Hæstiréttur íslands
Mál nr. 148/2009
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Orlof
- Sératkvæði
|
Fimmtudaginn 21. janúar 2010. |
|
|
Nr. 148/2009. |
Vörður tryggingar hf. (Björn L. Bergsson hrl.) gegn Einari Baldvinssyni (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) og gagnsök |
Ráðningarsamningur. Uppsögn. Orlof. Sératkvæði.
E sem starfað hafði sem framkvæmdastjóri hjá V hf. krafði félagið um vangreiddar orlofsgreiðslur. Samkvæmt samkomulagi um starfslok E og ráðningarsamningi hans skyldi E eiga rétt til fullra launa í allt að 18 mánuði eftir starfslok. E var sagt upp störfum vegna breytinga í rekstri og krafði hann félagið um greiðslu orlofs á laun í þeim 18 mánaða uppsagnarfresti sem kveðið var á um í samningnum og vegna orlofs sem hann átti inni hjá félaginu þegar hann lét af störfum. Talið var að E ætti rétt á að fá áunnið orlof, sem hann átti inni við starfslok, greitt með vísan til 8. gr. laga nr. 30/1987. Þá var jafnframt fallist á það með E að hann ætti rétt á greiðslu orlofs á laun í samningsbundnum uppsagnarfresti. Var V hf. því dæmt til að greiða E vangreiddar orlofsgreiðslur að fjárhæð 2.153.358 ásamt dráttarvöxtum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. mars 2009. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda „um greiðslu orlofslauna vegna orlofsáranna 2004-2008“, að fjárhæð 1.465.302 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 3. júní 2009. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 2.153.358 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 726.281 krónu frá 1. maí 2006 til 20. janúar 2007, af 746.205 krónum frá þeim degi til 20. febrúar 2007, af 767.583 krónum frá þeim degi til 20. mars 2007, af 782.230 krónum frá þeim degi til 20. apríl 2007, af 794.928 krónum frá þeim degi til 1. maí 2007, af 1.809.659 krónum frá þeim degi til 1. júní 2007, af 1.911.919 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2007, af 2.009.153 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2007, af 2.115.630 krónum frá þeim degi til 1. september 2007 og af 2.153.358 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Aðaláfrýjandi hefur ekki skilað greinargerð í gagnsök og verður litið svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms um það atriði, sem gagnáfrýjunin lýtur að, sbr. 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi lýst því yfir að hann uni niðurstöðu héraðsdóms um skyldu til greiðslu símkostnaðar gagnáfrýjanda 141.394 krónur. Er við það miðað í kröfu gagnáfrýjanda.
Gagnáfrýjandi átti ótekna 18 daga af áunnu orlofi vegna starfa hans í þágu aðaláfrýjanda á tímabilinu 1. maí 2004 til 30. apríl 2005, þegar ráðningarsamningi hans var slitið með uppsögn 17. febrúar 2006. Samkvæmt samkomulagi málsaðila skyldi gagnáfrýjandi láta þá þegar af störfum. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 30/1987 um orlof hefði áfrýjandi átt þess kost að nýta þetta ótekna orlof allt til 30. apríl 2006 ef ráðningarslitin hefðu ekki komið til. Við þessar aðstæður átti gagnáfrýjandi samkvæmt 8. gr. laga nr. 30/1987 rétt á að fá áunnið orlof greitt. Með þessum rökum verður fallist á kröfu hans um greiðslu orlofsfjár vegna þessara daga, en ekki er ágreiningur um að sú fjárhæð er 688.056 krónur.
Fallist er á niðurstöðu héraðsdóms um að gagnáfrýjandi eigi rétt til greiðslu úr hendi aðaláfrýjanda vegna orlofs á laun í samningsbundnum uppsagnarfresti, það er vegna orlofsársins 2006 til 2007 og frá 1. maí 2007 til loka ágúst það ár. Ekki er ágreiningur um að orlof á laun vegna þessara tímabila er 1.465.302 krónur. Ekki er til úrlausnar í máli þessu réttur gagnáfrýjanda til orlofsgreiðslna fyrir tímabilið 1. maí 2005 til 30. apríl 2006, að frátöldum einum degi, sem krafa gagnáfrýjanda tók til og fallist var í héraðsdómi. Verður sú niðurstaða staðfest.
Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 2.153.358 krónur með dráttarvöxtum eins og krafist er, en þeim hefur ekki verið andmælt.
Niðurstaða héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Vörður tryggingar hf., greiði gagnáfrýjanda, Einari Baldvinssyni, 2.153.358 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 726.281 krónu frá 1. maí 2006 til 20. janúar 2007, af 746.205 krónum frá þeim degi til 20. febrúar 2007, af 767.583 krónum frá þeim degi til 20. mars 2007, af 782.230 krónum frá þeim degi til 20. apríl 2007, af 794.928 krónum frá þeim degi til 1. maí 2007, af 1.809.659 krónum frá þeim degi til 1. júní 2007, af 1.911.919 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2007, af 2.009.153 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2007, af 2.115.630 krónum frá þeim degi til 1. september 2007 og af 2.153.358 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Niðurstaða héraðsdóms um málskostnað skal vera óröskuð.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, 500.000 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Í málinu liggur fyrir að gagnáfrýjandi átti, við samningsgerðina 17. febrúar 2006, ótekna 18 orlofsdaga vegna vinnu sinnar á tímabilinu maí 2004 til apríl 2005. Töku þessa orlofs átti að vera lokið fyrir 1. maí 2006, sbr. síðari málslið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Málsaðilar eru sammála um að ráðningarsamningi gagnáfrýjanda, sem gerður hafði verið 1. mars 2002, hafi lokið í skilningi 8. gr. laganna þegar gagnáfrýjandi hætti að taka laun hjá aðaláfrýjanda í ágúst 2007. Þá var réttur gagnáfrýjanda til orlofs nefnda 18 daga fallinn niður, sbr. 13. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu tel ég að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm um að sýkna aðaláfrýjanda af kröfu gagnáfrýjanda vegna þessara orlofsdaga.
Með samkomulaginu 17. febrúar 2006 voru daglegar starfsskyldur gagnáfrýjanda felldar niður frá undirritun þess. Um launagreiðslur til hans var ekki samið sérstaklega heldur vísað til ráðningarsamningsins frá 1. maí 2002. Í þeim samningi er að finna svofellt ákvæði í 2. tölulið: „Uppsagnarfrestur af beggja hálfu skal vera 6 mánuðir. Verði Einari sagt upp störfum án þess að hann hafi brotið ákvæði þessa samnings skal hann bera full laun með fríðindum í 12 mánuði eftir að hann lýkur störfum.“ Fyrir liggur í málinu að gagnáfrýjandi naut launa samkvæmt samningsákvæðinu til loka ágústmánaðar 2007. Ég tel að skýra verði þennan samningstexta á þann veg að til greiðslu fullra launa hafi þetta tímabil heyrt réttur til orlofs þannig að viðeigandi hluti launatímabilsins hafi talist orlofstími, enda er meginregla um kjör launamanna, hvort sem eftir lögum nr. 30/1987 eða kjarasamningum, að orlof sé tekið með því að leggja niður störf þann tíma sem orlof stendur og njóta launa á meðan. Styður það þessa skýringu að gagnáfrýjandi hefði, ef hann hefði unnið nefnt tímabil, átt rétt á að taka orlof með því að fara í frí á launum. Ég tel afar langsótt að skýra lögskipti aðila með þeim hætti að gagnáfrýjandi hafi að þessu leyti orðið betur settur fyrir að vinna ekki, en hann hefði orðið ef hann hefði sinnt starfsskyldum sínum umrætt tímabil. Samkvæmt þessu tel tel ég að einnig beri að fallast á kröfu aðaláfrýjanda um sýknu af þessum hluta kröfu gagnáfrýjanda.
Það er því niðurstaða mín að sýkna beri aðaláfrýjanda af kröfu gagnáfrýjanda og dæma gagnáfrýjanda til að greiða aðaláfrýjanda samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2009.
I
Mál þetta sem dómtekið var 13. febrúar 2009 var höfðað 26. júní 2008. Stefnandi er Einar Baldvinsson, Fannafold 41, Reykjavík, en stefndi er Vörður tryggingar hf., Borgartúni 25, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.294.752 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 726.281 krónu frá 1. maí 2006 til 20. janúar 2007, af 746.205 krónum frá þeim degi til 20. febrúar 2007, af 767.583 krónum frá þeim degi til 20. mars 2007, af 782.230 krónum frá þeim degi til 20. apríl 2007, af 794.928 krónum frá þeim degi til 1. maí 2007, af 1.809.659 krónum frá þeim degi til 1. júní 2007, af 1.911.919 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2007, af 2.009.153 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2007, af 2.115.630 krónum frá þeim degi til 1. september 2007 og af 2.294.752 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
II
Málavextir eru þeir að stefnandi hóf störf hinn 1. maí 2002 sem framkvæmdastjóri stefnda, sem þá hét Íslandstryggingar hf. Var stefnanda sagt upp störfum í febrúar 2006 vegna breytinga í rekstri félagsins.
Mánaðarlaun stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi voru 500.000 krónur, en voru vegna lögbundinna og samningsbundinna hækkana komin upp í 828.343 krónur við starfslok. Við starfslok stefnanda undirrituðu aðilar málsins samkomulag, dagsett 17. febrúar 2006, þar sem meðal annars var samið um að greiðslur vegna starfsloka færu eftir ráðningarsamningi, dagsettum 1. maí 2002.
Samkvæmt 2. gr. ráðningasamningsins var gagnkvæmur uppsagnarfrestur 6 mánuðir og tekið fram að ef ástæður uppsagnar væri að rekja til annars en vanefnda stefnanda skyldi réttur til launagreiðslna og fríðinda haldast óskertur í allt að 12 mánuði eftir starfslok. Stefnanda var sagt upp eins og áður segir vegna breytinga í rekstri stefnda og miðaðist uppsögn hans við 1. mars 2006. Kveður stefnandi að að loknum uppsagnarfresti 1. september 2006 hafi hann átt samningsbundinn rétt til fullra launa og orlofsgreiðslna í 12 mánuði eftir starfslok eða allt til loka ágúst 2007. Stefndi kveðst hafa fallist á að greiða stefnanda laun í samræmi við þessa túlkun stefnanda þótt hann hefði talið að réttur stefnanda hefði átt að takmarkast við 12 mánuði.
Óumdeilt er að stefnandi fékk greidd laun til loka ágúst 2007 en aðilar deila um það hvort stefnandi eigi rétt á greiðslum vegna orlofs sem hann hafi átt inni þegar hann lét af störfum hjá stefnda og hvort hann eigi rétt á greiðslum vegna orlofs vegna þeirra greiðslna sem hann fékk eftir starfslok hans hjá stefnda. Þá er ágreiningur um hvort stefnandi eigi rétt á að fá greiddan símakostnað vegna tímabilsins desember 2006 til loka ágúst 2007.
III
Stefnandi kveður að samkvæmt samkomulagi aðila frá 17. febrúar 2006 beri stefnda að greiða honum laun og launatengd gjöld allt til ágúst 2007 auk orlofs og símakostnað að auki. Stefnandi hafi efnt sínar starfsskyldur og í samkomulaginu komi skýrt fram að greiðslur vegna starfsloka skuli fara fram í samræmi við ráðningarsamning frá 1. maí 2002. Launagreiðslur samkvæmt samkomulaginu hafi verið inntar af hendi en ekki greiðslur vegna áunnins orlofs og símakostnaður.
Samkvæmt 7. gr. ráðningarsamningsins skuli um orlof og orlofsréttindi farið eftir kjarasamningum VR. Í upphafi hafi einnig orðið samkomulag með aðilum um að orlofsréttur stefnanda skyldi miðast við 28 daga á ársgrundvelli eins og fram komi í kafla 4.3 í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins. Samkvæmt fyrirliggjandi yfirliti frá stefnda, varðandi orlofstöku starfsmanna sé 28 daga orlofsréttur stefnanda staðfestur.
Reiknist orlof ofan á umsamin laun eins og kveðið sé á um í orlofslögum nr. 30/1987 hafi ekki þurft að taka það sérstaklega fram í samningi aðila eins og stefndi haldi fram. Í samningi aðila hafi hvergi verið minnst á að áunnið orlof við starfslok eða orlof af launum samkvæmt starfssamningi skyldi falla niður og beri stefnda því að uppfylla lögbundnar skyldur sínar. Þrátt fyrir að stefnandi hafi starfað sem framkvæmdastjóri hjá stefnda verði samkomulag aðila vegna starfsloka hans ekki skýrt með þeim íþyngjandi hætti sem stefndi haldi fram. Orlof skuli samkvæmt orlofslögum reiknast ofan á öll laun og hafi ekki verið samið á annan veg í lögskiptum aðila. Það teljist andstætt gildandi rétti og túlkun samninga að vegna skorts á tilgreiningu lögbundinna réttinda teljist þau hafa takmarkast eða fallið niður, enda hefði stefnandi getað tekið áunna daga vegna fyrri ára út fyrir lok orlofsársins ef ekki hefði komið til uppsagnarinnar.
Þótt starfsmenn stefnda hafi fengið orlof sitt uppgert með því að njóta launa í orlofi breyti það að mati stefnanda ekki þeirri staðreynd, hvernig reikna beri orlofslaun og að við starfslok skuli vinnuveitandi greiða launþega áunnin orlofslaun í samræmi við orlofslög. Stefnandi kveður að vegna mikilla anna á starfstíma sínum hjá stefnda hafi hann ekki nýtt sér rétt sinn til töku orlofs. Við lok ráðningarsamnings og starfslok beri vinnuveitanda að greiða launþega öll áunnin orlofslaun í samræmi við orlofslög.
Eins og gögn málsins beri með sér hafi stefnandi átt inni við uppsögn samnings 19 daga vegna fyrra orlofsárs. Þá hafi hann átt 28 daga orlof vegna ársins 2006 til 2007 og frá maí til ágúst 2007 9,33 daga.
Í 7. gr. ráðningarsamningsins komi fram að auk fastra mánaðarlauna hafi verið umsamið að stefndi greiddi afnotagjöld af heimilis-, NMT- og GSM- símum stefnanda. Hafi stefndi vanefnt þá skyldu sína að greiða stefnanda umsaminn símakostnað samkvæmt ráðningarsamningi, vegna tímabilsins desember 2006 til loka ágúst 2007. Falli símakostnaður stefnanda ótvírætt undir samning aðila og hafi hann verið efndur fram til loka nóvember 2006. Verði ekki séð að hvaða leyti starfssamband aðila eða aðstæður hafi breyst í desember 2006, níu mánuðum eftir starfslok stefnanda, sem réttlætt geti frávik frá umsömdum greiðslum. Stefnandi krefjist því greiðslu símakostnaðar samkvæmt framlögðum reikningum vegna framangreinds tímabils samtals að fjárhæð 141.394 krónur.
Krafa stefnanda sundurliðist því svo:
|
Orlof vegna orlofsársins 2004-2005 18 dagar |
kr. 688.056 |
|
Orlof vegna orlofsársins 2005-2006 1 dagur |
kr. 38.225 |
|
Orlof vegna orlofsársins 2006-2007 28 dagar |
kr. 1.070.309 |
|
Orlof vegna maí til ágúst 2007 9,33 dagar |
kr. 356.768 |
|
Símakostnaður desember 2006 til ágúst 2007 |
kr. 141.394 |
|
Samtals |
kr. 2.294.752 |
Til viðbótar þeim lagarökum sem að framan er getið vísar stefnandi til samningalaga nr. 7/1936, og til meginreglna kröfu- og vinnuréttar. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á því að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur.
IV
Stefndi kveður að við frágang og túlkun starfslokasamnings stefnanda frá 17. febrúar 2006 hafi af hálfu stefnda verið lögð rík áhersla á að hlutur stefnanda væri gerður eins góður og nokkur kostur hafi verið á. Hafi stefnda verið í mun að gera vel við þennan fyrrverandi starfsmann sinn og virða réttindi hans í hvívetna. Þannig hafi það orðið niðurstaða stefnda að fallast á að greiða stefnanda laun í sex mánaða uppsagnarfresti og að auki laun í eitt ár á einhvers konar biðlaunatíma. Ýtrasta túlkun á ráðningarsamningi aðila frá 1. maí 2002 hefði bersýnilega falið í sér að réttur stefnanda hefði átt að takmarkast við 12 mánaða kröfu en stefndi hafi kosið að bera það ekki fyrir sig heldur fallast á 18 mánaða rétt. Þá hafi stefndi einnig fallist á að greiða stefnanda laun sem nemi 13 mánuðum á ári þannig að í raun hafi stefnandi notið greiðslna vegna starfsloka sinna í nærfellt 20 mánuði án nokkurs vinnuframlags.
Stefndi hafi fyrst á haustmánuðum 2007 frétt af því að stefnandi gerði athugasemdir vegna uppgjörs stefnda við hann og að stefnandi teldi sig eiga kröfur á stefnda meðal annars vegna orlofs. Hafi stefnandi ekki komið fram með þessar athugasemdir fyrr en við lok hins ríkulega starfslokatíma.
Varðandi kröfur stefnanda um greiðslu orlofs vegna orlofsársins 2004-2005 þá telur stefndi að engin gögn séu aðgengileg í bókum stefnda um meinta orlofsinneign stefnanda vegna þessa tímabils. Þá hafi ekki af hálfu stefnanda verið gerður neinn fyrirvari um uppgjör slíks orlofs við gerð starfslokasamningsins. Sú almenna regla orlofslaga að framasal orlofslauna og flutningur þeirra á milli orlofsára sé óheimill leiði til þess að orlof frá fyrri árum geti starfsmaður ekki flutt með sér óheft milli ára. Þá hafi ekki verið samið um slíka tilfærslu sérstaklega í þessu tilviki. Hafi stefnanda, sem framkvæmdastjóra stefnda, borið að sjá sjálfur um að taka orlof og geti ekki nú löngu síðar borið því við að hann hafi ekki haft aðstöðu eða ráðrúm til þess. Það hafi verið á hans eigin ábyrgð að gæta þessa og hann hafi að auki gerst sekur um verulegt tómlæti með því að gera engan áskilnað um þessa kröfu við gerð starfslokasamningsins og með því að gera ekkert í málinu fyrr en einu og hálfu ári síðar.
Varðandi kröfu stefnanda um orlof orlofsáranna 2005-2008 þá kveðst stefndi líta svo á að almennt verði að telja að starfsmaður ávinni sér ekki orlof á biðlaunatíma, þ.e. á tímabili sem hann njóti launa án vinnuframlags. Greiðslur samkvæmt starfslokasamningi sem ekki séu háðar starfsframlagi séu því ekki laun í skilningi orlofslaga. Helgist þetta fyrst og fremst af því að tilgangur orlofslaga sé að tryggja launafólki frí frá störfum og greiðslur til að mæta launamissi í slíku fríi. Hafi aðstaða stefnanda eftir að hann hafði verið leystur frá störfum bersýnilega ekki verið þannig að þessi sjónarmið ættu við. Þá sé það að auki svo að starfsmenn stefnda fái orlof sitt uppgert með því að njóta fastra launa í orlofi án vinnuframlags. Þeir fái ekki orlof sitt uppgert með sérstökum aukagreiðslum. Þetta sé raunar sú almenna regla sem gildi í framkvæmd hérlendis. Það verði því að teljast fráleitt að stefnandi fái, auk launa fyrir 13 mánuði á ári án vinnuframlags á því tímabili, sérstaklega greitt fyrir orlofsrétt. Slíkt myndi fela í sér að hann fengi meira greitt en verið hefði ef hann hefði sinnt vinnuskyldu á sama tímabili. Feli slík krafa í raun í sér kröfu um lengingu á umsömdum starfslokatíma og feli sú niðurstaða í sér að stefnandi verði þannig betur settur en hann hefði verið ef hann hefði verið í vinnu og það sé auðvitað óhugsandi.
Að því er varðar kröfu stefnanda um greiðslu vegna símakostnaðar sé það að segja að þegar stefndi hafi orðið þess áskynja að slíkar greiðslur væru inntar af hendi, löngu eftir að stefnandi hafði verið losaður undan starfsskyldum, hafi stefndi stöðvað þær. Ástæðan sé sú að enginn slíkur kostnaður vegna starfa í þágu stefnda hafi fallið lengur á stefnanda enda hafi hann notið launa án vinnuframlags. Kröfur um endurgreiðslu kostnaðar af rækslu starfans eigi því eðli málsins samkvæmt ekki við. Sé krafa stefnanda að þessu leyti krafa um aukalega launagreiðslu sem hann hafi ekki átt rétt á.
Stefndi vísar til almennra reglna vinnuréttar, skaðabótaréttar og til orlofslaga nr. 30/1987 varðandi kröfur sínar. Hvað snertir málskostnaðarkröfu vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála
V
Aðilar máls þessa gerðu með sér samkomulag 17. febrúar 2006 um starfslok stefnanda hjá stefnda. Var stefnanda með samkomulaginu formlega sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri hjá stefnda og féllu starfsskyldur hans niður frá og með þeim degi fyrir utan það að hann skyldi vera stjórn og nýjum framkvæmdastjóra innan handar vegna frágangs og ýmissa mála. Í 2. gr. samkomulagsins segir að varðandi starfslok stefnanda sé vísað til ráðningarsamnings hans frá 1. maí 2002. Í 7. gr. ráðningarsamningsins er fjallað um ráðningarkjör stefnanda. Þar segir meðal annars að mánaðarlaun hans séu 500.000 krónur sem greidd séu 13 sinnum á ári og að greiðsla fyrir vinnu utan reglulegs vinnutíma sé innifalin í mánaðarlaunum. Aðrar greiðslur svo sem orlofsuppbót og desemberuppbót greiðist ekki. Þá segir að um orlof, veikindi og slys fari eftir kjarasamningi VR og að stefndi greiði afnotagjöld af heimilis-, NMT- og GSM- símum stefnanda. Þá er tekið fram að laun og önnur kjör skuli breytast samkvæmt kjarasamningi VR, en þó skuli þau endurskoðuð árlega ef ástæða þyki til. Í 8. gr. samningsins segir að önnur atriði sem ekki sé fjallað um sérstaklega í samningnum taki mið af kjarasamningi VR.
Í málinu er ekki tölulegur ágreiningur og er óumdeilt að stefndi hefur greitt stefnanda mánaðarlegar launagreiðslur frá starfslokum hans í febrúar 2006 til loka ágúst 2007. Snýst ágreiningur aðila því eingöngu um greiðslu orlofs og símakostnaðar.
Stefnandi byggir á því að þegar hann lét af störfum hjá stefnda hafi hann átt inni 19 daga vegna fyrra orlofsárs og hefur hann því til stuðnings lagt fram yfirlit um orlofstöku starfsmanna stefnda frá árinu 2002 til 2006 þar sem fram kemur meðal annars að stefnandi átti 18 daga í óteknu orlofi vegna orlofsársins 2004-2005 og 1 dag vegna orlofsársins 2005-2006. Á yfirliti þessu kemur einnig fram að stefnandi átti rétt á 28 daga orlofsrétti á ársgrundvelli. Stefnandi hélt utan um orlofstöku starfsmanna stefnda og er fyrirliggjandi yfirlit skráning hans á orlofstöku hvers starfsmanns, meðal annars hans sjálfs. Þessu yfirliti hefur ekki verið hnekkt með neinum gögnum, en fram kom hjá vitninu Sigurði Ólafssyni, sem tók við af stefnanda sem framkvæmdastjóri stefnda, að hann kannaðist við að slíkt yfirlit hefði verið til í gögnum stefnda. Þykir stefnandi hafa sýnt fram á það að hann átti inni umrædda 19 daga vegna orlofsáranna frá 2004-2006 þegar hann hætti störfum. Þá er ekki ágreiningur um að orlofsréttur stefnanda var 28 dagar á ári.
Samkvæmt 8. gr. laga nr. 30/1987 um orlof skal vinnuveitandi við lok ráðningartímans greiða launþeganum öll áunnin orlofslaun hans. Þurfti stefnandi ekki að gera sérstakan áskilnað um kröfu sína vegna áunnins orlofs í samkomulagi aðila enda er í því samkomulagi eingöngu vísað til ráðningarsamnings aðila varðandi starfslokin. Verður ekki fallist á að með því að hafa ekki gert sérstakan áskilnað um kröfuna og því að hafa ekki sett fram kröfuna fyrr en í nóvember 2007 hafi stefnandi gerst sekur um tómlæti sem leiði til þess að hann hafi fyrirgert kröfunni, en krafan var sett fram í byrjun nóvember 2007, aðeins um tveim mánuðum eftir síðustu greiðslu stefnda á grundvelli samkomulags aðila.
Samkvæmt 13. gr. orlofslaganna er framsal orlofslauna og flutningur þeirra milli orlofsára óheimilt. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna rýra lögin ekki víðtækari eða hagkvæmari orlofsrétt samkvæmt öðrum lögum, samningum eða venjum. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. orlofslaga er orlofsárið frá 1. maí til 30. apríl og vinna menn sér inn rétt til orlofs á næsta orlofsári með vinnuframlagi á orlofsárinu. Með hliðsjón af kröfugerð stefnanda og því sem að framan er rakið er ljóst að stefnandi átti ótekna 18 orlofsdaga vegna orlofsársins 2004-2005 þegar hann lét af störfum og verður ekki séð að hann hafi haft heimild til að flytja þessi réttindi milli ára. Hefur stefnandi ekki lagt fram haldbær gögn um að annir hafi komið í veg fyrir töku hans til orlofs á því orlofsári sem hér um ræðir eða að hann hafi samið um það við stefnda að flytja orlofið milli ára. Verður stefnandi að bera hallann af því og því verður þegar af þeirri ástæðu ekki tekin til greina krafa hans um greiðslu orlofs vegna orlofsársins 2004-2005 að fjárhæð 688.056 krónur. Þessi sjónarmið eiga hins vegar ekki við um orlof vegna orlofsársins 2005-2006 þar sem það orlofsár var ekki liðið þegar stefnandi lét af störfum í febrúar 2006.
Stefnandi krefst þess einnig að fá greitt orlof vegna orlofsársins 2006-2007 og frá maí 2007 til ágúst 2007. Í samningi aðila er eins og áður greinir vísað til ráðningarsamnings varðandi starfslok stefnanda og í ráðningarsamningi er vísað til kjarasamnings VR hvað snertir orlof. Eins og greinir í 1. gr. orlofslaganna eiga allir þeir sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða öðrum verðmætum, rétt á orlofi og orlofslaunum samkvæmt ákvæðum laganna. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. er samningur um minni rétt til handa launþegum en lögin ákveði ógildur.
Eins og greinir í ráðningarsamningi var gagnkvæmur uppsagnarfrestur sex mánuðir og ef uppsögn væri ekki vegna brota á ákvæðum samningsins skyldi stefnandi fá full laun með fríðindum í 12 mánuði eftir að hann lyki störfum. Þótt aðilum beri ekki allskostar saman um hvað í þessu felist, varð niðurstaðan sú að stefndi féllst á að greiða stefnanda, á grundvelli samningsins, laun í 18 mánuði alls frá og með næstu mánaðarmótum eftir uppsögn, eða 1. mars 2006, og gerði stefndi ekki kröfu um vinnuframlag stefnanda á uppsagnarfrestinum. Er túlkun samningsins að þessu leyti ekki hér til umfjöllunar, en vangaveltur stefnda um að greiðslur þessar séu ekki laun í skilningi orlofslaga eru engum rökum studdar og jafnvel þótt tilgangur orlofslaganna kunni að vera sá að tryggja launafólki frí frá störfum verður ekki séð að það takmarki rétt stefnanda til greiðslu orlofs á þessar launagreiðslur í samræmi við lög og kjarasamninga. Stefndi sagði stefnanda upp með samningsbundnum sex mánaða fyrirvara og óskaði ekki eftir vinnuframlagi hans heldur sömdu aðilar um að starfsskyldur stefnanda félli niður þegar við uppsögn. Þá bar stefnda samkvæmt ráðningarsamningi að greiða stefnanda full laun með fríðindum í tólf mánuði eftir að hann lauk störfum. Þótt almennt sé það svo að starfsmenn stefnda fái orlof sitt uppgert með því að njóta fastra launa í orlofi án vinnuframlags og fái ekki orlof sitt uppgert með sérstökum aukagreiðslum verður að gera ráð fyrir að slíkur háttur sé hafður á þegar starfsmenn eru í vinnu. Önnur sjónarmið gilda þegar uppsögn hefur átt sér stað og samið hefur verið um starfslokin. Hafi orlof átt að vera innifalið í greiðslum þeim sem stefnandi fékk eftir starfslokin hefði þurft að taka það sérstaklega fram í samningi aðila. Þar sem það var ekki gert verður stefndi að bera hallann af því. Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður krafa stefnanda um greiðslu orlofs vegna orlofsáranna 2005-2006, 2006-2007 og orlofs vegna maí til ágúst 2007 tekin til greina.
Í áðurgreindum ráðningarsamningi aðila er ákvæði um að stefndi greiði afnotagjöld af símum stefnanda. Í samningnum er ekkert fjallað um að þær greiðslur séu vegna kostnaðar í tengslum við starf stefnanda hjá stefnda. Verður ekki annað séð en að hér sé um að ræða fríðindi sem stefnandi átti rétt á að fá greidd samkvæmt ráðningarsamningi, sbr. 2. gr. hans um greiðslu fullra launa með fríðindum á hinu 12 mánaða tímabili sem tók við eftir sex mánaða uppsagnarfrestinn. Hefði þurft að semja um það sérstaklega ef þessi kostnaður átti ekki að greiðast og verður krafa þessi því tekin til greina.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.606.696 krónur (38.225+1.070.309+356.768+141.394) með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði en dráttarvaxtakrafa stefnanda hefur ekki sætt sérstökum andmælum.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.
Af hálfu stefnanda flutti mál þetta, Guðmundur B. Ólafsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Ástráður Haraldsson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Vörður tryggingar hf., greiði stefnanda, Einari Baldvinssyni, 1.606.696 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 38.225 krónum frá 1. maí 2006 til 20. janúar 2007, af 58.149 krónum frá þeim degi til 20. febrúar 2007, af 79.529 krónum frá þeim degi til 20. mars 2007, af 94.174 krónum frá þeim degi til 20. apríl 2007, af 106.872 krónum frá þeim degi til 1. maí 2007, af 1.121.603 krónum frá þeim degi til 1. júní 2007, af 1.223.863 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2007, af 1.321.097 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2007, af 1.427.574 krónum frá þeim degi til 1. september 2007 og af 1.606.696 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.