Hæstiréttur íslands
Mál nr. 306/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 3. júní 2008. |
|
Nr. 306/2008. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til „föstudagsins“ 28. júní 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi. Hinn 28. júní 2008 ber upp á laugardag, en ekki föstudag eins og segir í úrskurði héraðsdóms. Verður gæsluvarðhaldinu markaður sá tími sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. júní 2008, kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2008.
Ríkissaksóknari krefst þess að ákærða, X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar hjá héraðsdómi, þó eigi lengur en til föstudagsins 28. júní nk. kl. 16:00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru, dagsettri 20. maí sl., hafi ríkissaksóknari höfðað opinbert mál á hendur X fyrir stórfellt fíkniefnabrot, með því að hafa á árinu 2007, í félagi við aðra, staðið að innflutningi á samtals 4.639,50 g af amfetamíni og 594,70 g af kókaíni frá Þýskalandi til Íslands í ágóðaskyni. Ákærða er gefið að sök að hafa lagt á ráðin um innflutninginn ásamt meðákærðu og notað sér aðstöðu sína sem starfsmaður hraðsendingarfyrirtækisins Y á Keflavíkurflugvelli til þess að miðla upplýsingum um hvernig skuli haga sendingu og móttöku fíkniefnanna þannig að þau kæmust til móttakanda efnanna hér á landi án afskipta yfirvalda og er efnin voru haldlögð gerði hann honum viðvart um það. Brot ákærða er talið varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001 og liggur allt að 12 ára refsing við brotinu. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 29. maí 2008 og er aðalmeðferð fyrirhuguð þann 3. júní nk. Sé því ljóst að málsmeðferð hafi verið hraðað eins og kostur er.
Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna frá 7. mars sl. og hefur Hæstiréttur staðfest gæsluvarðhald yfir ákærða á þeim grundvelli með dómi í máli nr. 136/2008 og nú síðast með með dómi í máli nr. 215/2008.
Fyrir hendi er sterkur grunur um að ákærði hafi framið afbrot sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er ætlað brot þess eðlis að telja verður að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Verður krafa ríkissaksóknara því tekin til greina eins og hún er fram sett með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Helgi I. Jónsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 28. júní nk. kl. 16:00.