Print

Mál nr. 98/2012

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Sératkvæði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2012.

Nr. 98/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Unnar Steinn Bjarndal hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sératkvæði.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. febrúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. febrúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. mars 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili viðurkennt að hafa ráðist á brotaþola með hnífi. Kemur fram í vottorði  sérfræðings á slysa- og bráðasviði Landspítalans að brotaþoli hafi hlotið allstórt stungusár á vinstri síðu sem valdið hafi áverka á nýra og milta. Þegar sárið sé skoðað á sneiðmynd megi gera ráð fyrir að það sé að lágmarki 6-8 cm djúpt. Verði áverkarnir að teljast lífshættulegir og hafi tilviljun ráðið því að stungan lenti ekki í stærri æðum sem hefði getað valdið mikilli blæðingu og ef nýrnaslagæðin eða miltisslagæðin hefðu skorist í sundur hefði brotaþola getað blætt út á stuttum tíma. Brotaþoli fór í aðgerð eftir árásina og var miltað fjarlægt úr honum vegna blæðingar auk þess sem gera þurfti að slagæðablæðingu kringum nýra.

Að því virtu sem að framan er rakið en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Svo sem fram kemur í atkvæði meirihlutans er varnaraðili sakaður um að hafa veitt brotaþola mjög alvarlega áverka með hnífi. Svo sem þar greinir liggur fyrir í málinu vottorð sérfræðings á Landspítala um að áverkarnir hafi verið lífshættulegir.

Gæsluvarðhaldskrafa sóknaraðila er eingöngu studd við 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt lagaákvæðinu þurfa þrjú skilyrði að vera uppfyllt til þess að krafa um gæsluvarðhald verði tekin til greina. Leika þarf sterkur grunur á að sakborningur hafi framið brot sem varðað getur 10 ára fangelsi. Þá þarf brotið að vera þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Ég tel tvö fyrrnefndu skilyrðin um sterkan grun og alvarleika brotsins uppfyllt fyrir kröfu sóknaraðila. Vandasamara er að leysa úr því hvort gæsluvarðhald geti talist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Sóknaraðili hefur ekki fært fram sérstök rök fyrir því að þessu skilyrði sé fullnægt. Brotaþoli hefur sjálfur borið að hann hafi átt upptökin að átökunum, fyrst við kærustu varnaraðila og svo varnaraðila sjálfan. Í málsgögnum kemur fram að brotaþoli hafði að mun meiri líkamsburði en varnaraðili sem átti í vök að verjast í átökunum. Leiddi þetta til þess að varnaraðili greip til þess óyndisúrræðis að bregða hnífnum á brotaþola. Tel ég að þessi aðdragandi skipti máli við mat á því hvort hið ætlaða brot varnaraðila sé þess eðlis að almannahagsmunir krefjist gæsluvarðhalds yfir honum. Með vísan til sjónarmiða sem fram koma í dómum Hæstaréttar 9. febrúar 2001 í máli nr. 45/2001 og 10. janúar 2003 í máli nr. 7/2003, sem og forsendum í dómi réttarins 22. janúar 2009 í máli nr. 32/2009 liggur að mínum dómi ekki fyrir að gæsluvarðhald yfir varnaraðila sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt þessu tel ég að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.

                                                   

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. febrúar 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], [...], [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. mars 2012, kl. 16.

Kærði mótmælir kröfunni. Hann krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en krafist er.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú tilraun til manndráps eða eftir atvikum alvarlega líkamsárás X á A utan við [...] í [...] aðfaranótt föstudagsins 3. febrúar sl.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafi lögreglumenn komið á staðinn stuttu eftir tilkynningu um árásina og fundið brotaþola þar sitjandi á gangstétt til móts við [...] og hafi hann haldið um stórt sár á vinstri síðu. Aðspurður hafi brotaþoli sagst hafa verið stunginn nokkrum sinnum í síðuna af pólskum manni en með honum hafi verið dökkhærð stúlka og eftir árásina hafi þau farið inn í íbúð B á fyrstu hæð í [...].

Kærði og C hafi í framhaldinu verið handtekin og hafi þau bæði verið mjög vímuð og X æstur. Við handtökuna hafi C skýrt frá því að til átaka hafi komið milli hennar og brotaþola á bifreiðarstæðinu en hún hafi verið á bifreið hans, [...], í leyfisleysi. Hún hafi kallað eftir hjálp og X þá komið og þeir tekist á. Hún hafi hlaupið inn í íbúð B og X komið þangað stuttu síðar í mikilli geðshræringu og sagt henni að hann hafi stungið brotaþola. X hafi rétt henni hníf sem hún myndi ekki hvað hún hafi gert við. Í framburði C hafi komið fram að X væri mikill hnífaáhugamaður og gengi oftast nær um með hníf á sér.

Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði viðurkennt að hafa stungið brotaþola með hníf sem hann hafi haft á sér. Hafi kærði sagst hafa farið að skipta sér af brotaþola sem hafi veist að C á bifreiðastæði [...]. Í framhaldi hafi kærði veist að sér, og kýlt sig margsinnis í andlit, hann hafi reynt að komast undan honum, inn í stigagang fjölbýlishússins, en maðurinn hafi elt hann og C þangað. Þar sagði kærði að brotaþoli hafi sparkað ítrekað í hann. Kærði hafi sagst hafa orðið hræddur um að maðurinn myndi drepa hann og því hafi hann  teygt sig í vasahníf, sem hann hafi verið með, og hafi stungið manninn tvisvar í löppina, ef til vill í lærið. Kærði kvaðst hafa stungið manninn í sjálfsvörn en þrátt fyrir það kannaðist hann ekki við að hafa reynt að fá aðstoð lögreglu eða slíkt. Kærði hafi ekki verið með áberandi áverka. Kærði kvaðst hafa verið undir áhrifum morfíns þegar árásin átti sér stað.

Við leit í íbúð [...] að [...] hafi fundist hnífur sem tekinn hafi verið til rannsóknar. Sé um að ræða sjálfskeiðung með 8 cm löngu blaði. Hafi sjáanlegt rauðleitt kám verið á blaði hnífsins sem tekið hafi verið sýni af. Við staðfestingaprófun hafi komið í ljós að blóðið á hnífnum hafi verið mannsblóð.

Rannsókn málsins sé langt á veg komin en kærði liggi samkvæmt framansögðu undir sterkum grun um að hafa ráðist á A með hnífi og stungið hann í síðuna, með þeim afleiðingum að brotaþoli hafi hlotið tvö grunn stungusár framanvert á kvið en aftanvert á hægri síðu hafi hann hlotið stungusár sem hafi verið um 2 cm á breidd og að lágmarki 6-8 cm djúpt. Hnífurinn virðist hafa gengið á milli rifja, inn í nýrað og virtist hafa sært miltað. Það sé mat D sérfræðings á slysa- og bráðasviði Landspítalans að um lífshættulega áverka sé að ræða og tilviljun hafi ráðið því að ekki fór verr. Kærði hafi viðurkennt að hafa ráðist á brotaþola umrætt sinn. Með hliðsjón af því, framburði vitna og öðrum gögnum málsins telji lögregla sterkar líkur á að kærði hafi ráðist á brotaþola umrætt sinn og valdið honum framangreindum áverkum.

Brot kærða sé sérstaklega alvarlegt og talið varða við 211. gr., sbr. 20 gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og kunni að varða 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu. Þá verði að telja brot kærða í eðli sínu þess eðlis að almannahagsmunir krefjist þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Með vísan til alls þess sem rakið er að framan og gagna málsins er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað allt að 10 ára fangelsi. Enn fremur er fallist á það að brot það sem kærði er grunaður um að hafa framið sé mjög alvarlegt, þannig að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, kt. [...] sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. mars 2012, kl. 16:00.