Hæstiréttur íslands

Mál nr. 775/2016

ET sjón ehf. (Eiríkur Elís Þorláksson hrl.)
gegn
Eignarhaldsfélaginu Þorgerði ehf. (Óttar Pálsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann
  • Lögvarðir hagsmunir

Reifun

E kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að hafna kröfu E um að lagt yrði lögbann m.a. við því að Þ ráðstafaði hlut sínum í Ö ehf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að Þ hefði þegar ráðstafað hlut sínum í félaginu og því væri um garð gengin sú athöfn sem girða ætti fyrir með lögbanninu. Athöfnin hefði ekki verið byrjuð eða yfirvofandi og væri því ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. nóvember 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 14. október sama ár um að hafna kröfu sóknaraðila um að lagt yrði lögbann meðal annars við því að varnaraðili ráðstafaði hlut sínum í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að sýslumanni verði gert að leggja á lögbannið. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði er sóknaraðili einn af þremur hluthöfum í varnaraðila með 28,24% eignarhluta. Eina eign varnaraðila mun vera 45% hlutur í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. Hluthafar í varnaraðila gerðu með sér samkomulag 20. október 2010 en þar kom meðal annars fram að þeir væru sammála um að meiriháttar ákvarðanir um félagið og fjárfestingu þess í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. yrðu teknar með samþykki allra hluthafa, þar með talið ákvarðarnir um sölu á hlut í síðastgreindu félagi.

Með svonefndu ráðningarbréfi 7. september 2015 fól varnaraðili Virðingu hf. meðal annars að bjóða til sölu allt hlutafé félagsins í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. Um vorið 2016 komst rekspölur á söluna og munu nokkrir hafa sýnt kaupum á hlutnum áhuga. Á stjórnarfundi varnaraðila 19. september 2016 var fjallað um fyrirhugaða sölu á hlutnum. Samkvæmt fundargerð samþykkti stjórnin einróma á fundinum að selja hlutinn í samræmi við drög að kaupsamningi sem lágu þar fyrir. Jafnframt var samþykkt að veita Margit Robertet, stjórnarformanni varnaraðila, og Gunnari Sigurðssyni, fjárfestingastjóra hjá Virðingu hf., sitt í hvoru lagi eða sameiginlega fullt og ótakmarkað umboð til að undirrita fyrir hönd varnaraðila kaupsamning um sölu á hlutnum og önnur skjöl vegna hennar.

Með bréfi 13. október 2016 lagði sóknaraðili fram beiðni sína um að sýslumaður legði lögbann við því að fyrrgreind Margit og Gunnar nýttu sér umboðið sem þau höfðu fengið frá varnaraðila á stjórnarfundinum 19. september sama ár til að undirrita kaupsamning um söluna og önnur skjöl sem henni tengdust. Jafnframt var þess krafist að lagt yrði lögbann við því að varnaraðili ráðstafaði hlutnum. Með ákvörðun sýslumanns 14. október 2016 var beiðni um lögbannið hafnað. Sóknaraðili bar undir héraðsdóm 17. sama mánaðar ákvörðun sýslumanns að því er varðar synjun hans um lögbann við því að varnaraðili ráðstafaði hlut sínum í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. Úr því máli var leyst með hinum kærða úrskurði.

Hinn 16. október 2016 var undirritaður samningur milli varnaraðila og tíu kaupenda um sölu á hlut félagsins í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. Af hálfu varnaraðila var samningurinn undirritaður af áðurgreindum Gunnari.

Að kröfu sóknaraðila var haldinn hluthafafundur í varnaraðila 24. nóvember 2016 til að fjalla um tillögu þess efnis að hætt yrði við sölu á hlutnum. Var sú tillaga felld með atkvæðum annarra hluthafa en sóknaraðila.

II

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verður lögbann lagt við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn fyrirsvarsmanns félags, ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum, verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.

Svo sem áður er rakið seldi varnaraðili hlut sinn í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. með kaupsamningi 16. október 2016. Varnaraðili hefur því ráðstafað hlut sínum í félaginu og er þannig um garð gengin sú athöfn sem girða átti fyrir með lögbanninu. Í því tilliti skiptir ekki máli þótt yfirfærsla eignarréttar eftir samningnum sé bundin ýmsum skilyrðum, þar á meðal um greiðslu kaupverðs, enda eiga kaupendur rétt til hins selda að þeim skilyrðum fullnægðum. Samkvæmt þessu er athöfnin ekki byrjuð eða yfirvofandi heldur hefur hún nú þegar komið á ástandi sem ekki er hægt er að stöðva með lögbanni. Þegar af þeirri ástæðu er ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 fyrir lögbanni og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, ET sjón ehf., greiði varnaraðila, Eignarhaldsfélaginu Þorgerði ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2016.

I

Mál þetta, sem barst dóminum 17. október 2016, var tekið til úrskurðar 15. nóvember s.á. að loknum munnlegum málflutningi aðila.

Sóknaraðili er ET sjón ehf., Fjarðarási 8, Reykjavík.

Varnaraðili er Eignarhaldsfélagið Þorgerður ehf., Borgartúni 29, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 14. október 2016, um að synja lögbanni við lögbannsbeiðni sóknaraðila, dagsettri 13. sama mánaðar, verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann við því að varnaraðili ráðstafi eignarhlut varnaraðila í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. til þriðju aðila. Þá er krafist málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði framangreind ákvörðun sýslumanns. Þá gerir varnaraðili kröfu um málskostnað.

Sóknaraðili höfðaði málið upphaflega á hendur framangreindum varnaraðila og Gunnari Sigurðssyni og Margit Robertet, en við þingfestingu málsins 21. október 2016, féll sóknaraðili frá kröfum á hendur þeim tveimur síðarnefndu.

II

Málavextir

Með beiðni til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 13. október 2016, krafðist sóknaraðili þess að lagt yrði lögbann við því að framangreind Margit og Gunnar hagnýttu sér, sameiginlega eða sitt í hvoru lagi, rétt samkvæmt umboði, sem þeim var veitt af meirihluta stjórnar varnaraðila á stjórnarfundi 19. september 2016, til að undirrita fyrir hans hönd kaupsamning um sölu á hlutum hans í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf., (hér eftir Ölgerðinni) ásamt öllum öðrum skjölum og gögnum sem tengdust kaupsamningnum og fyrirhugaðri sölu varnaraðila á hlutunum. Þá var þess jafnframt krafist að lagt yrði lögbann við því að varnaraðili ráðstafaði eignarhlut félagsins í Ölgerðinni til þriðja aðila.

Í lögbannsbeiðni sóknaraðila kemur fram að eigendur hlutafjár í varnaraðila séu Auður 1 fagfjárfestasjóður slf., eigandi 62,35% hluta, sóknaraðili málsins, eigandi 28,24% hluta og Ingibjörg S. Ásgeirsdóttir, eigandi 9,41% hluta. Hluthafinn Auður 1 fagfjárfestasjóður slf. sé rekinn af Virðingu hf. Eini eigandi sóknaraðila málsins, ET sjónar ehf., sé Eiríkur I. Þorgeirsson. Eina eign varnaraðila sé 45% hlutur í Ölgerðinni. Framangreindir hluthafar varnaraðila hafi gert með sér hluthafasamkomulag 20. október 2010 um kaup á hlutum í Ölgerðinni og þar komi fram að hið fyrrnefnda félag sé sérstaklega stofnað í því skyni að halda utan um eignarhlutinn í Ölgerðinni. Í 4. kafla samkomulagsins komi fram að meiri háttar ákvarðanir um eignarhaldsfélagið og fjárfestingu þess í Ölgerðinni verði teknar með samþykki allra hluthafa. Þá sé þess getið að til meiri háttar ákvarðana teljist ákvarðanir um sölu á hlut eignarhaldsfélagsins í Ölgerðinni. Hlutur varnaraðila í Ölgerðinnihafi verið í sölumeðferð í rúmt ár. Hafi verið undirritað ráðningarbréf við Virðingu hf., 7. september 2015, þar sem fram komi að fyrirtækið taki að sér að bjóða til sölu allt hlutafé Ölgerðarinnar fyrir hönd hluthafa þess í lokuðu ferli eða almennu útboði í tengslum við mögulega skráningu félagsins í Kauphöll Íslands. Í júní 2016 hafi fyrirsvarsmanni sóknaraðila verið óformlega gerð grein fyrir gangi viðræðna. Á stjórnarfundi 19. september 2016, sem sóknaraðili dregur í efa að hafi verið lögmætur, hafi verið kynnt drög að kaupsamningi vegna fyrirhugaðrar sölu félagsins á eignarhlut þess í Ölgerðinni, auk þess sem fjölmörg önnur skjöl hafi verið lögð fyrir fundinn. Gerð hafi verið grein fyrir því að samningaviðræður væru komnar á lokastig og markmiðið væri að undirrita kaupsamning 23. september 2016. Fyrirsvarsmaður sóknaraðila, sem sitji í stjórn varnaraðila, hafi á fundinum látið í ljós þá afstöðu sína að hann teldi sér ekki fært að greiða atkvæði með framangreindum tillögum og að málefnið ætti undir hluthafafund. Hafi hann því neitað að undirrita fundargerðina.

 Með ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 14. október 2016 var kröfu sóknaraðila um lögbann hafnað á þeim grundvelli að skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., væru ekki uppfyllt. Hinn 17. sama mánaðar tilkynnti lögmaður sýslumanni að hann hygðist bera synjun hans undir héraðsdóm og sama dag beindi hann kröfu til dómsins um að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi.

III

Málsástæður sóknaraðila

         Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. sé fullnægt. Krafa sóknaraðila lúti að því að lögbann verði lagt við því að varnaraðili ráðstafi eignarhlut félagsins í Ölgerðinni til þriðju aðila en sú aðgerð sé yfirvofandi og standi ekki ágreiningur um það.

                Sóknaraðili kveðst ósammála varnaraðila og meirihluta stjórnarmanna félagsins um það hvernig standa beri að sölu hlutabréfa þess í Ölgerðinni. Málefnið eigi ótvírætt undir hluthafafund, í fyrsta lagi vegna þess að lög áskilji það og í öðru lagi vegna þess að hluthafasamkomulag kveði á um það. Við mat á því hvort lög standi til þess að bera eigi málefnið undir hluthafafund verði meðal annars að líta til þess að í gildi sé hluthafasamkomulag á milli allra hluthafa sem kveði meðal annars á um að ákvarðanir um sölu á hlut varnaraðila í Ölgerðinni skuli teknar með samþykki allra hluthafa, sbr. ákvæði 4.2 (a) í hluthafasamkomulaginu. Óumdeilt sé að eini tilgangur félags varnaraðila sé að halda utan um hlut þess í Ölgerðinni. Samkvæmt samþykktum félagsins þurfi samþykki allra hluthafa til að breyta tilgangi félagsins. Þetta styðji þá skyldu að halda skuli hluthafafund um söluna. Þá hafi stjórn varnaraðila borið á grundvelli trúnaðarskyldu sinnar gagnvart félaginu og hluthöfum þess að beina málefninu til hluthafafundar,

         Sóknaraðili telur að stjórnarfundurinn 19. september 2016 breyti því ekki að halda eigi hluthafafund um málefnið. Jafnvel þótt litið væri svo á að lögmætur stjórnarfundur hafi farið fram þennan dag þá standi það ekki í vegi fyrir því að taka eigi eða megi málefnið fyrir á hluthafafundi eins og áskilið sé. Sóknaraðili hafi farið fram á hluthafafund með bréfi, dagsettu 12. október 2016, þegar ljóst hafi verið að aðilar myndu ekki ná saman um lausn málsins.

         Sóknaraðili vísar til þess að honum hafi ekki verið kunnugt um að taka ætti endanlega ákvörðun um sölu á eignarhlut í Ölgerðinni á nefndum fundi og telur að boðun til hans hafi verið ófullnægjandi. Hafi fundurinn því ekki skuldbundið félagið með réttum hætti. Þá hafi fundurinn verið haldinn margvíslegum annmörkum, m.a. hafi framlögð gögn verið ófullnægjandi. Um endanlegan kaupsamning hafi því aldrei verið fjallað á stjórnarfundi. Telur sóknaraðili þetta brjóta í bága við 47. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Enn fremur hafi verið fyrir hendi vanhæfisaðstæður um að taka ákvörðun um sölu, sbr. 48. gr. sömu laga. Einn kaupenda sé ISA ehf., sem sé félag í einkaeigu Ingibjargar S. Ásgeirsdóttur, stjórnarmanns hjá varnaraðila, en meirihluti náist ekki án aðkomu hennar. Þá fái ekki staðist að taka mikils háttar ákvörðun með skilyrðum með þeim hætti, eins og gert hafi verið á fundinum, að vald stjórnarmanna sé raunar framselt þriðja aðila, starfsmanns Virðingar, sem hafi hagsmuni af því að af kaupsamningi verði vegna árangurstengdra þóknana. Slík ráðstöfun feli jafnframt í sér brot gegn 48. gr. laga nr. 138/1994.

         Sóknaraðili telur að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Hann sé eigandi 28,24% hlutafjár í varnaraðila sem eigi 45% hlut í Ölgerðinni. Fjárhagslegir hagsmunir sóknaraðila, sem sé í eigu eins manns, séu því gríðarlegir. Líta verði til þeirrar staðreyndar að umrædd eign sé varin af 72. gr. stjórnarskrár. Afstaða sóknaraðila sé sú að ekki sé rétt að selja hlutinn í Ölgerðinni. Hann vilji því að haldið verði á hlutnum. Skaðabætur komi ekki í staðinn fyrir þá hagsmuni.

                Sóknaraðili telur enn fremur að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna sóknaraðila tryggi ekki nægilega hagsmuni hans, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Varnaraðili beri  sönnunarbyrðina fyrir því. Réttindi sóknaraðila fari forgörðum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.

                Sóknaraðili mótmælir því að stórfelldur munur sé á hagsmunum aðila þannig að hagsmunir sóknaraðila af því að fá lögbann í samræmi við kröfur sínar vegi mun minna en hagsmunir varnaraðila af því að salan gangi í gegn. Sönnunarbyrði um þetta hvíli á varnaraðila. Þá eigi ákvæðið ekki við um hagsmuni þriðja manns, þ.e. annarra en aðila máls þessa. Ákvæðið eigi aðeins við um „gerðarþola“ og „gerðarbeiðanda“.

         Sóknaraðili ekki ætla að koma í veg fyrir að eign í Ölgerðinni skipti um hendur. Vilji hluthafar í varnaraðila framselja réttindi sín í Ölgerðinni sé þeim í lófa lagið að selja hlut sinn í honum og losa þar um hagsmuni í Ölgerðinni. Um þetta gildi almennar reglur félagaréttar, samþykktir varnaraðila og enn fremur ákvæði 5.-7. gr. hluthafasamkomulagsins, sem feli í sér réttindi fyrir sóknaraðila og skyldu Auðar I. fagfjárfestasjóðs og Ingibjargar til að selja hlut sinn í varnaraðila (þar sem sóknaraðili nyti þá m.a. forkaupsréttar). Með því að kröfur sóknaraðila nái fram að ganga í málinu sé því í engu verið að skerða hagsmuni varnaraðila og annarra hluthafa félagsins. Eingöngu yrði hindrað að sóknaraðili væri þvingaður til að láta af hendi hagsmuni sína í Ölgerðinni, sem hann eigi í gegnum eignarhlut sinn í varnaraðila, á verði og með skilmálum sem hann sætti sig ekki við.

         Sóknaraðili kveðst hafa leitast við að leysa ágreining aðila á framangreindan hátt og með því að leggja til að aðeins hluti af eignarhlut varnaraðila í Ölgerðinni verði seldur. Þá verði ráðið af ráðningarbréfinu til Virðingar hf. og öðrum gögnum í aðdraganda fyrirhugaðrar sölu að sá möguleiki hafi ávallt verið fyrir hendi, sem eigi við endranær, að sölumeðferð lyki án þess að til endanlegrar sölu kæmi.

         Aðilar séu sammála um eitt, að í raun sé stórfelldur munur á hagsmunum aðila. Sóknaraðili hafi að stórum hluta meiri hagsmuni af málinu en aðrir sem að því komi en ekki öfugt. Nái kröfur hans fram að ganga hafi aðrir hluthafar varnaraðila tækifæri til þess að selja hagsmuni sína í félaginu og þar með hlutdeild sína í Ölgerðinni, kjósi þeir svo. Verði kröfum sóknaraðila hins vegar hafnað séu hagsmunir sóknaraðila skertir með óafturkræfum hætti.

Málsástæður varnaraðila

         Af hálfu varnaraðila er á því byggt að sönnunarbyrðin um að skilyrði greinarinnar séu uppfyllt hvíli á sóknaraðila og eigi það við um öll skilyrðin. Þar sem skilyrðin séu ekki uppfyllt beri að hafna kröfum sóknaraðila.

         Varnaraðili hafnar því að ráðstöfun hluta í Ölgerðinni heyri lögum samkvæmt annars vegar undir hluthafafund varnaraðila og hins vegar undir samkomulag hluthafa varnaraðila. Vísar hann til þess að samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga nr. 138/1994 fari hluthafafundur með æðsta vald í málefnum einkahlutafélags samkvæmt því sem lög og samþykktir þess ákveði. Félagsstjórn fari hins vegar með málefni félagsins á milli hluthafafunda og sjái til þess að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. Félagsstjórnin marki þannig stefnu félagsins, hafi eftirlit með því að henni sé fylgt og taki ákvarðanir um ráðstafanir sem séu óvenjulegar eða mikils háttar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Samkvæmt samþykktum varnaraðila stýri stjórn félagsins öllum málefnum félagsins á milli hluthafafunda og gæti hagsmuna þess gagnvart þriðja manni, sbr. 2. mgr. 16. gr. Í samþykktunum sé engin krafa gerð um að ákvarðanir eins og sú sem hér um ræði heyri undir hluthafafund. Ákvörðun um söluna, sem vissulega sé mikils háttar, heyri því undir stjórn félagsins. Sóknaraðili vísar m.a. í þessu samhengi til þess að útilokað sé að þeirri ráðstöfun sem um sé að tefla verði jafnað við að breyta tilgangi varnaraðila. Þvert á móti sé sala fullkomlega í samræmi við tilgang varnaraðila, sem sé einkahlutafélag sem beinlínis hafi verið stofnað til að halda utan um tímabundna fjárfestingu í Ölgerðinni. Þá séu trúnaðarskyldur stjórnarmanna varnaraðila við félagið sem slíkt en ekki einstaka hluthafa þess. Hvað sem öllu öðru líði hafi sóknaraðili ekki gert líklegt að ákvörðun hluthafafundar hefði nokkru breytt, eða muni nokkru breyta, um þá ákvörðun sem tekin var. Fyrir liggi að 72% hluthafa varnaraðila hafi verið og séu því fylgjandi að selja hlut félagsins í Ölgerðinni á þeim forsendum sem gert hafi verið.

         Varnaraðili hafnar því að stjórnarfundurinn 19. september 2016 hafi verið haldinn annmörkum. Til fundarins hafi verið boðað með tölvupósti stjórnarformanns varnaraðila til annarra stjórnarmanna hinn 4. ágúst 2016. Stjórnarmönnum hafi ekki getað dulist efni fundarins, enda sérstaklega undirstrikað í fundarboðinu að styttast færi í undirritun kaupsamnings vegna sölunnar á eignarhlut varnaraðila í Ölgerðinni.  Þá hafnar varnaraðili þeim fullyrðingum sóknaraðila að framlögð gögn á fundinum hafi verið ófullnægjandi og að látið sé að því liggja að fulltrúi sóknaraðila í stjórn varnaraðila hafi af þeim sökum ekki haft tök á því að fjalla um málið. Gögn sem hafi legið fyrir á fundinum hafi verið fyllilega í samræmi við tilefni fundarins og þau mál sem þar komu til umræðu. Sú staðreynd að þau hafi ekki verið send stjórnarmönnum fyrir fundinn breyti hér engu, enda engar slíkar kröfur gerðar að lögum eða samþykktum félagsins. Þá hafi verið hægur leikur fyrir fulltrúa sóknaraðila í stjórn varnaraðila að óska frekari gagna og upplýsinga fyrir fundinn eða á honum, teldi hann á því þörf en það hafi hann ekki gert.

         Varnaraðili hafnar því að Ingibjörg S. Ásgeirsdóttir, stjórnarmaður í varnaraðila, hafi með vísan til 48. gr. laga nr. 138/1994 verið vanhæf þegar ákvörðun var tekin um sölu á eignarhlut varnaraðila í Ölgerðinni. Þessi málsástæða sé enn fremur of seint fram komin, þar sem sóknaraðili hafi ekki byggt á þessu við meðferð málsins hjá sýslumanni. Í málatilbúnaði sóknaraðila sé horft fram hjá því að vanhæfisreglur 48. gr. eigi aðeins við um samningsgerð milli félagsins og stjórnarmanns „ef hann hefur þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins“.

         Varnaraðili hafnar því að óheimilt hafi verið að binda þær ákvarðanir sem teknar hafi verið á fundinum skilyrði með þeim hætti sem gert var. Í framkvæmd sé algengt að ákvarðanir félagsstjórna séu bundnar skilyrðum. Hið sama eigi við þegar einstaklingum séu veitt umboð til að framkvæma afmarkaðar og nánar tilgreindar ráðstafanir fyrir hönd félaga. Ekki verði séð að lög eða aðrar heimildir standi slíku fyrirkomulagi í vegi. Þá mótmælir varnaraðili því að sú ákvörðun að veita nafngreindum aðilum umboð til að undirrita skjöl fyrir hönd varnaraðila í tengslum við söluna fari í bága við 48. gr. laga nr. 138/1994.

         Varnaraðili telur að áskilnaður um samþykki hluthafafundar verði ekki leiddur af ákvæðum hluthafasamkomulagsins. Aðilar að því séu auk sóknaraðila, Auður 1 fagfjárfestasjóður og Ingibjörg S. Ásgeirsdóttir. Óumdeilt sé hins vegar að varnaraðili sé ekki aðili að samkomulaginu en það mæli hvorki fyrir um réttindi varnaraðila né leggi það honum skyldur á herðar. Þegar af þessum sökum geti sóknaraðili ekki talið til réttar gagnvart varnaraðila með vísan til ákvæða samkomulagsins.   Varnaraðili bendir á að það sé vissulega rétt að hluthafar varnaraðila hafi tímabundið verið reiðubúnir að binda sig við samþykki allra fyrir sölu hlutarins í Ölgerðinni, sbr. grein 4.1 og 9.1 í hluthafasamkomulaginu, og jafnframt tilvísun til „fjárfestingartímans“ í grein 1.1. Á þessu hafi þó verið mikilvægar undantekningar og takmarkanir. Innan fimm ára tímabilsins skyldu samningsaðilar þannig „vera reiðubúnir að [...] að samþykkja sölu á hlut eignarhaldsfélagsins í Ölgerðinni fyrr, ef markaðsaðstæður og árangur fjárfestingarinnar í félaginu leyfa“, sbr. grein 9.1. Eftir lok fimm ára tímabilsins skyldi svo „hver samningsaðila eiga rétt á að gera kröfu um sölu á fjárfestingafélaginu eða fjárfestingu þess í Ölgerðinni“, sbr. grein 9.2. Ákvæði 4. gr. annars vegar og 9. gr. hins vegar séu ósamrýmanleg ef þau eru bæði túlkuð einangrað og samkvæmt orðanna hljóðan. Heimild hluthafa til að krefjast sölu að ákveðnum tíma liðnum sé þýðingarlaus með öllu sé salan eftir sem áður háð samþykki þess sem ekki vilji selja. Óhjákvæmilegt sé því að túlka ákvæði 4. gr. hluthafasamkomulagsins til samræmis við ákvæði 9. gr. en að mati varnaraðila verði að telja að síðarnefnda greinin hafi að geyma sérreglu gagnvart hinni fyrri.            Varnaraðili telur að engin réttindi sóknaraðila muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum og séu lagaskilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1993 hvað þetta varðar því ekki uppfyllt. Þá séu sjónarmið sóknaraðila, hvað varðar 72. gr. stjórnarskrárinnar, á misskilningi byggð. Sú afstaða sóknaraðila að „ekki sé rétt að selja hlutinn í Ölgerðinni“ sé alls ófullnægjandi þegar komi að því að sýna fram á að nefnt lagaskilyrði séu uppfyllt, enda lúti sú ráðstöfun að eign sem ekki sé hans. Sóknaraðili hafi ekki gert líklegt að sú ráðstöfun sem hann krefjist að lögbann verði lagt við geri að verkum að hlutur hans í varnaraðila muni fara forgörðum eða verða fyrir spjöllum. Í málatilbúnaði sóknaraðila sé engin tilraun gerð til að sýna fram á þetta atriði, svo sem með því að leiða líkur að því að mistekist hafi að fá hæsta mögulega verð fyrir eignarhlutinn í Ölgerðinni og/eða að skilmálar sölunnar séu að öðru leyti ófullnægjandi.  

         Varnaraðili telur enn fremur að skaðabætur muni tryggja hagsmuni sóknaraðila, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 30/1991. Varnaraðili áréttar að varnaraðili sé einkahlutafélag sem rekið sé í fjárhagslegum tilgangi. Hagsmunir sóknaraðila af eignarhlut sínum í varnaraðila séu því fjárhagslegir. Krafa sóknaraðila miði að því að koma í veg fyrir ráðstöfun varnaraðila á eignarhlut sínum í öðru félagi, Ölgerðinni. Ljóst sé, að mati varnaraðila, að sóknaraðili eigi hagsmuna að gæta af því að eignum varnaraðila sé ráðstafað á forsvaranlegan hátt, enda gæti óforsvaranleg ráðstöfun, til dæmis sala eignar fyrir lægra endurgjald en sem nemi gangvirði hennar, rýrt verðmæti eignarhlutar sóknaraðila í varnaraðila. Slíkt tjón yrði hins vegar að fullu bætt með skaðabótum eftir almennum reglum.

         Varnaraðili vísar til þess að stórfelldur munur sé á hagsmunum sóknaraðila annars vegar og varnaraðila og þriðju manna hins vegar og verði lögbann því ekki lagt á, sbr. 2. tölul. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 30/1991. Tilgangur ákvæðisins sé að koma í veg fyrir að gerðarbeiðandi stöðvi athöfn vegna lítilvægra hagsmuna í samanburði við hagsmuni gerðarþola og/eða þriðja manns. Við samanburð á hagsmunum sóknaraðila annars vegar og varnaraðila hins vegar beri að líta til þess að sóknaraðili sé aðeins eigandi 28% hlutfjár í varnaraðila. Þar sem eignarhlutur varnaraðila í Ölgerðinni sé eina eign félagsins sýnist nærtækt að ætla að verðmæti eignarhlutar sóknaraðila nemi u.þ.b. 28% af verðmæti þeirrar eignar sem varnaraðili hyggist ráðstafa. Af þessu leiði að verulegur munur sé á fjárhagslegum hagsmunum sóknaraðila annars vegar og fjárhagslegum hagsmunum varnaraðila hins vegar. Loks sé óhjákvæmilegt við hagsmunamat að taka tillit til hagsmuna annarra seljenda en varnaraðila svo og til allra kaupenda að hlutum í Ölgerðinni af því að viðskiptin nái fram að ganga. Lögbannsbeiðni sóknaraðila miði að því að koma í veg fyrir sölu á hlutafé á verði og með skilmálum sem endurspegli samkomulag sem náðst hafi að undangengnu margra mánaða söluferli og samningaviðræðum seljenda, þ. á m. varnaraðila, við tilvonandi kaupendur. Seljendur hafi notið sérfræðiráðgjafar við hvert skref viðskiptanna. Engar vísbendingar séu um að söluverð eignarinnar endurspegli ekki gangvirði hennar eða að skilmálar viðskiptanna séu óhóflega íþyngjandi gagnvart seljendum. Nánast útilokað sé sóknaraðili verði fyrir tjóni við það að viðskiptin nái fram að ganga. Í þessu samhengi bendir sóknaraðili enn fremur á að undirliggjandi hagsmunir í þeim viðskiptum sem sóknaraðili vilji fyrirbyggja nemi milljörðum króna. Fyrirsjáanlegt tjón varnaraðila, nái gerðin fram að ganga, stafaði þannig bæði af töpuðum hagnaði varnaraðila og annarra seljenda eftir atvikum, sem innleystur yrði við söluna, svo og öllum þeim kostnaði sem lagt hafi verið út fyrir vegna söluferlisins. Þá sé ljóst að verði fallist á kröfu sóknaraðila verði varnaraðila, sem og öðrum seljendum, ógerningur að efna frumskyldu sína samkvæmt kaupsamningnum um að afhenda hið selda. Slík vanefnd hefði óhjákvæmilega í för með sér réttarlegar afleiðingar og virðist bótaábyrgð varnaraðila gagnvart kaupendum nærtæk og eftir atvikum öðrum seljendum.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu, sem réttilega er borið undir dóminn á grundvelli V. kafla laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., innan þess frests og með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 33. gr. laganna, er deilt um þá ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að synja kröfu sóknaraðila um að lagt verði lögbann við sölu á hlutum varnaraðila í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. (Ölgerðinni).

               Lögbann er í eðli sínu neyðarráðstöfun sem ekki verður beitt nema fyrir liggi að almenn úrræði komi ekki að nægu haldi, enda sé þá fullnægt öðrum skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar „ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau“. Þá er í 1. tl. 3. mgr. sama ákvæðis kveðið á um að lögbann verði ekki lagt á ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega. Enn fremur er í 2. tl. 3. mgr. sama ákvæðis kveðið á um að lögbann verði ekki lagt á ef sýnt þykir að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af því að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kann að baka gerðarbeiðanda.

         Eins og rakið hefur verið er sóknaraðili einn af þremur eigendum í varnaraðila,  með 28,24% hlut. Aðrir eigendur eru Auður 1 fagfjárfestasjóður slf., eigandi 62,35% hluta og Ingibjörg S. Ásgeirsdóttir, eigandi 9,41% hluta. Tilgangur með starfsemi varnaraðila, sem stofnaður var í október 2010, er sá einn að halda utan um fjárfestingu í Ölgerðinni en varnaraðili á 45% hlut í henni. Í stjórn varnaraðila sitja fulltrúar allra eigenda hans. Hlutahafar í varnaraðila gerðu með sér hlutahafasamkomulag 20. október 2010. Sóknaraðili telur að ákvæði 4. gr. samkomulagsins sé skýrt um það að samþykki allra hluthafa þurfi til að taka ákvarðanir um sölu á hlutum eignarhaldsfélagsins í Ölgerðinni en því mótmælir sóknaraðili. Vísar hann til þess að af öðrum ákvæðum hluthafasamkomulagsins, og fyrirliggjandi samskiptum aðila í tölvuskeytum, sé skýrt að selja hafi átt hlutina að fimm árum liðnum frá stofnun félagsins. Þá mótmælir varnaraðili því að þörf hafi verið á því að taka ákvörðun um sölu umræddra hluta á hlutahafafundi. Myndi það heldur engu breyta því fulltrúar allra hluthafa í varnaraðila, sem tekið hafi ákvörðun um að gera kaupsamning við nafngreinda aðila, sitji í stjórn varnaraðila og myndu greiða atkvæði með sama hætti.

         Fyrir liggur að hlutir varnaraðila í Ölgerðinni hafi verið í söluferli um nokkurt skeið en verðbréfafyrirtækinu Virðingu hf. var í september 2015 falið að bjóða allt hlutafé félagsins til sölu í lokuðu verkferli eða í almennu útboði í tengslum við mögulega skráningu félagins í Kauphöll Íslands. Fleiri eigendur hlutanna en varnaraðili voru upphaflega aðilar að samningnum við Virðingu hf. en þeir munu hafa hætt við að selja. Ritaði fyrirsvarsmaður sóknaraðila undir ráðningarbréf við Virðingu hf. ásamt öðrum stjórnendum varnaraðila. Á stjórnarfundi 19. september 2016, sem allir stjórnendur sóttu, voru drög að kaupsamningi varnaraðila o.fl., um hluti í Ölgerðinni, við nafngreinda kaupendur kynntur. Í lok fundargerðar er bókað að samþykkt hafi verið að stjórn félagsins veitti nafngreindum aðilum umboð til að undirrita kaupsamning um sölu á hlutum félagins í Ölgerðinni. Sóknaraðili dregur í efa lögmæti fundarins og hefur neitað að undirrita fundargerð. Óumdeilt er þó að meirihluti stjórnar var samþykkur þeirri ákvörðun að veita umboðið. Tölvuskeyti eftir fundinn, milli sóknaraðila og þeirra sem önnuðust gerð samningsins, bera ekki með sér að sóknaraðili hafi í upphafi gert athugsemdir við fundargerðina sem slíka en í skeytunum kemur hann hins vegar á framfæri athugsemdum og spurningum við efni kaupsamningsins o.fl. Af gögnum verður því ekki annað ráðið en að sóknaraðila hafi, nokkru eftir fundinn, snúist hugur um að selja hluti, sem hann átti í gegnum varnaraðila í Ölgerðinni. Sóknaraðili hefur þó ekki leitt að því nægar líkur að salan hafi verið óhagstæð fyrir varnaraðila, t.d. að hlutirnir hafi verið seldir undir markaðsvirði, eða að samningsskilyrði séu óhagstæð að öðru leyti.

               Í máli þessu eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi, fyrir sóknaraðila, varnaraðila og aðra þá sem standa að sölu og kaupum á hlutum í Ölgerðinni, enda um að ræða á sölu á meirihluta í stóru fyrirtæki sem á sér langa sögu í íslensku viðskiptalífi. Kaupverð á hlutum varnaraðila o.fl. liggur ekki fyrir í málsgögnum en í munnlegum málflutningi varnaraðila fyrir dóminum kom fram að söluverð hlutanna væri um fimm milljarðar króna. Þar af næmi hlutur varnaraðila 3,5-3,8 milljörðum króna. Með hliðsjón af hlut sóknaraðila í varnaraðila næmi sala hlutarins um einum milljarði króna. Þessum tölum var ekki andmælt af hálfu sóknaraðila. Þá er ljóst að ef ekki verður af sölunni kann varnaraðili að verða fyrir tjóni, m.a. vegna tapaðs hagnaðar af sölunni, auk þess sem þeir sem yrðu af kaupunum kynnu að hafa uppi bótakröfur á hendur honum vegna vanefnda samningsins. Enn fremur verður að taka inn í hagsmunamat, samkvæmt 2. tl. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, hagsmuni annarra en aðila þessa máls, þ.e. hagsmuni annarra seljenda hluta í Ölgerðinni og kaupenda hlutanna, en kaupendur eru fjöldi fyrirtækja. Þrátt fyrir orðalag ákvæðisins um að stórfelldur munur þurfi að vera á hagsmunum „gerðarþola“ og hagsmunum „gerðarbeiðanda“ er ljóst að hagsmunir þriðja manns, af því hvort lögbann skuli lagt á eður ei, geta skipt máli í þess samhengi. Þannig er í 3. mgr. 34. gr. laga nr. 31/1990 beinlínis gert ráð fyrir að þriðji maður geti átt hagsmuna að gæta í lögbannsmáli og átt aðild að því fyrir dómstólum. 

          Með vísan til framangreinds og skírskotun til 2. töluliðar 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verður fallist á það með varnaraðila að stórfelldur munur sé annars vegar á hagsmunum hans og annarra samningsaðila, af því að fyrirbyggja að lögbann verði lagt á, og hins vegar hagsmunum sóknaraðila af því að á það verði fallist. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á kröfu sóknaraðila um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumanns að hafna lögbanni. Í nefndu ákvæði er gert ráð fyrir því að gerðarþoli setji eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kann að baka gerðarbeiðanda verði kröfu hans um lögbann hafnað. Af hálfu sóknaraðila var ekki krafist slíkrar tryggingar, ef fallist yrði á að framangreint ákvæðið ætti við. Þá liggur ekki annað fyrir en að þeir sem kynnu að bera ábyrgð á hugsanlegu tjóni sóknaraðila geti staðið undir skaðbótum honum til handa.

Með hliðsjón af úrslitum málsins ber að dæma sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðinn 1.000.000 kr.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

                                                                     Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

      Hafnað er kröfu sóknaraðila, ET Sjónar ehf., um að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 14. október 2016, um að synja lögbannsbeiðni sóknaraðila og að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann við því að varnaraðili, Eignarhaldsfélagið Þorgerður ehf., ráðstafi eignarhlut varnaraðila í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. til þriðju aðila.

         Sóknaraðili greiði varnaraðila 1.000.000 kr. í málskostnað.