Hæstiréttur íslands

Mál nr. 170/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ökuréttarsvipting


                                                         

Mánudaginn 3. maí 1999.

Nr. 170/1999.

Ákæruvaldið

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

Júlíusi Hjaltasyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

Kærumál. Ökuréttarsvipting.

Talið var að lögreglustjóra hefði verið rétt að svipta J ökurétti til bráðabirgða á grundvelli mælingar á lofti sem J andaði frá sér og gerð var með tæki af gerðinni Intoxilyzer 5000 N. Hins vegar var talið að ákvörðun lögreglustjóra hefði verið í andstöðu við þá reglu umferðarlaga nr. 50/1987 að sviptingu ökuréttar væri markaður ákveðinn tími. Var úrskurður héraðsdómara felldur úr gildi og ákvörðun lögreglustjóra staðfest, þó þannig að hún var bundinn ákveðnum tíma.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. apríl 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 1999, þar sem felld var úr gildi ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík 12. júlí 1998 um að svipta varnaraðila ökurétti til bráðabirgða. Kæruheimild er í 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og ákvörðun lögreglustjóra staðfest.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili stöðvaður við akstur á Reykjanesbraut aðfaranótt 12. júlí 1998. Í lögregluskýrslum kemur fram að áfengisþefur hafi fundist frá vitum varnaraðila. Öndunarsýni hafi verið tekið í öndunarblöðru, sem sýnt hafi 3. stig. Á lögreglustöð hafi öndunarpróf með svokölluðum S-D2 mæli sýnt 0,60/00, en auk þess hafi verið gerð mæling á því lofti, sem varnaraðili andaði frá sér með tæki af gerðinni Intoxilyzer 5000 N. Niðurstaða þeirrar mælingar hafi verið 0,314 mg alkóhóls í hverjum lítra lofts að teknu tilliti til skekkjumarka. Gildi þeirrar mælingar hefur verið mótmælt af varnaraðila.

Samkvæmt framangreindu lá fyrir mæling 12. júlí 1998 þess efnis að vínandamagn í því lofti, er varnaraðili andaði frá sér væri yfir þeim mörkum, sem tilgreind eru í 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 48/1997. Á þessu stigi málsins liggur ekki annað fyrir en að með tækinu hafi mátt mæla magn vínanda í því lofti, sem varnaraðili andaði frá sér, og gætt hafi verið réttra aðferða við notkun þess, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. ágúst 1998 í máli nr. 320/1998. Var lögreglustjóranum í Reykjavík því rétt að svipta varnaraðila ökurétti til bráðabirgða 12. júlí 1998 í samræmi við 103. gr. laga nr. 50/1987. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Samkvæmt 103. gr. laga nr. 50/1987 skal lögreglustjóri svipta ökumann ökurétti til bráðabirgða svo fljótt sem unnt er, telji hann skilyrði til sviptingar ökuréttar vera fyrir hendi. Er nánar kveðið á um hana í 101. gr. og 102. gr. laganna eins og þeim hefur síðar verið breytt. Af tilvitnuðum ákvæðum leiðir að svipting ökuréttar skal vera um ákveðinn tíma, eins og beinlínis er tekið fram í 3. mgr. 101. gr. laganna, sbr. einnig framangreindan dóm Hæstaréttar 24. ágúst 1998. Var ákvörðun lögreglustjóra um að svipta varnaraðila ökurétti til bráðabirgða, án þess að sviptingunni væri markaður ákveðinn tími, í andstöðu við þessa reglu laga nr. 50/1987. Verður ákvörðun lögreglustjóra staðfest, þó þannig að bráðabirgðasviptingin verður tímabundin allt til 15. júní 1999.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er úr gildi felldur.

Ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík 12. júlí 1998 um að svipta varnaraðila, Júlíus Hjaltason, ökurétti til bráðabirgða er staðfest, þó þannig að svipting standi allt til 15. júní 1999.