Hæstiréttur íslands

Mál nr. 305/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 5

 

Þriðjudaginn 5. júní 2007.

Nr. 305/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi var staðfestur þar sem skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 voru talin vera fyrir hendi. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. júní 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð ákæra 23. maí 2007 á hendur varnaraðila vegna þjófnaðar, tilraunar til þjófnaðar og fíkniefnalagabrots í desember 2006. Fallist er á með sóknaraðila að fyrir hendi séu skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og að ákærði skuli sæta áfram gæsluvarðhaldi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                            

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. júní nk. kl. 16.00. 

             Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögregla hafi til rannsóknar árás á leigubílstjóra aðfararnótt 27. apríl sl.  Á vettvangi hafi lögregla hitt fyrir leigubílstjórann og hafi hann verið með djúpt sár hægra megin á höfði og vankaður.  Kvaðst hann hafa tekið tvo unga menn upp í bílinn við bensínstöð N1 á Lækjargötu í Hafnarfirði og hafi þeir viljað fá far að Stakkholti í Reykjavík.  Þegar þangað var komið hafi mennirnir hótað honum og heimtað peninga, sem hann hafi ekki látið þá hafa.  Hafi þeir þá ráðist á hann og barið í höfuðið.  Hafi hann talið að notaður hefði verið hamar við árásina.  Leigubifreiðarstjórinn hafi hlotið af innkýlt höfuðkúpubrot og innvortis blæðingu á höfði. 

             Af lýsingum leigubílstjórans og framburðum vitna sem  hafi verið á N1 við Lækjargötu sé kærði grunaður í málinu.  Hafi vitni þar borið kennsl á kærða út frá ljósmynd. 

             Meðkærði í málinu, sem handtekinn var vegna málsins, hefur borið að hann ásamt kærða hafi tekið leigubíl við N1 á Lækjargötu í Hafnarfirði.  Er þeir hafi komið á áfangastað hafi kærði tekið upp hamar, lamið leigubílstjórann í tvígang að hann minnti í höfuðið og öskrað á hann að láta þá fá alla peningana sem hann væri með á sér. 

             Kærði hafi játað í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa barið leigubílstjórann í höfuðið með hamri umrætt sinn, en kannast ekki við að hafa heimtað af honum peninga.

             Áður en kærði var handtekinn vegna málsins hafi verið hann grunaður um að hafa farið inn í Sundhöll Reykjavíkur og tekið þaðan kveikjuláslykla bifreiðar og ekið bifreiðinni á ljósastaur við Sæbraut.  Lýsingar vitna af aðila sem hafi verið í Sundhöllinni á þeim tíma sem lyklarnir voru teknir benda til þess að kærði hafi verið að verki, auk þess sem bifreiðin hafi fundist skammt frá heimili kærða, þar sem hann hafi verið handtekinn í kjölfarið.  Við handtöku hafi kærði verið í mjög slæmu ástandi, þ.e. undir miklum áhrifum lyfja og / eða fíkniefna og því grunur um akstur undir áhrifum slíkra efna.  Kvaðst kærði í skýrslutöku hjá lögreglu ekki muna eftir greindu atviki.

             Sterkur rökstuddur grunur sé fyrir hendi þess efnis að kærði hafi m.a. framið brot gegn 252. gr. og 211., sbr. 20. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981, sem getur varðað allt að 16 ára eða ævilöngu fangelsi.  Verið sé að rannsaka rán og gróft ofbeldisbrot, þar sem beitt hafi verið stórhættulegu vopni gegn höfði brotaþola, sem hafi hlotið af mjög alvarlega áverka. 

             Telji lögreglustjóri brotið vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. 

             Kærði var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-607/2007 sakfelldur fyrir hilmingu og ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í tvö ár.  Þann 23. maí sl. var dómtekið í Héraðsdómi Reykjaness mál S-64/2007 þar sem kærða voru gefin að sök þrjú rán, sbr. ákærur útgefnar af ríkissaksóknara þann 17. apríl sl. og þjófnaður og nytjastuldur, sbr. ákæru útgefna af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 22. mars 2007.

             Þann 1. apríl sl. hafði lögregla afskipti af kærða, þar sem hann með tekinn með lyf og fíkniefni í vörslum sínum og var að mati lögreglu sýnilega undir áhrifum fíkniefna, eins og við handtöku aðfararnótt 27. apríl sl. 

             Kærði varð 15 ára þann 23. október sl. og öll fyrrnefnd ætluð brot því framin eftir þann tíma.  Þykir lögreglu sýnt að gangi kærði laus muni hann halda áfram brotum. 

             Af hálfu lögreglustjórans er vísað til framangreinds, úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur í máli R-233/2007, hjálagðra gagna og c liðar 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

             Með hliðsjón af rannsóknargögnum málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um aðild kærða að broti því sem honum er gefið að sök og er til rannsóknar hjá lögreglu, en brotið getur varðað fangelsisrefsingu. Jafnframt verður að telja líklegt að kærði haldi áfram brotastarfsemi auk þess sem fallast má á að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.  Er því fullnægt skilyrðum c- liðar 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Er því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

             Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                 Kærði, X skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. júní nk. kl. 16.00.