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á  129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Forsendur og niðurstöður.

Stefndi Latibær ehf. krafðist sýknu í greinargerð á grundvelli 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Segir stefndi kröfunni ranglega beint að Latabæ ehf. Kveður stefndi umrædda vinnu ekki hafa farið fram á vegum Latabæjar en óumdeilt sé og liggi fyrir að Latibær hafi leigt meðstefnda myndverið ásamt búnaði. Var greinargerð stefnda lögð fram í dóminum 2. nóvember 2011. Undir rekstri málsins byggði stefndi Latibær á því að leigusali hafi verið 380° Studios ehf. en því til staðfestu lagði stefndi fram reikning. Var sá reikningur lagður fram 21. maí 2012. Kom sú málsástæða fyrst fram við aðalmeðferð að kröfunni hefði átt að beina að 380° Studios ehf. en ekki Latabæ ehf. Mótmælti stefnandi þeirri málsástæðu sem of seint fram kominni. Stefndi Latibær kvaðst í aðalmeðferð byggja á aðildarskorti og breytir engu þó í ljós komi við aðalmeðferð hvert hið rétta félag er sem var viðskiptaaðili J&L ehf.

Stefndi Latibær ehf. byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti en hann kveðst ekki hafa komið að því verki sem stefnandi slasaðist við. Hafi enginn starfsmaður stefnda verið við vinnu í verkinu og geti stefndi því ekki verið bótaskyldur vegna tjóns sem hafi orðið á vegum meðstefnda J&L ehf. Meðstefndi hafi leigt myndverið með tækjum sem til þurfti og hafi þar af leiðandi borið ábyrgð á allri framkvæmd. Þá mótmælir stefndi Latibær að hann verði gerður bótaskyldur á grundvelli hlutlægra reglna, engin lagaskilyrði séu til þess.

Stefnandi byggir á því að starfsmaður Latabæjar hafi verið á vettvangi og því verið hluti af starfsemi Latabæjar sem leigð var út til J&L ehf. Því mótmælir stefndi Latibær. Fyrir dómi kom fram hjá vitninu Hannesi Björgvinssyni að hann væri í verktöku sem smiður og taki að sér tilfallandi verkefni. Í þessu tilviki hafi hann tekið að sér að opna húsið fyrir stefnda Latabæ ehf. þennan dag, þar sem engin starfsemi hafi verið í húsinu á þeim tíma, og verið á staðnum til að skilja húsið ekki eftir eftirlitslaust af hálfu eigenda þess. Hann hafi sent stefnda Latabæ reikning fyrir vinnu sinni þann dag. Hann hafi ekki verið launamaður hjá Latabæ né starfsmaður á þessum tíma. Þá hafi hann ekkert haft að gera með upptöku- eða ljósabúnað sem var á tökusvæðinu og í eigu meðstefndu Latabæjar eða annarra. Þá er ekkert fram komið í málinu um að eigandi ljósastandsins, stefndi Latibær, hafi með ásetningi eða gáleysi leigt ljósastandinn vanbúinn eða bilaðan þannig að hann verði bótaskyldur samkvæmt almennum skaðabótareglum.

Vitnið Ásgrímur Guðbjartsson, sem sá um lýsingu við gerð auglýsingarinnar, kvaðst hafa verið verktaki á vegum stefnda J&L ehf. í umræddu verki. Kvaðst hann vera með áralanga reynslu við slíka lýsingu. Hann hafi ætlað að breyta um lýsingu og verið uppi í stiga við ljósastandinn þegar óhappið varð. Ljósastandurinn var því leigður án tækjamanns eða stjórnanda til stefnda J&L ehf., enda var J&L ehf. búinn að ráða ljósamann á sínum vegum. Þessu hefur ekki verið hnekkt. Hefur stefnanda ekki tekist að sýna fram á að stefndi Latibær sé bótaskyldur á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar. Þá verður tekið undir það með stefnda Latabæ að ekki séu lagaskilyrði til að leggja á hann bótaskyldu á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar vegna meints galla, vanbúnaðar eða annarra hluta er tengjast ljósastandinum. Þá hefur ekkert komið fram sem bendi til saknæmrar háttsemi hjá stefnda Latabæ varðandi ljósastandinn. Ber því að sýkna stefnda Latabæ ehf., á grundvelli aðildarskorts.

Stefndi J&L ehf., krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að sök verði skipt.  

Ekki er ágreiningur um að stefndi J&L ehf. tók myndverið ásamt umræddan ljósastand á leigu fyrir þetta verkefni. Að sögn stefnda Latabæjar var umrætt kvikmyndaver leigt út til mismunandi hópa, ýmist með eða án ljósastandsins.       Stefnandi byggir á því að stefndu hafi báðir borið ábyrgð á því að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins og sé sönnunarbyrðin, um að ljósastandurinn hafi verið í lagi, hjá þeim. Beri þeir hallann af því að láta ekki rannsaka tildrög slyssins né tilkynna það til Vinnueftirlits ríkisins í samræmi við 79. gr. laga nr. 46/1980 en þar segir að atvinnurekandi skuli án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings. Við aðalmeðferð málsins lýsti stefnandi því svo að hún hafi afþakkað flutning með sjúkrabifreið á slysadeild en farið á eigin bíl stuttu síðar. Eftir skoðun hafi hún farið á tökustað og haldið vinnu sinni áfram. Þá kom líka fram að framkvæmdastjóri stefnda J&L ehf. hafi komið á tökustað eftir að slysið varð en hann hafi ekki fengið neinar þær upplýsingar um slysið sem skyldaði hann til tilkynningar til Vinnueftirlitsins. Ekkert hafi þá komið fram sem krafðist viðbragða samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980. Verður  hvorugum stefndu metið til vanrækslu að hafa ekki tilkynnt slysið til Vinnueftirlitsins. Verður sönnunarbyrðin né bótaskylda ekki lögð á stefndu vegna þessa.

Þá hafa ekki verið færðar líkur fyrir því að eitthvað hafi verið athugavert við ljósastandinn eða þá aðferð sem notuð var við að snúa ljósunum eða færa þau til. Öðru fremur hafa stefnandi og vitni talið að um óhapp hafi verið að ræða þegar splitti, sem hélt ljósinu föstu, skaust úr stæði sínu með þeim afleiðingum að ljósið sjálft datt úr festingu sinni og þversláin og  ljósastandurinn féllu á stefnanda. Taldi stefnandi sjálf að ekkert óeðlilegt hafi verið við vinnu ljósamannsins þegar hann átti við ljósið og ljósastandinn.

Samkvæmt dómaframkvæmd myndi ábyrgð á slysum vegna leigðra tækja flytjast yfir til leigutaka í þessu tilviki þar sem leigutaki leigir tækið og kemur sjálfur með sérstakan ljósamann til að stjórna því. Af öllum öðrum skilyrðum uppfylltum myndi bótaábyrgð því falla á leigutakann. Verður því ábyrgð vegna slyss ekki lögð á eiganda tækisins heldur í þessu tilviki notandann eftir atvikum.

Stefndi J&L ehf. leigði ljósastandinn ásamt kvikmyndaverinu af meðstefnda Latabæ ehf., eins og kemur fram í greinargerð stefnda eða 380° Studios ehf., kt. [...], Miðhrauni 4, Garðabæ, eins og reikningur segir til um. Breytir það engu um niðurstöður í málinu. Ásbjörn Guðbjartsson ljósamaður, kvaðst fyrir dóminum taka að sér verk í verktöku og í umrætt sinn hafi hann unnið sem verktaki við þetta ákveðna verk. Hann hafi gert J&L ehf., reikning fyrir þátttöku sinni í auglýsingunni. Ekki er ágreiningur um þetta. Hefur stefnandi því ekki sýnt fram á að starfsmaður stefnda J&L ehf., hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við breytingu á ljósastandinum. Verður bótaskylda ekki lögð á stefnda J&L ehf., vegna saknæmrar háttsemi starfsmanns hans eða á grundvelli nafnlausra mistaka.

Ágreiningur í máli þessu snýr einnig að því hvort vinnuréttarsamband hafi verið á milli stefnanda og stefnda J&L ehf.

Stefndi J&L ehf. réð til þessa verks framleiðanda, leikstjóra, aðstoðarleikstjóra, ljósamann, kvikmyndatökumann og fleiri er komu að gerð auglýsingarinnar. Voru allir fengnir til verksins sem verktakar.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum og kvaðst reka fyrirtækið Eldar og Skuggar ehf. Hafi hún starfað til fjölda ára sem aðstoðarleikstjóri og tæki að sér ýmis verkefni því tengd. Meðal annars hafi hún tekið að sér að vera aðstoðarleikstjóri að beiðni meðstefnda J&L ehf. við gerð auglýsingar fyrir Kringluna. Hafi myndatökur átt að standa í tvo eða þrjá daga. Lýsti stefnandi því svo að hennar yfirmaður í verkefninu hafi verið leikstjórinn og hafi hlutverk stefnanda falist í því að vera tengiliður á milli leikstjórans og þeirra leikenda sem voru í sviðsmyndinni. Hafi leikstjórinn t.d. viljað að einhver brosti meira eða gerði eitthvað annað þá færi hún og bæði viðkomandi leikara að uppfylla beiðni leikstjórans. Stefnandi hafi starfað sem slík í mörg ár og telji sig mjög færa í því starfi. Eftir að þessu verki lauk þá hafi stefnandi ekki fengið neitt verkefni í tíu daga en næsta verkefni hafi verið gerð áramótaskaupsins fyrir RÚV. Stefnandi lýsti því svo fyrir dóminum að framkvæmd við innheimtu fyrir vinnu hennar hafi ætíð verið í því formi að hún sendi reikning fyrir hvert einstakt verkefni til meðstefnda J&L ehf. og annarra sem hún ynni fyrir. Í flestum tilvikum væri ákveðið fyrirfram hvað verkið tæki langan tíma og væri því innheimt gjald í samræmi við það. Þó kæmi fyrir að verkefnið tæki lengri tíma en áætlað var en þá væri rukkað fyrir yfirvinnu. Aðspurð kvaðst stefnandi vinna fyrir mörg önnur fyrirtæki í auglýsinga- eða kvikmyndagerð. Væri hlutfall tekna hennar frá J&L ehf. í árstekjum mismunandi, það færi alfarið eftir verkefnastöðu stefnanda í hvert sinn. Þá gæti stefnandi verið að vinna fyrir mismunandi fyrirtæki á sama tíma, allt í verktöku. Kvaðst hún innheimta fyrir vinnu sína í nafni fyrirtækis síns, Elda og skugga ehf. Þá kom fram að stefnandi réði því sjálf hvaða verkefni hún tæki að sér, stór eða smá. Þrátt fyrir þetta byggir stefnandi dómkröfur sína á því að meðstefndi J&L ehf. hefði yfir henni boðvald, ákvarðaði endurgjald til hennar fyrir vinnuframlag hennar, útvegaði henni verkfæri við vinnu hennar, samningur þeirra væri bundinn við hennar persónu, stefndi hefði aðra í vinnu hjá sér sem hefðu unnið við sama verkefni og stefndi ákvarðað vinnutímann. Því væri í raun samband þeirra vinnuréttarlegs eðlis en ekki verktakasamningur. Þessu mótmælti stefndi J&L ehf. Kvaðst stefndi hafa leitað til stefnanda vegna kunnáttu hennar við þetta verkefni, sem hann hefði einnig gert vegna annarra verkefna. Fram kom fyrir dómi að ef sá verktaki, sem tæki að sér tilfallandi verk, s.s. leikmunagerð eða annað, stæðist ekki væntingar leikstjórnanda eða framleiðanda, þá væri ekki leitað til hans aftur. Af öllu framansögðu verður ekki ráðið að vinnusamband stefnanda og stefnda J&L ehf. sé launþegasamband. Stefnandi gerir stefnda reikninga fyrir hvert verk fyrir sig. Þó svo að fyrirfram sé ákveðið hversu margar klukkustundir muni fara í hvert verkefni og að yfirvinna sé greidd sérstaklega, fari vinna í verkið fram yfir fyrirfram ákveðinn tímafjölda, er það ekki óeðlilegt við gerð slíkra verktakasamninga. Hefur stefnanda því ekki tekist að sýna fram á að samningur hennar við stefnda J&L ehf. hafi í raun verið launþegasamband. Verður af þeim sökum stefndi J&L ehf. ekki bótaskyldur gagnvart stefnanda í máli þessu og ber að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda.

Af þessu leiðir að sýkna ber einnig Vátryggingarfélag Íslands hf., og Tryggingamiðstöðina hf. af kröfum stefnanda.

Að þessum niðurstöðum fengnum verður stefnandi dæmd til að greiða stefndu, Latabæ ehf., og J&L ehf., hvorum um sig 500.000 krónur í málskostnað, og til stefndu Vátryggingarfélags Íslands hf., og Tryggingamiðstöðvarinnar hf. 100.000 krónur hvorum um sig. Engar kröfur eru gerðar um greiðslu virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. 

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

d ó m s o r ð :

Stefndu, Latibær ehf., og J&L ehf., eru sýkn af öllum kröfum stefnanda.

Stefndu Vátryggingarfélag Íslands hf. og Tryggingamiðstöðin hf. eru sýkn í máli þessu. 

Stefnandi greiði stefndu, Latabæ ehf., og J&L ehf., hvorum um sig, 500.000 krónur í málskostnað.

Stefnandi greiði Vátryggingarfélagi Íslands hf., og Tryggingamiðstöðinni hf. hvorum um sig, 100.000 krónur í málskostnað.