Hæstiréttur íslands

Mál nr. 579/2014


Lykilorð

  • Landamerki
  • Réttaráhrif dóms


                                            

Fimmtudaginn 21. maí 2015.

Nr. 579/2014.

Hrafn Jóhannsson

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

gegn

Jóni Guðmundssyni

Ernu Árfells

Guðmundi Jóni Jónssyni

Guðlaugu Guðjónsdóttur

Brynhildi Stefánsdóttur

Björgvin H. Guðmundssyni

Sævari Einarssyni

Jóhönnu Elínu Gunnlaugsdóttur

Eiríki Þ. Davíðssyni og

Sólveigu Unni Eysteinsdóttur

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

og gagnsök

Landamerki. Réttaráhrif dóms.

Í Landeyjum í Rangárvallasýslu eru jarðirnar Berjanes, Kanastaðir, Vorsabær, Straumur og Stífla. Við kaupsamning árið 1994 var Straumi skipt úr landi Kanastaða og festi HJ kaup á jörðinni árið 1997. Í málinu deildu eigendur jarðanna um landamerki Straums. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með dómi réttarins í málinu nr. 297/2008 hefði verið leyst úr landamerkjum milli Straums annars vegar og Kanastaða, Vorsabæjar og Stíflu hins vegar. Því yrði í máli þessu ekki dæmt um þau merki á nýjan leik, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eftir stæði því að dæma um landamerki milli Straums og Berjaness. JG o.fl. töldu að merki Straums gagnvart Berjanesi réðist í öllum aðalatriðum af mörkum spildunnar eins og þau voru ákveðin þegar hún var skilin frá Kanastöðum árið 1994, en HJ hélt því fram að miðlína Affallsins, eins af fjórum vatnsföllum á svæðinu, eins og hún var við gerð og þinglýsingu landamerkjabréfs Berjaness árið 1884, réði að mestu framangreindum mörkum. Með hliðsjón af landamerkjabréfum frá árunum 1884 og 1889, matsgerðar sem HJ hafði aflað við meðferð málsins í héraði og sem hefði ekki verið hnekkt af JG o.fl. og loks þeirri fornu meginreglu íslenskrar réttar að ekki breytast merki þótt farvegur breytist, sbr. nú 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923, taldi Hæstiréttur ljóst að miða ætti við að miðlínan á framangreindum árum hefði legið um nánar tilgreinda hnitapunkta sem að mestu lægju utan Straums eins og land jarðarinnar hafði verið markað í landamerkjalýsingu frá árinu 1999. Var því að mestu leyti fallist á aðalkröfu HJ og landamerki Berjaness og Straums ákvörðuð í samræmi við það.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. september 2014. Hann krefst þess aðallega að viðurkennt verði að landamerki Straums liggi um línu sem dregin er milli eftirtalinna hnitsettra punkta samkvæmt hnitakerfinu ÍSN93, mælt með GPS-tækni: Frá punkti 001 hnit: A442462,2 og N352760,3, sem er girðingarstaur á girðingu sem liggur upp miðjan Affalsaur, í punkt A hnit: A442404,5 og N352389,2. Frá punkti A er línan dregin í punkt 2 hnit: A422418,7 og N352902,3, þaðan í punkt 3 hnit: A442643,3 og N352955,8, frá punkti 3 í punkt 4 hnit: A442765,4 og N353000,0, þaðan í punkt B hnit: A442921,9 og N352973,7 og þaðan í punkt M hnit: A442967,465 og N352994,885 sem er punktur á línu sem dregin er 10 metra frá miðlínu þjóðvegar 1, sunnan vegarins samsíða miðlínunni. Norðan þjóðvegarins liggi merkin um línu sem dregin er frá punkti N hnit: A442898,278 og N353004,932 sem er punktur á línu sem dregin er 10 metra frá miðlínu þjóðvegarins, samsíða miðlínunni, í punkt C hnit: A443192,8 og N353099,4, þaðan í punkt 7 hnit: A443259,6 og N353219,6, frá punkti 7 í punkt D hnit: A443365,8 og N353325,4 og þaðan í punkt 005 hnit: A443353,9 og N353174,2.

Til vara krefst aðaláfrýjandi þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Að því frágengnu krefst hann þess að viðurkennt verði að landamerki Straums, landnr. 172477, liggi um línu sem dregin er milli eftirtalinna hnitsettra punkta samkvæmt áðurnefndu hnitakerfi: Frá punkti 001 hnit: A442462,2 og N352760,3, sem er girðingarstaur á girðingu sem liggur upp miðjan Affalsaur, í punkt B hnit: A442921,9 og N352973,7, þaðan í punkt 5 hnit: A442963,7 og N352966,7 og þaðan í punkt K hnit: A442992,400 og N352979,682. Norðan þjóðvegarins liggi merkin um línu sem dregin er frá punkti L hnit: A443014,528 og N352989,831 í punkt 6 hnit: A443171,7 og N353061,4, þaðan í punkt C hnit: A443192,8 og N353099,4 og frá punkti C í punkt 005 hnit: A443353,9 og N353174,2. Í öllum tilvikum krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendurnir Jón, Erna, Guðmundur Jón, Sævar og Jóhanna Elín skutu málinu upphaflega fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 2. september 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 15. október sama ár og var áfrýjað öðru sinni 27. sama mánaðar. Þau krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda. Að því frágengnu gera þau fjórar kröfur til vara. Í fyrsta lagi að viðurkennt verði að landamerkin milli Berjaness með Stíflu og Straums liggi um línu milli eftirtalinna hnitsettra punkta samkvæmt hnitakerfi ISNET93: Frá punkti A1 hnit: A442462,6 og N352759,7 um línu sem dregin er í suðaustlæga átt í stefnu á útfall Spjaralækjar, eins og það var 1930, þar til línan sker sjónlínu milli Elliðaeyjar og Flókastaðagils í punkti K1 hnit: A443333,6 og N352896,1. Í öðru lagi að viðurkennt verði að greind landamerki liggi um línu milli eftirtalinna hnitsettra punkta: Frá punkti A1 hnit: A442462,6 og N352759,7 í austurátt eftir núverandi girðingu í punkt B1 hnit: A442623,7 og N352834,6, þaðan eftir línu sem dregin er milli punktanna C1 hnit: A442797,0 og N352836,1, D1 hnit: A442858,0 og N352840,0, E1 hnit: A443030,8 og N352878,1, F1 hnit: A443106,8 og N352903,7, sem er við sunnanverðan núverandi þjóðveg og þaðan í beinni línu í endapunktinn L1 hnit: A443325,5 og N352798,7, sem er á enda markalínu Kanastaða og jafnframt á sjónlínu milli Elliðaeyjar og Flókastaðagils. Í þriðja lagi að viðurkennt verði að greind landamerki liggi um línu milli eftirtalinna hnitsettra punkta: Frá punkti A1 hnit: A442462,6 og N352759,7 í suðaustlæga átt í punkt C1 hnit: A442797,0 og N352836,1, D1 hnit: A442858,0 og N352840,0, E1 hnit: A443030,8 og N352878,1, F1 hnit: A443106,8 og N352903,7 og þaðan yfir núverandi þjóðveg í punktinn G1 hnit: A443168,3 og N352924,4 við veginn norðanverðan og þaðan í beina línu með stefnu á útfall Spjaralækjar þar til línan sker sjónlínuna milli Elliðaeyjar og Flókastaðagils í punkti J1 hnit: A443335,6 og N352919,1. Í fjórða lagi að viðurkennt verði að greind landamerki liggi um línu milli eftirtalinna hnitsettra punkta: Frá punkti A1 hnit: A442462,6 og N352759,7 í austurátt eftir núverandi girðingu í punkt B1 hnit: A442623,7 og N352834,6, þaðan eftir línu sem dregin er milli punktanna C1 hnit: A442797,0 og N352836,1, D1 hnit: A442858,0 og N352840,0, E1 hnit: A443030,8 og N352878,1, F1 hnit: A443106,8 og N352903,7, G1 hnit: A443168,3 og N352924,4 og þaðan í punktinn H1 hnit: A443247,0 og N352951,0 og í endapunktinn I1 hnit: A443346,3 og N353049,5, sem er á sjónlínunni milli Elliðaeyjar og Flókastaðagils. Í öllum tilvikum krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendurnir Björgvin, Eiríkur, Sólveig Unnur, Guðlaug og Brynhildur skutu málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 4. nóvember 2014. Þau krefjast sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Vegagerðinni var stefnt til réttargæslu í aðalsök. Hún lét málið ekki til sín taka fyrir Hæstarétti.

Dómendur fóru á vettvang 13. maí 2015.

I

Í Landeyjum í Rangárvallasýslu eru jarðirnar Berjanes, Kanastaðir, Vorsabær, Straumur og Stífla. Deila eigendur þeirra um hvar séu merki Straums. Sveitin Landeyjar liggur milli Ála og Hólsár neðan Rangárvalla og Fljótshlíðar allt í sjó fram og eru þær ásamt nokkru af flatlendi Vestur-Eyjafjalla óshólmar Rangánna og Markarfljóts. Í Landeyjum er landslag flatt, þar er votlent og grösugt en vatnaágangur var þar mikill áður en vatnsföllin voru heft með fyrirhleðslu. Landið er skorið af eldri og yngri farvegum Markarfljóts og munu hinir eldri farvegir oft vera nefndir fljótsvegir. Landeyjar skiptast um ána Affall í Austur- og Vestur-Landeyjar og eru Berjanes og Stífla í Vestur-Landeyjum en Kanastaðir, Straumur og Vorsabær í Austur-Landeyjum. Aðaláfrýjandinn Hrafn er eigandi Straums. Gagnáfrýjendurnir Eiríkur og Sólveig eru eigendur Kanastaða, en Straumi var skipt úr landi Kanastaða. Gagnáfrýjandinn Björgvin er eigandi Vorsabæjar 1 og 2 sem liggja norðan og austan Kanastaða. Vorsabær í gögnum málsins einnig nefndur Vosbær eða Ossabær. Gagnáfrýjendurnir Jón, Erna og Guðmundur Jón eru eigendur Berjaness sem liggur norðan Kanastaða. Gagnáfrýjendurnir Sævar og Jóhanna Elín eru eigendur Stíflu sem einnig liggur norðan Kanastaða og gagnáfrýjendurnir Guðlaug og Brynhildur eru eigendur lóða sem skipt hefur verið úr landi Berjaness.

Affall er eitt af fjórum vatnsföllum sem fyrir árið 1930 féllu óhindruð um Markarfljótsaura og allt til sjávar en hin eru Þverá, Álar og Markarfljót. Mest af því vatni sem rennur í þessum ám mun samkvæmt gögnum málsins eiga uppruna sinn í bráðnum jökulís í Mýrdals-, Eyjafjalla- og Tindfjallajöklum auk þess sem snjóbráðnun og úrkoma leggur þeim til vatn. Þverá, Affall og Álar verða til þegar komið er vestur fyrir Stóra-Dímon. Markarfljótsaurar eru austan og sunnan við Stóra-Dímon og á efri hluta auranna flæmist Markarfljót til vesturs á móts við Stóra-Dímon. Flæði vatns um Markarfljótsaura er stýrt með leiðigörðum sem ná allt frá Vatnsdal í Fljótshlíð um þvera aurana í Stóra-Dímon. Þaðan eru garðar með fljótinu að gömlu brúnni á Markarfljóti og áfram að hinni nýju og ná frá henni langleiðina til sjávar. Leiðigarðar norðan við Stóra-Dímon, sem beina vatni frá farvegum Þverár og Affalls í farvegi Markarfljóts og Ála ásamt leiðigörðum sunnan við Stóra-Dímon, voru reistir á árunum milli 1930 og 1950. Það hafði samkvæmt gögnum málsins í för með sér að náttúrulegir rennslishættir Markarfljóts breyttust þannig að meginflaumur fljótsins mun nú næstum alltaf ná í farvegi Markarfljóts og Ála í stað þess að áður gat hann færst í farveg Þverár eða Affallsins.

Tilgangur fyrrgreindra framkvæmda mun samkvæmt því sem fram er komið í málinu hafa verið að takmarka flæði vatns í og um farvegi Þverár og Affallsins og beina þess í stað vatnsflaumnum sem mest í farveg Markarfljóts. Við þær aðgerðir hætti jökulvatn að eiga greiða leið í og um farveg Affallsins sem aftur varð til þess að vatn hætti að flæmast um farveg þess. Eins og nánar verður rakið síðar tóku hlutar hans að gróa upp, meðal annars á því svæði sem um er deilt í málinu. Frá því gripið var inn í náttúrulegt streymi jökulvatns í farveg Affallsins á árunum 1930 til 1950 mun vatn meira og minna hafa runnið um sama hluta farvegarsins. Affall er í dag lindá eða lindarlækur með fremur takmörkuðum árstíðabundnum sveiflum í rennsli og rennslisháttum og rennur í núverandi farvegi meðal annars innan marka Straums.

II

Svo sem nánar verður rakið síðar var í október 1883 gert landamerkjabréf fyrir Berjanes og það þinglesið 5. júní 1884. Í því kemur fram að Affallið ráði merkjum milli Berjaness og Kanastaða. Sameiginlegt landamerkjabréf fyrir Kanastaði og Vorsabæ var gert 5. maí 1889 og það þinglesið 25. sama mánaðar. Í því kemur einnig fram að Affallið ráði merkjum milli Berjaness og Kanastaða annars vegar og Berjaness og Vorsabæjar hins vegar.

Þáverandi eigendur Kanastaða, þeir Diðrik Sigurðsson og Guðmundur Diðriksson, seldu jörðina gagnáfrýjendunum Eiríki og Sólveigu með kaupsamningi 20. apríl 1994. Við þá sölu héldu seljendur eftir spildu úr landi jarðarinnar sem samkvæmt orðum kaupsamningsins sjálfs var efsti hluti hennar á mörkum Kanastaða og Berjaness að vestan og Kanastaða og Vorsabæjar að austan. Í kaupsamningnum sagði að landamerki Kanastaða væru ágreiningslaus og væru þau samkvæmt landamerkjabréfi 5. maí 1887 innfærð í landamerkjabók Rangárvallasýslu. Um hina undanskildu spildu sagði að hún væri um 15 hektarar „(500m x 300m) á mörkum Kanastaða og Berjanes að vestan og Vosbæjar að norðan, efsti hlutinn. Seljandi hefur gert uppdrátt af spildu þessari og skoðast hann sem hluti samnings þessa.“

Á uppdrætti sem var fylgiskjal kaupsamningsins frá árinu 1994 var spilda sú sem undan var skilin sýnd í tvennu lagi, skorin í sundur af þjóðvegi 1. Sunnan þjóðvegarins var spildan sýnd fimmhyrnd og bein lína sem sýndi mörk þessa hluta spildunnar að norðan meðfram þjóðvegi 1 var tilgreind 412 metrar. Bein lína frá þjóðveginum með stefnu til suðvesturs á mörkum Berjaness og Straums var sögð 500 metrar, bein lína til suðausturs frá þjóðveginum meðfram Austur-Landeyjavegi 300 metrar, bein lína til vesturs frá síðastnefndri línu á mörkum Kanastaða og Straums 600 metrar og bein lína til norðvesturs frá síðastnefndri línu á línuna milli Berjaness og Straums um það bil 168 metrar. Norðan þjóðvegarins var hluti spildunnar sýndur sem þríhyrningur án þess að lengdarmetrar væru tilgreindir.

Með kaupsamningi 10. desember 1997 festi aðaláfrýjandi kaup á framangreindri spildu úr landi Kanastaða og var seljandinn dánarbú Diðriks Sigurðssonar. Í kaupsamningnum sagði að seljandi „lofar að selja og kaupandi að kaupa u.þ.b. 15 ha spildu úr landi Kanastaða ásamt sumarhúsi sem á spildunni er, Austur-Landeyjahreppi, ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber þ.m.t. hlunnindi ... Um eignarheimild seljenda vísast til veðbókarvottorðs fyrir eignina dags. 25.11.1997. Ofangreint skjal ásamt fasteignamatsvottorði liggja frammi við undirritun samnings þessa og hefur kaupandi kynnt sér þau og hefur ekkert við þau að athuga.“ Ágreiningslaust er að spilda sú sem aðaláfrýjandi keypti árið 1997 er sama spildan og seljendur Kanastaða skildu undan jörðinni við sölu hennar árið 1994.

Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2009 í máli nr. 297/2008 var aðaláfrýjanda veitt leyfi 2. febrúar 2000 til að stofna á spildu þeirri, er hann hafði sem fyrr segir keypt 10. desember 1997, nýbýli til fiskeldis og skógræktar. Spilduna nefndi hann Straum. Til undirbúnings stofnunar nýbýlisins hafði aðaláfrýjandi útbúið landamerkjalýsingu milli Straums og aðliggjandi jarða. Á framhlið hennar sagði: „Berjanes: Milli Berjanes og Straums ræður núverandi girðing sem liggur upp miðjan Affallsaur, úr girðingarstaur sem merktur er númer 1 á uppdrætti, að Suðurlandsvegi. Berjanes/Stífla. Óskipt land: Norðan þjóðvegar ræður sama stefnulína frá girðingu við þjóðveg að hornpunkti, merktur númer 2 á uppdrætti sem er skurðarpunktur línu sem dregin er úr girðingarhorni við pípuhlið á Landeyjavegi með stefnu í Flókastaðagil, merkt 3 á uppdrætti. Vorsabær: Milli Straums og Vorsabæjar ræður lína milli punkta 3 og 2, sem sé úr hornstaur girðingar við pípuhlið á A-Landeyjavegi og sjónhendingu í Flókastaðagil. Kanastaðir: Milli Straums og Kanastaða ræður núverandi girðing úr hornstaur í Affallsaur, merktum nr. 1 á uppdrætti, að staur númer 5 þaðan að girðingarhorni við A-Landeyjaveg merkt númer 4. Þaðan ræður girðing til norðurs meðfram A-Landeyjavegi að girðingarhorni við pípuhlið merkt númer 3 á uppdrætti.“

Bakhlið landamerkjalýsingar Straums bar yfirskriftina: „Samþykkir sem landeigendur“. Þar undir voru með dagsetningunum 20. og 21. nóvember 1999 handrituð nöfn eigenda Kanastaða, nafn eiganda Vorsabæjar 1 og 2, nafn eiganda Stíflu og nöfn tveggja eigenda Berjaness, gagnáfrýjendanna Ernu og Jóns, sem þá áttu 7/8 hluta jarðarinnar í óskiptri sameign með Pálínu Guðjónsdóttur er átti 1/8 hluta hennar. Hún ritaði ekki nafn sitt á bakhlið landamerkjalýsingarinnar sem afhent var til þinglýsingar 24. nóvember 1999 ásamt meðfylgjandi uppdrætti af spildunni. Uppdrátturinn var gerður 15. nóvember 1999 af verkfræðistofunni Hnit hf. Hann var ekki áritaður sérstaklega af eigendum jarðanna.

Á uppdrættinum frá nóvember 1999 var jörðin Straumur sýnd í tvennu lagi eins og á uppdrættinum sem fylgdi kaupsamningnum árið 1994, skorin í sundur af þjóðvegi 1. Sunnan þjóðvegarins var spildan sýnd fimmhyrnd og bein lína sem sýndi mörk þessa hluta hennar að norðan meðfram þjóðveginum var tilgreind 412,72 metrar. Bein lína frá þjóðveginum með stefnu til suðvesturs á mörkum Straums og Berjaness var sögð 543,56 metrar, bein lína til suðausturs frá þjóðveginum meðfram Austur-Landeyjavegi 296,19 metrar, bein lína til vesturs frá síðastnefndri línu á mörkum Kanastaða og Straums 642,74 metrar og bein lína til norðvesturs frá síðastnefndri línu á línuna milli Berjaness og Straums 164,44 metrar. Norðan þjóðvegarins var hluti spildunnar sýndur sem þríhyrningur en með aðra og hvassari lögun en þríhyrningurinn á uppdrættinum frá árinu 1994. Hlið spildunnar meðfram þjóðveginum var í beinni línu sögð 364,59 metrar, hliðin frá þjóðveginum til norðvesturs var í beinni línu sögð 326,32 metrar og hliðin frá þjóðveginum til norðausturs var í beinni línu 388,74 metrar. Allir punktar á uppdrættinum voru hnitsettir samkvæmt mælingu og hönnun Vegagerðar ríkisins og þar kom fram að land norðan þjóðvegarins væri 5,524 hektarar og land sunnan hans 25,313 hektarar, samtals 30,837 hektarar.

III

Ágreiningslaust er eins og áður segir að spilda sú sem aðaláfrýjandi keypti árið 1997 er sama spildan og skilin var frá Kanastöðum við sölu jarðarinnar árið 1994. Hins vegar deila aðilar um stærð spildunnar og mörk hennar gagnvart aðliggjandi jörðum. Gagnáfrýjendur telja  að merki Straums gagnvart Berjanesi ráðist í öllum aðalatriðum af mörkum spildunnar eins og þau voru ákveðin þegar hún var skilin frá Kanastöðum árið 1994. Þessu er aðaláfrýjandi ósammála og heldur því fram að miðlína Affallsins, eins og hún var við gerð og þinglýsingu landamerkjabréfs Berjaness árið 1884, ráði að mestu mörkum Straums gagnvart Berjanesi. Er krafa hans reist á mati dómkvadds manns sem aflað var af aðaláfrýjanda í því skyni að fá úr því skorið hvar Affallið rann árið 1884. Ef fallist yrði á kröfu aðaláfrýjanda myndu merki Straums færast til norðurs yfir í fornan, uppþornaðan og gróinn farveg Affallsins. Þá er um það deilt hvaða þýðingu hafi í málinu fyrrgreindur dómur Hæstaréttar frá árinu 2009 í máli nr. 297/2008 en það höfðuðu gagnáfrýjendur, aðrir en Guðlaug og Brynhildur, til að fá ógilta fyrrgreinda landamerkjalýsingu Straums frá árinu 1999. Aðaláfrýjandi heldur því fram að með dóminum hafi verið skorið úr um merki Straums gagnvart öllum aðliggjandi jörðum öðrum en Berjanesi. Þessu eru gagnáfrýjendur ósammála og telja að þar sem umræddur dómur hafi ekki verið dómur í landamerkjamáli hafi með honum ekki verið skorið úr um merki jarða þeirra er aðild áttu að málinu heldur einvörðungu um gildi tiltekins skjals.

IV

Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 297/2008 sagði um málatilbúnað gagnáfrýjenda að ekki kæmi skýrt fram í hvaða augnamiði krafist væri dóms um að ógilda bæri landamerkjalýsingu Straums frá nóvember 1999 en málið væri ekki rekið sem landamerkjamál. Hins vegar væri ljóst að gagnáfrýjendur hefðu lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfuna meðal annars í ljósi traustfangsreglna. Í dóminum var hafnað málsástæðum gagnáfrýjenda er lutu að því að landamerkjalýsing Straums væri fölsuð og aðaláfrýjandi hefði beitt þau svikum við gerð hennar. Þá var einnig hafnað þeirri málsástæðu gagnáfrýjenda að ákvæði 32. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga gætu leitt til þess að fallist yrði á dómkröfu þeirra.

Auk framangreindra málsástæðna byggðu gagnáfrýjendur einnig á því að landamerkjalýsing Straums fullnægði ekki skilyrðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl., þar sem ekki hefði verið aflað samþykkis Pálínu Guðjónsdóttur sem verið hefði þinglýstur eigandi 1/8 hluta óskiptrar jarðarinnar Berjaness. Um það sagði í dómi Hæstaréttar að sú ráðstöfun sem fram kom í merkjalýsingunni milli Straums og Berjaness hafi verið þess eðlis að þurft hafi að afla samþykkis allra eigenda hinnar óskiptu jarðar til þess að hún væri skuldbindandi. Þá sagði í dóminum að þegar litið væri til eðlis þeirrar ráðstöfunar sem falist hafi í merkjalýsingunni væri ekki fallist á að tómlæti Pálínu, sem ekki hreyfði andmælum gegn gildi landamerkjalýsingarinnar fyrr en tæpum átta árum eftir gerð hennar, hafi verið slíkt að hún hafi fyrirgert rétti sínum af þeim sökum. Loks sagði að samkvæmt „því sem rakið hefur verið er fallist á að landamerkjalýsingin frá nóvember 1999 sé ekki gild að því er varðar merki milli jarðanna Straums og Berjaness, en kröfu [gagnáfrýjenda] er að öðru leyti hafnað.“ Í dómsorði hæstaréttardómsins sagði að „Landamerkjalýsing frá nóvember 1999 milli jarðarinnar Straums í Rangárvallasýslu og jarðanna Berjaness, Kanastaða, Stíflu og Vorsabæjar, sem liggja að Straumi, er ógild að því er varðar merki milli jarðanna Straums og Berjaness.“

Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta á árinu 2012 til viðurkenningar á legu þess hluta landamerkja Straums sem hann kveður landamerkjalýsinguna frá nóvember 1999 ekki ná til eftir dóm Hæstaréttar í máli nr. 297/2008. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 9. janúar 2013 var málinu vísað frá dómi. Þann úrskurð kærði aðaláfrýjandi til Hæstaréttar sem með dómi 4. mars sama ár í máli nr. 66/2013 felldi hann úr gildi og lagði fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að aðaláfrýjandi krefðist þess aðallega að viðurkennt yrði „að mörk Straums og Berjaness liggi nokkru norðar en fram kemur í fyrrnefndri landamerkjalýsingu. Verði fallist á aðalkröfu [aðaláfrýjanda] verður jörð hans stærri sem þessu nemur borið saman við þau merki sem miðað er við í landamerkjalýsingunni ... Er [aðaláfrýjanda] þetta heimilt enda laut ... dómur Hæstaréttar [í máli nr. 297/2008] ekki að kröfu um viðurkenningu á mörkum jarðanna Straums og Berjaness heldur að kröfu framangreindra [gagnáfrýjenda] um ógildingu landamerkjalýsingar Straums frá árinu 1999. Varakrafa [aðaláfrýjanda] sýnist aftur á móti að mestu í samræmi við þau mörk sem fram koma í umræddri landamerkjalýsingu.“

V

Eins og fram kemur meðal annars í dómum Hæstaréttar 11. október 2012 í máli nr. 457/2011 og 26. september 2013 í máli nr. 547/2012 er landamerkjabréf í eðli sínu samningur um landamerki ef það er samþykkt af eigendum eða umráðamönnum aðliggjandi jarða um þau atriði sem þeir hafa heimild til að ráðstafa með löggerningi. Af dómi Hæstaréttar í máli nr. 297/2008 leiðir að í undirritun eigenda Kanastaða, Vorsabæjar og Stíflu á landamerkjalýsingu Straums frá nóvember 1999, um samþykki á efni hennar, fólst ráðstöfun af hálfu landeigenda sem í eðli sínu var skuldbindandi samningur um merki milli jarða þeirra. Er ekki fram komið að þeim samningi hafi síðar verið breytt með öðrum samningum landeigenda.

Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra sem að lögum koma í þeirra staða um þær kröfur sem þar eru dæmdar að efni til. Áðurgreindur dómur Hæstaréttar í máli nr. 297/2008 fól í sér bindandi úrslit um landamerki milli Straums annars vegar og Kanastaða, Vorsabæjar og Stíflu hins vegar, eins og þau voru ákveðin í landamerkjalýsingunni frá nóvember 1999. Því verður í máli þessu ekki dæmt um þau merki á nýjan leik. Samkvæmt þessu og í samræmi við dómkröfur aðila stendur eftir að dæma um landamerki milli Straums og Berjaness, en í síðastgreindum dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði landamerkjalýsingarinnar væru ógild að því er varðar merki milli þessara jarða. Við úrlausn um merki milli jarðanna er til þess að líta að aðilar eru sammála um að land í óskiptri sameign Berjaness og Stíflu liggi utan þess svæðis sem um er deilt í málinu. Þá er og ágreiningslaust að spildur gagnáfrýjendanna Brynhildar og Guðlaugar liggja utan þrætusvæðisins.

Landamerkjabréf var sem fyrr segir gert fyrir Berjanes í október 1883, það upplesið og bókað á manntalsþingi að Eystra-Fíflholti 5. júní 1884 og innfært í landamerkjabók Rangárvallasýslu. Í bréfinu sagði meðal annars að merki milli Berjaness og Breiðabólstaðar í Fljótshlíð lægju „skáhalt fram á miðjan Krossdalshöfða þar sem gamla Ossabæ ber laust vestan við stóru Dranga og Árnagerðisbæ í miðjan Þórunefsnúp og þaðan liggja mörkin fram í Affall við svokölluð Ölduminni og ber það miðað frá markinu á Krossdalshöfða í Neðradalsgil. Að sunnan ræður svo Affallið landamerkjum (vestur) að mörkunum við Eystra-Fíflholt.“ Undir bréfið rituðu sem samþykkir Skúli Gíslason, S. Magnússon, Þórður Brynjólfsson, Jón Eyjólfsson, Magnús Jónsson og Páll Ögmundsson.

Í landamerkjabréfi Kanastaða og Vorsabæjar 5. maí 1889, sem var upplesið og bókað á manntalsþingi að Krossi 25. sama mánaðar og innfært í landamerkjabók Rangárvallarsýslu, sagði meðal annars: „No 75 Kanastaðir og Ossabær. Landamerki jarðanna Kanastaða og Ossabæjar ... er markað eftir skjölum sem við í höndum höfum einnig samkvæmt bréfum að sögn núlifandi manna sem nú skal greina. Landnorður hornmarkið er svokölluð Hrossleggjaþúfa sem er skammt fyrir sunnan svonefndar Taglaborgir ... Þaðan liggur markalína í útsuður beina stefnu í Grenihól ... Þegar á Grenihól er verið ber bæinn Bryggjur í Álsey og Markhóll í bæinn Strandarhöfuð og er bein stefna yfir hann upp í Affall og ræður sú stefna líka mörkum milli Úlfsstaða og Kanastaða. Svo ræður Affallið mörkum milli Berjaness og Kanastaða, Ossabæjar og Breiðabólsstaðar en markalínan milli Teigs og Ossabæjar er úr áðurnefndri Hrossleggjaþúfu beint í Affallið þar sem Teigsland tekur enda á vesturkantinum í Affallinu.“ Undir skjalið rituðu Ísleifur Magnússon, Guðrún Jónsdóttir handsalað í tvígang, Ólafur Ólafsson, Guðmundur Guðmundsson og Jón Þórðarson. Samkvæmt framangreindu er ljóst að Affallið eins og það rann árin 1884 og 1889 réði mörkum milli Berjaness og Kanastaða.

Lýsing spildunnar sem seljendur Kanastaða héldu eftir við sölu jarðarinnar árið 1994 var að sönnu ónákvæm í kaupsamningnum bæði hvað varðar uppgefna stærð og afmörkun. Eigi að síður var orðalag samningsins afdráttarlaust um það að spildan var efsti hluti Kanastaða og náði að vestan að merkjum Berjaness. Þá veldur ekki vafa þegar virtur er uppdrátturinn sem fylgdi kaupsamningnum að undanskilda landið var í tveimur hlutum skorið í sundur af þjóðvegi 1. Þegar aðaláfrýjandi keypti árið 1997 „spildu úr landi Kanastaða“ var hún sem fyrr segir sögð vera um það bil 15 hektarar að stærð og er ágreiningslaust að þarna er um að ræða sömu spilduna og Diðrik Sigurðsson hélt eftir við sölu Kanastaða árið 1994. Af framangreindu leiðir að merki Straums og Berjaness ráðast af merkjum Berjaness og Kanastaða eins og þau voru við gerð og þinglýsingu landamerkjabréfa jarðanna árin 1884 og 1889. Þar var eins og fram er komið við það miðað að Affallið skipti merkjum milli jarðanna og í samræmi við þær lagareglur er þá giltu var það miðlína árinnar sem réði merkjum, sbr. 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar.

Þótt merkjum Berjaness og Kanastaða hafi ekki verið breytt eftir gerð landamerkjabréfa jarðanna hefur farvegur Affallsins breyst eins og áður er fram komið og er miðlína árinnar því önnur nú en hún var þá. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi óskaði aðaláfrýjandi eftir að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta hvar farvegur Affallsins hafi verið 5. júní 1884 og hnitasetja miðju hans á uppdrætti á móts við Berjanes, Stíflu, Kanastaði og Vorsabæ.

Í matsgerð Hreggviðs Norðdahl jarðfræðings 29. september 2011 kemur fram að mikið jökulvatn hafi verið í farvegi Affallsins fram til ársins 1300 og þá hafi farvegur þess verið að minnsta kosti 400 metra breiður. Útlínur hans megi enn greina bæði ofan og neðan Kanastaða. Um árið 1510 hafi minna vatn verið í farveginum en það þó aldrei horfið enda hafi gróður ekki náð sér á strik þarna þar sem áin hafi haldið áfram að flæmast um farveginn þótt vatnsmagnið væri minna. Eftir það hafi líklega alltaf verið vatn í farvegi Affallsins og á stundum umtalsverður hluti alls þess vatns sem þá féll um Markarfljótsaura eða allt fram á 20. öld þegar hafin var gerð leiðigarða. Affallið hafi ekki verið samtímis í öllum farveginum heldur hafi meginstrengur árinnar ýmist verið við annað landið eða hitt og hafi það verið breytilegt frá einum tíma til annars.

Þá segir í matsgerðinni að á uppdrætti danska herforingjaráðsins sem mældur hafi verið árið 1907, gefinn út 1941, endurskoðaður 1950 og endurútgefinn 1955 sé farvegur Affallsins skýrt afmarkaður. Á eldri uppdrættinum séu bakkarnir skýrt afmarkaðir og á milli þeirra teiknaður mikill fjöldi áreyra. Á uppdrættinum sé breidd farvegarins á bilinu frá 250 metrum norðvestur af Kanastöðum og allt að 600 metrum ofan og neðan við Spjaralæk en þar á milli sé breiddin oftast um 400 metrar. Á flugljósmyndum af svæðinu megi glögglega sjá útlínur farvegar Affallsins og séu þær í nær öllum aðalatriðum eins og þær birtist á uppdrætti danska herforingjaráðsins. Þetta hafi verið tiltölulega auðvelt að sannreyna á jörðu niðri. Af þessu leiði að hægt sé að afmarka farveg Affallsins sem það svæði sem áin hafi flæmst um í tímans rás og sé það farvegur sem ekki hafi tekið neinum umtalsverðum breytingum hvað legu og breidd varðar frá því hann var fullmótaður á árunum 1300 til 1500. Þetta þýði að vatn hafi ekki alltaf verið í öllum farveginum í einu heldur hafi áin ýmist verið við vinstri eða hægri bakka farvegarins þegar horft sé í straumstefnu árinnar. Hafi áin á einum stað verið við vinstri bakkann þá myndi hún með tíð og tíma flytjast yfir að hægri bakkanum.

Í matsgerðinni kemur fram að þegar farið sé um það svæði sem um sé deilt í málinu verði fljótt ljóst að vinstri bakki farvegarins sé mjög skýr og að nærri honum í farvegi Affallsins séu lítt grónar áreyrar. Eyrarnar sem séu eitt helsta einkenni farvega jökuláa verði til þegar árnar kvíslist og flæmist um farvegi sína. Munurinn á gróðurþekju í þessum hluta farvegarins og þeim hlutum hans sem liggi fjær bakkanum stafi fyrst og fremst af því að tilltölulega stutt sé síðan Affallið breyttist úr jökulá í lindá á árunum milli 1930 og 1950 þegar vatn hvarf af miklum hluta eyranna í farvegi Affallsins. Þetta bendi til þess að lengra sé síðan vatn hafi runnið með hægri bakkanum en þeim vinstri. Uppdráttur danska herforingjaráðsins bendi óneitanlega til þess að ummerki vatnsrennslis árið 1907 hafi verið skýr við hægri bakkann. Líklegt verði að telja að það ár hafi verið ljóst að vatn var af og til um allan farveg Affallsins á þessum slóðum og einnig verði að telja líklegt að árið 1884 hafi vatn flæmst um allan farveg þess. Niðurstaða matsmannsins var sú að miðlína farvegarins á þessu tíma hafi legið um nánar tilgreinda hnitpunkta sem að langmestu leyti liggja utan Straums eins og land jarðarinnar er markað í landamerkjalýsingunni frá nóvember 1999. Byggir aðalkrafa aðaláfrýjanda að mestu á niðurstöðu matsgerðarinnar.

Sú regla hefur lengi gilt í íslenskum rétti að þar sem á eða lækur skilur að landareignir á hvort land í miðjan farveg vatns og sé ekki vöxtur í því, nema önnur lögmæt skipan hafi þar verið á gerð, sbr. nú 1. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Er regla þessi í samræmi við þá reglu sem áður kom meðal annars fram í 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar en þar sagði að „ef á rennr millum bæja manna eða bekkr, og eru fiskar í, þá eigu hálfa hvárir, ef þeir eigu svá jǫrð til tveim megin“. Samkvæmt þessu er ljóst að miður farvegur Affallsins, eins og hann var við gerð og þinglestur landamerkjabréfs Berjaness árið 1884, réð merkjum milli jarðanna. Þótt farvegur Affallsins hafi breyst frá því landamerkjabréf Berjaness var gert breytir það ekki þessari niðurstöðu því eins og getur í dómi Hæstaréttar 12. júní 2014 í máli nr. 609/2013 er það forn meginregla íslensks réttar að ekki breytast merki þótt farvegur breytist, sbr. nú 2. mgr. 3. gr. vatnalaga. Sama regla kom áður fram í 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar en þar sagði að „ef á brýtr af annars þeirra jǫrð, þá á sá á er jǫrð átti þá sem hon braut, en hinn granda eða eyri eptir þangað til sem hon var mið, meðan hon rann rétt að fornu.“ Samkvæmt þessu og þar sem niðurstöðum fyrrgreindrar matsgerðar hefur ekki verið hnekkt með yfirmati verður að leggja hana til grundvallar um það hvar verið hafi miðlína Affallsins árið 1884.

Í matsgerðinni er miður farvegur Affallsins markaður eins og hann var árið 1884 og hnitasettur. Tekur aðalkrafa áfrýjanda mið af þessu að því undanskildu að á svæðinu þar sem kröfulínan liggur á milli hnitpunkta B og C í aðalkröfunni er tekið mið af girðingu sem vísað var til í landamerkjalýsingunni frá nóvember 1999. Er sá þáttur í mörkun kröfulínunnar reistur á sjónarmiðum um hefð, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Kveður aðaláfrýjandi girðinguna hafa verið reista um árið 1980 eins og gagnáfrýjandinn Erna, einn eigenda Berjaness, hafi borið fyrir dómi. Samkvæmt því hafi girðingin staðið fullan hefðartíma með tilheyrandi athugasemdalausum notum eigenda Kanastaða og síðar aðaláfrýjanda á landi sem liggur suðaustan við stefnulínu hennar norðan þjóðvegarins. Af gögnum málsins verður ráðið að umrædd girðing var sett sem gripagirðing milli Kanastaða og Berjaness og nýtt sem slík. Eru því engin skilyrði til þess að fallast á með aðalafrýjanda að fullnægt sé skilyrðum þess að eigendur Kanastaða og síðar Straums hafi getað unnið hefð á því landsvæði sem er milli girðingarinnar og miðlínu Affallsins.

Samkvæmt landamerkjalýsingu Straums frá nóvember 1999, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 297/2008, liggja landamerki Straums og Kanastaða frá girðingarhorni við pípuhlið á Austur-Landeyjavegi sem var punktur 3 á meðfylgjandi uppdrætti og áfram með girðingunni til suðurs að girðingarhorni í punkti 4. Þaðan liggja merki Straums og Kanastaða til suðvesturs í staur í punkti 5 og áfram þaðan í hornstaur í Affallsaur í punkti 1 á uppdrættinum og er sá punktur óumdeilt hornmark Straums, Kanastaða og Berjaness. Í kröfugerð aðaláfrýjanda, sem mörkuð er 4. apríl 2014 af Landnotum ehf. á loftmynd á hæstaréttarskjali E, hefur punktur 1 á uppdrættinum frá árinu 1999 hnitin A442462,2 og N352760,3 í hnitakerfinu ÍSN93 mælt með GPS-tækni. Að þessu gættu liggja landamerki Straums og Berjaness sunnan þjóðvegar 1 á miðlínu Affallsins, eins og hún var árið 1884 samkvæmt matsgerð Hreggviðs Norðdahl, frá punkti 001 hnit: A442462,2 og N352760,3 sem er girðingarstaur á girðingu sem liggur upp miðjan Affallsaur, í punkt A hnit: A442404,5 og N352389,2 í punkt 2 hnit: A422418,7 og N352902,3, þaðan í punkt 3 hnit: A442643,3 og N352955,8, þaðan í punkt 4 hnit: A442765,4 og N353000,0, þaðan í punkt B hnit: A442921,9 og N352973,7, þaðan í punkt 5 hnit: A442963,7 og N352966,7, og þaðan í punkt K hnit: A442992,400 og N352979,682. Við það er miðað í aðalkröfu aðaláfrýjanda að íslenska ríkið sé samkvæmt dómvenju eigandi 12 metra breiðs vegstæðis og gerir hann því ekki kröfu um að landamerkjalína Straums skeri vegstæðið. Norðan þjóðvegarins liggja merki Straums og Berjaness á miðlínu Affallsins, eins og hún var árið 1884 samkvæmt áðurnefndri matsgerð, frá punkti L hnit: A443014,528 og N352989,831 og þaðan í punkt 6 hnit: A443171,7 og N353061,4, þaðan í punkt C hnit: A443192,8 og N353099,4, þaðan í punkt 7 hnit: A443259,6 og N353219,6 og eftir línu að punkti D hnit: A443365,8 og N353325,4, allt þar til sú lína mætir í skurðpunkti landamerkjalínu Straums og Vorsabæjar sem samkvæmt landamerkjalýsingunni frá nóvember 1999 liggur úr hornstaur girðingar við pípuhlið á Austur-Landeyjavegi og sjónhending í Flókastaðagil, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 297/2008.

Eftir framangreindum úrslitum verður gagnáfrýjendunum Jóni, Ernu, Guðmundi, Sævari, Jóhönnu, Björgvin, Eiríki og Sólveigu Unnur gert að greiða aðaláfrýjanda óskipt málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og greinir í dómsorði. Þar sem lóðir gagnáfrýjendanna Guðlaugar og Brynhildar úr landi Berjaness liggja utan þess svæðis sem ágreiningur aðila tekur til var engin þörf á aðild þeirra að málinu. Verður aðaláfrýjanda því gert að greiða hvorri þeirra fyrir sig málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkennt er að landamerki milli Straums og Berjaness eru lína sem liggur milli hnitpunkta 001, A, 2, 3, 4, B, 5, K, L, 6, C og 7 og áfram úr þeim punkti að hnitpunkti D, eins og línan er mörkuð á loftmynd Landnota ehf. á hæstaréttarskjali E frá 4. apríl 2014, allt þar til sú lína mætir í skurðpunkti landamerkjalínu Straums og Vorsabæjar, sem samkvæmt landamerkjalýsingu Straums frá nóvember 1999 liggur úr hornstaur girðingar við pípuhlið á Austur-Landeyjavegi og sjónhending í Flókastaðagil.

Gagnáfrýjendurnir Jón Guðmundsson, Erna Árfells, Guðmundur Jón Jónsson, Sævar Einarsson, Jóhanna Elín Gunnlaugsdóttir, Björgvin H. Guðmundsson, Eiríkur Þ. Davíðsson og Sólveig Unnur Eysteinsdóttir greiði óskipt aðaláfrýjanda, Hrafni Jóhannssyni, 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjendunum Guðlaugu Guðjónsdóttur og Brynhildi Stefánsdóttur hvorri fyrir sig 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 2. júní 2014.

            Mál þetta, sem dómtekið var þann 7. apríl sl., er höfðað með stefnu birtri á tímabilinu frá 27. mars til 10. apríl 2012.

            Stefnandi er Hrafn Jóhannsson, kt. [...], Öldubakka 1, Hvolsvelli.

            Stefndu eru Jón Guðmundsson, kt. [...], Berjanesi, Hvolsvelli, Erna Árfells, kt. [...], Berjanesi, Hvolsvelli, Guðmundur Jón Jónsson, kt. [...], Berjanesi, Hvolsvelli, Guðlaug Guðjónsdóttir, kt. [...], Dalbraut 14, Reykjavík, Brynhildur Stefánsdóttir, kt. [...], Grænumörk 2, Selfossi, Björgvin H. Guðmundsson, kt. [...], Vorsabæ, Hvolsvelli, Sævar Einarsson, kt. [...], Stíflu, Hvolsvelli, Jóhanna Elín Gunnlaugsdóttir, kt. [...], Eiríkur Þ. Davíðsson, kt. [...], Kanastöðum, Hvolsvelli og Sólveig Unnur Eysteinsdóttir, kt. [...], Kanastöðum, Hvolsvelli. Réttargæslustefndi er Vegagerðin, kt. [...], Borgartúni 5 og 7, Reykjavík. Dánarbú Pálínu Guðjónsdóttur var upphaflega stefnt í máli þessu en Guðmundur Jón Jónsson tók við aðild þess undir rekstri málsins.

            Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að viðurkennt verði að landamerki Straums, landnr. 172477, liggi um línu sem dregin er milli eftirtalinna hnitsettra punkta samkvæmt hnitakerfinu ÍSN93 (mælt með GPS-tækni): Frá punkti 001 (austurhnit 442462,2 og norðurhnit 352760,3), sem er girðingarstaur á girðingu sem liggur upp miðjan Affallsaur, í punkt A (austurhnit 442404,5 og norðurhnit 3523892,2). Frá punkti A er línan dregin í punkt 2 (austurhnit 422418,7 og norðurhnit 352902,3), þaðan í punkt 3 (austurhnit 442643,3 og norðurhnit 352955,8), frá punkti 3 í punkt 4 (austurhnit 442765,4 og norðurhnit 353000,0), þaðan í punkt B (austurhnit 442921,9 og norðurhnit 352973,7) og þaðan í punkt M (austurhnit 442967,465 og norðurhnit 352994,885) sem er punktur á línu sem dregin er 10 m frá miðlínu þjóðvegar nr. 1, sunnan vegarins samsíða miðlínunni. Norðan þjóðvegar nr. 1 liggi merkin um línu sem dregin er frá punkti N (austurhnit 442898,278 og norðurhnit 353004,932) sem er punktur á línu sem dregin er 10 m frá miðlínu þjóðvegar nr. 1, samsíða miðlínunni, í punkt C (austurhnit 443192,8 og norðurhnit 353099,4), þaðan í punkt 7 (austurhnit 443259,6 og norðurhnit 353219,6), frá punkti 7 í punkt D (austurhnit 443365,8 og norðurhnit 353325,4) og þaðan í punkt 005 (austurhnit 443353,9 og norðurhnit 353174,2).

            Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að landamerki Straums, landnr. 172477. liggi um línu sem dregin er milli eftirtalinna hnitsettra punkta samkvæmt hnitakerfinu ÍSN93 (mælt með GPS-tækni): Frá punkti 001 (austurhnit 442462,2 og norðurhnit 352760,3), sem er girðingarstaur á girðingu sem liggur upp miðjan Affallsaur, í punkt B (austurhnit 442921,9 og norðurhnit 352973,7), þaðan í punkt 5 (austurhnit 442963,7 og norðurhnit 352966,7) og þaðan í punkt K (austurhnit 442992,400 og norðurhnit 352979,682). Norðan þjóðvegar nr. 1 liggi merkin um línu sem dregin er frá punkti L (austurhnit 443014,528 og norðurhnit 352989,831) í punkt 6 (austurhnit 443171,7 og norðurhnit 353061,4), þaðan í punkt C (austurhnit 443192,8 og norðurhnit 353099,4) og frá punkti C í punkt 005 (austurhnit 443353,9 og norðurhnit 353174,2).

            Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt yfirliti.

            Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að mati dómsins.

            Þann 9. janúar 2013 var máli þessu vísað frá dómi með úrskurði en með dómi Hæstaréttar Íslands uppkveðnum 4. mars sama ár var úrskurðurinn felldur í gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar.

            Eftir uppkvaðningu hæstaréttardómsins komust málsaðilar að samkomulagi um að stefndu fengju að koma að svohljóðandi varakröfu í máli þessu: að landamerki milli landspildu stefnanda, Straums, annars vegar og jarða stefndu, Kanastaða, Berjaness með Stíflu og Vorsabæjar, hins vegar, liggi um línu sem dregin er milli eftirtalinna hnitsettra punkta skv. hnitakerfi ISNET93: frá punkti I (austurhnit 442426.2; norðurhnit 352759.7) og þaðan í beina línu í punkt J (austurhnit 442851.0; norðurhnit 352837.8) og þaðan í beina línu í punkt K (austurhnit 443324.9; norðurhnit 352788.7) og að lokum úr þeim punkti í punkt L (austurhnit 443322.6; norðurhnit 352773.2). Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

            Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur í málinu, en við meðferð málsins varð samkomulag á milli stefnanda og réttargæslustefnda um að stefnandi breytti upphaflegum dómkröfum sínum þannig að þær verði miðaðar við að land stefnanda liggi að línu sem dregin sé 10 m frá miðlínu þjóðvegar í stað 6 m eins og upphafleg kröfugerð stefnanda gerði ráð fyrir.

            Við upphaf aðalmeðferðar var gengið á vettvang.

Málavextir.

            Stefnandi mun vera eigandi jarðarinnar Straums í Rangárþingi eystra, Rangárvallasýslu, en stefndu Jón og Erna eru eigendur jarðarinnar Berjaness ásamt Guðmuni Jóni Jónssyni, áður dánarbúi Pálínu Guðjónsdóttur. Stefnda Guðlaug er eigandi lóðar úr landi Berjaness og stefnda Brynhildur er eigandi annarrar lóðar úr sama landi. Stefndu Sævar og Jóhanna Elín eru eigendur jarðarinnar Stíflu og stefndu Eiríkur og Sólveig Unnur eru eigendur Kanastaða. Stefndi Björgvin er eigandi Vorsabæjar 1 og 2 og íslenska ríkið er eigandi vegstæðis þjóðvegarins sem liggur í gegnum land Straums.

            Stefnandi segir landamerki milli jarðanna Kanastaða og Berjaness hafa verið skýrt afmörkuð við farveg árinnar Affalls, en í landamerkjabréfi fyrir Berjanes sem dagsett sé í október 1883 og þinglýst hafi verið 5. júní 1884 segi að Affallið ráði landamerkjum að sunnan vestur að mörkunum við Eystra Fíflholt. Í landamerkjabréfi milli Kanastaða og Vorsabæjar frá 1889 sem þinglýst hafi verið 25. maí sama ár segi að Affallið ráði mörkum milli Berjaness og Kanastaða. Þá hafi áin einnig ráðið mörkum milli Austur- og Vestur-Landeyjahreppa. Í landamerkjadómi Rangárvallasýslu komi fram að þann 21. júlí 1923 hafi verið gerð sátt um landamerki milli Kanastaða og Ossabæjar (Vorsabæjar), en þau skyldu vera bein lína úr mörkum Voðmúlastaðalands í Spjararlækjarmynni undan Hábarði á Elliðaey í Flókastaðagljúfur. Í veðmálabók Rangárvallasýslu komi fram að þann 6. ágúst 1959 hafi farið fram landskipti á landi Berjaness og Stíflu. Hafi landskiptin einkum tekið til lands Berjanestorfu suðvestan þjóðvegar. Enn muni vera fyrir hendi land í óskiptri sameign eigenda Berjaness og Stíflu norðaustan þjóðvegarins, aðliggjandi því svæði sem dómkrafa í máli þessu lúti að.

            Með kaupsamningi dagsettum 20. apríl 1994  hafi þáverandi eigendur Kanastaða selt núverandi eigendum jörðina. Hafi seljendur undanskilið landspildu sem nú heiti Straumur, eða um 15 ha (500m x 300m) á  mörkum Kanastaða og Berjaness að vestan og Vosbæjar (svo) að norðan, efsti hlutinn. Fram hafi komið að seljandi hafi gert uppdrátt af spildunni og skoðist hann sem hluti samningsins. Hafi seljendur og kaupendur undirritað uppdráttinn og telur stefnandi ljóst að spildan sé úr þeim hluta Kanastaða sem legið hafi að Affallinu. Með kaupsamningi dagsettum 10. desember 1997 hafi stefnandi keypt Straum og umræddur uppdráttur einnig fylgt kaupsamningi sem fylgiskjal.

            Þann 20. og 21. nóvember 1999 hafi eigendur Kanastaða, Vorsabæjar og Stíflu undirritað skjal sem hafi að geyma lýsingu á landamerkjum Straums. Stefndu Erna og Jón hafi áritað skjalið um samþykki sitt vegna Berjaness en ekki Pálína Guðjónsdóttir. Í skjalinu sé landamerkjum Straums lýst þannig gagnvart aðliggjandi jörðum að milli Berjaness og Straums ráði núverandi girðing sem liggi upp miðjan Affallsaur, úr girðingarstaur sem merktur sé nr. 1 á uppdrætti, að Suðurlandsvegi. Óskipt land Berjaness/Stíflu, norðan þjóðvegar ráði sama stefnulína frá girðingu við þjóðveg að hornpunkti 2 sem sé skurðarpunkur línu sem dregin sé úr girðingarhorni við pípuhlið á Landeyjavegi með stefnu á Flókastaðagil, nr. 3 á uppdrætti. Milli Straums og Vorsabæjar ráði lína milli punkta 3 og 2 sem sé úr hornstaur girðingar við pípuhlið á A-Landeyjavegi og sjónhendingu í Flókastaðagil. Milli Straums og Kanastaða ráði núverandi girðing úr hornstaur í Affallsaur, nr. 1 á uppdrætti að staur nr. 5, þaðan að girðingarhorni við A-Landeyjaveg, merktu nr. 3. Með landamerkjalýsingunni hafi fylgt uppdráttur af Straumi gerður af verkfræðistofu þann 15. nóvember 1999 þar sem hornpunktar spildunnar séu mældir inn og reiknaðir í hnitum af Vegagerðinni. Landamerkjalýsingunni hafi verið þinglýst 25. nóvember 1999 og til hliðsjónar hafi verið hafður uppdráttur sá sem hafi verið hluti af kaupsamningnum frá 1994 og fylgt hafi kaupsamningi frá 1997. Hafi allir eigendur skrifað undir athugasemdalaust nema einn eigandi Berjaness. Í september 2007 hafi allir eigendur jarða aðliggjandi að Straumi höfðað mál gegn stefnanda til ógildingar landamerkjalýsingunni frá 1999. Hafi Hæstiréttur staðfest með dómi 12. febrúar 2009 að undirskriftir eigenda jarða aðliggjandi Straumi væru skuldbindandi gagnvart þeim að því undanskildu að landamerkjalýsingin hafi verið talin ógild gagnvart Berjanesi þar sem skort hefði undirskrift eiganda að 1/8 hluta þeirrar jarðar. Stefnandi telur ljóst að í dóminum felist að allir punktar sem hnitsettir séu á uppdrættinum frá 15. nóvember 1999 séu í gildi gagnvart jörðum aðliggjandi Straumi að undanskilinni jörðinni Berjanesi.

            Eigendur Berjaness hafi eftir dóminn ekki viljað standa að því með stefnanda að skrá merki milli jarðanna, en í dómsmálinu hafi verið fyrirvaralaust byggt á því af hálfu Berjaness að farvegur Affallsins réði merkjum. Hafi stefnandi því óskað eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta það hvar farvegur Affallsins hefði verið þann 5. júní 1884 og hnitsetja miðju hans á uppdrætti móts við jarðirnar Berjanes, Stíflu, Kanastaði og Vorsabæ. Niðurstaða matsmannsins frá 29. september 2011 hafi verið sú að miðlína farvegarins hafi á greindu tímamarki legið um nánar tilgreinda hnitapunkta sem að langmestu leyti liggi utan marka Straums eins og land jarðarinnar sé afmarkað í landamerkjalýsingunni frá 1999. Stefnandi byggir aðalkröfu sína að mestu á niðurstöðu matsgerðarinnar. Í matsgerðinni segi að Affallið sé eitt af þremur eða fjórum vatnsföllum sem fyrir 1930 hafi fallið óhindrað um aurana og allt til sjávar. Sé ljóst að meginflaumur Markarfljóts hafi á tímabilinu 1300 til 1500 ítrekað fallið um farveg Affalls. Affallið hafi verið jökulá fram á fyrri hluta 20. aldar en á árabilinu 1930-1950 hafi innrennsli jökulvatns verið takmarkað með byggingu leiðigarða og að lokum hafi verið komið í veg fyrir að jökulvatn kæmist í farveg Affallsins. Eftir það hafi Affallið að mestu breyst í lindá sem ekki hafi flæmst um farveg sinn. Með skoðun öskulaga megi fá allgóða vitneskju um að snemma á 19. öld hafi meginflaumur Affallsins færst frá hægri bakka farvegarins í átt að þeim vinstri. Ef ekki hefði verið gripið inn í náttúrulegt ferli árinnar hefði hún að lokum aftur farið að falla með hægri bakka farvegarins á þessum slóðum. Stefnandi fór þess á leit við hinn dómkvadda matsmann að hann hnitsetti fleiri punkta á ætlaðri miðlínu farvegarins þannig að hún yrði ákvörðuð lengra upp eftir farveginum en gert hafi verið í matsgerðinni. Hafi stefnandi talið þær lagfæringar nauðsynlegar til að ætluð miðlína farvegarins væri að fullu ákvörðuð til móts við þær jarðir sem gert hafi verið ráð fyrir í matsbeiðni. Þessar viðbætur séu dagsettar 17. janúar 2012.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

            Stefnandi byggir á því að samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar sé landamerkjalýsing Straums frá 1999 skuldbindandi fyrir eigendur Vorsabæjar, Stíflu og Kanastaða. Aðalkrafan snerti þó merki Straums gagnvart þessum jörðum ásamt Berjanesi með öðrum hætti en landamerkjalýsingin frá 1999 og því sé eigendum þeirra jarða einnig stefnt í máli þessu. Dómkröfurnar grundvallist á ætlaðri legu miðlínu farvegar Affallsins árið 1884 og stefnulínu girðingar sem liggi um Affallsaur og miðað sé við í landamerkjalýsingunni frá 1999. Þá hafi línur þær sem ákvarði merki Straums að vestan- og austanverðu samkvæmt síðastnefndu skjali verið framlengdar að ætlaðri miðlínu farvegarins samkvæmt matsgerðinni.

            Stefnandi byggir á því að landamerkjabréf Berjaness sé sönnun þess að merki milli Berjaness og Kanastaða hafi legið um Affallið á þeim tíma sem því hafi verið þinglýst. Engin gögn liggi fyrir um að eigendur jarðanna hafi síðar samið um önnur mörk að þessu leyti áður en Straumi hafi verið skipt úr úr Kanastöðum árið 1994. Hafi Straumi verið skipt úr úr þeim hluta Kanastaðalandsins sem legið hafi að Affallinu, annars vegar gagnvart Berjanesi og hins vegar gagnvart landi sem sé óskipt milli eigenda Berjaness og Stíflu. Með landamerkjalýsingunni frá 1999 hafi hins vegar verið samið um merki milli Straums og aðliggjandi jarða. Hafi Hæstiréttur dæmt þá landamerkjalýsingu ógilda að því er varði merki milli Straums og Berjaness en ekki hafi verið fallist á að hún væri ógild að öðru leyti.

            Hvað varði þá hluta kröfulínunnar sem liggi annars vegar milli punkta 00 og A á ætluðum vesturmerkjum Straums og hins vegar milli punkta 005 og D á ætluðum austurmerkjum Straums, þá sé um að ræða að þær línur sem lýsi vestur- og austurmerkjum Straums í landamerkjalýsingunni frá 1999 séu framlengdar í sömu stefnu þar til komið sé að skurðpunktum við ætlaða miðlínu farvegar Affallsins 1884 samkvæmt matsgerð. Stefnandi telur rökréttast að línurnar séu dregnar með þessum hætti, enda liggi ekkert fyrir um að lega merkja Straums gagnvart öðrum aðliggjandi jörðum til vesturs og austurs sé önnur eftir að landamerkjalýsingunni frá 1999 sleppi. Þá telur stefnandi að landamerkjalýsingin bendi til þess að á ritunartíma hennar hafi ætlun eigenda jarða sem liggi að Straumi að vestan- og austanverðu verið sú að umræddar stefnulínur réðu merkjum Straums að því leyti. Þá telur stefnandi ljóst að það fari ekki í bága við aðrar heimildir um merki aðliggjandi jarða að draga merkin með þessum hætti.

            Vestan línu sem dregin sé milli punkta 002 og 001 og áfram í punkt A sé land Kanastaða. Straumi hafi verið skipt úr úr Kanastöðum og liggi ekki aðrar heimildir fyrir um mörk þar á milli en uppdrátturinn sem fylgt hafi kaupsamningnum frá 1994 og landamerkjalýsingin fyrir Straum frá 1999. Í þeim heimildum sé merkjunum ekki lýst frekar en þegar sé rakið.

            Austan línu sem dregin sé milli punkta 004 og 005 og áfram í punkt D sé land Vorsabæjar. Stefnandi segir sáttina frá 1923 hafa falið í sér að landamerki milli Vorsabæjar og Kanastaða skyldu vera bein lína úr mörkum Voðmúlastaðalands í Spjaralækjarmynni undan Hábarði á Elliðaey í Flókastaðagljúfur. Stefnandi telur ljóst að sú lína sem þarna sé lýst liggi talsvert austar en kröfulína stefnanda sem byggi á lýstum austurmerkjum Straums í landamerkjalýsingunni frá 1999, framlengdum í sömu stefnu til norðurs. Stefnandi bendir á að Spjaralækjarmynni sjáist glöggt á kröfulínukortinu austan við lón það sem liggi austan við kröfulínuna að þessu leyti. Liggi kröfulína stefnanda því a.m.k. ekki austar en þau mörk milli Kanastaða og Vorsabæjar sem ákvörðuð hafi verið með dómsáttinni.

            Stefnandi byggir á því að merki milli Kanastaða og Berjaness hafi miðast við staðsetningu miðlínu farvegar Affallsins eins og hún hafi verið 1884. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 gildi að skilji á landareignir þá eigi eigendur hvorrar um sig land í miðjan farveg. Þá segi í 2. mgr. að merki breytist ekki þótt farvegur breytist. Sambærileg regla hafi gilt skv. 56. kafla landsleigubálks Jónsbókar. Af þessu leiði að það sé farvegur Affallsins eins og hann hafi verið þegar landamerkjabréf Berjaness tók gildi sem ráðið hafi merkjum milli Berjaness og Kanastaða. Ekki liggi fyrir að síðar hafi verið samið um önnur merki. Samkvæmt matsgerðinni muni miðlína farvegs Affallsins á svæðinu hafa legið mun norðar og vestar en áin renni nú og að langmestu leyti utan þess svæðis sem afmarkað sé í landamerkjalýsingu Straums frá 1999, en nái þó inn á svæðið sem þar sé afmarkað frá punkti B að punkti C. Svæði sem afmarkist af punktum B, 5, 6 og C sé því norðvestan við ætlaða miðlínu farvegarins samkvæmt matsgerðinni, en innan þess svæðis sem afmarkað sé í landamerkjalýsingu Straums frá 1999. Stefnandi byggir á því að hann hafi unnið eignarrétt á því landsvæði á grundvelli hefðar skv. 1. mgr. 2. gr. laga um hefð nr. 46/1905, enda hafi sú girðing sem landamerkjalýsingin miði við staðið þar lengur en í fullan hefðartíma og eftir að hún hafi risið hafi eigendur Kanastaða og síðar stefnandi haft full umráð og afnot af landinu innan girðingarinnar og því landi sem liggi suðaustan við stefnulínu hennar norðan þjóðvegarins án þess að nokkru sinni  hafi verið gerðar athugasemdir við það af hálfu eigenda aðliggjandi jarða.

            Varakrafa stefnanda er að mestu miðuð við þá punkta sem tilgreindir séu í landamerkjalýsingu Straums frá 1999, þ.e. girðingu þá sem liggi á norðvesturmörkum þess svæðis sem þar sé lýst. Að því leyti sem hin ætlaða miðlína samkvæmt matsgerðinni liggi suðaustan stefnulínu girðingarinnar (þ.e. innan marka Straums samkvæmt landamerkjalýsingunni frá 1999) sé hinni ætluðu miðlínu þó fylgt.

            Stefnandi segir varakröfuna byggða að verulegu leyti á sömu málsástæðum og aðalkrafan. Stefnandi telur ljóst að land Berjaness hafi aldrei náð lengra til suðausturs en sem nemi staðsetningu miðlínu farvegar Affallsins 1884. Geti eigendur Berjaness því ekki á grundvelli landamerkjabréfsins frá 1884 átt tilkall til lands aðliggjandi varakröfulínu stefnanda nema að því leyti sem hún sé dregin annars vegar milli punkta B, 5 og K og hins vegar milli punkta L, 6 og C, en þó aldrei lengra til suðausturs en að þeirri línu. Þá  liggi ekki fyrir nein gögn um að eigendur Berjaness hafi eftir gerð landamerkjabréfsins eignast land lengra til suðausturs gagnvart Kanastöðum en það sem afmarkað sé í landamerkjabréfinu. Norðvestan þeirra hluta varakröfulínunnar sem dregnir séu milli punkta 001 og B annars vegar og C og 005 hins vegar sé land sem ætla verði að tilheyrt hafi Kanastöðum, a.m.k. til þess tíma þegar Straumi hafi verið haldið eftir við sölu Kanastaða árið 1994. Hæstiréttur hafi dæmt að landamerkjalýsing Straums frá 1999 sé gild gagnvart eigendum Kanastaða. Því sé ljóst að Straumi tilheyri land a.m.k. norðvestur að varakröfulínunni að því leyti sem hún sé dregin milli punkta 001 og B annars vegar og C og 005 hins vegar. Þá bendir stefnandi á að landamerkjalýsing Straums frá 1999 eigi sér stoð í kaupsamningnum frá 1994, honum hafi fylgt kort og feli landamerkjalýsingin í sér nánari tilgreiningu á þeim merkjum sem þar sé lýst.

            Verði talið að eigendur Berjaness hafi eftir að landamerkjabréfi jarðarinnar hafi verið þinglýst 1884 eignast land lengra til suðausturs en sem nemi miðlínu farvegar Affallsins á því tímamarki byggir stefnandi á því að ekki liggi neitt fyrir um að það eignarhald hafi náð lengra til suðausturs en að girðingu þeirri sem varakrafan miðist við. Stefnandi byggir einnig á því að hann og fyrri eigendur Straums og áður Kanastaða hafi öðlast eignarrétt á því landi sem varakrafan taki til fyrir hefð. Eigi það sérstaklega við um það landsvæði sem standi innan girðingarinnar og varakrafan miðist við, enda hafi hún staðið þar hefðartíma fullan og land innan hennar verið nýtt án athugasemda af hálfu eigenda Berjaness eða annarra. Þá hafi stefnandi og þeim sem hann leiði rétt sinn til allt frá því girðingin hafi risið haft réttmætar væntingar um að það land sem afmarkað sé innan hennar væri háð eignarrétti þeirra.

            Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu.

             Stefndu telja kröfugerð og málsútlistun stefnanda á margan hátt óljósa. Kröfur hans séu ýmist byggðar á landamerkjabréfum jarða stefndu og þar með að stefnandi eigi aðild að kröfugerð um merki jarðanna og ákvörðun þeirra merkja. Öðrum þræði sé byggt á samningi og uppdrætti frá 1994 þar sem 15 ha lands hafi verið skipt úr landi Kanastaða eða landamerkjalýsingunni 1999 þar sem spilda stefnanda hafi verið stækkuð í 30 ha. Í máli þessu sé hins vegar gerð krafa um ný landamerki Straums til vesturs og verulegrar stækkunar hinnar keyptu landspildu. Í stað þess að miða mörkin við mörk hinnar keyptu spildu krefjist stefnandi þess að landamerki Kanastaða og Berjaness eins og hann telji þau vera, verði viðurkennd sem landamerki Straums til vesturs. Stefnandi sé þó ósamkvæmur sjálfum sér þar sem hann í útskýringum á dómkröfum segist ýmist miða við ætlaða miðlínu Affallsins eða eigin uppdrátt frá 1999 eftir því sem honum henti. Þá segi m.a. í stefnu að miðlína farvegar Affallsins hafi legið að langmestu leyti utan þess svæðis sem afmarkað sé í landamerkjalýsingu Straums frá nóvember 1999. Stefnandi hafi fullyrt að landamerkjalýsingin frá 1999 sé byggð á uppdrætti sem fylgt hafi kaupsamningnum. Þá telji stefnandi sig hafa rétt til að höfða mál á hendur eigendum Berjaness og Kanastaða til ákvörðunar á landamerkjum þessara jarða, enda þótt af eignarheimild stefnanda verði ráðið að vesturmörk landspildunnar sé mörkuð sem bein lína og fjarri því að fylgja bökkum Affallsins, hvað þá miðju þess, en þar telji stefnandi merki jarðanna liggja. Af málatilbúnaði stefnanda verði með engu móti ráðið á hverju krafa hans og aðild um merkjalínuna milli Kanastaða, Berjaness og Vorsabæjar sé byggð. Verði að draga í efa að þessi kröfugerð og málsástæður stefnanda uppfylli skýrleikakröfur 80. gr. laga um meðferð einkamála. Telji dómurinn þessar skýrleikakröfur ekki uppfylltar beri að vísa málinu frá dómi af sjálfsdáðum.

            Stefndu telja með öllu óljóst á hverju stefnandi byggi aðild sína að kröfugerð í málinu, en hún lúti að landamerkjum jarðarinnar Straums, eign stefnanda og jarðarinnar Berjaness, en óljóst sé hvort kröfur stefnanda lúti einnig að merkjum annarra jarða stefndu í málinu. Kröfur stefnanda virðast vera þær að landamerki milli Berjaness og Kanastaða verði afmörkuð með tilteknum hætti. Stefndu miði við að ekki sé krafist viðurkenningar á öðrum landamerkjum en milli Berjaness (og e.t.v. Stíflu) og Kanastaða. Ekki sé gerð grein fyrir því í stefnu á hvaða heimild stefnandi byggi aðild sína að dómkröfum um legu landamerkja milli Kanastaða og Berjaness. Stefndu hafi ekki á neinu stigi ágreinings við stefnanda fallist á að landamerki Straums væru við eða í miðju Affallinu og mótmæla stefndu staðhæfingum um það sem röngum. Á uppdrætti sem sé frumheimild um hina úrskiptu spildu úr landi Kanastaða sem seinna hafi hlotið nafnið Straumur, sjáist lega hins úrskipta lands, m.a. í vestur. Þar sé augljóslega dregin bein lína, en farvegi Affallsins sé ekki fylgt. Hin úrskipta spilda liggi því ekki að Affallinu, en með skjalinu sé stofnað til eignarréttar að spildunni fyrir annan en eigendur Kanastaða. Í kaupsamningi segi um legu landsins að undanskilin sé landspilda á mörkum Kanastaða og Berjaness að vestan og Vosbæjar að norðan, efsti hlutinn. Síðan segir að uppdrátturinn skoðist sem hluti samningsins. Þessi heimildarskjöl verði að skoða í samhengi og bendi ekkert til þess að hin undanskilda spilda liggi að Affallinu og enn síður að því miðju. Hafi ætlunin verið að undanskilja land að Affallinu og þar með að landamerkjum milli jarðanna, hefði orðalag samningsins verið annað og uppdrátturinn fylgt nokkurn veginn legu Affallsins. Þetta sjáist með því að líta á kröfulínukort stefnanda. Þar sé annars vegar að finna beina línu frá punkti merktum 001 til 005 en stefnandi telji að kortið á dskj. nr. 19 og 20 eigi að túlka sem umrædd lína útvísi. Á dskj. nr. 22 sem stafi alfarið frá stefnanda og stefndu hafi ekki samþykkt sé þessi lína einnig dregin sem bein lína. Kröfulínan í máli þessu sé hins vegar allt önnur. Hún liggi á löngum kafla allt að 200 metrum vestar en sú lína sem stefnandi hafi upphaflega byggt á. Þegar stefnandi hafi eignast landspilduna árið 1997 hafi hann eignast sömu landspildu og seljandi hafði fengið úrskipta úr landi Kanastaða árið 1994 með sömu ummerkjum og annað ekki. Hann geti ekki borið fyrir sig að landareign hans sé önnur og með öðrum ummerkjum en spildan sem skipt hafi verið úr landi Kanastaða 1994. Seljandi landsins 1997 hafi ekki getað selt stefnanda annað en það sem hann hafi sannanlega átt sjálfur. Þá hyggist stefnandi með kröfugerð sinni enn auka land sitt norðan vegar, sbr. dskj. nr. 3. Sé skylt að hafa til hliðsjónar upphaflega eignarheimild á dskj. nr. 19 og bera hana saman við dskj. nr. 3 og 22. Af þessum þremur uppdráttum verði ráðið að stefnandi leitist í sífellu við að auka við land sitt á kostnað stefndu. Það sé þó ekki fyrr en með kröfum í máli þessu að stefnandi geri tilraun til þess að hafna merkjalínum á dskj. nr. 19 og 20, svo og eigin kröfum á dskj. nr. 22, með því að halda því fram nú að vesturmörk Straums beri ekki að draga sem beina línu heldur sem bugðótta línu eftir fornum farvegi Affallsins. Fyrir þessari kröfugerð sé engin heimild í skjölum málsins og ekki sé útskýrt í stefnu með hvaða heimild krafan sé gerð nema með því að vísa til landamerkjabréfa milli jarðanna. Þó segi í stefnu að ljóst sé að spildan sé úr þeim hluta Kanastaða sem sé í nánd við Affallið. Ekkert í heimildaskjölum stefnanda eða forvera hans fyrir spildunni kveði á um að spildan liggi að merkjum Kanastaða/Berjaness eða spildan nái að Affallinu eða miðju þess. Stefnandi eigi ekki aðild að kröfum um landamerki milli Kanastaða og Berjaness og Kanastaða og Vorsabæjar og leiði sá aðildarskortur til sýknu.

            Stefndu byggja á því að stefnandi hafi í umræddu hæstaréttarmáli haldið því fram að draga beri beina línu á milli tiltekinna punkta og hann hafi lýst þeirri línu þannig að hún fylgi núverandi girðingu. Sú girðing sé ekki á merkjum milli Kanastaða og Berjaness þannig að landið vestan girðingar tilheyri Kanastöðum sé miðað við fornan farveg Affallsins eins og stefnandi geri. Hin úrskipta spilda sé samkvæmt því umkringd landi Kanastaða á alla vegu sunnan þjóðvegar. Ekkert samræmi sé í kröfugerð stefnanda í hinu fyrra dómsmáli og í þessu máli. Verði ekki betur séð en stefnandi hafi bundið sig með ráðstöfun sakarefnis í fyrra dómsmálinu og geti því ekki hafi uppi nýjar og breyttar kröfur um sama álitaefni í síðara dómsmáli milli sömu aðila. Þá er því mótmælt að stefndu hafi á einhverju tímamarki fallist á að vesturlandamerki Straums væru á landamerkjum Kanastaða og Berjaness.

            Stefndu benda á að í dómkröfukafla stefnu segi að stefnandi geri kröfu um að landamerki Straums liggi um línu sem dregin sé milli tiltekinna hnitsettra punkta en ekki sé greint frá því á hendur hverjum kröfurnar séu gerðar. Einungis sé þess getið í kröfulið sem lýtur að málskostnaði að hans sé krafist úr hendi stefndu. Í stefnu komi fram að stefnandi telji að landamerki milli Straums annars vegar og aðliggjandi jarða eins og þeim sé lýst á dskj. nr. 22 séu gild og endanleg skv. dómi Hæstaréttar að undanskilinni jörðinni Berjanesi. Af þessu mætti ætla að stefnanda hefði nægt að stefna eigendum Berjaness til viðurkenningar á dómkröfum í málinu. Tilraun sé gerð í stefnu til að útskýra hvers vegna eigendum Kanastaða, Stíflu og Vorsabæjar sé stefnt til að þola viðurkenningardóm um landamerki Straums að norðvestanverðu. Í stefnu segi að aðalkrafan snerti þó merki Straums gagnvart þessum jörðum ásamt Berjanesi með öðrum hætti en landamerkjalýsingin frá 1999 og sé eigendum þeirra jarða því einnig stefnt í málinu. Ekki verði séð af stefnu eða öðrum gögnum málsins hvers vegna stefnandi gerir viðurkenningarkröfurnar í aðal- og varakröfu á hendur öðrum en eigendum Berjaness (og e.t.v. Stíflu). Ekki sé heldur gerð grein fyrir því hvers vegna gerðar séu kröfur á hendur eigendum tveggja lóða í landi Berjaness. Verði þegar af þessum ástæðum að sýkna þessa aðila af kröfum stefnanda og dæma hann til að greiða þeim málskostnað að skaðlausu. Þá er vakin athygli á að austast í landi Berjaness sé sameiginlegt land þeirrar jarðar og jarðarinnar Stíflu og liggi það land að merkjum Kanastaða.

            Með hliðsjón af ofangreindu telja stefndu eftir standa af kröfugerð stefnanda krafan á hendur eigendum Berjaness um landamerki milli Berjaness og Kanastaða, en hugsanlega einnig á hendur eigendum Stíflu, allt sé það óútskýrt. Telji stefnandi sig fara með aðild að kröfugerð þessari þar sem landspilda hans liggi að landamerkjum milli Kanastaða og Berjaness. Stefndu fallast ekki á þetta. Heimildarbréf stefnanda fyrir Straumi, svo og dskj. nr. 22, greini skilmerkilega frá því að það séu önnur kennileiti en Affallið sem ákvarði vesturmerki hinnar úrskiptu landspildu. Á öllum þessum skjölum séu merki spildunnar dregin til vesturs sem bein lína án nokkurs tillits til Affallsins. Stefnandi hafi ekki leitast við að gera grein fyrir því hvers vegna honum ætti að lögum að vera heimilt að breyta merkjum landspildunnar með þeim hætti sem hann krefst. Hann hafi með hinni umþrættu landamerkjalýsingu á dskj. nr. 22 staðfest að honum hafi frá upphafi verið ljóst að spilda hans hafi ekki náð að landamerkjum Berjaness. Hann hafi enga grein gert fyrir því hvers vegna hann telji nú að spildan nái verulega lengra til vesturs en hann hafi áður talið. Hann hafi ekki teflt fram nýjum upplýsingum eða sönnunargögnum sem styðji kröfur hans og virðist þær úr lausu lofti gripnar. Beri því einnig að sýkna eigendur Berjaness (og e.a. Stíflu) af kröfum hans.

            Stefndu benda á að hinn dómkvaddi matsmaður hafi ekki verið beðinn um álit á því hvar landamerki milli umræddra jarða lægju, heldur að meta hvar farvegur árinnar hafi verið þann 5. júní 1884. Stefndu telja matsgerðina engu skipta um úrslit málsins, en með henni sé gerð tilraun til að marka landamerki milli Kanastaða og Berjaness. Þau landamerki skipti stefnanda engu máli og hann hafi ekki lögvarða hagsmuni af dómi um þau merki. Hann hafi heldur ekki forræði á kröfum um þessi merki þar sem  landspilda hans liggi ekki að þessum merkjum. Spildan sé í landi Kanastaða, enda hafi henni verið skipt úr því landi. Stefnandi hafi allt þar til hann hafi höfðað mál þetta miðað við að land Kanastaða liggi að öllu verulegu leyti vestan spildunnar og geti mat á miðlínu Affallsins ekki haft nein áhrif í máli þessu.

            Stefndu segja stefnanda byggja á því að hin úrskipta spilda úr landi Kanastaða nái að hluta yfir land Berjaness. Stefnandi viðurkenni að hann hafi ekki fengið það land með  kaupum eða framselt með öðrum hætti, heldur hafi hann unnið hefð á landinu. Telji hann að leggja beri saman þann tíma sem hann hafi átt spilduna og þann tíma sem forverar hans hafi átt hana og þannig geti hann borið fyrir sig hefðarsjónarmið. Stefndu hafna því að stefnandi hafi unnið hefð á spildunni og við munnlegan flutning málsins bentu stefndu á að engin rök hefðu verið færð fram fyrir þessari  málsástæðu og þá væri hefðartími ekki fullnaður.

            Stefndu hafna sjónarmiðum stefnanda þess efnis að stofnast hafi eignarréttur honum til handa innan merkja Berjaness og mótmæla því að hjá honum hafi nokkurn tíma getað vaknað réttmætar væntingar um að svo hefði verið.

            Stefndu Eiríkur og Sólveig segjast hafa eignast Kanastaði með kaupsamningi dagsettum 20. apríl 1994 og hafi hið eina undanskilda verið landspilda um 15 ha á mörkum Kanastaða og Berjaness að vestan. Hafi spildan verið afmörkuð á meðfylgjandi uppdrætti. Spildan ásamt sumarhúsi hafi síðan verið seld stefnanda hinn 10. desember 1997. Tekið sé fram að um spildu með sumarhúsi sé að ræða. Stefnandi hafi síðan fengið leyfi til að stofna til nýbýlis á frístundalóð þessari og gert samning um skógrækt á jörðinni með opinberum styrkjum. Ekki hafi verið leitað eftir afstöðu eigenda Kanastaða eða annarra stefndu um þessar verulegu breytingar á hlutverki spildunnar og séu hin opinberu leyfi og samningar því með öllu óbindandi fyrir stefndu og segjast þau áskilja sér rétt til að koma í veg fyrir hið breytta hlutverk spildunnar.

            Stefndu segja legu spildunnar lýst á uppdrætti á dskj. nr. 19 og 20. Hið selda sé landið sunnan þjóðvegar og séu þar innfærðar lengdir hverrar hliðar landsins (500 m, 412 m, 300 m og 168 m), en mörk spildunnar séu dregin sem beinar línur. Á móts við þjóðveginn að norðan sé dregin ætluð helgunarlína vegarins. Á hvert horn uppdráttarins (fimm að tölu) sé settur punktur til afmörkunar. Þannig sé hinni úrskiptu spildu lýst í þeim heimildarskjölum sem stefnandi geti byggt rétt sinn á. Annað land hafi hann ekki eignast, hvorki úr landi Kanastaða né Berjaness. Stefndu telja að af uppdrættinum verði ráðið að línur þær sem dregnar séu norðan vegar séu ekki til afmörkunar á hinu úrskipta landi. Ekki sé dregin helgunarlína vegna vegarins norðan hans og ekki séu færðar inn lengdir á hliðum þríhyrningsins norðan vegar. Þá séu ekki settir punktar í horn þríhyrningsins eins og gert hefði verið á hinni úrskiptu spildu sunnan vegar. Þá sé þess getið í samningnum að stærð spildunnar sé 500 m x 300 m. Sé augljóst að þar sé miðað við vestur- og austurhlið spildunnar. Ekkert bendi til að spilda norðan vegar hafi átt að fylgja, enda ekki hagstætt að kljúfa frístundaspilduna þannig með þjóðveginum. Hafi stefnandi því ekki eignast neitt land norðan vegarins en hins vegar liggi kröfulína hans langt til norðurs og teygi sig nú lengra en nokkru sinni fyrr. Stefnandi hafi á uppdrætti á dskj. nr. 22 teygt á öllum hliðum landsins og að auki bætt við það þríhyrningi norðan landsins en hliðar hans mælist hjá stefnanda 364 m, 388 m og 326 m. Hliðin að vestan, sunnar vegar, sem mælst hafi 500 m, sé því orðin tæplega 900 m löng. Stefndu byggja á því að mörk þessa þríhyrnings eigi sér ekki neina stoð í neinum gögnum eða heimildum í málinu og séu tilbúningur stefnanda.             

Niðurstaða.

             Með kaupsamningi 20. apríl 1994 seldu Diðrik Sigurðsson og Guðmundur Diðriksson stefndu Eiríki Þ. Davíðssyni og Sólveigu Unni Eysteinsdóttur jörðina Kanastaði ásamt öllum mannvirkjum á jörðinni og öllu því er henni fylgdi og fylgja bæri, þar með talin hlunnindi. Við söluna var undanskilin landspilda „um 15 ha. (500 m x 300 m) á mörkum Kanastaða og Berjanes að vestan og Vosbæjar að norðan, efsti hlutinn.“ Í kaupsamningnum, sem afhentur var til þinglýsingar 25. sama mánaðar, er tekið fram að seljandi hafi gert uppdrátt sem fylgdi spildunni, sem skuli skoðast sem hluti samningsins. Uppdrátturinn er undirritaður af seljendum og kaupendum og er hann hvorki flatarmálsreiknaður né hnitsettur. Dánarbú Diðriks Sigurðssonar seldi stefnanda með kaupsamningi 10. desember 1997 fyrrgreinda landspildu ásamt sumarhúsi sem á henni var. Samningurinn var afhentur til þinglýsingar 10. febrúar sama ár og er tekið fram í honum að spildan sé um það bil 15 hektarar að stærð.

Stefnanda var veitt leyfi 2. febrúar 2000 til að stofna nýbýli á spildunni til fiskeldis og skógræktar. Til undirbúnings því hafði hann útbúið svohljóðandi landamerkjalýsingu milli Straums og aðliggjandi jarða: „Berjanes: Milli Berjanes og Straums ræður núverandi girðing sem liggur upp miðjan Affallsaur, úr girðingarstaur sem merktur er númer 1 á uppdrætti, að Suðurlandsvegi. Berjanes / Stífla. Óskipt land. Norðan þjóðvegar ræður sama stefnulína frá girðingu við þjóðveg að hornpunkti, merktur númer 2 á uppdrætti sem er skurðarpunktur línu sem dregin er úr girðingarhorni við pípuhlið á Landeyjavegi með stefnu í Flókastaðagil, merkt 3 á uppdrætti. Vorsabær: Milli Straums og Vorsabæjar ræður lína milli punkta 3 og 2, sem sé úr hornstaur girðingar við pípuhlið á A-Landeyjavegi og sjónhendingu í Flókastaðagil. Kanastaðir: Milli Straums og Kanastaða ræður núverandi girðing úr hornstaur í Affallsaur, merktum númer 1 á uppdrætti, að staur númer 5 þaðan að girðingarhorni við A-Landeyjaveg merkt númer 4. Þaðan ræður girðing til norðurs meðfram A-Landeyjavegi að girðingarhorni við pípuhlið merkt númer 3 uppdrætti. Uppdráttur af landinu gerður af verkfræðistofunni Hnit h/f, dagsettur 15. nóvember 1999. Hornpunktar landsins eru mældir inn af Vegagerð Ríkisins Selfossi og reiknaðir í hnitum.“

             Bakhlið landamerkjalýsingarinnar ber yfirskriftina: „Samþykkir sem landeigendur:“ Þar fyrir neðan eru handrituð 20. og 21. nóvember 1999 nöfn eigenda jarðanna, Kanastaða, Vorsabæjar og Stíflu auk tveggja eigenda jarðarinnar Berjaness, sem eiga 7/8 hluta jarðarinnar í óskiptri sameign með Pálínu Guðjónsdóttur, sem á 1/8 hluta hennar. Hún ritaði hins vegar ekki nafn sitt á bakhlið landamerkjalýsingarinnar. Hún var afhent til þinglýsingar 24. sama mánaðar ásamt meðfylgjandi uppdrætti af spildunni 15. nóvember 1999. Uppdrátturinn, sem er gerður af framangreindri verkfræðistofu, er hnitasettur og samkvæmt honum telst spildan vera samtals 30,837 hektarar að stærð. Hann er ekki áritaður af eigendum jarðanna.

             Í dómi Hæstaréttar frá 12. febrúar 2009 vegna ágreinings sömu aðila um spilduna segir að þó skýrt komi fram í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 41/1919 að landeigandi skuli sýna öllum sem eiga land á móts við hann landamerkjalýsingu og afla skuli samþykkis þeirra allra verði ákvæðið ekki skilið á þann hátt að merkjalýsing, sem skorti þann áskilnað sé í heild sinni ógild af þeim sökum, heldur verði hún einvörðungu talin geta skuldbundið eigendur þeirra jarða sem hafa samþykkt hana. Segir í dóminum að óumdeilt sé að stefnda Pálína Guðjónsdóttir, sem á sem fyrr segir 1/8 hluta í óskiptri jörðinni Berjanesi á móti stefndu Jóni Guðmundssyni og Ernu Árfells, sem eiga 7/8 hluta hennar, ritaði hvorki undir landamerkjalýsinguna né samþykkti hana á annan hátt. Ráðstöfun sú sem fram kom í merkjalýsingunni milli jarðanna Straums og Berjaness var þess eðlis að afla varð samþykkis allra eigenda hinnar óskiptu jarðar til þess að hún væri skuldbindandi.  Rétturinn hafnaði því að Pálína Guðjónsdóttir hefði glatað rétti sínum til að vefengja gildi landamerkjalýsingarinnar sökum tómlætis og féllst á að landamerkjalýsingin frá nóvember 1999 væri ekki gild að því er varðar merki milli jarðanna Straums og Berjaness, en kröfu stefndu var að öðru leyti hafnað. Varð niðurstaðan því sú að landamerkjalýsingin frá nóvember 1999 milli jarðarinnar Straums og jarðanna Berjaness, Kanastaða, Stíflu og Vorsabæjar, sem liggja að Straumi, var talin ógild að því er varðaði merki milli jarðanna Straums og Berjaness.

            Eftir að framangreindur dómur féll fékk stefnandi dómkvaddan matsmann til að meta það hvar farvegur Affallsins hafi verið þann 5. júní 1884 og hnitsetja miðlínu hans á uppdrætti til móts við jarðirnar Berjanes, Stíflu, Kanastaði og Vorsabæ. Mun niðurstaða hans hafa verið sú að miðlína farvegarins á þessu tímamarki hafi legið um nánar greinda hnitapunkta sem að langmestu leyti  liggi utan marka Straums eins og land jarðarinnar sé afmarkað í landamerkjalýsingunni frá 1999. Stefnandi segir aðalkröfu sína byggja að mestu leyti á niðurstöðu matsgerðarinnar. Ekki verður annað ráðið af málatilbúnaði stefnanda en að hann telji sér heimilt að gera kröfur um innbyrðis afmörkun landamerkja annarra jarða stefndu í málinu.  Kröfugerð stefnanda nú er ekki í því horfi sem hún var þegar leyst var úr ágreiningi aðila í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar og hefur hún tekið þeim breytingum sem að framan eru raktar og byggjast á framangreindri niðurstöðu dómkvadds matsmann. 

            Í dómi Hæstaréttar frá 12. febrúar 2009 var staðfest að undirskriftir eigenda jarða aðliggjandi Straumi væru skuldbindandi gagnvart þeim að því undanskildu að landamerkjalýsingin hafi verið talin ógild gagnvart Berjanesi þar sem skort hefði undirskrift eiganda að 1/8 hluta þeirrar jarðar. Telja verður að í þessum dómi felist að  allir punktar sem hnitsettir voru á uppdrættinum frá 15. nóvember 1999 séu í gildi gagnvart jörðum aðliggjandi Straumi að undanskilinni jörðinni Berjanesi. Á uppdrættinum sem fylgdi kaupsamningnum frá 20. apríl 1994 er afmörkuð hin 15 ha landspilda sem undanskilin var í kaupunum og stefnandi festi kaup á með kaupsamningi þann 10. desember 1997. Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar er landamerkjalýsing Straums frá 1999 skuldbindandi fyrir eigendur Vorsabæjar, Stíflu og Kanastaða. Aðalkrafa stefnanda byggir á ætlaðri legu miðlínu farvegar Affallsins árið 1884 og stefnulínu girðingar sem liggi um Affallsaur og liggur frá punkti I, sem er óumdeildur, að punkti A og þaðan í punkt B. Að mati dómsins hafa engin gögn verið lögð fram um að miðlína farvegar Affallsins eigi að ráða landamerkjum og verður aðalkröfu stefnanda að þessu leyti því hafnað. Varakrafa stefnanda sem lýtur að því að merkin milli Berjaness og Straums skuli liggja milli punkta I og B er í fullu samræmi við uppdráttinn frá 1994 og verður hún tekin til greina að því leyti. Varakrafa stefndu um að mörkin milli Straums og Berjaness skuli vera milli punktanna I, J og K er hins vegar í ósamræmi við uppdráttinn og verður henni hafnað. Kemur þá til skoðunar hvort stefnandi hafi með kaupsamningi þann 10. desember 1997 eignast land norðan þjóðvegarins. Á uppdrætti sem fylgdi kaupsamningnum er mörkuð spilda norðan þjóðvegarins án þess að hún sé málsett en fram kemur að hún sýni merki milli hins selda lands og Berjaness og Vorsabæjar. Er því nægilega leitt í ljós að stefnandi eignaðist land norðan þjóðvegarins og var hann í góðri trú að því leyti. Með vísan til dóms áðurgreinds dóms Hæstaréttar frá 2009 verður því fallist á  kröfu stefnanda þannig að mörkin milli Straums og Berjaness skuli vera bein lína sem dregin er frá punkti I (001) að punkti 005 eins og nánar greinir í dómsorði.

            Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp dóminn. Uppkvaðning hans hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.

DÓMSORÐ:

            Landamerki Straums, landnr. 172477, skulu liggja frá punkti 001 (austurhnit 442462,2 og norðurhnit 352760,3), sem er girðingarstaur á girðingu sem liggur upp miðjan Affallsaur, í punkt 005 (austurhnit 443353,9 og norðurhnit 353174,2).

            Málskostnaður fellur niður.