Hæstiréttur íslands

Mál nr. 69/2003


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Tilraun
  • Skjalafals
  • Fjársvik
  • Hegningarauki
  • Ítrekun
  • Vanaafbrotamaður


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. júní 2003.

Nr. 69/2003.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Sævari Arnfjörð Hreiðarssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Þjófnaður. Tilraun. Skjalafals. Fjársvik. Hegningarauki. Ítrekun. Vanaafbrotamaður.

S var sakfelldur fyrir þjófnaðarbrot sem og tilraunir til þjófnaða, skjalafals, fjársvik. Við ákvörðun refsingar S var litið til þess að brotin voru mörg og vörðuðu sum töluverðar fjárhæðir. Hafði S, sem var vanaafbrotamaður, margsinnis verið dæmdur fyrir ýmis auðgunarbrot, meðal annars með dómum Hæstaréttar frá 15. nóvember 2001 og 14. febrúar 2002. Voru brotin framin áður en síðastgreindir dómar voru kveðnir upp. Var S því dæmdur hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Höfðu margir dómanna ítrekunaráhrif á brot hans, sbr. 71. gr. laganna. Var refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði með vísan til 72. gr. og 255. gr., sbr. 77. gr. þeirra laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. janúar 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða fyrir þá háttsemi, sem greinir í II. kafla ákæru 12. febrúar 2002, og refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af II. kafla framangreindrar ákæru, en til vara að refsing hans verði milduð.

I.

Lögreglustjórinn í Reykjavík höfðaði mál þetta á hendur ákærða með fjórum ákærum 6. og 29. nóvember 2001, 11. desember sama árs og 12. febrúar 2002.  Með fyrstu ákærunni var ákærði sakaður í 1. og 2. tölulið um tvö þjófnaðarbrot 22. júní 2001, annars vegar í 1. lið með því að hafa stolið nánar tilgreindum munum, að verðmæti samtals um 35.000 krónur, úr íbúð að Karlagötu 17 í Reykjavík, en hins vegar í 2. lið með því að nota heimildarlaust í hraðbanka debetkort nafngreindrar konu í þremur tilvikum og færa jafnmargar greiðslur, samtals að fjárhæð 3.500 krónur, af bankareikningi hennar. Þá var honum gefin að sök hylming í 3. lið ákærunnar. Í hinum áfrýjaða dómi var hann sakfelldur fyrir þjófnaðarbrotin, en sýknaður af hylmingu.

Í I. kafla ákæru 29. nóvember 2001 var ákærði í fimm liðum borinn sökum um þjófnað á Akureyri á ýmsum þar greindum munum aðfaranótt 13. maí 2001. Í 1. lið hennar með því að hafa farið inn í bifreiðina LP-703, þar sem hún stóð við hús við Rauðumýri, í 2., 4. og 5. lið farið inn í þrjár nánar greindar íbúðir á Akureyri og loks í 3. lið farið inn í íbúðarhús þar í bæ. Í II. kafla ákærunnar var hann sakaður í þremur liðum um fjögur þjófnaðarbrot og fjársvik 13. ágúst 2001 í Reykjavík. Í 1. lið hennar með því að hafa stolið ýmsum munum, meðal annars seðlaveski með 5.000 krónum, greiðslukorti og tékkhefti og samkvæmt 2. lið stolið samtals 34.000 krónum með því að nota í heimildarleysi í þremur hraðbönkum tvö debetkort nafngreindrar konu í þrjú skipti og færa jafnmargar greiðslur af reikningi hennar við tvo nánar greinda banka. Þá var hann í 3. lið sakaður um fjársvik með því að hafa notað, úr tékkhefti sem hann hafði tekið ófrjálsri hendi, þrjá tékka, að fjárhæð samtals 100.000 krónur, á veitingastaðnum Club Goldfinger í Kópavogi í viðskiptum sínum þar við tvær nafngreindar konur. Í héraðsdómi var ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem hann var borinn sökum í þessari ákæru að undanskilinni þeirri sem um getur í 2. lið I. kafla hennar.

Með ákæru 11. desember 2001 var ákærða gefinn að sök þjófnaður með því að hafa stolið matvöru 10. nóvember 2001 að fjárhæð rúmar 3.000 krónur úr verslun við Laugaveg í Reykjavík. Var hann í héraði sakfelldur fyrir þá háttsemi. Þá var hann með I. kafla ákæru 12. febrúar 2002 sakaður um skjalafals 25. ágúst 2001, en var sýkn af þeirri háttsemi í hinum áfrýjaða dómi.

Ákæruvaldið unir niðurstöðu héraðsdóms um að ákærði skuli vera sýkn af ákæruliðunum í 3. lið ákæru 6. nóvember 2001, 2. lið I. kafla ákæru 29. nóvember sama árs, I. kafla, 2. lið III. kafla og IV. kafla ákæru 12. febrúar 2002. Ákærði hefur játað þá háttsemi, sem hann var sakfelldur fyrir í héraðsdómi, að undanskilinni þeirri sem greinir í II. kafla ákæru 12. febrúar 2002. Eru samkvæmt öllu framanröktu og að virtri kröfugerð málsaðila til meðferðar fyrir Hæstarétti tvö þjófnaðarbrot hans framin 22. júní 2001, átta sams konar brot framin 13. maí og 13. ágúst sama árs og þrjú fjársvikabrot síðastgreindan dag, þjófnaðarbrot hans 3. október 2001 og tuttugu og fjórar tilraunir hans til þjófnaðar, skjalafals og fjársvik hans og loks þjófnaðarbrot hans 21. október og 10. nóvember sama árs.

II.

Í 1. lið II. kafla ákæru 12. febrúar 2002 var ákærða gefinn að sök þjófnaður með því að hafa aðfaranótt 3. október 2001 farið í hraðbanka Íslandsbanka hf. í Kringlunni 4-12 í Reykjavík og stolið 15.000 krónum með því að nota heimildarlaust kreditkort Gísla Gunnarssonar og látið skuldfæra fjárhæðina á reikning hans hjá greiðslukortafyrirtækinu Europay Íslandi hf.

Þegar héraðsdómari bar sakarefnið í 1. lið II. kafla ákæru 12. febrúar 2002 undir ákærða kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa tekið 15.000 krónur út úr hraðbanka Íslandsbanka hf. í Kringlunni 4-12. Í framburði Gísla hjá lögreglu kom fram að umrædda nótt hafi veski með greiðslukortum verið stolið úr íbúð hans. Samkvæmt gögnum frá greiðslukortafyrirtækinu mun úttektin hafa átt sér stað kl. 4.28 hinn 3. október 2001. Í 2. lið II. kafla sömu ákæru er ákærði í fimm liðum sakaður um tilraun til þjófnaðar með því að hafa þá um nóttina í fimm hraðbönkum reynt í alls tuttugu og fjögur skipti að taka út peninga með því að nota í heimildarleysi framangreint kreditkort með því að slá inn leyninúmeri fyrir kortið og tilteknum fjárhæðum, en úttektum var hafnað vegna takmörkunar á heimild til skuldfærslu fjárhæðanna á bankareikning mannsins.

Samkvæmt gögnum frá greiðslukortafyrirtækinu áttu tvær tilraunanna sér stað kl. 4.49 í hraðbanka Landsbanka Íslands hf. á Hótel Loftleiðum, þrjár á tímabilinu frá kl. 5.14 til 5.16 í hraðbanka Íslandsbanka hf. við Smiðjuveg, fimm á tímabilinu frá kl. 6.52 til 6.58 í hraðbanka Landsbanka Íslands hf. í Háskólabíói, sjö í hraðbanka Búnaðarbanka Íslands hf. við Vesturgötu 54, annars vegar kl. 7.07 og hins vegar á tímabilinu frá kl. 8.25 til 8.29 og sjö tilraunir í hraðbanka Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis við Álfabakka 14, fyrst á tímabilinu frá kl. 10.00 til 10.01, þá kl. 11.27 og loks á tímabilinu frá kl. 12.38 til kl. 12.39. Í 3. lið II. kafla síðastgreindrar ákæru var ákærða gefið að sök skjalafals með því að hafa framvísað debetkorti áðurnefnds manns við greiðslu fyrir akstur með leigubifreið að andvirði 1.910 krónur og falsað þar nafnið „Gísli G“ á greiðslukortanótu og látið skuldfæra andvirðið á reikning mannsins hjá Íslandsbanka hf. Samkvæmt gögnum bankans áttu fyrrgreind viðskipti sér stað kl. 7.10 aðfaranótt 3. október 2001. Loks eru honum í 4. lið þessa kafla ákærunnar gefin að sök fjársvik með því að hafa í viðskiptum við Kaffivagninn Grandagarði, bifreiðastöðina Hreyfil svf. og hárgreiðslustofuna Möggurnar í Mjódd við Álfabakka látið í heimildarleysi skuldfæra andvirðið á bankareikning fyrrgreinds manns hjá Íslandsbanka hf. með því að framvísa við greiðslu debetkorti hans fyrir viðkomandi reikning. Samkvæmt gögnum frá Íslandsbanka hf. munu viðskiptin hafa átt sér stað sama dag kl. 6.29, 8.32 og 11.27.

III.

          Í málinu liggja fyrir myndir úr öryggismyndavél við hraðbanka Landsbanka Íslands hf. í Háskólabíói, sem eru tímamerktar á tímabilinu frá kl. 6.52 til 6.58. Þegar lögregla tók skýrslu af ákærða kvað hann myndirnar greinilega vera af sér, en hann myndi ekki eftir því að hafa reynt að taka út af greiðslukorti á umræddum stað. Fyrir dómi kvaðst hann geta hafa verið að nota sitt eigið kort. Aðspurður um áðurnefndar tilraunir til að taka út reiðufé úr hraðbönkum síðar um morguninn svaraði ákærði því til að hann hafi verið að athuga hvort lagt hafi verið inn á sinn eigin reikning. Í málinu liggur jafnframt fyrir kvittun frá bifreiðastöðinni Hreyfli svf. fyrir akstur á tímabilinu frá kl. 6.46 til 7.10. Fyrir dómi kvaðst leigubifreiðarstjórinn, sem ók umrædda ferð, hafa tekið upp mann á Hringbraut á móts við JL-húsið. Hafi maðurinn óskað eftir því að hann æki sér í hraðbanka. Hafi hann ekið manninum að hraðbanka Landsbanka Íslands hf. við Hótel Sögu. Ráðgerðir mannsins hafi ekki gengið eftir og hann því ekið honum að hraðbanka Búnaðarbanka Íslands hf. við Vesturgötu. Það hafi heldur ekki gengið og hann þá ekið manninum að Kaffivagninum á Grandagarði, þar sem hann hafi greitt fyrir aksturinn með greiðslukortinu. Þegar mynd af ákærða var lögð fyrir vitnið kvað það myndina í fljótu bragði ekki líkjast ákærða, en þó gæti hann ekki fullyrt það þar sem umrætt sinn hafi verið rökkur. Þá kom fyrir dóm starfsmaður hárgreiðslustofunnar Möggurnar í Mjódd. Kvað hún mann, sem hafi sagst vera að vestan, hafa komið í klippingu og litun. Hann hafi verið „með ofsalega lítið hár, eiginlega bara hérna hringinn... sem ...ég klippti... mjög snöggt og litaði það dökkt”. Hafi hann sagst vera skírður „í höfuðið á“ firði, en hún myndi ekki nafnið á firðinum. Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa greitt fyrir viðskipti á þessari hárgreiðslustofu en sagðist ekki muna hvenær þau fóru fram.

Með myndum af ákærða í hraðbanka Landsbanka Íslands hf. í Háskólabíói, sem ber saman við upplýsingar frá bankanum um hvenær tilraunir voru gerðar til að taka út reiðufé úr hraðbankanum með greiðslukorti Gísla Gunnarssonar og fyrrgreindum framburði leigubifreiðarstjórans, er fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um tilraunir til þjófnaðar í hraðbanka Landsbanka Íslands hf. í Háskólabíói og Búnaðarbanka Íslands hf. við Vesturgötu 52 samkvæmt 2. lið II. kafla ákæru 12. febrúar 2002 svo og skjalafals samkvæmt 3. lið þess kafla. Jafnframt er með framburði starfsmanns hárgreiðslustofunnar Möggurnar í Mjódd og gögnum frá bankanum nægilega sannað að ákærði hafi verið þar á ferð. Verður hann því einnig sakfelldur fyrir fjársvik gagnvart hárgreiðslustofunni. Þegar litið er til þess að tilraunirnar sjö í hraðbanka Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis við Álfabakka og greiðslan til leigubifreiðastjórans, sem innt var af hendi kl. 08.32, fóru fram á svipuðum tíma og ákærði hafði undir höndum greiðslukort Gísla Gunnarssonar þykir ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi einnig gerst sekur um fjársvik gagnvart bifreiðastöðinni Hreyfli svf. og tilraunir til þjófnaða úr hraðbanka Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis við Álfabakka 14. Á hinn bóginn liggja ekki fyrir gögn sem tengja ákærða með ótvíræðum hætti við þjófnað í hraðbanka Íslandsbanka hf. í Kringlunni 4-12 svo og tilraunir til þjófnaða úr hraðbanka Landsbanka Íslands hf. á Hótel Loftleiðum og Íslandsbanka hf. við Smiðjuveg, en þessi brot voru hin fyrstu sem framin voru með greiðslukortunum umrædda nótt, skömmu eftir að þeim var stolið á heimili Gísla Gunnarssonar. Verður ákærði því sýknaður af liðum 1., 2.1 og 2.2 í II. kafla ákærunnar.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1975 gengist undir fjórar sáttir og hlotið 37 refsidóma, þar af 5 vegna umferðarlagabrota og 32 fyrir ýmis hegningarlagabrot, aðallega þjófnað, fjársvik og skjalafals. Með þessum dómum hefur hann hlotið óskilorðsbundið fangelsi í samtals 19 ár og 9 mánuði. Ákærði var dæmdur 18. nóvember 1997 í fangelsi í 5 mánuði fyrir þjófnað og skjalafals og 15. janúar 1999 í fangelsi í 6 mánuði fyrir þjófnað og umferðarlagabrot. Refsing ákærða samkvæmt síðargreindum dómi var staðfest með dómi Hæstaréttar 3. júní 1999, en 4. maí sama árs hafði hann verið dæmdur fyrir þjófnað, skemmdarverk og umferðarlagabrot, en ekki gerð sérstök refsing. Hann var dæmdur 3. september 1999 í fangelsi í 2 mánuði fyrir fjársvik og umferðarlagabrot. Enn hlaut hann tvo dóma þetta sama ár, þann fyrri 5. nóvember, fangelsi í 30 daga fyrir umferðarlagabrot, en þann síðari 15. desember fyrir fjársvik, en þá var honum ekki dæmd sérstök refsing. Hann hlaut fangelsi í 6 mánuði með dómi Hæstaréttar 15. nóvember 2001 fyrir líkamsárás, þjófnað, gripdeild, skemmdarverk, fjársvik, nytjastuld og umferðarlagabrot, en sá dómur var hegningarauki. Þá var hann dæmdur í Hæstarétti 14. febrúar 2002 í fangelsi í 5 mánuði, hegningarauki, fyrir líkamsárás og þjófnað. Loks var hann sakfelldur 1. mars 2002 í Héraðsdómi Reykjaness fyrir þjófnað, en ekki gerð sérstök refsing.

 Brot ákærða, sem hann hefur verið sakfelldur fyrir, eru mörg og sum varða töluverðar fjárhæðir. Þau voru framin á tímabilinu 13. maí til 10. nóvember 2001 og því öll áður en fyrrgreindir dómar Hæstaréttar frá 15. nóvember 2001 og 14. febrúar 2002 voru kveðnir upp. Ber því að ákveða honum hegningarauka eftir 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt hafa dómarnir frá 18. nóvember 1997, 15. janúar, 4. maí, 3. september og 15. desember 1999 ítrekunaráhrif á brot hans, sbr. 71. gr. laganna. Ákærði er vanaafbrotamaður, sem margsinnis hefur verið dæmdur fyrir ýmis auðgunarbrot. Verður refsing hans því einnig ákveðin með vísan til 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga og hún tiltekin í samræmi við ákvæði 77. gr. þeirra laga. Er hún samkvæmt framansögðu hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um greiðslu sakarkostnaðar verður staðfest. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Sævar Arnfjörð Hreiðarsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um greiðslu sakarkostnaðar skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2002.

          Mál þetta var höfðað með fjórum ákærum Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettum 6. og 29. nóvember, 11. desember 2001 og 12. febrúar 2002, á hendur Sævari Arnfjörð Hreiðarssyni, kt. 230954-5935, Skúlagötu 54, Reykjavík.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 24. fyrra mánaðar. 

          Í fyrstu ákærunni er fjallað um:  “... brot framin í Reykjavík föstudaginn 22. júní 2001:

1.       Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt framangreinds dags í íbúð að Karlagötu 17 stolið bakpoka, bók, GSM síma, klukku, pilsi og kassa sem í voru greiðslukort, símakort, vegabréf og bankabækur auk persónulegra muna, samtals að verðmæti um kr. 35.000.

2.       Þjófnað, með því að hafa um morguninn í hraðbanka Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Skólavörðustíg 11, í þremur færslum stolið samtals kr. 3.500 af bankareikningi Bergljótar Elíasdóttur, með því að nota heimildarlaust debetkort hennar fyrir viðkomandi reikning, sem ákærði hafði komist yfir ófrjálsri hendi sbr. lið i, og heimildarlaust slegið inn leyninúmer fyrir kortið. 

3.       Hylmingu, með því að hafa um hádegi við Hlemmtorg tekið við úr höndum Hjartar Hjartarsonar kr. 5.000 í peningum þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að nefndur Hjörtur hafði skömmu áður stolið peningunum ásamt veski, sem þeir voru í. 

          Brotin í liðum 1 og 2 teljast varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og brotið í lið 3 við 254. gr. sömu laga. ”

          Í annarri ákærunni er fjallað um:  “... eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2001, nema annað sé tekið fram: 

          I  Þjófnaði framda á Akureyri aðfaranótt sunnudagsins 13. maí:

          Farið inn í bifreiðina LP-703 við Rauðumýri 11 og stolið GSM síma og ferðageislaspilara.

          Farið inn í íbúð að Strandgötu 45 og stolið leðurhandtösku sem í var veski með um kr. 11.500 í peningum auk persónulegra muna og 2 pökkum af lyfjum.

          Farið inn í íbúðarhúsið að Grænumýri 18 og stolið svefnpoka, 2 seðlaveskjum sem í voru samtals kr. 9.000 í peningum auk greiðslukorta og tékkheftis og 6 bjórdósum.

          Farið inn í íbúð að Engimýri 2 og stolið GSM síma og kúrekahatti.

          Farið inn í íbúð að Hafnarstræti 79 og stolið GSM síma, hleðslutæki fyrir GSM síma, hálsmeni, 3 armböndum og geisladiskahulstri sem í var 21 geisladiskur.

          Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. 

          II  Eftirtalin brot framin aðfaranótt mánudagsins 13. ágúst.

          Þjófnað, með því að hafa stolið snyrtibuddu ásamt snyrtivörum, seðlaveski sem í voru kr. 5.000 í peningum, debetkort og tékkhefti og þráðlausum síma í íbúð að Eskihlíð 14a

          Þjófnaði, með því að hafa stolið samtals kr. 34.000 í eftirtöldum hraðbönkum með því að nota heimildarlaust neðangreind debetkort Kristjönu Rúsu Snæland fyrir viðkomandi bankareikninga hennar og heimildarlaust slegið inn leyninúmer fyrir kortin, sem ákærði hafði tekið ófrjálsri hendi, sbr. lið 1:

          Debetkort fyrir reikning hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, í hraðbanka Landsbanka Íslands hf., Langholtsvegi, með 2 færslum samtals kr. 4.000.

          Debetkort fyrir reikning hjá Íslandsbanka hf., í hraðbanka Landsbanka Íslands hf., Langholtsvegi, með 1 færslu samtals kr. 15.000.

          Debetkort fyrir reikning hjá Íslandsbanka hf., í hraðbanka Sparisjóðs Kópavogs, Hlíðarsmára 19, Kópavogi, með 2 færslum samtals kr. 15.000. 

          Fjársvik, með því að hafa á veitingastaðnum Club Goldfinger, Smiðjuvegi 14, Kópavogi, notað í viðskiptum við neðangreindar konur 3 tékka sem ákærði ritaði í eigin nafni sem útgefandi á eftirtalin eyðublöð úr tékkhefti frá Íslandsbanka hf., Kirkjusandi, Reykjavík, sem ákærði hafði tekið ófrjálsri hendi sbr. lið 1:

          Við Amöndu Vannan, kt. 130272-2579, tékka nr. 5538862, að fjárhæð kr. 40.000 og nr. 5538863, að fjárhæð kr. 30.000.

          Við Veru Heinemane, kt. 080164-3199, tékka nr. 5538864, að fjárhæð kr. 30.000.

          Framangreind brot í liðum 1 og 2 teljast varða við 244. gr. almennra hegningarlaga og brotið í lið 3 við 248. gr. sömu laga.”

          Í þriðju ákærunni er ákærði talinn hafa gerst sekur um þjófnað:  “... að hafa laugardaginn 10. nóvember 2001 stolið lambalæri og 2 dósum af kjötbollum, samtals að verðmæti kr. 3.093, í versluninni 11-11, Laugavegi 116, Reykjavík.

          Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.”

          Loks er í fjórðu ákærunni fjallað um:  “... brot framin í Reykjavík á árinu 2001:

          I  Skjalafals, með því að hafa laugardaginn 25. ágúst framvísað við greiðslu í eftirtöldum verslunum í verslunarmiðstöðinni Kringlan, Kringlunni 8-12, debetkorti Stefáns Júlíusar Arthurssonar frá Europay Ísland og falsað undirritanir á greiðslukortanótur, svo sem að neðan greinir, og látið skuldfæra andvirðið á viðkomandi reikning nefnds Stefáns Júlíusar númer 517-26-6024 hjá Íslandsbanka hf.:

1.  Í Hagkaup, ritað "S" og annað er ólæsilegt á nótu númer 1723564, að fjárhæð kr. 5.599,

2.  Í Nýkaup, ritað "Stefan" á nótu númer 725211, að fjárhæð kr. 102.

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

          II  Aðfaranótt miðvikudagsins 3. október:

1.  Þjófnað, með því að hafa í hraðbanka Íslandsbanka hf., Kringlunni 4-12, stolið kr. 15.000, með því að nota heimildarlaust kreditkort Gísla Gunnarssonar frá Europay Ísland, heimildarlaust slegið inn leyninúmer fyrir kortið, og látið skuldfæra fjárhæðina á viðkomandi reikning nefnds Gísla hjá greiðslukortafyrirtækinu.

          Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

2.  Tilraunir til þjófnaða, með því að hafa í neðangreindum hraðbönkum reynt í alls 24 skipti að taka út peninga með því nota í heimildarleysi framangreint kreditkort Gísla Gunnarssonar frá Europay Ísland og heimildarlaust slegið inn leyninúmer fyrir kortið og úttektarfjárhæðir, en úttektum var hafnað vegna takmörkunar á heimild til að láta skuldfæra úttektarfjárhæðirnar á viðkomandi reikning nefnds Gísla hjá greiðslukortafyrirtækinu:

2.1.  Landsbanka Íslands hf., Hótel Loftleiðum, í 2 tilraunum, samtals að fjárhæð kr. 15.000.

2.2.  Íslandsbanka hf., Smiðjuvegi 1, Kópavog, í 3 tilraunum, samtals að fjárhæð kr. 22.000.

2.3.  Landsbanka Íslands hf., Vesturbæjarútibúi, Háskólabíói, í 5 tilraunum, samtals að fjárhæð kr. 50.500.

2.4.  Búnaðarbanka Íslands hf., Vesturgötu 54, í 7 tilraunum, samtals að fjárhæð kr. 44.000.

2.5.  Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Álfabakka 14, Mjóddinni, í 7 tilraunum, samtals að fjárhæð kr.  95.000.

          Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga.

3.  Skjalafals, með því að hafa framvísað við greiðslu fyrir akstur í leigubifreið að andvirði kr. 1.910 debetkorti Gísla Gunnarssonar frá Europay Ísland og falsað þar nafnið ,,Gísli G" á greiðslukortanótu  nr. 505, og látið skuldfæra andvirðið á viðkomandi bankareikning nefnds Gísla númer 515-26-77453 hjá Íslandsbanka hf.

          Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.

4.  Fjársvik, með því að hafa í viðskiptum við neðangreind fyrirtæki látið í heimildarleysi skuldfæra andvirðið á bankareikning framangreinds Gísla númer 515-26-77453 hjá Íslandsbanka hf. með því að framvísa við greiðslu framangreindu debetkorti Gísla fyrir viðkomandi reikning:

4.1.  Kaffivagninn, Grandagarði 10, að fjárhæð kr. 500.

4.2.  Bifreiðastöðina Hreyfil-Bæjarleiðir, Fellsmúla 26, að fjárhæð kr. 820.

4.3.  Hárgreiðslustofuna Möggurnar í Mjódd, Álfabakka 12, að fjárhæð 4.700.

          Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.

III  Eftirtalin brot framin sunnudaginn 21. október:

1.  Þjófnað, með því að hafa stolið 2 eftirlíkingum af "sjóræningjabyssum", 2 GSM

símum og 2 plastrenningum með safnmynt, í Perlunni í Öskjuhlíð.

          Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

2.  Vopnalagabrot, með því að hafa í Perlunni í Öskjuhlíð haft undir höndum án tilskilins leyfis 2 eftirlíkingar af "sjóræningjabyssum", sem ákærði hafði stolið skömmu áður sbr. lið 1 , borið þær á almannafæri og undir áhrifum áfengis. 

          Telst þetta varða við 1. mgr. 20. gr. og 1. og 2. mgr. 21. gr., sbr. g-lið 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16, 1998.

IV  Þjófnaði að morgni miðvikudagsins 21. nóvember:

1.  Stolið skólatösku sem innihélt grafíska reiknitölvu, ritföng og skólabækur, samtals að verðmæti um kr. 50.000, í húsnæði Menntaskólans við Hamrahlíð, Hamrahlíð 10.

2.  Stuttu síðar brotist inn í íbúð að Hamrahlíð 35 í Reykjavík, með því að brjóta upp hurð, og stolið myndbandstæki og veski, samtals að verðmæti um kr. 15.000.

          Framangreind brot teljast varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.”

          Ákæruvald krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.

          Þá er í fjórðu ákærunni lýst þessum skaðabótakröfum:

          Jóhann Heiðar Árnason, kt. 120583-5309, að fjárhæð kr. 50.000.

          Jóhannes G. Svavarsson, kt. 020144-3439, að fjárhæð kr. 65.000 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi sem var þann 21.11.2001 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

          Ákæra dagsett 6. nóvember 2001.

          Ákærði játaði þegar við þingfestingu ákærulið I og II.  Þriðja liðnum neitaði hann.  Hann kvaðst hafa tekið við þesssu fé hjá Hirti eins og segir í ákærunni, en hann hafi þá ekki vitað að féð væri stolið.  Hann hefði komist að því síðar. 

          Um þetta atriði voru ekki leidd vitni við meðferð málsins.  Hjörtur Hjartarson var ákærður fyrir þjófnað á umræddu veski og lauk því máli með dómi þar sem hann var sakfelldur.  Gegn neitun ákærða hafa ekki verið færð fram gögn sem styrkt geta þá ályktun að ákærða hafi verið kunnugt um að fé það sem hann tók við hafi verið þýfi.  Verður að sýkna ákærða af þessum lið.  Verður hann sakfelldur fyrir brot samkvæmt liðum I og II í þessari ákæru.  Þau eru réttilega færð til 244. gr. almennra hegningarlaga. 

          Ákæra dagsett 29. nóvember 2001.

          Ákærði játaði fyrir dómi alla þætti þessarar ákæru nema ákærulið I, 2.  Kvaðst hann ekkert kannast við að hafa farið inn í húsið að Strandgötu 45.  Um atriði þetta voru ekki færð fram nein sönnunargögn utan lögregluskýrslur.  Samkvæmt kæruskýrslu taldi kærandi, Sigrún Sigurjónsdóttir, að ákærði hefði brotist inn í íbúð hennar á neðri hæð greinds húss aðfaranótt 13. maí 2001.  Ekki er skýrt af gögnum hvernig kærandi tengdi ákærða við verknaðinn.  Brot sitt játaði ákærði hins vegar við yfirheyrslu hjá lögreglu síðdegis þann 13. maí.  Hins vegar er ekki skýrt af gögnum að á honum hafi fundist munir sem örugglega voru teknir í umræddu innbroti.  Verður að þessu virtu að sýkna ákærða af þessum lið ákærunnar.  Brot ákærða samkvæmt þessari ákæru eru að öðru leyti réttilega færð til 244. og 248. gr. almennra hegningarlaga. 

          Ákæra dagsett 11. desember 2001

          Ákærði játaði efni þessarar ákæru vera rétt.  Er sú játning í samræmi við gögn málsins.  Brotið er réttilega fært til 244. gr. almennra hegningarlaga í ákæru.

          Ákæra dagsett 12. febrúar 2002

          Liður I.

          Þann 3. september 2001 kærði Stefán Júlíus Arthúrsson þjófnað á debetkorti sínu til lögreglu.  Stefán grunaði ákærða um verknaðinn, en hann kvaðst hafa heimsótt ákærða í tjald í Öskjuhlíðinni aðfaranótt 25. ágúst.  Kortið var notað tvisvar þennan morgun, en kærandi kvaðst hafa tilkynnt það stolið um hádegið. 

          Ákærði kvaðst fyrir dómi hafa verið með Stefáni Júlíusi í Kringlunni þennan dag.  Hann neitaði að hafa ritað undir úttektarseðlana sem greinir í ákæru.  Stefán hafi gert það sjálfur.  Hann kvað það ranglega bókað að hann hefði játað við yfirheyrslu hjá lögreglu 18. september 2001 að hafa skrifað undir nóturnar fyrir Stefán þar sem hann hafi verið svo ölvaður. 

          Ákæran er byggð á framburði Stefáns Júlíusar hjá lögreglu 3. september eins og áður segir.  Staðfesti kærandi framburð sinn hjá lögreglu 24. janúar 2002.  Hann kom hins vegar ekki fyrir dóm.  Að því virtu er ekki fram komin næg sönnun fyrir sekt ákærða og verður hann því sýknaður af I. lið þessarar ákæru. 

          Liður II.

          Ákærði neitar sök samkvæmt þessum lið.  Fyrir dómi kvaðst hann ekki muna eftir neinu af þessum atriðum nema að hafa verið yfirheyrður um þau hjá lögreglu.  Hann kvaðst hafa farið á hárgreiðslustofuna Möggurnar í Mjódd, en kvaðst hafa borgað þar sjálfur.  Það kynni að hafa verið þennnan tilgreinda dag. 

          Hjá lögreglu bar ákærði um alla hluta þessa liðar að hann myndi ekki eftir þeim.  Hann neitaði hins vegar engum þeirra.  Bar hann þar fyrir sig að hann missti minnið ef hann drykki áfengi og tæki lyf samtímis. 

          Vitni voru leidd um þessi atriði. Harpa Birgisdóttir starfar á hárgreiðslustofunni.  Hún kvaðst hafa klippt mann og litað á honum hárið þann 3. október 2001.  Hún hafi ekki veitt honum sérstaka athygli.  Nokkrum dögum siðar hafi einhver annar hringt og sagt að borgað hefði verið með debetkorti sínu. 

          Harpa lýsti viðskiptavininum svo að hann hefði talað mjög mikið, hefði sagt sögur.  Hann hefði verið sköllóttur með kraga.  Hún hefði klippt það mjög snöggt og litað dökkt. 

          Einar Baxter, leigubifreiðarstjóri, kvaðst hafa tekið mann upp í bifreið sína að morgni 3. október.  Hann hafi komið í bílinn á móts við JL-húsið við Hringbraut og beðið um að hann yrði keyrður að hraðbanka.  Hann hafi fyrst farið í hraðbanka Landsbankans við Hótel Sögu og síðan í Búnaðarbankanum við Vesturgötu.  Honum hafi á hvorugum staðnum tekist að taka út peninga.  Hann hafi loks ekið manninum á Kaffivagninn og tekið við greiðslu með þessu sama korti.  Það hafi gengið í gegn. 

          Einari voru fyrir dómi sýndar myndir af ákærða og kvaðst hann í fljótu bragði ekki telja hann vera manninn. 

          Frammi liggja í málinu myndir sem unnar voru af myndbandsupptöku sem tekin var við hraðbanka í útibúi Landsbankans við Hagatorg þann 3. október kl. 6.52 til 6.58.  Greinilega er ákærði þar á ferð.  Samkvæmt útskrift um kort Gísla Gunnarssonar var reynt fimm sinnum að taka út fé með kortinu í þessum hraðbanka á þessum sama tíma.  Fyrsta tilraun er skráð klukkan 6.52.47, en sú síðasta klukkan 6.58.04.  Þessu næst er skráð tilraun í hraðbanka Búnaðabankans við Vesturgötu klukkan 7.07.  Fyrr þennan morgun eru skráðar tilraunir hjá Íslandsbanka í Kringlunni og á Smiðjuvegi og hjá Landsbankanum á Hótel Loftleiðum.  Síðar um morguninn og fram að hádegi eru skráðar tilraunir með kortinu í hraðbanka Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í Mjódd.  Allar þessar tilraunir eru taldar í ákæru. 

          Með ljósmynd af ákærða þar sem skráð er hvenær myndin er tekin og samanburði við tilraunir til úttekta með hinu stolna korti og framburðum vitnanna Einars Baxters og Hörpu Birgisdóttur, er sannað að ákærði hafi framið öll þau brot sem talin eru í þessum ákærulið.  Eru þau réttilega færð til refsiákvæða. 

          Liður III.

          Þennan ákærulið hefur ákærði játað fyrir dómi.  Fyrri hlutinn, þ.e. stuldur á tveimur eftirlíkingum af sjóræningjabyssum, símum og fleiri munum, varðar við 244. gr. almennra hegningarlaga eins og segir í ákæru. 

          Þá hefur ákærði játað að hafa borið þessar eftirlíkingar á sér á almannafæri og að hafa verið undir áhrifum áfengis.  Refsiákvæði þau sem vitnað er til í ákæru varða skotvopn.  Þessar eftirlíkingar eru ekki skotvopn og hinn tilgreindi g-liður 1. mgr. 2. gr. vopnalaga mælir ekki fyrir um að sömu reglur skuli gilda um skotvopn og um eftirlíkingar.  Verður ákærði því ekki sakfelldur fyrir brot gegn vopnalögum. 

          Liður IV.

          Hér er um að ræða tvö þjófnaðarbrot sem sögð eru framin að morgni miðviku­dagsins 21. nóvember 2001.  Ákærði neitar sök. 

          Um fyrri liðinn, það er stuld á skólatösku í húsakynnum Mennstaskólans við Hamrahlíð, hafa verið leidd vitni.  Ákærði segir sjálfur að hann hafi ekki verið þarna á ferð.  Einar Már Júlíusson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann er kennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð.  Hann kvaðst muna eftir því að um morguninn 21. nóvember 2001 hafi hann tekið eftir manni í skólanum sem honum hafi fundist ólíklegt að væri nemandi.  Hann hafi ekki litið vel út og verið illa til reika.  Maður þessi hafi tekið upp tösku og kvaðst Einar þá hafa gefið sig á tal við hann.  Maðurinn hafi sagt að hann væri að leita að dóttur sinni.  Hafi hann gefið upp nafn hennar og sitt eigið nafn og símanúmer.  Vitnið kvað þetta nafn ekki hafa verið í nemendaskrá og símanúmerið hafi verið óskráð, en hann hafi kannað það strax.  Hafi hann þá reynt að ná til mannsins, en hann hafi þá verið horfinn.  Hann hafi kannað hvort einhver saknaði tösku sinnar og þá hafi Jóhann Heiðar Árnason gefið sig fram. 

          Nánar lýsti vitnið umræddum manni sem grannvöxnum og nokkuð teknum.  Hann hafi verið sköllóttur með hárkraga, dökkt hár.

          Jóhann Heiðar Árnason gaf skýrslu fyrir dómi. Ekki er þörf á að rekja framburð hans, en hann staðfesti að hann hefði glatað tösku sinni þennan morgun.  Sagði hann að töskunni hefðu verið ýmsar kennslubækur og skriffæri, glósur og grafískur vasareiknir. 

          Ákærði synjaði ekki fyrir brot þetta hjá lögreglu.  Skýrsla vitnisins Einars Más Júlíussonar er skýr, einkum lýsing hans á útliti mannsins sem hann sá með skólatösku, sem svarar til ákærða í megindráttum.  En gegn neitun ákærða fyrir dómi er ekki fram komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi framið brot þetta og verður hann því að sýkna hann af þessum lið.  Bótakröfu Jóhanns Heiðars Árnasonar verður þá vísað frá dómi. 

          Um síðari liðinn, það er þjófnað úr íbúð í Hamrahlíð 35 þennan sama dag eru ekki nákvæm sönnunargögn.  Brotaþoli, Jóhannes G. Svavarsson, benti strax á að hann grunaði ákærða um þjófnaðinn, en skýringar hafa ekki komið fram á þeim grun hans.  Veski fannst á ákærða sem er sömu gerðar og veski sem stolið var frá Jóhannesi í þessu tilviki. 

          Ekki sást til ferða ákærða á vettvangi.  Þá eru skýrslur um þjófnaðinn nokkuð á reiki.  Er ekki framin komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi stolið úr íbúðinni í Hamrahlíð 35.  Verður einnig að sýkna hann af síðari lið IV. liðar þessarar ákæru.  Því verður að vísa frá dómi bótakröfu Jóhannesar G. Svavarssonar.

          Viðurlög o.fl. 

          Ákærði er vanaafbrotamaður.  Hann var dæmdur til að sæta fangelsi í 10 mánuði óskilorðsbundið í sakadómi Reykjavíkur 10. júlí 1975.  Síðan hefur hann reglulega sætt refsingum.  Síðast var með dómi Hæstaréttar 14. febrúar sl. ákveðin 5 mánaða fangelsisrefsing vegna brota gegn 244. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.  Var refsing þessi ákveðin sem hegningarauki við dóm Hæstaréttar frá 15. nóvember 2001, þar sem refsing var ákveðin fanglesi í sex mánuði fyrir fáein brot gegn almennum hegningarlögum.  Verður enn að ákveða hegningarauka. 

          Ákærði er með þessum dómi sakfelldur fyrir fjölda auðgunarbrota, en hvert um sig varðar ekki háar fjárhæðir.  Er í nokkrum tilvikum um innbrot á heimili að ræða.  Ber að ákveða refsingu samkvæmt reglum 77. og 78. gr. almennra hegingarlaga, en jafnframt að taka tillit til 71., 72. og 255. gr. sömu laga.  Verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í tólf mánuði. 

          Þá verður ákærða gert að greiða allan sakarkostnað.  Málsvarnarlaun verjanda hans eru ákveðin 150.000 krónur. 

          Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

          Ákærði, Sævar Arnfjörð Hreiðarsson, sæti fangelsi í tólf mánuði.

          Skaðabótakröfum Jóhanns Heiðars Árnasonar og Jóhannesar G. Svavarssonar er vísað frá dómi. 

          Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.