Hæstiréttur íslands
Mál nr. 719/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Útlendingur
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. desember 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp í þinghaldi 10. nóvember 2017 að viðstöddum varnaraðila og verjanda hans. Kæra barst héraðsdómi 14. sama mánaðar. Eftir upphafsmálslið 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 er kærufrestur þrír sólarhringar og var hann því liðinn þegar kæran barst héraðsdómi. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2017.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að ákærða, X, fæddum 10. apríl 1984, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. desember 2017, kl. 16:00.
Ákærði mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður styttri tími en krafist er.
I
Í greinargerð lögreglustjóra segir að ákærði hafi komið til landsins 13. september 2017 með flugi [...] frá Kaupmannahöfn. Við afskipti tollvarða af ákærða í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi skilríki annars fólks fundist í tösku, sem ákærði hafi þá sagst ekki eiga. Um hafi verið að ræða skráningarpappír, ígildi dvalarleyfis frá Þýskalandi (Aufenthaltsgestattung), nr. [...], með nafninu A, f.d. [...] í Írak, skráningarpappír frá Þýskalandi nr. [...] með nafninu B, f.d. [...], tvenn óskilgreind kennivottorð frá Írak með mynd af A, innanlands kennivottorðskjal frá Þýskalandi með mynd af A og B ásamt nöfnum þeirra og tveggja barna, með gildistíma til 11. febrúar 2016, og ákvörðunarpappír (bescheid) frá Þýskalandi, dagsettan 8. apríl 2017, um synjun um hæli með fjórum nöfnum, C f.d. [...], D, f.d. [...], E, f.d. [...] og F, f.d. [...]. Hald hafi verið lagt á framangreind skilríki. Ákærði hafi í framhaldinu farið inn í landið og hafi maður, hælisleitandi hér á landi, tekið á móti honum. Skömmu síðar hafi réttmætir handhafar framangreindra skilríkja gefið sig fram í komusal flugstöðvarinnar og sótt um hæli. Ákærði hafi átt bókað flug frá landinu 14. september sl. en hann breytt þeim miða til 15. sama mánaðar. Þann dag hafi ákærði verið handtekinn í flugstöðinni, grunaður um smygl á fólki.
Við skýrslugjöf hjá lögreglu hafi ákærði viðurkennt að hafa greitt fyrir fjölskylduna farmiða hingað til lands og áfram héðan til Dublin á Írlandi eftir að hafa fengið beiðni þess efnis frá aðila í Malmö. Hann hafi einnig viðurkennt að hafa komið með sömu flugvél og fjölskyldan hingað til lands og að hafa eftir afskipti tollgæslu og lögreglu af honum 13. september sl. tekið farangur þeirra og farið með hann heim til vinar síns.
Lögreglustjóri segir A og B bæði hafa borið um það fyrir lögreglu að þau hafi ferðast á röngum nöfnum hingað til lands. Þá hafi A jafnframt sagt þau hafa ferðast á fölsuðum vegabréfum. Ákærði hafi aðstoðað þau og tekið við hinum fölsuðu skilríkjum eftir að þeim hafði verið framvísað þegar farið var um borð í flugvélina hingað til lands.
Hinn 13. október 2017 hafi ákæra verið gefin út á hendur ákærða vegna málsins, aðallega fyrir meint brot gegn 3. mgr. 116. gr. útlendingalaga nr. 80/2016, þ.e. smygl á fólki. Til vara sé ákærða gefið að sök brot gegn f-lið 2. mgr. 116. gr. sömu laga. Mál á grundvelli ákærunnar hafi verið þingfest 8. nóvember sl.
Lögreglustjóri vísar til þess að ákærði hafi sætt farbanni frá 16. september sl. til 23. október sl. Þann dag hafi hann hins vegar verið handtekinn, grunaður um brot gegn valdstjórninni, sbr. 108. gr. almennra hegningarlaga. Atvik tengd því meinta broti ákærða hafi verið sú að fyrr um daginn hefði fyrrnefndur A komið í móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd að [...] og sagst vilja draga framburð sinn í málinu til baka. A hefði gefið þá skýringu að hann óttaðist um sig og fjölskyldu sína, héldi hann framburði sínum til streitu. A hefði sagt ákærða hafa haft í hótunum við sig og fjölskyldu sína vegna framburðar A og konu hans varðandi þá aðstoð sem þau hefðu fengið við að komast til landsins. Hótanirnar hefðu átt sér stað í strætisvagni nr. 14 laugardaginn 21. október sl. Ákærði hefði sagt að ef A og fjölskylda hans væru með fingraför í Þýskalandi yrðu þau send þangað aftur. Þar yrði tekið á móti þeim og framburði þeirra gegn ákærða hefnt. Lögreglustjóri segir héraðssaksóknara hafa gefið út ákæru á hendur ákærða vegna þessara hótana 8. nóvember sl. Mál vegna þeirrar ákæru hafi verið sameinað eldra máli ákærða fyrr í dag.
Með vísan til alls framangreinds og háttsemi ákærða telji lögreglustjóri ákærða líklegan til að halda áfram brotum. Öryggi A og fjölskyldu hans sé því ógnað, gangi ákærði laus á meðan mál hans er til meðferðar hjá dómstólum. Líta verði sérstaklega til þeirrar viðkvæmu stöðu sem fjölskyldan sé í hér á landi, sem umsækjendur um alþjóðlega vernd og áður sem slíkir í Þýskalandi. A og eiginkona hans séu lykilvitni í málinu sem nauðsynlegt sé að vernda, en framburður þeirra hjóna hafi að mati lögreglu verið afar trúverðugur undir rannsókn málsins.
Lögreglustjóri segir ákærða engin tengsl hafa við landið. Því megi ætla að hann reyni að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðru hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómstólum. Jafnframt megi ætla samkvæmt framansögðu að ákærði muni halda áfram brotum á meðan máli hans er ekki lokið og þá verði að telja gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja fjölskyldu A fyrir árásum/hótunum ákærða.
Til stuðnings kröfum sínum vísar lögreglustjóri til b-, c- og d-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá vísar hann einnig til f-liðar 2. mgr. og 3. mgr. 116. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 og 108. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II
Með vísan til alls framanritaðs, svo og gagna sakamálsins nr. S-359/2017, er fallist á það með lögreglustjóra að ákærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við.
Ákærði er erlendur ríkisborgari sem engin tengsl hefur við Ísland svo vitað sé. Á það verður að fallast með lögreglustjóra að ætla megi að ákærði muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér undan málssókn með öðrum hætti fari hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt því telst fullnægt skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Með vísan til alls framangreinds má að mati dómsins jafnframt ætla að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi, fari hann frjáls ferða sinna. Er því einnig fullnægt skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Samkvæmt öllu þessu verður krafa lögreglustjóra tekin til greina með þeim hætti sem hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákærði, X, fæddur [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. desember 2017, kl. 16:00.