Hæstiréttur íslands

Mál nr. 350/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


                                              

Miðvikudaginn 29. maí 2013.

Nr. 350/2013.

Sýslumaðurinn í Stykkishólmi

(enginn)

gegn

X

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

Kærumál. Nálgunarbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta nálgunarbanni var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar 22. maí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. maí 2013 þar sem staðfest var ákvörðun „lögreglustjórans á Snæfellsnesi“ um að banna varnaraðila að nálgast A eða setja sig í samband við hana með nokkrum hætti, þar með talið í gegnum síma-, bréfa- og rafpóstsamskipti, frá 24. apríl 2013 og meðan tiltekið mál er til rannsóknar hjá lögreglu og eftir atvikum til meðferðar hjá ákæruvaldi og dómstólum, þó eigi lengur en í sex mánuði. Þá var sóknaraðila bannað að koma nær heimili A að [...] og vernduðum vinnustað hennar að [...] í sama bæjarfélagi en 50 metra frá miðju hvors húss um sig. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sbr. 1. gr. laga nr. 39/2012. Varnaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og „málskostnaðar“.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. maí 2013.

Lögreglustjórinn á Snæfellsnesi hefur krafist þess að Héraðadómur Vesturlands staðfesti með úrskurði þá ákvörðun lögreglustjórans frá 29. apríl sl. að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart A og er honum bannað að nálgast hana eða setja sig í samband við hana með nokkrum hætti, þ.m.t. í gegnum síma-, bréfa- og rafpóstsamskipti, frá 24. apríl 2013 að telja og meðan mál lögreglu nr. 012-2013-259 er til rannsóknar lögreglu og eftir atvikum til meðferðar hjá ákæruvaldi og dómstólum, þó eigi lengur en í sex mánuði. Meðan nálgunarbannið varir er X óheimilt að nálgast heimili A að [...] og verndaðan vinnustað hennar að [...], sem nemi 50 metra radíus frá miðju hvors húss um sig. 

      Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að hann hafi fengið beiðni um nálgunarbann, dagsetta 9. apríl 2013, sem borist hafi embættinu síðdegis þann dag.  Beiðnin hafi borist frá Maríu Magnúsdóttur, hdl. fyrir hönd A, kt. [...].

                Með vísan til 8. gr. laga nr. 85/2011 var Pétur Kristinsson, hdl. skipaður verjandi sakbornings og María Magnúsdóttir, hdl. réttargæslumaður brotaþola við meðferð málsins.

                Í kröfunni segir að sakborningur hafi verið kærður fyrir grófa og langvarandi kynferðislega misnotkun á A sem sé alvarlega þroskahömluð. Vegna þess hafi hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald hinn 15. mars 2013 og sleppt úr haldi þann 9. apríl.   Í kröfunni segir síðar, „Augljós hætta er á því að kærði framhaldi kynferðisbrotum gagnvart umbj. mínum ef hann hittir hana t.d. á heimili hennar í [...].“

                Lögreglustjóri hafi hafnað beiðninni með þeim rökstuðningi að beiðandi hefði ekki með rökstuddum hætti gert það sennilegt eða líklegt að ástæða væri til þess að ætla að sakborningur mundi brjóta með einhverjum hætti gegn friðhelgi brotaþola.

                Brotþoli kærði ákvörðun lögreglustjóra til ríkissaksóknara með kæru dagsettri 11. apríl, móttekinni af ríkissaksóknara hinn 15. apríl 2013.

                Með tölvupósti ríkissaksóknara, dags. 16. apríl 2013, var þess óskað að lögreglustjóri gerði grein fyrir afstöðu sinni og var það gert með bréfi til ríkissaksóknara, dags. 17. apríl 2013.

                Hinn 29. apríl hafi lögreglustjóra borist afrit af bréfi ríkissaksóknara til lögmanns brotaþola, dags. 24. apríl 2013, ásamt gögnum málsins, en þar komi fram að ákvörðun lögreglustjórans á Snæfellsnesi sé felld úr gildi og lagt fyrir hann að leggja málið fyrir héraðsdóm samkvæmt reglum IV. kafla laga nr. 85/2011, sbr. 3. mgr. 10. gr. sömu laga og birta ákvörðun um nálgunarbann samkvæmt fyrirmælum í 2. mgr. 9. gr. laganna.

Í afstöðu ríkissaksóknara til kæru brotaþola segi m.a:

„Um nálgunarbann og brottvísun af heimili gilda lög nr. 85/2011 þar sem segir í 4. gr. að heimilt sé að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur sé um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola. Eftir að hafa yfirfarið öll gögn málsins er það niðurstaða ríkissaksóknara að enn sé til staðar sami rökstuddi grunur um að sakborningur hafi brotið gegn brotaþola og var til staðar þegar hann var úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála og sé sakborningur því undir rökstuddum grun um að hafa brotið kynferðislega gegn brotaþola svo varði við 94. gr. almennra hegningarlaga.

Telur ríkissaksóknari þann rökstudda grun taka til ítrekaðra brota sem hafi átt sér stað um margra ára skeið.

             Í ljósi framangreindrar niðurstöðu og að virtum atvikum málsins í heild sinni er það jafnframt mat ríkissaksóknara, að vera kunni að hætta sé á að sakborningur haldi áfram að brjóta gegn brotaþola eða á annan hátt raska friði hennar. Þar með telur ríkissaksóknari að uppfyllt séu skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 fyrir því að heimilt sé að beita nálgunarbanni og að verndarhagsmunir standi til þess að tryggja brotaþola þann rétt að geta hafst við á heimili sínu að [...] og vernduðum vinnustað sínum, [....], og verið þar óhult gagnvart yfirvofandi hættu og /eða ófriði af hálfu sakbornings. Þá þykir með vísan til 1. mgr. 6. gr. laganna ekki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti en með nálgunarbanni.

Það athugast að í 1. gr. laga nr. 85/2011 segir að með nálgunarbanni samkvæmt lögunum sé átt við þau tilvik þegar manni er bannað að koma í tiltekinn stað eða svæði, veita eftirför, heimsækja eða setja sig með öðrum móti í samband við annan mann. Í kröfu lögmanns brotaþola og kæru hennar til ríkissaksóknara er ekki að finna aðra framsetningu á nálgunarbannskröfunni en þá að sakborningi verði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola. Telur ríkissaksóknari rétt að sakborningi verði gert að sæta nálgunarbanni frá heimili brotaþola að [...] og vernduðum vinnustað hennar [...], sem nemi 50 metra radíus frá miðju hvors húss um sig og að honum verði jafnframt bannað að setja sig í samband við brotaþola með nokkrum hætti, þ.m.t. í gegnum síma-, bréfa- og rafpóstsamskipti.

Í  3.  mgr. 7.  gr. laga nr. 85/2011 segir að nálgunarbanni skuli markaður ákveðinn tími, þó ekki lengur en eitt ár í senn. Í kröfu lögmanns brotaþola er þess krafist að sakborningi verði gert að sæta nálgunarbanni þann tíma sem mál vegna meintra brota sakbornings gegn brotaþola séu til rannsóknar og meðferðar hjá lögreglu og dómstólum. Tekur ríkissaksóknari undir þessi sjónarmið og telur rétt að sakborningi verði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart meðan mál lögreglu nr. 012-2013-259, er varðar meint brot hans gagnvart henni eru til rannsóknar lögreglu og eftir atvikum til meðferðar hjá ákæruvaldi og dómstólum, þó eigi lengur en sex mánuði frá dagsetningu þessa bréfs að telja.“ 

Á grundvelli þess sem að framan greini og í samræmi við fyrirmæli ríkissaksóknara kveður lögreglustjóri nálgunarbanni því verða beitt og ákvörðun þar um borin undir héraðsdóm.

                Það sé mat embættis Lögreglustjórans á Snæfellsnesi, að uppfyllt sé það skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, þar sem rökstuddur grunur sé um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað hafi verið friði brotaþola.

Fyrir dóminn hafa verið lögð gögn um lögreglurannsókn vegna kæru brotaþola sem gerð er grein fyrir hér að framan. Fallist verður á það með lögreglustjóra að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili sé uppfyllt hér. Verður ákvörðun lögreglustjóra frá 29. apríl sl. staðfest.

      Þóknun verjanda varnaraðila Pétur Kristinssonar hdl., ákvarðast 62.750 krónur þ.m.t. virðisaukaskattur að viðbættum ferðakostnaði hans að fjárhæð 18.650 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola Maríu Magnúsdóttur hdl. að fjárhæð 62.750 krónur þ.m.t. virðisaukaskattur að viðbættum ferðakostnaði hennar að fjárhæð 18.650 krónur, og greiðist kostnaður þessi úr ríkissjóði.

Allan V. Magnússon, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Staðfest er sú ákvörðun lögreglustjórans á Snæfellsnesi frá 29. apríl 2013, að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart A og er honum bannað að nálgast hana eða setja sig í samband við hana með nokkrum hætti, þ.m.t. í gegnum síma-, bréfa- og rafpóstsamskipti, frá 24. apríl 2013 að telja og meðan mál lögreglu nr. 012-2013-259 er til rannsóknar lögreglu og eftir atvikum til meðferðar hjá ákæruvaldi og dómstólum, þó eigi lengur en í sex mánuði. Meðan nálgunarbannið varir er X óheimilt að nálgast heimili A að [...] og verndaðan vinnustað hennar að [...], sem nemi 50 metra radíus frá miðju hvors húss um sig. 

Þóknun verjanda varnaraðila Péturs Kristinssonar hdl. að fjárhæð 62.750 krónur að viðbættum aksturskostnaði hans að fjárhæð 18.650  og réttargæslumanns brotaþola Maríu Magnúsdóttur hdl. að fjárhæð 62.750 krónur að viðbættum aksturskostnaði hennar að fjárhæð 18.650 krónur greiðist úr ríkissjóði.