Hæstiréttur íslands

Mál nr. 616/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun
  • Veðréttindi
  • Fasteign


Mánudaginn 22. nóvember 2010.

Nr. 616/2010.

A og

B

(Helgi Jóhannesson hrl.)

gegn

Héraðsdómi Suðurlands

(enginn)

Kærumál. Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna. Í málinu háttaði þannig til að nokkur þeirra veðskuldabréfa sem hvíldu á fasteign A og B og voru til tryggingar skuldum þeirra voru einnig tryggð með veði í annarri fasteign A og B sem var jörð undir íbúðarhúsnæði og mannvirki sem tengdust atvinnurekstri þeirra. Með vísan til skýrs orðalags 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði var talið að greiðsluaðlögun gæti aðeins varðað fasteign þar sem skuldarinn héldi heimili og hefði skráð lögheimili. Næði krafa A og B fram að ganga, eins og hún væri sett fram fyrir héraðsdómi, myndi greiðsluaðlögun ekki einungis taka til fasteignar eins og um ræði í 2. mgr. 2. gr. laganna heldur einnig til annarrar fasteignar þeirra A og B og mannvirkja sem á henni stæðu er tengdust atvinnurekstri þeirra. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

 Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 21. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. október 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að þeim yrði veitt heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignarveðkrafna. Kæruheimild er í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og þeim verði veitt heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignarveðkrafna, sem hvíla á eign þeirra að [...], [...], en til vara að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að nýju.

Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/2009 er gerður skýr áskilnaður um að greiðsluaðlögun samkvæmt lögunum geti aðeins varðað fasteign þar sem skuldarinn heldur heimili og hefur skráð lögheimili, enda sé um að ræða hóflegt húsnæði miðað við þarfir skuldara og fjölskyldu hans sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Nái krafa sóknaraðila, eins og hún er sett fram fyrir héraðsdómi, fram að ganga mun greiðsluaðlögun ekki einungis taka til fasteignar eins og ræðir um í 2. mgr. 2. gr. laganna heldur einnig til annarrar fasteignar sóknaraðila og mannvirkja sem á henni standa er tengjast atvinnurekstri þeirra. Er því ekki unnt að fallast á kröfu sóknaraðila og verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. október 2010.

Með beiðni dagsettri 8. júlí 2010, er barst dóminum 12. júlí sl., hafa A, kt. [...], og B, kt. [...], til heimilis að [...], [...], óskað heimildar til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði samkvæmt lögum nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. 

Í beiðni skuldara kemur fram að þau séu þinglýstir eigendur að fasteigninni [...] í [...]. Íbúðarhús þeirra sé 183,2 fermetrar að stærð en á jörðinni séu fleiri mannvirki sem notuð séu til búskapar. Þau búi tvö ein á jörðinni og börn þeirra séu öll uppkomin. B sé öryrki og hafi því lágar tekjur en A hafi töluvert hærri tekjur en þó hafi hann ekki getað sinnt aðalstarfi sínu frá því í ágúst 2009 vegna veikinda. Þá kemur fram í beiðni skuldara að þau hafi þar að auki nokkrar tekjur af búskap sem þau stundi á jörðinni [...].

Skuldarar segja fjárhagserfiðleika sína mega rekja allt til ársins 1990 þegar þau seldu þáverandi fasteign sína. Þau hafi endanlega tekið við rekstri búsins að [...] á árinu 1998 af foreldrum A. Á árinu 2000 hafi þau hafið byggingu einbýlishúss á lóð úr jörðinni og þar eigi þau lögheimili. Einbýlishúsið, sem beiðni þeirra varðar, sé þeirra helsta veðandlag. Fram kemur að fjárhagsvandi skuldara sé langvarandi en þau telji að ef  þeim verði veitt svigrúm til að endurskipuleggja fjárhag sinn mætti forða þeim frá gjaldþroti.

Forsendur og niðurstaða

Leitað er tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Í þinghaldi þann 23. september 2010, þar sem mál skuldara var tekið fyrir, leitaði dómari, með vísan til 4. gr. laga nr. 50/2009, sbr. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 21/1991, svara við þeim atriðum sem hann taldi óljós eða ónógar upplýsingar fram komnar um auk þess að veita skuldara viku frest til að leggja fram frekari gögn eða veita nánari upplýsingar.

Meðal gagna málsins eru tvö vottorð úr þinglýsingabók sýslumannsins á [...], útprentun þann 2. júlí sl. Annað þinglýsingavottorðið varðar [...] lóð [...], [...] með fasteignanúmerinu [...]. Lýsing fasteignarinnar í vottorðinu er íbúð og þinglýstir eigendur B og A. Einnig liggur frami matsvottorð Þjóðskrár frá 5. júlí sl. Þar kemur fram að landnúmer [...] lóðar er [...] og fastanúmer [...]. Á matsvottorði er tilgreind  íbúð á lóðinni, 183,2 fermetrar að stærð, byggð árið 2000 í eigu B og A. Á vottorði úr þinglýsingabók vegna [...] lóðar [...] eru tilgreind eftirfarandi veðbönd: Á fyrsta veðrétti fasteignaveðbréf Íbúðalánasjóðs, útgáfudagur 19. mars 2001, upphaflega að fjárhæð 6.859.026 krónur, á öðrum veðrétti veðskuldabréf Íbúðalánasjóðs, útgáfudagur 12. janúar 2009, upphaflega að fjárhæð 296.650 krónur, á þriðja veðrétti veðskuldabréf Lífeyrissjóðs verslunarmanna, útgáfudagur 3. september 2001, upphaflega að fjárhæð 2.500.000 krónur, á fjórða veðrétti veðskuldabréf Frjálsa fjárfestingabankans hf., útgáfudagur 12. desember 2007, upphaflega að fjárhæð 30.700.000 krónur, skjalanúmer [...], á fimmta veðrétti veðskuldabréf Kaupþings banka hf., útgáfudagur 6. apríl 2000, upphaflega að fjárhæð 940.000 krónur, skjalanúmer [...], á sjötta veðrétti veðskuldabréf Kaupþings banka hf., útgáfudagur 27. maí 2008, upphaflega að fjárhæð 11.380.000 krónur, skjalanúmer [...] og á sjöunda veðrétti veðskuldabréf Kaupþings banka hf., útgáfudagur 13. júní 2008, upphaflega að fjárhæð 2.700.000 krónur, skjalanúmer [...]. Tekið skal fram að lán Kaupþingsbanka hf., nú Arion banka, á fimmta veðrétti að fjárhæð 940.000 krónur er lán sem dóttir skuldara tók og nær beiðni skuldara því ekki til þess láns.

Hitt þinglýsingavottorðið varðar [...] [...], [...], með fasteignanúmerinu [...]. Lýsing fasteignarinnar í vottorðinu er jörð – jörð í byggð, og þinglýstur eigandi A. Í áðurnefndu matsvottorði Þjóðskrár kemur fram að landnúmer [...] er [...] og fastanúmer [...]. Á matsvottorði er eftirfarandi tilgreining: Jörð, ræktað land, [...], [...], fjós með áburðarkjallara, tvö fjárhús, tvær hlöður, votheysturn, hjallur, lausagöngu/hjarðfjós, reykhús, skúr, véla/verkfærageymsla, dæluhús og íbúð, 187,4 fermetrar að stærð, byggð árið 1896, allt í eigu A. Á vottorði úr þinglýsingabók vegna [...] [...] eru tilgreind eftirfarandi veðbönd: Á fyrsta veðrétti veðskuldabréf Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, A-deild, útgáfudagur 6. apríl 2000, upphaflega að fjárhæð 3.100.000 krónur, á öðrum veðrétti skuldabréf Frjálsa fjárfestingabankans hf., útgáfudagur 12. desember 2007, upphaflega að fjárhæð 30.700.000 krónur, skjalanúmer [...], á þriðja veðrétti veðskuldabréf Kaupþings banka hf., útgáfudagur 6. apríl 2000, upphaflega að fjárhæð 940.000 krónur, skjalanúmer [...], á fjórða veðrétti veðskuldabréf Kaupþingsbanka hf., útgáfudagur 27. maí 2008, upphaflega að fjárhæð 11.380.000 krónur, skjalanúmer [...] og á fimmta veðrétti veðskuldabréf Kaupþings banka hf., útgáfudagur 13. júní 2008, upphaflega að fjárhæð 2.700.000 krónur, skjalanúmer [...]. Tekið skal fram að lán Kaupþingsbanka hf., nú Arion banka, á fimmta veðrétti að fjárhæð 940.000 krónur er lán sem dóttir skuldara tók og nær beiðni skuldara því ekki til þess láns.

Af framangreindum gögnum verður ráðið að [...] er samkvæmt fasteignabók sýslumannsins á [...] tvær fasteignir, annars vegar [...], lóð, þar sem íbúðarhúsnæði skuldara í máli þessu stendur og hins vegar [...], jörð í byggð, í eigu A, annars skuldara í máli þessu. Samkvæmt áður tilgreindum þinglýsingarvottorðum hvíla þrjú af þeim sex veðböndum, sem hvíla á íbúðarhúsnæði því er mál þetta varðar og beiðni þessi tekur til, einnig á jörðinni [...] ásamt þeim mannvirkjum sem á jörðinni eru. Nánar tiltekið er um að ræða annars vegar skuldabréf Frjálsa fjárfestingabankans hf., upphaflega að fjárhæð 30.700.000 krónur og hins vegar tvö veðskuldabréf Kaupþings banka hf., upphaflegur höfuðstóll samtals að fjárhæð 14.080.000 krónur. Veðskuldabréf Frjálsa fjárfestingabankans hf. liggur frammi í málinu og er í bréfinu ekki vikið að því að frávik frá meginreglu 1. mgr. 12. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð eigi við.

Í ódagsettri greinargerð skuldara sem lögð var fram 23. september sl., dskj. nr. 2, kemur fram að lög nr. 50/2009 setji það skilyrði fyrir greiðsluaðlögun að hún varði aðeins fasteign þar sem skuldari heldur heimili, sbr. 2.mgr. 2. gr.  Beiðni skuldara til dómsins byggi á þessu skilyrði og óskað sé eftir greiðsluaðlögun vegna þeirra veðskuldabréfa sem hvíla á íbúðarhúsnæði skuldara og varði skuldir þeirra. Það að nokkur þeirra lána séu einnig tryggð með veði í öðrum eignum hafi ekki í sjálfu sér þau áhrif að lög nr. 50/2009 um greiðsluaðlögun eigi ekki við. Lögin setji ekki frekari skilyrði fyrir greiðsluaðlögun skulda sem tryggðar eru með veði í íbúðarhúsnæði og þannig takmarki lögin ekki úrræðið við þær skuldir sem eingöngu eru tryggðar með veði í íbúðarhúsnæði. Í lögunum sé ekkert vikið að þeim tilvikum þegar skuld skuldara sem tryggð er með veði í íbúðarhúsnæði hans er einnig tryggð með veði í annarri fasteign. Af því verði ekki annað leitt en að slíkar aðstæður hafi engin áhrif á úrræðið sem lögin beinlínis fjalla um. Ein og sama krafa geti því vel verið bæði fasteignaveðkrafa og samningskrafa í skilningi laga nr. 21/1991. Fallist dómurinn á beiðni skuldara eins og hún er lögð fyrir dóminn muni skuldarar eftir sem áður þurfa að takast á við kröfuhafa um sömu skuldir að því marki sem þær skuldir munu þá standa sem samningskröfur. Í lok greinargerðar segir að þann 4. ágúst sl. hafi skuldarar lagt fram beiðni hjá Umboðsmanni skuldara um greiðsluaðlögun í samræmi við lög nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, segir að eigandi íbúðarhúsnæðis, sem uppfyllir nánar tilgreind skilyrði, geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum vegna skulda sem tryggðar eru með veði í því húsnæði.  

Í 2. mgr. 2. gr. laga 50/2009 segir að greiðsluaðlögun geti aðeins varðað fasteign þar sem skuldari heldur heimili og hefur skráð lögheimili, enda sé um að ræða hóflegt húsnæði miðað við þarfir skuldara og fjölskyldu hans sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda

Í máli þessu háttar þannig til, eins og rakið hefur verið hér að framan, að veðskuldabréf  Frjálsa fjárfestingabankans hf. og tvö veðskuldabréf  Kaupþings banka hf., sem hvíla á íbúðarhúsnæði skuldara og beiðni þessi tekur til, eru jafnframt tryggð með veði í fasteigninni [...], jörð í byggð, sem á standa mannvirki sem tengjast atvinnurekstri skuldara. Er því um að ræða sameiginlegt veð í skilningi 12. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.  Þegar þannig stendur á er veðkröfunni ekki skipt þannig að veðhafi geti aðeins leitað fullnustu í tilteknu veðandlagi fyrir kröfu sinni. Meginreglan er sú að það er veðhafa að ákveða hvort hann gengur að öllum veðandlögum samtímis eða að hverju þeirra fyrir sig í ákveðinni röð nema því aðeins að reglur annarra laga takmarki slíkan rétt. 

Í II. kafla greinagerðar með lögum nr. 50/2009 kemur fram að lögunum sé ekki ætlað að taka til annarra veðskulda en þeirra sem hvíla á þeim fasteignum sem ætlaðar eru til íbúðar skuldara. Þar kemur einnig fram að úrræðið sem lögin bjóða geti reynst skuldurum mjög vel til að endurskipuleggja fjárhag sinn en að við setningu slíkra reglna þurfi að virða stjórnarskrárvarinn eignarrétt þeirra kröfuhafa sem njóta veðtryggingar í fasteignum skuldara. Í athugasemdum með 1. gr. laga nr. 50/2009 segir að þótt ekki sé það tekið sérstaklega fram geti einungis einstaklingur nýtt sér úrræðið, enda leiðir af ákvæðum 2. gr. frumvarpsins að slík greiðsluaðlögun getur einungis tekið til þeirra skulda sem hvíla á húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun byggingar- og skipulagsyfirvalda.  Í athugasemd með 2. mgr. 2. gr. kemur fram að annars konar húsnæði en íbúðarhúsnæði falli ekki undir ákvæðið og því geti eigandi slíks húsnæðis ekki farið fram á greiðsluaðlögun samkvæmt lögunum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið um tilgang laga nr. 50/2009 og lögvarins réttar veðhafa á 4., 6. og 7. veðrétti í fasteigninni [...], lóð [...], er það álit dómsins að lögin nr. 50/2009 heimili ekki greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna þegar beiðni skuldara tekur til veðskulda sem hvíla jafnframt á fasteign sem ekki er ætluð er til íbúðar samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Verði því,  með vísan til 1. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/2009, að hafna beiðni skuldara í máli þessu.  

Ragnheiður Thorlacius, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hafnað er beiðni A og B um heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.