Hæstiréttur íslands

Mál nr. 388/2014


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur
  • Málshraði
  • Milliliðalaus málsmeðferð
  • Dómur
  • Aðfinnslur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 23. október 2014.

Nr. 388/2014.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Robert Tomasz Czarny

(Ingi Tryggvason hrl.

Pétur Kristinsson hdl.)

(Arnbjörg Sigurðardóttir hrl.

Einar Gautur Steingrímsson hrl. réttargæslumenn)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur. Málshraði. Milliliðalaus málsmeðferð. Dómur. Aðfinnslur.

R var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A, sem þá var á aldrinum 8 til 13 ára, og var háttsemin talin varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 2. mgr. sömu greinar og síðastgreint ákvæði, sbr. 20. gr. laganna. R var einnig sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn systur A, B, sem þá var á aldrinum 12 til 14 ára, og var háttsemin talin varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga og 2. mgr. sömu greinar. Um ákvörðun refsingar var skírskotað til þess að R væri sakfelldur fyrir alvarleg margendurtekin kynferðisbrot gegn tveimur börnum sem staðið hefðu yfir í langan tíma er hann dvaldi á heimili þeirra. Var R talinn hafa nýtt sér aðstöðumun sinn og trúnaðartraust brotaþolanna og hann ekki talinn eiga sér málsbætur. Við ákvörðun refsingar var af þeim sökum litið til 1., 4. og 6. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og refsing hans ákveðin með vísan til 77. gr. sömu laga, svo og að teknu tilliti til þess að brot R voru öll framin eftir gildistöku laga nr. 61/2007, sem breyttu refsimörkum hlutaðeigandi refsiheimilda. Var refsing R ákveðin fangelsi í sex ár og honum gert að greiða skaðabætur að fjárhæð 3.500.000 krónur til hvors brotaþola um sig.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. maí 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að hafnað verði kröfu um ómerkingu og heimvísun málsins og að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegrar sönnunarfærslu að nýju. Til vara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvalds, en að því frágengnu refsimildunar. Þá krefst ákærði þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þær verði lækkaðar.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 4.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2008 til 23. nóvember 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

B krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 4.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2008 til 5. ágúst 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

I

Samkvæmt því sem fram er komið í málinu fluttist ákærði á heimili móður þeirra B og A, sem fæddar eru 1995 og 1999, öðrum hvorum megin við áramótin 2007 og 2008 þar sem þær bjuggu í einbýlishúsi að C í [...]. Þetta gerðist nokkrum mánuðum eftir að foreldrar stúlknanna slitu samvistum. Tildrög þess að ákærði flutti inn á heimilið voru kynni hans og móðurinnar, en að hans sögn áttu þau í kynferðislegu sambandi. Móðirin hefur neitað að hafa átt í slíku sambandi við ákærða, enda þótt hann hefði í fyrstu sofið í herbergi hennar. Jafnframt bar móðirin fyrir dómi að A hefði sofið uppi í rúmi hjá sér á þriðja ár eftir að faðir hennar hvarf á brott af heimilinu. Skömmu eftir að ákærði kom þangað fótbrotnaði hann og varð þá úr að hann fór að sofa í herbergi B, en hún í stofunni. Nokkru síðar atvikaðist það að hún færði sig aftur yfir í herbergi sitt og sváfu þau ákærði, að minnsta kosti af og til, þar í sama rúmi meðan hann dvaldi á heimilinu og jafnvel þegar hann heimsótti þær mæðgur eftir að hann flutti þaðan. Spurður fyrir dómi hvers vegna hann hefði sofið upp í rúmi hjá unglingsstúlku svaraði ákærði að hún hefði krafist þess að hann gerði það, en það hefði ekki verið „í kynlífs tilgangi.“ Ákærði mun þó einnig hafa sofið á öðrum stöðum í húsinu og átti að eigin sögn til að ganga um það að næturlagi þar sem hann hefði átt erfitt með svefn. Eftir að ákærði fótbrotnaði varð hann atvinnulaus og mun lítið sem ekkert hafa starfað næstu mánuði. Þær A og B hafa báðar borið að þær hafi oft verið einar með honum á heimilinu meðan móðir þeirra var við vinnu, til dæmis eftir að skóla lauk á daginn. Aðspurður fyrir dómi kvaðst ákærði hafa stundum verið heima ásamt stúlkunum meðan móðirin var að vinna, en neitaði því hins vegar að hafa verið mikið einn með A.

Þótt ákærði hafi haft íbúð á leigu um nokkurra mánaða skeið í [...] verður ráðið af framburði hans og annarra fyrir dómi að hann hafi dvalið meira og minna að C fram á haustið 2009, að undanskildum tveimur og hálfum mánuði undir lok ársins 2008 þegar hann var í [...]. Í september 2009 mun ákærði hafa flutt til [...] þar sem hann fékk vinnu, en hann heimsótti mæðgurnar hins vegar oftsinnis eftir það og gisti hjá þeim. Í janúar 2011 flutti B af heimilinu og nokkru síðar fluttist móðirin með A í íbúð í fjöleignarhúsi að D í [...] þar sem ákærði hélt áfram að heimsækja þær, enda þótt heimsóknirnar virðist hafa orðið strjálli eftir því sem á leið.

Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa verið í föðurhlutverki gagnvart þeim B og A. Hann sagði að trúnaðarsamband hefði ríkt þeirra á milli og þær getað talað við hann um viðkvæm málefni sín. Þá sagðist ákærði oft hafa ekið með stúlkurnar í bíl um [...] og nágrenni. Einnig hefði hann átt samskipti við þær á netinu, meðal annars gegnum Skype, þó oftar við A. Bókað var eftir ákærða fyrir dómi að það hefði verið „mikið kynlíf á þessu heimili.“ Hann hefði gert athugasemdir við móður stúlknanna vegna hegðunar þeirra sem hann hefði talið óviðeigandi, þar á meðal hefði hann margoft sagt við hana að hún þyrfti að athuga hvort A væri farin að stunda kynlíf. Þá hefði hann haft áhyggjur af tíðablæðingum hjá stúlkunum því að enginn í fjölskyldu þeirra hefði útskýrt þær fyrir þeim.

Barnaverndaryfirvöld höfðu allt frá 2009 afskipti af heimilinu vegna tilkynninga um ótilhlýðileg samskipti ákærða við stúlkurnar. Ekki kom fram við þá athugun að hann hefði brotið gegn þeim kynferðislega, þar á meðal neituðu þær því báðar. Eins og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi var það fyrst í byrjun janúar 2013 að A greindi frá því í bréfi til hálfsystur sinnar þegar hún dvaldi á heimili hennar og sambúðarmanns hennar á [...] að ákærði hefði nauðgað sér er hún var sjö til átta ára. Í framhaldinu hófst rannsókn málsins hjá lögreglu og að henni lokinni var gefin út ákæra á hendur ákærða 14. október 2013.

II

Aðalkrafa ákærða um að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað er byggð á því að héraðsdómur hafi dregið rangar ályktanir af munnlegum framburði hans sjálfs og brotaþola þannig að niðurstaða dómsins um sakfellingu hans standist ekki. Þar sem í dóminum er tekin afstaða til sönnunargildis framburðarins með rökstuddum hætti og ekki eru efni til að draga þá niðurstöðu í efa, eins og gerð verður frekari grein fyrir í köflum III og IV, er þessari kröfu hafnað.  

III

Í I. hluta ákæru eru ákærða gefin að sök kynferðisbrot gegn A á tímabili frá lokum árs 2007 eða byrjun árs 2008 fram til desember 2012, þegar stúlkan var á aldrinum 8 til 13 ára „með því að hafa ítrekað káfað á líkama hennar og kynfærum með höndunum, margoft kysst hana tungukossum á munninn og reynt að láta hana snerta á sér kynfærin, að minnsta kosti í tvö aðgreind skipti látið kynfærin nema við rass og endaþarmsop hennar og að minnsta kosti í tuttugu og fimm skipti nuddað kynfærunum upp við og inn í kynfæri hennar.“

Á grundvelli a. liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála gaf A skýrslu fyrir dómi 21. janúar 2013. Í upphafi skýrslunnar endurtók hún hvað eftir annað að ákærði væri „ömurlegur“. Spurð nánar um ástæðu þess svaraði hún: „Af því að hann nauðgaði mér.“ Útskýrði hún þau ummæli þannig að hann hefði gert eitthvað á kynferðislegan hátt gegn vilja hennar. Brotaþoli bar að ákærði hefði byrjað að haga sér furðulega gagnvart henni skömmu eftir að hann kom á heimilið. Kvöld eitt um það leyti hefði hún legið við hliðina á móður sinni sem var sofandi uppi í rúmi í herbergi sínu þegar ákærði hefði lagst við hliðina á sér og byrjað að snerta sig. Síðan hefði hann klætt sig úr buxunum og troðið „typpinu upp í ... rassgatið á mér.“ Þetta hefði svo endurtekið sig nokkrum dögum síðar. Eftir það hefði ákærði gert margsinnis á hlut sinn og þá hefði hún ýmist verið ein með honum heima eða móðir hennar og systir „inni í stofu. Eða þær voru bara ekki á staðnum.“ Spurð hversu mörg skiptin hefðu verið svaraði brotaþoli fyrst að þau hefði verið „yfir tuttugu“, en síðar „oftar en tuttugu og fimm“. Í skýrslunni lýsti hún einstökum atvikum sem átt hefðu sér stað á nokkurra ára bili, þar á meðal eftir að þær mæðgur fluttu að D. Í öll þessi skipti hefði ákærði komið með typpið að sér „framan frá“ og hefði hún meitt sig í fyrsta skiptið, en þá hefði komið blóð „út úr píkunni á mér.“ Hann hefði snert kynfæri hennar utanverð „og svo endaði það ... inn í eða ekki.“ Fyrir utan þetta hefði ákærði mjög oft kysst hana á munninn „ekki bara ... svona mömmukoss“, en henni hefði fundist það ógeðslegt og alltaf reynt að ýta honum burtu. Spurð hvort ákærði hefði látið hana gera eitthvað kynferðislegt við sig svaraði brotaþoli að hann hefði reynt það, en hún ávallt neitað því. Hún kvað ákærða hafa sagt að hún mætti ekki segja frá, en sagðist fyrst hafa trúað vini sínum, E, frá þessu haustið 2012 og síðan hálfsystur sinni eins og áður er fram komið.

Af skýrslunni og myndupptöku af henni að dæma átti brotaþoli erfitt með að tjá sig í smáatriðum um háttsemi ákærða í hennar garð. Þótt fram hafi komið hjá henni að hana hafi grunað að ákærði hafi brotið gegn B bendir ekkert í gögnum málsins til að þær systur hafi sammælst um að bera ákærða sökum. Þá samrýmist framburður brotaþola ýmsu öðru því sem komið er fram í málinu, þar á meðal því sem áðurnefndur E bar fyrir dómi um að hún hefði trúað sér fyrir framferði ákærða í hennar garð áður en hún skýrði öðrum frá því. Einnig veita skýrslur þeirra sálfræðinga, sem hafa haft brotaþola til meðferðar og raktar eru í hinum áfrýjaða dómi, vísbendingar um að brotið hafi verið gegn henni kynferðislega. Í vottorði F sálfræðings 25. júlí 2014 sagði að brotaþoli hafi sótt 22 viðtöl hjá henni. Hún væri með greiningu á einhverfurófi og með athyglisbrest. Í viðtölunum hafi komið fram að kynferðisofbeldið sem brotaþoli segðist hafa orðið fyrir hafi haft mikil og slæm áhrif á hana og alla hennar tilveru. Samkvæmt öllu þessu verður mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar hennar lagt til grundvallar við úrlausn um sekt eða sýknu ákærða af þeim sakargiftum sem hér um ræðir.

Ákærði hefur staðfastlega neitað sök. Að því leyti sem framburður hans fyrir dómi sneri að samskiptum hans við A var hann þó ekki sjálfum sér samkvæmur. Svo sem áður greinir neitaði hann því að hafa verið mikið einn með henni, en á hinn bóginn svaraði hann spurður um hvort hún hafi einhvern tíma ekki viljað vera ein með honum: „A leitaði einmitt til mín, en ekki það að hún vildi ekki vera með mér. Þegar ég sýndi henni svona minni áhuga þá varð hún reið." Þá samrýmast samskipti ákærða við brotaþola á netinu, sem lýst er í héraðsdómi, ekki þeirri föðurlegu umhyggju sem hann kvaðst hafa borið fyrir henni, heldur veita þær vísbendingu um annars konar kenndir hans í hennar garð. Í álitsgerð G sálfræðings sem hann staðfesti fyrir dómi var því lýst að ákærði hafi í viðtölum við sálfræðinginn verið óeðlilega upptekinn af kynþroska brotaþolanna beggja og sérstaklega kynhegðun þeirra, samfara því að ákærði hafi haldið því fram að þær hafi báðar verið ástfangnar af sér. Benti sálfræðingurinn á að slíkar hugsanir væru vel þekktar meðal manna með barnahneigð. Þótt ákærði neitaði að vera haldinn barnagirnd taldi sálfræðingurinn flest benda til að hann hafi kynferðislegan áhuga á stúlkubörnum.

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir að læknisskoðun hafi leitt í ljós að meyjarhaft brotaþola hafi verið órofið. Einnig er þar rakinn vitnisburður H læknis þar sem meðal annars kom fram að börn sem yrðu fyrir kynferðislegu ofbeldi gætu upplifað nudd á ytri kynfærum eins og eitthvað væri sett inn í þau. Þá væri ekki útilokað að getnaðarlimur væri settur inn í kynfæri konu, allt að meyjarhafti, án þess að hann færi inn í leggöng.

Að öllu framansögðu virtu er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sakfella beri ákærða fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í I. hluta ákæru, að öðru leyti en því að einungis telst sannað að hann hafi margsinnis, en ekki minnst 25 sinnum, á tímabilinu frá byrjun árs 2008 fram til desember 2012 nuddað kynfærum sínum upp við og inn í kynfæri hennar. Er háttsemi ákærða samkvæmt þessum hluta ákæru réttilega færð til refsiákvæða í hinum áfrýjaða dómi.

IV

Samkvæmt II. hluta ákæru er ákærði sakaður um eftirtalin kynferðisbrot gegn B: „1. Með því að hafa sumarið 2008, í eitt skipti að næturlagi í setustofu, þegar stúlkan var 12 ára, farið með hendi inn á klof hennar og káfað á kynfærum hennar utan klæða. 2. Með því að hafa síðar um sumarið 2008, á tímabili sem hófst nokkrum dögum eftir ... og fram á haust sama ár, nánast daglega að kvöld- eða næturlagi, í svefnherbergi stúlkunnar, þegar hún var 12 ára, káfað með hendi á brjóstum hennar og kynfærum innan klæða og í nokkur skipti sett fingur inn í kynfæri hennar. 3. Með því að hafa á tímabili frá hausti 2008 fram til 14. desember 2010, í mörg aðgreind skipti að kvöld- eða næturlagi, í svefnherbergi stúlkunnar, þegar hún var 12 til 14 ára, káfað með hendi á kynfærum hennar innan klæða ... og haft við hana samræði“ allt að aðra hverja viku. „4. Með því að hafa margoft á framangreindum tímabilum kysst stúlkuna á munninn, reynt að kyssa stúlkuna tungukossum og beðið hana um að snerta á honum kynfærin.“

B gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Sagðist hún hafa litið á ákærða sem kærasta móður sinnar, enda hefðu þau í fyrstu sofið í sama herbergi. Síðan hefði samband þeirra versnað og ákærði farið að sofa annars staðar í húsinu. Fyrst í stað sagðist brotaþola hafa líkað vel við ákærða, en það hefði fljótlega breyst og „hann fór allt í einu bara, að ... vera bara of góður.“ Aðspurð kvað hún hann hafa farið að sýna sér og A meiri áhuga en móðurinni. Eftir að ákærði fótbrotnaði hefði hann fengið að sofa í herbergi hennar og hún þá sofið í stofunni. Síðan hefði það snúist við, en hann svo farið á ný að sofa í herbergi hennar, í sama rúmi og hún. Það hefði hann gert í marga mánuði. Spurð hvort kynferðisleg samskipti hefðu verið á milli þeirra svaraði brotaþoli því játandi. Fyrsta tilvikið af þeim toga hefði reyndar átt sér stað seint um kvöld í stofunni þar sem hann hefði farið með höndina í klofið á henni, utan klæða. Nokkrum dögum síðar, um sumarið, hefði ákærði byrjað að snerta hana þar sem þau lágu í rúminu í herbergi hennar, yfirleitt að næturlagi, og síðan gengið æ lengra. Hann hefði klætt hana úr, káfað á brjóstum hennar og kynfærum og sett fingur inn í þau, auk þess sem hann hefði kysst sig á munninn, tungukossum. Þetta hefði gerst „tvisvar í viku eða stundum oftar“. Eftir um það bil tvær eða þrjár vikur hefði ákærði byrjað að hafa samfarir við hana og það hefði gerst í rúminu í herbergi hennar. Stundum hefði hann einnig beðið hana um að hafa munnmök við sig. Þetta hefði staðið yfir í langan tíma og aðeins orðið hlé þegar ákærði hefði ekki verið á heimilinu, svo sem meðan hann fór utan til [...] undir lok ársins 2008. Brotaþoli sagði að þetta hefði haldið áfram eftir að ákærði flutti til [...], en hann hefði þá komið „eiginlega um allar helgar og svo stundum í miðri viku“ og gist í herbergi hennar allt fram í janúar 2011. Henni hefði fundist þetta óþægilegt og sagt I, kærasta sínum, frá þessu þótt með óljósum hætti væri. Á hinn bóginn hefði hún ekki skýrt félagsmálastjóra  [...] frá framferði ákærða, fyrst og fremst af ótta við hann og móður sína. Þá hefði ákærði haft á orði að kæmist einhver að því myndi hann fara í fangelsi. Spurð hvort hún hefði haft grunsemdir um að eitthvað hefði verið í gangi milli A og ákærða svaraði brotaþoli því neitandi og kvaðst hafa orðið mjög hissa og reið þegar hún frétti það.

Sé tekið tillit til þeirrar háttsemi sem brotaþoli ber ákærða á brýn er fallist á að lýsing hennar sé bæði skilmerkileg og yfirveguð eins og ráða má af héraðsdómi. Jafnframt beri skýrsla brotaþola þess merki að hún skýri frá atvikum á þann hátt sem hún hefur sjálf skynjað þau, auk þess sem frásögn hennar er í samræmi við annað það sem fram er komið í málinu. Þannig hefur áðurnefndur I borið fyrir dómi að ákærði hafi verið að reyna að hringja í brotaþola í febrúar 2012 og hún ekki viljað segja sér allt af létta þar sem þau hafi þá nýlega kynnst. Þá gefa skýrslur þeirra sálfræðinga, sem hafa rætt við brotaþola og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi, til kynna að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Í skýrslu F sálfræðings 3. október 2014 sagði að líðan brotaþola og þau sálrænu einkenni sem hún glímdi við mætti oft sjá hjá þolendum kynferðisofbeldis og annarra alvarlegra áfalla. Þótt einkenni áfallastreituröskunar væru ekki eins sterk hjá henni og þau hefðu verið væru þau enn til staðar og hefðu mikil áhrif á líðan hennar og daglegt líf. Með skírskotun til alls þessa er ekki ástæða til að hrófla við mati héraðsdóms á sönnunargildi framburðar brotaþola.

Ákærði hefur neitað að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt framansögðu. Þó hefur framburður ákærða um framkomu hans í garð brotaþola ekki verið stöðugur. Við skýrslutöku hjá lögreglu 23. janúar 2013 kvaðst  hann hafa snert á henni brjóstin og einnig sofið hjá henni í rúminu í herbergi hennar og tekið utan um hana. Þá hefði hann „kannski einu sinni ... gripið í rassinn á henni en þá var hún í buxum“. Spurður fyrir dómi við aðalmeðferð málsins hvort hann hefði verið í kynferðislegu sambandi við brotaþola eða káfað á brjóstum hennar svaraði ákærði því hvoru tveggja neitandi. Fyrir dómi játaði hann að brotaþoli hefði sofið upp í rúmi hjá sér í herbergi hennar og hefði það verið um þriggja mánaða skeið meðan hann var fótbrotinn, en þó ekki samfellt. Samkvæmt gögnum málsins fótbrotnaði ákærði fyrri hluta árs 2008 og að eigin sögn gekkst hann undir aðgerð á fætinum í ársbyrjun 2009. Í vitnisburði móður brotaþola fyrir dómi kom fram að ákærði og brotaþoli hefðu sofið saman í rúmi í herbergi hennar og hefði það gerst jafnt meðan hann bjó á heimilinu og þegar hann var í heimsókn. Þá bar hálfsystir brotaþola fyrir dómi að hún hefði sett út á það við móðurina, föður brotaþola og félagsmálastjóra [...] þegar hún hefði komist að því að ákærði deildi rúmi með brotaþola. Aðspurð kvaðst hún viss um að þetta hefði verið um mánaðamót september og október 2009. Þrátt fyrir þetta hefði ákærði haldið áfram að sofa uppi í rúmi hjá brotaþola og hefði hann í raun og veru ekki hætt því fyrr en hún hefði flutt af heimilinu í janúar 2011. Ákærði hefur ekki getað gefið skýringu á því hvers vegna hann, fullorðinn karlmaður og alls óskyldur brotaþola, hafi sofið svo langan tíma í sama rúmi og hún, aðra en þá að þetta hafi verið með vilja hennar sjálfrar og samþykki móður hennar. Sú skýring firrir ákærða ekki refsiábyrgð.

Með skírskotun til alls þess sem að framan greinir, svo og til áðurgreinds álits G sálfræðings, er staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða samkvæmt II. hluta ákæru.  Er sú háttsemi hans rétt færð til refsiákvæða í hinum áfrýjaða dómi.

V

Samkvæmt framansögðu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir fjölda brota gegn brotaþolum sem lýst eru refsiverð í 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er fallist á þær röksemdir sem færðar eru fyrir refsingu ákærða í hinum áfrýjaða dómi, að öðru leyti en því að við ákvörðun hennar hefur ekki verið tekið nægilegt tillit til þess að brotin voru öll framin eftir gildistöku laga nr. 61/2007 sem breyttu áðurgreindum ákvæðum. Eftir þá breytingu varðar brot á 1. mgr. 202. gr. fangelsi ekki skemur en einu ári og allt að 16 árum og brot gegn 2. mgr. sömu greinar fangelsi allt að sex árum. Að því virtu verður refsing ákærða ákveðin sex ára fangelsi. Samkvæmt 76. gr. almennra hegningarlaga skal til frádráttar refsingunni koma gæsluvarðhaldsvist hans eins og í dómsorði greinir, en ekki eru skilyrði til þess að lögum að draga frá henni farbann það sem hann hefur sætt.

Með vísan til hinna alvarlegu misgerða ákærða í garð brotaþola og að teknu tilliti til þeirra áhrifa sem brotin hafa haft á líðan þeirra, svo sem fram kemur í fyrrgreindum sálfræðiskýrslum, eiga þær rétt á miskabótum úr hendi hans samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eru þær hæfilega ákveðnar 3.500.000 krónur til hvorrar þeirra um sig með vöxtum eins og segir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærði verður jafnframt dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og ferðakostnað réttargæslumanns brotaþolans B að fjárhæð 26.500 krónur, allt eins og í dómsorði greinir.

Eins og fram kemur í gögnum málsins fór aðalmeðferð þess í héraði fram 6. og 7. febrúar 2014 og var það þá dómtekið. Í þinghaldi 8. apríl sama ár var bókað að málið væri endurupptekið þar sem reynst hefði ókleift að leggja dóm á það innan lögmælts frests „vegna embættisanna dómara“. Var málið síðan flutt að nýju. Dómsuppsaga dróst hins vegar enn umfram þær fjórar vikur sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 og var dómur ekki kveðinn upp fyrr en 9. maí 2014, að fengnum yfirlýsingum málflytjenda um að ekki væri þörf á að flytja málið að nýju. Er þessi dráttur á málsmeðferð aðfinnsluverður, ekki síst fyrir þá sök að ákærði var ekki frjáls ferða sinna meðan á henni stóð.

Í d. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 er boðið að í héraðsdómi skuli meðal annars greina svo stutt og glöggt sem verða má hver atvik sakamáls séu í aðalatriðum. Í hinum áfrýjaða dómi er atvikum málsins ekki lýst í samfelldu máli. Þess í stað er þar gerð grein fyrir tilefni þess að rannsókn málsins hófst og gangi hennar, en að öðru leyti látið nægja að reifa í löngu máli og án sýnilegs samhengis skjöl og munnlegar skýrslur sem ýmist voru gefnar hjá lögreglu eða fyrir dómi. Fer þessi háttur á samningu dóms ekki aðeins í bága við áðurgreint lagaákvæði, heldur leiðir af 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008, þar sem mælt er fyrir um að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, að því aðeins á að vísa til framburðar ákærða og vitna hjá lögreglu að þess sé þörf, til dæmis vegna ósamræmis milli þess sem þar kemur fram og framburðar fyrir dómi. Á sama hátt fer það gegn umræddri meginreglu að vísa í dómsforsendum til munnlegra skýrslna sem gefnar hafa verið hjá lögreglu nema sérstök ástæða gefi tilefni til.

Dómsorð:

Ákærði, Robert Tomasz Czarny, sæti fangelsi í sex ár, en til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 18. janúar 2013 til 6. febrúar sama ár.

Ákærði greiði A 3.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2008 til 23. nóvember 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B 3.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2008 til 5. ágúst 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.342.117 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Inga Tryggvasonar hæstaréttarlögmanns, 753.000 krónur, og þóknun réttargæslumanna brotaþola, hæstaréttarlögmannanna Einars Gauts Steingrímssonar og Arnbjargar Sigurðardóttur, 188.250 krónur til hvors um sig.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 8. maí 2014.

Mál þetta sem dómtekið var 8. apríl sl. er höfðað með ákæru dagsettri 14.  október 2013 á hendur Robert Tomasz Czamy, [...], [...],

„fyrir kynferðisbrot framin að C í [...] nema annað sé tekið fram:

I.

Gegn A, fæddri [...] 1999, á tímabili frá lok árs 2007 eða byrjun árs 2008 fram til desember 2012, þegar stúlkan var á aldrinum 8 til 13 ára, þar af undir lok tímabilsins að D í [...], með því að hafa ítrekað káfað á líkama hennar og kynfærum með höndunum, margoft kysst hana tungukossum á munninn og reynt að láta hana snerta á sér kynfærin, að minnsta kosti í tvö aðgreind skipti látið kynfærin nema við rass og endaþarmsop hennar og að minnsta kosti í tuttugu og fimm skipti nuddað kynfærunum upp við og inn í kynfæri hennar.

Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007.

II.

Gegn B, fæddri [...] 1995:

1.             Með því að hafa sumarið 2008, í eitt skipti að næturlagi, í setustofu, þegar stúlkan var 12 ára, farið með hendi inn á klof hennar og káfað á kynfærum hennar utan klæða.

2.             Með því að hafa síðar um sumarið 2008, á tímabili sem hófst nokkrum dögum eftir atvik samkvæmt ákærulið II/1, og fram á haust sama ár, nánast daglega að kvöld- eða næturlagi, í svefnherbergi stúlkunnar, þegar hún var 12 ára, káfað með hendi á brjóst- um hennar og kynfærum innan klæða og í nokkur skipti sett fingur inn í kynfæri hennar.

3.             Með því að hafa á tímabili frá hausti 2008 fram til 14. desember 2010, í mörg aðgreind  skipti að kvöld- eða næturlagi, í svefnherbergi stúlkunnar, þegar hún var 12 til 14 ára, káfað með hendi á kynfærum hennar innan klæða og að minnsta kosti aðra hverja viku haft við hana samræði.

4.             Með því að hafa margoft á framangreindum tímabilum kysst stúlkuna á munninn, reynt að kyssa stúlkuna tungukossum og beðið hana um að snerta á honum kynfærin.

Teljast brot samkvæmt ákæruliðum II/1 og II/4 varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Teljast brot samkvæmt ákæruliðum II/2 og II/3 varða við 1. mgr. 202. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

Í málinu gerir Gunnhildur Pétursdóttir, héraðsdómslögmaður, fyrir hönd J, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hennar, A, kt. [...], kröfu um að ákærða verði gert að greiða kr. 4.000.000 í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2008 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða réttargæsluþóknun að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á þóknunina.

Í málinu gerir Auður Hörn Freysdóttir, héraðsdómslögmaður, fyrir hönd K, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hans, B, kt. [...], kröfu um að ákærða verði gert að greiða kr. 4.000.000 í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá því einum mánuði eftir að ákærða er birt bótakrafa þessi til greiðsludags. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar vegna starfa réttargæslumanns að mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum máls- kostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts.“ 

Ákærði neitar sökum og krefst þess aðallega að verða alfarið sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og allur sakarkostaður verði lagður á ríkissjóð þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda hans auk virðisaukaskatts. Til vara krefst ákærði þess, komi til sakfellingar að hluta eða öllu leyti samkvæmt ákæru að hann verði dæmdur í þá vægustu refsingu sem lög frekast heimila.

Málið var upphaflega dómtekið 7. febrúar sl. en vegna mikilla anna við dómstólinn varð dómur ekki lagður á það innan lögmæltra fresta og var það endurupptekið og flutt að nýju 8. apríl sl.

I

Tildrög þessa máls eru þau að brotaþoli A dvaldist á heimili hálfsystur sinnar L, á [...], frá 23. desember 2012. L hafði tekið systur sína í fóstur en til hafði staðið að setja hana í fóstur til ókunnugra vegna hegðunarerfiðleika. Til að tryggja að A lægi ekki í símanum á nóttunni vildi L taka af henni símann fyrir nóttina, kvöld eitt að áliðnum janúar 2013. A missti þá fullkomlega stjórn á skapi sínu og úr varð að hún ritaði systur sinni bréf þar sem hún útskýrði af hverju hún gæti ekki látið símann af hendi. Í bréfinu kom fram að hún þyrfti að segja svolítið sem hún hafi ekki sagt neinum, nema E, sem var trúnaðarvinur hennar. Nú gæti hún ekki dregið lengur að segja systur sinni þetta þar sem þetta sé að éta hana að innan og hún geti þetta ekki lengur. Í stuttu máli sagt hafi ákærði nauðgað henni. Það hafi fyrst verið þegar hún var 7-8 ára og hafi staðið síðan þá en hafi síðast gerst 22. desember 2012. Síminn sé hennar eina öryggi gegn honum.

L greindi föður A, K, frá þessu. Hann hafði samband við Barnaverndarnefnd [...]. Starfsmaður hennar, M, sálfræðingur, kærði málið til lögreglu hinn 15. janúar 2013. Lögregla hóf þá rannsókn á máli A. Tekin var skýrsla af L, systur A, 16. janúar, J, móður hennar 17. janúar og af E sama dag. Í vitnaskýrslu af móðurinni kom fram að ákærði hefði sofið í sama rúmi og B, systir A, þegar hún bjó hjá móður sinni í [...]. Jafnframt kom fram að barnaverndarnefnd sveitarfélagsins hefði, 2009, kannað það mál á þeim tíma en ekki orðið neins vísari um hugsanleg brot ákærða gegn B. Ákærði var handtekinn 18. janúar og settur í gæsluvarðhald. Jafnframt var gerð húsleit á heimili hans í [...].

Skýrsla var tekin af A, 21. janúar 2013, í Barnahúsi í Reykjavík, samkvæmt heimild í a-lið 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar bar hún að ákærði hefði brotið gegn henni kynferðislega. Skýrslu hennar þar eru gerð ítarlegri skil í kafla II. Á sama tíma, 21. janúar 2013, var tekin vitnaskýrsla af B, systur A, á lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Greindi B þar frá brotum sem ákærði hefði framið gegn henni, einkum káfi á brjóstum og kynfærum svo og kossum. Í kjölfar þessa lagði faðir B fram kæru á hendur ákærða vegna kynferðisbrota hans gegn henni hinn 22. janúar.

Frá þessum tíma voru bæði málin rannsökuð samhliða. Ákærði, sem er pólskur, gaf skýrslu hinn 23. janúar 2013, með aðstoð túlks. Hann neitaði þá öllum kynferðislegum samskiptum við A. Hann neitaði jafnframt að hafa átt kynferðislegt samneyti við B en kvaðst þó hafa strokið henni um brjóstin, óviljandi.

Skýrsla var enn tekin af B, 29. janúar 2013, en þá á lögreglustöðinni á [...] þar sem hún býr. Þá greindi hún frá því að ákærði hefði reglubundið haft samfarir við hana frá sumri 2008 og þar til að hún flutti frá móður sinni áramótin 2010 og 2011.

Ákærði var laus úr gæsluvarðhaldi 6. febrúar 2013 en hefur frá þeim tíma sætt farbanni. Á gæsluvarðhaldstímanum hófst rannsókn G sálfræðings á ákærða. Í bráðabirgðaskýrslu hans, 31. janúar 2013, segir meðal annars að ákærði sé áttaður á stað og stund en öll svör hans séu óljós og samhengislaus. Hann vaði úr einu í annað. Við þessa bráðabirgðakönnun komu fram vísbendingar um geðrofseinkenni hjá ákærða. Ó geðlæknir var því dómkvaddur, 4. febrúar 2013, til að vinna geðrannsókn á ákærða. Matsmaðurinn fann engin merki þess að ákærði væri ósakhæfur.

Við rannsókn málsins voru teknar skýrslur af vitnum sem tengjast brotaþolum fjölskyldu- og vinaböndum. Einnig voru teknar skýrslur af vitnum sem hafa komið að málum þeirra svo sem kennurum, félagsráðgjöfum og sálfræðingum.

Á haustmánuðum 2013 var málinu vísað til framhaldsrannsóknar til þess að útiloka ákveðna þætti sem ákærði bar um líkamleg veikindi. Sú rannsókn tók sinn tíma. Einnig þótti rétt að ganga úr skugga um mögulegt lifrarbólgusmit sem gæti stutt eða hrakið sakargiftir. Sú athugun leiddi í ljós að ákærði hafði mótefni gegn en ekki virka lifrarbólgu.

Meðal gagna málsins er mat G sálfræðings, dags. 28. febrúar 2013. Lögreglan á Akranesi óskaði þess að hann kannaði sálrænt heilbrigðisástand, hugarástand og siðferðisvitund ákærða ásamt því hvort ákærði hefði kynferðislegar hvatir til barna eða mjög ungra stúlkna. Honum bar einnig að kanna áfengis- og vímuefnanotkun í sögu ákærða.

Tekið er fram í matsgerðinni að ákærði neiti, í viðtölum við matsmann, öllum sakargiftum. Hann játi þó að hafa keypt áfengi fyrir B þegar hún var 13 ára svo og að hafa tekið kynferðislega mynd af henni á Skype. Afstaða hans til sakargifta sé því skýr. Matsmaður vekur athygli á mjög sérstökum viðhorfum og hugsunum ákærða til stúlknanna. Matsmaður telur ákærða óeðlilega upptekinn af kynþroska þeirra og sérstaklega kynferðishegðun en einnig blæðingum. Ákærði vilji ítrekað ræða blæðingar stúlknanna og virðist mjög upptekinn af þeim, meira en aðstæður gefi tilefni til. Hann viti hvenær þær hafi byrjað að fá blæðingar, hvenær þær hafi verið á blæðingum og virðist hafa fylgst náið með þessu. Hann sé einnig mjög upptekinn af kynhegðun þeirra, telji þær hafa byrjað að stunda kynlíf mjög ungar og hafi í raun verið að ögra honum kynferðislega. Ákærði ræði ítrekað að hann hafi séð A stunda sjálfsfróun og tali um að hún hafi verið kynferðislega ögrandi við hann og almennt sýnt kynferðislega hegðun. Það sama eigi við um B, hún hafi ögrað honum kynferðislega. Ákærði virðist túlka hegðun stúlknanna, meðal annars þegar A var 12 ára, sem kynferðislega hegðun. Ákærði telji jafnframt að þær hafi báðar verið ástfangnar af honum og verið afbrýðissamar væri hann með annarri konu svo og þegar hann hafi farið af heimilinu. Matsmaður bendir á að slíkar hugsanir séu vel þekktar meðal manna sem séu haldnir barnahneigð, þ.e. að börnin lokki þá kynferðislega og að börnin vilji stunda/prófa kynlíf. Ákærði neiti að vera haldinn barnagirnd en viðhorf hans gefi þó aðra mynd og matsmaður telji flest benda til þess að ákærði hafi kynferðislegan áhuga á stúlkubörnum.

Meðal gagna málsins er skýrsla F sálfræðings í Barnahúsi, dagsett 3. júní 2013. Þar kemur fram að A hafi greiningu á einhverfurófi og athyglisbrest. A greindi sálfræðingnum frá árekstrum milli hennar og móður hennar svo og að hún hafi reynt að vera ekki heima þegar ákærði væri á heimilinu. Hún hafi hegðað sér illa í [...], og liðið illa heima hjá sér þegar ákærði hafi verið þar. Þar sem hann hafi mikið verið heima hjá henni hafi hún ekki viljað vera þar. Þetta væri nú allt breytt og þar sem ákærði væri ekki á heimilinu gæti hún verið þar. A taldi sig ekki lengur vera hrædda við hann eins og hún hafi verið áður. Nú sé hún, og hafi undanfarið verið, í öruggri fjarlægð frá honum og þar með ekki lengur hrædd. A segist aldrei hugsa um ákærða og ekki heldur um meint kynferðisofbeldi og segist helst bara vilja gleyma því alveg. Í síðasta viðtali hafi þær talað um læknisskoðunina í Barnahúsi sem A hafi fundist mjög erfið. Um niðurstöðu læknisskoðunarinnar hafi hún sagt: „ég var ekki að plata, ég veit ekki af hverju haftið var ekki rofið ... “.

Sálfræðingurinn tekur fram að A hafi mætt í öll viðtöl og verið til samvinnu um flest allt. Sumt neiti hún þó að tala nánar um eða útskýra betur. Í viðtölunum hafi hún ekki sýnt mikið frumkvæði og hún tjái sig ekki greiðlega um hluti, sem megi líklega rekja til þeirra annmarka hennar sem greining á einhverfurófi hafi.

Í viðtölunum hafi komið fram að A hafi þótt skýrslutakan erfið og sagt að það væri erfitt að tala um þetta. Í ljósi greiningar hennar sé líklegt að henni hafi fundist erfitt að þurfa að segja frá og tala um eða tjá sig með tali, en ekki það að umræðuefnið sé tilfinningalega erfitt og viðkvæmt. Eins og áður sé getið hafi hún verið til samvinnu um flest allt í viðtölunum, en hafi stundum neitað að útskýra nánar eða skilgreina betur eitthvað sem hún hafði sagt. Ástæðu þess megi líklega rekja til þessara skertu tjáskipta frekar en að hún hafi ekki viljað það af einhverjum öðrum ástæðum.

Hinn 23. janúar 2013 tók lögregla skýrslu af ákærða á lögreglustöðinni á Selfossi vegna ætlaðra brota gegn A með aðstoð túlks en ákærði er pólskur. Enn fremur var verjandi hans viðstaddur.

Spurður um hvort hann vildi tjá sig um sakargiftir  sagði ákærði að hann hefði ekkert um þetta að segja. Hann kvað tengsl við brotaþola vera mjög góð. Hann hafi flutt inn á heimilið í febrúar 2008. Á árinu 2008 til 2009 hafi hann verið fótbrotinn og verið í gifsi og verið hjá henni sex til sjö mánuði. Á meðan hann hafi átt í fótbrotinu hafi hann legið í stofunni. Um upphaf ætlaðra brota gegn brotaþola sagði ákærði að spyrja þyrfti brotaþola að því hvernig hún gæti munað ef hún hafi verið sofandi ef einhver snerti hana en hún hafi verið á sterkum svefnlyfjum. Hann kvað þetta vera lygi svo og að hann hefði að minnsta kosti tuttugu og fimm sinnum frá því í kringum áramótin 2007-2008 og þar til um sumarið 2012 brotið gegn brotaþola. Hann hefði flutt í [...] 2009 komið reglulega heim til brotaþola á þriggja til fjögurra mánaða tímabili, í október, nóvember og desember á árinu 2009. Honum finnist gaman að rúnta með brotaþola og systur hennar. Hann hafi verið hjá þeim flestar helgar á þessu tímabili þ.e. á árinu 2009. Hann sagði að það hafi komið fyrir að brotaþoli hafi slegið í pung honum. Þetta hafi verið í desember 2012. Þær mæðgur hefðu flutt að D í febrúar 2012. Hann hafi dvalið hjá þeim á nýja heimilinu að D kannski sex sinnum. Brotaþoli hafi verið tengd honum af því að þau hafi talað mikið saman. Hún sé mjög erfitt barn. Ef hann hafi gert eitthvað sem henni hafi fundist vera gegn henni hafi hún farið inn og skellt hurðinni. Hún hafi sagt að hann ætti að fara frá henni og ætti ekki að koma. Brotaþoli hafi alltaf eitthvað verið að kvarta yfir honum við mömmu sína áður en hún hafi hafið að taka lyf. Samband hans við móður brotaþola hefði verið dramatískt. Hann kvaðst hafa verið í kynferðissambandi við hana í kringum eitt ár eða fyrsta árið sem þau þekktust. Ákærði vék talinu að blæðingum brotaþola og kvaðst hafa sest með henni af því að enginn hefði talað við hana en hann hefði heyrt að í hennar fjölskyldu séu konur að fá blæðingar milli 10 og 11 ára. Hann hafi alltaf sagt við brotaþola að þegar það byrjaði ætti hún ekki að taka það inn á sig. Þegar það gerist þá verði hún orðin kona þó hún sé andlega ennþá barn, að hún ætti ekki að taka það inn á sig. Þegar hún hafi fengið blæðingar hafi hann farið út í búð og keypt handa henni dömubindi og hún verið ánægð með að hann hefði gert það fyrir hana. Frá þeirri stundu hafi brotaþoli byrjað að haga sér öðruvísi. Hún hafi alltaf haft gaman af því að klæða sig fallega. Áður hafi hún málað sig bara til gamans en nú eins og hún væri alvöru kona. Er hann var spurður um að brotaþoli hefði sagt að henni hafi blætt er hún var átta til níu ára barn vegna kynferðisofbeldis af hálfu hans sagði ákærði að þetta væri ótrúlegt sem hún hafi verið að segja. Síðan vék hann talinu að því að brotaþoli hefði aldrei tekið til eftir sig, skilið nærbuxurnar eftir á gólfinu er hún var að baða sig. Hann hafi stundum verið reiður út í brotaþola og spurt hvort hún kynni ekki að taka til eftir sig. Hún væri orðin kona og ætti að geta  tekið til eftir sig. Samskipti hans við brotaþola hafi verið góð. Hann hafi verið henni eins og faðir. Hann hafi sagt við hana að koma ekki fram við sig sem föður, heldur sem besta vin. Um samband sitt við brotaþola eftir að hann flutti í [...] sagði ákærði að það mætti athuga á „Skype“ brotaþoli hafi skrifað til sín og hann líka og spurt hvernig henni liði. Um símtöl sagði ákærði að þegar hann var að fara hafi hún ekki svarað símtölum hans og hún hafi alltaf skellt á þegar hann hringdi. Hann tók fram að hann hefði staðið hana að sjálfsfróun og það hafi verið að D.

Í skýrslu B frá 21. janúar 2013 hjá lögreglu vegna atvika er vörðuðu brotaþola kom fram að vitnið hafi verið á heimilinu að C. Hún hafi aldrei orðið vitni að neinu. Hún hefði aldrei séð þetta hvað brotaþola snerti en L, eldri systir hennar hefði sagt henni frá þessu en brotaþoli aldrei talað um það við sig. Hafi brotaþoli látið L fá miða og L sýnt henni þennan miða. Í desember 2012 hafi hún farið með brotaþola að D og náð í dótið hennar. Ákærði hafi birst fyrir utan. Brotaþoli hafi orðið mjög hrædd um að hann myndi koma inn og hafi beðið vitnið um að kíkja út um gluggann láta hann sjá sig.  Brotaþoli hafi vitað að einhverra hluta vegna hafi hann ekki viljað vera nálægt vitninu. Hún hafi kíkt út um gluggann og hann farið þá, en brotaþoli hafi orðið brjáluð af því að hann hafi verið þarna úti. Þetta sé það eina sem henni hafi fundist benda til að hún væri eitthvað hrædd við hann. Um afskipti barnaverndaryfirvalda sagði vitnið að mamma þeirra hafi alltaf verið í vinnu og hafi ákærði alltaf verið með þær út um allt og alltaf verið heima með þeim bara einn. Í skýrslu þessari sagði hún að ákærði hefði brotið gegn sér. Hann hafi sofið í rúmi hennar þegar hún hafi verið 12 eða 13 ára og mamma hennar ekki sagt neitt við því. Hann hafi reynt að snerta hana en hún snúið sér undan. Hann hafi strokið á henni brjóstin og farið með höndina inn fyrir buxurnar og reynt að setja fingur í leggöng hennar. Henni hafi fundist þetta óþægilegt og ýtt honum í burtu. Þetta hefði gerst örugglega yfir tíu sinnum sem hann setti putta inn í kynfæri hennar. Það hafi verið í lok árs 2010 sem hann hafi lagst síðast upp í rúm hjá henni. Þá hafi hún verið nýorðin 15 ára. Hún kvaðst hafa sagt kærasta sínum að ákærði hefði reynt þetta en ekkert meira. Enginn hafi vitað um þetta en þó hafi grunur legið á því að eitthvað væri í gangi. Hún  gaf þá skýringu á því að hún hefði ekki sagt frá þessu að henni hefði fundist það óþægilegt. Loks sagði hún að hún minntist þess að ákærði hefði verið að reyna að kyssa hana líka. En þetta hafi gerst á undan öllu hinu.

Hinn 22. janúar 2013 mætti K á lögreglustöðina á Akranesi til að leggja fram kæru á hendur ákærða vegna kynferðisbrota hans gegn B dóttur K. K sagði að hann vissi ekki mikið málið annað en að ákærði hefði brotið kynferðislega gegn B á árunum 2008-2010.  

Hinn 23. janúar 2013 var tekin skýrsla af ákærða á lögreglustöðinni á Selfossi vegna kæru K föður B að viðstöddum túlki og verjanda. Ákærði neitaði öllum sakargiftum en skýrsla þessi var tekin af honum í framhaldi skýrslu B 21. janúar þar sem hún bar hann sökum en í skýrslu hennar frá 29. janúar komu fram frekari ásakanir á hendur ákærða. Fram kom í skýrslu ákærða að hann hefði snert á henni brjóstin en það hafi ekki verið viljandi. Þau hafi verið í heitum potti saman og það hafi ekki verið svona líkamleg snerting. Hann hafi sofið með henni í rúminu og tekið utan um hana og meira að segja móðir hennar hafi sagt sér að þetta hefði gerst. Hann hafi gert það bara óvart, það megi orða það svo.  Þá kvað hann B einhverju sinni hafa klætt sig úr á Skype er þau voru í tölvusambandi og berað brjóst. Hann hafi beðið hana um að gera þetta aftur og tekið af því mynd. Ákærði sagði að lokum að málið snérist um peninga. Sagðist hann telja að K stæði á bak við þennan málarekstur en K hefði einhvern tímann sagt við hann að hann ætlaði að sjá til þess að hann yrði að fara burtu frá Íslandi.

Hinn 29. janúar 2013 var á ný tekin skýrsla af N í lögreglustöðinni á Akureyri í framhaldi af kæru K, föður hennar á hendur ákærða fyrir brot gegn henni á árunum 2008 til 2010.

Fram kemur í skýrslunni að einhverju sinni að nóttu til sumarið 2008 hafi þau verið inni í stofu og hún hafi verið að horfa á mynd. Þá hafi hann allt í einu byrjað að káfa á henni. Hann hafi farið að snerta á henni fæturna og komið við kynfæri hennar utan frá. Hann hafi verið inni í herberginu hennar og alltaf verið að káfa á henni. Fyrst hafi hann alltaf verið að káfa á henni og svo hafi hann hafið að hafa samfarir við hana um haustið 2008. Kemur fram í skýrslu hennar að ákærði hefði haft við hana samfarir aðra hverja viku, svona tvisvar í mánuði eða þar um bil. Um áramót 2010 til 2011 hafi hún flutt til föður síns.  Hún hafi engum sagt frá þessu en væri þó nýbúin að segja kærasta sínum og barnsföður lítillega frá atvikum. Þá kemur fram að í þau skipti sem ákærði hafi verið heima hjá henni hafi móðir þeirra verið góð við þær og ekki öskrað á þær. Fyrir henni hafi alltaf verið léttir að hún væri allavega góð. Þess vegna hafi vitnið ekki viljað segja frá þessu, hún var hrædd um að móðir hennar yrði reið og að hún myndi kenna henni um allt. Hún hefði sagt barnaverndarnefnd að ekkert hefði gerst vegna þess að hún hafi verið hrædd við mömmu sína og viðbrögð hennar ef hún fengi bréf frá barnaverndarnefnd.

Hinn 23 júlí 2013 var enn tekin skýrsla af ákærða hjá lögreglunni á Akranesi.

Kom þar fram að ákærði vildi ekki breyta neinu í fyrri framburði og kvaðst ekki vilja segja frá neinu að fyrra bragði, en kvaðst vilja svara spurningum. Hann hafi ekki búið á heimilinu hjá J en verið mikið þar og þá gist á þessu tímabili á meðan hann var í vinnu í [...]. Eftir að hann hafi flutt til [...]hafi hann oft komið í heimsókn. Sagði hann að þau brotaþoli hafi verið í sama herbergi allt árið 2009. Hann hélt því fram að hann hefði komið með ró og festu inn á heimilið og verið móðir og faðir og verið allt í öllu á heimilinu og stelpurnar hefðu ekki viljað að hann færi. Hann sagðist hafa keypt matvæli til heimilisins, svona um það bil helming matarins eða kannski megnið af matnum, af því að J hefði aldrei átt neina peninga.

Fyrir liggur skýrsla N, sálfræðings frá 3. apríl 2013. Þar segir m.a. að samkvæmt ósk brotaþola hafi meðferð ekki beinst að kynferðisbrotinu sjálfu né afleiðingum þess. Út frá því hafi sáfræðingurinn ekki forsendur til að leggja sérstakt mat á einkenni eða afleiðingar kynferðismisnotkunar, né hvort vanlíðan eða kvíðaröskun megi rekja til kynferðisbrotanna. Erfitt sé að draga ályktanir um orsakir en vissulega megi sjá hjá brotaþola ákveðin einkenni sem einnig sé algengt að þolendur kynferðisbrota upplifi, s.s. lága sjálfsmynd, erfiðleika með að treysta öðrum, tilfinningalegan doða og mikinn kvíða. Það verði þó einnig að horfa til þess að í tilfelli brotaþola sé einnig um að ræða mjög erfiða og brotna barnæsku sem einnig geti verið valdur að erfiðri líðan hennar.

Fyrir liggur vottorð O sálfræðings frá 10. janúar sl. vegna meðferðar B. Þar kemur fram að sálræn einkenni brotaþola í kjölfar meints kynferðisofbeldis samsvari einkennum sem séu vel þekkt hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og kynferðisbrot, líkamsárás, stórslys og hamfarir. Ef ákveðin einkenni séu enn til staðar mánuði eftir áfallið og ef þessi einkenni valdi truflun á ýmsum sviðum daglegs lífs, sé talað um áfallastreituröskun samkvæmt alþjóðlegum greiningarkerfum. Niðurstaða greiningarmats hafi verið að brotaþoli hafi verið greind með áfallastreituröskun þar sem hún hafi uppfyllt öll greiningarskilmerki áfallastreituröskunar í kjölfar meints kynferðisofbeldis, sem og almennan kvíða. Þegar áfallastreitueinkenni hafi verið  mæld hinn 21. nóvember 2013 hafði lítillega dregið úr heildarskori miðað við fyrstu mælingu en einkennin samt sem áður verið enn mjög alvarleg. Erfitt hafi reynst að fá B til að vinna þau heimaverkefni sem meðferðin krefjist og hafi það tafið árangur meðferðar. Slík forðun algeng hjá þolendum kynferðisbrota. Fjallað er um áhrif einkenna á líf brotaþola og einnig kemur fram að stúlkan hafi átt erfitt með að vera ein og fundið stöðugt fyrir ótta gagnvart meintum geranda þar sem hún hafi talið að hann ætti eftir að gera henni frekari mein og henni fundist hún hvergi óhult og verið sífellt á varðbergi.

Fyrir liggur vottorð P sálfræðings frá 29. desember 2013 þar sem kemur fram að P átti regluleg sálfræðiviðtöl við B frá því sumarið 2010 og fram á mitt ár 2011 eða í u.þ.b. eitt ár. P hafi átt viðtöl við B að meðaltali tvisvar í mánuði á þessu tímabili. B hafi nýtt viðtöl vel og mætt alltaf á réttum tíma. Hún hafi verið samvinnufús og rætt málefni sín og tilfinningar af einlægni og trúnaðartrausti. Þó upphaflegu forsendur viðtalanna hafi verið fötlun systkina hafi henni fljótt orðið ljóst að mikið gekk á í lífi stúlkunnar og hafi viðtölin því snúist að mestu leyti um líðan hennar frá skipti til skiptis.  B hafi oft liðið mjög illa á þessum tíma. Hún hafi oft nefnt ákærða sem búið hafi á heimili móður hennar, hafi raunar orðið tíðrætt um hann. Hún hafi ekki tjáð sig við P um kynferðisbrot af hans hálfu. Líðan hennar hafi farið versnandi á köflum og hafi viðtölin fyrir það mesta farið í að bæta líðan hennar þá stundina í daglegu lífi hennar. Hún hafi borið öll einkenni mikillar vanlíðunar, verið kvíðin og kvartað oft um líkamleg einkenni. Hún hafi kvartað mikið um magaverk. Læknisskoðanir hafi ekki leitt neitt líkamlegt ljós. Hún hafi átt erfitt með að mæta í skólann og sinna náminu. Hún hafi á tímabili verið hrædd um að mamma hennar kæmi í skólann og færi með hana heim til sín en foreldrarnir hafi verið með sameiginleg forsjá á þeim tíma. P tengdi vanlíðan hennar við þá óvissu og átök sem á gengu í lífi hennar, foreldra hennar og systkina. Hún hafi aldrei minnst á kynferðislega misnotkun við P og þar af leiðandi hafi þær aldrei rætt það í samtölum sínum. Hins vegar hafi henni liðið afar illa á þessum tíma og margt í hegðun hennar og líðan sem komið gæti heim og saman við áfall af því tagi.

II

Hinn 21. janúar 2013 var tekin skýrsla af A í Barnahúsi í Reykjavík, samkvæmt heimild í a-lið 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hún kvað ákærða hafa komi inn á heimili hennar er hún var 7-8 ára gömul. Foreldrar hennar hafi verið nýlega skilin. Hún kvað hann ömurlegan og sagði að hann hefði nauðgað sér. Það hafi gerst er hún hafi legið uppi í rúmi hjá mömmu sinni. Móðir hennar hafi verið sofandi og brotaþoli legið við hliðina á henni og verið að fara að sofa. Ákærði sem verið hafi fullur hafi komið og lagst við hliðina á brotaþola og byrjað að snerta hana. Sagði hún að hann hafi snert hana alls staðar og nauðgað henni fyrir framan mömmu hennar. Spurð um hvernig hann hefði nauðgað henni sagði brotaþoli að hann hefði snert hana alls staðar með höndum. Fyrst hafi hann byrjað að taka utan um hana og strjúka hana. Svo hafi hann byrjað að fara neðar og neðar og svo endaði bara með því bara að hann byrjaði að klæða hana úr buxunum. Síðan hafi hann nauðgað henni hún hafi beðið hann um að hætta þessu en hann ekki hlustað. Næsta tilvik hafi gerst einum til tveimur dögum síðar. Í flest öll skiptin sem ákærði hefði leitað á hana hafi hún verið ein heima með ákærða, eða mamma hennar og B verið inni í stofu. Er hún hafi verið 10 ára hafi hún verið byrjuð að hugsa út í hvað þetta væri og vitað alveg hvað hann hafi verið að gera. Þá hafi hann verið hættur að drekka. Hún var þó ekki viss um að hún hafi verið 10 ára en myndi að B og mamma hennar hafi verið að vinna í [...]. Hún kvað ákærða hafa brotið gegn sér á jólunum 2011 og eitthvað á áramótunum. Einnig hélt hún að það hafi verið á 11 ára afmælisdaginn hennar líka. Svo hafi þetta gerst þegar enginn var heima eða þegar enginn var. Á brotaþola mátti skilja að hún liti á það sem nauðgun þegar ákærði hafi gengið lengra en að snerta hana innan klæða. Hún kvaðst halda að þegar hún hafi haldið upp á 11 ára afmælið sitt um kvöldið hafi ákærði alveg farið yfir strikið. Hann hefði hlaðið niður einhverri nýrri mynd og þau horft á hana og hún setið uppi í rúminu og hann líka. Ákærði hafi byrjað að taka utan um hana og hún beðið hann um að hætta en hann hafi ekki hætt. Hann hefði lyft pilsi hennar upp og snert hana innan klæða með höndunum. Þetta hafi endað þannig að hún hafi farið út úr herberginu. Um jól 2011 og áramót þar á eftir hafi þetta verið svipað og flest öll skiptin. Hún kvaðst telja að alvarlegasta tilvikið hafi verið byrjunin er hún var í rúmi móður sinnar 7-8 ára gömul. Þá hafi hann snert kynfæri hennar. Hún sagði hann oftast hafa byrjað bara utan og svo endað alltaf inn í eða ekki. Þetta hafi verið í yfir tuttugu skipti jafnvel oftar meira að segja. Þetta hafi versnað með aldrinum hann hafi alltaf byrjað að gera meira og meira. Hún kvaðst fyrst hafa sagt E Nikulássyni vini sínum frá þessu. Hún hafi ekki getað sagt móður sinni frá þessu en hún treysti mömmu sinni ekki mikið af því að hún segi öllum allt. Hún hafi verið svo lítið hjá pabba sínum þannig að hún hafi varla getað sagt honum þetta. Hún treysti mjög fáum. Hún hafi sagt E frá þessu í október eða nóvember 2012. Þessu næst hefði hún sagt L systur sinni frá þessu í framhaldi af því að L og maður hennar hefðu tekið af henni símann sem hafi alltaf veitt henni öryggi. Hún hafi misst stjórn á sjálfri sér. Hún hafi látið L frá blað þar sem hún hefði skrifað og skýrt frá atvikum. Þannig hefði L fengið vitneskju um þetta. Þá var brotaþoli spurð um hvort ákærði hefði nokkru sinni snert hana með einhverju öðru en höndunum. Hún sagði orðrétt: „Okey, hann tróð typpinu upp í fokking rassgatið á mér. Góð lýsing?“ Hún sagði að honum hafi ekki orðið sáðlát. Það sama hafi gerst eitthvað tvisvar sinnum svona og svo hafi þetta alltaf verið svona framan frá. Það hafi verið með typpinu á honum. Hafi það verið í fyrsta skiptið sem hann hafi gert þetta. Svo hafi hann ekki gert neitt fyrr en eftir svona eina til tvær vikur og það hafi líka verið aftan frá og svo hafi hann gert það bara nokkrum dögum eftir það framan frá. Hún hafi meitt sig í fyrsta skiptið sem hann gerði framan frá. Það hafi komið blóð. Hana minnti að það hefði verið í herbergi systur hennar. Hún kvað ákærða hafa orðið sáðlát við aðfarir þessar er hann kom að henni framan frá. Stundum hafi hann verið með bol eða eitthvað og hafi sett það í bolinn. Stundum hafi hann verið með handklæði. Í tvö skipti eða eitthvað hafi hann sett það yfir hana. Henni hafi fundist það ógeðslegt og kvaðst halda að hún hafi verið svona 11 til 12 ára, það væri ekki svo langt síðan. Hann hafi líka nauðgað henni eftir að þau fluttu í húsið sem mamma hennar búi í núna. Þá hafi það verið inni í herberginu hennar. Aðspurð um hvenær hafi verið síðasta skipti sem hann hafi sett typpið í kynfæri hennar sagði brotaþoli að það sé ekkert svakalega langt síðan. Þetta hafi gerst síðast sumarið 2012 einhvern tíma rétt eftir það að hún átti 13 ára afmæli, en brotaþoli á afmæli [...]. Ákærði hafi sagt henni að segja ekki frá þessu og enda þótt hún hafi viljað segja frá þessu hafi hún átt ógeðslega erfitt með það. Hefði hún ekki átt svona erfitt með það væri hún löngu búin að segja frá þessu. Í fyrsta skiptið sem þetta hefði gerst hefði hann beðið hana fyrirgefningar. Hann hefði einhverju sinni gefið henni hálsmen sem hún viti ekki hvar sé. Hún hafi týnt því og langi ekki til að eiga það. Þá sagði hún að ákærði hefði kysst sig á munninn og sett tungu í munn henni en hún alltaf reynt að ýta honum í burtu af því að henni hafi fundist það ógeðslegt. Þetta hafi gerst mjög mjög oft. Það hafi þó ekki verið 22. desember 2012, þá hafi hann bara kysst hana á kinnina. Um líðan sína sagðist brotaþoli aldrei hafa hugsað neitt mikið út í þetta fyrr en hún hafi byrjað að tala við E. Hún hafi verið bráðþroska og byrjað að „þroskast“ 10 ára gömul. Hún hafi ekki mikið verið að hugsa út í þetta á meðan á því stóð en sagði að sér hefði liðið skringilega. Henni hefði ekkert liðið vel, bara furðulega. Hún hafi ekki viljað þetta. Hún kvað engan hafa sýnt sér kynferðislegt efni í tölvu og hún aldrei lent í einhverju svipuðu þessu. Oftast hefði þetta gerst þegar hún var búinn í skólanum annars eiginlega bara á kvöldin eða þegar enginn var heima.

Ákærði neitaði sakargiftum við upphaf skýrslutöku. Í skýrslu hans kom fram að hann hefði flutt inn á heimilið að C í Borgarnesi 2007 – 2008. Hann hafi verið í nánu sambandi við J móður brotaþola allan tímann. Hafi þau átt í kynferðislegu sambandi. Hann hafi flutt til [...] 2009 en komið í heimsóknir á heimili brotaþola eftir það. Hafi það verið reglulega í þrjá mánuði en bara stundum eftir það eða einu sinni til tvisvar í mánuði. Hann hafi sofið í herbergi B og líka stundum í stofunni. Hann hafi farið að sofa í herberginu hjá B er hann var fótbrotinn í u.þ.b. þrjá mánuði. Erfitt væri að segja hvenær B hafi byrjað að sofa uppi í rúmi með honum en hann hafi verið leiddur inn í rúmið þegar hann var fullur. Spurður um hvers vegna hann hafi farið þangað inn sagði hann að spyrja yrði móðurina eða B um það. B hafi sofið uppi í rúmi hjá honum, ekki vissi hann af hverju, út af stressi, sagði hann. Það hafi verið um þriggja mánaða skeið. Hann hafi neytt áfengis er hann bjó að C, stundum mjög mikils. Hann hafi endurfæðst til nýrrar trúar fyrir tveimur árum og hætt að drekka og kom fram hjá honum að hann teldi kynlíf utan hjónabands brjóta gegn boðum Biblíunnar. Ákærði sagðist hafa verið í föðurhlutverki gagnvart C og A. Samskipti móður og dætra hefðu ekki verið góð. Um samskipti við B og A á meðan hann bjó á heimilinu sagði ákærði að með B hafi það verið misjafnt. A hafi verið erfitt barn. Hann hafi verið í trúnaðarsambandi við þær, þær hafi getað talað við hann um þeirra málefni. Hann hafi komið fram gagnvart þeim svona eins og stjúpfaðir eða eitthvað slíkt. Þær hafi verið mjög ánægðar þegar hann hafi verið á heimilinu. Hann sagði að ásakanir systranna stöfuðu af reiði og spurður um hvers vegna þær væru reiðar við hann sagðist hann oft hafa rifist við B út af föður hennar. B hafi staðið alveg í liði með föður sínum og þau oft rifist út af því. Ekki hefði hann hugmynd um út af hverju A sé reið. Systurnar hafi verið afbrýðissamar þegar hann hafi verið með annarri konu, hringt í hann í [...] og verið orðljótar. A hafi komið furðulega fram við ákærða. Hún hafi byrjað að mála sig skringilega og klæða sig öðruvísi eins og að hún vildi vera fullorðin kona. Hún hafi komið furðulega fram við ákærða. Slegið á kynfæri hans og verið ánægð með það. Einhverju sinni hafi hún sagt við hann að hún hefði skilið hurðina að sturtunni opna fyrir hann og hafi hún haft furðulegt glott á andlitinu.  Hann hafi lagt kynferðislegan skilning í þessa hegðun. Hann sagði að systurnar hafi horft á kvikmyndir með klámfengnu efni. Hann hafi viljað að móðir þeirra kannaði hvort þær væru farnar að stunda kynlíf. Hann gat ekki skýrt hvers vegna hann svaf í rúmi B hjá henni og sagði að spyrja yrði B að því. Það hafi örugglega ekki verið í kynlífstilgangi. Alltaf undir augum móðurinnar, hurðin hafi verið opin og ekki lokuð. Stúlkurnar hafi verið hræddar við móður sína og meira að segja hann hafi stundum verið stressaður út af henni. Hann sagðist hafa komið tvisvar til þrisvar sinnum í heimsókn eftir að þær fluttu í að D. Og svo einu sinni þegar hann hélt að A væri ekki þar í desember 2012. Hann hafi verið í sambandi við stúlkurnar um Skype þó oftar við A. Yfirleitt hafi A átt frumkvæðið að þessum samskiptum. Hún hafi líka haft samband við ákærða um Facebook. Þessi samskipti hafi ekki snúist um kynferðisleg mál. Hann hafi átt samskipti við hana á meðan hún bjó á [...]. Hann hafi talað við hana í gegnum síma en það hafi ekki verið skemmtilegt samtal og hún talað ljótum orðum til hans. Á tímabili hafi það verið komið þannig að það var ekki lengur vinasamband, heldur hafi þær ýtt honum í burtu frá sér. Um orðin Sexy og I love you sagði ákærði að þetta væri bara fíflaskapur, en hann hafi oft sagt við hana að hann elski hana og það sé rétt. Hann sagðist hafa flutt til [...] til þess að fá frelsi frá J og þeim vandamálum sem verið hafi þar allstaðar í kring en samt heimsótt fjölskylduna í fríum. Þetta hafi verið eina fólkið sem hann þekkti hérna á Íslandi og verið eins og hans fjölskylda. Hann hafi líka hjálpað mömmunni fjárhagslega. Áhugi hans á tíðablæðingum stúlknanna hefði verið vegna þess að móðir þeirra hafi ekki haft áhuga á þessu. Hann hafi skipt sér af því  vegna þess að það hafi enginn annar í fjölskyldunni útskýrt neitt fyrir stelpunum. Hann sagði að B hefði sýnt sig á Skype og að hann hefði tekið myndir af henni á skjánum en B hafi legið þarna eins og algjör „madame“ og verið að drekka áfengi. Fram kom í máli hans að hann hafi ekki búið stöðugt að C. Hann hafi komið í febrúar 2008 en farið í október til [...]. Hann hafi ekkert verið hér á landi í þrjá mánuði. Hann hafi komið til baka 16. desember 2008 og farið í aðgerð á fæti 6. janúar 2009. Þá hafi hann flutt til [...] 2009 og heldur að hann hafi byrjað að vinna þar 1. september 2009. Fram til þess tíma á árinu 2009 hafi hann búið hjá J. Stúlkurnar hafi verið skotnar í honum. Hann hafi fundið að þeim hafi liðið vel í kringum hann og viljað vera þar. Foreldrar stúlknanna hafi ekki haft tíma fyrir þær, ekkert rætt við þær um neitt og engan áhuga haft á börnunum. Hann kvaðst telja að ásakanir í hans garð væru runnar undan rifjum K. Hann kvað K hafa gert sér lífið leitt í bankanum og hafði ákærði það eftir stúlkunum að K hafi sagt að hann myndi gera allt til þess að ákærði verði ekki hér eftir á Íslandi.

Brotaþolinn B, lýsti samskiptum við ákærða þannig að til að byrja með hafi hann reynt að gera allt fyrir þær. Síðan hafi hann  allt í einu farið að vera of góður. Hann hafi farið að kyssa hana. Hann hafi sýnt henni og A meiri áhuga en móður þeirra. Þetta hafi eiginlega bara byrjað strax. Samskipti ákærða við þær systur hafi lítið breyst á tímabilinu. Hann hafi verið mikið með þeim. Þeim hafi þótt „pínu“ vænt um hann en hann hafi verið góður við þær. Hann hafi alltaf verið að reyna að kenna þeim hvað væri rétt. En hann hafi líka verið vinur. Ástandið á heimilinu hafi markast af því að foreldrar hennar hefðu verið að skilja og mamma hennar verið rosalega skapvond og heimilislífið farið eftir því hvernig skapi hún var í. Hún hafi látið það bitna á þeim systrum og þær hafi verið hræddar við hana  Eftir að ákærði hefði tekið að halda til á heimilinu hafi hann náð einhvern veginn að hafa stjórn á mömmu hennar. Ef hún hafi verið eitthvað vond við þær eða öskrað á þær hafi hann náð að róa hana. Yfirleitt hefði það verið betra þegar hann var þarna en þegar hann var ekki. Í byrjun sumars 2008 hafi ákærði byrjað að sofa í sama rúmi og hún inni í herbergi hennar á nóttinni. Það hafi hann alltaf gert þegar hann gisti hjá þeim. Það hafi staðið í marga mánuði. Í fyrsta skipti sem hann hafi brotið gegn henni hafi þau verið inni í stofu að horfa á mynd og hún legið og hann setið. Hún hafi verið í stuttum buxum og þá hafi hann bara farið með höndina í klofið á henni.  Hann hafi komið við kynfæri hennar yfir nærbuxurnar. Fleira hefði ekki gerst þá, hann hefði ekki komið við brjóst hennar. Þetta hafi verið seint um kvöld. Allir aðrir hafi verið sofandi. Þetta hefði síðan gerst mjög oft þegar hann var inni í herberginu hennar. Hann hefði endurtekið þetta einhverjum dögum seinna og hafi hann farið að fara með hendurnar inn fyrir nærbuxurnar. Hann hafi farið inn í kynfæri hennar og sett puttann inn.  Hann hafi líka alltaf verið í brjóstunum á henni. Þetta kvað hún hafa verið að sumarlagi. Hann hafi bara verið að snerta hana alla og svo eftir smá tíma hafi hann farið að reyna meira, klæða hana úr og gera meira. Þetta hafi bara gerst í herbergi hennar og rúmi yfirleitt á nóttinni og aðrir þá sofandi í húsinu. Ákærði hefði kysst hana, yfirleitt á munn, stundum tungukossa. Um sumarið fram að hausti hafi þetta gerst tvisvar í viku eða stundum oftar, það hafi verið misjafnt. Síðan hafi hann byrjað að hafa samfarir við hana í rúminu og hann yfirleitt verið ofan á henni. Hann hafi kysst hana og stundum hafi hann beðið hana um munnmök og hafi það komið fyrir. Um veturinn hafi þetta haldið áfram og ekkert hlé hefði verið á þessu nema þegar hann var ekki heima hjá henni. Hann hafi einu sinni farið til útlanda og komið svo til baka eftir u.þ.b. mánuð. Hann hafi haldið áfram að gista í rúmi hennar og káfa á henni og hafa við hana samræði og láta hana sjúga sig. Hann hafi flutt til [...] en komið eiginlega alltaf um helgar og svo stundum í miðri viku. Hafi hann gist uppi í rúmi hjá henni og verið að snerta hana og stunda kynlíf. Hún hafi átt afmæli 15. desember og orðið 15 ára 2010 en flutt að heiman í janúar 2011. Hún hafi fyrst sagt I kærasta sínum að ákærði hafi reynt eitthvað en aldrei tekist það. Hún hafi sagt I frá bréfi A til systur þeirra og hann sagt henni að hringja í pabba sinn og segja honum þetta. Hún hafi ekki þorað því en þegar hún hafi gefið skýrslu hjá lögreglu í Reykjavík vegna A hafi hún sagt lögreglukonunni þar frá því. Hún kvaðst ekki hafa sagt I alla söguna af því að hún hafi verið hrædd um að hann myndi örugglega bara fara. Þau hafi verið nýbyrjuð saman. Q hjá barnavernd hefði talað við hana er athugun barnaverndarnefndar var í gangi en brotaþoli hafi ekkert sagt um einhver svona atvik við hana af því að hún hafi verið hrædd við mömmu sína og ákærða. Hún kvaðst hafa orðið rosalega hissa og reið þegar L systir hennar hefði sýnt henni bréfið frá A en hana hefði alls ekki grunað að eitthvað væri í gangi á milli ákærða og A. Hún hafi ekki orðið þess vör að A vildi ekki vera ein með ákærða. Fyrsta skiptið sem hún hefði séð að hún væri smeyk við hann hafi verið þegar A var að flytja norður. Hún sá A 21. janúar 2103 en þær hafi ekkert talað saman um þetta áður en hún gaf skýrslu sína. A hafi ekki vitað að B hefði orðið fyrir þessu fyrr en eftir að hún gaf skýrslu sína í Reykjavík áðurnefndan dag. Hún hafi engum sagt frá þessu fyrr en hún hafi opnað aðeins á þetta við I. Hafi það verið vegna þess að hún hafi verið hrædd um að mamma hennar brygðist illa við. Henni hafi þótt vænt um ákærða í fyrstu eins og áður segir en hann hefði verið rosalega góður við þær. Hún hafi þó ekkert verið að hlífa ákærða með því að segja ekki frá heldur hafi hún verið hrædd við mömmu sína og ákærða eins og áður segir. Hún kvað ákærða hafa hætt að eiga í kynferðislegum samskiptum við sig í janúar 2011. Hún kvað ákærða hafa sagt oft að ef einhver myndi komast að þessu þá myndi hann fara í fangelsi. Hún kvaðst vera viss um að ákærði hafi átt við hana samræði svona tvisvar í viku og að þetta hefði verið jafn oft eftir að hann flutti af heimilinu. Hann hafi komið aðra hverja helgi og stundum í miðri viku og þá hafi þetta gerst bara um helgar. Þetta hafi staðið yfir þar til hún flutti til pabba síns. Hún hafi verið spurð af barnaverndaryfirvöldum um það hvort ákærði væri að gera eitthvað sem hann ætti ekki að vera að gera og hún alltaf neitað því. Það hafi aldrei hvarflað að henni í þessu ferli að segja frá þessu, aðallega út af ótta við mömmu hennar.

Vitnið J, kvað ákærða hafa flutt inn á heimilið í febrúar 2008. Þau hafi verið vinir en ekki átt í kynferðislegu sambandi. Hún hafi hjálpað honum og hann henni. Haustið 2009, hafi hún reddað honum vinnu í [...]. Hann hafi farið til [...] um sumarið 2009 og komið síðan aftur um jólin. Þær hafi boðið honum að koma til sín og vera hjá þeim á jólunum, borgað fyrir hann farið hingað og hann ekki farið út eftir það. Hann hafi komið í heimsóknir eftir að hann var fluttur til [...]. Stundum hafi hann komið í miðri viku og stundum komið yfir helgar.  Er ákærði  hafi búið hjá þeim að C hafi hann sofið bæði inni í herbergi A og A inni hjá vitninu og svo hafi hann oft verið inni í herberginu hjá B af því að þau hafi verið að horfa á sjónvarpið og sagst bara hafa sofnað. Það hafi verið skýringarnar sem hún hafi fengið. Það hafi oft komið fyrir að þau hafi sofið í sama rúmi yfir nótt bæði þegar hann bjó hjá þeim og líka þegar hann hafi verið í heimsókn. Ákærði og B hafi sagt til skýringar á því að hann svæfi þarna að hann væri að horfa á mynd með systrunum og að hann væri að hlaða niður tónlist fyrir þær. Systurnar hafi þvertekið fyrir alla hluti er maður á vegum barnaverndarnefndar hafi komið og verið með einhverskonar eftirlit í u.þ.b. 6 mánuði. Henni hafi fundist skrítið hvernig ákærði „aktaði“ þegar hún var að spyrja um af hverju hann væri svona mikið í kringum þær. Henni hafi farið að þykja allt þetta niðurhal á tónlist og sífelldar ökuferðir grunsamlegt. Hún hafi spurt þær en þær þrætt. Hana hafi grunað að það væri eitthvað kynferðislegt í gangi milli ákærða og þeirra. Hafi það verið gagnvart báðum stelpunum en sérstaklega gagnvart B. Síðan þegar B hafi farið norður og hann verið að koma þegar A var heima hafi hana farið að gruna það líka með hana. Hún hafi gert athugasemdir við þetta við ákærða eða sérstaklega við stelpurnar. Hún hafi fengið þau svör að hún væri biluð og það væri eitthvað að henni. Vitnið hafi verið nýskilin við mann sinn er ákærði var á heimilinu og hafi þetta verið erfitt tímabil. Hún hafi örugglega átt það til að vera með einhvern skapofsa við dætur sínar og þær hafi ábyggilega verið hræddar við hana. Ekki kannaðist hún við að hafa beitt þær ofbeldi eða einhverju slíku. Henni hafi fundist B hrædd þegar vitnið spurði hana um samskipti hennar við ákærða. Það hafi verið eins og B gæti ekki sagt neitt, hún væri undir rosalegu andlegu ofbeldi frá ákærða. Sjálf hefði hún aldrei orðið vitni að einhverju kynferðislegu. A hafi sofið upp í rúmi hennar á þriðja ár eftir að pabbi hennar flutti af heimilinu. Henni hafi  fundist ákærði mjög skrítinn í kringum báðar dætur hennar. Hún hafi óttast að það væri af kynferðislegum toga. Ákærði hafi haft sérstakar skoðanir á því hvað þær væru að gera hverja þær væru að umgangast og hafi það til dæmis lýst sér í því að henni hafi fundist hann bregðast einkennilega við þegar þær hafi farið til pabba síns og vinkvenna sinna. Það hafi komið tímabil hjá þeim þar sem þær hafi ekki viljað að hann kæmi inn á heimilið. Ástæða þess að hann hafi farið til [...] og ekki verið áfram á heimilinu hafi verið sú að hún hafi viljað hann út af heimilinu, hún hafi þurft að fá frið með stelpunum. Það hafi komið fram hjá A, eftir að þær fluttu að D að hún vildi ekki að ákærði kæmi þangað. A hafi sagt við vitnið að þegar þær flyttu kæmi hann aldrei til þeirra.  Hann hafi verið á heimilinu af því að hún hafi litið á hann sem vin þeirra og hún hafi treyst honum. Hann hafi keypt mat og ekki þurft að greiða húsaleigu. Hún hafi ekki lýst áhyggjum sínum af samskiptum ákærða við dæturnar og við fulltrúa barnaverndaryfirvalda. Hún sagði að ákærði hefði litið á sig sem ákveðna föðurímynd gagnvært stúlkunum. Það mætti vel vera að hann hafi upplifað það svoleiðis.

Vitnið K kvaðst hafa flutt af heimilinu 30. september 2007. Skilnaður þeirra K hafi verið erfiður. Hann hafi heyrt ávæning af því að ákærði væri fluttur inn um þremur vikum eftir að hann flutti út. Hann hafi farið að frétta af einhverju meintu sambandi á milli B og ákærða 2008 fljótlega, sögur um að þetta væri óeðlilegir rúntar á kvöldin og annað því líkt. Hann hafi rætt þetta nokkrum sinnum við barnaverndaryfirvöld í [...]. Í  eitt skipti hafi hann sjálfur reynt að ræða við manninn á planinu fyrir framan [...] án þess að það hafi leitt til neins. B hafi lítið viljað um þetta ræða á þessum tíma. Hann hafi ekki frétt að ákærði deildi rúmi með B fyrr en á árinu 2013. Hún hafi glímt við mikla magaverki en magaspeglun og rannsóknar hafi ekki leitt neitt í ljós. Engu að síður hafi hún látið sig hverfa úr skólanum og komið heim til hans á miðjum degi og verið sárkvalin. Hann lýsti B þannig að hún vilji alltaf vera í felum, láta sig týnast og lítið fyrir sér fara. En þegar kom að lokum grunnskóla vorið 2011 hafi hún viljað í framhaldskóla á [...] eða á [...] og þau síðan samið um að hún færi ekki nema til [...]. Hún vilji alltaf vera heima og láta lítið fyrir sér fara. Hún hafi bara verið á stöðugum flótta á þessum tíma án þess að hann áttaði sig á því. Hann kvað þær B og K hafa átt erfitt með umgegni hvor við hina. Móðirin sé hvöss og B þoli það illa að það sé mikill hávaði og læti í kringum hana. Hún hafi flúið inn í herbergi og viljað loka fyrir læti. Um bréfaskriftir A sagði hann að hún hefði alltaf teiknað sem barn, teiknað mikið og útskýri sitt líf á margan hátt með teikningum. Hún hafi notað teikningar mikið til að sýna hvernig henni liði og hvað henni þætti gaman og hvað henni þætti miður. Þannig að kannski sé bréf mjög skiljanlegur tjáningarháttur fyrir hana.

 Vitnið R kvað B hafa verið hjá sér í fermingarfræðslu veturinn 2008-2009 frá því í september og fram í apríl. Fermingin hennar hafi verið 5. apríl 2009. Hann hefði rætt við hana út af meintu sambandi ákærða og hennar eftir að hafa borist til eyrna að það væri hugsanlega óeðlilegt ástand á heimilinu. Hann hafi ekkert getað greint, sem gefið hafi tilefni til að ætla að henni líði illa.

Vitnið L sagði frá því að A hefði slegið slöku við nám, ekki skilað neinum verkefnum og engan veginn sinnt skólanum. Barnaverndarnefnd hafi ætlað að taka hana og senda hana í tímabundið fóstur. Vitnið hafi gripið þar inn í og vildi ekki að litla systir hennar færi í fóstur og bauðst til þess að taka hana til sín. Hún hafi komið til hennar 23. desember 2012 og verið hjá henni á jólunum eða yfir hátíðarnar. Þau hjónin hafi sett L ákveðnar reglur og sest með henni og skýrt hvernig reglurnar væru þannig að hún gæti vitað það. Eitt kvöldið hafi þau tekið símann hennar. Við það hafi hún umturnast, orðið rosalega hrædd, hún hafi ráðist á þau og reynt að ná símanum. Hún hafi farið inn í herbergi og grátið og svo skrifað vitninu bréf, um það m.a. að síminn væri hennar eina öryggisatriði í lífinu. Ef hún væri með símann gæti hún hringt ef eitthvað kæmi upp á. Hún væri hrædd um að ákærði myndi koma og hann hefði nauðgað sér. L hafi verið ákaflega lokuð manneskja og aldrei sagt frá einu né neinu og vitnið sagt við hana að ef að hún gæti ekki talað við hana þá gæti hún skrifað það og vitnið geti þá lesið það og þær talað saman eftir það. Vitnið hafi vitað að ákærði deildi rúmi með B og hafi sett út á það við móður sína og líka við Q hjá barnaverndarnefnd og K og hann ekki verið ánægður með það og talað einnig við Q. Henni hafi fundist þetta háttalag grunsamlegt. Um líðan B sagði vitnið að hún hafi verið búin að vera þunglynd eftir að mamma þeirra og K skildu. Ekki mundi hún sérstaklega eftir ótta hjá einhverjum á heimilinu í garð ákærða en hins vegar hafi hún skynjað ótta hjá B í garð móður þeirra. Sjálf hafi hún verið hrædd við hana af því að mamma þeirra tók skapofsakost. Barnavernd hafi ekki brugðist við ábendingum hennar hvorki gagnvart vitninu eða öðrum sem töluðu við barnaverndarnefnd. Þetta hafi bara verið svona eins og þetta væri bara ekkert mál.

Vitnið S, lýsti atvikum er A skrifaði systur sinni bréfið á sömu lund og vitnið L. Hann hafi verið búinn að búa með L í rúmlega níu ár þannig að hann hafi þekkt A frá því að hún var krakki.  Hún hafi virkað eins og unglingur í uppreisn til þess að byrja með eftir að hún kom til þeirra L. En svo eftir að hún hafi skrifað þetta bréf  hafi þetta allt farið að ganga miklu betur og hún farið að róast þegar hún gat farið að tala við fólk og vinna úr þessu. Þá strax hafi henni virst líða aðeins betur. B hafi verið einhvern veginn eins og hún yrði feimin og minni í sér. Hann hafi verið heimilisgestur í [...] þegar ákærði bjó þarna og hafi hann deilt herbergi eða rúmi með B.

Vitnið I  barnsfaðir B kvað samband þeirra hafa byrjað í febrúar 2012. B hafi aldrei sagt honum frá atvikum beint út. En þetta hafi komið í ljós þannig að þegar hún hafi verið ólétt, hafi hún verið á sjúkrahúsinu á [...] og sagt honum að ákærði hefði oft reynt eitthvað en vildi aldrei segja vitninu meira. En svo hafi hún sagt honum seinna að hún hefði ekki viljað segja honum það því þau hafi nýlega verið búin að kynnast og hún haldið að hann myndi bara fara. En fyrsta skipti sem vitnið heyri af ákærða sem slíkum hafi verið bara þarna í febrúar þegar þau voru nýbúin að kynnast. Þá hafi hann alltaf verið að reyna að hringja í B og hún aldrei svarað honum.

Vitnið T sálfræðingur kvaðst hafa haft samband símleiðis við félagsmálastjóra í [...] og greint frá áhyggjum L vegna þess að ákærði svæfi í rúmi B sem hún hefði lýst fyrir honum.

 Vitnið H kvensjúkdómalæknir staðfesti vottorð sitt frá 3. apríl 2013 þar sem fram kemur að A hafi verið með órofið meyjarhaft. Um hvort að ákærði hafi nuddað kynfærum upp við og inn í kynfæri A sagði vitnið að oft lýsi börn því að eitthvað hafi verið sett inn og þau upplifi það sem sé einungis nudd á ytri kynfærum eða á milli skapabarma engu að síður eins og innþrengingu. Það sé mjög óeðlilegt að getnaðarlimur hafi farið inn í leggöng þar sem op á meyjarhafti sé 3-4 millimetrar að þvermáli. Ákærði geti vel hafa eða fengið fullnægingu og fróað sér á kynfærum engu að síður. Það sé algjörlega ómögulegt að inn um þetta op sé hægt að setja fingur, lítinn fingur eða eitthvað svoleiðis. Þá sagði vitnið að þegar svæði í kringum endaþarminn var skoðað hafi sést nokkurra millimetra hvítt svæði klukkan 12, sem sé á leiðinni upp spangarsvæðið, sem ekki sé venjulegt að sjá en stundum sjáist hvítleit ummerki ef um ör sé að ræða. Þetta hafi ekki verið ferskur áverki fyrst að það sé komið ör þá sé áverkinn nokkurra vikna eða mánaða.

Vitnið Ó geðlæknir staðfesti matsgerð sína frá 28. febrúar 2013. Ákærði hafi ekki talið sig hafa gert neitt saknæmt og neitað því með öllu að hafa leitað á meinta brotaþola. Hann hafi sagst aðeins einu sinni hafa óvart snert brjóst annarra þeirra utanklæða. Vitninu hafi fundist stúlkurnar vera honum mjög hugleiknar og sérstaklega blæðingar annarrar þeirra. Einnig kom það fram að hann taldi það hafi verið ákveðið vandamál að stúlkurnar hafi verið hrifnar af sér og jafnvel afbrýðisamar út í sambandi sitt við konur. Fannst vitninu það óvenjulegt.

Vitnið U læknir kvaðst hafa hitt A en þó ekki beinlínis út af meintum kynferðisbrotum. Um vorið 2012 hafi hún komið og verið með útbrot og hafði verið að krota rosalega mikið á sig, teikna á sig alla og krassa á sig alla með penna. Það hafi verið áberandi þá að henni liði ekki mjög vel. Ekki hafi vitnið vitað hvort ætti að tengja þetta við einhverja andlega vanlíðan eða kvíða.  Í kjölfarið á þessu hafi hún farið að fá einhver útbrot líka sem hún taldi að gæti verið ofnæmi og hafi hún verið meðhöndluð með tilliti til þess. Þá hafi hún verið í samskiptum við hjúkrunarfræðing í október 2012 og komið fram upplýsingar um að hún sé eigi erfitt andlega en hún hefði leitað til hjúkrunarfræðings fyrir þann tíma út af andlegri vanlíðan. Það hafi leikið grunur á ofbeldi á heimili gagnvart barninu í einhvern tíma og það hafi verið tilkynnt frá skólanum.

Vitnið V lífeindafræðingur kom fyrir dóminn en ekki þykir þörf á að rekja skýrslu hans hér. Sama er að segja um vitnið Y framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á [...].

Vitnið G sálfræðingur staðfesti matsgerð sína frá 28. febrúar 2013. Vitnið hafi náð góðum tengslum við ákærða í viðtölum og hann komið ágætlega fyrir og verið til samvinnu í matinu. Gæsluvarðhaldið hafi farið í ákærða en síðan hafi vitnið ekki áttað sig alveg á ýmsu sem hann ræddi, kannski sérstaklega varðandi trúmál sem vitnið hafi verið óöruggur með hvað væri. Hann hafi komið mjög mikið inn á trúmál. Trúmál hafi verið hitamál fyrir ákærða. Ekki hafi ákærði sett þau í samhengi við sakarefni það sem hafi verið til umfjöllunar hjá lögreglu. Um samband við móður systranna hafi komið fram að það hafi verið stormasamt og hann kannski svolítið fókuseraður á það hvað hún hafi verið erfið í skapi. Tengsl þeirra hafi verið einhvern veginn þannig að þetta hafi verið erfitt. Á tímabili hafi hann gefist upp og flutt þaðan út, hann hafi búið þarna á tímabili og flutt út. Hann hafi verið mjög ánægður með að hafa flutt út af heimilinu. Hann hafi fengið eigið húsnæði og bíl en síðan talað mikið um ákveðna óreglu á heimilinu og markaleysi. Allt hafi verið leyfilegt. Stelpurnar hafi einhvern veginn mátt allt varðandi kynferðislega hegðun. Ákærði hafi verið mjög upptekinn af kynferðislegri hegðun þeirra og hvenær þær byrjuðu á blæðingum. Þær hafi kallað hann kynferðislegum nöfnum, talað um að kalla hann typpaling og hann hafi séð mikla kynlífstengda hegðun á heimilinu. Hann hafi verið mjög upptekinn af því að hann hafi séð A fróa sér og viljað ítrekað tala um það og talað um það að hún hafi verið að byrja þarna að hegða sér á kynferðislegan hátt og klæða sig þannig. Varðandi B hafi það verið þannig að hann hafi óvart snert á henni brjóstin og hún hafi verið ástfangin af honum þannig að þetta hafi verið svolítið snúið upp á að þær væru einhvern veginn að egna hann eða ögra honum kynferðislega. Vitnið hafi byrjað að spyrja hann um þetta en ákærði verið síðan mjög upptekinn af að ræða um það. Hann hafi talað um það að hann hefði skyldu gagnvart stúlkunum eins og skyldu föður eða eitthvað slíkt og varðandi móður stúlknanna að það væri engin regla á heimilinu og svoleiðis og að hann hafi þurft að taka ábyrgðina á því. Hann hafi þurft að leiðbeina henni eða gera ákveðna hluti varðandi uppeldið sem hún hafi ekki sinnt þá. Um kynþroska stúlknanna og blæðingar sagði vitnið að ákærði hefði verið mjög upptekinn af þessu, blæðingum annars vegar og hins vegar það að þær sýndu kynferðislega hegðun ungar. Hvötin hafi hafi verið frá þeim. Ákærði hafi upplifað að það væri eins og þær væru mjög hrifnar af honum og vildu kynferðislegt samneyti við hann. Það hafi komið mjög skýrt fram. Vitnið taldi ákærða gera greinarmun á réttu og röngu, ekkert virtist vera beint að hans þroska. Hann hafi aldrei séð nein bein geðræn eða geðrofseinkenni hjá honum. Vitninu fannst ákærði óeðlilega upptekinn af kynferðislegri hegðun stúlknanna og þeirra hvötum og blæðingum. Hafi hann verið mjög upptekin af þessu öllu, sem sé nú kannski óeðlilegt með mann á þessum aldri. Flestir menn forðist að tala um þetta svona almennt. Til dæmis vildi hann mjög mikið ræða að hann hafi komið að annarri stelpunni við sjálfsfróun. Það hafi verið áberandi í frásögn hans að stelpurnar hafi verið að ögra honum kynferðislega. Það sé mjög vel þekkt í fræðum vitnisins, sem er sérfræðingur í klínískri sálfræði, að í hugsun og hugsanaferli manna sem hafi áhuga á börnum felist ákveðin réttlæting  á því, sem fari að snúast í það að það sé einhver annar þ.e.a.s. börnin, sem vilji þetta raunverulega. Þegar fólk viti að það sé að gera ranga hluti lengi fari það að réttlæta fyrir sjálfu sér að það sé í lagi út af þessu og hinu. Langflest bendi til þess að ákærði sé hneigður til barna kynferðislega. Það styðji það sérstaklega þessi viðhorf hans til stúlknanna og hvernig hann fylgist með kynþroska og annað. Mjög mikið í rannsóknargögnum lögreglu styðji þetta og hvað ákærði sé upptekinn af þessu öllu og upplifi það að börn séu að ögra honum kynferðislega. Hann kvaðst byggja þá niðurstöðu sína að ákærði sé líklega hneigður til barna á rannsóknum um barnahneigð.

Vitnið f sálfræðingur í Barnahúsi staðfesti vottorð sitt frá 3. júní 2013. Hún hafi hitt a ellefu sinnum þar af sjö sinnum eftir útgáfu vottorðsins. Sé hún í meðferðarviðtölum hjá vitninu. Það hafi gengið mjög vel undanfarið. Frá því í janúar sl. hafi kvíðinn verið að magnast í henni. Hún tengi það við aðalmeðferð, sem hún sé búin að vera að bíða eftir. Hún hafi verið sett á kvíðastillandi lyf í janúar. Hún sé bæði óörugg og hrædd við ákærða. Óörugg heima hjá sér og óttist að hann gæti komið og gert henni eitthvað. Greining á einhverfurófi og athyglisbresti byggi á gögnum frá félagsmálayfirvöldum í [...]. Fram kom hjá vitninu að A eigi stundum erfitt með að koma orðum að hlutum. Hún eigi betra með að tjá sig skriflega. A geti vel tjáð sig og allt það. En hún eigi erfiðara með að útskýra nánar og fara dýpra ofan í það sem hún sé að tala um. Hún tali um að hún sé svo kvíðin og óörugg en eigi erfitt með að útskýra nákvæmlega hvað valdi því. Um það orðalag hennar að henni hafi verið nauðgað og erfiðleika við að frá fram hvað hún ætti við með því sagði vitnið að það væri nákvæmlega það sem vitnið ætti við hvað varði erfiðleika A með að útskýra nánar. Stafi þetta af því að hún sé á einhverfurófi og skerðingu vegna þess. Um aðra þætti sagði vitnið að hún hafi átt erfitt með að tengjast jafnöldrum sínum. Þó beri hún það ekki beint með sér að hún sé á einhverfurófi. Hún hafi átt svolítið erfitt uppdráttar félagslega. Hún hafi viljað meina að hún væri alltaf að flýja heimili sitt þegar ákærði hafi verið á staðnum og verið þá bara úti og það hafi verið túlkað sem hegðunarerfiðleikar. Sem hafi leitt til þess að hún hafi verið send til [...] á sínum tíma. Spurð um hvort einhverfuróf og takmarkanir á tilfinningum að einhverju leyti skýri það að hún hafi byrgt þetta svo lengi inni sagði vitnið að það ætti kannski sinn þátt í því, en ekki endilega. Það sé kannski margt annað líka eins og bara óttinn við að segja frá þegar viðkomandi kemur ennþá oft inn á heimilið. Hún hafi ekki í neinum smáatriðum fjallað um brotið, megi kannski segja að hún forðist það að einhverju leyti. Hún útskýri það sjálf að hún upplifi vanlíðan í tengslum við meint brot. Hún verði áfram í meðferð hjá vitninu og sjái ekki alveg fyrir endann á því. Hún var spurð hvort tjón A sé meira en ella vegna einhverfurófs og kvaðst hún telja það. Spurt var hvort eitthvað hafi komið fram sem gengur ekki upp út frá mælikvarða um sannsögli, ósannsögli, ósamræmi og það að vera tvísaga. Vitnið sagði ekkert hafa komið fram í þá átt og tók fram sérstaklega að þeir sem eru greindir á einhverfurófi eigi það til að vera bókstaflegir og einhvern veginn séu ekki að fegra sjálfan sig. Þeir sjái ekki og lesi kannski illa í viðbrögð annarra og hafi ekki eins miklar áhyggjur af þeim. Fram hafi komið á sálfræðiprófi, sem vitnið lagði fyrir A í byrjun, að hún væri með kvíða og þunglyndiseinkenni. Hún hafi ekki lagt aftur fyrir hana svona próf. Hún viti ekki alveg hversu marktækar niðurstöður séu vegna þess hversu A tekur hlutum bókstaflega. Ekkert bendi til þess að hún sé greindarskert. Hún sýni tilfinningar, tali um kvíða, gráti og sitji og haldi utan um sjálfa sig. Hún stóli mikið á vin sinn sem búi í [...]. En hún sýni tilfinningar það sé ekkert ýkt, bara venjulegt. Spurð um ástand heima hjá A sagði vitnið að hún sé óörugg þar, en hún óttist að ákærði komi heim til hennar. Hún haldi að hann þekki einhverja í blokkinni. Hún hafi rætt um þetta óöryggi sitt og stóli þá á þennan vin sinn. Samskipti við móður segi hún hafa gengið betur en þegar hún var yngri. Mamma hennar vinni mikið og hún sé mikið ein heima. 

 Vitnið N sálfræðingur staðfesti vottorð sitt frá 3. apríl 2013. Hún hafi ekki hitt sjúkling eftir að hún gaf út vottorðið. Er B hafi komið til hennar hafi hún verið að detta út úr skóla vegna mikils kvíða og félagsfælni. Hún hafi verið lokuð og átt mjög erfitt með að tala og tjá sig og hafi tekið langan tíma að mynda tengsl. Henni hafi liðið illa haft lágt sjálfsmat og upprifjun hafi verið henni erfið. Ekkert hafi verið farið inn á meint kynferðisbrot við vitnið enda hefðu þær átt meðferðarlotu sem endað hafi í apríl 2012. Síðan hafi hún komið aftur í febrúar 2013 og þá hafi verið minnst á þetta örlítið.  Minna hafi farið fyrir kvíða þær hefðu verið búnar að vinna mikið í félagsfælnieinkennum og hún verið mun betri vegna þeirra. Þegar hún hafi komið til vitnisins aftur hafi hún nýlega gefið skýrslu hjá lögreglu og hafi liðið mjög illa út af því. Hún hafi verið ófrísk og sjálf ákveðið að vinna ekki meira með það mál á þeim tíma. B hafi verið frekar lokuð og alltaf hafi verið frekar erfitt að fá upplýsingar frá henni. Það sé mjög algengt, sérstaklega í einhvers konar áfallamálum, að fólk loki á þessa hluti og þeir séu ekkert ræddir. Samt séu ákveðin einkenni sem unnt sé að sjá og fólk sem fær svona áfall eigi sammerkt. Hún hafi séð slík merki hjá B. Hún hafi haft lága sjálfsmynd, eigi í erfiðleikum með að treysta öðrum, sé tilfinningalega dofin og mjög kvíðin. Þessi atriði komi oft fram hjá fólki sem lendi í einhvers konar misnotkun eða einhvers konar áfalli. Hins vegar megi líka horfa til þess að hún hafi átt mjög brotna barnæsku.

 Vitnið O sálfræðingur í Barnahúsi staðfesti vottorð sitt frá 10. janúar 2014. Hún kvaðst hafa hitt sjúkling tvisvar sinnum eftir að hún gaf vottorðið út. B sé frekar feimin og óörugg stúlka en vel máli farin og eigi í raun og veru auðvelt með að tjá sig svo framarlega sem umræðuefnið snúi ekki að líðan hennar eða kynferðisbrotinu. Í upphafi viðtala byrji hún á því að segja að henni líði vel og lífið gangi vel. Þegar líði lengra á viðtalið komi yfirleitt annað í ljós. Í öllum viðtölum beri mjög á kvíða sem B glími greinilega við og þá sérstaklega varðandi allt sem snúi að meintu kynferðisofbeldi. Hún segi að kvíðinn sé það versta og hafi mjög hamlandi áhrif á líf hennar. Hún hafi verið hrædd við að vera úti af ótta við að hitta ákærða, sem hún skelfist mjög. Einnig eigi hún erfitt með að vera ein heima og þessi kvíði hafi auðvitað líka haft mjög mikil áhrif á meðferðarvinnuna. Minningarnar valdi B  mikilli vanlíðan. Þær geti komið hvenær sem er og hún segi sjálf að það gerist í raun veru nánast á hverjum degi. Það sé auðvitað eitt af einkennum áfallastreitu. Einnig sjáist skömm hjá stúlkunni og henni finnist erfitt að vera þolandi kynferðisbrots. Hún velti því fyrir sér hverjir viti um atvik og óttist í raun og veru hvernig fólk túlki þetta allt saman. Óttist hún að einhverjir haldi að hún hafi bara viljað þetta. Tilfinningar sæki á hana í viðtölum við vitnið en hún reyni samt alltaf að halda andlitinu. Greinilegt sé að þessar tilfinningar og kvíðinn hafi mjög hamlandi áhrif. Í síðasta viðtali við hana 2. febrúar sl. hafi hún bara getað sagt frá í stórum dráttum meira og minna í kringum þetta. Þetta séu samkvæmt henni endurtekin brot og þá renni þau svolítið saman og erfitt að greina á milli þeirra. Það sé bara þannig sem minnið virki. Sé fólk í endurteknum atvikum þá sé oft erfitt að greina á milli þeirra nema eitthvað óvænt gerist. Hún reyni einhvern veginn alltaf að halda andlitinu. Einnig sé hún alltaf að reyna að vera sterk og láta þetta ekki hafa áhrif á sig og líf sitt. Þetta kunni að vera skýring á því að hún hafi ekki sagt neinum frá þessu og svo allt í einu eitthvað gerst og það sé opnað á þetta. A hafi opnað á einhver ákveðin meint brot og þá hafi hún komið fram. B hafi eiginlega verið búin að ákveða með sjálfri sér að hún ætlaði aldrei að tala um þetta, einhvern veginn að þrauka þetta og lifa sínu lífi. Þegar systir hennar hafi sagt frá hafi B líka orðið fyrir ákveðnu áfalli og fengið gríðarlegt samviskubit. Henni hafi fundist eins og hún hefði átt að geta komið í veg fyrir það að litla systir hennar hefði orðið fyrir svipaðri reynslu og þá ákveðið að stíga fram og segja frá sínu broti líka. Vitnið kvaðst greina B með áfallastreitu algjörlega út frá meintum brotum. Fólk sé ekki greint með áfallastreitu út af  skilnaði foreldra eða einhverju slíku. Það séu ákveðin atriði sem þurfi að vera til staðar eins og til dæmis ógn við heilsu og líf einstaklingsins eins og kynferðisbrot sé. Allar minningar hennar og einkenni tengist brotinu þegar lagður sé fyrir hana greiningarlisti. Aðstæður á heimili B hafi verið erfiðar. Það hafi verið erfitt að treysta á móður hennar. Hún virðist skipta skapi, svolítið óvænt. Það sé eins og B viti ekki alveg hverju hún hafi átt von á varðandi það. Þegar ákærði hafi flutt þarna inn, hafi í raun og veru enginn fyrirvari verið á því, að henni finnist. Það sé bara allt í einu kominn einhver karlmaður þarna. Sem henni hafi fundist mjög erfitt af því að faðirinn var svo nýfluttur að heiman. Það hafi verið erfitt að búa með ákærða, hún hafi verið hrædd við hann og svo framvegis. B hefði tjáð sig um að hún hafi ekki viljað segja frá þessu meðan á þessu stóð vegna þess að hún hafi ekki treyst barnavernd. Það hefðu heyrst einhverjar sögur af vinnubrögðum barnaverndar og hún óttast að barnavernd myndi bara senda bréf heim til sín og þá myndi hún lenda í miklum erfiðleikum. Í rauninni hafi hún verið hrædd við ákærða. Einnig að hún vildi helst ekki að fólk vissi að þetta væri að koma fyrir hana. Hún hafi eiginlega verið búin að ákveða að segja aldrei frá þessu og gleyma þessu.

 Vitnið Z sálfræðingur  staðfesti vottorð sitt frá 14. janúar 2014 en hún hafi komið að málum A sem meðferðarsálfræðingur. Skýr teikn séu um vanlíðan hennar. Henni líði ekki vel í skóla og innan um aðra krakka. Hún hafi sagt að hún væri ósátt við ákærða og að hann hafi verið þetta mikið á heimilinu. Hún hafi ekki sagt nákvæmlega hvað gerðist en það hafi klárlega verið kynferðisbrot, það hafi farið langt yfir hennar mörk. Vitnið hafi vitað af fyrirhugaðri skýrslu í Barnahúsi og ekki ætlað að hitta hana áður en stúlkunni hafi liðið illa og sagt systur sinni frá einhverju og það þótti ekki viðunandi að láta hana vera og að enginn talaði við hana.

Vitnið Þ sjúkraþjálfari staðafesti vottorð sitt frá 7. janúar 2014.

 Vitnið P sálfræðingur  sagði í tilefni af vottorði sínu frá 29. desember síðast liðnum að B hafi verið í meðferðarviðtölum hjá vitninu 2010 og 2011. Ekkert hafi verið komið að meintum brotum sem hún hafi átt að hafa orðið fyrir á þessu tímabili.  Henni hafi liðið mjög illa, misvel þó. Í upphafi hafi vitninu fundist henni líða meira eins og stelpu þar sem foreldrar hafi verið að skilja eða verið skilin og það hafi verið rót í fjölskyldunni.  Eftir því sem á viðtölin leið hafi henni liðið verr frekar en betur. Hún hafi ekki sagt frá öllu það hafi þurft að spyrja hana en vitninu fannst hún vinna trúnað hennar undir lokin. Hún hafi verið ábyrg og tekið mikið á sig þannig að fólki í kringum hana liði vel. Hún hafi verið að hlífa öðrum frekar en sjálfri sér. Um það hvort hún hefði verið að byrgja innra með sér ætluð brot passi það eftir á að hyggja inn í ákveðna hluti. Upplýsingar um heimilisaðstæður á þessum tíma hafi vitnið haft frá foreldrum hennar. Hún hafi oft nefnt ákærða og talað svolítið mikið um hann. Hún hafi aldrei tjáð sig um að hann hefði brotið gegn sér. Hún hafi talað um hann og eftir á hyggja gæti hún hafa verið að hringsóla í kringum ákveðið efni eða athuga hvort vitnið spyrði að einhverju. Spurð um hvort vitninu hafi virst ákærði spila stóra rullu í því sem var að gerast í hennar lífi sagði vitnið að það hafi verið einir þrír til fjórir mánuðir sem hún bjó hjá mömmu sinni í upphafi meðferðar. Þá hafi ákærði verið mjög oft nefndur sem en hann væri eitthvað að styðja hana og hjálpa henni. Hún hafi ekki talað illa um hann en heldur ekki vel en hún hafi talað um hann. Það hafi verið minna eftir að hún fór til pabba síns. Um móður sína hafi hún talað eiginlega allan skalann. Þetta hafi ekki virkað ólíkt því sem eigi við um unglinga á þessum aldri. B hafi oft haft áhyggjur af A henni og saknað hennar mikið. Áhyggjur B hafi legið í því að A liði ekki nógu vel og hún væri bara ekki í samskiptum við pabba sinn og ekki í samskiptum við systkini sín.

Vitnið Æ  sagði í tilefni af umsögn frá 15. mars 2011 að hún hafi verið umsjónarkennari B á fjórða ár.  Stúlkan sé mjög feimin og inn í sig. Á síðasta árinu hefði hún virst vera aðeins að opna sig og koma út úr skelinni. Það hafi verið 2011 þegar hún hafi verið flutt til pabba síns. Þegar hún hafi verið á heimilinu hjá móður sinni hafi verið erfiðara hjá henni. Hún hafi ekki mætt í leikfimi og sund og í þessum hópi hafi hún eiginlega verið sú eina sem gerði það ekki. Hún hafi ekki viljað vera í sama klefa og hinar stelpurnar.

Vitnið Ö sagði í tilefni af vottorði um sjúkraþjálfun frá 12. janúar 2014 að hún hafi hitt A sennilega tvisvar, þrisvar eftir að hún gaf út vottorðið.

Vitnið E kvað þau A vera góða vini og hún hafi fyrst sagt honum frá þessu. Hann hafi hvatt hana til að segja öðrum frá þessu, en hún hafi ekki sjálf verið tilbúin í það. Hún hafi ætlað að gera það í desember 2012 en þá hafi hún haldið að ákærði færi aftur til [...]. Svo hafi hún komist að því að þetta væri bara vika, hún hafi ekki þorað að segja frá því strax. Það hafi ekki verið fyrr en hún hafi verið komin til [...] að henni hafi fundist hún vera örugg og hún gæti sagt frá þessu. Vitninu hafi fundist eins og það væri eitthvað mikið að og svo hafi hún byrjað að tala við hann. Hún hafi trúað honum fyrir þessum meintu brotum í byrjun desember 2012. Hún hafi spurt vitnið hvort hún gæti treyst honum fyrir svolitlu, sem hún hefði ekki sagt neinum og hann myndi lofa að segja ekki neitt frá þessu. Þá hafi hún sagt honum frá meintu broti. Hann hafi spurt hvað ákærði hafi gert og hún svarað „allt“ og farið að gráta og vitnið ekki spurt nánar um það. Hann hafi hvatt hana til að segja mömmu sinni eða einhverri systur sinni sem hún treysti frá þessu. Hún hafi sagt að það væri ákærði sem hefði brotið gegn henni. Hafi hún sýnt mjög mikil tilfinningaviðbrögð þegar hún var að segja frá þessu. Spurður um samskipti hennar og ákærða á þessum tíma sagði vitnið að ákærði hafi gist þarna í desember áður en hún fór til [...]. Áður en hún fór hafi hún sagt vitninu að ákærði hefði ætlað að kyssa hana á kinnina og tekið utan um hana og snúið henni að sér til að setja koss á hana. Það hafi verið seinasta brot sem vitnið hafi heyrt af. Hún hafi verið búin að segja vitninu að það hefðu verið einhver tölvusamskipti um Skype og ákærði hafi alltaf verið að senda henni eitthvað á Facebook. Vitnið hafi verið í símasambandi um SMS og Skype við A á meðan hún var fyrir norðan. Hún sé hrædd eftir að hún kom í sinn heimabæ einkum af því að hún viti af því að ákærði komi á sínum eigin bíl og hún sé bara alveg skíthrædd heima hjá sér.

Vitnið Á  sagði í tilefni af tölvupósti með umsögn um A á dskj. nr. 16 að það hafi gengið illa hjá henni í skóla að einhverju leyti í fyrra en gangi mun betur í dag.  Hún hafi haft takmarkaðar upplýsingar frá fyrri umsjónarkennara um hvernig líðan hennar var áður. Henni hafi þó verið sagt, þegar hún tók við A, að það hafi gengið frekar illa. Hún hafi verið mótþróafull og átt erfitt með að einbeita sér að námi. Um það að hún skilaði prófum og verkefnum útkrotuðum með alls konar skilaboðum um að henni líði illa sagði vitnið að svo væri ekki lengur en það hafi verið í fyrra. 

Vitnið Р umsjónarkennari A 2008-9 og 2009-10 sagði að henni hefði gengið illa í skóla. Hún sé nú með ákveðna greiningu og hafi átt erfitt með að stunda nám. Það sem vitnið hafi rætt við hana hafi verið tengt foreldrum hennar á þessum tíma en þau hafi verið nýskilin. Vitnið kvaðst hafa skynjað að hún væri viðkvæm og ætti erfitt vegna skilnaðarins. Hún hafi ekki viljað segja mikið ef vitnið gekk á hana. Hún hafi ekki átt gott með að tjá sig. Vitnið minnti endilega að A hafi sagt að hún hafi skrifað eitthvað niður, en hún hafi ekki viljað deila því neitt. Hún hafi skrifað eitthvað fyrir sjálfa sig. Hún hafi grátið þannig að það hafi verið augljóst að henni hafi liðið illa á þessum tíma. Vitnið hafi tengt þessa vanlíðan hennar að mestu leyti við skilnað foreldranna.

Vitnið É bróðir beggja brotaþola sagðist hafa séð ákærða á heimilinu. Ákærði hafi margoft farið inn í herbergi til systra hans þegar þau voru að fara að sofa.

Vitnið Í hafði með mál A að gera hjá barnavernd. Hún hafi komið fyrst að því þegar vitnið hafi verið var nýbyrjuð í starfi 2011. Hún hafi fyrst hitt A í febrúar. Hún hafi verið ráðvillt og ekki í góðu jafnvægi og ekki liðið vel. Hún hafi ritað bréf til lögreglunnar á [...] frá 22. janúar 2013 og lýst ákveðnum áhyggjum af barninu. Fram hafi komið í viðtölum við A togstreita á milli hennar og dóttur sambýliskonu föður hennar sem hún kvað hafa talað um að A hafi verið nauðgað. Vitnið hafi fengið á tilfinninguna að A væri ekki að segja sér alveg allt sem hún hefði jafnvel viljað segja henni í sambandi við það. Hún hafi sagt að það hefði ekki átt sér stað nauðgun en vitninu fannst að það væri kannski eitthvað sem hún kæmi ekki frá sér. Hún hafi greint frá samskiptum við ákærða sem vitninu fannst vera óeðlileg, hann sýna henni óeðlilegan áhuga, barni á þessum aldri. Vitnið hafi haft á tilfinningunni að það væri eitthvað meira þarna á bak við sem hún segði einhverra hluta ekki frá, væri ekki tilbúin til eða eitthvað sem hefti hana í því. Þessi óeðlilegu samskipti hafi falist í því að hann sendi henni SMS og þau hefðu farið í bíltúra. Spurð um af hverju barnavernd hafi ekki hafst að áður en A opnaði á málið, af hverju ekkert hafi gerst 2011 og 2012, sagði vitnið að þetta hafi verið athugað á sínum tíma. Það hafi verið rætt við stelpurnar og ekki komið fram þá. Eftir að vitnið hafi komið til starfa hafi hún vitað að það hefðu vaknað einhverjar grunsemdir og það hefði verið athugað eins og talið hafi verið rétt þá. Spurð um af hverju barnavernd hafi ekki hafið einhverja athugun þar sem vitnið hefði haft einhverjar grunsemdir um að ekki hafi allt komið fram og að samskiptin við ákærða væru óeðlileg sagði vitnið að segja mætti að athugun hafi verið í gangi. A hafi verið í viðtölum hjá vitninu en því miður hafi þetta ekki komið fram í þeim. Segja megi að það hafi verið unnið með málið. Vitnið hafi farið tvisvar á heimilið að því er hún hélt og heimilisaðstæður þá verið í lagi. Móðir hafi verið í fínu jafnvægi. Móðir hafi staðfest að ákærði væri að einhverju leiti á heimilinu. Vitninu hafi fundist eins og hann hafi alltaf verið gestkomandi. Ekki hafi legið fyrir að hann deildi rúmi með B þegar vitnið var í þessari athugun. Móðirin hafi ekkert komið inn á það við vitnið eða málefni A. Vitnið hafi verið viðstödd skýrslutöku af A í Barnahúsi og heyrt um atvik þar en að öðru leyti hafi hún ekki vitað um þau. Hún hafi ekkert komið að málum B.  A hafi aldrei sagt henni neitt frá því sem eigi að hafa átt sér stað.

Vitnið Q félagsmálsstjóri  sagði að barnavernd hafi rætt við B árið 2009 vegna tilkynninga um að hún sæist mikið með ákærða. Rætt hafi verið við hana í tvígang einhvern tíma snemma árs og einhvern tíma seinna á árinu. Hins vegar hafi það verið málefni A sem komið hafi til barnaverndarnefndar.

Vitið Björgvin Sigurðsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu frá 20. febrúar 2013 en ekki þykir þörf á að rekja skýrslu hans hér.

Vitnið Jónas Hallgrímur Ottósson lögreglumaður kom fyrir dóm og gerði grein fyrir rannsókn málsins en ekki þykir þörf á að rekja framburð hans hér.

 Vitnið Steinar Kristján Ómarsson lögreglufulltrúi staðfesti skýrslu sína frá 8. febrúar 2013 en ekki þykir þörf á að rekja skýrslu hans hér.

III

A

Ákæruliður I.

Ákærða er í þessum kafla ákæru gefin að sök kynferðisbrot framin að C [...] gegn A, á tímabili frá lokum árs 2007 eða byrjun árs 2008 fram til desember 2012, þegar stúlkan var á aldrinum 8 til 13 ára, þar af undir lok tímabilsins að D í [...] með nánar tilgreindum hætti. Ákærði hefur neitað þessum sakargiftum staðfastlega.

Eins og rakið hefur verið bar brotaþoli að hún hefði verið 7-8 ára gömul þegar ákærði braut gegn henni fyrst, aðeins nokkrum vikum eftir að hann flutti inn á heimili þeirra að C. Þá hafi hann komið og lagst fyrir aftan hana í rúm móður hennar sem sem svefnstaður hennar á þessum tíma. Umrætt sinn hafi móðir hennar legið í rúminu. Ákærði hafi tekið niður um hana buxurnar og snert kynfæri hennar og líkama hennar allan og nauðgað. Eftir þetta tilvik hafi hann ítrekað beðið hana fyrirgefningar og farið fram á að hún segði ekki frá því sem gerst hafði.

Brotaþoli bar að á þessum tíma hafi ákærði sífellt verið að taka utan um hana og snert alls staðar. Eftir 10 ára aldur hafi tekið við það sem brotaþoli kallar „ömurlegan tíma“ en misnotkunin hafi þá versnað. Kvaðst hún hafa verið farin að skilja betur „hvað var á ferðinni“ en áður hafi hún verið of ung til þess. Á þeim tíma hafi ákærði verið hættur að drekka en engu að síður hafi misnotkunin aukist. Hann hafi verið farinn að vinna á [...], en komið reglulega heim til þeirra eftir það og gist þar stundum. Hún kvaðst ætla að ákærði hefði brotið gegn henni „mjög oft“ um 20-25 sinnum. Í þessum tilvikum hefði ákærði snert kynfæri hennar, oftast hafi það byrjað með snertingum á utanverðum kynfærum og stundum endað inni í kynfærunum. Spurð nánar um þá merkingu sem hún legði í orðið „nauðga“ kvað hún það vera „eitthvað meira en snertingar“, „þegar komið er alveg yfir strikið“ og enn spurð í tengslum við tilvik í rúmi móður sinnar svaraði hún „Okey, hann tróð typpinu upp í fokking rassgatið á mér. Góð lýsing?“ Hún kvað ákærða stundum hafa orðið sáðlát en önnur skipti ekki og lýsti hún því nánar. Brotaþoli kvað ákærða jafnframt hafa margítrekað kysst hana á munninn og sett tungu upp í hana. Lýsti hún því hve ógeðslegt henni hafi fundist það, og hvernig hún hafi reynt að lúta höfði. Þá hafi ákærði í nokkur skipti, þó ekki oftar en 10 sinnum reynt að láta hana gera eitthvað kynferðislegt við sig en hún hafi „tekið höndina af honum“.

Brotaþoli tengdi sum tilvik ákveðnum atvikum. Meðal þess sem hún nefndi var tilvik í herbergi hennar um 8 ára aldur en þá hafi ákærði verið „framan á“. Hún hafi meitt sig og það hafi blætt. Einnig nefndi brotaþoli tilvik á 11 ára afmælisdegi hennar þegar ákærði „hlóð niður nýrri mynd“ og þau horfðu á hana í rúmi systur hennar en þá hafi hann byrjað að taka utan um hana, lyft upp pilsi hennar og snert á kynferðislegan hátt innanklæða. Í það skiptið hafi ákærði farið „alveg yfir strikið.“

Brotaþoli kvað brotin hafa átt sér stað eftir skóla og á kvöldin, sjaldnast hafi einhver verið heima en þó hafi það komið fyrir að systir hennar eða móðir voru heima, annað hvort sofandi eða ekki nálægar. Að C hafi brotin átt sér stað í herbergi móður hennar, herbergi systur hennar eða hennar eigin herbergi en að D í herberginu hennar. Síðasta tilvikið hafi átt sér stað sumarið 2012 eftir 13 ára afmælið hennar en eftir þann tíma og fram til 22. desember  2012 er hún fór til [...] hafi hann aðeins snert hana kynferðislega, „knúsað og kysst“ en ekki nauðgað. Brotaþoli kvaðst hafa verið bráðþroska og „þroskast“ 10 ára gömul. Hún hafi ekki mikið hugsað út það sem gerðist en brugðið þegar hún áttaði sig á því að ákærði hefði í reynd nauðgað henni.

Dómurinn horfði á skýrslutöku af brotaþola í Barnahúsi, 21. janúar 2013, og telur hann mjög trúverðugan. Var það í fyrsta skiptið sem að brotaþoli tjáði sig munnlega með þetta ítarlegum hætti um meint brot ákærða. Framburður hennar bar þess merki hversu lokuð brotaþoli er og á erfitt að tjá sig með munnlegri frásögn. Skýrist það að hluta til af því að hún er greind á einhverfurófi, með athyglisbrest og er tamara að nota annað tjáningarform svo sem teikningar eða skrif, sér í lagi þegar henni líður illa. Þessu lýstu foreldrar hennar og kennari Á. Þá eru á meðal gagna málsins ljósmyndir sem sýna útkrotaða veggi og skápahurðir í herbergi brotaþola.  Í vottorði F, sálfræðingur Barnahúss svo og í framburði hennar fyrir dómi kom jafnframt fram að einstaklingar sem væru greindir á einhverfurófi ættu til að vera bókstaflegir og hefðu ekki áhyggjur af viðbrögðum annarra og fegruðu ekki sjálfan sig. Auk þess ber að líta til þess að brotaþoli var að lýsa meintum brotum ákærða sem áttu sér stað þegar hún var mjög ung.

Að mati dómsins er ekkert fram komið sem dregur úr trúverðugleika framburðar brotaþola. Þess má geta að í skýrslu sinni í Barnahúsi talaði hún ekki illa um ákærða og tók fram að „hann hafi alveg getað verið góður við hana stundum og hjálpað henni og allt“. Fyrir liggur að hún greindi ekki frá meintum brotum á meðan á þeim stóð enda kvaðst hún treysta fáum. Hún treysti ekki móður sinni og gaf skýringar á því hvers vegna hún taldi sig ekki geta leitað til hennar. Fær það stoð af framburði systra hennar, L og B, sem báru um að þeim stóð á margan hátt stuggur af móður sinni vegna skapgerðarbresta hennar og vildu því halda frið á heimilinu. Í framburði F, sálfræðings, svaraði hún því, aðspurð að ekkert væri fram komið sem benti til þess að brotaþoli segði ósatt og vísaði í ofangreind einkenni á persónugerð þeirra sem væru á einhverfurófi rétt eins og brotaþoli.

Brotaþoli greindi E fyrst frá meintum brotum í byrjun desember 2012 en fram kom hjá honum að hún hafi haft áform um að greina frá því sem gerðist en ekki þorað því fyrr en hún kæmi til [...]. Hafi hann hvatt hana til að segja fjölskyldunni frá. Þá greindi hún systur sinni L frá brotunum skriflega í janúar 2012 eins og áður er lýst og foreldrum sínum eftir það. Fram kom í skýrslu B að L hafi sagt henni frá umræddu bréfi en brotaþoli hafi forðast að ræða þetta við hana sjálf. Fyrir liggur að brotaþoli greindi ekki barnaverndaryfirvöldum frá meintum brotum í viðtölum, hvorki á árinu 2009 né á árinu 2011. Fram kom hjá vitninu Í, sem ræddi við hana á árinu 2011 vegna vanlíðunar hennar, að brotaþoli hafi haft áhyggjur af því að dóttir sambýliskonu föður hennar væri ranglega að tala um að henni hefði verið nauðgað og óttaðist illt umtal í kjölfarið.  Fram er komið hjá vitnum í málinu, fjölskyldu brotaþola og öðrum, að engar grunsemdir hafi verið uppi um að brotaþoli sætti kynferðislegri misnotkun af hálfu ákærða. Bar B fyrir dómi að hún hefði orðið hissa og reið við að heyra að ákærði hefði brotið gegn brotaþola líka. Hún hafi fyrst orðið vör við að brotaþola stæði stuggur af ákærða um jólin þegar hún hafi verið að flytja til systur þeirra á [...] en þá hafi hann sífellt verið að hringja í brotaþola. Segir brotaþoli sjálf frá því tilviki sem hér um ræðir í skýrslu sinni. Þá urðu kennarar brotaþola varir við vanlíðan brotaþola en tengdu hana fyrst og fremst við erfiðan skilnað foreldra hennar. Í vottorði umsjónarkennara hennar, Á, kemur fram að eftir að brotaþoli hefði flutt til [...] til systur sinnar væri hún allt önnur manneskja en sú sem þangað fór nokkrum mánuðum fyrr. Að öðru leyti um líðan hennar er vísað til framburðar L, E og Z, sálfræðings sem hafði hana til meðferðar eftir að meint brot áttu sér stað.

Eins og rakið hefur verið leiddi læknisskoðun í ljós að meyjarhaft brotaþola var órofið. Fram kemur í vottorði F, sálfræðings og í framburði hennar fyrir dómi að brotaþoli hafi óttast það mjög að vegna þess yrði henni ekki trúað.  Áður er lýst notkun brotaþola á orðinu „nauðgun“. Þykir að mati dómsins ljóst að með því lýsir hún öðrum kynferðismökum en samræði. Samkvæmt framburði vitnisins H, læknis, sem framkvæmdi skoðunina, lýstu börn því oft að eitthvað hefði verið sett inn í kynfæri þeirra en í raun og veru sé einungis um að ræða nudd á ytri kynfærum eða á milli skapabarma. Börnin upplifi það engu að síður eins og innþrengingu. Þegar op sé aðeins 3-4 millimetrar að þvermáli sé útilokað að getnaðarlimur hafi farið inn í leggöng. Einnig kom fram hjá vitninu að ákærði hafi getað fengið fullnægingu og fróað sér á kynfærum brotaþola engu að síður.

Eins og áður segir hefur ákærði neitað sök hjá lögreglu og fyrir dómi. Hann kvaðst hafa neytt áfengis ótæpilega á þeim tíma er hann kynntist móður stúlknanna og flutti inn til fjölskyldunnar að C. Hann hafi hins vegar endurfæðst til nýrrar trúar fyrir tveimur árum og tekið upp skírlífi. Hann bar að brotaþoli hafi verið erfitt barn en samskipti þeirra þó góð. Á milli þeirra hafi ríkt trúnaður. Hún hafi leitað í hann og verið þurftafrek. Að mati dómsins eru ýmis atriði sem draga úr trúverðugleika ákærða. Þrátt fyrir að hann hafi borið um að hann hafi vegna andvaraleysis móður í uppeldismálum og skapgerðarbresta, talið sér skylt að leiðbeina brotaþola að einhverju leyti um kynferðismál og blæðingar, þykir athygli hans og vangaveltur um þessi atriði, að teljast óeðlileg. Vék hann að því að brotaþoli hafi viljað vera eins og „alvöru kona“ eftir að hún byrjaði á blæðingum og klæddi sig á ögrandi hátt. Þá hafi hún haft í frammi ögrandi kynferðislega tilburði gagnvart honum og verið afbrýðissöm þegar hann sýndi henni ekki næga athygli. Þykja þessi áhersluatriði ákærða og tilvísanir ekki endurspegla þá umhyggju og föðurhlutverk gagnvart brotaþola sem hann sagði samskipti hans við hana hafa einkennst af. Þá er það jafnframt í þversögn við hvernig hann ávarpaði hana í Skype samskiptum með orðunum „SEXYYYYY“ og ítrekuðum ástarjátningum. Það styður alls ekki að honum hafi ofboðið hegðun brotaþola eins og hann heldur fram. Eru þessi samskipti manns um fertugt annars vegar og hins vegar stúlkubarns á aldrinum átta til þrettán ára afar óeðlileg.

Til þess er að líta að brotaþoli forðaðist samskipti við ákærða þegar hann var á [...], jafnvel þótt hún hafi svarað honum á Skype ber ákærði sjálfur um að hún hafi ekki viljað tala við hann, skellt á hann eða ekki svarað síma. Samræmist þetta ekki því sem hann hefur áður borið um eðli samskipti þeirra. Móðir brotaþola bar um að A hafi ekki viljað að ákærði kæmi til þeirra eftir að þær mæðgur fluttu að D. Hins vegar hafi orðið úr að hann hafi komið en kvað hún það hafa verið með vilja brotaþola. Eftir að ákærði flutti til [...] vandi hann komur enn á heimili brotaþola. Framburður hans um kynferðislegt samband hans við móður brotaþola hefur ekki verið á einn veg og sjálf neitaði hún slíkum samskiptum við hann. Þegar litið er til framburða brotaþola og vitnisins L töldu þau hann hafa verið einhvers konar kærasta. Þá er óljós frásögn hans af sjúkdómi sem hamlaði honum í kynlífi og engum gögnum studd. Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði í reynd haft lítið á heimilið að sækja enda viljað komast sem lengst í burt frá móður brotaþola sem hafi verið ákaflega erfið. Verður þannig ekki séð að ástæða heimsókna hans hafi verið föðurleg umhyggja í garð brotaþola, sem hann þó heldur fram, heldur stjórnast af öðrum hvötum. Er til þess að líta að hann hélt áfram að leita eftir samskiptum við hana þrátt fyrir að hún færðist undan.

Í þessu sambandi er vísað til skýrslu og framburðar G, sálfræðings og þess sem þar kemur fram um þá sýn sem ákærði hafði á hegðun og kynþroska brotaþola. Bendir hann á að slíkar hugsanir séu vel þekktar meðal manna með barnahneigð, þ.e. að börnin lokki þá kynferðislega og að börnin vilji stunda/prófa kynlíf. Ákærði neiti að vera með barnagirnd en viðhorf hans gefi þó aðra mynd og matsmaður telur flest benda til að hann hafi kynferðislegan áhuga á stúlkubörnum. Vitnið Ó geðlæknir, bar á saman veg um það sérstæðan áhuga hans á brotaþolum báðum sem beindist að kynþroska þeirra og hrifningu á honum.

Að virtum framburði brotaþola, ákærða sjálfs og vitna í málinu liggur fyrir að ákærði dvaldi langdvölum að C og kom reglulega á heimilið eftir að hann flutti til [...] haustið 2009. Jafnframt kom hann á heimilið að D en ákæra lýtur að meintum brotum ákærða gegn brotaþola á báðum stöðum eins og nánar er tilgreint.

 Þegar allt framangreint er metið heildstætt og litið til trúverðugs framburðar brotaþola annars vegar og hins vegar ótrúverðugs framburður ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi, telur dómurinn að leggja beri framburð brotaþola til grundvallar úrlausn þessa kafla ákæru. Telur dómurinn að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þau brot gagnvart A sem honum eru gefin í sök. Verða einnig að mati dómsins dregnar ákveðnar ályktanir af hegðan ákærða gagnvart brotaþola sem fá stoð í skýrslu og framburði G eins og rakið hefur verið.

Samkvæmt þessum kafla ákæru eru ákærði talinn hafa gerst brotlegur við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Brot hans eru talin rétt heimfærð til ákvæðisins að öðru leyti en því að það athæfi að kyssa brotaþola tungukossum á munninn verður fellt undir 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Þá er eins og verknaðarlýsingu er háttað, samanborið við frásögn brotaþola sjáfs talið að það athæfi ákærða að reyna að láta brotþola snerta á sér kynfærin verði heimfært undir 2. mgr. 202. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 202 gr. og 2. mgr. 202. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

B

Ákæruliður II.

Ákærða eru í þessum kafla ákæru gefin að sök kynferðisbrot framin að C í [...] gegn B, fæddri [...] 1995, með nánar tilgreindum hætti, en brotin eru talin hafa átt sér stað um sumarið 2008 og um haust sama ár fram til 14. desember 2010. Ákærði neitar þessum sakargiftum.

Brotaþoli skýrði fyrst frá brotum ákærða gagnvart sér í vitnaskýrslu hennar hjá lögreglunni í Reykjavík hinn 21. janúar 2013 í tengslum við rannsókn á meintum brotum ákærða gagnvart A systur hennar. Fyrst hafi ákærði byrjað að kyssa hana á munninn og reynt að setja tunguna upp í hana. Þá greindi hún tilviki um sumarið 2008 og ákærði var fótbrotinn en þá hafi hann leitað á hana þar sem hún lá í sófanum og horfði á mynd. Hann hafi „byrjað eitthvað að reyna að káfa á mér og svo farið í klofið“. Tilvikin hafi verið fleiri þar sem hann reyndi að káfa á henni og að fá hana til þess að snerta á sér getnaðarliminn. Þá greindi hún frá því að ákærði hefði sofið við hlið hennar í rúmi hennar eftir að hann náði sér eftir fótbrot í febrúar 2008. Hún hafi verið 12-13 ára. Hann hafi strokið henni um brjóst og inn undir buxur og reynt að setja fingur í leggöng. Þetta hafi gerst oftar en 10 sinnum. Síðasta skiptið hafi verið í lok árs 2010 en þá var hún nýorðin 15 ára.

Í tilefni þess sem fram hafði komið og eftir að faðir brotaþola hafði lagt fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gegn henni, var skýrsla tekin af brotaþola þann 29. janúar 2013. Ítrekaði hún það sem fram hafði komið í fyrri skýrslu sinni en bar einnig um að brot ákærða hafi ágerst frá sumrinu 2008, hann hafi nánast á hverju kvöldið káfað á henni „að neðan“ og stundum tekist að setja fingur í leggöng. Haustið 2008 hafi hann byrjað að hafa við hana samfarir. Brotaþoli gat ekki sagt með fullri vissu hversu oft hann hefði haft við hana samfarir en taldi það hafa verið reglulega, um 10-15 skipti, ef til vill oftar. Á öðrum stað nefndi hún að samfarir hefðu verið u.þ.b. aðra hverja viku. Eftir að ákærði hafi fengið vinnu á [...] hafi þetta gerst sjaldnar en þegar hann hafi komið um helgar og um jól hafi hann verið inni hjá henni og þá hafi hann brotið gegn henni.

Fyrir dómi bar brotaþoli í meginatriðum á sama veg um meint brot ákærða og hjá lögreglu en greindi þar einnig frá brotum kærða sem ákæra tekur ekki til. Hún greindi frá því tilviki sem átti sér stað í stofunni sumarið 2008 og hann káfað á kynfærum hennar utanklæða. Nokkrum dögum síðar hafi hann haldið uppteknum hætti, káfað á kynfærum innan- og utanklæða og sett fingur í leggöng. Hann hafi sífellt verið að káfa á brjóstum hennar og kysst hana. Um sumar og fram að hausti hafi þetta ágerst, að jafnaði verið tvisvar í viku og stundum oftar, þar til kærði hafi byrjað að hafa samfarir við hana í rúmi hennar og tekið liminn út áður en honum varð sáðfall og notað tusku. Brotin hafi haldið áfram og ávallt átt sér stað þegar hann var þar staddur. Hann hafi komið um helgar og jafnvel í miðri viku eftir að hann flutti til [...] fram til 15 ára aldurs.

Að mati dómsins var framburður brotaþola fyrir hjá lögreglu og fyrir dómi mjög trúverðugur. Var ljóst að henni reyndist erfitt að gefa skýrslu sína sem þrátt fyrir það var hiklaus og brotaþoli svaraði greiðlega öllum spurningum. Þykir ekkert draga úr trúverðugleika framburðar brotaþola. Það að hún hafi ekki greint frá öllu í fyrstu skýrslutöku á sér skýringar. Þá var það í fyrsta sinn sem tjáði sig á þennan hátt  um meint brot kærða. Brotaþoli bar að ákærði hefði sagt við hana að ef upp kæmist um samskipti þeirra myndi hann lenda í fangelsi. Kvað hún ástæðu þess að hún hefði ekki greint frá því sem gerðist hafa verið þá að hún óttaðist illt umtal svo og að fenginni reynslu og reiði móður sinnar. Var seinna atriðið jafnframt skýring þess að hún vildi ekki kannast við að ákærði bryti gegn henni þegar barnaverndaryfirvöld fylgdu eftir tilkynningum um óeðlileg samskipti þeirra, m.a. vegna þess að hún og ákærði deildu rúmi. Einnig nefndi hún að barnaverndaryfirvöld hefðu brugðist sér þegar hún leitaði til þeirra og vildi flytja til föður síns. Þá kvaðst brotaþoli ekki heldur hafa viðurkennt óeðlileg samskipti ákærða við hana fyrir L systur sinni þegar hún leitaði eftir skýringum. Móðir hennar hafi engar athugasemdir gert og hafi brotaþola fundist sem hún hefði í reynd „ekkert um þetta að segja.“ Þá hafi það verið staðreynd að ákærði hefði haft góð áhrif á móður hennar og stjórn á skapofsa hennar og hafi „heimilislífið farið eftir því hvernig skapi hún var í.“ Þegar hann hafi verið á heimilinu hafi ástandið verið betra. Brotaþoli hallmælti ákærða ekki. Hún kvað hann í fyrstu hafa verið þeim systrum afar góður, komið fram sem uppalandi og reynt að gera allt fyrir þær. „Síðan hafi hann allt í einu farið að vera bara of góður“ og í reynd sýnt þeim meiri áhuga en móður þeirra.  Hún kvaðst þó ekki muna eftir því að hann hafi sýnt blæðingum hennar sértakan áhuga en hafi verið meðvitaður um að þær byrjuðu báðar á blæðingum um 10 ára aldur og hafi þótt það undarlegt. Að mati dómsins þykir það ekki draga úr trúverðugleika brotaþola að ekki hafi verið samræmi í svörum hennar þegar hún var spurð um fjölda þeirra tilvika er ákærði hafði við hana samræði. Hafa ber í huga að hún greindi frá þessu í fyrsta sinn í skýrslutöku hjá lögreglu, 29. janúar 2013, og svo fyrir dómi, 8. apríl 2014. Þá var hún aðeins barn þegar atvik áttu sér stað en tímaskyn þeirra er annað en hjá fullorðnum. Greindi hún jafnframt frá því að hún hefði verið talsvert hjá systur sinni á [...] á því tímabili sem meint brot áttu sér stað. Þá hefði ákærði farið í eitt skipti í ferð til [...].

Fram kom hjá brotaþola að hún hefði greint vitninu I barnsföður sínum í júní eða júlí 2012 að ákærði hefði reynt að brjóta gegn henni. Staðfesti hann þetta fyrir dómi og kvað hann hafa sagt að ákærði hafi sofið í rúmi hennar og sífellt leitað á hana en hún náð að hrinda honum frá sér. Að mati dómsins eru skýringar brotaþola á því hvers vegna hún sagði honum ekki frá öllu einnig trúverðugar en hún kvaðst hafa verið nýlega komin í samband með honum og óttaðist að hann yfirgæfi hana. Þá er skýr framburður vitnisins O sálfræðings um að mikil vanlíðan brotaþola geti ekki stafað af skilnaði foreldra hennar, heldur fyrst og fremst vegna brota ákærða gagnvart henni, einnig til þess fallinn að renna stoðum undir það álit dómsins að brotaþoli sé trúverðugt vitni um þau atvik sem hér er ákært fyrir.

Á meðal gagna málsins er skýrsla vitnisins O sálfræðings, sem brotaþoli leitaði til vegna meintra brota, en hún kom jafnframt fyrir dóminum til skýrslugjafar eins og áður hefur komið fram. Þar kemur fram að brotaþoli var greind með áfallastreituröskun sem uppfyllti öll greiningarskilmerki áfallastreituröskunar í kjölfar kynferðisofbeldis. Við komu hafi hún glímt við alvarlegan kvíða og þá sérstaklega varðandi það er laut að meintu kynferðisofbeldi. Hún hafi verið þjökuð af skömm og hafði ákveðið að „þrauka“ og tala aldrei um það sem gerst hafði, en það hefði breyst eftir að systir hennar greindi frá meintum brotum ákærða.  

Að öðru leyti um mikla vanlíðan brotaþola er vísað til framburðar vitnanna K föður hennar, L systur hennar, I barnsföður hennar, P og N, sálfræðinga en hjá þeim var brotaþoli í viðtölum, á árunum 2010-2011 hjá P en hjá N á árunum 2012-2013. Í viðtölunum voru meint brot þó ekki sérstaklega rædd.

Ákærði neitaði sök við skýrslutökur hjá lögreglu og fyrir dómi. Hann kannaðist við að hafa sofið í rúmi B með vitund móður hennar sem hann þó hafi verið í kynlífssambandi við. Er vísað til umfjöllunar í I. kafla ákæru um þetta atriði. Jafnframt bar hann um að hafa snert brjóst og rass brotaþola en hvorki innanklæða né í kynferðislegum tilgangi.   Að mati dómsins eru ýmis atriði sem þykja draga úr trúverðugleika ákærða. Spurður um ástæðu þess að hann svaf í rúmi brotaþola vísaði hann á brotaþola og móður hennar. Nánar spurður kvað hann brotaþola hafa krafist þess en það hafi ekki verið í kynferðislegum tilgangi. Þá vísaði ákærði til leiðbeinandi hlutverks síns gagnvart brotaþola í tengslum við kynþroska og kynferðislega tengd málefni. Sjálf kannaðist brotaþoli ekki við þesskonar nálgun. Varðandi þetta atriði og túlkun ákærða á afbrýðisemi brotaþola vísast til umfjöllunar um trúðverðugleika ákærða hér að framan í tengslum við I. kafla ákæru.

Hjá lögreglu og fyrir dómi greindi ákærði frá Skype samskiptum brotaþola við sig er hún beraði sig fyrir honum. Skýringar hans um ástæðu þess eru fjarstæðukenndar m.a. kvaðst hann hafa beðið hana um það til þess að geta sýnt hvernig hún hagaði sér. Fyrir dómi lýsti hann því hvernig hún hefði legið á rúminu, hagað sér „eins og algjör madame“, sýnt brjóst sín og lýst kynferðislegum samskiptum sínum við stráka. Þó ákæra lúti ekki að atviki þessu þykir þetta atvik ekki lýsa hegðun einstaklings sem taldi sig gegna föðurhlutverki gagnvart brotaþola heldur vísbending um annarlegar hvatir. Aðspurð kvað brotaþoli ákærða oft hafa beðið hana um að bera sig fyrir framan vefmyndavél og það hefði hún gert einu sinni eða tvisvar sinnum.

Þá er vísað til skýrslu og framburðar G, sálfræðings og Ó geðlæknis eins og rakið er í tengslum við I. kafla ákæru, til stuðnings mati og ályktunum dómsins varðandi ótrúverðugleika ákærða.

Eins og áður hefur komið fram dvaldi ákærði langdvölum að C. Framburður hans um hve lengi sú dvöl var, var hvarflandi hjá lögreglu og fyrir dómi. Þó bar hann um það fyrir dómi að hafa deilt rúmi með henni í um þrjá mánuði á því tímabili er hann var fótbrotinn. Hann hafi þó verið að mestu að C í heilt ár á meðan hann var að jafna sig. Fyrir liggur að ákærði fór til starfa til [...] í september 2009 en kom eftir það í heimsókn. Um þetta hefur ákærði sjálfur og vitni borið en framburður ákærða hefur verið hvarflandi um hversu oft það hafi verið. Móðir brotaþola bar að ákærði hefði verið  oft verið í rúmi brotaþola, oft hafi hann sofið þar næturlangt eða verið kominn í rúm hennar þegar vitnið vaknaði morguninn eftir. Hafi þetta átt bæði við þegar hann bjó hjá þeim og þegar hann var í heimsóknum. Þá bar vitnið L um að hafa séð ákærða í rúmi brotaþola á árinu 2009. Einnig bar brotaþoli A að ákærði hafi sofið þar inni og vitnið É, bróðir brotaþola um að hann hefði farið þangað inn til að sofa. Þá liggur fyrir samkvæmt framburði brotaþola sjálfs svo og vitna í málinu að ákærði hafi horft þar mikið á myndir á tölvunni með henni og systur hennar.

Þegar allt framangreint er metið heildstætt og litið til trúverðugs framburðar brotaþola annars vegar og hins vegar ótrúverðugs framburður ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi, telur dómurinn að leggja beri framburð brotaþola til grundvallar úrlausn þessari samkvæmt 1.-4. lið I. kafla ákæru að undanskildu því sem rakið verður hér á eftir. Þá fær framburður brotaþola stoð af skýrslu O, sálfræðings. Telur dómurinn að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þau brot gagnvart B sem honum eru gefin í sök. Verða einnig að mati dómsins dregnar ákveðnar ályktanir af hegðan ákærða gagnvart brotaþola sem fá stoð í skýrslu og framburði G eins og rakið hefur verið.

Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök í II. kafla ákæru, samkvæmt 1., 2. tl. og 4. tl. og eru þau rétt færð til refsiákvæða í ákærunni. Í 3. tl. ákærunnar er ákærði ákærður fyrir að hafa haft samræði við brotaþola frá haustið 2008 til 14. desember 2012. Áður er komist að þeirri niðurstöðu að ekki dragi úr trúverðugleika brotaþola þó ekki hafi verið samræmi í framburði hennar hjá lögreglu og fyrir dómi um fjölda skipta er ákærði hafði við hana samræði. Þrátt fyrir þennan óskýrleika þykir mega leggja til grundvallar að ákærði hafi haft samræði við brotaþola allt að aðra hverja viku þ.e. tvisvar í mánuði. Því er ekki talið sannað að hann hafi „að minnsta kosti“ haft samræði við hana aðra hverja viku á þessu tímabili Brot ákærða samkvæmt samkvæmt þessum tölulið ákæru eru rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

C.

Engum blöðum um það að fletta að aðstæður brotaþola voru erfiðar á þeim tíma er ákæran tekur til. Vanlíðan móður þeirra og skeytingarleysi í kjölfar skilnaðar við föður þeirra kom niður á þeim báðum sem varð til þess að þær urðu mun berskjaldaðri gagnvart brotum ákærða en ella hefði verið. Þá er framkomið að bæði kennurum og barnaverndaryfirvöldum þótti bersýnileg vanlíðan brotaþola en tengdu skilnaði foreldranna. Þetta staðfesta meðferðaraðilar brotaþola einnig.

 Ekkert bendir til þess að brotaþolar hafi sammælst um framburð eða yfirleitt rætt þessi mál áður en þær gáfu skýrslur sínar hinn 21. janúar 2013, B á lögreglustöðinni í Reykjavík en A í Barnahúsi.

Fram kom í framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi að hann teldi K föður brotaþola standa á bakvið kærur þessar og réði bæði hefndarhugur og fjárhagslegar ástæður. Í málinu er hins vegar ekkert sem að styður að svo sé.

Ákærði hefur ekki unnið til refsingar svo vitað sé en hann er hér fundinn sekur um alvarleg margendurtekin kynferðisbrot gegn tveimur börnum sem stóðu yfir í langan tíma er hann dvaldi sem gestur á heimili þeirra. Nýtti hann sér aðstöðumun sinn og trúnaðartraust þeirra og á sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar er litið til 1., 4. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing hans, sem ákveðst með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár. Til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans eins og í dómsorði greinir.

Þá hefur réttargæslumaður f.h. J vegna ólögráða dóttur hennar A krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafist miskabóta að fjárhæð 4.000.000 króna auk vaxta. Er vísað til þess að brotaþoli hafi orðið fyrir kynferðisbrotum af hálfu ákærða. Hafi verknaðurinn leitt til verulegs tjóns fyrir brotaþola. Með sömu rökum hefur réttargæslumaður f.h. B krafist miskabóta að fjárhæð 4.000.000 króna auk vaxta. Um lagarök er í báðum tilvikum vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til niðurstöðu um sakfellingu fyrir kynferðisbrot er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið brotaþolum miska. Eiga þær rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins og dómvenju á réttarsviðinu eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 2.500.000 krónur til hvors brotaþola um sig. Fjárhæð dæmdra skaðabóta ber vexti eins og í dómsorði greinir.

Loks verður ákærða með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 gert að greiða sakarkostnað, samkvæmt yfirliti ákæruvalds auk kostnaðar vegna tveggja vitna, en málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola samkvæmt ákvörðun dómsins. Þær greiðslur þykja hæfilega ákveðnar að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði. Jafnframt verður ákærða gert að greiða ferðakostnað verjandans.

Við uppkvaðningu dóms er gætt ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó MS O R Ð

Ákærði, Robert Czarny, sæti fangelsi í fjögur ár en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 18. janúar 2013 til 6. febrúar 2013.

Ákærði greiði J f.h. A 2.500.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2008 til 23. nóvember 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B, 2.500.000 króna í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2008 til 5. ágúst 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags..

Ákærði greiði 976.414 krónur í sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara, málsvarnarlaun verjanda síns Inga Tryggvasonar hrl. 1.405.600 krónur að viðbættum aksturskostnaði að fjárhæð 141.653 krónur og þóknun réttargæslumanna brotaþola Auðar Harnar Freysdóttur hdl. 643.750 krónur auk ferðakostnaðar að fjárhæð 123.100 krónur og Gunnhildar Pétursdóttur hdl. 553.338  krónur auk ferðakostnaðar að fjárhæð 38.336 krónur.