Hæstiréttur íslands
Mál nr. 28/2005
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamsmeiðing af gáleysi
- Svipting ökuréttar
|
|
Miðvikudaginn 4. maí 2005. |
|
Nr. 28/2005. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Jakobi Þóri Jónssyni (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) |
Bifreiðir. Líkamsmeiðing af gáleysi. Svipting ökuréttar.
J gerðist sekur um að færa bifreið sína milli akreina í sömu akstursstefnu, án þess að gefa stefnuljós og án þess að gæta nægilega að umferð annarra ökutækja í sömu átt á þeirri akrein sem hann ók yfir á. Ók hann þar í veg fyrir bifhjól með þeim afleiðingum að árekstur varð með ökutækjunum og ökumaður bifhjólsins kastaðist af hjólinu og slasaðist. Ekki þóttu efni til að svipta J ökurétti. Var refsing J ákveðin 30 daga fangelsi auk sektar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. desember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvalds um sviptingu ökuleyfis og að refsing hans verði milduð.
Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum skal svipta mann rétti til að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann hefur orðið sekur um mjög vítaverðan akstur slíks ökutækis eða ef telja verður, með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans sem ökumanns vélknúins ökutækis, varhugavert að hann stjórni vélknúnu ökutæki. Ákærði gerðist sekur um að færa bifreið sína milli akreina í sömu akstursstefnu, án þess að gefa stefnuljós og án þess að gæta nægilega að umferð annarra ökutækja í sömu átt á þeirri akrein sem hann ók yfir á með þeim afleiðingum sem í héraðsdómi greinir. Með þessu gerðist hann sekur um gálausan akstur, en háttsemi hans verður ekki talin mjög vítaverð í skilningi nefnds lagaákvæðis. Það eru því ekki efni til að svipta hann ökurétti.
Að teknu tilliti til fordæma Hæstaréttar verður refsing ákærða hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi, skilorðsbundin á þann hátt sem greinir í dómsorði, auk greiðslu 80.000 króna sektar í ríkissjóð og komi 18 daga fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.
Með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður áfrýjunarkostnaður málsins lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem verða ákveðin svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Jakob Þórir Jónsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 80.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 18 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá uppkvaðningu dómsins.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2004.
Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 16. nóvember sl. á hendur ákærða, Jakob Þóri Jónssyni, kt. [...], Núpalind 2, Kópavogi, "fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa, þriðjudaginn 4. maí 2004, á leið austur Miklubraut í Reykjavík, beygt bifreiðinni ZV-120 af vinstri akrein áleiðis að frárein til hægri að Kringlunni án þess að hafa fært bifreiðina í tæka tíð á hægri akrein, án þess að gefa stefnumerki og án nægjanlegrar aðgæslu og í veg fyrir bifhjólið MF-392, sem ekið var austur Miklubraut á hægri akrein, með þeim afleiðingum að árekstur varð með ökutækjunum, ökumaður bifhjólsins; A, fæddur [...] 1973, kastaðist af hjólinu og hlaut eftirgreinda áverka: brot í spjaldbeini hægra megin með hliðrun, liðhlaup í vinstri spjaldlið með mikilli skekkju, innkýlt augnkarlsbrot vinstra megin um 8-10 cm inn í mjaðmagrindina með mjög umfangsmiklum kurluðum brotum allt um kring, liðhlaup ásamt miklum liðbandaáverkum í hægri ökkla, tognun og blæðingu í báðum hnjám, samfallsbrot á fjórum lendhryggjarliðum, rófubeinsbrot, ýmsa mar- og höggáverka víða um líkamann, lömun á ischiastaug með mikilli eða nánast algjörri veiklun á hreyfingum neðan við vinstra hné svo að fóturinn varð nánast óvirkur og lömun í hringvöðvum.
Telst þetta varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. og 2. mgr. 15. gr., 2. mgr. 17. gr., 1. mgr. 25. gr. og 2. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50,1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44,1993".
Málavextir
Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða.
Ákærði hefur greiðlega játað brot sitt og sakferill hans hefur ekki þýðingu hér. Á hinn bóginn verður að líta til þess að hann sýndi af sér vítavert skeytingarleysi í akstri bílsins og olli þannig gríðarmiklu og varanlegu líkamstjóni. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga. Rétt er að fresta því að framkvæma refsingu þessa og ákveða að hún falli niður að liðnum 2 árum frá dómsbirtingu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þá ber að dæma ákærða til þess að greiða 150.000 krónur í sekt og komi 26 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Dæma ber ákærða til þess að vera sviptur ökurétti í 2 ár frá dómsbirtingu að telja.
Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Jakob Þórir Jónsson, sæti fangelsi í 45 daga. Framkvæmda refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að liðnum 2 árum, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði greiði 150.000 krónur í sekt og komi 26 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Ákærði er sviptur ökurétti í 2 ár frá dómsbirtingu.
Ákærði greiði allan sakarkostnað.