Hæstiréttur íslands
Mál nr. 535/2013
Lykilorð
- Fjárdráttur
- Skilorð
- Ákæra
|
|
Fimmtudaginn 25. september 2014. |
|
Nr. 535/2013. |
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Pétri Inga Jakobssyni (Björgvin Jónsson hrl.) |
Fjárdráttur. Skilorð. Ákæra.
P hafði mjólkurtank í
geymslu og var sakfelldur fyrir fjárdrátt með því að hafa selt tankinn í
heimildarleysi og dregið sér andvirði hans. Fyrir Hæstarétti var því hreyft af
hálfu P að ákæra uppfyllti ekki áskilnað c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála. Hæstiréttur taldi að þótt verknaðarlýsing ákæru væri
óskipuleg og framsetningin ekki hnitmiðuð, væru þar eigi að síður tilgreind öll
þau atriði sem nauðsynleg væru við mat dómstóla á því, hvort P hefði með þeirri
háttsemi sinni sem í ákæru væri lýst gerst brotlegur við 247. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu og þar sem vörnum P var ekki áfátt
við meðferð málsins vegna fyrrgreindra annmarka voru ekki talin efni til að
vísa málinu frá héraðsdómi. Var refsing P ákveðin fangelsi í 30 daga, en
fullnustu refsingarinnar frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur
árum héldi P almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. ágúst 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða en að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að sér verði ekki gerð refsing. Að því frágengnu krefst hann þess að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið en ella að hún verði milduð.
I
Samkvæmt gögnum málsins flutti A ehf. í [...] í september 2006 hingað til lands frá Svíþjóð 30.000 lítra mjólkurtank úr ryðfríu stáli og var hann af gerðinni Örviga Vm Tarm Vm3, árgerð 1993. Tankurinn, sem festur var á fjögurra hásinga eftirvagn, kostaði hingað kominn 1.520.835 krónur, og var hann forskráður í ökutækjaskrá 14. desember 2006 með númerinu [...]. Tankinn hugðist A ehf. nota undir slóg vegna tiltekins verkefnis á vegum fyrirtækisins sem ekki varð af. Í framhaldinu og þá líklega á árinu 2007 sömdu fyrirsvarsmenn A ehf. við ákærða um að fá að geyma tankinn á lóð sem hann hafði yfir að ráða að B í [...], en þar stundaði hann í nafni einkahlutafélags síns C viðskipti með notaða varahluti í bifreiðar og ýmsar gerðir af tönkum.
Seint á árinu 2009 tók framkvæmdastjóri A ehf. eftir því að umræddur tankur var horfinn af lóðinni hjá ákærða og 27. nóvember það ár fékk lögreglan á Suðurnesjum tilkynningu frá honum um að búið væri að stela tankinum. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi hófst í framhaldinu rannsókn á hvarfi tanksins og auglýsti lögregla eftir honum í fjölmiðlum. Gaf sig þá fram við lögreglu D, bóndi að [...] í [...], og kvaðst vera með umræddan tank í sínum vörslum. Væri tankurinn grafinn í jörðu og notaður til vatnsmiðlunar fyrir fjögur kúabú í [...] og hefði E fyrir hönd nokkurra bænda keypt tankinn sumarið 2009 af ákærða fyrir 200.000 krónur. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi skýrði E svo frá við skýrslutöku fyrir dómi að hann hefði á árinu 2007 verið að leita að vatnsmiðlunartanki fyrir nokkra bændur og sumarhúsaeigendur í [...] og frétt af hentugum 30.000 lítra tanki á hjólastelli hjá ákærða. Kvaðst hann í framhaldinu hafa farið til [...] til að skoða þann tank, tekið myndir af honum þar á staðnum og síðan haldið á heimili ákærða í Reykjavík og samið við hann um kaup á tanknum fyrir 200.000 krónur. Í málinu liggur fyrir greiðslukvittun frá Íslandsbanka hf. 20. júlí 2009 og samkvæmt henni millifærði E 200.000 krónur á reikning C ehf. umræddan dag. Nokkrum dögum eftir millifærsluna fór E til [...] ásamt F og fluttu þeir tankinn austur að [...]. Skýrslur F og D fyrir dómi og hjá lögreglu um atvik málsins eru nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi.
II
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 27. nóvember 2009 sem vitni og kannaðist hann þá við að hafa tekið stóran tank í geymslu fyrir A ehf. Hann hefði síðar veitt því athygli að tankurinn væri horfinn af lóðinni hjá sér og talið að fyrirsvarsmenn A ehf. hefðu tekið hann. Ári síðar hefði lögregla haft samband við sig og hann þá fyrst frétt af því að tankurinn hefði verið tekinn ófrjálsri hendi. Ákærða var þá bent á að samkvæmt skýrslu E hjá lögreglu hefði sá síðarnefndi keypt umræddan tank af ákærða og greitt fyrir hann 200.000 krónur með millifærslu í banka. Kvað ákærði það rétt vera að E hefði keypt af sér tank fyrir hið tilgreinda verð, en það væri ekki sá 30.000 lítra tankur sem þetta mál snerist um heldur mun minni tankur sem hefði verið í sinni eigu. Þegar lögregla hafði samband við ákærða 12. febrúar 2010 vegna hvarfs tanksins kannaðist hann við að hafa geymt tank fyrir A ehf. endurgjaldslaust í nokkur ár. Margir hefðu komið að máli við sig og falast eftir tankinum en hann jafnan svaraði því til að hann ætti ekki tankinn og gæti því ekki selt hann.
Ákærði mætti til skýrslutöku hjá lögreglu 8. mars 2012 og þá eins og í lögregluskýrslu segir sem sakborningur „í þessu máli sem varðaði meintan fjárdrátt þegar hann seldi 30.000 lítra mjólkurtank án heimildar eiganda tanksins.“ Kvaðst ákærði þá hafa selt E tank sem var mun minni en tankur A ehf., eða 7.000 til 10.000 lítrar að stærð, sem hægt hefði verið að hafa á vörubíl. Sá tankur hefði verið á athafnasvæði ákærða í [...] „á vörubílahásingum sem var búið að setja saman í beisli og þar lá hann bara laus á. Pétur segir að E hafi tekið þann tank ... Pétur segir að E hafi komið hingað og þeir skoðuðu tankinn saman. Pétur kvaðst hins vegar ekki hafa verið viðstaddur þegar E sótti tankinn ... Pétur segir að E hafi sótt tankinn sem þeir skoðuðu saman.“ Fyrir ákærða var þá kynnt það sem fram hafði komið í skýrslum D, E og F um að tankurinn sem E keypti af ákærða hefði verið 30.000 lítrar að stærð og áfastur á grind og hefði tankurinn verið skorinn af grindinni þegar austur á [...] var komið. Eftirfarandi var haft eftir ákærða: „Pétur segir að væntanlega hafi E og F tekið þá stóra tankinn en þá hafi þeir einfaldlega tekið vitlausan tank.“
Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að A ehf. hefði fengið að geyma umræddan 30.000 lítra tank á lóðinni að B í [...]. Hann kannaðist jafnframt við að hafa sumarið 2009 selt E vatnstank fyrir 200.000 krónur og hefði sá tankur verið um 7.000 til 10.000 lítrar að stærð. Kvaðst ákærði hafa verið viðstaddur þegar E skoðaði tankinn fyrir kaup en hins vegar ekki þegar hann sótti tankinn. Fyrir dómi voru ákærða sýndar myndir af þeim 30.000 lítra tanki sem hann tók til geymslu fyrir A ehf. og staðfesti hann að myndirnar sýndu þann tank. Þegar ákærði var fyrir dómi spurður um hvort hann hefði einhverja skýringu á því hvers vegna E hefði haldið því fram hjá lögreglu að tankurinn sem hann hefði keypt af ákærða og flutt austur að [...] væri sami tankur og á myndunum, kvað ákærði það vera „kolrangt.“
III
Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var því hreyft af hálfu ákærða að í ákæru væri ekki greint frá því svo glöggt sem verða mætti, hver sú háttsemi væri sem ákært væri út af, sbr. áskilnað c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærða væri gefið að sök að hafa dregið sér söluandvirði 30.000 lítra mjólkurtanks í eigu A ehf., samtals 200.000 krónur, en ljóst væri að söluandvirðið sem slíkt gæti ekki verið andlag fjárdráttar. Hér væri um slíkan annmarka á ákærunni að ræða að leiða ætti til þess að málinu yrði sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
Efni ákærunnar er orðrétt rakið í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram er ákærða gefinn að sök fjárdráttur samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í júlí 2009 dregið sér samtals 200.000 krónur. Í ákæru kemur fram að þar hafi verið um að ræða söluandvirði 30.000 lítra mjólkurtanks í eigu A ehf., sem fastur hafi verið á eftirvagni, en tankinn hafi ákærði áður selt E, sem hafi haft milligöngu um kaup á honum fyrir hönd D bónda að [...] í [...]. Þá segir í ákæru að tankurinn hafi verið geymdur um nokkurt skeið á lóð að B í [...], en ákærði hafi haft umráð yfir lóðinni. Loks kemur þar fram að í kjölfar sölunnar hafi tankurinn verið fluttur að [...] í [...] þar sem hann hafi verið skorinn af eftirvagninum og loks grafinn í jörðu sem vatnssafntankur fyrir neysluvatn fjögurra kúabúa í [...].
Af samhengi þess sem fram kemur í ákæru má ljóst vera að ákærða er þar gefið að sök að hafa í júlí 2009 sem geymslumaður mjólkurtanks í eigu A ehf. í heimildarleysi selt D tankinn fyrir milligöngu E og í framhaldi sölunnar hagnýtt sér söluandvirðið sem var 200.000 krónur. Þótt lýsing í ákæru á þeirri háttsemi, sem ákært er fyrir, sé óskipuleg og framsetningin ekki hnitmiðuð, eru þar eigi að síður tilgreind öll þau atriði sem nauðsynleg eru við mat dómstóla á því, hvort ákærði hafi með þeirri háttsemi sinni sem í ákæru er lýst gerst brotlegur við 247. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu gættu og þar sem vörnum ákærða var ekki áfátt við meðferð málsins vegna framangreindra annmarka á ákærunni eru ekki efni til að vísa máli þessu frá héraðsdómi.
IV
Eins og áður greinir var ákærði geymslumaður 30.000 lítra mjólkurtanks í eigu A ehf. á grundvelli sérstaks samkomulags þar að lútandi við fyrirsvarsmenn þess fyrirtækis. Samkvæmt framburði ákærða og forsvarsmanna A ehf. fyrir dómi er óumdeilt að ákærði hafði ekki heimild til að selja tankinn heldur var hann eingöngu á lóð ákærða til geymslu. Með framburði D og E fyrir dómi er fram komið, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að í júlí 2009 seldi ákærði E umræddan mjólkurtank í heimildarleysi fyrir 200.000 krónur og hagnýtti sér söluandvirðið eftir að E hafði lagt það inn á reikning C ehf. 20. þess mánaðar. Er fallist á það mat héraðsdómara að ekkert sé fram komið í málinu sem styðji þá staðhæfingu ákærða að hann hafi umrætt sinn selt E 7.000 til 10.000 lítra tank úr sinni eigu. Er þá til þess að líta að framburður ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi um það hvaða tank E sótti til ákærða var mjög á reiki eins og nánar er rakið hér að framan. Verður ákærði því samkvæmt þessu sakfelldur eins og í héraðsdómi fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er brot hans þar réttilega fært til refsiákvæðis.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um refsingu ákærða staðfest.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Pétur Ingi Jakobsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 405.640 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. júlí 2013.
Mál þetta, sem þingfest var 13. febrúar sl. og dómtekið 15.
maí sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 7.
janúar 2013, á hendur Pétri Inga Jakobssyni, kt. [...], [...], [...],
„Fyrir fjárdrátt með því
að hafa í júlímánuði 2009, dregið sér söluandvirði 30.000 lítra mjólkurtanks,
samtals 200.000 kr., sem var fastur á eftirvagni, skráningarnúmer [...], og var
í eigu A ehf., kt. [...]. Tankurinn ásamt eftirvagninum kostaði hingað kominn
til lands frá Svíþjóð á árunum 2004-2005 samtals 1.520.835 kr. Tankinn ásamt
eftirvagninum seldi ákærði E, kt. [...], sem hafði milligöngu um kaupin fyrir
hönd D, kt. [...], bónda að [...], [...]. Í kjölfar sölunnar á tanknum, sem
geymdur hafði verið um nokkurt skeið á lóð við B, [...], er ákærði hafði umráð
yfir, var tankurinn fluttur að bænum [...], [...]þar sem tankurinn var skorinn
af eftirvagninum og loks grafinn í jörðu sem vatnsafntankur fyrir neysluvatn
fjögurra kúabúa í [...].
Telst háttsemi ákærða
varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði
verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og neitaði
sök.
Aðalmeðferð hófst 30. apríl sl. og fór framhald aðalmeðferðar
fram þann 12. júní sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum. Að kröfu
dómara var málið endurupptekið 28. júní sl. til að taka skýrslu af vitninu G
sem ekki hafði verið kallaður til sem vitni við aðalmeðferð málsins. Var málið
endurflutt að skýrslutöku lokinni og málið dómtekið á ný eftir að sakflytjendur
höfðu gert athugasemdir við fyrri málflutning sinn. Krafðist ákærði sýknu en
til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.
Málsatvik.
Samkvæmt rannsóknarskýrslu
lögreglu fékk lögreglan tilkynningu 27. nóvember 2009 um að búið væri að stela
30.000 lítra mjólkurtanki af gerðinni Örviga Tarm VM3 á fjögurra hásinga
eftirvagni frá a ehf., á B í [...]. Tankurinn hafi verið áfastur við
eftirvagninn. Hafi A ehf. keypt tankinn frá Svíþjóð árið 2006 og hafi hann
kostað þá kominn til landsins 1.520.835 krónur. A ehf. hafi hætt við að nota
tankinn og komið honum fyrir í geymslu við húsið að B, [...], í samráði við
ákærða sem rak þar sölu á ýmsum bílavarahlutum og ýmsum gerðum af tönkum.
Auglýsti lögregla í framhaldi í fjölmiðlum eftir vagninum. D, bóndi að [...] í [...],
hafði þá samband við lögreglu og kvaðst vera með tankinn í sinni vörslu. Hann
hafi keypt tankinn á 200.000 krónur sumarið 2009 af ákærða, með milligöngu E.
Maður að nafni F hafi dregið tankinn frá [...] að [...]. Þar hefðu þeir F skorið
hjólagrindina undan tanknum því að F hefði keypt hjólagrindina á 200.000 krónur
og D tankinn á aðrar 200.000 krónur. Nú væri tankurinn grafinn í jörðu og væri
notaður sem vatnssafnstankur fyrir neysluvatn fjögurra kúabúa í [...].
Í upplýsingaskýrslu lögreglu
kemur fram að E hafi sent lögreglu ljósmyndir af þeim tanki sem hann keypti af
ákærða og sé þar um sama tank að ræða.
Skýrslur fyrir lögreglu og dómi.
Ákærði sagði hjá lögreglu í
ágúst 2011 að E hefði keypt af sér minni tank en kært var út af. Ákærði hafi
átt tanka sem hafi verið um 10-15.000 lítrar og kvaðst ákærði geta fullyrt að E
hafi ekki keypt af sér þann tank sem málið snúist um. Kvað ákærði hjá lögreglu
að engin tengsl væru á milli E og sín, ákærði hafi hitt hann einu sinni er
tankaviðskiptin voru rædd, auk þess að hafa rætt við hann í síma. Þá kvaðst
ákærði hafa verið eigandi að C ehf. til ársins 2009 en þá hafi hann selt
fyrirtækið.
Ákærði gaf aftur skýrslu í mars
2012 hjá lögreglu. Kvað hann rétt að hann hafi selt E tank en það væri annar
tankur en sá sem hann væri sakaður um að hafa selt, eða tankur um 7-10.000
lítrar að stærð og hægt væri að hafa á vörubíl. Hafi ákærði oft selt slíka
tanka en hann geymdi þá einnig á B. E hafi komið til sín og þeir skoðað saman
tankinn sem E hafi keypt en hann hafi ekki verið viðstaddur þegar E sótti
tankinn en það hafi verið sá tankur sem þeir skoðuðu saman. Sagði ákærði að
tankurinn sem hann seldi E hafi verið laus á grind og minnti hann að tankurinn
hafi verið festur niður með böndum. Þá kvað ákærði, eftir að hafa skoðað
ljósmyndir af umþrættum tanki hjá lögreglu, það ekki vera ljósmynd af þeim
tanki sem hann hafi selt E, sú ljósmynd líktist frekar tankinum sem A hafi átt.
Ákærði kvað E hafa greitt 200.000 krónur inn á reikning fyrirtækis sem ákærði
átti, en líklega sótt tankinn löngu seinna og þá tekið rangan tank. Ákærði
kvaðst sennilega hafa dregið þá ályktun að eigendur stóra tanksins hafi sótt
tankinn sjálfir.
Ákærði kom fyrir dóminn og
kvaðst hafa selt E vatnstank sem hann hafi átt og verið geymdur á geymslusvæði
sem hann var með í [...]. Sá tankur hafi verið á bilinu 7-10.000 lítrar. Þar
hafi einnig 30.000 lítra tankur verið í geymslu frá A ehf. en ákærði hafi ekki
selt E þann tank. Vagninn sem tankurinn hafi verið á væri skráningarskyldur með
fjórar hásingar með sextán dekkjum. Fásinna væri að hann hafi farið að selja
þann tank fyrir 200.000 krónur þar sem hann hefði getað fengið miklu meira
fyrir tankinn seldi hann tankinn í brotajárn þar sem hann væri úr ryðfríu
stáli. Mundi ákærði ekki hvenær tankurinn sem hann seldi E hafi verið sóttur en
stóri tankurinn hafi horfið af svæðinu á svipuðum tíma. Ákærði kvaðst ekki hafa
farið með E að skoða tankinn og hann hefði ekki verið viðstaddur þegar E sótti
tankinn.
E gaf skýrslu hjá lögreglu í
október 2011 og kvaðst hafa verið að leita að stórum tanki fyrir neysluvatn á
þessum tíma fyrir bændur í [...]. Við eftirgrennslan sína eftir tanki hafi hann
hitt F sem hafi vitað um stóran tank í [...] og ákærði væri eigandi að. E hafi
farið ásamt G til [...] og rætt við ákærða og hafi ákærði farið fram á 200.000
krónur fyrir tankinn. Kvaðst E hafa fengið reikningsnúmer til að leggja inn á
hjá ákærða.
E kom fyrir dóminn og kvaðst
hafa frétt af umræddum tanki en hann hafi verið að leita að vatnstanki undir
neysluvatn fyrir nokkra bændur í [...]. Hann hafi skoðað tankinn í [...] en
mundi ekki hvort hann fór einn eða hvort F eða G hafi farið með sér til að
skoða tankinn. E kvaðst síðan hafa farið heim til ákærða þar sem hann bjó í
Reykjavík og þeir sammælst um kaupin. Kvað E aðspurður engan vafa hafa leikið á
því að hann ætlaði að kaupa 30.000 lítra tankinn, enda hafi hann verið að kaupa
tank undir neysluvatn og hafi þá aldrei komið annað til greina en tankur úr
ryðfríu stáli. E voru sýndar ljósmyndir at tankinum og kvað hann það vera sá
tankur sem hann keypti. Myndirnar hafi verið teknar í júní eða júlí en
tankurinn var dreginn til Flúða í júlí. Taldi E að verðið hafi verið eðlilegt
fyrir tankinn miðað við ástand hans en hann hafi míglekið, auk þess sem
hjólastellið á vagninum hafi verið þannig að vagninn hefði aldrei fengist
skráður hér á landi. E kvaðst ekki muna hvort tankurinn hafi verið sóttur sama
dag og hann greiddi fyrir tankinn eða daginn eftir en nokkurt bras hafi verið
við að koma tengivagninum af stað þar sem hann hafi verið fastur í bremsum.
Aðspurður hvort möguleiki hafi verið á því að hann hafi ruglast og tekið rangan
tank kvað hann það útilokað. Hann hafi verið að kaupa 30.000 lítra tank sem var
á hjólastelli. Aðspurður hvort ákærði hafi misskilið hvaða tank verið var að
kaupa sagði hann það útilokað, ákærði hafi vitað að F ætlaði að nota
hjólastellið undan honum. Sagði E G hafa farið með sér til ákærða þegar hann
gekk frá kaupunum því að E hafi ekki vitað hvar ákærði bjó. Aðspurður hvort
ákærði hafi verið látinn vita þegar tankurinn var sóttur, kvað hann svo ekki
hafa verið því að hann hefði talað um það við ákærða að tankurinn yrði
sóttur.
F gaf skýrslu hjá lögreglu í
september 2011 og kvað E hafa haft samband við sig í þeim tilgangi að flytja
stóran tank frá [...] að [...]. F hafi sótt tankinn þar sem hann stóð við B í [...]
eftir að hafa reynt að losa bremsurnar á tanknum og setja ýmsan ljósabúnað á
hann. F hafi unnið að því með bóndanum í [...] að skera tankinn af grindinni en
nota átti tankinn fyrir neysluvatn. F hafi svo fengið grindina sjálfa til
eignar.
F kom fyrir dóminn og kvaðst
hafa farið með E til að skoða tankinn þegar kaupin voru gerð. Ákærði hafi ekki
verið með. F hafi séð strax að ekki var hægt að flytja tankinn á vagni F, svo
kannað var hvort ekki væri hægt að draga tankinn. Hann og E hafi farið löngu
eftir að kaupin voru gerð og sótt tankinn. Tankurinn hafi verið fastur í
bremsum og hafi þeir verið lengi að brasa við að losa bremsurnar þannig að það
væri hægt að draga hann. Aðspurður hvort fleiri tankar hafi verið á lóðinni,
kvaðst F ekki vita um það, þessi tankur hafi verið sá eini sem kom til greina en alls konar tæki
og tól, vörubílar og fleira hafi verið á lóðinni. Aðspurður hvort tankurinn sem
hann tók gæti hafa verið annar tankur en keyptur var, sagði hann það ekki vera.
Tankinn hafi átt að nota undir neysluvatn svo ekki hafi komið til greina að
kaupa annan tank en úr ryðfríu stáli. Sagði hann að útilokað væri að hann hafi
átt að sækja þann tank sem sýndur er á ljósmynd sem ákærði lagði fram. Sá
tankur væri ekki úr ryðfríi stáli og ekki hafi komið til greina að kaupa slíkan
tank undir neysluvatn.
H kom fyrir dóminn og sagði að
það eina sem hann vissi um málið væri að A hafi geymt stóran tank á lóðinni hjá
ákærða sem keyptur hafi verið frá Svíþjóð. Til hafi staðið að nota tankinn
undir slóg en ekki orðið af því. Ákærði hafi áður geymt ýmislegt fyrir A en
hann hafi verið með stórt svæði sem ýmislegt dót stóð á. H minntist þess ekki
að skriflegur samningur hafi verið gerður við ákærða sérstaklega um tankinn
heldur munnlegur samningur.
I, framkvæmdastjóri A ehf., kom
fyrir dóminn og kvað félagið hafa keypt umræddan tank fyrir margt löngu þar sem
fyrir dyrum hafi staðið ákveðið verkefni sem nota átti tankinn í. Það hafi ekki
gengið eftir en tankurinn hafi tekið mikið pláss fyrir utan fyrirtækið. Eigandi
þess húsnæðis sem A leigði hjá, H, hafi bent á stað þar sem hægt væri að geyma
tankinn og hafi H fengið samþykki ákærða til að geyma tankinn við fyrirtæki
ákærða. Kvaðst I lítið hafa frétt af tanknum fyrr en hann hafi tekið eftir því
að hann var horfinn af geymslusvæðinu. Hann hafi í framhaldi haft samband við
lögreglu og síðan hafi málið farið sína leið.
J kom fyrir dóminn og kvaðst
hafa unnið hjá ákærða á þessum tíma og sé alltaf í tengslum við hann. Hann muni
eftir því að umræddur tankur hafi verið á lóðinni en hann hafi haft það
hlutverk að afhenda þá muni er ákærði tilkynnti honum að væru seldir. Í þessu
tilviki hafi hann gert lítinn tank, sambærilegan og honum var sýndur á
ljósmynd, dskj. 6, tilbúinn til flutnings. Hann muni þó ekki hvenær það hafi
verið. Ákærði hafi selt mikið af tönkum og mundi J ekki hvort eða hvenær hann
gerði tank kláran í því tilviki sem ákært er fyrir.
D gaf símaskýrslu fyrir dómi og
kvað þá bændur hafa verið með 7.000 lítra tank fyrir neysluvatn sem hafi verið
allt og lítill. Því hafi verið leitað eftir stórum tanki og þegar upplýsingar
hafi borist um þennan tank, hafi verið ákveðið að kaupa hann. Tankurinn hafi
verið dreginn austur að [...] við [...]. Komið hafi í ljós að tankurinn var
lekur og þurfti að kítta eða sjóða upp í sprungur til að gera tankinn þéttan.
Taldi D, miðað við ástand tanksins og það að hann hafi staðið ónotaður í nokkur
ár, verð hans hafa verið sanngjarnt.
G kom fyrir dóminn og kvaðst
hafa farið með E til [...] að skoða brotajárn í portinu hjá ákærða. Þeir hafi
skoðað fullt af „drasli“ og sjálfsagt þennan tank með. Beðinn um að lýsa umþrættum
tanki, kvað hann þá alla eins, en það hafi ekki verið fleiri slíkir tankar
þarna. Þeir hafi síðan farið heim til ákærða og kvaðst hann ekkert hafa heyrt
hvað ákærða og E fór á milli, hann hafi ekki haft neinn áhuga á því. Aðspurður
kvað hann E hafa verið að leita að einhverjum tanki undir neysluvatn og það
hafi þurft að vera nothæfur tankur í það. Vitnið kvaðst hafa kynnst E fyrir
40-50 árum en þeir væru báðir í verktakabransanum. Þá kvaðst vitnið þekkja
ákærða vel og hafa gert til fjölda ára, vinna hjá honum og selja fyrir hann og
þekkti hann bara af góðu. Vitnið kvaðst aðspurður ekki geta lýst tankinum neitt
sérstaklega en það hljóti að hafa verið tankur á hjólum en hann viti ekkert um
það frekar. Hvort E hafi keypt stóran eða lítinn tank viti hann ekkert um og
hafi engan áhuga haft á því.
Forsendur og niðurstöður.
Ákærði neitaði sök í máli þessu
en kvaðst hafa selt E allt annan tank en ákært er fyrir. Lagði ákærði fram
ljósmyndir af tanki sem hann sagði vera sambærilegan þeim tanki sem hann hafi
selt.
Óumdeilt er í málinu að ákærði
seldi E vatnstank. Ágreiningurinn stendur um það hvort það hafi verið 30.000
lítra tankur úr ryðfríu stáli eða 7-10.000 lítra tankur. E kvaðst fyrir dómi
hafa verið að leita að stórum tanki til að safna neysluvatni í og hafi umræddur
tankur verið tilvalinn þar sem hann var úr ryðfríu stáli auk þess að vera af
þeirri stærð sem vantaði. D kvað fyrir dóminum að aldrei hafi komið til greina
að kaupa 7-10.000 lítra tank því að þeir hafi verið með slíkan tank fyrir.
Óumdeilt er að ákærði fór hvorki með E að skoða tankinn í upphafi né með E eða F
til að afhenda tankinn þegar hann var sóttur. Þá liggur fyrir að E taldi ákærða
eiganda tanksins sem hann lét flytja austur að [...] en ekki A ehf. Taldi E útilokað
að ákærði hafi verið í þeirri trú að hann væri að kaupa annan tank en stóra
tankinn þar sem þetta hafi verið eini tankurinn á svæðinu úr ryðfríu stáli, auk
þess að þeir hafi rætt saman um það að F myndi taka hjólastellið undan
tankinum. Þá staðfesti G fyrir dóminum að hann hafi farið með E til að skoða
„drasl“ í portinu hjá ákærða en jafnframt að E hafi verið að leita að tanki
fyrir neysluvatn. Telur dómurinn ótrúverðugt með vísan til alls þess sem að
framan er sagt, að E hafi rætt kaup á 7-10.000 lítra tanki eins og ákærði segir
að hafi verið gert en E fullyrti fyrir dóminum að enginn vafi hafi verið á því,
þegar hann fór heim til ákærða og ræddi viðskiptin við hann, að verið var að
ræða um 30.000 lítra tankinn. Hafi enginn misskilningur verið um það enda hafi
hann verið að leita að tanki undir neysluvatn. Telur dómurinn fram komið, svo
hafið er yfir allan skynsamlegan vafa, að til hafi staðið að kaupa umþrættan
tank í þeim tilgangi að nota hann undir neysluvatn. Ekkert er fram komið sem
styður þá fullyrðingu ákærða að hann hafi verið að selja 7-10.000 lítra tank,
sem samkvæmt ljósmyndum er hann lagði fram, var kolryðgaður og ónothæfur undir
neysluvatn eins og kom fram hjá G. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þessa
háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Engu breytir þar um að í ákæru er
tilgreint að E hafi keypt tankinn fyrir hönd D en við skýrslutökur hafi það
komið í ljós að E hafi verið einn af fleiri eigendum sem ætluðu að nota
tankinn.
Ákærði krefst refsilækkunar á
þeim forsendum að langt sé um liðið frá því að tankurinn hvarf og þar til ákært
var í málinu. Tankurinn var seldur í júlí 2009 en hvarf hans kært til lögreglu
27. nóvember s.á. Var málið í rannsókn eins og kemur fram í dagbók lögreglu og
tilkynning send til fjölmiðla í febrúar 2010 þar sem auglýst var eftir
tankinum. Í febrúar 2010 var skýrsla tekin af ákærða hjá lögreglu og var málið
áfram í rannsókn fram til júní 2010. Í mars 2011 er reynt að hafa samband við
ákærða og allt fram í október 2011 er ítrekað reynt að ná til ákærða til að
taka skýrslu af honum og m.a. var hann skráður eftirlýstur í júlí 2011 í
lögreglukerfinu. Ákærði mætti aftur í skýrslutöku í mars 2012 en ekki er að sjá
að nein rannsókn hafi farið fram fyrir utan að rætt var við H 14. nóvember
2012. Ákæra var síðan gefin út 7. janúar 2013.
Samkvæmt sakavottorði ákærða var
honum tvisvar gerð refsing 2004 og 2005 sem hefur ekki áhrif við ákvörðun
refsingar nú. Ákærði var dæmdur í þrjátíu daga fangelsi fyrir ölvunarakstur 18.
september 2009. Þá gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun í febrúar 2010 og
dæmdur í níutíu daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og að aka sviptur
ökuréttindum í mars 2011. Verður ákærða nú gerður hegningarauki við dóminn frá
18. september 2009 samkvæmt reglum 78. gr. laga nr. 19/1940.
Með vísan til þessa er refsing
ákærða ákveðin fangelsi í þrjátíu daga en rétt þykir að skilorðsbinda
refsinguna og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt
skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði allan sakarkostnað
sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl.,
sem eru hæfilega ákveðin 351.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ástríður
Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Pétur Ingi
Jakobsson, skal sæta fangelsi í þrjátíu daga en fresta skal fullnustu
refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum, haldi ákærði
almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði sakarkostnað, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Guðmundar St. Ragnarssonar hrl., 351.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.