Hæstiréttur íslands
Mál nr. 237/2003
Lykilorð
- Handtaka
- Skaðabætur
- Áfrýjun
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 5. febrúar 2004. |
|
Nr. 237/2003. |
Íslenska ríkið (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Franklín Kristni Steiner (Jón Magnússon hrl.) og Franklín Kristinn Steiner og Abraham Jóab Önnuson gegn íslenska ríkinu |
Handtaka. Skaðabætur. Áfrýjun. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti. Gjafsókn.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að F ætti rétt á bótum vegna ólögmætrar handtöku en bótafjárhæð var lækkuð. Kröfu A var vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti þar sem hann hafði ekki áfrýjað málinu fyrir sitt leyti innan lögmælts frests.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. júní 2003 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjandans Franklíns Kristins Steiner og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum. Þá krefst aðaláfrýjandi þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur um kröfu gagnáfrýjandans Abrahams Jóabs Önnusonar, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst aðaláfrýjandi þess að málskostnaður verði felldur niður milli sín og þessa gagnáfrýjanda.
Héraðsdómi var gagnáfrýjað 2. september 2003. Gagnáfrýjandinn Franklín krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 1.030.640 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilteknum fjárhæðum frá 15. ágúst 2001 til greiðsludags. Gagnáfrýjandinn Abraham krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum frá 21. mars 2002 til greiðsludags. Þeir krefjast báðir að staðfest verði ákvæði héraðsdóms um málskostnað og að aðaláfrýjanda verði gert að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem gagnáfrýjandanum Franklín hefur verið veitt hér fyrir dómi.
I.
Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 19. desember 2002. Með honum var aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjandanum Franklín 120.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. mars 2002 til greiðsludags, en sýknaður af kröfu gagnáfrýjandans Abrahams. Aðaláfrýjandi fékk áfrýjunarstefnu gefna út 19. júní 2003 að fengnu áfrýjunarleyfi, sem hann sótti um 13. mars sama ár. Beindist áfrýjun hans að gagnáfrýjandanum Franklín, sem neytti heimildar samkvæmt 3. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994, til að gagnáfrýja héraðsdómi innan þess sérstaka frests, sem þar er kveðið á um. Sá frestur gilti á hinn bóginn ekki fyrir gagnáfrýjandann Abraham, enda varðaði málskot aðaláfrýjanda hann ekki. Hefði þessum gagnáfrýjanda því borið að áfrýja fyrir sitt leyti innan þeirra almennu fresta, sem um ræðir í 1. mgr., sbr. 2. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991, en engu breytir í því efni að gagnáfrýjandinn Franklín komi fram í málinu sem fyrirsvarsmaður þessa samlagsaðila síns, sem er ólögráða sakir æsku. Verður því að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti að því er gagnáfrýjandann Abraham varðar.
II.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að gagnáfrýjandinn Franklín eigi rétt á skaðabótum samkvæmt a. lið 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vegna þeirrar ólögmætu handtöku, sem þar er nánar greint frá og hann sætti af hendi lögreglunnar í Hafnarfirði 28. janúar 2001. Verður jafnframt fallist á með héraðsdómara að gagnáfrýjandinn geti ekki krafið aðaláfrýjanda um skaðabætur vegna annarra atriða, sem þessu atviki tengdust. Gagnáfrýjandinn var sviptur frelsi í tæpar tvær klukkustundir í umrætt sinn. Þegar þetta er virt með tilliti til atvika málsins að öðru leyti, þar á meðal að gagnáfrýjandinn hefur áður mátt sæta ólögmætum aðgerðum lögreglu í sinn garð, eru bætur handa honum hæfilega ákveðnar 50.000 krónur. Af þeirri fjárhæð skulu greiðast dráttarvextir eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjandans Franklíns fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti að því er varðar gagnáfrýjanda Abraham Jóab Önnuson.
Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda Franklín Kristni Steiner 50.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. mars 2002 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda Franklíns Kristins Steiner fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2002.
Mál þetta var höfðað 21. febrúar 2002 og dómtekið 11. þ.m.
Stefnandi er Franklín Kristinn Steiner, kt. 140247-5459, Austurgötu 27b, Hafnarfirði sjálfs hans vegna og vegna ófjárráða sonar hans, Abrahams Jóabs Önnusonar, kt. 150994-2099, Austurgötu 27 b, Hafnarfirði.
Stefndi er íslenska ríkið.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér, sjálfs sín vegna, 1.030.640 krónur með 23,5% dráttarvöxtum af 14.940 krónur frá 15. ágúst 2001 til 31. desember s.á., 22% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá 1. janúar 2002 til 11. febrúar s.á., 22% dráttarvöxtum af 30.640 krónum frá þeim degi til stefnubirtingardags, dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 30.640 krónum til þess dags þegar einn mánuður er liðinn frá birtingu stefnu í máli þessu og dráttarvöxtum samkvæmt sömu viðmiðun af 1.030.640 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Einnig að stefnda verði gert að greiða stefnanda fyrir hönd sonar hans, Abrahams Jóabs Önnusonar, 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi þegar einn mánuður er liðinn frá birtingu stefnu í máli þessu og til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda, Franklín Kristni Steiner, (og Abraham Jóab Önnusyni) var veitt gjafsóknarleyfi 21. maí 2002.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar úr hendi þeirra en til vara að kröfur þeirra verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla.
(Í dóminum verður við það miðað að stefnandi málsins sé einn.)
I
Í skýrslu lögreglunnar í Hafnarfirði, sem gerð var 29. janúar 2001 af Bjarna Halldóri Sigursteinssyni og staðfest af Þresti Þór Guðmundssyni, segir að þeir hafi verið við eftirlit um kl. 21.03 sunnudaginn 28. janúar 2001 og ekið Reykjanesbraut til vestur er þeir veittu athygli bifreiðinni IS-551 þar sem henni var ekið Ásbraut til vesturs að hringtorginu við Ásvelli. Þar hafi bifreiðinni verið ekið út úr hringtorginu eins og ætlunin væri að aka að íþróttahúsinu, hún stöðvuð með stefnu austur Ásbraut og síðan ekið af stað aftur inn í hringtorgið og áfram vestur og norður Krísuvíkurveg. Upplýsingar hafi borist lögreglu um meint fíkniefnamisferli umráðamanns bifreiðarinnar, stefnanda máls þessa, bæði neyslu og sölu fíkniefna. Einnig hafi hann verið stöðvaður í apríl á næstliðnu ári og muni hann þá hafa kastað frá sér smáræði af tóbaksblönduðu hassi. Því hafi verið ákveðið að kanna hvaða erindi hann ætti upp Krísuvíkurveg á þessum tíma kvölds. Í þeim tilgangi hafi lögreglumennirninr farið á lögreglustöðina, tekið þar ómerkta lögreglubifreið um kl. 21.10 og haldið upp á Krísuvíkurveg. Þegar þeir hafi verið komnir skammt upp fyrir þurrkhjallana við Krísuvíkurveginn hafi þeir mætt bifreiðinni IS-551 sem hafi verið ekið hægt suður veginn. Þeir hafi snúið við og veitt bifreiðinni eftirför norður Krísuvíkurveg. Lögreglubifreiðinni hafi verið ekið á um 80 100 km/klst hraða án þess að nálgast IS-551. Ísing hafi verið á veginum og hann óupplýstur þar til komið var niður undir Ásvelli, en eftir það hafi vegurinn verið blautur en upplýstur. Þegar nálgaðist Ásvelli hafi lögreglumennirnir gert sér grein fyrir að sennilega væri ökumaður IS-551 að reyna að stinga þá af. Þegar komið hafi verið inn á Reykjanesbrautina, þar sem sé 70 km/klst hámarkshraði hafi þeir aukið hraðann í 110 km/klst og þó hafi ekki dregið saman með bifreiðunum fyrr en IS-551 lenti á eftir annarri bifreið milli Hvammabrautar og Öldugötu. Bifreið hafi síðan verið ekið í veg fyrir lögreglubifreiðina af Kaldárselsvegi inn á Reykjanesbraut þannig að þeir hafi ekki komið að IS-551 fyrr en við gatnamót Reykjanesbrautar og Lækjargötu en þar hafi Franklín stöðvað bifreiðina á rauðu ljósi. Þegar grænt ljós hafi kviknað fyrir akstursstefnu IS-551 hafi hann ekið yfir gatnamótin í vinstri beygju inn á Lækjargötu í veg fyrir bifreið sem ók beint yfir gatnamótin til suðurs. Þeir hafi veitt honum eftirför þar sem hann jók ört hraðann vestur Lækjargötu. Á móts við Lækjargötu 32 hafi þeir sett blátt blikkandi ljós í framrúðu og blikkað háu ljósum bifreiðarinna. Þá hafi IS-551 lent á eftir bifreið sem var ekið Lækjargötu til vesturs. Akstur IS-551 hafi ekki verið stöðvaður og hafi lögreglumennirnir tilkynnt um fjarskiptin að ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum. Þegar IS-551 hafi komið að Strangötu hafi hann beygt inn í götuna og stöðvað við hús nr. 49 um kl. 21.35. Þeir hafi rætt við ökumann, Franklín, en með honum í bifreiðinni hafi verið Abraham, sonur hans. Franklín hafi því verið boðið yfir í lögreglubifreiðina til viðræðna við lögreglumenn en barnið hafi orðið eftir í IS-551. Í lögreglubifreiðinni hafi Franklín verið gerð grein fyrir ástæðu afskiptanna. Þau væru ætluð umferðarlagabrot, hann hafi ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglumannanna og hefðu þeir ástæðu til að ætla að hann hefði verið að reyna að stinga þá af. Honum hafi verið gerð grein fyrir að lögreglumennina grunaði hann um fíkniefnamisferli, hann þyrfti ekki að tjá sig um sakarefnið og ætti rétt á verjanda. Franklín hafi sagt að hann hefði ekki verið að sækja nein fíkniefni upp með Krísuvíkurveginum heldur hefði hann og sonur hans farið upp að Bláfjallaafleggjara til að skoða stjörnurnar. Hann hafi verið spurður hvort hann heimilaði leit á sér og hafi hann orðið við því eftir nokkra umhugsun. Gylfi Y. Sigurðsson varðstjóri hafi þá verið kominn á vettvang ásamt lögreglumanninum Gunnari Halldóri Sigurjónssyni. Hann hafi ákveðið að Franklín skyldi handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem framkvæma mætti líkamsleit á honum. Hald skyldi lagt á bifreiðina og hún flutt á lögreglustöð. Franklín hafi orðið nokkuð æstur og sagst ætla að aka bifreiðinni sjálfur á lögreglustöð. Honum hafi verið gerð grein fyrir að það gengi ekki. Þá hafi hann viljað fá að ræða við drenginn og róa hann. Drengurinn hafi verið alveg rólegur en rétt hafi þótt að leyfa Franklín að gera honum grein fyrir hvað væri að gerast og hvert hann væri að fara. Franklín hafi verið gerð grein fyrir þessu og að hann mætti ekki fara inn í bifreiðina. Franklín hafi opnað farþegahurð bifreiðarinnar og rætt við drenginn en skyndilega hafi Bjarni Halldór Sigursteinson og Gunnar Halldór Sigurjónsson séð að Franklín hafði teygt sig á milli framsæta bifreiðarinnar og tekið þaðan farsíma. Honum hafi verið bannað að nota farsímann en hann sinnt því engu og reynt að hringja. Hann hafi tekið á móti þegar reynt hafi verið að toga hann út úr bifreiðinni og þurft hafi að beita hann valdi til að fá hann til að sleppa símanum. Þrátt fyrir að Franklín væri beðinn að vera rólegur barnsins vegna hafi hann ekki sinnt því og hafi orðið að setja hann í handjárn og færa hann með valdi í lögreglubifreið. Farið hafi verið með hann á lögreglustöðina fyrir Margeir Sveinsson rannsóknarlögreglumann sem hafi verið kallaður út vegna málsins. Bifreið Franklíns, IS-551, hafi verið flutt á lögreglustöðina og geymd þar í bifreiðageymslu. Franklín hafi neitað að hafa verið að reyna að stinga lögreglubifreiðina af og einnig að hann hafi ekið á 110 km/klst hraða eftir Reykjanesbraut til austurs að Hvammabraut. Haft hafi verið samband við Soffíu Ólafsdóttur, félagsmálafulltrúa hjá félagsþjónustu Hafnarfjarðar, vegna Abrahams þar sem enginn hafi verið heima til að taka á móti honum að sögn Franklíns. Franklín hafi neitað að heimila leit í IS-551. Hann hafi hins vegar heimilað leit á sjálfum sér og hafi ekkert ólögmætt fundist. Franklín hafi farið fram á að fá að ráðfæra sig við verjanda og hafi hann í þeim tilgangi haft samband við Ragnar Aðalsteinsson hrl. og Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. en hvorugur þeirra getað sinnt málinu. Klukkan 23.25 hafi Franklín verið frjáls ferða sinna og honum verið ekið heim ásamt syni sínum. Bifreiðinni IS-551 hafi verið haldið eftir í vörslu lögreglu.
Í lögregluskýrslu Margeirs Sveinssonar rannsóknarlögreglumanns segir að sunnudaginn 28. janúar 2001 kl. 21.45 hafi Gunnar Halldór Sigurjónsson lögreglumaður haft samband við hann og sagt lögreglumenn hafa veitt Franklín K. Steiner eftirför frá Krísuvíkurveginum og að Lækjargötu í Hafnarfirði. Hafi Franklín ekið mjög greitt og ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglunnar fyrr en við Lækjargötu. Þar sem upplýsingar hafi borist til lögreglu um að Franklín K. Steiner væri í sölu og dreyfingu fíkniefna hafi sú ákvörðun verið tekin af hálfu lögreglu að handtaka hann vegna gruns um fíkniefnamisferli. Hann hafi verið færður á lögreglustöðina ásamt syni sínum sem hafi verið með honum í bifreiðinni þegar hann var stöðvaður. Á lögreglustöðinni hafi Margeir átt samtal við Franklín vegna málsins. Í þeim viðræðum hafi hann ekki heimilað lögreglu leit í bifreiðinni þar sem lögreglan hefði ekkert á hann sem gerði þessar aðgerðir réttlætanlegar.
Af hálfu stefnda var lögð fram upplýsingaskýrsla Margeirs Sveinssonar rannsóknarlögreglumanns, dags. 11. september 2000. Þar segir að aðili, sem ekki vildi láta nafns síns getið, hafi sagt Franklín K. Steiner vera í dreifingu fíkniefna. Hann hafi kveðið Franklín selja stundum úr bifreið sinni. Upplýsingaaðilinn hafi einnig viljað koma því á framfæri að Franklín hafi oft stundað staðinn Lille-Put og að hann og D.B. væru félagar. Fram er tekið í skýrslunni að lögreglu hafi áður borist upplýsingar um neyslu Franklíns. Í ljósi þeirra upplýsinga verði að taka þennan upplýsingaaðila trúverðugan ásamt því, sem lögreglan hafi vitneskju um, að samband sé á milli Franklíns og D.B.
Af hálfu stefnda var einnig lögð fram upplýsingaskýrsla lögreglumanns, dags. 22. júní 2000. Þar greinir frá því að aðili, sem haft hefði samband við hann, hefði sagst hafa tekið eftir mönnum sem kæmu í heimsókn til stefnanda og skildu bifreiðir sínar eftir nokkuð frá heimili hans; færu síðan í gegnum nágrannagarða til að komast að húsi hans. Ljós kviknaði síðan hjá stefnanda en slökknaði skömmu síðar; viðkomandi kæmu til baka sömu leið og færu í burtu á bílum sem þeir hefðu lagt afsíðis. Um upplýsingaaðilann segir í skýrslunni: “Aðili þessi vildi ekki að nafn sitt kæmi fram. Ég þekki þennan aðila mjög vel og veit að hann hefur ekki verið að lesa reyfara nýlega.”
Þeir lögreglumenn, sem nefndir hafa verið, gáfu skýrslur við aðalmeðferð málsins og staðfestu efni framangreindra lögregluskýrslna.
Í aðilaskýrslu stefnanda segir að í umrætt sinn, sunnudaginn 28. janúar 2001, hafi hann og sex ára sonur hans, Abraham, farið í bíltúr eftir kvöldmat. Abraham hafi vilja fara í hraunið við Ásvelli þar sem brenna hafi verið á gamlárskvöld og athuga ummerki hennar. Þetta hafi komið upp þegar þeir voru í hringakstinum og Franklín hafi því tekið tvo hringi þar áður en hann fór út úr hringnum. Þeir hafi stoppað og skoðað brennustaðinn. Farið síðan aftur af stað suður Krísuvíkurveg að Bláfjallaafleggjara og snúið við. Á bakaleiðinni hafi þeir mætt litlum bíl og hafi hann séð, þegar hann var kominn um tvo kílómetra til baka, að litli bíllinn hefði snúið við. Því er síðan lýst að þegar ekið var vestur Lækjargötu í átt til sjávar hafi hann tekið eftir bláum ljósum frá eða úr litla bílnum. Hann hafi ekið inn á Strandgötu og numið staðar við fyrsta húsið, nr. 49. Um tildrög hefur Franklín í skýrslu sinni eftir öðrum lögreglumannanna, sem veittu honum eftirför, að þegar þeir hafi séð hann keyra tvo hringi á hringtorginu hafi þeir talið að hann væri að “tékka á” hvort einhver væri að elta hann, svo hafi hann stoppað hjá brennunni. Hann kvað þessa lögreglumenn, Bjarna Halldór Sigursteinsson og Þröst Þór Guðmundsson, hafa gefið sér leyfi til að hringja í móður Abrahams og biðja hana að koma og sækja drenginn. Hann hafi verið með farsíma í bifreið sinni og gengið að henni farþegamegin þar sem drengurinn var, opnað og sest á sílsinn. Hann hafi síðan teygt sig í símann, sem var milli sætanna, og ætlað að fara að stimpla inn númer. Þá hafi verið rifið utan um háls hans aftan frá mjög harkalega þannig að hann hafi misst meðvitund. Næst muni hann eftir að verið var að öskra á hann og reyna að troða á hann handjárnum fyrir framan Abraham. Hann hafi aldrei sýnt neinn mótþróa og ekkert brotist um við handtökuna. Hann kvað hafa verið leitað á sér (afklæðning) með tregu samþykki sínu. Strax eftir leitina hafi hann beðið lögreglumenn um lögfræðing. Þeir hafi tekið að sér að hringja í þrjá lögmenn, sem hann tilgreindi, en sagt eftir klukkutíma að enginn þeirra væri finnanlegur. Honum hafi síðan sjálfum tekist í fyrstu tilraun að ná í einn þeirra. Hann kvaðst hafa neitað um heimild til að leitað yrði í bifreið sinni og hafi hann ekki fengið að fara fyrr en hann samþykkti að bifreiðin yrði kyrrsett.
Í áverkavottorði Þórhildar Sigtryggsdóttur, læknis á Heilsugæslustöðinni Sólvangi, dags. 14. september 2001, segir að stefnandi hafi leitað til hennar þ. 29. janúar 2001 vegna áverka sem hann hafi hlotið kvöldið áður er hann hafi verið tekinn hálstaki af lögreglumanni, keyrður niður í jörðina og handjárnaður. Hafi honum fundist blóðþrýsingur rjúka upp úr öllu valdi og síðan hafi hann verið með seiðing vinstra megin við gagnauga og óþægindi í baki og finnist sjón hafa versnað. Segir í vottorðinu að á báðum úlnliðum séu tvö til þrjú hringlaga för sem gætu verið eftir handjárn og þreifieymsli á hægri úlnlið. Á hálsi sé roði en ekki að sjá mar eða fingraför.
Í vottorði Einars Hjaltasonar læknis, slysadeild Landspítala Fossvogi, dags. 1. febrúar 2002, segir að við komu stefnanda að kvöldi 30. janúar 2001 hafi hann sagst hafa lent í átökum við lögregluna í Hafnarfirði. Þegar hann hafi verið að teygja sig í síma hafi lögregluþjónar ráðist á sig, tekið sig hálstaki það fast að honum sortnaði fyrir augum og teldi hann sig hafa misst meðvitund augnablik. Í niðurstöðu segir að líkamleg einkenni, sem hafi sést við skoðun, geti hafa komið við átök eins og hann lýsi. Áverkarnir hafi ekki verið alvarlegir og megi búast við að hann jafni sig á einni til þremur vikum.
II
Vitnið Gylfi Y. Sigurðsson lögreglumaður kvaðst, er hann hafi komið á vettvang, hafa kynnt stefnanda réttarstöðu kærðs og handtekins manns. Hann kvaðst hafa leyft honum að tala við drenginn, sem sat í bifreið hans, en ekkert annað. Stefnandi hafi hins vegar teygt sig inn í bifreiðina og náð í síma. Hann kvaðst hafa reynt að taka mildilega á stefnanda ásamt tveimur öðrum lögreglumönnum en hann hafi sýnt mikla móspyrnu og barist um þannig að hann hafi verið handjárnaður fyrir aftan bak. Drengnum hafi verið ýtt aftur með bifreiðinni og reynt að koma honum úr sjónlínu. Hann hafi ekki virst komast í uppnám. Hann kvað stefnanda ekki hafa misst meðvitund og minntist þess ekki að hann hefði verið tekinn hálstaki. Hann kvað Soffíu Ólafsdóttur fulltrúa hafa komið mjög fljótlega. Hann kvaðst, ásamt fleirum, hafa reynt að ná í lögmann fyrir stefnanda og talað við einn sem hafi ekki viljað koma. Hann kvað son stefnanda hafa verið rólegan á lögreglustöðinni. Hann kvað ekkert ákveðið afbrot stefnanda hafa verið til rannsóknar en grunur hafi verið um fíkniefnamisferli hans.
Vitnið Soffía Ólafsdóttir, félagsráðgjafi og starfsmaður barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar, kvaðst hafa verið hjá drengnum Abraham á lögreglustöðinni. Hún kvað hann ekki hafa verið í uppnámi og hafi allt verið mjög afslappað í kringum hann.
Vitnið Bjarni Halldór Sigursteinsson lögreglumaður kvaðst hafa sagt stefnanda að hann væri stöðvaður og handtekinn grunaður um fíkniefnamisferli, hann þyrfti ekki að tjá sig og ætti rétt á verjanda. Stefnandi hafi fengið að tala við son sinn, sem sat farþegamegin í bifreið hans, en ekki að fara inn í bifreiðina. Stefnandi hafi seilst inn í bifreiðina farþegamegin og þegar hann hafi verið kominn með farsíma hafi vitnið og Gylfi Y. Sigurðsson orðið að taka hann út úr bifreiðinni með valdi og Gunnar Halldór Sigurjónsson hafi aðstoðað við að koma honum í járn. Hann kvaðst ekki hafa tekið stefnanda kverkataki og hann hafi ekki misst meðvitund. Stefnandi hafi veitt nokkra mótspyrnu og nefnt að hann þyldi ekki átök af heilsufarsástæðum. Ekki hafi hins vegar verið talað um meiðsl.
Vitnið Margeir Sveinsson rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa reynt að hafa samband við lögmenn fyrir stefnanda og náð í einn sem hafi ekki getað sinnt starfanum; aðrir hafi ekki svarað símhringingum. Hann kvað enga rannsókn hafa verið í gangi hjá lögreglunni í Hafnarfirði um brot sem stefnandi væri grunaður um. Hann hafi hins vegar verið grunaður um fíkniefnamisferli og grunur hafi verið um að hann ætti geymt fíkniefni við Krísuvíkurveg. Háttsemi hans og aksturslag í umrætt sinn hafi þótt grunsamleg.
Vitnið Þröstur Þór Guðmundsson kvað stefnanda hafa verið grunaðan um fíkniefnamisferli og að það tengdist hrauninu við Krísuvíkurveg. Við eftirförina hafi stefnandi aukið hraðann þótt hann hefði átt að sjá stöðvunarmerki lögreglunnar. Hann kvað þá Bjarna Halldór Sigursteinsson hafa kynnt stefnanda sakarefni grun um fíkniefnamisferli, gætt viðeigandi ákvæða og bent honum á rétt til að kveðja til lögmann, áður en Gylfi Y. Sigurðsson kom á vettvang. Hann kvaðst hafa heyrt að Gylfi leyfði stefnanda að tala við son sinn og hafi hann tekið fram að hann mætti ekki fara í bílinn eða taka neitt úr honum. Stefnandi hafi farið inn farþegamegin, teygt sig yfir drenginn og náð í símann. Gylfi og Bjarni hafi staðið þar og togað stefnanda út úr bílnum með aðstoð Gunnars. Hann kvaðst ekki hafa séð að stefnandi væri tekinn kverkataki eða hálstaki og hann hafi ekki misst meðvitund. Hann kvað drenginn ekki hafa komist í uppnám og hann hafi verið mjög rólegur á lögreglustöðinni. Hann kvað stefnanda hafa samþykkt leit á sér og hafi gróf leit verið framkvæmd á vettvangi. Þegar kom á lögreglustöðina kvað hann hafa verið hringt í lögmennina Jón Steinar Gunnlaugsson og Ragnar Aðalsteinsson sem hafi ekki getað aðstoðað stefnanda.
Vitnið Gunnar Halldór Sigurjónsson lögreglumaður kvað almennan grun hafa verið um fíkniefnamisferli stefnanda og sögusagnir hafi verið um að hann færi ferðir upp í hraun út af fíkniefnum. Hann kvaðst hafa heyrt í fjarskiptunum að lögreglumennirnir, sem veittu stefnanda eftirför, væru ekki að draga hann uppi á Reykjanesbraut heldur væri hann að stinga þá af. Er komið var á staðinn hafi Gylfi og Bjarni talað við stefnanda inni í ómerktu lögreglubifreiðinni og tilkynnt honum að hann væri handtekinn og yrði færður á lögreglustöðina. Gylfi hafi leyft honum að fara að bifreið sinni til að tala við son sinn, sem hafi verið mjög rólegur, en tekið fram að hann mætti ekki fara inn í bifreiðina. Stefnandi hafi farið að bifreiðinni farþegamegin, rætt við son sinn, teygt sig inn í bifreiðina og gripið farsíma. Honum hafi verið sagt að sleppa símanum og þegar hann hafi óhlýðnast hafi Bjarni og Gylfi togað hann út með aðstoð Gunnars. Komið hafi til smá ryskinga fyrir utan bifreiðina og hafi lögreglumennirnir þurft að beita valdi til að ná símanum. Á lögreglustöðinni hafi verið farið með son stefnanda inn í sjónvarpsherbergi.
Með úrskurði, uppkveðnum í Héraðsdómi Reykjaness mánudaginn 29. janúar 2001, var lögreglunni í Hafnarfirði heimiluð leit í Mercedes Benz bifreið stefnanda, IS-551, og í öllum aukahlutum og munum er henni kynnu að fylgja. Leit fór fram samdægurs og hófst kl. 17.23 að viðstöddum stefnanda og lögmanni hans. Engin fíkniefni fundust eða áhöld þeim tengd. Klukkan 17.54 var leit lokið og var bifreiðin þá afhent stefnanda. Lögmaðurinn sendi sýslumanninum reikning, dags. 5. febrúar 2001 að upphæð 14.940 krónur, vegna réttargæslu við leitina. Greiðslu var hafnað með bréfi sýslumannsembættisins, dags. 8. febrúar 2001, með þeim rökum að lögmaðurinn hefði ekki verið tilnefndur verjandi og að með vísun til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 19/1991 væri litið svo á að sakborningur hefði ráðið lögmanninn á eigin kostnað til að gæta réttar síns og því væri það hans að borga reikninginn.
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði stefnanda sektarboð 9. febrúar 2001 um 6.000 króna sekt fyrir brot á 36. gr. (Of hraður akstur. Ökuhraði eigi miðaður við aðstæður), sbr. 100. gr. umferðarlaga og var sektarboðið ítrekað 20. mars 2001. Málið var sent til dómsáritunar samkvæmt 115. gr. laga nr. 19/1991 og þ. 28. júní 2001 voru viðurlög með áritun héraðsdómara ákveðin 8.000 króna sekt í ríkissjóð. Með bréfi til sýslumannsins í Hafnarfirði 15. ágúst 2001 óskaði lögmaður stefnanda eftir að sér yrðu sendar skýrslur lögreglu og bókanir sem varða handtökuna og skriflegar upplýsingar sem fyrir hendi kynnu að vera um þær ráðstafanir sem búast mætti við að gerðar hefðu verið í framhaldi af henni. Í svarbréfi sýslumannsembættisins, dags. 22. ágúst 2001, er vísað til þess að ”umræddu máli er lokið skv. málsmeðferð 115. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sbr. 3. mgr. 115. gr. a-lið laga nr. 19/1991, þ.e. með áritun héraðsdómara.” Beiðninni var hafnað í ljósi þess að í henni væru ekki tilgreindar ástæður eða upplýsingar um í hvaða skyni fyrirhugað væri að nota hin umbeðnu gögn. Jafnframt var bent á heimild til að skjóta ákvörðuninni til embættis ríkissaksóknara. Lögmaður stefnanda sendi 3. september 2001 ríkissaksóknara kæru og beiðni um rannsókn í tilefni af meintri ólögmætri handtöku stefnanda og eftirfarandi aðgerðum. Ríkissaksóknari óskaði þ. 23. október 2001 liðsinnis rannsóknardeildar ríkislögreglustjórans við rannsókn ríkissaksóknara á ofangreindu máli, er varðaði ætluð brot lögreglumanna við framkvæmd starfa þeirra, sbr. 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Erindið var ítrekað með bréfum lögmannsins 16. janúar og 14. maí 2002. Niðurstaða ríkissaksóknara var send lögmanni stefnanda með bréfi 29. maí 2002. Þar segir að eingöngu verði fjallað um ætlaða ólögmæta handtöku lögreglunnar í Hafnarfirði á kæranda og eftirfarandi aðgerðir lögreglu. Í bréfinu segir m.a.: “Sérstök ástæða var til þess fyrir lögregluvarðstjórann að fara að öllu með gát áður en ákvörðun um handtöku kæranda var tekin enda var lögreglan ekki að rannsaka tiltekið sakamál og virðist ekki hafa haft þann rökstudda grun um að kærandi hefði framið refsivet brot sem réttlætti handtöku hans samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála auk þess sem kærandi var með sex ára gamlan son sinn í bifreiðinni.” Tekið er fram að lögreglan hafi ekki framkvæmt leit í bifreið kæranda fyrr en að fengnum úrskurði héraðsdómara um leitina og hafi því gætt réttra aðferða við þann þátt málsins. Niðurstaðan var sú með vísun til 112. gr. laga um meðferð opinberra mála að ekki þættu efni til frekari aðgerða af hálfu ríkissaksóknara í tilefni af kæru stefnanda máls þessa vegna aðgerða lögreglunnar í Hafnarfirði.
Með úrskurði uppkveðnum í Héraðsdómi Reykjaness 6. júní 2002 var framangreind dómsáritun héraðsdómara frá 28. júní 2001 felld niður. Málið var endurupptekið og það síðan fellt niður.
III
Mál þetta er annars vegar höfðað af stefnanda til greiðslu skaðabóta til sjálfs sín vegna ástæðulausrar og þar með ólöglegrar handtöku, sem hafi verið framkvæmd af harðneskju og með ofbeldi, og vegna ólögmætra rannsóknaraðgerða. Þessar aðgerðir hafi eðli sínu samkvæmt verið tilfinningalega særandi og valdið stefnanda auk þess líkamlegum þjáningum eins og fram komi í læknisvottorðum. Einnig hafi stefnandi fyrirvaralaust verið sviptur sambandi við barn sitt um sinn. Meginhluti fjárkröfu stefnanda er til bóta fyrir ófjárhagslegt tjón, þ.e. kr. 1.000.000. Að auki er gerð krafa til endurgreiðslu á lögmannsþóknun, 14.940 krónum greiddum af stefnanda 5. ágúst 2001, og til endurgreiðslu útlagðs kostnaðar af læknisvottorði, 15.700 krónum greiddum 11. febrúar 2002.
Í annan stað höfðar stefnandi mál þetta vegna ólögráða sonar síns, Abrahanns Jóabs Önnusonar, til bóta vegna handtökunnar og aðskilnaðar hans frá föður sínum. Því er haldið fram að ólögfestar reglur íslensks skaðabótaréttar standi til þess að við aðstæður sem þessar skuli bæta ófjárhagslegt tjón vegna misgerða gegn nánu skyldmenni tjónþola í hans viðurvist.
Af hálfu stefnanda er vísað til 67. gr. stjórnarskrárinnar og XI., XII. og XXI. kafla laga nr. 19/1991.
Í greinargerð stefnda segir að nauðsynlegt sé að fram komi hvort stefnandi, Franklín Kristinn, fari með forsjá stefnandans, Abrahams Jóabs, sbr. 51. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Stefndi byggir á því að lagaskilyrði hafi augljóslega verið til þess að lögreglunni hafi verið skylt að hafa afskipti af stefnanda, Franklín Kristni. Lögreglan hafi talið sig sjá grunsamlegar ferðir og akstur stefnanda sem hafi margsinnis komið við sögu fíkniefnamála og verið dæmdur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þegar akstur bifreiðarinn hafi þar að auki orðið háskalegur og í trássi við umferðarlög, einkum 36. gr., hafi grunur lögreglunnar styrkst um að ástæða gæti verið til að kanna hvort hann misfæri með fíkniefni umrætt sinn, en fyrir því hafi lögregla haft upplýsingar að stefnandi stundaði neyslu og sölu fíkniefna. Þá hafi grunur lögreglu styrkst við það að stefnandi neitaði um að leitað yrði í bifreið sinni.
Því er mótmælt að lögregla hafi valdið stefnanda áverka. Ekki sé uppfyllt skilyrði 1. mgr. 175. gr. laga nr.19/1991 þar sem stefnandi hafi ekki verið sýknaður eða mál hans fellt niður enda hafi málinu lokið með áritun dómara í samræmi við 115. gr. a sömu laga. Þá er á því byggt að kröfur byggðar á XXI. kafla laga nr. 19/1991 séu fallnar niður fyrir fyrningu, sbr. 181. gr. sömu laga, en að öðrum kosti verði að skýra ákvæði 175. gr. laga nr. 19/1991 þannig að með mótþróa og óhlýðni við lögleg fyrirmæli lögreglu hafi stefnandi fyrirgert bótarétti.
Á því er byggt af hálfu stefnda að það hafi verið á ábyrgð stefnanda að lögreglan þurfti að grípa til þeirra úrræða að handtaka hann og setja í járn en hann hafi sýnt mótþróa og ekki sinnt tilmælum lögreglu. Ekki séu uppfyllt skilyrði 176. gr. laga nr. 19/1991 til greiðslu bóta þar sem lögmæt skilyrði hafi verið til handtöku og annarra rannsóknaraðgerða, fullt tilefni til þeirra og þær ekki framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
Gagnvart stefnanda, Abraham Jóab, hafi engri bótaskyldri háttsemi verið til að dreifa af hálfu starfsmanna stefnda og er ætluðu ófjárhagslegu tjóni hans mótmælt sem ósönnuðu. Hafi hann orðið fyrir ófjárhagslegu tjóni hafi það einvörðungu verið fyrir tilstuðlan föður hans sem hafi ekið háskalega með son sinn í bifreiðinni og sýnt mótþróa gegn lögmætum afskiptum lögreglu.
Varakrafa stefnda um lækkun er byggð á því að ætlað tjón stefnanda, Franklíns Kristins, verði rakið til eigin sakar hans og að kröfur hans séu í engu samræmi við dómaframkvæmd.
IV
Handtaka stefnanda svo og eftirfarandi aðgerðir, sem fólust m.a. í frelsissviptingu í tvær klukkustundir, byggðist á almennum grunsemdum um fíkniefnamisferli studdum sögusögnum og vitneskju um feril hans. Hún var ekki í þágu rannsóknar tiltekins brots. Stefnandi var ekki handtekinn vegna ætlaðs umferðarlagabrots. “Lok” þess þáttar með sektarákvörðun dómara, sbr. 115. gr. a laga um meðferð opinberra mála, sem síðar var felld úr gildi, marka ekki upphaf málshöfðunarfrests, sbr. 181. gr. laga nr. 19/1991, og er ekki fallist á að bótakrafa stefnanda sé fyrnd.
Handtakan verður ekki rakin til óhlýðni stefnanda og mótþróa við boð lögreglu. Svo er hins vegar um lítilsháttar meiðsl sem munu hafa hlotist við stimpingar sem urðu þegar nauðsynlegt reyndist að handjárna stefnanda eftir að hann hafði verið handtekinn. Ekki er fallist á að handtakan hafi verið framkvæmd af harðneskju og með ofbeldi eða að rannsóknaraðgerðir hafi verið ólögmætar, þar sem leit fór fram á stefnanda með samþykki hans, sbr. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 19/1991, og leit í bifreið hans var gerð á grundvelli úrskurðar dómara, sbr. 1. mgr. 89. gr. og 1. mgr. 90. gr. laga nr. 19/1991. Þó ber þess að geta að samþykki stefnanda við líkamsleit var gefið við þvingaðar aðstæður.
Samkvæmt 1. mgr. 97. gr laga nr. 19/1991 er lögreglu rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur er á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum. Þessum skilyrðum var ekki fullnægt og var handtaka stefnanda ólögmæt. Dæma ber honum bætur samkvæmt a. lið 176. gr. laga nr. 19/1991 og er eigi fallist á að rétt sé að fella þær niður eða lækka með vísun til þess að stefnandi hafi stuðlað að handtökunni, sbr. lokamálslið 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Við ákvörðun bótanna verður tillit ekki tekið til kostnaðar stefnanda vegna áverkavottorðs, enda verða ætluð meiðsl hans ekki rakin til atvika sem stefndi beri ábyrgð á. Hinu sama gegnir um kostnað stefnanda vegna þess að hann fékk að þarflausu lögmann til að vera viðstaddan leit sem gerð var í bifreið hans samkvæmt dómsúrskurði. Á hinn bóginn verður sérstök hliðsjón höfð af því að stefnandi leitar nú ítrekað réttar síns af mjög sambærilegu tilefni. Einnig var sú staðreynd að með honum var sex ára sonur hans, sem fram er komið að muni þarfnast sérstakrar umhyggju, til þess fallin að valda honum áhyggjum og óróleika. Bæturnar eru ákveðnar 120.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Abraham Jóab Önnuson, sonur stefnanda og fyrrum sambýliskonu hans, var/er til heimilis hjá stefnanda. Þykir mega leggja til grundvallar að stefnandi fari með forsjá hans og að honum sé málssóknin heimil vegna drengsins. Í ljós er leitt að þess hafi verið gætt af hálfu lögreglu að sýna drengnum fyllstu aðgát. Ekki er ástæða til að ætla að Abraham Jóab hafi beðið tjón og jafnvel þótt svo væri er ekki fallist á að um bótaábyrgð stefnda geti verið að ræða. Samkvæmt þessu ber að sýkna stefnda af bótakröfu stefnanda fyrir hönd sonar síns, Abrahams Jóabs Önnusonar.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hans, Lúðvíks Emils Kaaber héraðsdómslögmanns, 180.000 krónur. Eftir úrslitum málsins og því hvernig háttar um varnaraðild eru ekki efni til þess að kveða frekar á um greiðslu málskostnaðar.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Franklín Kristni Steiner, 120.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. mars 2002 til greiðsludags.
Stefndi er sýknaður af bótakröfu stefnanda fyrir hönd sonar síns, Abrahams Jóabs Önnusonar.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hans, Lúðvíks Emils Kaaber héraðsdómslögmanns, 180.000 krónur.