Hæstiréttur íslands

Mál nr. 642/2013

A (Steingrímur Þormóðsson hrl.)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Vífilfelli hf. og B (Kristín Edwald hrl.)

Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Fullnaðarkvittun
  • Endurupptaka


Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Örorka. Fullnaðarkvittun. Endurupptaka.

A hlaut líkamstjón í þremur umferðarslysum árin 1996 og 2001, hinu síðasta er B, starfsmaður V hf., ók bifreið sinni í veg fyrir A. S hf. greiddi A bætur vegna síðastgreinds umferðarslyss árið 2003 á grundvelli matsgerðar og gegn útgáfu fullnaðarkvittunar. A aflaði síðar undirmats dómkvaddra manna til að meta að nýju áverka sem hann hefði orðið fyrir í slysunum þremur. Í kjölfarið höfðaði A mál þetta til endurupptöku bótaákvörðunarinnar á grundvelli matsgerðarinnar, með skírskotun til andlegra afleiðinga líkamstjónsins sem ekki hefði verið getið í þeirri matsgerð sem uppgjör hans við S hf. var reist á. Endanlegar dómkröfur A voru reistar á yfirmatsgerð, sem aflað var undir meðferð málsins í héraði, og var þeim aðallega beint að S hf. og V hf., en til vara að V hf. og B. Talið var að ekki væri uppfyllt það skilyrði endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að ófyrirsjáalegar breytingar hefðu orðið á heilsu A eftir bótauppgjörið og voru S hf. og V hf. því sýknaðir af kröfum A. Þá var talið að hið sama gilt um V hf. og B vegna sama tjóns, enda lá fyrir fullnaðaruppgjör vegna þess.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. október 2013. Hann beinir kröfu sinni aðallega að stefndu Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Vífilfelli hf. og krefst þess að þeim verði gert að greiða sér óskipt 2.576.712 krónur með 4,5% ársvöxtum af 227.790 krónum frá 15. júlí 2001 til 22. nóvember 2008 og sömu vöxtum af 2.576.712 krónum frá þeim degi til 22. apríl 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara beinir áfrýjandi kröfu sinni að stefndu B og Vífilfelli hf. og krefst þess að þeir greiði sér sömu fjárhæð og áður greinir sem jafnframt beri sömu vexti og þar um ræðir. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hver aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 21. júní sl., er höfðað með stefnu, birtri 28. júní og 7. júlí 2011.

Stefnandi er A, […], en stefndu eru Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík, Vífilfell hf., Stuðlahálsi 1, einnig í Reykjavík, og B, […].

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Vífilfell hf. verði in solidum dæmd til að greiða honum 2.576.712 krónur, með 4,5% ársvöxtum af 227.790 krónum frá 15. júlí 2001 til 22. nóvember 2008, en af stefnufjárhæðinni, 2.576.712 krónum, frá þeim degi til 22. apríl 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. 

Til vara er þess krafist að stefndu B og Vífilfell hf. verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 2.576.712 krónur, með 4,5% ársvöxtum af 227.790 krónum frá 15. júlí 2001 til 22. nóvember 2008, en af stefnufjárhæðinni, 2.576.712 krónum, frá þeim degi til 22. apríl 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. 

Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu.

Stefndu gera aðallega þá kröfu að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Málsatvik

Málsatvik eru þau að stefnandi slasaðist í þremur umferðarslysum, 12. febrúar 1996, 25. október sama ár og loks 15. júlí 2001. Stefnandi kveðst hafa fengið slink á höfuð og þung högg í tveimur síðustu slysunum.

Í slysinu 25. október 1996 ók bifreið á miklum hraða framan á bifreið sem stefnandi var farþegi í. Stefnandi var ekki í bílbelti og kastaðist fram úr sæti sínu á mælaborðið og framrúðu bifreiðarinnar. Hlaut hann skurðsár á andliti og kveðst hafa rotast, þrátt fyrir að hafa borið fyrir sig hendurnar, en hægri olnbogi stefnanda skaddaðist illa í þessum árekstri. 

Hinn 15. júlí 2001 ók varastefndi, B, bifreið í veg fyrir bifreið stefnanda á gatnamótum […] og […] í Reykjavík. Stefnandi kveðst hafa fengið mikinn slink á háls og hafi höfuð hans rekist í. Telur hann sig hafa misst meðvitund eða allavega vankast verulega. Samkvæmt lögregluskýrslu, dagsettri sama dag, bar slysið að með þeim hætti að stefnandi var að aka bifreið sinni á hægri akrein norður […] að […] þegar hann lenti í árekstri við bifreiðina […], sem ekið var í veg fyrir bifreið stefnanda. Í skýrslunni er tekið fram að tjón á báðum bifreiðum hafi verið lítið, heildarbremsuför á bifreið stefnanda hafi mælst 13,8 metrar eftir hægra hjól, en 8,9 metrar eftir vinstra hjól. Bifreið stefnanda var engu að síður flutt af vettvangi af dráttarbíl. Þá er þar haft eftir stefnanda að ökuhraði hafi verið lítill.

Tveimur dögum eftir slysið leitaði stefnandi til læknis á Heilsugæslustöð […] og kvartaði þá undan verkjum í brjósthrygg og milli herðablaða og óþægindum aftan á hálsi. Greining læknisins var að stefnandi hefði í slysinu hlotið hálstognun og tognun á brjósthrygg. Mælt var með sjúkraþjálfun og væru batahorfur góðar, en það tæki væntanlega nokkra mánuði. Í tjónstilkynningu til Sjóvá-Almennra trygginga hf., sem dagsett er 19. júlí 2001, kveðst stefnandi finna til í baki á tveimur stöðum. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 25. september 2006 kemur fram að áreksturinn hafi verið allharður að áliti stefnanda. Hann hafi verið í bílbelti og með hnakkapúða á sæti, en kastast fram við höggið og strax fundið fyrir miklum óþægindum í hálshrygg og herðum og niður með herðablöðum. Hafi honum versnað enn frekar í mjóbaki og jafnframt fundið fyrir verkjum í hægri fæti. Jafnframt taldi hann sig hafa vankast í slysinu. Bifreiðin, sem ekið var í veg fyrir bifreiða stefnanda, var í eigu Vífilfells hf., en ábyrgðartryggð hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

Fram kemur í gögnum málsins að stefnandi mætti til vinnu 23. júlí 2001, en var skömmu síðar sagt upp störfum. Hann leitaði aftur til læknis 18. október 2001 og fór að því búnu í röntgenrannsókn vegna þeirra áverka sem hann kvartaði undan. Röntgenrannsókn sýndi lækkun á liðþófum Th8 og 9, sem eru neðarlega í brjósthrygg, og smá slitbreytingar á þeim liðbolsbrúnum og næstu fyrir neðan, en liðbolir fyrir ofan voru eðlilegir. Hálsliðamynd sýndi lækkun á liðþófum C-5-C6 og smá slitbreytingar á liðbolsbrúnum.

Í matsgerð C lögfræðings og D læknis frá 7. mars 2003, sem unnin var að beiðni málsaðila, komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði hlotið varanlegt heilsutjón í umræddu umferðarslysi. Um sé að ræða afleiðingar af tognun í hálsi og baki. Varanlegan miska mátu þeir 7%, en varanlega örorku 5%. Stöðugleikatímapunktur var talinn vera 15. október 2001, tímabundið atvinnutjón 100% frá slysdegi fram til 22. júlí 2001 og 50% frá 1. ágúst 2001 til 15. október 2001. Þá var talið að þjáningatímabil án rúmlegu væri frá slysdegi fram til 15. október 2001. Á grundvelli matsgerðarinnar greiddi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. stefnanda tjónabætur og málskostnað, alls 1.828.117 krónur. Uppgjörið fór fram 26. mars 2003 og undirritaði lögmaður stefnanda uppgjörið. Tekið er fram að bótafjárhæðin sé fullnaðar- og lokagreiðsla vegna slyss stefnanda 15. júlí 2001 og að með greiðslunni sé lokið öllum kröfum á hendur félaginu vegna þess. Þá segir þar eftirfarandi: „Endurupptaka ofangreinds máls kemur því aðeins til álita að hún verði leidd af almennum réttarreglum. Félagið tekur fram að réttur til endurupptöku er háður ströngum skilyrðum og er því aðeins talinn koma til greina að afleiðingar slyss verði í verulegum atriðum aðrar og meiri en gera mátti ráð fyrir þegar fullnaðaruppgjör fór fram.“

Samkvæmt stefnu mun stefnandi nær ekkert hafa unnið frá því hann varð fyrir slysinu 15. júlí 2001. Hafi hann alltaf verið með verki í hálsi og baki vegna áverka, sem hann telur að hafi aukist eftir síðasta slysið. Einnig hafi sálarlíf hans verið verulega bágborið. Hann sé bæði kvíðinn, þunglyndur og sinnulaus og komi engu í verk.

Í framlögðu læknisvottorði E, dagsettu 15. janúar 2005, segir m.a.: „Gróf skoðun á æðri heilastarfsemi er eðlileg. Heilataugar eru eðlilegar. [...] Höfuðhreyfingar eru stirðar og sársaukafullar. [...] Það eru geysileg eymsli yfir hnakkafestum, hnakka- og herðavöðvum, yfir öxlum og olnbogum og niður eftir öllu baki og miðlungs slæm eymsli yfir mjöðmum báðum megin.“ Síðan segir: „[A] þjáist af slæmum tognunum í hálsi, herðum, olnbogum, niður eftir öllu baki og utanvert á mjöðmum auk þess sem hann er með skaða á brjóski í hægra hné.“

F geðlæknir átti einnig viðtal við stefnanda og liggur fyrir læknisvottorð hans frá 5. apríl 2005. Þar segir m.a.: „Við skoðun hjá [E], lækni, sem gerð var í janúar 2005 kom fram mikill óbærilegur sársauki í hálsi, herðum og niður eftir útlimum. Þessi verkur liggur alveg niður á miðjan brjóstkassa. Hann er með mjög slæma verki í mjóbaki sem leiða niður í fætur reyni hann eitthvað á sig.“ Fullyrðir læknirinn að stefnandi hafi í öllum þremur umferðarslysunum rotast, og hafi a.m.k. frá síðasta slysi og sennilega eitthvað áður fyrr, verið með veruleg einkenni sem rekja megi til áverka á miðtaugakerfið. Tekur hann fram að stefnandi hafi ekki sagt neinum læknum frá þessum óþægindum, en einbeitt sér frekar að sínum líkamlegu einkennum. Í læknisvottorðinu segir síðan: „Þau einkenni sem [A] hefur, sem tengja má alvarlegum áföllum á heilavef eru: [A] segir að einbeiting hafi verið mjög slæm frá því hann varð fyrir slysinu 2001 svo og minni. [...] Sjúklingur segist vera haldinn nær stöðugri spennu. Honum finnst hann eiginlega einungis eiga einn möguleika eftir það er að lenda í fjórða óhappinu. Hann er verulega hræddur við að ferðast, s.s. að fljúga og þarf þá yfirleitt að standa nær allan tímann og hreyfa sig. Honum líður illa í bíl, sérstaklega ef hann ekur ekki sjálfur. Hann dreymir slysið ennþá og finnst honum það vera undir því komið hvernig líðanin sé, hvort hann sé undir einhverri ákveðinni pressu. Sjúklingur segist einnig eiga mjög erfitt með að þola sól, mikla birtu og notar yfirleitt sólgleraugu. Þreytist mjög á því að lesa, hann les einungis fyrirsagnir í blöðum, notar mikið textavarp. Minnið er mjög slæmt, notar yfirleitt dagbók til þess að skrifa niður þá hluti sem hann þarf að gera. Jafnframt með nær stöðugt suð fyrir báðum eyrum. Einnig er hann með stjarfa þar sem hugurinn tæmist og hann verður ónæmur fyrir umhverfi sínu án þess þó að detta niður. Hann telur að stjarfi eins og þetta hafi sennilega verið byrjað fyrir síðasta bílslysið 2001.“ Niðurstaða geðlæknisins er að stefnandi hafi fengið áverka á heila í síðasta bílslysinu 2001. Ekki sé heldur hægt að útiloka að fyrri bílslys hafi einnig stuðlað að núverandi líða hans. Greining læknisins er „Eftirverka heilaheilkenni án geðrofs og streituröskun eftir áfall“.

Taugasálfræðilegt mat G sálfræðings frá 27. ágúst 2005 staðfesti ofangreindar niðurstöður F geðlæknis. Orðrétt segir þar einnig: „Af lýsingum að dæma virðist slysið sem verður haustið 1996 hafa hvað mestu áhrif hvað varðar líkamleg einkenni þó ekki sé hægt að útiloka einhver áhrif á vitrænt starf þar sem þetta var mjög alvarlegt umferðarslys með miklum áverkum og tilheyrandi höfuðhöggi, meðvitundarleysi og ýmsum líkamlegum einkennum. Slysið sem hann verður fyrir árið 2001 virðist hinsvegar gera útslagið hvað varðar andleg og vitræn eftirslysaeinkenni. Af lýsingum maka virðist flest benda til þess að hin dæmigerðu einkenni heilaskaða hafi aðallega komið fram eftir slys árið 2001.“

Með matsbeiðni 6. september 2005 óskaði lögmaður stefnanda eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta að nýju þá áverka sem stefnandi hefði orðið fyrir í öllum framangreindum slysum. Dómkvaddir voru sem matsmenn H læknir og I lagaprófessor. Er matsgerð þeirra dagsett 25. september 2006. Niðurstaða þeirra var sú að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins 15. júlí 2001 væri 10% og varanlegur miski hans 7 stig. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar er sérstaklega tekið fram að um breytingar á heilsu stefnanda verði að líta til þess að í fyrri matsgerðum, þ.e. bæði vegna slysa stefnanda á árinu 1996 og 15. júlí 2001, hafi ekki verið tekið tillit til andlegra afleiðinga líkamstjóns stefnanda. Af þeirri ástæðu meti þeir nú varanlega örorku vegna síðasta slyssins 10%, í stað 5% eins og gert hafi verið í áðurnefndri matsgerð frá 7. mars 2003.

Stefnandi óskaði eftir dómkvaðningu yfirmatsmanna 4. nóvember 2007 og voru þá dómkvaddir sem yfirmatsmenn læknarnir J og K og L lagaprófessor. Matsgerð þeirra er dagsett 22. nóvember 2008. Í umfjöllun um slysið 15. júlí 2001 segja matsmenn eftirfarandi: „Slysið 15. júlí 2001 virðist fyrst ekki hafa verið háorkuslys og þess getið að bifreiðarnar hafi ekki verið á mikilli ferð. Í því slysi ýfast upp tognunaráverkar á hryggsúlu, frá hálsi og niður í mjóbak en ekki eru gögn um að matsbeiðandi hafi orðið fyrir beinum höfuðáverka í þessu slysi. Geðheilsa hans tekur hins vegar djúpa dýfu eftir þetta, með merkjum samkvæmt taugasálfræðilegu mati frá 2005, skoðun [F] og áliti hans auk frásagnar á matsfundi sem samræmist því að hann hafi fengið eftir-áfallastreituröskun. Það er ljóst að geðheilsa matsbeiðanda var enn viðkvæm eftir slysið í október 1996, en slysið í júlí 2001 virðist þó vera það slys sem fer hvað mest með geðheilsu hans.“ Við mat á varanlegum miska segja matsmenn síðan: „Í þessu slysi verður matsbeiðandi fyrir því að fyrri tognunaráverkar ýfast upp en aðallega er horft til þess að hann fær merki um áfallastreituröskun í kjölfar þessa slyss.“ Og í umfjöllun um varanlega örorku segir m.a. svo orðrétt: „Matsmenn telja, að í kjölfar slyssins búi matsbeiðandi við þrekskerðingu af völdum þreytu og verkja, sem standa í beinu orsakasambandi við slysið, en aðallega sökum aukinna andlegra örðugleika, sem sé til þess fallin að draga allmjög úr getu hans til að stunda krefjandi starf af hvaða tagi sem er og einnig, þó í minna mæli sé, til að stunda létt eða fremur létt starf. Jafngildir þetta allnokkurri skerðingu á aflahæfi hans þegar til lengri tíma er litið.“ Spurningu um hvort heilsufar stefnanda hefði versnað eftir að mat fór fram í mars 2000, þ.e. vegna afleiðinga slysanna árið 1996, og eftir mat á síðasta slysi stefnanda, svöruðu yfirmatsmenn svo: „Heilsufar matsbeiðanda hefur versnað frá því sem fram kemur í matinu í mars 2000, sem nemur því er slysið 15. júlí 2001 bætir við. Matsmenn telja þó rétt að undirstrika að í samræmi við lýsingar hér í matsgerð þessari virðist heilsutjón matsþola eftir slysið 1996 vera víðtækara en fram kom í matsgerðinni. Þá gildir það sama að heilsutjón matsþola er samkvæmt framlögðum gögnum í þessari matsgerð gert verra en það sem fram kemur í matsgerð frá mars 2003. Þetta bendir þó ekki til þess að heilsufar matsbeiðanda hafi í sjálfu sér versnað, sem nemur öðru en því að ganga lengi með varanleg erfið mein. Matsmenn telja skýringu á muninum frekar liggja í því að matsbeiðandi er í dag mun betur rannsakaður og hafa því matsmenn betri möguleika á að átta sig á heilsutjóni hans nú en þá.“ Niðurstaða yfirmatsmanna var sú að batahvörf hefðu verið 15. janúar 2002, varanlegan miska vegna slyssins mátu þeir til 10 stiga og varanlega örorku 15%.

Á grundvelli undirmatsgerðar frá 25. september 2006 höfðaði stefnandi mál gegn stefndu 28. júní 2007 og var það þingfest 18. október sama ár. Dómur í málinu var kveðinn upp í héraðsdómi 29. apríl 2009. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 18. mars 2010, í málinu nr. 413/2009, var málinu vísað frá héraðsdómi ex officio, þar sem stefnandi hafði ekki í stefnu gert þá grein fyrir kröfu sinni og þeim sönnunargögnum sem hann byggði á, svo sem áskilið er í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi hefði þannig þingfest málið án þess að fullnægt væri ákvæði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991. Í kjölfarið höfðaði stefnandi mál þetta og var það þingfest 1. september 2011. Dómur í málinu var kveðinn upp 23. mars 2012. Með dómi Hæstaréttar 21. febrúar 2013, í málinu nr. 444/2012, var dómur héraðsdóms ómerktur vegna vanhæfis þáverandi dómsformanns til að fara með málið, og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Í kjölfarið tók núverandi dómsformaður sæti í dóminum, og hefur hann farið með málið upp frá því, ásamt þeim sérfróðu meðdómendum sem áður skipuðu dóminn.             

Við upphaf aðalmeðferðar gaf stefnandi skýrslu fyrir dóminum.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur aðalstefndu, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Vífilfelli hf., á 88. gr., 1. mgr. 90. gr., 1. mgr. 91. gr., sbr. 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga. Hann hafi orðið fyrir fébótaskyldu tjóni í umferðarslysinu 15. júlí 2001 sem stefndu beri ábyrgð á. Í málinu kveðst stefnandi hins vegar byggja á því að þær bótaákvarðanir sem matsgerðin frá því í mars 2003 byggist á, fái ekki staðist vegna þeirra afleiðinga sem ekki sé þar getið um, en hafi komið fram í yfirmatsgerð 22. nóvember 2008. Í því sambandi vísar stefnandi til áðurnefnds fyrirvara í skaðabótakvittun 26. mars 2003. Heldur stefnandi því fram að afleiðingar slyssins hafi orðið aðrar og meiri en gert hafi verið ráð fyrir við uppgjörið, þ.e. aðrar afleiðingar slyssins hafi komið fram síðar, svo sem áfallastreituröskun. Vísar hann þá til orða yfirmatsgerðar, þar sem segi: „Í þessu slysi verður matsbeiðandi fyrir því að fyrri tognunaráverki ýfist upp, en aðallega er horft til þess að hann fær merki um áfallastreituröskun í kjölfar þessa slyss.“ Einnig segi þar: „Matsmenn telja að í kjölfar slyssins búi matsbeiðandi við þrekskerðingu af völdum þreytu og verkja, sem standa í beinu orsakasambandi við slysið, en aðallega sökum aukinna andlegra örðugleika, sem sé til þess fallin að draga allmjög úr getu hans til að stunda krefjandi starf af hvaða tagi sem er og einnig, þó í minna mæli sé, til að stunda létt eða fremur létt starf. Jafngildir þetta allnokkurri skerðingu á aflahæfi þegar til lengri tíma er litið.“

Í ljósi ofanritaðs kveðst stefnandi ekki fallast á að um endanlegt bótauppgjör hafi verið að ræða 26. mars 2003, er hann tók við bótum vegna slyssins, enda sé tekið fram í bótakvittuninni að endurupptaka geti komið til ef afleiðingar slyssins verði aðrar en gert var ráð fyrir.

Stefnandi kveðst aðallega byggja kröfur sínar á reglum kröfuréttar um rangar og brostnar forsendur. Samið hafi verið um það við gerð uppgjörskvittunarinnar að ef forsendur brystu fyrir uppgjörinu, með því að afleiðingar slyssins yrðu aðrar en gert var ráð fyrir, væri hægt að taka málið upp að nýju. Í því sambandi vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttar um fyrirvara við uppgjör. Þá byggir hann á því að 11. gr. skaðabótalaga hafi komið til viðbótar reglum um rangar og brostnar forsendur, eins og fram komi í greinargerð með þeirri lagagrein. Telur hann að þau læknisfræðilegu gögn sem nú hafi verið lögð fram staðfesti að allar forsendur fyrirliggjandi matsgerða hafi brostið eða hafi frá upphafi verið rangar. Verði ekki fallist á að um forsendubrest sé að ræða byggir stefnandi á því að sú afstaða feli í sér þrengingu á þeim reglum sem áður hafi gilt í þessum efnum á grundvelli meginreglna kröfuréttarins um rangar og brostnar forsendur og sanngirnisrök varðandi endurupptöku skaðabótamála vegna líkamstjóna. Þar með brjóti 11. gr. skaðabótalaga gegn 72. gr. stjórnarskrár, en Hæstiréttur Íslands hafi viðurkennt að vinnugeta manna séu eignarréttindi, sem varin séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Að þessu frátöldu kveðst stefnandi reisa kröfur sínar á 11. gr. skaðabótalaga, eftir því sem við á, og bendir þá sérstaklega á að í yfirmatsgerðinni sé tekið tillit til andlegra afleiðinga slyssins í júlí 2001 við mat á varanlegri örorku stefnanda.

Stefnandi leggur á það áherslu að þegar heilsa hans hafi verið metin í mars 2003 hafi ekki verið fyrirséð að slíkar breytingar yrðu á heilsu hans, miska og varanlegri örorku, sem raunin hafi orðið samkvæmt fyrirliggjandi yfirmati. Lög nr. 50/1993 byggist á því að mat á miska og varanlegri örorku gangi greiðlega fyrir sig og gert sé ráð fyrir að tjónþolar leiti til matslækna, m.a. til mats á varanlegri örorku, sem fyrst eftir að áverkar þeirra komist í jafnvægi og ekki sé að vænta frekari bata. Tímabundinni örorku ljúki þegar ekki sé að vænta frekari bata, við svokallaðan stöðugleikapunkt. Á þeim tímapunkti ríði á að niðurstaða fáist fljótlega um hver varanleg örorka sé, þar sem tjónþolar séu frá þessum tímapunkti án allra bóta og eigi oft erfitt uppdráttar þar til endanleg niðurstaða fáist. Tryggingafélög greiði ekki tímabundnar örorkubætur lengur en eitt ár, nema í sérstökum tilvikum. Er tjónþolar hafi fengið mat á örorku vegna slysa sé ekki annað ráð til en byggja á viðkomandi mati, því mjög kostnaðarsamt og tímafrekt sé að biðja um viðbótarmat eða dómkvaðningu sérfróðra matsmanna, enda þótt einhver vafi sé í huga viðkomandi tjónþola gagnvart fyrirliggjandi mati. Einnig verði það til þess að tjónþoli verði án bóta í langan tíma. Við þessa stöðu tjónþola bætist síðan að þeir séu oftar en ekki í erfiðri samningsstöðu við viðkomandi tryggingafélag. Allt þetta geri að verkum að líta verði með sanngirni á mál eins og þetta, þar sem í ljós hafi komið að miski og varanleg örorka hafi reynst verulega hærri en samkvæmt því mati sem fyrr hafi verið byggt á.

Stefnandi bendir á að samkvæmt áðurnefndri yfirmatsgerð séu bætur hans frá Tryggingastofnun ríkisins ekki vegna þeirra áverka sem hann hafi fengið í slysinu í júlí 2001. Frádráttur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga komi því ekki til álita.

Dómkröfur stefnanda eru settar fram á grundvelli yfirmatsgerðar og að teknu tilliti til viðmiðunartalna sem byggt var á við uppgjör til stefnanda í mars 2003, að því er varðar bætur fyrir varanlega örorku,  og sundurliðast þannig:

1.  Miskabætur: 7.593.000 x 3 stig

kr. 227.790

2.  Bætur fyrir varanlega örorku:   

    1.619.500 x 14,504 x 10%                       

kr. 2.348.922    

Samtals

kr. 2.576.712

Vaxtakrafan er reist á 16. gr. skaðabótalaga. Byggir stefnandi á því að vaxtakrafan sé ekki fyrnd, þar sem greitt hafi verið inn á kröfuna árið 2003 og málinu síðan verið stefnt innan fjögurra ára.

Stefnandi leggur á það áherslu að honum hafi ekki verið unnt að leita fullnustu kröfu sinnar á hendur aðalstefndu fyrr en yfirmat hafi legið fyrir, þ.e. í nóvember 2008, og sé sá tími upphafstími fyrningarfrests í máli þessu. Sé það í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 413/2009. Verði ekki fallist á þau rök kveðst stefnandi byggja á því að það sé grundvallarregla í skaðabótarétti að sá sem valdi öðrum manni tjóni verði að bæta tjónið ef um sök hafi verið að ræða, og fyrnist slíkur bótaréttur ekki fyrr en eftir 10 ár frá tjónsatburði. Engin gild rök séu fyrir því að slík bótakrafa eigi að fyrnast fjórum árum eftir að stöðugleikapunkti sé náð á grundvelli 99. gr. umferðarlaga, enda sé það ekki inntak þeirrar reglu. Slíkt sé einfaldlega mismunun og brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár. Vísar stefnandi í þessu sambandi til dóma Hæstaréttar Íslands, m.a. í málunum nr. 117/2000 frá 2. nóvember 2000, nr. 81/2004 frá 30. september 2004 og nr. 254/2001 frá 29. janúar 2002. Jafnframt byggir stefnandi á því að það brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár að hann sé ekki jafnrétthár fyrir lögum og aðrir sem bíði líkamstjón, og vísar í því efni til 14. og 18. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. I. viðauka sáttmálans.

Að því er varðar kröfu stefnanda á hendur varastefndu er á því byggt að stefndi, B, hafi verið bifreiðastjóri sendibifreiðarinnar [B]. Sú bifreið hafi ekið viðstöðulaust í veg fyrir bifreið stefnanda, sem ekið hafi verið yfir gatnamót móti grænu ljósi. Með því hafi stefndi B brotið gegn grundvallarreglum umferðarlaga um varúðarskyldu ökumanna, sbr. 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga, 5. gr. sem og 1. mgr. 14. gr. og IV. kafla sömu laga. Stefndi B hafi því með verulegu gáleysi valdið stefnanda líkamstjóni sem hann beri skaðabótaábyrgð á. Geti hann ekki skorast undan þeirri ábyrgð þó svo að hann hafi valdið tjóni stefnanda með akstri bifreiðar, sem í þessu tilviki hafi einungis verið hættulegt tæki sem hann hafi ekki stjórnað með nægilegri varúð. Því byggi stefnandi kröfu sína á hendur stefnda B ekki á því bótahagræði sem felist í 88. gr. umferðarlaga, heldur einungis á almennu skaðabótareglunni. Sé honum það heimilt samkvæmt málsforræðisreglu laga um meðferð einkamála. Í XIII. kafla umferðarlaga sé ekki mælt fyrir um að tjónþoli verði að byggja kröfur sínar vegna umferðarslyss á 88. gr. laganna og þeirri hlutlægu ábyrgðarreglu sem í þeirri lagagrein felist. Þvert á móti sé skýrlega kveðið á um það í umferðarlögum að það sé eigandi bifreiðar sem beri ábyrgð á akstri bifreiðarinnar, þó að ökumaður bifreiðarinnar valdi tjóninu, sbr. 88. gr. og 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga.  Þá sé í 99. gr. umferðarlaga tekið fram að allar kröfur á hendur þeim sem ábyrgð beri samkvæmt XIII. kafla og kröfur á hendur tryggingafélagi fyrnist á fjórum árum frá því að tjónþoli átti þess fyrst kost að leita fullnustu kröfu sinnar. Byggir stefnandi á því að 99. gr. umferðarlaga eigi ekki við um skaðabótaábyrgð ökumanns bifreiðar samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Hefði löggjafinn þurft að taka það skýrt fram ef sú regla hefði einnig átt að gilda þegar svo háttaði til.

Um aðild varastefnda, Vífilfells hf., vísar stefnandi til reglna skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð, en ökumaður bifreiðarinnar hafi verið starfsmaður þess fyrirtækis þegar slysið varð. Hafi ökumaðurinn valdið líkamstjóni stefnanda í vinnu sinni með saknæmum hætti sem vinnuveitandi beri ábyrgð á.

Stefnandi vísar enn fremur til þess að í 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga sé að finna þá reglu að hver sá sem beri sök á tjóni sem hljótist af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis, beri fébótaábyrgð eftir almennum skaðabótareglum. Ákvæði þetta sé sett ex tuto til þess að ekki fari á milli mála að bótaákvæði umferðarlaga skerði ekki að neinu leyti þann rétt sem tjónþoli kunni að eiga samkvæmt almennu skaðabótareglunni á hendur eiganda og ökumönnum ökutækja og öðrum aðilum. 

Krafa stefnanda á hendur varastefndu, er á sama hátt og krafa hans gagnvart aðalstefndu, reist á jafnræðissjónarmiðum. Þessi sjónarmið eigi hér enn frekar við, þar sem ekki sé byggt á hlutlægri ábyrgð 88. gr. umferðarlaga. Jafnframt er á því byggt að til þess að unnt sé að svipta stefnanda þeim rétti að krefja þann sem valdið hafi honum tjóni um bætur fyrir tjónið þurfi skýrar reglur í settum lögum. Vísar stefnandi í því efni til jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár og meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar.

Um lagarök vísar stefnandi til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, skaðabótalaga nr. 50/1993, almennra reglna fjármunaréttar og reglna um brostnar forsendur, sem og til meginreglna 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, en einnig til umferðarlaga nr. 50/1987 og eignarverndarákvæða þeirra sáttmála sem Ísland hafi gengist undir.

Málsástæður stefndu og lagarök

Aðalstefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að fram hafi farið fyrirvaralaust fullnaðaruppgjör milli stefnanda og stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., hinn 26. mars 2003. Lögmaður stefnanda hafi samkvæmt umboði undirritað greiðslukvittun þess efnis að greiðsla stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., væri fullnaðar- og lokagreiðsla vegna þess slyss sem stefnandi hafi orðið fyrir 15. júlí 2001.  Forsendur uppgjörsins hafi byggst á fyrrgreindri matsgerð C lögfræðings og D læknis, dagsettri 7. mars 2003. Í uppgjörinu sé sérstaklega áréttað að með greiðslunni sé lokið öllum kröfum á hendur félaginu vegna slyssins, nema endurupptaka sé heimil samkvæmt skaðabótalögum.

Í öðru lagi er á því byggt að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu ekki uppfyllt til endurupptöku, enda hafi ekki orðið ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu stefnanda frá því að uppgjörið fór fram, eins og áskilið sé í lagaákvæðinu. Því til stuðnings vísa aðalstefndu sérstaklega til fyrirliggjandi matsgerða dómkvaddra matsmanna, en þar komi beinlínis fram að heilsufar stefnanda hafi ekki versnað, heldur verði breytt niðurstaða varðandi varanlega örorku og varanlegan miska rakin til annarra þátta en breytinga á heilsu. Þannig segi orðrétt um þetta atriði í undirmatsgerð frá 25. september 2006: „Telja matsmenn að skýringin á því að niðurstaða þeirra sé hærri en matsmannanna [C] og [D], sé sú að þeir hafi ekki tekið tillit til andlegra afleiðinga líkamstjónsins í mati sínu, svo sem hér er gert.“ Jafnframt er vísað til eftirfarandi orða í yfirmatsgerð frá 22. nóvember 2008: „Þetta bendir þó ekki til þess að heilsufar matsbeiðanda hafi í sjálfu sér versnað sem nemur öðru en því að ganga lengi með varanlega erfið mein. Matsmenn telja skýringu á muninum frekar liggja í því að matsbeiðandi er í dag mun betur rannsakaður og hafa því matsmenn betri möguleika á að átta sig á heilsutjóni hans nú en þá.“ Samkvæmt þessu telja aðalstefndu augljóst að ekki hafi orðið neinar ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu stefnanda. Hækkun varanlegrar örorku og varanlegs miska leiði þannig af ólíkum aðferðum sem beitt sé í umræddum matsgerðum og betri og víðtækari rannsóknum. Heilsufar stefnanda hafi því ekki versnað, heldur verði breytt niðurstaða varðandi varanlega örorku og varanlegan miska rakin til annarra þátta en breytinga á heilsu, þ. á m. til andlegra einkenna stefnanda, sem hann hafi þegar fundið fyrir áður en matið frá 7. mars 2003 hafi verið gert.

Aðalstefndu benda á að í beiðni lögmanns stefnanda um yfirmat frá 4. nóvember 2007 sé þess ekki sérstaklega óskað að yfirmatsmenn meti hvort ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á varanlegum miska stefnanda eða örorku frá fyrra mati. Telja þeir að matsspurning, þar sem innt sé eftir því hvort heilsufar stefnanda hafi versnað frá því að mat fór fram í mars 2003, verði ekki lögð að jöfnu við spurningu um hvort ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsufari hans sem rekja megi til slyssins frá 15. júlí 2001. Reyndar telji matsmenn að heilsufar stefnanda hafi ekki versnað, að öðru leyti en því sem nemi að ganga lengi með varanleg erfið mein og að vera betur rannsakaður en áður. Þá hafna þessir stefndu því alfarið að ætla megi að miskastig eða örorkustig stefnanda sé verulega hærra en talið hafi verið árið 2003. Benda þeir á að í niðurstöðu undirmatsgerðar og yfirmatsgerðar um batahvörf og varanlegan miska stefnanda skilji afar lítið á milli, eða einungis þrír mánuðir varðandi stöðugleikapunkt og þrjú stig varðandi varanlegan miska, en þau atriði sem lúti að heilsufari stefnanda og læknisfræðilegum afleiðingum slyssins þyki ekki gefa vísbendingu um að breytingar hafi orðið á heilsufari hans frá því sem sjá hafi mátt fyrir er aðilar hafi gert upp tjón hans 26. mars 2003.

Að mati aðalstefndu er hækkun á varanlegum miska úr 7 stigum í 10 stig fjarri því að geta talist veruleg hækkun á miskastigi í skilningi 11. gr. skaðabótalaga. Vísa þeir í þessu sambandi til dóma Hæstaréttar frá árinu 2003, bls. 943 og bls. 2127, en einnig til dóma réttarins í málunum nr. 516/2009, 614/2007 og 299/2009. Mótmæla þeir því jafnframt að hækkun á varanlegri örorku úr 5% í 15% geti talist veruleg hækkun á varanlegri örorku í skilningi sama ákvæðis og vísa í fyrrgreinda dóma Hæstaréttar. Niðurstöður þeirra dóma eigi það sammerkt að þegar metið sé hvort breyting frá fyrra mati sé veruleg í stigum talið, beri að miða við þann 100 stiga mælikvarða sem lagður sé til grundvallar við matið, en ekki til þess hversu varanlegur miski og varanleg örorka hafi hækkað hlutfallslega frá því sem lagt hafi verið til grundvallar við upphaflega bótaákvörðun. Með hliðsjón af þessum skýru dómafordæmum sé ekki unnt að fallast á að umrædd hækkun á varanlegri örorku geti talist veruleg í skilningi 11. gr. skaðabótalaga.

Samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga þurfi bæði framangreind skilyrði að vera uppfyllt til að skylt sé að endurupptaka málið. Byggja stefndu á því að stefnandi hafi ekki á nokkurn hátt sannað að verulegar breytingar hafi orðið á heilsu hans af völdum slyssins, sem ekki hafi verið unnt að sjá fyrir er hann hafi samið um fullnaðarbætur.  Þá benda þeir á að stefnandi hafi látið hjá líða að geta mikilvægra upplýsinga um andlegar afleiðingar líkamstjónsins, sem hann segi þó að hafi byrjað að hrjá sig þegar eftir slysið, en þeim hafi hann fyrst greint frá tveimur árum eftir að fullnaðaruppgjör hafi farið fram. Stefnandi hafi engar skýringar gefið fyrir þessu tómlæti sínu. Þar sem hvorugt skilyrði 11. gr. skaðabótalaga sé á hinn bóginn uppfyllt í máli þessu, beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna aðalstefndu.

Af hálfu aðalstefndu er því mótmælt að skýra skuli 11. gr. skaðabótalaga á annan veg en eftir orðanna hljóðan. Jafnframt er því mótmælt að reglur kröfuréttar um brostnar og rangar forsendur eigi hér við eða geti vikið til hliðar skýru ákvæði 11. gr. skaðabótalaga, sem setji ströng skilyrði fyrir endurupptöku fyrirvaralauss bótauppgjörs. Að sama skapi mótmæla aðalstefndu því að tilvitnað ákvæði skaðabótalaga brjóti gegn 72. gr. stjórnarskrár Íslands. Þá telja þeir með öllu þýðingarlausar almennar hugleiðingar stefnanda um aðstöðu og aðstæður sem tjónþolar kunni að vera í við öflun örorkumats vegna slysa, og þá erfiðleika sem stefnandi telji vera á því að afla viðbótarmats. Uppfylli þessi umfjöllun stefnanda heldur ekki kröfur e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Auk ofanritaðs byggja aðalstefndu á því að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti. Tæp fjögur ár hafi liðið frá því að stefnandi slasaðist og þar til hann hafi greint frá þeim andlegu afleiðingum slyssins sem hækkun í niðurstöðu yfirmatsgerðar á varanlegum miska og varanlegri örorku grundvallist alfarið á. Með því sé ljóst að stefnandi hafi enga tilraun gert til þess að innheimta þá kröfu sem hér sé fjallað um fyrr en tæpum átta árum eftir slysið, eða fá tjón sitt metið fyrr en rúmum fjórum árum eftir það, jafnvel þótt einkenni þessi hafi að mestu komið fram þegar eftir slysið 2001, að sögn stefnanda sjálfs. Stefnanda hafi einum mátt vera ljóst umfang þess líkamstjóns sem bóta sé krafist fyrir. Með þessari háttsemi hafi hann hins vegar sýnt af sér algert tómlæti við innheimtu á meintri kröfu sinni. Leiði það til sýknu stefndu.

Sýknukrafa aðalstefndu byggist í þriðja lagi á því að orsakatengsl á milli slyssins og þeirra andlegu afleiðinga líkamstjóns, sem stefnandi kveður það hafa valdið sér, séu með öllu ósönnuð. Þannig komi ekkert fram í gögnum málsins um að stefnandi hafi rekið höfuðið í við þetta slys, né heldur að hann hafi misst meðvitund eða vankast. Þessu til stuðnings vísa aðalstefndu til þeirra læknisfræðilegu gagna sem lágu til grundvallar því örorkumati sem fullnaðaruppgjör byggðist á. Um leið mótmæla þeir, sem röngu, læknisvottorði F geðlæknis, dagsettu 5. apríl 2005, um þetta atriði, en ítreka þess í stað að meint orsakatengsl milli slyssins 2001 og þeirra andlegu einkenna sem sögð séu hrjá stefnanda, séu með öllu ósönnuð. Jafnframt benda þessir stefndu á að í gögnum málsins komi fram nokkurt misræmi í frásögn stefnanda um umrædd einkenni. Þannig segi hann ýmist að þau hafi byrjað að hrjá sig þegar eftir slysið 2001, og/eða valdið því að þau einkenni sem hann hafi þá búið við hafi versnað, eða að þau hafi verið farin að hrjá sig þegar eftir umferðarslysið í október 1996. Fyrir liggi hins vegar að stefnandi hafi ekki leitað til læknis í rúm tvö ár eftir slysið 2001, eða frá því að hann hafi farið til M læknis haustið 2002, þar til hann hafi leitað til E taugalæknis í janúar 2005. Af því megi draga þá ályktun að á því tímabili hafi ekki verið um að ræða óvissu um afleiðingar slyssins, sem gæti tengst von um árangur af læknismeðferð. Fyrir vikið liggi heldur ekkert fyrir um að heilsufar stefnanda hafi farið versnandi á þessum tíma. Árétta stefndu að liðið hafi fjögur ár frá umferðarslysinu 2001 og þar til stefnandi hafi greint frá umræddum andlegum afleiðingum þess, sem hann segi þó að hafi byrjað að hrjá sig þegar eftir slysið.

Álíti dómurinn að stefnandi hafi ekki verið nægilega vel rannsakaður þegar hann samdi um fullnaðarbætur í mars 2003, telja aðalstefndu rétt að stefnandi verði látinn bera hallann af því sökum tómlætis hans. Í gögnum málsins komi fram að stefnandi viðurkenni að hafa hvorki greint frá umræddum einkennum í viðtölum sínum við lækna fyrr en á árinu 2005, né leitað sér aðstoðar vegna þeirra. Hafi stefnandi ekki gefið neina viðhlítandi skýringu á því að hafa þagað um þessi einkenni, sem hann kveði að miklu leyti hafa valdið óvinnufærni sinni og dregið nær alfarið úr getu sinni til að stunda nám. Ástæðu þess að meint skerðing á andlegri og vitrænni getu stefnanda hafi ekki verið metin ásamt öðrum afleiðingum líkamstjónsins, þegar samið hafi verið um fullnaðarbætur vegna slyssins, megi þannig alfarið rekja til tómlætis stefnanda, en með engum hætti til ástæðna er varði stefndu.

Í fjórða lagi er sýknukrafa aðalstefndu á því reist að krafa stefnanda vegna umferðarslyssins 15. júlí 2001 hafi verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað. Breyti þá engu hvort miðað sé við birtingu stefnu í hinu fyrra máli, þ.e. 28. júní 2007, eða í þessu máli, þ.e. 28. júní 2011. Bótakrafan sé reist á ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, en um fyrningu slíkra krafna gildi sérákvæði 99. gr. laganna. Samkvæmt því ákvæði fyrnist bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna, gagnvart þeim sem ábyrgð ber og vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.  Fram komi í yfirmatsgerð þeirra K, J og L að ekki hafi verið að vænta frekari bata á heilsufari stefnanda vegna afleiðinga umrædds umferðarslyss sex mánuðum eftir slysdag. Því hafi verið miðað við að stöðugleikatímapunktur í skilningi skaðabótalaga hafi verið 15. janúar 2002.  Eigi þetta sér einnig stoð í öðrum læknisfræðilegum gögnum málsins, þar sem fram komi að heilsa stefnanda hafi verið óbreytt um langt skeið. Miðað sé einnig við sama stöðugleikapunkt í undirmatsgerð þeirra H og I frá 25. september 2006. Af þessu tilefni taka stefndu fram að stefnandi lýsi því í samtali við yfirmatsmenn að stefnandi telji sig hafa sokkið andlega niður eftir slysið 15. júlí 2001 og átt í vandræðum síðan. Þá árétta aðalstefndu að í yfirmatsgerðinni hafi verið tekin sérstök afstaða til þess hvort heilsufar stefnanda hefði versnað frá því sem fram komi í matsgerð 7. mars 2003. Niðurstaðan hafi hins vegar verið sú að heilsufar stefnanda hefði ekki versnað, heldur mætti rekja hækkun á miskastigum og varanlegri örorku til þess að stefnandi væri þá betur rannsakaður. Telja stefndu þannig ljóst að engar ófyrirsjáanlegar breytingar hafi átt sér stað á heilsufari stefnanda, sem leitt gætu til hækkunar á miska eða varanlegri örorku hans, frá því að örorkumatið frá 2003 lá fyrir.

Við mat á því hvenær fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga byrji að líða, benda aðalstefndu á að skapast hafi skýr dómaframkvæmd fyrir því að miða við lok þess árs þegar stöðugleikatímapunktur hafi verið ákveðinn af matsmönum, eða það tímamark þegar tjónþola hafi fyrst mátt vera ljóst að hann hefði hlotið varanlegt mein af slysinu, og þar með átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar. Beri að taka mið af því að stefnandi hafi sjálfur verið fær um að gera greinarmun á afleiðingum fyrri umferðarslysa á heilsufar sitt og þess slyss sem hér sé til umfjöllunar, eins og fram komi í gögnum málsins. Og þótt ætla megi tjónþola einhvern tíma til að afla mats um afleiðingar slyss frá þessum tímapunkti, telja stefndu að ekki séu efni til að meta þann tíma lengri en nokkra mánuði, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 353/2007.

Með vísan til ofanritaðs, svo og þess að stöðugleikatímapunktur stefnanda var 15. janúar 2002, byggja stefndu á því að fyrningarfrestur vegna kröfu stefnanda í máli þessu hafi byrjað að líða 1. janúar 2003. Krafan hafi því verið fyrnd 1. janúar 2007, enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á neitt sem hafi staðið því í vegi að hann hefði þegar á árinu 2003 getað látið meta tjón sitt að fullu og leitað fullnustu kröfunnar frá því tímamarki. Stefnandi hafi á þeim tíma haft vitneskju um meintar andlegar afleiðingar líkamstjónsins, en hafi ekki fært fram nein rök fyrir því að hafa látið hjá líða að greina frá þeim einkennum. Vísa stefndu í þessu sambandi einnig til niðurstöðu yfirmatsgerðar, þar sem fram komi að yfirmatsmenn telji að stefnanda hafi mátt vera ljóst eigi síðar en sex mánuðum eftir slysdag, þ.e. hinn 15. janúar 2002, að einkenni hans myndu ekki batna svo neinu máli skipti og að þau teldust varanleg.

Aðalstefndu benda á að stefnandi hafi í fyrstu höfðað mál þetta með stefnu 28. júní 2007, en Hæstiréttur hafi vísað því frá dómi 18. mars 2010. Í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, sé að finna sérstaka reglu er gildi þegar fyrningarfrestur kröfu sé liðinn, en ákvæðið mæli fyrir um að hafi máli verið vísað frá dómi eða það fellt niður, hafi kröfuhafi sex mánuði til að höfða nýtt mál. Þar sem stefnandi hafi fyrst höfðað mál þetta, sem hér sé til úrlausnar, með stefnu birtri 28. júní 2011, eða rúmum fimmtán mánuðum eftir frávísunardóm Hæstaréttar, sé fyrningarfrestur ekki rofinn og kröfur stefnanda því fyrndar.

Að lokum mótmæla þessir stefndu því að afstaða þeirra til bótakröfu stefnanda brjóti með einhverjum hætti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglum laga um upphaf fyrningarfrests. Hæstiréttur hafi í fjölmörgum dómum staðfest framangreinda túlkun á 99. gr. umferðarlaga og blasi því við að ákvæðið sé í fullu samræmi við bæði ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.  Þá feli ákvæðið ekki í sér nokkurs konar mismunun milli stefnanda og annarra í sömu stöðu, enda gildi ákvæðið jafnt um alla þá sem sæki bætur á grundvelli XIII. kafla umferðarlaga. Þá fái ekki staðist að halda því fram að sérákvæði um fyrningarfrest vegna bótakrafna á grundvelli umferðarlaga brjóti sem slíkt í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Líkt og aðalstefndu byggja varastefndu sýknukröfu sína á því að bótakrafa stefnanda vegna umferðarslyssins hafi verið fyrnd þegar mál um hana hafi verið höfðað. Fyrningarregla umferðarlaga taki til allra skaðabótakrafna sem rekja megi til áreksturs tveggja vélknúinna, skráningarskyldra ökutækja og skipti þá engu máli hvort meint bótaskylda sé reist á 89. gr. umferðarlaga, 3. mgr. 90. gr. laganna eða á öðrum bótagrundvelli sem stefnandi kunni að reisa kröfu sína á. Gildi þetta hvort sem bótakröfu sé beint að eiganda, umráðamanni eða ökumanni bifreiðar. Í máli þessu sé byggt á því að tjón stefnanda verði rakið til áreksturs 15. júlí 2001. Bótakrafa stefnanda hafi því verið fyrnd þegar málið hafi verið höfðað.

Varastefndu byggja jafnframt á því að þeir geti ekki borið skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á öðrum lagagrundvelli en fjallað sé um í XIII. kafla umferðarlaga, sbr. 88.-90. gr. laganna. Með umferðarlögum hafi löggjafinn sett þær leikreglur sem gildi um tjón af völdum vélknúinna ökutækja, og verði ekki vikið frá þeim þar sem um sé að ræða sérákvæði sem gangi framar almennum ákvæðum skaðabótaréttar. Engin lagaheimild sé til þess í íslenskum rétti að fella bótaábyrgð á varastefndu á grundvelli almennu skaðabótareglunnar eingöngu, án tilvísunar til 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga, enda sé um að ræða kröfu sem eigi rætur að rekja til umferðarslyss. Að áliti varastefndu myndi slík beiting almennu skaðabótareglunnar brjóta freklega gegn tilgangi XIII. kafla umferðarlaga, enda feli 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga í sér bótaábyrgð eiganda, umráðamanns eða ökumanns bifreiðar á sakargrundvelli. Þar sem byggt sé á því í málinu að tjón stefnanda megi rekja til áreksturs 15. júlí 2001 fari um meinta bótaábyrgð samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga. Vissulega geti stefnandi byggt á almennum skaðabótareglum, sbr. 3. mgr. 90. gr. laganna, en þar sem um sé að ræða mál vegna tjóns af völdum vélknúins ökutækis gildi ákvæði XIII. kafla laganna um kröfuna, þar með talið fyrningarákvæði 99. gr.

Auk ofanritaðs byggja varastefndu á því að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti og vísa til fyrri röksemda. Sjónarmið um tómlæti eigi enn frekar við hvað varði kröfu á hendur varastefnda B, enda hafi hann ekki fengið vitneskju um kröfu stefnanda fyrr en við birtingu stefnu þessarar fyrir honum, eða 5. júlí 2011, og því tæpum tíu árum eftir slysdag. Enn fremur byggja varastefndu sýknukröfu sína á því að ekki hafi verið sýnt fram á það grundvallaratriði skaðabótaábyrgðar að um saknæma háttsemi af hálfu varastefnda B hafi verið að ræða, en fyrir því beri stefnandi sönnunarbyrði. Ekki liggi fyrir sönnun þess að tjón stefnanda verði rakið til ásetnings eða gáleysis af hálfu varastefnda B. Því verði að sýkna hann af kröfu stefnanda. Loks mótmæla varastefndu málsástæðum stefnanda sem byggjast á jafnræðissjónarmiðum, og vísa til sömu raka og hér að framan.

Varakrafa stefndu um verulega lækkun á kröfum stefnanda byggist á sömu málsástæðum og sýknukröfur þeirra.

Stefndu mótmæla sérstaklega kröfu um vexti, eldri en fjögurra ára frá málshöfðunardegi, þar sem þeir séu fyrndir, sbr. 9. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Einnig er mótmælt kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

Um lagarök vísa stefndu til umferðarlaga nr. 50/1987, skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns, orsakatengsl og tómlæti tjónþola, laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála og laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Málskostnaðarkrafan er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Í máli þessu krefst stefnandi bóta vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir  15. júlí 2001. Hinn 26. mars 2003 greiddi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. honum bætur vegna slyssins, samtals 1.828.117 krónur. Til grundvallar uppgjörinu lá matsgerð á heilsutjóni stefnanda, unnin af C lögfræðingi og D lækni, dagsett 7. mars 2003. Við uppgjörið naut stefnandi aðstoðar lögmanns sem gaf fyrir hans hönd kvittun fyrir bótunum, þar sem tekið var fram að um væri að ræða fullnaðar- og lokagreiðslu vegna slyssins, og að með henni væri lokið öllum kröfum á hendur félaginu vegna þess. Í kvittuninni var almennur fyrirvari um að endurupptaka málsins kæmi aðeins til álita að hún yrði leidd af almennum réttarreglum og að afleiðingar slyssins yrðu í verulegum atriðum aðrar og meiri en gera mátti ráð fyrir við bótauppgjör. Stefnandi telur að eftir uppgjörið hafi orðið breytingar á heilsufari hans, sem gefi tilefni til frekari kröfu á hendur stefndu.

Eins og fram er komið kveðst stefnandi aðallega byggja kröfu sína á hendur aðalstefndu á reglum kröfuréttar um rangar og brostnar forsendur. Telur hann að þau læknisfræðilegu gögn sem nú liggi fyrir staðfesti að forsendur matsgerðar sem lögð var til grundvallar bótauppgjöri 26. mars 2003 séu brostnar, eða hafi frá upphafi verið rangar. Verði ekki fallist á að um forsendubrest sé að ræða kveðst stefnandi byggja á 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hins vegar heldur hann því fram að tilvitnuð 11. gr. feli í sér þrengingu á þeim reglum sem áður giltu í þessum efnum á grundvelli meginreglna kröfuréttar um rangar og brostnar forsendur og sanngirnisrök, og brjóti þar af leiðandi gegn 72. gr. stjórnarskrár.

Samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga er það skilyrði fyrir kröfu tjónþola, um að tekin verði upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur, að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Litið hefur verið svo á að í þessu ákvæði felist sérregla um áhrif þess að forsendur, sem lagðar hafa verið til grundvallar við ákvörðun skaðabóta, reynist síðar brostnar. Þrátt fyrir að stefnandi hafi kosið að haga málatilbúnaði sínum eins og að ofan greinir, getur því ekki komið til álita að ógilda samning um uppgjör bóta með stoð í ólögfestum reglum fjármunaréttar um brostnar forsendur, án þess að taka fyrst afstöðu til þess hvort fyrir hendi séu skilyrði til að taka upp að nýju fyrri bótaákvörðun á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga.

Í málinu liggur fyrir nokkur fjöldi læknisfræðilegra gagna um heilsufar stefnanda og læknismeðferð eftir slysið 15. júlí 2001. Hefur efni þeirra helstu verið rakið hér að framan svo sem ástæða þykir til. Jafnframt hefur verið gerð grein fyrir niðurstöðum matsgerða, bæði undirmatsgerðar og yfirmatsgerðar, vegna áverka stefnanda er hann hlaut í öllum þremur umferðarslysunum sem hann hefur orðið fyrir og getið hefur verið um. Byggist dómkrafa stefnanda á niðurstöðum yfirmatsgerðar, sem dagsett er 22. nóvember 2008, og unnin var af læknunum J og K og L lagaprófessor. Varanlegur miski stefnanda vegna slyssins 15. júlí 2001 var þar metinn til 10 stiga og varanleg örorka 15%. Í matsgerð C lögfræðings og D læknis, dagsettri 7. mars 2003, sem lögð var til grundvallar bótauppgjöri 26. sama mánaðar, var miski hins vegar metinn til 7 stiga og varanleg örorka 5%. Fram kemur í yfirmatsgerðinni að matsmenn telja heilsutjón stefnanda eftir slysið 1996 vera víðtækara en fram kom í matsgerð sem unnin var vegna þess slyss á árinu 2000. Hið sama gildi um matsgerðina frá 7. mars 2003. Hins vegar taka yfirmatsmenn fram að þetta bendi þó ekki til þess að heilsufar matsbeiðanda hafi í sjálfu sér versnað sem nemur öðru en því að ganga lengi með varanleg erfið mein. Skýringu á muninum á matsgerðum segja þeir frekar liggja í því að matsbeiðandi sé í dag mun betur rannsakaður og hafi því matsmenn betri möguleika á að átta sig á heilsutjóni hans nú en þá. Af matsgerðinni er hins vegar ljóst að andlegir erfiðleikar stefnanda ráða mestu um breytt mat á varanlegum miska og örorku hans frá fyrra mati, þótt örðugt sé að henda reiður á vægi þess þáttar í síðasta slysinu. Er þá sérstaklega til þess horft að samkvæmt yfirmatsgerðinni telja matsmenn að það höfuðhögg sem stefnandi fékk í umferðarslysinu í október 1996 sé orsakavaldur að þeirri truflun á framheila sem stefnandi búi við. Er þessi niðurstaða yfirmatsmanna að mestu samhljóða áliti undirmatsmanna, H læknis og I þáverandi lagaprófessors, í matsgerð þeirra 25. september 2006, þótt undirmatsmenn hafi bæði metið miska og örorku stefnanda nokkuð lægra en yfirmatsmenn. Þá svara undirmatsmenn þeirri spurningu hvort breyting hafi orðið á heilsu matsbeiðanda frá því matið 7. mars 2003 fór fram, þannig: „Engar raunbreytingar hafa orðið á heilsu matsbeiðanda frá matsgerðinni á árinu 2003.“

Með vísan til ofanritaðs og annarra fyrirliggjandi gagna er það álit dómsins að stefnandi hafi ekki fært fram sönnur fyrir því að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu hans eftir bótauppgjörið 26. mars 2003. Eru því ekki uppfyllt skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um að tekin verði upp að nýju ákvörðun um bætur honum til handa vegna þess líkamstjóns sem hann hlaut í umferðarslysi 15. júlí 2001.

Ekki verður fram hjá því horft að samkvæmt áðurnefndri yfirmatsgerð er varanlegur miski og varanleg örorka stefnanda metin töluvert hærri en áður var gert ráð fyrir samkvæmt þeirri matsgerð sem lögð var til grundvallar bótauppgjöri. Ástæða þessa eru aðrir þættir en breytingar á heilsu stefnanda, og virðist þar mestu ráða ítarlegri rannsókn á heilsutjóni hans, og þá einkum andlegum afleiðingum í kjölfar umferðarslysanna í október 1996 og 15. júlí 2001. Í þessu ljósi er nauðsynlegt að fjalla um þá málsástæðu stefnanda hvort forsendur fyrir þeirri matsgerð sem lagðar voru til grundvallar bótauppgjöri 26. mars 2003 séu brostnar eða hafi reynst rangar. 

Í máli þessu liggja engin samtímagögn fyrir sem staðfest geta frásögn stefnanda um að hann hafi strax eftir umferðarslysið í júlí 2001 farið að finna til þeirra andlegu erfiðleika sem síðar hafa komið í ljós. Slíkum gögnum er heldur ekki til að dreifa frá fyrri umferðarslysum hans. Liggja þannig hvorki fyrir læknisvottorð þessa efnis frá þeim tíma né nokkrar upplýsingar um læknismeðferð. Var það fyrst í viðtali hjá F geðlækni fyrri hluta árs 2005, eða tæpum fjórum árum eftir slysið, að stefnandi greindi frá þeim einkennum, og tók fram að hann hefði ekki sagt neinum læknum frá þessum óþægindum. Liggur því beinast við að álykta að stefnandi hafi þagað yfir þessum einkennum í viðtölum við D lækni og C lögfræðing þegar þeir unnu að þeirri matsgerð sem lögð var til grundvallar bótauppgjöri 26. mars 2003. Hlaut honum þó vera ljóst að þær upplýsingar kynnu að hafa áhrif á matið eða kalla á viðeigandi rannsóknir. Fyrir vikið getur dómurinn ekki fallist á að stefnandi geti nú stutt kröfu sína þeim rökum að forsendur sem lagðar voru til grundvallar bótauppgjörinu hafi brostið eða reynst rangar. Er þeirri málsástæðu því hafnað. Hinu sama gegnir um óljósa málsástæðu stefnanda um aðstöðu og aðstæður tjónþola við öflun örorkumats, enda verður ekki séð að hún hafi nokkra þýðingu við úrlausn málsins.

Samkvæmt ofanrituðu er það niðurstaða dómsins að sýkna beri aðalstefndu af kröfum stefnanda. Í þeirri niðurstöðu felst að stefnandi á ekki frekari kröfur á hendur aðalstefndu vegna þess tjóns sem hann hlaut í umferðarslysinu 15. júlí 2001. Fjárkrafa hans var greidd að fullu 26. mars 2003. Af því leiðir jafnframt að stefnandi getur ekki nú beint kröfum að varastefndu vegna sama tjóns, hvorki á grundvelli XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 né almennra skaðabótareglna. Þegar af þeirri ástæðu verða varastefndu  einnig sýknaðir af kröfum hans. Þar sem því er hafnað að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefndu eru ekki efni til að fjalla um málsástæðu stefndu um fyrningu kröfu stefnanda samkvæmt 99. gr. umferðarlaga.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt, með vísan til atvika allra, að hver aðila beri sinn kostnað af málinu. 

Dóminn kváðu upp Ingimundur Einarsson dómstjóri, sem dómsformaður, og læknarnir Ríkarður Sigfússon og Torfi Magnússon.

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Vífilfell hf. og B, eru sýkn af kröfum stefnanda, A.

Málskostnaður fellur niður.