Hæstiréttur íslands

Mál nr. 551/2002


Lykilorð

  • Niðurfelling máls
  • Málshöfðun
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. september 2003.

Nr. 551/2002.

Sigurður Guðmundsson

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Ólínu Sigríði Einarsdóttur

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

og gagnsök

 

Niðurfelling máls. Málshöfðun. Gjafsókn.

Mál S gegn Ó var fellt niður að ósk málsaðila, sem jafnframt voru sammála um að leggja það í dóm um málskostnað. Rétt var talið að aðilarnir bæru hvor sinn kostnað af málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. desember 2002, en gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 14. febrúar 2003. Með bréfi 8. júlí sama árs tilkynntu aðilarnir að þeir hefðu gert samkomulag um að óska eftir að málið yrði fellt niður fyrir Hæstarétti að öðru leyti en því að það gengi til dóms um málskostnað. Gagnáfrýjandi krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 166. gr. sömu laga eins og henni var breytt með 20. gr. laga nr. 38/1994, er málið fellt niður fyrir Hæstarétti.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Mál þetta er fellt niður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda, Ólínu Sigríðar Einarsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.

 

                                               

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2002.

Mál þetta var höfðað 4. september 1991 og dómtekið 9. júlí 2002.

Stefnandi er Ólína Sigríður Einarsdóttir, kt. 190953-3439, Starrahólum 3 í Reykjavík en með dvalarstað að Geysi í Biskupstungnahreppi.

Stefndi er Sigurður Guðmundsson, kt. 040547-7469, Starrahólum 3 í Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi sé eigandi að helmings­hlut í fasteigninni Starrahólum 3 í Reykjavík með öllum réttindum og skyldum sem eigninni fylgja. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að viðurkennt verði með dómi að stefnandi sé eingöngu eigandi að 21,86% hlut í fasteigninni Starrahólum 3 í Reykjavík. Til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og að viðurkennt verði með dómi að stefnandi sé eigandi að öðrum og lægri eignarhlut en 50% í fasteigninni Starrahólum 3 í Reykjavík, allt eftir mati dómsins. Í báðum tilfellum gerir stefndi kröfu um málskostnað.

 

Málsatvik og helstu ágreiningsefni

Málsaðilar hófu sambúð á árinu 1997. Með kaupsamningi 17. júlí 1997 festu þau kaup á fasteigninni Starrahólum 3 í Reykjavík. Kjallaraíbúð í húsinu skyldi afhenda við undirskrift kaupsamningsins en húsið allt í síðasta lagi 30. ágúst 1997 og þá skyldi afsal gefið út. Kaupverðið var 13.500.000 krónur og skyldi greiða það með eftirfarandi hætti:

 

Við undirskrift kaupsamnings með peningum

370.000 krónur

Með framsali húsbréfa við undirskrift kaupsamnings

3.307.500 krónur

Með framsali húsbréfa við útgáfu afsals

761.814 krónur

Með yfirtöku áhvílandi veðskulda

9.060.686 krónur

Samtals

13.500.000 krónur

 

Í kaupsamningi, sem þinglýst var 21. júlí 1997, var tilgreint að hvor málsaðila væri eigandi að 50% eignarhluta í húsinu og var það í samræmi við kauptilboð dagsett 27. júní 1997. Í afsali dagsettu 3. september 1997 voru þau bæði skráð sem afsalshafar en eignarhlutföll ekki tilgreind. Málsaðilar hafa bæði talið fasteignina fram til skatts og hjá Fasteignamati ríkisins er hvort um sig skráð sem eignandi hálfrar fasteignarinnar.

Upplýst er í málinu að stefnandi seldi íbúð sína að Fögrukinn 24 í Hafnarfirði 10. júlí 1997. Kaupverðið var 11.450.000 krónur og var það greitt þannig að við útborgun voru afhent húsbréf að nafnverði 4.850.000 krónur en framreiknuð að verðmæti 5.323.845 krónur og 1.121.155 krónur í peningum. Kaupandi skyldi greiða 2.203.699 krónur í peningum 18. júlí 1997 og yfirtaka veðskuldir að verðmæti 2.801.301 krónu. Samkvæmt samningnum skuldbatt stefnda sig til þess að létta af fasteigninni tveimur veðskuldum. Annars vegar veðskuld á 1. veðrétti við Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar, upphaflega að fjárhæð ein milljón króna en að eftirstöðvum 897.000 krónur. Hins vegar veðskuld á 3. veðrétti við Íslandsbanka hf., upphaflega að fjárhæð 2,5 milljónir króna en að eftirstöðvum 2.341.592 krónur.

Upplýst er að stefndi greiddi þann hluta útborgunargreiðslu í fasteigninni Starrahólum 3 sem greiða átti í peningum eða 370.000 krónur. Stefnandi framseldi hins vegar til seljanda við undirritun samningsins húsbréf sem voru uppreiknuð miðað við 27. júní 1997 á 3.307.500 krónur og við undirritun afsals húsbréf, uppreiknuð með sama hætti á 761.814 krónur. Húsbréf þessi voru hluti af þeim húsbréfum sem stefnandi hafði fengið við sölu á fyrrnefndri íbúð að Fögrukinn 24.

Óumdeilt er að stefndi lánaði stefnanda eina milljón króna í tvennu lagi síðari hluta júní 1997 eða áður en hún seldi íbúð sína að Fögrukinn 24. Aðila greinir á um ástæðu lánveitingarinnar. Stefnandi kveður lánið hafa verið veitt vegna fjárhagserfiðleika sonar hennar. Stefndi telur lánið tengjast fjármögnun sameiginlegra fasteignakaupa. Lán þetta endurgreiddi stefnandi 9. mars 1998.

Stefnandi setti Íslandsbanka hf. að veði hluta af húsbréfum sem hún fékk við undirritun kaupsamnings vegna íbúðarinnar að Fögrukinn 24 til tryggingar afléttingu veðskuldar við bankann að eftirstöðvum 2.341.592 krónur. Hún hugðist hins vegar nota þessi húsbréf sem útborgunargreiðslu í fasteigninni Starrahólum 3. Þar sem stefnanda vantaði fé til að aflétta framangreindri veðskuld við Íslandsbanka hf. af íbúðinni að Fögrukinn 24 og fá þar með húsbréfin afhent lánaði stefndi henni 1.300.000 krónur 15. júlí 1997. Þetta fé og rúmlega eina milljón króna sem hún hafði fengið í peningum við söluna á Fögrukinn 24 notaði hún til þess að greiða upp veðskuldina og fékk þá húsbréfin afhent. Þetta lán endurgreiddi stefnandi stefnda þremur dögum síðar eða 18. júlí 1997 með andvirði hluta af framangreindum húsbréfum.

Stefnandi heldur því fram að hún hafi lánað vinkonu sinni veð í íbúðinni að Fögrukinn 24 fyrir skuld að eftirstöðvum 897.000 krónur á 1. veðrétti og hafi vinkona hennar flutt veðið af eigninni eftir að hún var seld. Sú veðskuld hafi því ekki komið til frádráttar því fé sem hún hafi haft til ráðstöfunar eftir söluna. Þessu til sönnunar hefur stefnandi lagt fram veðbandslausn þar sem meðal annars kemur fram að umrædd veðskuld hafi verið flutt á fasteignina Snæland 3 í Reykjavík.

Upplýst er að á sambúðartímanum átti stefndi einkahlutafélag sem festi kaup á íbúð að Ingólfsstræti 7 í Reykjavík og heldur stefndi því fram að íbúðin hafi síðar verið seld með hagnaði. Gögn liggja ekki fyrir um þessi viðskipti.

Þá keypti stefnandi á sambúðartímanum sumarbústað fyrir 600.000 krónur á nauðungarsölu og liggur fyrir í málinu afsal sýslumannsins á Selfossi til hennar dagsett 13. júlí 2000.

Í málinu liggur fyrir að stefndi seldi stefnanda 1. júlí 1998 bifreið sína BP-611 fyrir 920.000 krónur. Málsaðilar eru sammála um að ekki hafi staðið til að stefnandi greiddi kaupverðið og ekkert liggur fyrir um hvert raunverulegt verðmæti bifreiðarinnar var þegar bifreiðinni var afsalað. Stefnda hefur notað bifreið þessa síðan en kaupverðið hefur ekki verið greitt.

Fyrir liggur að fimm veðskuldir voru greiddar upp með samtals 1.690.364 krónum 21. júlí 1997 en aðila greinir á um hvort stefndi hafi einn innt af hendi greiðsluna eða hvort málsaðilar hafi greitt í sameiningu. Óumdeilt er hins vegar að stefndi greiddi einn niður húsbréfalán 6 desember 1999 með krónum 3.447.394 krónum.

Allar skuldir sem hvíldu á fasteigninni að Starrahólum 3 voru skráðar á stefnda eftir kaupin og allir gíróseðlar voru sendir á hans nafn. Málsaðilar töldu alla tíð fram til skatts hvort í sínu lagi. Í skattframtölum málsaðila vegna tekjuársins 1997 var skuldunum skipt en í skattframtölum vegna tekjuáranna 1998 og 1999 voru allar skuldirnar skráðar á stefnanda. Málsaðila greinir á um hver framlög þeirra til afborgana af veðskuldum voru. Málsaðila greinir einnig mjög á um framlög þeirra til endurbóta og viðhalds á fasteigninni, greiðslu rekstrarkostnaðar af fasteigninni og sameiginlegs heimilishalds.

Málsaðilar töldu fram til skatts hvort í sínu lagi á sambúðartímanum. Skattframtöl þeirra 1997-2000 hafa verið lögð fram í málinu og veita þau m.a. upplýsingar um tekjur málsaðila og eignastöðu við upphaf sambúðar. 

Af hálfu stefnanda hefur verið lagt fram yfirlit Sigurðar P. Sigurðssonar, löggilts endurskoðanda, yfir greiðslur hvors aðila um sig samkvæmt kaupsamningi og greiðslur af yfirteknum lánum samkvæmt kaupsamningi um Starrahóla 3. Þessar greiðslur hefur hann framreiknað miðað við breytingu neysluverðsvísitölu frá greiðslumánuði til ársloka 2001. Gengið er út frá því að stefndi hafi greitt upp lán að fjárhæð 3.447.394 krónur í desember 1999 en málsaðilar greitt önnur lán að jöfnu. Samkvæmt þessum forsendum eru framreiknaðar greiðslur stefnanda 8.198.969 krónur en stefnda 6.575.292. Endurskoðandinn hafnar því að taka tillit til vaxta við þessa útreikninga.

Af hálfu stefnda hafa verið lagðir fram útreikningar Stefáns Sigtryggssonar viðskiptafræðings á eignarhlutföllum málsaðila í Starrahólum 3 miðað við greiðslur hvors um sig vegna kaupa, reksturs og viðhalds fasteignarinnar. Inn í þá útreikninga eru teknar afborganir samkvæmt kaupsamningi, greiðsla af áhvílandi veðskuldum og uppgreiðsla þeirra en einnig greiðsla fasteignagjalds, trygginga, hita og rafmagns, kostnaður við viðhald og endurbætur, lánveitingar milli málsaðila og fyrrnefnd bifreiðakaup. Viðskiptafræðingurinn verðbætir greiðslurnar og reiknar af þeim vexti. Hann hefur borið að stefndi hafi aðeins verið skrifaður fyrir þeim greiðslum sem sannarlega hafi frá honum stafað en þær greiðslur sem vafi hafi verið um hafi verið taldar frá stefnanda komnar. Niðurstaða hans var sú að eignahlutfall stefnanda af skuldlausri eign miðað við 30. apríl 2001 hafi verið 21,86% en eignahlutfall stefnda 78,14%.

Málsaðilar hugðust ganga í hjónaband en af því varð ekki. Upp úr sambandi þeirra slitnaði í ársbyrjun 2001 en þau bjuggu þó bæði áfram í húsinu þar til stefndi flutti út í lok júní. Stefnandi flutti úr húsinu í lok ágúst 2001 og stóð það síðan autt þar til stefndi flutti þangað í ársbyrjun 2002.

Áhvílandi veðskuldir á fasteign málsaðila hafa verið í vanskilum síðustu mánuði og hefur verið krafist nauðungarsölu á eigninni.

 

Málsástæður og lagarök málsaðila

Af hálfu stefnanda er á því byggt að til hafi staðið að aðilar gengju í hjónaband og hafi sú ætlun verið sýnd í verki með sambúð og sameiginlegum fasteignakaupum. Fjárhagur þeirra hafi í reynd verið sameiginlegur á sambúðartíma og eignir þeirra og tekjur jöfnum höndum verið notaðar til að fjármagna fasteignakaupin, reka fasteignina, greiða afborganir og standa undir heimilisrekstri að öðru leyti. Stefnandi hafi að mestu séð um matarinnkaup og útgjöld til heimilis en stefndi fyrstu árin aðallega um greiðslu afborgana af áhvílandi lánum á eigninni. Fjármagn til þessara hluta hafi hins vegar komið frá báðum aðilum, eftir því sem efni hafi verið til. Frá miðju ári 2000 hafi stefndi hætt afskiptum af greiðslu lána, þau lent í vanskilum og innheimtu, en stefnandi eftir megni greitt inn á skuldbindingarnar og forðað eigninni frá aðför.

Stefnandi hafi fengið rúmlega sex milljónir króna til ráðstöfunar vegna sölu á íbúð sinni að Fögrukinn 24 í Hafnarfirði og strax ráðstafað rúmlega fjórum milljónum króna af þeirri fjárhæð til fasteignakaupanna en einni milljón til að greiða persónulega skuld við stefnda. Afgangnum hafi hún meðal annars varið til greiðslu afborgana og annars kostnaðar við fasteignina. Stefndi hafi einungis greitt 370.000 krónur af kaupverði fasteignarinnar en auk þess greitt upp áhvílandi veðskuldir á fasteigninni í desember 1999 að fjárhæð 3.447.394 krónur.

Stefnandi byggir aðallega á því, að fasteignin Starrahólar 3, Reykjavík sé óskipt sameign aðila í jöfnum hlutföllum. Stefnandi byggir á því, að samkomulag hafi verið á milli málsaðila um að hvort þeirra skyldi eiga helming fasteignarinnar. Hafi þetta samkomulag verið staðfest í verki með gerð kaupsamnings um eignina og framtalsgerð á sambúðartímanum. Á því er byggt að stefnandi sé löglega skráður eigandi helmings eignarinnar hjá opinberum aðilum og að sú skráning eigi að gilda í lögskiptum aðila. Stefnandi bendir á, að hún hafi greitt skatta og skyldur af sínum hluta eignarinnar, meðal annars greitt fasteignagjöld og annan rekstrakostnað.

Stefnandi kveður báða aðila sannanlega hafa lagt fram fé til eignarmyndunar í fasteigninni. Hún hafi lagt fram nánast alla útborgunina samkvæmt kaupsamningi. Bæði hafi átt eignir og haft tekjur til að standa undir afborgunum og greiðslu lána. Bent er á að stefnandi hafi fjármagnað kaupin að meginstefnu til í upphafi, enda átt eign fyrir en andvirði hennar hafi runnið nánast óskipt til kaupanna. Mótframlag hafi ekki komið frá stefnda fyrr en í árslok 1999 í formi uppgreiðslu á húsbréfaláni.

Stefnandi byggir á því, að vegna samnings aðila um jafnt eignarhald og skráningar eignarinnar því til staðfestingar séu löglíkur fyrir því að stefnandi eigi helmingshlutdeild í eigninni. Byggt er á því að stefndi hafi sönnunarbyrgðina fyrir öðrum eignarhlutföllum.

Á sambúðartíma hafi verið fjárhagsleg samstaða með aðilum, þannig að hvor aðili hafi greitt eftir aðstæðum rekstrarkostnað heimilisins, kostnað vegna viðhalds og framkvæmda og af áhvílandi lánum. Eðli málsins samkvæmt sé erfitt mörgu árum síðar að sannreyna einstaka greiðslur. Stefndi hafi fært öll lán á sitt nafn og gíróseðlar og kvittanir segi ekki til um hver hafi í raun greitt afborganir. Stefnandi hafi meðal annars afhent stefnda peninga til að greiða reikninga. Stefndi hafi haldið reikningum og kvittunum til haga og verið í sambandi við bókhaldara sem séð hafi um bókhald þeirra og skattframtöl.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að eina sem skipti máli varðandi fjármögnun fasteignakaupanna sé hvort þeirra hafi innt af hendi kaupverð fasteignarinnar og greitt af lánum. Stefnandi heldur því fram að hún hafi greitt eða lagt til fjármagn til greiðslu á afborgunum af lánum til jafns við stefnda að öðru leyti en því að hann hafi greitt upp hluta af veðskuldum í desember 1999 eins og áður sé vísað til. Vísað er til álits Sigurðar P. Sigurðssonar löggilts endurskoðanda sem komist hafi að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi haft greiðslugetu til að standa undir skuldbindingum sínum sem eigandi helmings fasteignarinnar.

Af hálfu stefnanda er því hafnað að yfirfærsla á bifreið stefnda yfir á hennar nafn eigi að hafa áhrif á eignarhlutdeild þeirra í fasteigninni. Eigendaskiptin hafi eingöngu verið til hagræðingar og ekki hafi staðið til að hún greiddi kaupverð það sem tilgreint hafi verið. Hún hafi ekki greitt það en hafi hins vegar notað bifreiðina.

Stefnandi kveðst hafa haft bolmagn til að kaupa sumarbústað á árinu 2000 fyrir 600.000 krónur og hafi þau kaup ekki haft áhrif á þátttöku hennar í að greiða sameiginlegan kostnað hennar og stefnda.

Af hálfu stefnanda er forsendum fyrir útreikningum Stefáns Sigtryggssonar viðskiptafræðings á eignarhlutdeild málsaðila mótmælt í grundvallaratriðum. Sérstaklega er því mótmælt að rekstrarkostnaði og viðhaldskostnaði fasteignarinnar, persónulegum lánveitingum milli málsaðila  og nafnabreytingu á bifreið sé blandað í þá útreikninga. Mótmælt er að máli skipti, við mat á því hver hafi innt einstaka greiðslur af hendi, á hvern greiðsluseðlar séu stílaðir. Þá er mótmælt sérstaklega að vextir séu reiknaðir á einstaka greiðslur. Þá er hlutdrægni viðskiptafræðingsins dregið í efa og bent á að hann og stefndi séu félagar í sömu stúku í Oddfellowreglunni og góðir kunningjar.

Af hálfu stefnanda var upphaflega gerð varakrafa um viðurkenndur yrði annar eignarhlutur stefnanda í fasteigninni Starrahólum 3 að mati dómsins. Af hálfu stefnanda var fallið frá varakröfunni í síðari málflutningsræðu lögmanns stefnanda.

Af hálfu stefnanda er mótmælt að stefndi geti komið að í málinu kröfu um að viðurkenndur verði minni eignarhlutur stefnanda en 50%. Sú krafa feli í sér að dómurinn fallist á að eignarhlutur stefnda sé stærri en 50% en dómsniðurstaða í þá átt geti ekki rúmast innan kröfugerðar stefnanda. Stefndi komi slíkri kröfu því ekki að í málinu nema með gagnstefnu.

 

Af hálfu stefnda er því haldið fram að aðilar málsins hafi eingöngu verið skráð sem kaupendur eignarinnar að jöfnu af þeirri ástæðu að stefnandi hafði beðið stefnda um að giftast sér auk þess sem talið hafi verið hagkvæmt að skrá eignina með þessum hætti. Enginn samningur eða samkomulag hafi legið fyrir um eignaskiptingu þessa milli aðila hvað þá að hin opinbera skráning hafi endurspeglað raunveruleg eignarráð og er fullyrðingum um það af hálfu stefnanda mótmælt sem röngum. Jafnframt er því mótmælt að um sameiginlegan fjárhag hafi verið að ræða fullum fetum hjá aðilum málsins á sambúðartímanum. Ekki hafi verið um samsköttun tekna að ræða né sérstakt fjárfélag. Hið rétta sé að aðilar hafi nýtt tekjur sínar í því skyni að reka heimili sitt eftir hentugleika hverju sinni. Stefndi hafi orðið að bera meginhluta allra útgjalda heimilisins, annast greiðslu áhvílandi veðskulda, kostnað við viðhald og endurbætur á eigninni og sinna öðrum þeim útgjöldum sem til hafi fallið, en tekjur hans hafi verið umtalsvert hærri en tekjur stefnanda.

Aðalkrafa stefnda sé byggð á yfirliti viðskiptafræðings um framlegð aðila til eignarmyndunar og reksturs eignarinnar þau ár sem sambúð hafi staðið. Við gerð yfirlitsins hafi verið gengið út frá því að fjárútlát sem stefndi hafi ekki getað rakið beint til sín hafi verið talin stafa frá stefnanda.

Við kaup á eigninni hafi stefndi lagt fram það reiðufé sem nauðsynlegt hafi verið auk þess sem hann hafi lagt stefnanda til 2.300.000 krónur í tengslum við sölu á fyrri eign hennar til þess að húsbréf hennar gætu nýst við kaup aðila á Starrahólum 3.

Í því skyni að bæta eignastöðu aðila og til þess að minnka mánaðarlega greiðslubyrði af Starrahólum 3 hafi stefndi að auki einn annast með sínum fjármunum viðamiklar uppgreiðslur ýmissa veðskulda sem á eigninni hvíldu og hafi áhvílandi veðskuldir lækkað um fimm milljónir króna á sambúðartímanum.

Áður en málsaðilar stofnuðu til sameignlegra fasteignakaupa hafi stefndi átt eignir að verðmæti um 14 milljónir króna en stefnandi aðeins átt eignir að verðmæti um 4 milljónir króna. Stefndi hafi þannig bæði haft umtalsvert meira af handbæru fé til eignamyndunar og umtalsvert hærri tekjur til ráðstöfunar en stefnandi.

Þá hafi stefndi staðið fyrir kostnaðarsömum endurbótum á eigninni fyrir eigin reikning en þessar endurbætur hafi óneitanlega aukið verðgildi hennar.

Af hálfu stefnda er á því byggt, að taka beri aðalkröfu hans til greina í málinu þannig að eignarhlutur stefnanda verði ekki talinn nema hærra hlutfalli en 21,60% eignarinnar. Varakrafan er á því byggð að telji dómurinn sýnt að hlutdeild stefnanda sé hærri en aðalkrafa stefnda geri ráð fyrir beri að miða skiptinguna við mat dómsins en við það mat verði að taka tillit til allrar framlegðar stefnda til eignamyndunar, einkum uppgreiðslu lána, greiðslu afborgana og kostnað við endurbætur ásamt heildarmati á eignastöðu og tekjuöflun aðila á tímabilinu.

Af hálfu stefnda er á því byggt að úr ágreiningi um eignahlutföll málsaðila í fasteigninni verði ekki skorið á grundvelli opinberrar skráningar og er í því sambandi vísað til dómvenju. Alkunna sé að skráning eigna sambúðaraðila fari fram með þessum hætti, algerlega án tillits til raunverulegra eignarráða. Þess í stað sé og eigi að miða við raunverulega framlegð aðila til eignamyndunar, fjárhag þeirra og almenna hlutdeild í eignamyndun.

Verði litið svo á að aðilar hafi sammælst um skiptingu eignar með þessum hætti í öndverðu þá sé ljóst að slík skipting hafi verið bundin þeirri forsendu að þau gengju í hjúskap. Þegar stefnandi hafi fallið frá þeim áformum hafi forsendur fyrir meintu samkomulagi um eignaskiptingu fallið niður. Mótmælt er að löglíkur séu fyrir tilvist slíks samkomulags.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að upplýsingar í skattframtölum málsaðila um fasteignina og greiðslu áhvílandi skulda af henni veiti takmarkaða vísbendingu um hver raunveruleg eignarhlutföll hafi greiðslur afborgana af áhvílandi veðskuldum á fasteigninni verið taldar fram á skattframtali stefnanda til þess að hún fengi greiddar vaxtabætur.

Engu breyti, að mati stefnda, þótt stefnandi kunni í einhverjum tilvikum að hafa greitt helming skatta og annarra slíkra gjalda af eigninni og endurspegli það ekki eignarhluta hennar, enda hafi hún búið í eigninni og nýtt helming hennar.

Stefndi byggir á því að eignastaða hans fyrir sambúð, tekjur hans og bókhaldsgögn sem lögð hafi verið fram í dómi, sýni svo ekki verði um villst, að hann hafi lagt umtalsvert meira fé til eignamyndunar í búi aðila en stefnandi. Byggir stefndi á því að framlegð hans til eignamyndunar í búinu samsvari 78,14% hlutdeild í eigninni en framlegð stefnanda samsvari 21,86% hlutdeild.

Stefndi telur ljóst að hann hafi haft fjárhagslegt bolmagn til að fara út í kaupin einn og óstuddur. Hann bendir á að tekjur stefnanda hafi ekki runnið allar til reksturs heimilisins og eignamyndunar þar. Hún hafi staðið í kaupum á sumarhúsi fyrir eigin fjármuni og stór hluti tekna hennar farið í þá fjárfestingu með samsvarandi áhrifum á framlegð hennar til eignamyndunar í Starrahólum 3. Stefndi telur sýnt að stefnandi muni hagnast verulega á hans kostnað ef fallist verður á kröfur hennar

Stefndi telur að horfa verði til þess að sambúðartími aðila hafi verið stuttur, þau hafi ekki átt börn saman og bæði verið útivinnandi. Ekki hafi verið um sérstaka fjárhagslega samstöðu að ræða hjá þeim. Þau hafi ekki talið fram til skatts saman og bankareikningar og aðrir fjármunir þeirra verið aðskildir allan sambúðartímann. Mótmælt er að stefnandi hafi afhent honum peninga til að greiða reikninga.

Þá bendir stefndi á að sameiginlegar leigutekjur vegna íbúðar í kjallara hússins að Starrahólum 3 hafi runnið til stefnanda og telur stefndi líklegt að þær hafi að einhverju leyti runnið til annarrar eignamyndunar hennar.

 

Niðurstaða

Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur liggur fyrir beiðni um opinber skipti vegna fjárslita vegna sambúðarslita málsaðila. Þessi skiptameðferð hefur þó ekki áhrif á framgang máls þessa en í því er einungis deilt um afmarkaðan þátt í fjármálauppgjöri málsaðila.

Stefnanda höfðar mál þetta í því skyni að fá skorið úr um eignarhlutdeild hennar í fasteign sem hún og stefndi keyptu sameiginlega í upphafi sambúðar þeirra. Hún gerði í upphafi aðallega kröfu um að viðurkenndur yrði 50% eignarhlutur hennar en til vara lægri eignarhlutur að mati dómsins. Fallið var frá varakröfunni undir aðalmeðferð málsins.

Ljóst er að krafa stefnda um að eignarhlutur stefnanda verði einungis ákveðinn 21,86% felur í sér að eignarhlutur hans yrði 78,14%.

Þegar tekin er afstaða til þess hvort með þessari kröfu sé stefndi að hafa uppi gagnkröfu sem gangi lengra en krafa um sýknu verður að hafa í huga að líta verður svo á að með málatilbúnaði sínum hafi stefnandi falið dóminum að skera úr um eignahlutföll aðila. Í kröfu stefnda felst að eignarhluti stefnanda verði ákveðinn lægri en hún krefst. Með tilliti til eðlis úrlausnarefnisins komast kröfur stefnanda að í málinu án gagnstefnu.

Fyrir liggur að málsaðilar kusu að haga tilboði í fasteignina Starrahólar 3 og kaupsamningi um eignina á þann veg að þau væru hvort um sig skráð sem kaupendur 50% fasteignarinnar. Eignarheimildum þeirra er þinglýst með þeim hætti og eignin þannig skráð hjá Fasteignamati ríkisins. Málsaðilar kusu að telja eignina þannig fram í skattframtölum sem hvort um sig skilaði 1998 vegna ársins 1997 og áhvílandi veðskuldum á eigninni var þar skipt til helminga. Á skattframtölum áranna 1999 og 2000 var stefnandi skráð sem eigandi 50% fasteignarinnar. Fasteignin kom hins vegar ekki fram á skattframtali stefnda 1999 en á skattframtali 2000 var hann aftur skráður sem eignandi helmings hennar.

Ekki liggur fyrir í málinu sérstakur skriflegur samningur milli málsaðila um eignahlutföll þeirra í fasteigninni Starrahólum 3. Stefnandi þykir heldur ekki hafa sýnt fram á tilvist munnlegs samkomulags um þessi eignahlutföll. Ekki verður fallist á með stefnanda að unnt sé að líta á tilgreiningu á eignahlutföllum í kauptilboði eða kaupsamningi sambýlisfólks um fasteign sem bindandi samning þeirra á milli um eignahlutföll. Slík tilgreining og opinber skráning fasteignarinnar í samræmi við hana er hins vegar sterk vísbending um vilja sambúðarfólks til að skipa eignarhlutföllum með umræddum hætti.

Með vísan til framangreinds verður að fallast á með stefnanda að leggja verði á stefnda þá byrði að færa sönnur að þeirri staðhæfingu að eignarhlutdeild stefnanda í fasteigninni sé minni en fram kom í kauptilboði, kaupsamningi, opinberri skráningu fasteignarinnar og skattframtölum þeirra.

Fyrir liggur að sambúð málsaðila stóð í um fjögur ár. Bæði áttu uppkomin börn sem bjuggu ekki á heimilinu. Þótt málsaðilar hafi kosið að telja ekki fram til skatts saman og hafi haldið bankareikningum sínum aðskildum verður byggt á því að óhjákvæmilega hafi nokkur fjárhagsleg samstaða orðið með þeim eins og stefnandi heldur fram og stefndi hefur að hluta viðurkennt.

Fyrir liggur að bæði stefnandi og stefndi voru í fullri vinnu utan heimilis á sambúðartíma. Launatekjur málsaðila voru eftirfarandi árin 1997-1999:

 

Ár

Laun stefnanda í krónum

Laun stefnda í krónum

1997

1.682.637

3.142.672

1998

1.964.328

3.727.084

1999

1.903.593

2.912.280

Samtals

5.550.558

9.682.036

 

 

Launatekjur stefnanda voru einungis um 55% af launatekjum stefnda árin 1997-1999..

Eins og að framan hefur verið rakið átti stefnandi íbúð að Fögrukinn 24 í Hafnarfirði áður en málsaðilar stofnuðu til hjúskapar. Söluverð eignarinnar var 11.450.000 krónur og skyldu kaupendur greiða 8.648.699 krónur með peningum og húsbréfum og yfirtaka veðskuldir að fjárhæð 2.801.301 krónu. Samkvæmt kaupsamningi um eignina skyldi stefnandi aflétta tveimur veðskuldum af eigninni. Fyrir liggur að hún notaði hluta af söluandvirðinu til að aflétta veðskuld við Íslandsbanka hf. að eftirstöðvum 2.341.592 krónur af eigninni. Þá hefur verið lögð fram af hálfu stefnanda veðbandslausn dagsett 16. júlí 1997, sem sýnir að hin veðskuldin sem skyldi aflétta, þ.e. veðskuld við Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar, upphaflega að fjárhæð ein milljón króna, var flutt á íbúð á 1. hæð í fasteigninni Snæland 3 í Reykjavík og fasteignin Fagrakinn 24 leyst úr veðböndum. Samræmist þetta málatilbúnaði stefnanda.  Eftir sölu á Fögrukinn 24 hafði stefnandi þannig um 6 milljónir króna til ráðstöfunar í húsbréfum og peningum þegar tekið hefur verið tillit til veðskulda sem hún aflétti af eigninni í kjölfar sölunnar og greiddra sölulauna.

Með hliðsjón af tekjum og eignum stefnanda verður ekki annað ráðið en að hún hafi haft fjárhagslega getu til að standa undir helmingi afborgana af þeim veðskuldum sem hvíldu á fasteigninni.

Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að börn stefnda hafi fengið hluta af söluandvirði eignarinnar í sinn hlut en engar líkur hafa verið leiddar að því að svo hafi verið og telst það ósannað. Samkvæmt því sem áður er rakið runnu rúmar fjórar milljónir króna af fyrrnefndum húsbréfum hennar til kaupa á sameiginlegri fasteign málsaðila, ein milljón króna. gengu til að greiða upp lán sem stefndi hafði veitt henni. Þá ráðstafaði stefnandi 600.000 krónum til kaupa á sumarhúsi á sambúðartímanum. Samkvæmt því er ljóst að stefnandi hafði a.m.k. 400.000 króna til viðbótar til ráðstöfunar vegna  sölu á fyrri eign til að greiða afborganir af veðskuldum.

Samkvæmt skattframtali stefnda nam hrein eign hans í árslok 1996 rúmlega 12 milljónir króna og var einkum um að ræða spariskírteini ríkissjóðs og húsbréf. Með hliðsjón af eignum og tekjum stefnda er ljóst að hann hafði góð tök á að greiða afborganir af áhvílandi veðskuldum af fasteign málsaðila.

Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram að hún hafi staðið straum af kostnaði við sameiginlegt heimilishald til jafns við stefnda. Af hennar hálfu hafa hins vegar ekki verið lögð fram nein gögn því til stuðnings. Af hálfu stefnda hafa verið lagðir fram reikningsyfirlit vegna úttekta hans með greiðslukorti á sambúðartímanum. Þeir sýna m.a. umtalsverðar úttektir stefnda í matvöruverslunum. Stefndi þykir með þeim hafa leitt í ljós að hann keypti inn til sameiginlegs heimilishalds.

Alkunna er að fólk er mismunandi hirðusamt um gögn varðandi heimilishald en ekki er skylt að lögum að halda slíkum gögnum til haga. Verður því engin sérstök ályktun af því dregin að stefndi hefur lagt fram gögn um matvælakaup og fleira en stefnandi ekki. Verður að leggja til grundvallar að hvorugur aðila hafi lagt fram umtalsvert meira fé en hinn til sameiginlegs heimilishalds.

Eins og fyrr segir verður ekki í þessu máli felldur dómur um fjárskipti málsaðila í heild sinni heldur einungis um eignarhlutföll þeirra í fasteigninni Starrahólum 3 sem þau eiga í óskiptri sameign.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að málsaðilar störfuðu báðir utan heimilis, höfðu umtalsverðar launatekjur og lögðu sambærileg framlög til sameiginlegs heimilishalds. Af þeirra hálfu er því ekki haldið fram að annað þeirra hafi starfað mun meira að heimilishaldinu en hitt. Með hliðsjón af þessum atriðum þykir ekki ástæða til að taka aðra þætti inn í mat á eignarhlutföllum þeirra í fasteigninni en þau fjárframlög sem málsaðilar lögðu sannarlega fram til kaupa á eigninni, uppgreiðslu lána, afborgana af lánum og til endurbóta á eigninni sem sannanlega höfðu í för með sér  verðmætaaukningu á eigninni.

Við mat á eignarhlutföllum verður hins vegar að jafnaði ekki litið til framlaga málsaðila til greiðslu fasteignagjalda, hita, rafmagns og annars rekstrarkostnaðar af eigninni því þótt þessi greiðsla þessa kostnaðar geti verið nauðsynleg til að varðveita verðgildi eignarinnar hefur hann ekki í för með sér eignaaukningu og verður því settur á bekk með útgjöldum til sameiginlegs heimilishalds sambúðarfólks. Ekki verður heldur tekið tillit til eigendaskipta á bifreið frá stefnda til stefnanda þar sem ekki verður séð að þau lögskipti varði eignamyndun aðila í fasteigninni. Ráðstöfun leigutekna af kjallaraíbúð tengist heldur ekki beint eignamyndun í fasteigninni.

Báðir málsaðilar byggja á þeirri forsendu að fjárframlög þeirra beri að verðbæta og verður lagt til grundvallar að einstaka fjárframlög verði verðbætt til 31. desember 2001 í samræmi við útreikninga Sigurðar P. Sigurðssonar löggilts endurskoðanda, eins og síðar verður vikið að.

Af hálfu stefnda er einnig byggð á því að reikna beri vexti á fjárframlög málsaðila en því er mótmælt af hálfu stefnanda. Þar sem aðilar hafa ekki samið um slíkan vaxtaútreikning og engin haldbær rök hafa verið færð fram því til stuðnings að reikna eigi vexti á fjárframlögin verður að hafna því að tekið verði tillit til vaxta við ákvörðun á eignarhlutföllum málsaðila.

Fyrir liggur að stefndi lánaði stefnanda eina milljón króna í júní 1997. Stefnandi heldur því fram að um persónulegt lán hafi verið að ræða en stefndi telur lánveitinguna hafa tengst væntanlegum fasteignaviðskiptum og telur eðlilegt að telja lán þetta hluta af fjármögnun Starrahóla 3. Fyrir liggur að stefnandi endurgreiddi stefnda lánið 9. mars 1998. Með hliðsjón af því að lánið var veitt áður en stefnandi seldi fasteign sína að Fögrukinn 24 í Hafnarfirði og aðilar keyptu saman fasteignina að Starrahólum 3 og að ennfremur því að lánið var endurgreitt um níu mánuðum seinna, verður að leggja til grundvallar að um persónulega lánveitingu hafi verið að ræða sem ekki eigi að taka tillit til þegar eignarhlutföll málsaðila í fasteigninni eru ákvörðuð.

Af því sem að framan greinir leiðir að ekki er unnt að leggja útreikninga Stefáns Sigtryggssonar viðskiptafræðings til grundvallar mati á eignarhlutföllum, enda tekur hann ýmis fjárhagsleg samskipti málsaðila svo sem eigendaskipti á bifreið, lánveitingar milli málsaðila og rekstrarkostnað fasteignarinnar inn í útreikninga sína.

Verður nú fjallað um hvaða áhrif einstaka greiðslur eigi að hafa til eignamyndunar málsaðila í fasteigninni.

Sem fyrr segir var kaupverð fasteignarinnar 13,5 milljónir króna þar af voru 370.000 krónur greiddar með peningum við undirritun kaupsamnings, 4.069.314 krónur með framsali á húsbréfum og 9.060.686 krónur með yfirtöku áhvílandi veðskulda.

Hvað stefnanda varðar er óumdeilt að hún ráðstafaði hluta af húsbréfum þeim sem hún fékk við sölu á fasteigninni Fögrukinn 24 til kaupa á Starrahólum 3 eins og ráð var fyrir gert í kaupsamningi um þá eign. Alls var um að ræða húsbréf að reiknuðu verðmæti 4.069.314 krónur miðað við 27. júní 1997. Í útreikningum Stefáns Sigtryggssonar viðskiptafræðings er þessi greiðsla metin til peningaverðs á 3.804.709 krónur og þá miðað við að reikna eigi afföll af húsbréfunum til þess að fá út rétt verðmæti þeirra í samanburði við peningagreiðslu stefnda. Ósannað er að þessi greiðslumáli hafi haft áhrif á verð fasteignarinnar og verður ekki annað ráðið af kaupsamningi en að húsbréfin hafi verið reiknuð sem hluti af kaupverði eins og um peningagreiðslu væri að ræða. Engin rök eru því til slíks affallareiknings. Verður að miða við að húsbréfin hafi runnið til eignamyndunar stefnanda í fasteigninni á því verði sem fram kemur í kaupsamningnum.

Óumdeilt er að stefndi innti af hendi útborgunargreiðsluna 370.000 krónur og verður miðað við að það fjárframlag hafi runnið til eignamyndunar hans fasteigninni.

Í gögnum málsins liggja fyrir kvittanir fyrir uppgreiðslu alls fimm áhvílandi veðskulda á fasteigninni 21. júlí 1997. Um er að ræða uppgreiðslu á tveimur veðskuldum við Lífeyrissjóð verkstjóra á 3. og 10. veðrétti með 944.857 krónum, uppgreiðslu á tveimur veðskuldum við Sparisjóð vélstjóra á 6. og 12. veðrétti með 693.743 krónum og uppgreiðslu á veðskuld við SPRON á 5. veðrétti með 51.765 krónum. Stefndi hefur lagt fram kvittun dagsetta sama dag sem sýnir 1.690.364 króna úttekt af reikningi hans en það er samtala uppgreiðslu á ofangreindum fimm veðskuldum. Líta verður á þá þessa greiðslu sem framlag til eignamyndunar stefnda í fasteigninni.

Óumdeilt er að stefndi greiddi 6. desember 1999 upp áhvílandi húsbréfalán, upphaflega á 4. veðrétti með 3.447.394. Líta verður þessa greiðslu sem framlag til eignamyndunar hans í fasteigninni.

Fyrir liggur að eftirfarandi greiðslur voru inntar af hendi til greiðslu afborgana af áhvílandi veðskuldum á fasteigninni á árunum 1997-2001. Einstaka afborganir eru verðbættar samkvæmt neysluverðsvísitölu í samræmi við útreikninga Sigurðar P. Sigurðssonar endurskoðanda. Miðað er við vísitölu í desember 2001 219.50 stig.

 

Ár

afborgarnir á nafnvirði

afborganir verðbættar til 31/12 2001

1997

242.036 krónur

293.347 krónur

1998

920.359 krónur

1.101.352 krónur

1999

540.329 krónur

633.238 krónur

2000

773.700 krónur

858.938 krónur

2001

459.951  króna 

489.616 krónur

Samtals

2.936.375 krónur

3.376.491  króna

 

Af hálfu stefnda er því haldið fram að hann hafi greitt allar afborganir af áhvílandi veðskuldum á árunum 1997 - 1999 en stefnandi að stærstum hluta á árunum 1999 og 2000. Af hálfu stefnanda er því hins vegar haldið fram að þau hafi greitt afborganir að jöfnu árin 1997-1999, á árinu 2000 hafi stefnandi greitt 627.651 krónu en stefndi 146.050 krónur og á árinu 2001 hafi stefnandi greitt allar afborganir af veðskuldum.

Eins og fyrr segir töldu málsaðilar fram til skatts hvort í sínu lagi. Á skattframtölum 1998 og 2000 töldu þau fram til helminga áhvílandi veðskuldir á Starrahólum 3 og afborganir af þeim. Á árinu 1999 taldi stefnandi ein fram allar afborganir af veðskuldum. Stefán Sigtryggsson viðskiptafræðingur sem annaðist framtalsgerð fyrir málsaðila gaf þá skýringu fyrir dómi að þessi háttur hefði verið hafður á svo stefnandi fengi notið vaxtabóta. Þessir framtalshættir benda til þess að málsaðilar hafi talið sig bera ábyrgð á greiðslu veðskulda að jöfnu.

Sem fyrr segir voru veðskuldir skráðar á nafn stefnda hjá kröfuhöfum og greiðsluseðlar sendir út á hans nafni. Stefndi hefur lagt fram þá greiðsluseðla vegna afborgana sem hann kveðst hafa greitt. Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram að stefndi hafi haldið reikningum til haga en ekki hún og hann verið í betra sambandi við þann mann sem sá um bókhald þeirra og skattframtöl. Þá kveðst hún hafa látið stefnda fá peninga til að greiða reikninga en því neitar stefndi.

Stefán Sigtryggsson viðskiptafræðingur bar fyrir dómi að hann hefði rakið eftir bestu getu hver hefði greitt hverja afborgun af veðskuldum. Þar sem ekki hafi legið fyrir hrein sönnun hafi stefnandi verið talin greiðandi. Hann kvað margar nótur beint rekjanlegar og 60-70% greiðslna rekjanlegar til stefnda. Með hliðsjón af því að þessar fullyrðingar vitnisins eiga sér að mjög litlu leyti stoð í gögnum málsins og með vísan til þess að stefndi og vitnið eru kunningjar og félagar í sömu Oddfellow-stúku verður þessi framburður eða mat vitnisins á því hver greiddi hverja afborgun ekki lögð til grundvallar í málinu.

Að jafnaði má leggja til grundvallar í dómsmálum að sá sem leggur fram kvittanir fyrir greiðslu hafi innt viðkomandi greiðslu af hendi. Öðru máli þykir hins vegar gegna þegar skorið er úr um hvor sambúðaraðila hafi innt af hendi fé til greiðslu sameiginlegra skulda eða sameiginglegs kostnaður. Verður þar að líta til þess að undir hælinn kann að vera lagt hver fer í banka hverju sinni, hver greiðir hvaða kostnaðarliði, hver leggur í raun fram fé til greiðslu einstaka kostnaðarliða og hver varðveitir kvittanir fyrir greiðslu.

Með hliðsjón af framangreindu og því að sönnunarbyrðin hvílir á stefndi ekki hafa sýnt nægjanlega fram á með framlögðum gögnum eða á annan hátt  að hann hafi innt af hendi fé til greiðslu afborgana af áhvílandi veðskuldum á sambúðartímanum umfram stefnanda. Þykir því rétt að leggja til grundvallar að þau hafi staðið straum af afborgunum af veðskuldum til jafns fram til ársloka 2001. Verður því miðað við að hvort um sig lagt til 1.468.187 krónur til greiðslu á afborgunum af veðskuldum sem framreiknað til ársloka 2001 jafngildir 1.688.245 krónum.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að hann hafi lagt fram fé til framkvæmda við Starrahóla 3 að fjárhæð 2.394.810 krónur árið 1997, 1.310.292 krónur árið 1998 og 10.149 krónur árið 1999 eða samtals 2.715.251 krónur. Um hafi verið að ræða umtalsverðar og kostnaðarsamar endurbætur á eigninni sem aukið hafi verðgildi eignarinnar.

Stefndi bar fyrir dómi að þessar endurbætur hafi falist í kaupum á skápum, hljóðeinangrun, lagningu á parketi og flísum og uppsetningu á handriði. Þá hafi lóð verið grafin út, skipt um efni og lagðar hellur. Bílskúr hafi verið einangraður og pússaður. Nákvæm grein hefur hins vegar ekki verið gerð fyrir þessum framkvæmdum eða sundurliðað hvaða fé hafi verið varið til einstaka framkvæmda. Af hálfu stefnda hefur heldur ekki verið gerð fyrir að hvaða leyti eða hversu mikið þessar meintu framkvæmdir hafi aukið verðgildi hennar verulega.

Stefndi hefur lagt fram fjölda reikninga, kvittana og fleiri gagna í því skyni að sýna fram á framlög sín til þessara meintu endurbóta. Framlögð gögn frá árinu 1997 eru einkum úttektir á timbri og ýmsum byggingarvörum í byggingarvöruverslunum. Athygli vekur að í umræddir reikningar og kvittanir eru í engu tilviki skráðir á nafn stefnanda en hann hins vegar í nokkrum tilvikum skráður sem móttakandi vöru. Reikningarnir eru stílaðir á Spellvirkjann ehf., Jóhann Walderhaug og Félag starfsmanna í veitingahúsum en nokkrir eru svo illa ljósritaðir að ekki verður greint á hvern þeir eru stílaðir. Hvað varðar gögn vegna framkvæmda á árinu 1998 kemur í ljós við skoðun að ekkert fylgiskjal er fyrir meintum 300.000 króna kostnaði og kvittanir fyrir greiðslu á 650.000 króna kostnaði til viðbótar bera þær ekki með sér frá hverjum þær stafa en ekki er um að ræða reikninga með virðisaukaskatti. Enda þótt fyrir liggi að málsaðilar hafi lagt í einhverjar framkvæmdir á eigninni þykja þessi gögn ónothæf til sönnunar fyrir því að stefndi hafi lagt fé til þeirra umfram stefnanda.

Við mat á trúverðugleika framangreindra reikninga verður einnig að hafa í huga að í framburði stefnda fyrir dómi kom fram að á svipuðum tíma og málsaðilar festu kaup á fasteign sinni festi einkahlutafélag í eigu stefnda kaup á fasteign að Ingólfsstræti 7. Nokkrir umræddra reikninga eru stílaðir á Spellvirkjann ehf., Ingólfsstræti 7 og gæti framlagning þeirra bent til þess að stefndi hafi blandað saman reikningsskilum vegna framkvæmda á þeirri íbúð og fasteign málsaðila að Starrahólum 3.

Með vísan til þess að stefndi hefur ekki sýnt fram á að hve miklu leyti meintar framkvæmdir hafi aukið verðgildi fasteignar málsaðila og með vísan til þess að framlögð gögn þykja ekki veita sönnun fyrir því að stefndi hafi lagt fram fé til mögulegra virðisaukandi framkvæmda verður að hafna því að framlög til þessara framkvæmda hafi áhrif á eignarhlutföll málsaðila í fasteigninni.

Samkvæmt framangreindu þykja málsaðilar hafa lagt fram eftirfarandi fjárframlög til eignamyndunar í fasteigninni Starrahólum 3. Við framreikning er miðað við breytingar á neysluverðsvísitölu frá dagsetningu einstakra greiðslna til 31. desember 2001 en þá var vístitalan 219,50 stig. Byggt er á framlögðum útreikningum Sigurðar P. Sigurðssonar endurskoðanda.

 

Stefnandi:

Fjárframlag

Greitt

Framreiknað til 31/12 2001

Húsbréf afhent 17/7 1997

4.069.314 krónur

4.967.822 krónur

Afborganir af veðskuldum

1.468.187 krónur

1.688.245 krónur

Samtals

5.537.501  króna

6.656.067 krónur

 

Stefndi:

Fjárframlag

Greitt

Framreiknað til 31/12 2001

Útborgun 17/7 1997

370.000 krónur

451.696 krónur

Uppgreiðsla veðsk. 21/7 1997

1.690.365 krónur

2.063.598 krónur

Uppgreiðsla veðsk. 6/12 1999

3.447.394 krónur

3.914.656 krónur

Afborganir af veðskuldum

1.468.187 krónur

1.688.245 krónur

Samtals

6.975.946 krónur

8.116.195 krónur

 

Með vísan til alls framangreinds þykir í ljós leitt að stefnandi hafi lagt til eignamyndunar í fasteign málsaðila greiðslur sem með verðbótum námu 6.656.067 krónum miðað við  31. desember 2001 en stefndi greiðslur að verðmæti 8.116.195 króna. Samtals nema þessar verðbættu framlög 14.774.262 krónum og telst hluti stefnanda í þeim 45% en hluti stefnda 55%.

Rétt þykir að ákvarða eignahlutföll málsaðila í fasteigninni í samræmi við framangreind framlög þeirra. Verður því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um að viðurkennd verði 50% eignahlutdeild hennar í fasteigninni. Með vísan til þess sem áður hefur verið rakið um kröfugerðir málsaðila þykir mega ljúka dómi á málið með því að ákvarða stefnanda annað og lægra eignahlutfall. Í samræmi við það verður viðurkennt að stefnandi sé eigandi að 45% eignarhlut í sameiginlegri fasteign málsaðila að Starrahólum 3 í Reykjavík með öllum réttindum og skyldum sem eigninni fylgja í sömu hlutföllum. Af því leiðir að stefndi telst eiga 55% eignarhlut í fasteigninni.

Með vísan til kröfugerðar málsaðila og niðurstöðu málsins þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Friðjón Örn Friðjónsson hrl. en Halldór H. Backman hdl. af hálfu stefnda.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Stefnandi, Ólína Sigríður Einarsdóttir, er eigandi að 45% hlut í fasteigninni Starrahólum 3 í Reykjavík, með öllum réttindum og skyldum sem eigninni fylgir í sömu hlutföllum.

Málskostnaður fellur niður.