Hæstiréttur íslands

Mál nr. 429/2016

Magnús S. Norðdahl (Guðrún Bergsteinsdóttir hdl.)
gegn
LS Retail Holding ehf. (Viðar Lúðvíksson hrl.) og ALMC hf. (Reimar Pétursson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Sakarefni
  • Gerðardómur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli M gegn LS ehf. og A hf. var að hluta vísað frá dómi. Í málinu krafðist M þess að LS ehf. yrði gert að greiða honum nánar tilgreinda fjárhæð á grundvelli kaupréttarsamnings sem hann hafði gert við félagið og kvað á um hlutdeild hans í söluandvirði dótturfélags LS ehf. Sala dótturfélagsins hafði verið samþykkt á hluthafafundi LS ehf. með atkvæðum A hf., sem átti meirihluta í LS ehf. Þá hafði hann jafnframt uppi skaðabótakröfu á hendur LS ehf. og A hf. í sameiningu á þeim grundvelli að söluverð dótturfélagsins hefði verið langt undir markaðsvirði. LS ehf. og A hf. kröfðust frávísunar málsins á þeirri forsendu að M hefði með samhljóða ákvæðum í kaupréttar- og hluthafasamningi samið um að ágreiningurinn ætti undir gerðardóm. Talið var að gerðardómsákvæði framangreindra samninga uppfylltu áskilnað laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Þá fælu ákvæðin ekki aðeins í sér heimild, heldur skyldu til þess að leita úrlausnar gerðardóms um ágreining sem samningarnir tækju til. M hefði skuldbundið sig gagnvart A hf. til að leysa úr ágreiningnum fyrir gerðardómi með kaupréttarsamningnum og yfirlýsingu í þeim samningi um að virða ákvæði hluthafasamkomulagsins. Var talið að ágreiningur málsins félli samkvæmt efni sínu undir gerðarsamningana og var ekki tekið undir sjónarmið M um að samningsforsendur aðila hefðu brostið eða víkja bæri gerðardómsákvæðum til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Loks var ekki talið að gerðardómsmeðferðin kæmi í veg fyrir að M gæti aflað sönnunargagna í málinu. Samkvæmt þessu, svo og dómum Hæstaréttar í málum nr. 246 og 247/2016, átti ágreiningur aðila undir lögsögu gerðardóms og var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að vísa kröfum M frá dómi.

Dómar Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var að hluta vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið í heild til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í málinu liggur fyrir afrit kaupréttarsamnings sem sóknaraðili mun hafa gert við varnaraðilann LS Retail Holding ehf. 21. október 2010. Í grein 1.6. samningsins sagði  að í viðauka með honum fylgdi hluthafasamningur og hafi sóknaraðili kynnt sér vandlega efni samningsins og fallist á skilmála hans. Af kaupréttarsamningnum má ráða að varnaraðilinn ALMC hf. var aðili að greinum 4.1.1., 4.2. og 4.3. og er samningurinn undirritaðir af hálfu varnaraðilans því til staðfestingar.  

Sóknaraðili fékk útgefna réttarstefnu í máli þessu 14. september 2015. Um skaðabótakröfu þá, er sóknaraðili hefur uppi á hendur varnaraðilum sameiginlega, segir í stefnunni að hún sé meðal annars á því byggð að við sölu á LS Retail ehf. hafi varnaraðilar verið bundnir af orðalaginu velheppnuð sala (e. successful) í áðurnefndri grein 4.2. í kaupréttarsamningnum og að verð félagsins skyldi ávallt endurspegla það verð sem félagið yrði selt á til þriðja aðila á raunverulegu markaðsverði (e. arms length basis). Vísar sóknaraðili í því sambandi nánar til greinar 4 og 5 í hluthafasamningnum. Til frekari skýringar á skaðabótakröfu sinni vísar sóknaraðili til þess að bæði í kaupréttarsamningnum og hluthafasamningnum komi skýrt fram að öll viðskipti skyldu miðast við samninga við óskylda aðila. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili hagað málatilbúnaði sínum á þann veg að við úrlausn skaðabótakröfu hans á hendur varnaraðilanum ALMC hf. reynir bæði á túlkun greinar 4.2. í kaupréttarsamningnum, sem sá varnaraðili er aðili að eins og áður greinir, og túlkun hluthafasamningsins, sem óumdeilt er að fyrrgreindur varnaraðili er aðili að. Svo sem rakið er í dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2016 í málum nr. E-2785/2015 og E-3170/2015, sem staðfestir voru með dómum Hæstaréttar 6. maí 2016 í málum nr. 246 og 247/2016, á ágreiningur sem rekja má til réttinda og skyldna aðila samkvæmt kaupréttarsamningnum og hluthafasamningnum undir lögsögu gerðardóms samkvæmt nánari ákvæðum samninganna þar um. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Magnús S. Norðdahl, greiði varnaraðilum, ALMC hf. og LS Retail Holding ehf., hvorum um sig, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2016.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 11. maí sl., er höfðað með réttarstefnu áritaðri um birtingu 17. september 2015 og þingfest 29. september sama ár. Stefnandi er Magnús Norðdahl, kt. [...], Bröttutungu 2, Kópavogi. Stefndu eru LS Retail Holding ehf., kt. [...], Borgartúni 25, Reykjavík og stjórnarformaður þess félags, Brynjar Þór Hreinsson, kt. [...], ALMC hf. kt. [...], Borgartúni 25, Reykjavík og stjórnarformaður þess félags, Christopher M. Perrin, kt. [...].

I

                Stefnandi krefst þess að staðfest verði með dómi kyrrsetningargerð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu nr. K-16/2005 sem fór fram þann 7. september 2015 í innstæðu á bankareikningi stefnda LS Retail Holding ehf., kt. [...] í Íslandsbanka nr. 0515-38-711909 fyrir allt að fjárhæð 2.085.422 evra og 19.100 kr. til tryggingar eftirfarandi kröfum: 430.580 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 11. júní 2015 til greiðsludags, 1.654.842 evrur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 27. apríl 2015 til 14. september 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 14. september 2015 til greiðsludags, og kr. 19.100 með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 14. september 2015 til greiðsludags.

                Stefnandi krefst þess að stefndi LS Retail Holding ehf. verði dæmt til að greiða stefnanda 430.158 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 11. júní 2015 til greiðsludags.

                Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 1.654.842 evrur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. apríl 2015 til 14. september 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 14. september 2015 til greiðsludags.

                Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda allan málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

                Stefndu krefjast þess að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi og stefndu verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að skaðlausu. Stefndu hafa skilað greinargerðum þar sem einvörðungu er höfð uppi krafa um frávísun málsins frá dómi svo sem heimilt er samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015. Málið var tekið til úrskurðar að loknum málflutningi um þær kröfur þann 8. febrúar sl. Vegna forfalla dómara reyndist ekki unnt að kveða upp úrskurð innan lögbundins frests og var málið því endurflutt þann 11. maí sl. og tekið til úrskurðar að nýju að því loknu.

II

                Stefnandi var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins LS Retail ehf., dótturfélags stefnda LS Retail Holding ehf., síðla árs 2010. Við ráðninguna gerði hann samning við LS Retail Holding um kauprétt í móðurfélaginu. Á svipuðum tíma var 16 öðrum stjórnendum hjá LS Retail verið veittur kaupréttur, þar á meðal Aðalsteini Valdimarssyni, stjórnarformanni LS Retail. Um ári áður en stefnandi kom til starfa hjá LS Retail hafði stefndi ALMC, áður Straumur-Burðarás Fjárfestingarbanki, tekið við eignarhaldi félagsins og stofnaði sérstakt félag, LS Retail Holding ehf., utan um eignarhaldið. Í samþykktum eignarhaldsfélagsins er kveðið á um að tilgangur þess sé eignarhald, meðferð og sala hluta í LS Retail ehf. sem sé eina eign þess. Stefndi ALMC hf. átti allt hlutafé í stefnda LS Retail Holding fram til loka árs 2013 þegar Aðalsteinn Valdimarsson innleyst 6,9% af 7,5% kauprétti sínum á hlutum í félaginu samkvæmt kaupréttarsamningi sínum, sem hann framseldi sama dag til Vita ehf., sem er einkahlutfélag að fullu í eigu Aðalsteins.

                Kaupréttarsamningur stefnanda er gerður 21. október 2010. Samkvæmt 3. kafla samningsins átti stefnandi rétt á að kaupa hluti í LS Retail Holding að nafnverði 10.000 kr., sem samsvari 1% af hlutafé félagsins. Í kaflanum er nánar gerð grein fyrir skilyrðum og kjörum kaupréttarins og mögulegum rétti til frekari kaupréttar að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Kaupréttartímabilið var frá 1. mars til 30. apríl 2015.

                Í 1. kafla samningsins, inngangskafla, segir m.a. að markmið allra samningsaðila sé að selja dótturfélagið innan fimm ára og jafnframt að það sé vilji til að umbuna stefnanda ef virði félagsins aukist á þeim tíma. Þá skuldbindur stefnandi sig skv. grein 5.3 til að aðstoða við sölu dótturfélagsins og er því nánar lýst hvað í þeirri skyldu felst. Þá er í inngangskaflanum vísað til  viðauka 1 við samninginn, sem er hluthafasamningur milli stefnda ALMC og lykilstarfsmanna dótturfélagsins, þ.e. LS Retail, sem nýtt hafa sér kauprétt í félaginu. Segir í grein 1.6 að kaupréttarhafi hafi kynnt sér og fallist á skilmála hans. Jafnframt er tekið fram í grein grein 1.7 að við skýringar á kaupréttarsamningnum sé nauðsynlegt að líta til þess sem fram komi í inngangskaflanum, m.a. framangreinds hluthafasamnings.

                Samningurinn er gerður á ensku. Í 11. gr. samningsins er svohljóðandi ákvæði um úrlausn ágreiningsmála: „This agreement shall be governed by the laws of Iceland. If a dispute arises relating to this agreement, its interpretation, individual articles or other matters which relate to the interaction between the parties to this agreement relating to their holding of shares or call options in the Company, the parties agree to attempt to settle such disputes in good faith. If such settlement cannot be reached, each party can submit such a dispute to arbitration. If a party wishes to submit a dispute to arbitration, he shall notify the disputing party in writing. The matter shall be decided by one (1) arbitrator who shall fulfil the conditions to be appointed as a Supreme Court judge. If the disputing parties cannot agree on an arbitrator, he shall be appointed by the chairman of the Reykjavik district court. The arbitration shall otherwise be in accordance with Act no. 53/1989 on contractual arbitrations. The parties to this agreement irrevocably accept the sole jurisdiction of the arbitration and wave their rights to access to general courts.“

                Í þýðingu löggilts skjalaþýðanda er ákvæðið svohljóðandi: „Samningur þessi lýtur íslenskum lögum.  Komi upp deila er tengist samningnum, túlkun hans eða einstakra ákvæða hans eða samskiptum aðilanna varðandi eignarhald á hlutum eða kauprétt í félaginu, eru aðilar sammála um að leitast við að leysa þann ágreining í góðri trú. Takist það ekki getur hvor aðili lagt deiluna í gerð. Vilji aðili gera svo skal hann tilkynna það deiluaðilanum skriflega. Úr deilunni skal skorið af einum (1) gerðarmanni sem fullnægja skal skilyrðum til að vera skipaður Hæstaréttardómari.  Geti deiluaðilar ekki komið sér saman um gerðarmann skal hann skipaður af dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur. Að öðru leyti skal gerð fara fram samkvæmt lögum nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Aðilar að samningi þessum fallast hér með óafturkallanlega á að gerðardómur eigi einn dómsvald, og afsala sér rétti sínum til að leita til almennra dómstóla.“

                Samningurinn var undirritaður af stefnanda og stefnda LSRH auk þess sem stefndi ALMC hf. undirritar samninginn „með tilliti til ákvæða 4.1.1, 4.2 og 4.3“ eins og segir í samningnum.

                Kaupréttarsamningnum var breytt með samningi 21. desember 2012 og 22. desember 2014. Í fyrri samningnum eru kaupréttur stefnanda hækkaður í 30.000 kr. nafnverð hluta, eða sem svarar til 3% af hlutum í seljanda og felld niður heimild til kaupa á viðabótarhluta sem kveðið var á um í upphaflegum samningi. Með síðari samningnum var kaupréttartímabilinu lengt til 30. apríl 2016.

                Stefnandi kveðst hafa unnið ötullega að því að reyna að selja dótturfélagið á sem hæstu verði. Segir hann gengi fyrirtækisins hafi vaxið mikið á liðnum árum og fleiri en einn aðili verulegan áhuga á að kaupa félagið. Síðari hluta árs 2014 og í byrjun árs 2015 hafi borist þrjú tilboð í félagið, þar sem kaupverð hafi verið á bilinu 25 til 37,5 milljónir evra, og verðmat stjórnarmanns í dótturfélaginu hafi sýnt að vermæti þess gæti verið allt að 89,5 milljónir evra. Í málinu liggja fyrir gögn frá samningaviðræðum við ýmsa aðila sem sýnt höfðu áhuga á kaupum. Þrátt fyrir mikinn áhuga kaupenda á félaginu segir stefnandi að svo hafi farið að stjórn dótturfélagsins hafi slitið viðræðum við félagið Vector Capital, í lok febrúar 2015, með því að neita því um tveggja vikna frest til að ljúka skoðun á félaginu. Að sögn stefnanda hafi samningaviðræður við það félag verið á lokastigi en það sé félagið sem hæst verð hafði boðið. Stefnandi kveðst síðan hafa fengið upplýsingar um það í byrjun apríl að LS Retail hefði verið selt til Anchorage Capital fyrir 17,6 milljónir evra. Hann sjálfur hafi ekki komið að þeirri sölu, ef frá sé talin kynning sem hann hélt fyrir kaupandann og annan mögulegan tilboðsgjafa í London þann 30. mars sama ár.

                Á hluthafafundi LS Retail Holding þann 27. apríl sl. var samþykkt tilboð um kaup á LS Retail fyrir 17.638.600 evrur til Anchorage Capital Group eða heimilaðs framsalshafa. Kaupin voru samþykkt með atkvæðum ALMC hf., sem átti 93,1% hlut í félaginu gegn hörðum mótmælum Vita ehf. sem átti 6,9% hlut í félaginu, en hann taldi kaupverðið vera mun lægra en það sem hægt hefði verið að fá fyrir félagið. Í hlutaskrá LS Retail ehf., hefur Hoxton (Lux) S.à r.l. nú verið skráður eigandi allra hluta í félaginu og dagsetning eigendaskipta er sögð vera 5. júní 2015.

                Í grein 4.2 í framangreindum kaupréttarsamningi er kveðið á um það að ef stefndi LS Retail Holding selji hlut sinn í dótturfélagi sínu, eða ef ALMC selji hluti hluti sína í meðstefnda skuli greiða kaupréttarhafa hlutfallslega fyrir gildan kauprétt sem þegar sé fallin til miðað við mismun á söluverði og áætluðu verðmæti hlutanna skv. grein 3.4 samningsins, svo sem nánar er gerð grein fyrir nefndum ákvæðum samningsins. Þann 11. júní sl. sendi stefndi LSRH stefnanda drög að samningi um uppgjör á kaupréttargreiðslum. Bauðst hann til að greiða stefnanda eingreiðslu að fjárhæð 426.422 evrur, í stað þess að kaupréttarhafi innleysti kauprétt sinn. Uppgjörsfjárhæðin tók mið af söluverði dótturfélagsins til Anchorage að frádregnum kostnaði við söluna og var í samningsdrögunum kveðið á um það að greiðslan væri heildar- og lokagreiðsla á skuldbindingum LSRH til stefnanda vegna kaupréttarsamningsins. Stefnandi kveðst ekki hafa getað fallist á að taka við greiðslunni sem fullnaðargreiðslu, svo sem stefndi hafi gert ófrávíkjanlega kröfu um og því hafi greiðsla ekki enn farið fram. Krafa stefnandi í máli þessu um greiðslu 430.158 evra úr hendi stefnda LS Retail Holding er byggð á þessum ákvæðum kaupréttarsamningsins. Auk þess krefst stefnandi greiðslu 1.654.842 evra óskipt úr hendi stefndu. Byggir hann þá kröfu á því að hann eigi rétti til skaðabóta úr hendi stefndu þar sem dótturfélagið hafi verið selt á verði sem hafi verið langt undir markaðsverði og vísar í því efni til þess að legið hafi fyrir tilboð í félagið upp á 37,5 milljónir evra og allar líkur hafi verið á að verðið færi hækkandi, í ljósi uppgangs fyrirtækisins á árinu 2015. Stefnandi kveðst byggja fjárhæð skaðabótakröfu sinnar á væntu markaðsverðmæti LS Retail þann 27. apríl 2015 sem hafi verið 72.800.000 evrur, samkvæmt mati óháðs löggilts endurskoðanda, sem lögð hafi verið fram í málinu. Í stefnu áskilur stefnandi sér rétt til að óska eftir dómkvöddu mati verði það verðmat véfengt.

                Stefndu mótmæla málsástæðum og lagarökum stefnanda, sérstaklega þeim sem lúta að staðhæfingum um að dótturfélagið hafi verið selt á verði sem hafi verið undir markaðsverði og staðhæfa m.a. að tilboð kaupenda hafi verið eina óskilyrta kauptilboðið sem borist hafi í félagið.

                Þann 7. september sl. féllst sýslumaðurinn í Reykjavík á kröfu stefnanda um kyrrsetningu eigna stefnda LS Retail Holding ehf. sbr. kyrrsetningargerð nr. K-16/2015. Kyrrsett var innistæða á reikningi félagsins nr. 0515-38-711909 að fjárhæð 2.088.000 evrur og 19.100 krónur. Í máli þessu er krafist staðfestingar kyrrsetningarinnar auk þess sem stefndu eru krafðir um greiðslu krafna sem kyrrsetningunni er ætlað að tryggja og að framan hefur verið lýst.

III

                Svo sem áður greinir krefjast stefndu frávísunar málsins frá dómi. Byggja stefndu frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því á að mál þetta eigi ekki undir almenna dómstóla þar sem stefnandi hafi með bindandi hætti skuldbundið sig til að leysa úr ágreiningi málsins fyrir gerðardómi. Vísa þeir í því efni til ákvæða 11. gr. kaupréttarsamningsins frá 21. október 2010, en efni greinarinnar er rakið að framan. Ágreiningsefni þessa máls lúti að kauprétti stefnanda á hlutum í stefnda LS Retail Holding og túlkun ákvæði kaupréttarsamningsins og taki 11. gr. kaupréttarsamningsins einmitt til slíks ágreinings. Þá vísar stefndi ALMC hf. einnig til samhljóða ákvæðis í 9. gr. hluthafasamkomulagsins, sem er fylgiskjal með kaupréttarsamningnum. Stefnandi sé bundin af ákvæðum þessara samninga og beri því með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og 1. gr. sömu laga, og 1. og 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma, að vísa máli þessu frá dómi í heild sinni. Mótmæla stefndu því sem stefnandi hefur haldið fram, að einungis sé um heimild en ekki skyldu, til að bera ágreininginn undir gerðardóm. Engu breyti í þessu sambandi þó að málshöfðun stefnanda sé öðrum þræði til staðfestingar á kyrrsetningu sýslumannsins í Reykjavík. Málið heyrir allt að einu undir lögsögu gerðardóms en ekki almennra dómstóla. Aðilar að kyrrsetningarmálum hafi forræði á því hvort höfða þurfi mál til staðfestingar kyrrsetningu samkvæmt ákvæðum laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Þeim er því einnig, eðli máls samkvæmt, heimilt fela gerðardómi ákvörðunarvald um staðfestingu kyrrsetningar, svo sem þeir hafi gert með framangreindu ákvæði 11. gr. kaupréttarsamningsins. Önnur niðurstaða biði upp á augljósa möguleika á misnotkun heimildar til að krefjast kyrrsetningar í því skyni aðkoma úrlausn máls undan lögsögu gerðardóms yfir til almennra dómstóla. Slík niðurstaða bryti gengi gegn samningsfrelsi aðila við val á úrræðum til lausnar á ágreiningi, sbr. og ákvæði 1. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 1. og 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Stefndu mótmæla því að hagræði sé fyrir alla aðila að reka mál fyrir almennum dómstólum í stað gerðardóms og hafna því jafnframt að unnt sé að komast undan samningsbundinni gerðardómsmeðferð með því að auka við hóp stefndu í málinu. Hvað sem öðru líði verði að vísa frá dómi þeim dómkröfum sem ekki lúta að staðfestingu fyrirliggjandi kyrrsetningargerðar.

                Í öðru lagi er frávísunarkrafan studd þeim rökum að málatilbúnaður stefnanda sé óljós og vanreifaður. Hvað vanreifun og aðra annmarka á málatilbúnaði stefnanda varðar vísa stefndu til þess að stefnandi byggi kröfur sínar á skýrslu um verðmæti umdeilds félags sem unnin hafi verið einhliða fyrir Vita ehf., sem ekki sé aðili þessa máls. Skýrslan geti aldrei orðið grundvöllur kröfugerðar stefnanda eða dóms í málinu enda hafi hún ekkert sönnunargildi. Málatilbúnaðurinn sé því í andstöðu við í 95. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og 1. mgr. 80. gr. laganna, sem ekki sé unnt að bæta úr á síðari stigum.

                Í þriðja lagi séu hvorki skilyrði fyrir samlagsaðild samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 né skilyrði um kröfusamlag samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sömu laga fyrir hendi. Kröfur stefnanda á hendur LS Retail Holding annars vegar og ALMC hf. hins vegar byggja á ólíkum atvikum, aðstöðu og löggerningum. Þannig hefur stefnandi uppi kröfur á hendur LS Retail Holding um „nettun“ á grundvelli kaupréttarsamnings en skaðabótakröfu á hendur báðum stefndu. Þá byggi kröfur stefnanda á ólíkum atvikum, aðstöðu og löggerningum og engin heimild er til að hafa kröfurnar uppi í einu og sama málinu. Sönnunarbyrði um að skilyrði Stefnandi beri hins vegar sönnunarbyrðina fyrir hinu gagnstæða.

IV

                Stefnandi mótmælir því að frávísunarkrafan nái fram að ganga og krefst þess að málið verði tekið til efnismeðferðar.

                 Engin heimild sé fyrir því að reka mál til staðfestingar á kyrrsetningu fyrir gerðardómi. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 31/1990, beri að höfða slík mál fyrir héraðsdómi og lögbundin skylda sé til að hafa uppi í einu máli kröfu um staðfestingu kyrrsetningarinnar og þær efnislegu kröfur sem kyrrsetningunni sé ætlað að tryggja, auk þess sem augljóst hagræði sé af því að reka málin í einu lagi.

                Hvað gerðardómsákvæði kaupréttarsamningsins og hluthafasamkomulagsins varðar þá feli þau í sér heimild en ekki skyldu til að leita úrslausnar ágreinings fyrir gerðardómi. Þá vísar hann jafnframt til málsástæðna og lagaraka sem stefnendur í máli E-3171/2015 hafa uppi gegn frávísunarkröfu þess mál. Mál þessi varða sömu ágreiningsefni og er rekin samhliða. Í fyrrgreindu máli er þeim málsástæðum teflt fram, auk þeirra sem rakin eru að framan að túlka beri umdeilt gerðardómsákvæði þröng með hliðsjón af 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem leiða eigi til þeirrar niðurstöðu að það takmarki ekki rétt stefnenda til að bera málið upp fyrir héraðsdómi. Þá er á því byggt, verði ekki á fallist á framangreint, að víkja beri ákvæðinu til hliðar á grundvelli reglna um brostnar forsendur eða með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936.

V

                Í máli þessu er höfð uppi krafa um staðfestingu kyrrsetningar í kyrrsetningarmáli K-16/2015, þar sem kyrrsettar voru 2.088.000 evrur og 19.100. krónur á reikningi í eigu stefnda LS Retail Holding og jafnframt hafðar uppi efnislegar kröfur sem kyrrsetningunni er ætlað að tryggja. Annars vegar er það krafa stefnanda um að stefndi LS Retail Holding greiði honum 430.158 evrur sem greiðslu samkvæmt kaupréttarsamningi vegna sölu LS Retail, dótturfélags stefnda, en sala félagsins var samþykkt á hluthafafundi stefnda LS Retail Holding þann 25. apríl sl. Hins vegar gerir stefnandi kröfu um greiðslu skaðabóta óskipt úr hendi stefndu að fjárhæð 1.645.842 evrur, vegna þess tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir þegar dótturfélagið var selt. Stefndi ALMC, sem er eigandi 93,1% hlutafjár í meðstefnda, samþykkti söluna á framangreindum hluthafafundi en hinn hluthafinn, Viti ehf. greiddi atkvæði gegn henni. Staðhæfir stefnandi að söluverðið hafi verið langt undir markaðsvirði dótturfélagsins.

                Stefndu byggja frávísunarkröfu sína m.a. á því að ágreiningur málsins eigi ekki undir almenna dómstóla þar sem aðilar máls hafi með bindandi hætti afsalað sér rétti til að fara með ágreining af þessu tagi fyrir dómstóla. Vísa þeir til ákvæða í 11. gr. kaupréttarsamnings við stefnanda frá 21. október 2010 og ákvæði í 9. gr. hluthafasamkomulags sem er fylgiskjal með kaupréttarsamningnum. Beri því að vísa málinu frá dómi í heild sinni með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 og 1. og 2.gr. laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma.

                Gerðardómsákvæðið í 11. gr. kaupréttarsamningsins er rakið í heild í atvikalýsingu. Samhljóða ákvæði er í 9. gr. hluthafasamkomulagins. Að mati dómsins uppfylla þessi ákvæði áskilnað laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma, enda er um skriflegan samning að ræða þar sem fram kemur hverjir séu aðilar að samningunum og úr hvaða réttarágreiningi skuli leyst, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Þá veldur það ekki ógildi ákvæðanna þótt gert sé ráð fyrir að einungis einn gerðardómsmaður sitji í dóminum. Er því hafnað málsástæðum stefnanda sem lúta að því að ákvæði framangreindra samninga jafngildi ekki gerðarsamningi í skilningi laga nr. 53/1989 eða uppfylli ekki kröfur til slíkra samninga samkvæmt sömu lögum.

                Kaupréttarsamningurinn er bindandi fyrir aðila hans. Ekki er álitamál að stefnandi og stefni LS Retail Holding eru aðilar að samningnum. Þá er stefndi ALMC einnig aðili að samningnum, að því er varðar málsgreinar 4.1.1, 4.2 og 4.3. Grein 4.1 fjallar um rétt stefnanda sem kaupréttarhafa til greiðslna við sölu dótturfélagsins og mælir nánar fyrir um hvernig fjárhæðin skuli reiknuð. Ágreiningur málsins lýtur að þessum rétti stefnanda og ætluðum brotum beggja stefnda á rétti hans samkvæmt ákvæðinu. Stefnandi var ekki hluthafi í stefnda LS Retail Holding. Hins vegar er hluthafasamkomulagið viðauki við kaupréttarsamning hans, sbr. grein 1.6, og þar segir m.a. að stefnandi fallist á skilmála hans. Svo sem áður greinir er í gerðardómsákvæði í 9. gr. hluthafasamkomulagsins, samhljóða ákvæði 11. gr. kaupréttarsamningsins. Stefnandi byggir bótakröfu sína m.a. á því að ALMC hafi brotið gegn ákvæðum hluthafasamkomulagsins með því að selja dótturfélag meðstefnda á verði sem var langt undir markaðsverði. Vísar hann í því sambandi til skyldna ALMC til að gæta svokallaðra armslengdarsjónarmiða við ákvörðun um söluna. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi einnig með áðurnefndum kaupréttarsamningi og með því að fallast á skilmála hluthafasamkomulagsins, sbr. grein 1.6 í kaupréttarsamningnum, afsalað sér með bindandi hætti rétti til að bera ágreining málsins, að því er snýr að stefnda ALMC, undir almenna dómstóla og fallist á að úrlausn hans eigi undir gerðardóm.

                Þá er að mati dómsins vafalaust að gerðardómsákvæðin fela í sér skyldu en ekki einungis heimild til að leita úrlausnar gerðardóms um ágreining sem ákvæðin taka til. Í lokamálslið þeirra stendur: „The parties to this agreement irrevocably accept the sole jurisdiction to the arbitration and wave their rights to access to general courts“. Samkvæmt orðanna hljóðan og í samræmi við þýðingu löggilts skjalaþýðanda felst í þessu ákvæði óafturkallanleg skuldbinding samningsaðila um að hlíta lögsögu gerðardóms og jafnframt afsal á rétti til að bera ágreining undir almenna dómstóla, enda falli ágreiningurinn undir gerðardómsákvæði samninganna.

                Um afmörkun þeirra ágreiningsefna, sem gerðardómi er ætlað að leysa úr, segir í gerðardómsákvæðunum að honum sé falið að leysa úr deilu sem „tengist samningnum, túlkun hans eða einstakra ákvæða hans eða samskiptum aðilanna varðandi eignarhald á hlutum eða kauprétt í félaginu“. Sá ágreiningur sem hér er til úrlausnar lýtur annar vegar að rétti stefnanda til greiðslu 430.580 evra úr hendi stefnda LS Retail Holding. Þá kröfu byggir stefnandi á grein 4.2 í kaupréttarsamningnum. Er vafalaust að sú krafa fellur undir gerðardómsákvæði kaupréttarsamningsins sbr. framangreinda tilvitnun. Hin vegar lýtur ágreiningurinn að ætluðu tjóni stefnanda og greiðslu skaðabóta vegna sölu á dótturfélaginu. Stefnandi styður þá kröfu sína bæði við áðurnefnda samninga og við almennar reglur skaðabótaréttar. Sú deila tengist einnig samningum aðila, túlkun þeirra og eignarhald á hlutum í félaginu . Fjalla bæði kaupréttarsamningurinn og hluthafasamkomulagið um sölu áðurnefnds dótturfélags og réttindi og skyldur aðila tengdum þeirri sölu. Fellur því ágreiningur þessi undir gerðardóm samkvæmt tilvitnuðum ákvæði í 11. gr. kaupréttarsamningsins og eftir atvikum undir 9. gr. hluthafasamkomulagsins.

                Þá er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að forsendur gerðardómsákvæðisins séu brostnar. Vísast um það efni til niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var með dómi Hæstaréttar þann 6. maí sl., í máli nr. 247/2016, en þar var sömu málsástæðu teflt fram og varða sömu atvik. Svo sem þar er rakið verður að telja ósannað að samningsforsendur aðila sem stefnandi vísa til séu brostnar. Þá er heldur ekki fallist á það með stefnendum að víkja beri gerðardómsákvæðunum hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Að mati dómsins hefur ekki verið sýnt fram á að atvik, aðstæður eða staða samningsaðila þegar samningarnir voru gerðir, eða komu síðar til, hafi verið með þeim hætti að skilyrði fyrir því að ógilda gerðardómsákvæði samninganna séu fyrir hendi. Fyrir liggur að kostnaður af úrlausn ágreinings fyrir gerðardómi fellur á deiluaðila. Hins vegar getur það út af fyrir sig ekki verið ógildingarástæða á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 149/2010.

                Loks er ekki heldur fallist á það með stefnanda að gerðardómsmeðferð ágreinings aðila komi í veg fyrir að stefnandi geti aflað sönnunargagna í málinu en í því efni vísar stefnandi til þess að ekki verði mögulegt að afla vitnaskýrslna fyrir dómi verði leyst úr málinu fyrir gerðardómi. Svo sem rakið er í úrlausn dómsins, sem staðfest var með framangreindum dómi Hæstaréttar, er að mati dómsins mögulegt að afla gagna og taka skýrslu fyrir héraðsdómi jafnvel þótt mál sé rekið fyrir gerðardómi og vísast í þessu sambandi til m.a. 77. gr. laga nr. 91/1991 og athugasemdum við 7. gr. frumvarps til laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma, þar sem vakin er athygli á heimild í 103. gr. A þágildandi réttarfarslaga sem hafði að geyma sambærilegt úrræði og nú er í 77. gr. gildandi laga um meðferð einkamála.

                Með vísan til framangreinds er fallist á það með stefndu að ágreiningur máls þessa eigi undir gerðardóm, að því er varðar þær efniskröfur sem stefnandi hefur uppi í málinu, og verður því að vísa þeim kröfum frá dómi.

                Málatilbúnaður stefnanda, eftir þessa niðurstöðu dómsins er því sú að þær kröfur sem kyrrsetningunni er ætlað að tryggja, hefur verið vísað frá dómi þar sem niðurstaða dómsins er sú að úrlausn ágreinings um þær heyrir undir gerðardóm. Kemur þá til úrlausnar hvort einnig beri vísa frá kröfu um staðfestingu kyrrsetningarinnar. Stefndi LS Retail Holding, sem er gerðarþoli í kyrrsetningarmálinu, krefst frávísunar staðfestingarkröfunnar jafnt og annarra krafna með vísan til gerðardómsákvæðis í kaupréttarsamningsins.

                Í VI. kafla laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. er fjallað um mál til staðfestingar kyrrsetningu. Svo sem segir 1. mgr. 36. gr. skal, innan tiltekinna tímamarka, höfða mál með útgáfu réttarstefnu til héraðsdóms til staðfestingar kyrrsetningar nema gerðarþoli hafi lýst yfir við gerðina að hann uni við hana án málshöfðunar. Hafi mál ekki áður verið höfðað um kröfu gerðarbeiðanda skal í einu lagi höfða mál um hana og til staðfestingar gerðinni, sbr. 2. mgr. 36. gr. Kröfugerð stefnanda, að fenginni úrlausn dómsins um frávísun efnislegra krafna hans, er ekki í samræmi við þessar reglu, þar sem einvörðungu stendur eftir krafa um staðfestingu á kyrrsetningargerðinni. Sá annarmarki veldur þó, einn og sér, ekki frávísun frá dómi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 541/2005 frá 1. júní 2006.

                Stefndu byggja kröfu um frávísun þessa kröfuliðar á því að aðilar máls hafi forræði yfir því hvort höfða þurfi mál til staðfestingar á kyrrsetningu samkvæmt lögum nr. 31/1990 og þeim sé því heimilt að fela gerðardómi ákvörðunarvald um það atriði og það hafi þeir gert með áðurnefndum gerðardómssamningi. Á þetta er ekki fallist. Í lögum nr. 31/1990 er að finna lögbundna leið til að viðhalda kyrrsetningargerð. Öfugt við það sem almennt gildir í einkamálaréttarfari hafa aðilar máls ekki fullt forræði á því hvenær mál er höfðað og með hvaða hætti það er gert. Af ákvæðum 39. gr. má ráða að afleiðingar þess að höfða ekki staðfestingarmál fyrir héraðsdómi eru þær að kyrrsetningagerð fellur úr gildi. Málsmeðferð fyrir gerðardómi um gildi kyrrsetningar eða staðfestingu gerðardóms á kyrrsetningu verður ekki jafnað til staðfestingar dómstóls um gildi gerðarinnar. Verður krafa um staðfestingu á kyrrsetningu því ekki hafnað á framangreindum grundvelli.

                Af þessum sökum er ekki tilefni til að vísa frá dómi þeim kröfuliðum í stefndu sem lúta að staðfestingu kyrrsetningar, jafnvel þótt niðurstaða dómsins sé sú að ágreining um úrlausn þeirra réttinda, sem kyrrsetningarkrafan beinist að, verði að leysa úr fyrir gerðardómi. Eftir atvikum kann endanleg úrlausn þessa máls að bíða niðurstöðu þess úrlausnaraðila. Með sömu rökum verður kröfu um staðfestingu kyrrsetningar vegna málskostnaðar heldur ekki vísað frá dómi.

                Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið er öllum kröfum stefnanda vísað frá dómi, að undanskilinni þeirri sem lýtur að staðfestingu á kyrrsetningu samkvæmt kyrrsetningargerð K-16/2015. Sú krafa sætir úrlausn héraðsdóm sem kann eftir atvikum að verða frestað þar til ágreiningur um efnislegan ágreinings málsins hefur verið til lykta leiddur af umsömdum úrlausnaraðila.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Hafnað er kröfu stefndu um frávísun frá dómi á kröfu um staðfestingu kyrrsetningargerðar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu nr. K-16/2005 sem fór fram þann 7. september 2015. Öðrum kröfum stefnanda er vísað frá dómi. Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms í málinu.