Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-115

B (Kristján Gunnar Valdimarsson lögmaður)
gegn
A (Hannes J. Hafstein lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fyrning
  • Greiðsluaðlögun
  • Eignarréttur
  • Stjórnarskrá
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 7. nóvember 2023 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. október sama ár í máli nr. 365/2022: B gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um endurgreiðslu fjárhæðar sem hún innti af hendi til tveggja fjármálafyrirtækja. Annars vegar sem veðþoli samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu af leyfisbeiðanda og hins vegar sem ábyrgðarmaður á fullum efndum gagnaðila á kaupleigusamningi.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á kröfur gagnaðila. Í málinu byggði leyfisbeiðandi í fyrsta lagi á því að endurkrafa gagnaðila væri fyrnd og í öðru lagi að af samningi leyfisbeiðanda um greiðsluaðlögun leiddi að gagnaðili ætti ekki endurkröfu á hendur honum. Niðurstaðan varð að kröfur gagnaðila fyrndust á 10 árum samkvæmt 1. og 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Þar sem leyfisbeiðandi hefði síðast greitt af umræddum skuldum árinu 2013 hafi þær verið ófyrndar við höfðun málsins á árinu 2021. Landsréttur féllst ekki á að eftirgjöf fjármálafyrirtækja á grundvelli samnings um greiðsluaðlögun leiddi til þess að gagnaðili ætti ekki endurkröfu á hendur leyfisbeiðanda fyrir samsvarandi fjárhæð og hún hafði greitt á grundvelli ábyrgðarskuldbindinga sinna, enda nyti sú krafa verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé rangur þar sem greiðslusamningur samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga og nauðasamningur samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. séu lagðir að jöfnu í niðurstöðu réttarins. Landsréttur komist ranglega að því að greiðsluaðlögunarsamningur leyfisbeiðanda sé ekki frjáls skuldaskilasamningur þótt engin skylda hafi hvílt á kröfuhöfum til að samþykkja samninginn. Leyfisbeiðandi byggir að auki á því að niðurstaða málsins hafi verulegt almennt gildi. Hún leiði til þess að skuldari geti ekki treyst því að samþykki kröfuhafa á samningnum leiði ekki til þess að þeir geti krafið ábyrgðarmenn um greiðslu sem síðan krefji skuldarann um endurgreiðslu. Þá varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um réttaráhrif greiðsluaðlögunar einstaklinga samkvæmt lögum nr. 101/2010. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.