Hæstiréttur íslands
Mál nr. 244/2011
Lykilorð
- Lánssamningur
- Ábyrgð
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 15. desember 2011. |
|
Nr. 244/2011.
|
Materia Invest ehf. Magnús Ármann og Kevin Gerald Stanford (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) gegn Arion banka hf. (Andri Árnason hrl. Karl Óttar Pétursson hdl.) |
Lánssamningur. Ábyrgð. Málsástæður.
A hf. höfðaði mál gegn MI ehf., MÁ og K til innheimtu á láni sem M ehf. hafði tekið hjá forvera A hf. til kaupa á hlutabréfum. Hlutabréfin voru sett A hf. að handveði til tryggingar skuldinni og gengust MÁ, K og Þ að auki í skipta sjálfsskuldarábyrgð fyrir henni. Ekki þóttu efni til að vísa málinu frá héraðsómi á þeim grunni að útreikningur stefnufjárhæðar væri rangur, enda hafði A hf. lagt fyrir héraðsdóm sundurliðaðan útreikning á kröfu sinni og hvorki höfðu mótmæli þá komið fram af hálfu MI ehf., MÁ eða K né hefði verið sýnt fram á að kröfugerð A hf. væri röng. Ekki var heldur fallist á að A hf. hefði vegna ákvæða 18. gr. laga nr. 91/1991 borið að beina kröfum að öllum ábyrgðarmönnum lánsins í einu dómsmáli. Einnig var því hafnað að A hf. hefði þurft að tiltaka hvernig bankinn hefði nýtt sér hlutabréfin sem sett voru til tryggingar greiðslu lánsins en fram kom í greinargerð MI ehf., MÁ og K fyrir Hæstarétti að bréfin hefðu verið verðlaus þegar A hf. gjaldfelldi lánið. Með vísan til framangreinds var ekki fallist á kröfu MI ehf., MÁ og K um frávísun málsins frá héraðsdómi. Þá var hvorki fallist á að A hf. hefði ranglega gjaldfellt lánið gagnvart MI ehf. né að A hf. hefði vanrækt að beina greiðsluáskorun að MÁ og K. Ekki þótti ástæða til að víkja samningum aðila til hliðar eða breyta þeim á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá var ekki talið hafa þýðingu að allar síður samningsins höfðu ekki verið undirritaðar af hálfu K með upphafsstöfum hans, að tveir menn höfðu ekki ritað undir samninginn af hálfu lánveitanda, að vottar höfðu ekki staðfest undirskriftir eða að K hafði aldrei fengið til undirritunar nein önnur gögn varðandi viðskiptin. Fyrir Hæstarétti komu of seint fram málsástæður af hálfu MI ehf., MÁ og K og komust þær því ekki að í málinu. Var því MI ehf. gert að greiða A hf. 6.391.527.484 krónur ásamt dráttarvöxtum en þar af MÁ og K hvorum um sig 240.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum sameiginlega með MI ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. apríl 2011. Þeir krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnda. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Að þessu frágengnu krefjast áfrýjendur þess að kröfur stefnda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerðu áfrýjandinn Materia Invest ehf. og Kaupþing banki hf. samning 16. nóvember 2005 um lán að fjárhæð 4.200.000.000 krónur, sem félagið tók hjá bankanum, en áfrýjendurnir Magnús Ármann og Kevin Gerald Stanford munu ásamt Þorsteini M. Jónssyni hafa verið hluthafar í því. Lán þetta, sem bar svokallaða tólf mánaða REIBOR vexti með 2,2% álagi, átti að endurgreiða í einu lagi 16. nóvember 2008, en vexti skyldi greiða árlega sama dag, í fyrsta sinn á árinu 2006 og síðast á gjalddaga höfuðstóls skuldarinnar. Í samningnum var tekið fram að verja ætti lánsfénu til kaupa á hlutabréfum í FL Group hf., hlutabréf í því félagi að nafnverði 404.411.765 krónur yrðu sett bankanum að handveði til tryggingar skuldinni og fyrrnefndir þrír hluthafar gengjust að auki í sjálfskuldarábyrgð fyrir henni pro rata. Þar voru einnig ákvæði um að lántakinn ábyrgðist að „tryggingarþekja í upphafi samnings“ væri að lágmarki 142% og 170% að teknu tilliti til sjálfskuldarábyrgða, svo og að tryggingin færi aldrei á lánstímanum niður fyrir 125% af skuldinni. Yrði misbrestur á því eða greiðsludráttur á vöxtum varað fimmtán daga eða lengur frá gjalddaga yrði bankanum heimilt „að segja öllu láninu upp einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakrar uppsagnar“. Kaupþing banki hf. gerði samhliða þessu tvo samninga 16. nóvember 2005, annars vegar við áfrýjandann Kevin Gerald Stanford og hins vegar við áfrýjandann Magnús Ármann og Þorstein M. Jónsson, þar sem kveðið var á um sjálfskuldarábyrgð hvers þeirra pro rata fyrir 240.000.000 krónum af skuld samkvæmt lánssamningnum. Ábyrgðin tæki til greiðslu höfuðstóls, vaxta og sérhverra annarra skuldbindinga lántakans eftir samningnum og bæri ábyrgðarmönnunum að standa skil á henni tafarlaust ef bankinn gerði kröfu um það. Loks gaf áfrýjandinn Materia Invest ehf. út yfirlýsingu sama dag, þar sem félagið setti áðurnefnd hlutabréf að handveði til Kaupþings banka hf. Í yfirlýsingunni voru meðal annars ákvæði um heimildir bankans til að ráðstafa veðinu að undangenginni áskorun til veðsalans með minnst fimm daga fyrirvara ef vanskil yrðu á greiðslu hvers kyns skuldbindinga hans við bankann. Það sama ætti við ef markaðsverð veðsins færi niður fyrir 150% þeirra skulda, sem veðréttur næði til, og veðsali yrði ekki innan fimmtán daga við kröfu bankans um að setja frekari tryggingar eða greiða niður skuld sína svo að það hlutfall héldist.
Áfrýjandinn Materia Invest ehf. og Kaupþing banki hf. gerðu 27. desember 2006 viðauka við framangreindan lánssamning, þar sem mælt var fyrir um frestun gjalddaga vaxta samkvæmt honum, sem átti að vera 16. nóvember sama ár, til 10. maí 2007. Síðastgreindan dag gerðu þeir sömu annan viðauka við lánssamninginn, þar sem ákveðið var að vextir, sem þá voru á gjalddaga, legðust við höfuðstól lánsins, gjalddagi vaxta 16. nóvember 2007 myndi falla niður, en nýr gjalddagi þeirra yrði 10. maí 2008.
Óumdeilt er að engar greiðslur hafi verið inntar af hendi til Kaupþings banka hf. samkvæmt því, sem kveðið var á um í lánssamningnum og viðaukum við hann. Í málatilbúnaði áfrýjenda fyrir Hæstarétti er því haldið fram að verðmæti hlutabréfa í FL Group hf., sem Kaupþing banki hf. naut veðréttar í samkvæmt framansögðu, hafi í desember 2007 verið komið niður fyrir þau mörk, sem áskilin voru í yfirlýsingunni um handveð frá 16. nóvember 2005. Þessu hefur stefndi ekki mótmælt, en fyrir liggur að bankinn kallaði hvorki eftir frekari tryggingum frá áfrýjandanum Materia Invest ehf. né neytti heimildar til að gjaldfella skuld samkvæmt lánssamningnum og leita fullnustu í veðinu af þessum sökum.
Í framhaldi af því að vextir voru ekki greiddir á gjalddaga 10. maí 2008 tilkynnti Kaupþing banki hf. áfrýjandanum Magnúsi Ármann með bréfi 24. júní sama ár að áfrýjandinn Materia Invest ehf. væri í vanskilum samkvæmt lánssamningnum 16. nóvember 2005. Af því tilefni var skorað á fyrrnefnda áfrýjandann að greiða bankanum innan fimm daga þær 240.000.000 krónur, sem hann hafi gengist í ábyrgð fyrir, að því viðlögðu að bankinn myndi fylgja eftir réttindum sínum gagnvart honum. Kaupþing banki hf. beindi sambærilegri áskorun til áfrýjandans Kevin Gerald Standford með bréfi 23. október 2008. Í málinu liggur ekki annað fyrir en að þessar áskoranir hafi borist áfrýjendunum.
Áður en síðastgreind áskorun var send hafði Fjármálaeftirlitið 9. október 2008 neytt heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Fjármálaeftirlitið tók síðan ákvörðun 21. sama mánaðar um ráðstöfun eigna og skulda bankans til Nýja Kaupþings banka hf., sem nú ber heiti stefnda. Óumdeilt er að réttindi Kaupþings banka hf. samkvæmt lánssamningnum 16. nóvember 2005 hafi á þessum grundvelli fallið til stefnda.
Stefndi höfðaði mál þetta með stefnu 9. febrúar 2009 og krafðist þess að áfrýjandanum Materia Invest ehf. yrði gert að greiða sér 6.407.779.008 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. maí 2008 til greiðsludags auk málskostnaðar. Þá krafðist stefndi þess einnig að áfrýjendurnir Magnús Ármann og Kevin Gerald Stanford yrðu ásamt Þorsteini M. Jónssyni dæmdir hver um sig til að greiða sér 240.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði eins og að framan greinir. Við þingfestingu málsins 14. maí 2009 lýsti stefndi því yfir að hann félli „frá öllum kröfum á hendur stefnda Þorsteini M. Jónssyni að svo stöddu“ og hefur málið staðið upp frá því milli stefnda og áfrýjenda einna. Í héraðsdómsstefnu sagði að kröfur þessar væru reistar á lánssamningi 16. nóvember 2005, sem var lýst stuttlega með því að getið var um dagsetningu hans, fjárhæð, vaxtakjör og gjalddaga ásamt því að sagt var frá áðurgreindum viðaukum við hann. Þess var og getið að vextir hafi ekki verið greiddir af láninu á umsömdum gjalddaga 10. maí 2008 og „var lánið gjaldfellt“, en ekki var tiltekið hvenær það hafi verið gert. Þá var tekið fram að áfrýjendurnir Magnús Ármann og Kevin Gerald Stanford hafi með Þorsteini M. Jónssyni gengist 16. nóvember 2005 í sjálfskuldarábyrgð hver um sig fyrir 240.000.000 krónum af skuldinni. Loks var greint frá því að „gjaldfallin skuld þann 27.01.2009 var ... kr. 5.090.238.725,- auk vaxta kr. 1.317.540.283,- samtals kr. 6.407.779.008,- sem er stefnufjárhæð máls þessa.“ Frekari lýsingu var þar ekki að finna á málsástæðum stefnda eða öðrum atvikum málsins.
Í héraði kröfðust áfrýjendur þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Þegar málið var munnlega flutt um þá kröfu 25. september 2009 var fært í þingbók að stefndi breytti kröfum sínum gagnvart öllum áfrýjendum á þann hátt að krafist væri dráttarvaxta frá 17. nóvember 2008. Héraðsdómur hafnaði kröfu áfrýjenda um frávísun málsins með úrskurði 14. október 2009. Þegar málið var tekið fyrir 30. nóvember sama ár breytti stefndi kröfu sinni á hendur áfrýjandanum Materia Invest ehf. á þann hátt að krafist væri að honum yrði gert að greiða 6.391.527.484 krónur með dráttarvöxtum frá 17. nóvember 2008. Einnig lagði stefndi fram útreikning á kröfunni, þar sem sundurliðað var hvernig umsamdir vextir hafi verið reiknaðir af skuldinni frá 17. nóvember 2005 til sama dags á árinu 2008, þar á meðal af höfuðstólsfærðum vöxtum, sem gjaldfrestur hafi verið veittur á. Eftir þetta var málinu tvívegis frestað þar til það var loks munnlega flutt að efni til 7. desember 2010, en við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms 21. janúar 2011, þar sem kröfur stefnda voru teknar til greina, var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
II
Aðalkrafa áfrýjenda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi er í fyrsta lagi reist á því að áfrýjandinn Materia Invest ehf. kveðst vera „þeirrar skoðunar að útreikningur stefnufjárhæðar sé rangur svo skeiki tugum milljóna“, svo sem komist er að orði í greinargerð þeirra fyrir Hæstarétti. Eins og áður greinir lagði stefndi fram í þinghaldi í nóvember 2009 sundurliðaðan útreikning á kröfu sinni á hendur þessum áfrýjanda og um leið yfirlit um REIBOR vexti á tímabilinu frá 17. nóvember 2005 til 8. maí 2008. Í hinum áfrýjaða dómi segir að engin mótmæli hafi komið fram af hendi áfrýjenda varðandi efni þessara gagna og hafi þeir ekki sýnt fram á að kröfugerð stefnda væri „tölulega röng.“ Þegar að þessu virtu eru engin efni til að verða við kröfu áfrýjenda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi á þessum grunni.
Í annan stað reisa áfrýjendur aðalkröfu sína á því að hvergi í málatilbúnaði stefnda hafi verið skýrt hvers vegna hann hafi fallið frá málsókn gegn Þorsteini M. Jónssyni og haldið samt til streitu kröfum gagnvart áfrýjendunum Magnúsi Ármann og Kevin Gerald Stanford sem ábyrgðarmönnum fyrir skuld áfrýjandans Materia Invest ehf., en hafi Þorsteinn greitt fjárhæðina, sem hann gekkst í ábyrgð fyrir, beri að draga hana frá kröfu á hendur síðastnefnda áfrýjandanum. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti stefndi yfir að Þorsteinn M. Jónsson hafi enga greiðslu innt af hendi og andmæltu áfrýjendur ekki þeirri staðhæfingu. Stefnda var í sjálfsvald sett hvort hann krefði einstaka ábyrgðarmenn um greiðslu þeirrar fjárhæðar, sem hver þeirra tók að sér með fyrrnefndum samningum 16. nóvember 2005, en ekki getur það haft nokkur áhrif á kröfu stefnda á hendur einum þeirra að látið sé hjá líða að beina kröfu að öðrum þeirra. Með öllu er haldlaust að stefnda hafi vegna ákvæða 18. gr. laga nr. 91/1991 borið að beina kröfum að öllum ábyrgðarmönnunum í einu dómsmáli, svo sem áfrýjendur héldu fram við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti, enda báru ábyrgðarmennirnir ekki óskipta skyldu í skilningi þess lagaákvæðis. Frávísun málsins kemur því ekki til álita á þessum grunni.
Loks styðja áfrýjendur aðalkröfu sína við það að hvorki komi fram í héraðsdómsstefnu né öðrum gögnum málsins hvort eða hvernig stefndi hafi nýtt sér tryggingu fyrir skuld áfrýjandans Materia Invest ehf., sem stefnda var sett með handveðsetningu hlutabréfa í FL Group hf., eða hvað hann hafi gert við þau, en andvirði þeirra þann dag, sem lánssamningur var gerður, hafi numið um 5.900.000.000 krónum. Um þessa röksemd er þess að gæta að í greinargerð áfrýjenda fyrir Hæstarétti segir meðal annars að loks „þegar stefndi gjaldfellir lánasamninginn í maí 2008 reynast bréfin í FL-Group verðlaus“ og er þá vandséð hverju það geti skipt að mati áfrýjenda hvað stefndi kunni að hafa gert við þessa tryggingu eftir þann tíma. Af málatilbúnaði stefnda orkar ekki tvímælis að þessi trygging hafi aldrei verið nýtt og hafa áfrýjendur ekki haldið því fram að hún sé nú nokkurs virði. Samkvæmt þessu og að virtu öðru því, sem að framan greinir, verður hafnað aðalkröfu áfrýjenda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.
III
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi báru áfrýjendur fyrir sig í héraði þær málsástæður fyrir kröfum um efni málsins að í fyrsta lagi hafi stefnda verið óheimilt að gjaldfella skuld áfrýjandans Materia Invest ehf. samkvæmt lánssamningnum frá 16. nóvember 2005 þegar í stað 13. maí 2008 vegna vanefnda á greiðslu vaxta af skuldinni 10. sama mánaðar, þar sem ekki hafi verið liðnir fimmtán dagar frá gjalddaga svo sem áskilið hafi verið í samningnum. Af þessum sökum gæti stefndi ekki haft uppi kröfu á hendur neinum áfrýjendanna. Þessu tengt var þess krafist til vara að stefnda yrði ekki dæmd hærri fjárhæð en sem næmi vöxtum, sem voru gjaldkræfir 10. maí 2008. Í öðru lagi bar áfrýjandinn Materia Invest ehf. að því er virðist fyrir sig að vegna krafna á hendur hinum áfrýjendunum tveimur um greiðslu á samtals 480.000.000 krónum væri stefndi að ofkrefja félagið um sömu fjárhæð. Í þriðja lagi báru áfrýjendurnir Magnús Ármann og Kevin Gerald Stanford fyrir sig að skylda þeirra gagnvart stefnda væri ekki orðin virk, þar sem hann hafi ekki beint að þeim greiðsluáskorun, svo sem áskilið hafi verið í samningum um ábyrgð þeirra á skuld þriðja áfrýjandans. Jafnframt að víkja ætti til hliðar ábyrgðarskuldbindingum þessara tveggja áfrýjenda á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum. Þess er loks að geta að áfrýjandinn Kevin Gerald Stanford bar því einnig við að ábyrgð sín væri ekki gild, þar sem hann hafi ekki ritað undir hverja síðu yfirlýsingar um hana, ekki hafi tveir menn ritað undir samninginn af hálfu Kaupþings banka hf. svo sem nauðsyn hefði borið til, engir vottar hafi staðfest undirskriftir á samningnum og áfrýjandinn hafi aldrei fengið til undirritunar nein önnur gögn varðandi þessi viðskipti. Í hinum áfrýjaða dómi var þessum málsástæðum öllum hafnað. Til viðbótar þeim röksemdum, sem þar greinir, er þess að gæta að eins og málið lá fyrir í héraði þegar það var tekið til dóms var ekki unnt að líta svo á að stefndi bæri því í raun lengur við að skuld áfrýjenda við sig hefði verið gjaldfelld vegna vanefnda á greiðslu vaxta á gjalddaga 10. maí 2008, enda var skuldin öll komin í gjalddaga samkvæmt meginefni lánssamningsins, sem um ræðir í málinu, þegar það var höfðað með stefnu 9. febrúar 2009 og tók endanleg krafa stefnda um dráttarvexti af henni mið af því. Með þessari athugasemd eru ekki haldbær rök til annars en að fallast á niðurstöðu héraðsdóms um þessar málsástæður áfrýjenda.
Fyrir Hæstarétti hafa áfrýjendur til viðbótar framangreindu borið því við til stuðnings kröfum um sýknu að Kaupþing banki hf. hafi glatað rétti gagnvart þeim með því að hafa ekki gjaldfellt kröfu sína þegar verðmæti hlutabréfa í FL Group hf., sem sett voru að veði til tryggingar skuld við bankann, hafi fallið í verði umfram það, sem áskilið hafi verið í samningum þeirra, og notað andvirði bréfanna til greiðslu kröfunnar. Til vara halda áfrýjendur því fram að lækka eigi kröfur stefnda af þessum sökum. Þessari málsástæðu, sem ekki var haldið fram í héraði, verður ekki komið að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Þá hélt áfrýjandinn Kevin Gerald Standford fram þeirri málsástæðu við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að samningur, sem hann hafi gert við Kaupþing banka hf. 13. mars 2009 og lagður var fyrir réttinn með bréfi áfrýjandans 6. desember 2011, fæli í sér að fullnaðaruppgjör hefði farið fram milli þeirra meðal annars á þeirri skuld, sem málið tekur til. Ekki eru efni til annars en að ætla að áfrýjandanum hafi verið kunnugt um þennan samning sinn þegar hann tók til varna fyrir héraðsdómi með greinargerð, sem lögð var fram í þinghaldi 25. júní 2009, en þar var samningsins í engu getið fremur en í málatilbúnaði hans að öðru leyti, allt fram að munnlegum flutningi málsins fyrir Hæstarétti. Með vísan til síðastgreinds lagaákvæðis fer því fjarri að málsástæða á þessum grunni geti komist að í málinu.
Samkvæmt því, sem að framan greinir, verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjendum verður í sameiningu gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Materia Invest ehf., Magnús Ármann og Kevin Gerald Stanford, greiði í sameiningu stefnda, Arion banka hf., 2.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. desember sl., var þingfest 14. maí 2009.
Stefnandi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.
Stefndu eru Materia Invest ehf., Valhúsabraut 15, Seltjarnarnesi, Magnús Ármann, Laufásvegi 69, Reykjavík og Kevin Gerald Stanford, The Dower House, Roydon Hall Lane East Peckham, Near Tonbridge, TN12 5NK Kent, Bretlandi.
Dómkröfur
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Materia Invest ehf., verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 6.391.527.484 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 17. nóvember 2008 til greiðsludags.
Einnig er þess krafist að stefndi, Magnús Ármann, verði dæmdur til að greiða þar af in solidum með stefnda, Materia Invest ehf., skuld að fjárhæð 240.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 240.000.000 króna frá 17. nóvember 2008 til greiðsludags.
Þá er þess krafist að stefndi, Kevin Gerald Stanford, verði dæmdur til að greiða þar af in solidum með stefnda, Materia Invest ehf., skuld að fjárhæð 240.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 240.000.000 króna frá 17. nóvember 2008 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Stefndi, Materia Invest ehf., krefst þess aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndu, Magnús og Kevin, krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða málskostnað til hvors þeirra um sig samkvæmt mati dómsins. Til vara er krafist sýknu að svo stöddu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða málskostnað til hvors þeirra um sig samkvæmt mati dómsins.
Stefndu, Magnús og Kevin, krefjast þess, í öllum tilvikum, að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu þeirra til greiðslu virðisaukaskatts af lögmannsþóknun.
Hinn 14. október 2009 var kveðinn upp í málinu úrskurður þar sem frávísunarkröfu stefnda var hafnað.
Málavextir
Ágreiningur í máli þessu snýst um lánssamning sem Kaupþing banki hf. og stefndi, Materia Invest, gerðu með sér 16. nóvember 2005. Samkvæmt lánssamningnum veitti stefnandi, þá Kaupþing banki hf., stefnda, Materia Invest ehf., lán að fjárhæð 4.200.000.000 króna. Þá lýtur ágreiningur jafnframt að samningum um sjálfskuldarábyrgð sem gerðir voru í tengslum við lánveitinguna og eru á milli stefnanda og stefndu Magnúsar Ármann og Kevins Stanford
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á lánssamningi á milli Kaupþings banka hf. og stefnda, Materia Invest ehf., með sjálfskuldarábyrgð Magnúsar Ármann, og Kevin Gerald Stanford.
Hinn 16. nóvember 2005 hafi Kaupþing banki hf. og Materia Invest ehf. gert með sér lánssamning að fjárhæð 4.200.000.000 króna. Lánið skyldi endurgreiða með einni greiðslu þann 16. nóvember 2008. Lánið skyldi bera breytilega vexti sem væru12 mánaða REIBOR vextir eins og þeir ákvarðast hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil tveimur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 2,2% vaxtaálagi. Vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi lánsins og greiðast eftir á á 12 mánaða fresti út lánstímann, í fyrsta skipti þann 16. nóvember 2006. Síðasta vaxtatímabil skyldi enda á síðasta gjalddaga lánsins.
Samkvæmt viðauka við lánssamninginn, dags. 27. desember 2006, hafi vaxtagjalddagi lánsins verið framlengdur frá 16. nóvember 2006 til 10. maí 2007. Hinn 10. maí 2007 hafi svo aftur verið gerður viðauki við lánasamninginn og vextir sem gjaldfallnir hafi verið á þeim tíma færðir aftur til lokagreiðslu lánsins. Greiðslu vaxta sem skyldu gjaldfalla 16. nóvember var frestað og skyldi koma til ný vaxtagreiðsla hinn 10. maí 2008. Þar sem sú greiðsla hafi ekki verið greidd hafi lánið verið gjaldfellt.
Samkvæmt grein 3.4. skyldi greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags.
Stefnandi kveður gjaldfallna skuld hafa, hinn 27. janúar 2009, numið 5.083.655.560 krónum, auk vaxta að fjárhæð 1.307.871.925 krónur, eða samtals 6.391.527.484 krónum, sem sé stefnufjárhæð máls þessa.
Hinn 16. nóvember 2005 hafi stefndu, Magnús og Kevin, tekist á hendur ábyrgð vegna greiðslu umrædds lánasamnings. Ábyrgð hvors um sig skyldi ekki vera hærri en 240.000.000 króna eða samtals 720.000.000 króna samkvæmt samningi þar um. Samkvæmt gr. 3.4. í lánasamningnum skyldi greiða dráttarvexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags.
Með heimild í lögum nr. 125/2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið þá ákvörðun að taka yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., og víkja stjórn bankans og skipa skilanefnd yfir hann. Ákvörðun þessi sé dagsett 9. október 2008. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 22. október 2008, hafi Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til stefnanda.
Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Vísað sé til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum númer 7/1936. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðjist við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísist til 42. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefndu og lagarök
Materia Invest ehf.
Stefndi bendir á að í stefnu segi að stefndi, Materia Invest ehf., hafi vanefnt vaxtagreiðslu hinn 10. maí 2008 og því hafi allt lán hans verið gjaldfellt. Í stefnu sé hins vegar ekki tekið fram á hvaða ákvæði lánasamningsins gjaldfellingin hafi byggst. Neyðist stefndu því til þess að geta sér til um það.
Ef gjaldfelling hafi farið fram samkvæmt gr. 8.1. (a) í lánasamningnum, sé Kaupþingi banka hf. heimilt að segja öllu láninu upp einhliða, fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakrar uppsagnar, hafi vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta varað lengur en í 15 daga. Með hliðsjón af orðalagi ákvæðisins verði að telja líklegast að gjaldfelling sé á því byggð.
Samkvæmt ákvæðinu hafi gjaldfelling ekki verið heimil fyrr en 15 dögum eftir vanefnd, hinn 25. maí 2008. Í stefnu sé ekki getið um tímasetningu gjaldfellingar eða hve lengi vanskil höfðu varað fyrir gjaldfellingu. Lögmæt gjaldfelling lánsins í heild sinni sé forsenda þess að stefndi, Materia Invest, beri ábyrgð á greiðslu þess alls, en ekki bara þeirrar einstöku greiðslu sem meint vanefnd sé á. Þar sem ekki sé greint frá því í stefnu hver sé upphæð hinnar vanefndu vaxtagreiðslu, sé stefnda, Materia Invest ehf., ómögulegt að taka afstöðu til fjárhæðar kröfunnar. Sé af þessari ástæðu krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Sé vararakrafa um lækkun krafna stefnanda á því byggð að stefndi geti í mesta lagi borið ábyrgð á þeirri vaxtagreiðslu sem vanefnd var, en ekki allri skuldinni. Lækka beri kröfur stefnanda sem þessu nemi.
Enn fremur bendir stefndi, Materia Invest ehf., á að í stefnu sé þess krafist að félagið verði dæmt til greiðslu stefnukröfunnar auk dráttarvaxta. Þá sé þess einnig krafist að ábyrgðarmennirnir tveir, Magnús og Kevin, verði dæmdir in solidum með stefnda, Materia Invest ehf., til greiðslu á 240.000.000 króna auk dráttarvaxta. Telur stefndi að ef fallist yrði á kröfugerð stefnanda óbreytta væri sú staða uppi að félagið yrði gert ábyrgt fyrir greiðslu 480.000.000 króna til viðbótar við hina meintu gjaldföllnu skuld. Beri því að lækka kröfur stefnanda verulega.
Magnús Ármann og Kevin Gerald Stanford
Stefndu byggja á því að möguleg ábyrgð þeirra sem ábyrgðarmanna sé bundin við að vanefnd hafi orðið á greiðsluskyldu aðalskuldara, stefnda, Materia Invest. Því byggi ábyrgðarmennirnir á sömu mótmælum og stefndi, Materia Invest, sem rakin eru hér að framan.
Málsástæður fyrir sýknukröfu sem varða ábyrgðarmennina sérstaklega séu að auki eftirfarandi:
Stefndi Kevin telji ábyrgðarsamning, sem byggt sé á af hálfu stefnanda um ábyrgð stefnda, óskuldbindandi. Í fyrsta lagi sé undirritun samningsaðila ekki á öllum blaðsíðum samningsins. Í öðru lagi hafi samningurinn einungis verið undirritaður af einum manni f.h. Kaupþings, en ekki tveimur, eins og nauðsynlegt hafi verið, og gert hafi verið í samningi við aðra ábyrgðarmenn. Í þriðja lagi sé skjalið óvottað. Undirstrikað sé að allt ofangreint sé frábrugðið samningi við aðra ábyrgðarmenn og í andstöðu við þær ríku kröfur sem gerðar séu til fjármálafyrirtækja á borð við stefnanda. Þá hafi stefndi Kevin ekki fengið til undirritunar nein önnur skjöl málsins, hvorki um greiðslu vaxta né annað. Undirritun hans sé því ekki að finna á neinum öðrum skjölum. Beri því að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda.
Þá telji ábyrgðarmennirnir báðir að ábyrgð þeirra geti einungis numið þeirri vaxtaupphæð sem aðalskuldari hefur vanefnt, sbr. ofangreindar málsástæður Materia Invest.
Greiðsluskylda ábyrgðarmanna samkvæmt ábyrgðarsamningum stofnist ekki fyrr en a) við vanefnd aðalskuldara, sbr. 2.1. gr. ábyrgðarsamninga b) í kjölfar greiðsluáskorunar stefnanda til ábyrgðarmanna vegna slíkrar vanefndar sbr. 2.1.-2.2. gr. ábyrgðarsamninga. Um fyrra atriðið vísist til málsástæðna meðstefnda, Materia Invest, um ólögmæta gjaldfellingu láns að ofan. Ef fallist sé á þær málsástæður beri einnig að sýkna ábyrgðarmennina alfarið af kröfum stefnanda.
Í 2.1. gr. í ábyrgðarsamningum segi: „If the Company shall make default in payment of any principal, interest or any other moneys owing to Kaupthing Bank under Loan Agreement as and when the same becomes due and payable, then the Guarantors shall forthwith on demand by Kaupthing Bank pay to Kaupthing Bank the principal, interest and other moneys in default.“ Í gr. 2.2. segi enn fremur að einungis eftir að greiðsluáskorun hafi verið beint til ábyrgðarmanna, og slík innheimta sé árangurslaus, sé Kaupþingi banka hf. mögulegt að neyta annarra úrræða til heimtu greiðslunnar, s.s. höfðun dómsmáls: „If the Guarantors shall fail fortwith on demand to make good any such default, Kaupthing Bank may in its discretion proceed with the enforcement of its rights hereunder and may proceed to enforce such rights or from time to time thereof prior to, contemporaneously with or after any action taken under the Loan Agreement or any security or other documents delivered by the Company to Kaupthing. The Guarantors shall pay on demand all costs and expenses and other moneys payable hereunder and all proceedings taken in relation hereto.“
Í stefnu sé því ekki haldið fram að greiðsluáskorun hafi verið send ábyrgðarmönnum fyrir málshöfðun samkvæmt ákvæðum 2.1. gr. ábyrgðarsamninga. Samkvæmt 4.1. gr. ábyrgðarsamninga séu tilkynningar formbundnar og hafi borið að senda þær til ábyrgðarmanna með ábyrgðarpósti á starfsstöð Materia Invest ehf. við Laufásveg 69, 101 Reykjavík, „Attn. Magnús Ármann“. Þar sem greiðsluáskorun hafi ekki verið beint til ábyrgðarmanna fyrir málshöfðun í samræmi við ofangreind ákvæði, beri að sýkna þá að svo stöddu af öllum kröfum stefnanda samkvæmt 2. mgr. 26. gr. eml. Framangreindur áskilnaður um greiðsluáskorun og tilkynningu um vanefnd aðalskuldara fyrir málshöfðun gegn ábyrgðarmanni sé einnig í samræmi við meginreglur íslensks réttar, sbr. þau grunnrök sem hafi búið að baki lögfestingu 1. mgr. 7. gr. a) laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.
Hér sé jafnframt byggt á því að þar sem óljóst sé hvenær umrætt lán var gjaldfellt, sé einnig óljóst hvort efndatími greiðsluskyldu ábyrgðarmanna sé kominn.
Þá bendi stefndu á að strangar kröfur séu gerðar til starfsemi fjármálastofnana í íslenskum rétti. Stefnandi sé sérhæfður í lánveitingum og lánasamningum, hafi samið umrædda lánaskilmála og ábyrgðarsamning einhliða og hafi séð um alla framkvæmd. Samkvæmt andskýringarreglu samningaréttar beri því að skýra og túlka allan vafa stefndu í hag. Eigi það sérstaklega við um ábyrgðarmenn sem séu einstaklingar og ekki sjálfir lántakar í þessu máli.
Þá sé bent á að ákvæði 1.-3. gr. ábyrgðarsamninga séu mjög einhliða, stefnanda í hag, en ábyrgðarmönnum í óhag. Sérstaklega sé bent á ákvæði 1.1. gr., 1.2. gr. (mistök bankans í skjalagerð, þinglýsingu o.fl. séu á ábyrgð ábyrgðarmanna) 1.3. gr. (heildarafsal réttinda), 2.1., 2.2. gr. o.s.frv. Þróunin í íslenskum rétti hafi verið mjög í átt til aukinnar réttarverndar ábyrgðarmanna, sbr. t.d. þau sjónarmið sem búi að baki lögfestingu sérstakra laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og bráðabirgðaákvæði VII. kafla laganna sem heimili sérstaklega að víkja til hliðar ábyrgðarákvæðum í heild eða hluta, samkvæmt 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Þróunin hafi að sama skapi verið í átt til aukinna krafna til fjármálafyrirtækja. Með vísan til ákvæða 36. gr. samningalaga telji ábyrgðarmenn að líta beri fram hjá einhliða ákvæðum á borð við ofangreind við úrlausn málsins.
Stefndu telja allt á huldu um hvenær gjaldfelling lánsins hafi átt sér stað. Þá hafi greiðsluáskorun eða tilkynningu um vanefnd ekki verið beint til ábyrgðaraðila, sbr. 2.1. gr. ábyrgðarsamninga. Því beri að sýkna alla stefndu af dráttarvaxtakröfum stefnanda.
Loks sé vísað er til allra ofangreindra andmæla um sýknu, sýknu að svo stöddu og lækkun krafna.
Um málskostnað í aðal- og varakröfu vísi stefndu til 130. gr. eml.
Stefndu, Magnús og Kevin, bendi á að samkvæmt gr. 2.1-2.2. í ábyrgðarsamningnum hafi Kaupþingi banka hf., nú stefnanda, borið að krefja þá sérstaklega um greiðslu fyrir málshöfðun. Mál hafi nú verið höfðað í beinni andstöðu við þau ákvæði. Þegar af þeirri ástæðu telji stefndu, Magnús og Kevin, að ekki beri að fella á þá nokkurn kostnað vegna þessarar málshöfðunar.
Niðurstaða
Eins og rakið er í stefnu gerðu Kaupþing banki hf. og Materia Invest ehf. með sér lánssamning hinn 16. nóvember 2005. Samkvæmt samningnum fékk stefndi, Materia Invest ehf., að láni hjá Kaupþingi banka hf. 4.200.000.000 króna. Samkvæmt samningnum skuldbatt stefndi, Materia Invest ehf., sig til að endurgreiða lánið með einni greiðslu þann 16. nóvember 2008. Lánið skyldi bera breytilega vexti sem væru 12 mánaða REIBOR vextir eins og þeir ákvarðast hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil tveimur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 2,2% vaxtaálagi. Vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi lánsins og greiðast eftir á á 12 mánaða fresti út lánstímann, í fyrsta skipti hinn 16. nóvember 2006. Síðasta vaxtatímabil skyldi enda á síðasta gjalddaga lánsins.
Með viðauka við lánssamninginn, dags. 27. desember 2006, var vaxtagjalddagi lánsins framlengdur frá 16. nóvember 2006 til 10. maí 2007. Hinn 10. maí 2007 var svo aftur gerður viðauki við lánssamninginn og vextir sem gjaldfallnir voru fram að þeim tíma færðir aftur til lokagreiðslu lánsins. Greiðslu vaxta sem skyldu gjaldfalla 16. nóvember var frestað og skyldi koma til ný vaxtagreiðsla hinn 10. maí 2008.
Stefnandi byggir á því að þar sem sú greiðsla hafi ekki verið greidd hafi lánið verið gjaldfellt.
Í gr. 8.1a í samningi aðila segir að bankanum sé heimilt að segja öllu láninu upp einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakrar uppsagnar ef vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta hafa varað 15 daga eða lengur. Samkvæmt ákvæði þessu bar stefnanda því ekki að tilkynna stefnda, Materia Invest ehf., sérstaklega um gjaldfellingu lánsins.
Í þinghaldi hinn 6. nóvember 2009 lagði stefnandi fram útreikning á stöðu lánsins. Er þar að finna sundurliðun á kröfu stefnanda sem samanstendur af höfuðstól og vöxtum. Þá var einnig lagt fram yfirlit yfir Reibor vexti tímabilið 17. nóvember 2005 til 8. maí 2008 sem stefnandi kveðst hafa sótt af heimasíðu Seðlabanka Íslands. Engin mótmæli komu fram af hálfu stefndu varðandi efni þessara gagna og hafa stefndu ekki sýnt fram á að kröfugerð stefnanda sé tölulega röng.
Í þinghaldi hinn 30. nóvember 2009 gerði stefnandi breytingar á kröfugerð sinni til samræmis við útreikning á stöðu lánsins.
Stefndi, Materia Invest ehf., mótmælir því ekki að hafa tekið að láni 4.200.000.000 króna hjá stefnanda samkvæmt lánssamningi dags. 16. nóvember 2005. Af hálfu þessa stefnda hafa ekki komið fram neinar þær varnir er firra hann ábyrgð á greiðslu lánsins.
Hinn 16. nóvember 2005 undirritaði stefndi, Magnús Ármann, samning sem hann gerði við Kaupþing banka hf. Samingurinn er á ensku og ber yfirskriftina „Agreement og pro rata direkt payment guarantee.“ Samningurinn liggur frammi í málinu í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda og ber yfirskriftina „Samningur um pro rata sjálfskuldarábyrgð.“
Í samningnum kemur fram að með tilliti til lánssamnings milli Kaupþings banka hf. og Materia Invest ehf. sé það vilji ábyrgðarmanna að gangast í ábyrgð á skuldbindingum félagsins við Kaupþing banka hf. eins og hún sé sett fram í samningnum.
Í gr. 1.1 í samningnum segir að gegn ávinningi ábyrgist ábyrgðarmenn, og heiti Kaupþingi banka því skilyrðislaust, að félagið muni greiða Kaupþingi banka eins og vera ber og á réttum tíma allar skuldir og skuldbindingar, núverandi eða í framtíðinni, beinar eða óbeinar, skilyrðislausar eða skilyrtar, gjaldfallnar eða ekki, sem félagið skuldi Kaupþingi banka á hverjum tíma í samræmi við, vegna eða í tengslum við lánssamninginn eða skuldar samkvæmt honum þegar þær falla í gjalddaga samkvæmt skilmálum lánasamningsins.
Í gr. 1.2 segir að ábyrgðarmenn staðfesti að þeim hafi veri kynntir skilmálar lánssamningsins og fallist á og samþykki þá.
Í gr. 2.1 í umræddum samningi segir að standi félagið ekki skil á greiðslum þegar þær falla í gjalddaga skuli ábyrgðarmenn, að kröfu Kaupþings banka, tafarlaust greiða Kaupþingi banka það fé sem er í vanskilum. Í gr. 2.2 segir síðan að bæti ábyrgðarmenn ekki tafarlaust úr sérhverri slíkri vanefnd þegar þess er krafist, geti Kaupþing banki að vild hafist handa við að leita fullnustu réttinda sinna samkvæmt samningnum. Í gr. 4.1 er fjallað um hvenær tilkynningar samkvæmt samningnum teljast afhentar með óyggjandi hætti.
Með bréfi stefnanda, dags. 24. júní 2008, sem Magnús Ármann áritar um móttöku 24. júní 2008, var honum tilkynnt að Materia Invest ehf. hefði ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lánssamningi, dags. 16. nóvember 2005, og honum tilkynnt að hann sé þar með, sem sjálfskuldarábyrgðarmaður, ábyrgur fyrir greiðslu á 240.000.000 króna. Þá segir að verði greiðsla ekki innt af hendi innan 5 daga muni stefnandi knýja fram rétt sinn gagnvart honum á grundvelli ábyrgðarinnar án frekari viðvörunar. Var því gætt ákvæða gr. 2.1, 2.2 og 4.1 í samningi aðila. Eins og rakið er hér að framan vanefndi stefndi, Materia Invest ehf., lánssamninginn. Ber stefndi, Magnús Ármann, samkvæmt fyrrgreindum samningi sínum við stefnanda, sjálfskuldarábyrgð á greiðslu 240.000.000 króna af lánsfjárhæðinni.
Stefndi, Kevin Stanford, undirritaði samning um sjálfskuldarábyrgð sem er samhljóða þeim er Magnús Ármann gerði við stefnanda og áður er fjallað um. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að skuldbindingargildi samnings sé háð því að sá sem skuldbindur sig samkvæmt samningi riti upphafsstafi sína á hverja síðu samningsins. Stefndi Kevin undirritar samninginn og hefur undirritun hans á samninginn ekki verið vefengd. Verður því ekki séð að það hafi þýðingu að skjalið var óvottað. Samningurinn er undirritaður af hálfu Kaupþings banka hf. Hefur stefnandi ekki haldið því fram að sú undirritun væri óskuldbindandi fyrir bankann.
Í málinu liggur frammi afrit af bréfi sem stefnandi sendi stefnda Kevin 23. október 2008 og krefur hann um greiðslu í samræmi við samning um sjálfskuldarábyrgð. Er bréfið samhljóða bréfi því er stefnda Magnúsi var sent 24. júní 2008 en efni þess er rakið hér að framan. Verður ekki ráðið af málatilbúnaði stefnda að hann haldi því fram að bréfið hafi ekki borist honum. Stefnandi hefur lagt fram með afriti bréfsins til stefnda Kevins tölvuútprentun frá DHL þar sem ferill sendingar er rakinn. Kemur þar fram að sending er móttekin 24. október 2008 og afhent í Maidstone-UK 27. október 2008. Þykir því sýnt fram á að stefndi hafi móttekið umrætt kröfubréf stefnanda og voru ákvæði g. 2.1, 2.2 og 4.1 því uppfyllt af hálfu stefnanda gagnvart stefnda Kevin.
Stefndi, Materia Invest ehf. vanefndi lánssamninginn, eins og áður segir. Ber stefndi, Kevin Stanford því, samkvæmt samningi sínum við stefnanda, sjálfskuldarábyrgð á greiðslu 240.000.000 króna af lánsfjárhæðinni.
Stefndu hafa ekki sýnt fram á að nein þau atvik hafi verið fyrir hendi við samningsgerðina sem leitt geti til þess að samningum aðila verði vikið til hliðar eða breytt á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Samkvæmt framansögðu ber því að taka til greina kröfur stefnanda á hendur stefndu í máli þessu.
Gjalddagi lánsins var samkvæmt samningi aðila 16. nóvember 2008. Ber því að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta frá 17. nóvember 2008.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefndu að greiða stefnanda in solidum málskostnað að fjárhæð 1.500.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Materia Invest ehf., greiði stefnanda, Arion banka hf., 6.391.527.484 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. nóvember 2008 til greiðsludags.
Þar af greiði stefndu, Magnús Ármann og Kevin Gerald Stanford, hvor um sig stefnanda, Arion banka hf., in solidum með stefnda, Materia Invest ehf., 240.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. nóvember 2008 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.