Hæstiréttur íslands
Mál nr. 578/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 9. nóvember 2006. |
|
Nr. 578/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Grímur Sigurðarson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 21. nóvember 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, [kt. og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 21. nóvember 2006, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík rannsaki meint fíkniefnalagabrot kærða sem varði innflutning á fíkniefnum til landsins þann 12. og 13. október sl. Hinn 12. október sl. hafi þeir A [kt], B [kt.], verið handteknir eftir komuna til landsins frá Kaupmannahöfn. Þeir hafi verið handteknir í bifreiðinni [...] á Bústaðavegi við Reykjanesbraut. Í bifreiðinni hafi fundist fíkniefni. Þeir hafi báðir játað aðild sína að framangreindum innflutningi fíkniefna. Sé nánar vísað til framburðarskýrslna. Hinn 13. október sl. hafi svo C, [kt.], verið handtekinn eftir komu til landsins frá Kaupmannahöfn. Í fórum hans hafi fundist fíkniefni. Hann hafi játað sök en hann hafi m.a. greint frá því að hann hafi flutt þau til landsins fyrir ónafngreinda aðila til að losna við fíkniefnaskuldir. Sé nánar vísað til framburðarskýrslna. Þann 24. október sl. hafi D, [kt.], verið handtekinn vegna málsins. D hafi játað tiltekna aðild sína að umræddum innflutningi og greint frá öðrum þáttum sem snúi að brotinu. Nánar sé vísað til framburðarskýrslu af D dags. 1. nóvember sl. Kærði hafi verið handtekinn og yfirheyrður í dag og neiti hann aðild að meintu broti. Nánar um framburð hans sé vísað til framburðarskýrslu kærða. Símagögn lögreglu bendi til þess að kærði hafi verið í samskiptum við D og gruni lögreglu að kærði hafi staðið að umræddum innflutningi, sbr. fyrirliggjandi greinargerðir í rannsóknargögnum.
Þyki kærði vera undir rökstuddum grun um aðild að fíkniefnabroti. Meint aðild kærða sé talin varða skipulagningu, fjármögnun og útvegun fíkniefnanna erlendis. Nauðsynlegt sé að upplýsa nánar um einstaka verknaðarþætti hinna grunuðu og um meinta aðild kærða að brotinu. Auk þess þurfi að rannsaka tengsl kærða við aðra meinta vitorðsmenn sem tengist málinu, hérlendis sem erlendis, óþekktir á þessu stigi, sem kunni að tengjast fjármögnun, kaupum á fíkniefnunum og ætlaðri móttöku og dreifingu efnanna hér á landi. Nauðsynlegt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi en ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem gangi lausir eða þeir geti sett sig í samband við hann eða kærði geti komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.
Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn málsins bera með sér er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað geta fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og fallist er á að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, gangi hann laus. Er því fallist á kröfu um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, [kt.], sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 21. nóvember nk. kl. 16.00.