Hæstiréttur íslands

Mál nr. 293/1998


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Galli
  • Riftun
  • Afsláttur
  • Matsgerð


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 29. apríl 1999.

Nr. 293/1998.

Upphaf ehf.

(Árni Pálsson hrl.)

gegn

Jóni Hjaltasyni og

Halldóri Þór Wium Kristinssyni

(Þorsteinn Hjaltason hdl.)

og gagnsök

Verksamningur. Galli. Riftun. Afsláttur. Matsgerð.

Félagið U tók að sér að prenta rit, sem í var fjöldi mynda, fyrir J og H. Áður hafði félagið P skannað myndirnar í tölvutækt form og þurfti það að vinna verkið að nýju vegna lélegra gæða. Þegar að lokinni prentun lýstu J og H óánægju með verk U og nokkru síðar lýstu þeir riftun á samningi sínum við U. Þá hafði J innt af hendi greiðslu upp í verklaunin og U hafði afhent J og H 900 af 1000 eintökum af bókinni. Krafði U J og H um greiðslu eftirstöðva verklaunanna, en J og H töldu sig eiga kröfu um vangildisbætur á hendur U. Dómkvaddir matsmenn töldu ástæður fyrir lélegum gæðum mynda í bókinni mega rekja til þess að þær hefðu hvorki verið nógu vel skannaðar né prentaðar. J og H höfðu ekki eftirlit með því hvort P leysti verk sitt af hendi með fullnægjandi hætti og því var talið að þeir hefðu ekki gætt þeirrar varúðar, sem almennt má ætlast til af verkkaupa, um að fylgjast með efndum af hálfu verktaka sinna. Þá var talið að U hefði borið að stöðva verkið og gera J og H viðvart þegar ljóst var hvernig tekist hefði til við að skanna myndirnar í síðara skiptið. Þá var jafnframt lögð til grundvallar niðurstaða dómkvaddra matsmanna um að verk U hefði verið gallað. Talið var að J og H hefði verið óheimilt að rifta verksamningi við U, en talið var að þeir gætu krafist afsláttar af verklaunum og var hæfilegur afsláttur talinn 25%. Var J og H því gert að greiða U eftirstöðvar verklaunanna með afslætti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. júlí 1998. Hann krefst þess að gagnáfrýjendur verði dæmdir til að greiða sér samtals 601.580 krónur, þannig að gagnáfrýjandi Jón Hjaltason greiði 258.290 krónur og gagnáfrýjandi Halldór Þór Wium Kristinsson greiði 343.290 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1994 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að gagnáfrýjendur greiði óskipt málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi 27. nóvember 1998. Þeir krefjast aðallega sýknu, en til vara að kröfur aðaláfrýjanda verði lækkaðar frá því, sem dæmt var í héraðsdómi. Þeir krefjast einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Málið var dómtekið í héraði við lok aðalmeðferðar 4. mars 1998, en dómur kveðinn upp 22. apríl sama árs. Fyrir liggur að áður en héraðsdómur gekk hafi lögmenn aðila lýst yfir að þeir teldu ekki þörf á að flytja málið á ný, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I.

Svo sem rakið er í héraðsdómi á ágreiningur málsaðila rætur að rekja til þess að aðaláfrýjandi tók að sér samkvæmt tilboði í lok mars 1994 að prenta fyrir gagnáfrýjendur ritið Árbók Akureyrar 1993 - bók um fólk fyrir fólk. Höfðu hinir síðarnefndu þá lokið við að rita bókina og safnað í hana miklum fjölda mynda. Sömdu þeir jafnframt við félagið Petit ehf. um að skanna myndirnar í tölvutækt form, sem aðaláfrýjandi tók við og notaði við endanlega vinnslu og prentun ritsins. Lýstu gagnáfrýjendur mikilli óánægju með verk aðaláfrýjanda þegar eftir að prentun lauk um mánaðamót maí og júní 1994. Töldu þeir illa hafa tekist til vegna þess að margar myndir í ritinu hafi fyrir mistök aðaláfrýjanda orðið of dökkar. Eftir ítrekaðar tilraunir til að ná samkomulagi um afslátt af verði lýstu þeir yfir riftun á samningi sínum við aðaláfrýjanda í ágúst 1994. Hafði gagnáfrýjandinn Jón hinn 3. júní sama árs greitt aðaláfrýjanda 85.000 krónur upp í verklaunin. Afhenti aðaláfrýjandi gagnáfrýjendum 900 eintök bókarinnar, en samið hafði verið um að prentuð yrðu 1000 eintök.

Gagnáfrýjendur styðja sýknukröfu sína þeim rökum að verk aðaláfrýjanda hafi reynst verulega gallað. Hafi þeir því átt rétt á að rifta samningnum. Eru sjónarmið þeirra, sem að þessu lúta, rakin í héraðsdómi. Telja þeir sig jafnframt eiga skaðabótakröfu á aðaláfrýjanda, sem sé mun hærri en krafa hans um verklaun. Eigi þeir rétt til að skuldajafna gagnkröfu sinni við verklaunakröfuna, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Verði ekki á það fallist eigi þeir hvað sem öðru líður kröfu á verulegum afslætti, sem aðaláfrýjandi hafi neitað þeim um allt til þess að matsgerðar, sem getið er í héraðsdómi, hafi verið aflað.

Aðaláfrýjandi vefengir ekki að sumar myndanna í áðurnefndu riti hafi ekki orðið svo góðar sem skyldi. Flestar þeirra séu þó í lagi og galli á verkinu í heild sé óverulegur. Ekki sé við aðaláfrýjanda að sakast um það, sem miður tókst til, heldur Petit ehf., sem skannað hafi allar myndirnar fyrir gagnáfrýjendur. Það verk hafi alls ekki verið nógu vel unnið. Á því beri aðaláfrýjandi enga ábyrgð, enda hafi nefnt félag ekki unnið sinn verkþátt sem undirverktaki fyrir aðaláfrýjanda, heldur samkvæmt samningi við gagnáfrýjendur. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var því jafnframt hreyft að sumar frummyndirnar hafi ekki verið skýrar, sem gagnáfrýjendur mótmæltu.

II.

Í héraðsdómi er greint frá mati dómkvaddra manna, sem meðal annars voru spurðir álits á því, hverjar telja megi ástæður þess að sumar myndir í umræddri bók urðu of dökkar. Töldu matsmennirnir ástæðurnar felast í því að myndirnar væru hvorki nógu vel skannaðar né prentaðar. Gáfu þeir skýrslur fyrir dómi, þar sem þessi niðurstaða var nánar skýrð. Í héraðsdómi er einnig greint frá álitsgerð þriggja manna, sem sitja í svokallaðri sveinsprófsnefnd í prentsmíð, og Offsetþjónustunnar ehf. um sama atriði. Er í áliti hins síðastnefnda talið að rekja megi gallann að öllu leyti til þess að myndir hafi ekki verið skannaðar nægilega vel. Varðandi þetta atriði er þess að gæta, að þessum álitsgerðum verður ekki jafnað við matsgerð dómkvadds manns að sönnunargildi um þau atriði, sem um ræðir í 61. gr. laga nr. 91/1991. Matsgerðinni hefur ekki verið hnekkt með yfirmati. Af þessum sökum er ekki unnt gegn mótmælum gagnáfrýjenda að reisa niðurstöðu um ástæður gallans á öðru en því, sem fram kemur í mati hinna dómkvöddu manna.

III.

Petit ehf. vann tvívegis verk sitt við að skanna myndirnar í ritið, svo sem rakið er í héraðsdómi. Hið fyrra sinn varð aðaláfrýjandi var við að verki nefnds félags var áfátt og gerði fulltrúa þess og gagnáfrýjendum viðvart. Varð niðurstaðan sú að verkið teldist ófullnægjandi svo að óhjákvæmilegt væri að Petit ehf. ynni það að nýju. Eftir að hafa í annað sinn fengið skannaðar myndir frá Petit ehf. vann aðaláfrýjandi sitt verk og lauk því án þess að gera gagnáfrýjendum áður viðvart um að verk Petit ehf. væri enn ófullnægjandi eða gefa þeim kost á að ákveða, hvort verkinu skyldi fram haldið í ljósi þess hvernig hinn verktakinn hafði staðið að málum.

Ráða má að gagnáfrýjendur hafi ekki haft eftirlit með því, hvort Petit ehf. leysti sitt verk af hendi með fullnægjandi hætti. Gættu þeir að því leyti ekki þeirrar varúðar, sem almennt má ætlast til af verkkaupa, um að fylgjast með efndum af hálfu verktaka sinna. Fyrri vanefnd Petit ehf. gaf auk þess málsaðilum enn ríkara tilefni til að hafa vara á og fylgjast með efndum félagsins hið síðara sinn.

Fallist verður á með gagnáfrýjendum að aðaláfrýjanda hefði verið rétt að stöðva verkið og gera hinum fyrrnefndu viðvart þegar er ljóst varð hvernig til hafði tekist við að skanna myndirnar í síðara skiptið. Það gerði aðaláfrýjandi hins vegar ekki og lauk verkinu. Þá verður jafnframt lögð til grundvallar sú niðurstaða dómkvaddra manna að verk aðaláfrýjanda hafi verið gallað þar eð „farvagjöf í prentun hafi verið gróflega misjöfn og víða farið offari.“ Í matsgerðinni er einnig lýst þeirri skoðun að unnt hefði verið að prenta bókina eftir sömu filmum og tempra „farvagjöf“ og fá þannig eintök, sem teldust í lagi. Besti kosturinn hefði þó verið að skanna myndirnar aftur og vinna síðan allt verkið að nýju.

IV.

Málsaðila greinir á um, hvort galli á verki aðaláfrýjanda teljist verulegur. Til stuðnings því að hann sé einungis óverulegur bendir aðaláfrýjandi meðal annars á, að allar myndir séu í lagi í mörgum hinna prentuðu eintaka bókarinnar. Í gölluðum eintökum séu flestar myndir í lagi og einungis fáar séu það ekki. Gagnáfrýjendur telja hins vegar mun fleiri myndir vera of dökkar og alls ófullnægjandi en aðaláfrýjandi gerir. Þeir leggja einnig áherslu á að ritið sé að verulegu leyti byggt á myndefni, sem fylgi frásögn af atburðum. Frágangur bókar sem þessarar sé annað hvort boðlegur eða ekki. Það hafi hann ekki verið í þessu tilviki og hafi þeim í raun verið ókleift að taka við verkinu og selja bækurnar. Með því hefðu þeir skaðað orðstír sinn og þar með sölu á verkum sínum í framtíðinni. Hefði þetta leitt til tjóns þegar til lengdar væri litið.

Við mat á því hvort skilyrði til riftunar hafi verið fyrir hendi verður auk þess, sem að framan greinir, að líta til þess er gerðist í skiptum málsaðila í kjölfar verklokanna. Svo sem áður er getið kvörtuðu gagnáfrýjendur þá þegar, en lýstu þó ekki yfir riftun á samningnum fyrr en 17. ágúst 1994. Af bréfi gagnáfrýjandans Jóns til aðaláfrýjanda þann dag verður ráðið, að um sumarið hafi aðilarnir reynt að skýra ástæður gallans og leitað leiða án árangurs til að jafna ágreininginn með afslætti af verklaununum. Í bréfinu segir einnig, að gagnáfrýjendum hafi fundist verjandi að selja bókina ódýrt, enda kæmi ekki til greina að greiða fullt verið fyrir prentun hennar. Sú afstaða aðaláfrýjanda að neita að veita afslátt hafi fyrst orðið ljós í ágúst þetta ár. Þá segir í bréfinu, að deilan við aðaláfrýjanda hafi orðið til þess að bókin var ekki sett á markað, eins og til stóð. Hún hafi þó verið seld í Hagkaupi hf., þar sem gagnáfrýjandi Halldór starfaði. Er fram komið í málinu, að seld hafi verið 80 til 90 eintök.

Gagnáfrýjendur hafa ekki gefið neina haldbæra skýringu á því, hvers vegna bókin var ekki sett á markað nema á einum stað, úr því að þeim þótti verjandi að selja hana ódýrt. Ekki er heldur upplýst á hvaða verði hún var seld og hafa gagnáfrýjendur ekki látið í ljós að þeim beri að greiða fyrir prentun þeirra eintaka sem seldust og nýttust þeim því sannanlega. Aðaláfrýjandi hafði lokið verki sínu að fullu þegar yfirlýsingu um riftun var beint að honum, en telja verður samkvæmt framansögðu að verkið hefði getað nýst gagnáfrýjendum mun betur en raun varð á. Á því verða þeir sjálfir að bera ábyrgð, eins og mál eru hér vaxin.

Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður lagt til grundvallar dómi að gagnáfrýjendum hafi verið óheimilt að rifta verksamningi aðilanna í ágúst 1994. Verður því ekki fallist á kröfu gagnáfrýjenda um sýknu, sem á þessari ástæðu er reist. Kemur gagnkrafa þeirra um skuldajöfnuð með kröfu um vangildisbætur þá ekki frekar til álita.

V.

Skilyrði eru uppfyllt í málinu til að gagnáfrýjendur geti krafist afsláttar af verklaunum. Er hæfilegur afsláttur vegna gallans talinn vera 10 til 15% í matsgerð dómkvaddra manna. Verður lagt til grundvallar dómi að gagnáfrýjendur eigi af þessum sökum kröfu á 15% afslætti af umsömdum verklaunum. Þá er óumdeilt að aðaláfrýjandi afhenti ekki 100 af þeim 1000 eintökum bókarinnar, sem um var samið. Er ósannað að hann hafi boðið fram efndir að því leyti. Að þessu virtu verður afsláttur gagnáfrýjenda ákveðinn samtals 25% af umsömdum verklaunum, sem voru 255.225 krónur að því er varðar hvorn þeirra um sig. Ummæli annars hinna dómkvöddu manna í skýrslugjöf fyrir dómi um að veita ætti enn hærri afslátt vegna gallans geta ekki haggað niðurstöðu um hæfilegan afslátt í matsgerð, en hinn matsmaðurinn tjáði sig sammála niðurstöðu matsgerðarinnar um það efni.

Auk verklauna samkvæmt tilboði krefur aðaláfrýjandi hvorn gagnáfrýjenda um 88.065 krónur vegna aukaverks, sem unnið hafi verið. Skýrir hann það svo, að lokið hafi verið við að flytja skannaðar myndir frá Petit ehf. á filmur, þegar galli á upphaflegu verki félagsins kom í ljós. Af þessu hafi leitt kostnað fyrir aðaláfrýjanda, sem gagnáfrýjendum beri að greiða. Hinir síðarnefndu halda fram á móti, að alls ekki hafi þurft að stofna til þessa kostnaðar, þar eð aðaláfrýjandi hefði strax við fyrstu athugun mátt sjá gallann á verkinu. Í matsgerð dómkvaddra manna segir um þetta að myndir, sem skannaðar voru í fyrra sinnið, hafi engan veginn verið nothæfar til prentvinnslu. Hefði filmusetning verið stöðvuð strax hefði kostnaður orðið mjög óverulegur. Að þessu virtu verður fallist á að aðaláfrýjandi verði sjálfur að bera mestan hluta kostnaðar, sem af þessu leiddi. Er krafa hans um greiðslu fyrir aukaverk tekin til greina með 10.000 krónum frá hvorum gagnáfrýjenda.

Aðaláfrýjandi krefst dráttarvaxta frá 1. október 1994, en reikningar hans á hendur gagnáfrýjendum eru dagsettir í ágúst og september það ár. Ekki er annað fram komið en að greiðsla fyrir verkið hafi orðið kræf þegar við verklok, en þá greiddi annar gagnáfrýjenda upp í skuldina. Verður krafa aðaláfrýjanda um dráttarvexti tekin til greina eins og hún er fram sett.

Samkvæmt öllu framanröktu verður krafa aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda Jóni tekin til greina með 116.419 krónum og gagnáfrýjanda Halldóri með 201.419 krónum, auk dráttarvaxta. Verður þeim jafnframt gert að greiða aðaláfrýjanda óskipt málskostnað, sem verður ákveðinn í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði. Eru ekki efni til að fallast á mótmæli þeirra gegn því að þeim verði gert að greiða málskostnað óskipt, sbr. meginreglu 1. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Jón Hjaltason, greiði aðaláfrýjanda, Upphafi ehf., 116.419 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1994 til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi, Halldór Þór Wium Kristinsson, greiði aðaláfrýjanda 201.419 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1994 til greiðsludags.

Gagnáfrýjendur greiði aðaláfrýjanda sameiginlega 300.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 22. apríl 1998.

Ár 1998, miðvikudaginn 22. apríl, var dómþing Héraðsdóms Norðurlands eystra sett á Akureyri og haldið af Ásgeiri Pétri Ásgeirssyni, héraðsdómara, ásamt meðdómsmönnunum, Guðjóni Sigurðssyni, prentsmíðameistara og Halli Jónasi Stefánssyni, offesetprentara.

Fyrir var tekið: Mál nr. E-259/1996: Upphaf hf. gegn Jóni Hjaltasyni og Halldóri Þór Wium Kristinssyni. Var nú í málinu upp kveðinn svofelldur dómur:

Mál þetta, sem dómtekið var 4. f.m., hefur Árni Pálsson, hrl., höfðað með stefnu útgefinni á Akureyri 22. júlí 1996, birtri 2. ágúst s.á., og þingfestri 5. september s.á. fyrir hönd Upphafs hf., kt. 460670-1529, Tryggvabraut 18-20, Akureyri, á hendur Jóni Hjaltasyni, kt. 240159-3419, Hjallalundi 18 I, Akureyri, og Halldóri Þór Wium Kristinssyni, kt. 220659-3059, Álfalandi 2, Reykjavík, til greiðslu skulda.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða kr. 601.580,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1994 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndu krefjast þess að riftun á samningi aðilja verði staðfest með dómi og þeir sýknaðir af öllum kröfum stefnanda. Ef ekki verður fallist á aðalkröfu stefndu þá er þess krafist að stefndu verði ekki dæmdir óskipt þ.e.a.s. in solidum til greiðslu heldur verði helmingaskipt skuldaábyrgð þ.e.a.s. pro rata, og dómkröfur verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefjast stefndu að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað að mati dómsins.

Stefnandi rekur málavexti svo, að hinn 21. mars 1994 hafi hann gert stefndu tilboð í filmugerð, plötusetningu, prentun og bókband Árbókar Akureyrar 1993, sem stefndu hugðust gefa út. Hafi stefndu tekið tilboðinu, sem nam kr. 410.000,- auk virðisaukaskatts. Stefndu höfðu fengið annan verktaka, Prentsmiðjuna Petit hf., til að vinna hluta verksins, þ.e. að skanna inn myndir og brjóta um texta. Hafi verkið átt að koma þannig til stefnanda að það væri tilbúið til útkeyrslu á filmu. Prentsmiðjan Petit hf. hafi komið með verkið 11. apríl til stefnanda. Þegar búið var að keyra verkið út á filmu og filmuskeyting vel á veg komin hafi menn orðið varir við að myndir virtust ekki vera í lagi. Hafi stefnandi þá haft samband við stefnda Jón, og Trausta Haraldsson hjá Prentsmiðjunni Petit hf. Hafi þeir komið á staðinn og verið sammála um að myndirnar væru ófullnægjandi. Við skoðun á stærð bókarinnar í „megabitum“ hafi komið í ljós að hún var 120 „megabit“ í staðinn fyrir 6-700 „megabit“. Hafi Trausti Haraldsson viljað reyna að bjarga þessu án þess að skanna myndirnar inn að nýju, en eftir nokkrar tilraunir af hans hálfu hafi niðurstaðan orðið sú að skönnun yrði unnin aftur frá grunni. Hafi stefnda, Jóni, verið gerð grein fyrir að vegna þessa þá væri ekki hægt að ljúka verkinu fyrr en 25. maí. Þann 5. maí var skönnun lokið að nýju og verkið fært á milli tölva og prentað. Til að kanna myndgæði hafi tvær opnur verið keyrðar út á pappír og hafi þær reynst í lagi. Hafi hluti bókanna verið afhentur 24. maí, en verkinu lokið 3. júní. Þann dag hafi stefndi, Jón, greitt inn á verkið kr. 85.000,-. Hafi hann ekki verið ánægður með myndir í bókinni og hafi fundir verið haldnir þar sem saman komu fulltrúar stefnanda, stefndu og fulltrúar frá Prentsmiðjunni Petit hf. Ekki hafi náðst samkomulag á þessum fundum og hafi stefndu neitað að greiða fyrir verkið, en hafi þess í stað krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 4.433.000,-.

Hinn 21. nóvember 1994 hafi verið dómkvaddir matsmenn að beiðni stefndu til að meta m.a. hvort myndir í bókinni væru gallaðar og þá hverjar væru orsakir gallans. Niðurstöður matsmanna virðast vera þær að gæði prentvinnslu bókarinnar sé ekki fullnægjandi. Orsakir eru taldar vera að skönnun og prentun hafi ekki verið fullnægjandi og virðist sem annar matsmaður telji að afsláttur vegna gallans sé hæfilegur 10-15%.

Hafi stefnandi boðið stefndu að ljúka málinu með því að þeir greiddu kröfuna með 15% afslætti, þó svo hann telji sig ekki eiga neina sök á hugsanlegum göllum í bókinni, en á þetta hafi stefndu ekki viljað fallast og sé því málsókn nauðsynleg.

Stefnandi getur þess að nafni Ako-plast og Pob hf. hafi verið breytt í Upphaf hf.þann 1. júlí 1995.

Málsástæður og lagarök stefnanda eru að hann hafi unnið verk sitt í samræmi við samkomulag við stefndu, en þeir hafi ekki fengist til að greiða fyrir verkið vegna þess að þeir telja það gallað.

Í máli þessu sé lagt fram álit fagmanna á þessu sviði auk matsgerðar. Allir þessir aðiljar séu sammála um að orsök þess að myndirnar séu ekki í lagi liggi í skönnun verksins. Síðan virðist menn leggja þá skyldu á stefnanda að hann bæti úr þeim göllum sem voru á verkinu þegar það kom frá Prentsmiðjunni Petit hf.

Stefnandi hafi ekki ráðið Prentsmiðjuna Petit hf. til þess að vinna verkið, það hafi stefndu gert til að vinna hluta verksins án nokkurs samráðs við stefnanda. Ljóst megi því vera að stefnandi geti aldrei orðið ábyrgur fyrir göllum á verki verktaka sem stefndu fengu til að vinna hluta verksins. Sérstaklega er á það bent að starfsmenn Prentsmiðjunnar Petit hf. séu fagmenn og átti því stefnandi að geta treyst því að skönnun væri í lagi eftir að búið var að vinna verkið upp aftur. Þá virðist gæta misskilnings hjá matsmönnum að sú skylda hvíli á stefnanda að hafa eftirlit með og bæta úr göllum á verki verktakans Prentsmiðjunnar Petit hf. Hafi stefndu borið að sjá um og hafa eftirlit með að verktakinn, er þeir réðu til verksins skilaði ógölluðu verki. Áhættan og ábyrgð á verki Prentsmiðjunnar Petit hf. hvíli á stefndu, en ekki stefnanda.

Í bréfi stefndu 17. ágúst 1994 og síðar lýsi þeir yfir riftun á samningi aðilja. Ljóst megi vera á matsgerð að gallar á verkinu séu óverulegir og því þegar af þeirri ástæðu verði samningi aðilja ekki rift, enda hafi stefnandi mótmælt riftun þegar í stað. Sé það meginregla varðandi verksamninga að þeim verði ekki rift eftir að verki er lokið. Í þessu tilviki séu engin skilyrði til riftunar þar sem stefnandi eigi enga sök á göllum bókarinnar.

Stefnufjárhæðin er byggð á reikningum á dskj. nr. 3 og 4, annars er um að ræða reikning vegna tilboðs verks samkvæmt tveimur reikningum dagsettum 30.08.1994 að fjárhæð kr. 205.000,- auk virðisaukaskatts kr. 50.225,- eða kr. 255.225,- stílaðir á báða stefndu og hins vegar reikningar dagsettir 05.09.1994 vegna filmuútkeyrslu, setningar, filmugerð og prentunar, samtals að fjárhæð kr. 88.065,-, sem stílaðir eru á báða stefndu, að frádregnum kr. 85.000,-, er stefndi, Jón, greiddi 03.06.1994 eða kr. 343.290,- á stefnda Halldór og kr. 258.290,- á stefnda Jón.

Stefndu lýsa málsatvikum svo að allt árið 1993 hafi þeir unnið árbók Akureyrar 1993. Snemma vors 1994 hafi stefndu fengið tilboð frá stefnanda í filmugerð, plötusetningu, prentun og bókband bókarinnar upp á kr. 410.000,-. Fallist hafi verið á tilboð þetta, þó þannig að kostnaði yrði skipt milli stefnda, Jóns, og stefnda, Halldórs, þannig að hvor bæri ábyrgð á sínum hluta, þ.e. að ábyrgð væri skipt, sbr. bréf lögmanns stefnanda á dskj. nr. 8 og 9.

Umbrot og skönnun mynda í bókina hafi verið í höndum Prentsmiðjunnar Petit hf. Hafi verkinu átt að vera lokið í apríllok 1994 og upplagið átt að vera 1000 eintök. Um miðjan apríl hafi Prentsmiðjan Petit hf. skilað verki sínu til stefnanda. Hálfum mánuði síðar hafði stefnandi samband við stefndu og sagði að verkið, þ.e.a.s. skönnun mynda, væri ekki nógu góð. Hafi orðið úr að Prentsmiðjan Petit skannaði allar myndir inn aftur og hafi því verki verið lokið 4. maí 1994.

Fyrir það verk, þ.e.a.s. útkeyrslu filmanna og fleira hafi stefnandi krafið stefndu um kr. 176.130,-, en stefnandi hafi sagt að filmuvinnu hefði verið lokið er þeir sáu að verkið var ónýtt.

Ekki hafi stefndu heyrt af verkinu fyrr en fyrstu eintökin bárust þeim í hendur þann 24. maí 1994. Hafi stefndu þá séð að verkið var gallað, frágangur mynda hafi mistekist, sumar myndir voru nánast skuggamyndir, kvartað hafi verið yfir göllunum, en forsvarsmenn stefnanda hétu því að gefa verulegan afslátt, enda hafi allir verið sammála um að verkið væri gallað. Hafi því verið ákveðið að gera eins gott úr þessu og hægt var og selja bókina ódýrt.

Fundur hafi verið haldinn 8. júní 1994 þar sem mættu af hálfu stefnanda, Daníel Árnason og Eyþór Jósepsson, þeir Arnald Reykdal og Trausti Haraldsson, f.h. Prentsmiðjunnar Petit hf. og stefndu. Hafi allir verið sammála um að bókin væri gölluð, hins vegar hafi fulltrúar stefnanda og Prentsmiðjunnar Petit hf. ekki verið sammála um það hverju gallarnir væru að kenna og hafi þeir ákveðið að leita til sérfræðinga um álit á því.

Hafi Prentsmiðjan Petit hf. látið Ásprent hf. á Akureyri keyra út á filmu bls. 22 og 23 í bókinni. Þann 24. júní hafi stefndu fengið að sjá þessa filmu, hafi filman verið nægjanlega góð og miklu betri en þær sem bókin hafi verið gerð eftir og hafi allt því bent til þess að um innanhússvandamál væri að ræða hjá stefnanda. Hafi þessi filmuútprentun verið lögð fram með beiðni um dómkvaðningu matsmanna, sbr. dskj. nr. 12.

Þegar á átti að herða hafi stefnandi ekki viljað gefa neinn afslátt á verkinu né prenta það upp á nýtt og hafi stefndu þá ekki séð annað fært en að skila inn upplaginu og rifta samningum sínum við stefnanda.

Að beiðni stefndu hafi verið dómkvaddir matsmenn til að meta galla á bókinni og tap þeirra af missi sölu hennar. Sé matsgerðin á dskj. nr. 14.

Málsástæður stefndu, aðalkrafa:

Stefndu krefjast aðallega sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda. Stefndu hafi verið rétt að krefjast riftunar því verkið sem þeir tóku við hafi verið óboðlegt. Eigi stefndu rétt á vangildisbótum til viðbótar og áskilja sér rétt til að höfða sérstakt mál til heimtu þeirra bóta.

A. Gallar:

Stefndu styðja mál sitt fyrst og fremst við dskj. nr. 21 þ.e.a.s. Árbókina sjálfa og dskj. nr. 22-27 þ.e.a.s. frummyndir nokkurra þeirra mynda sem í bókinni eru. Við skoðun mynda í Árbókinni á dskj. nr. 21. sjáist greinilega að myndirnar séu gallaðar, komi þetta enn betur í ljós þegar skoðaðar séu nokkrar frummyndanna til samanburðar, sbr. dskj. nr. 22-27, sem séu frummyndir mynda á bls. 7, 22, 23 og 194 í bókinni. Gríðarlegur munur sé á þessum myndir og slíka galla sé ekki hægt að sætta sig við í bók sem byggi mikið á myndum.

Sérfræðingar séu enn fremur samdóma um að verkið sé gallað, benda stefndu fyrst á matsgerð dómkvaddra matsmanna á dskj. nr. 14, þar sem að segi m.a.: „Prentvinnsla Árbókar Akureyrar er alls ekki fullnægjandi, kemur það sérstaklega fram í óvenju miklum mun á milli eintaka. ... Í dekkri eintökum eru myndirnar alls engan veginn boðlegar.“

Í öðru lagi benda stefndu á dskj. nr. 18, sem er álit þeirra þriggja manna sem sitja í sveinsprófsnefnd í prentsmíði, þ.e.a.s. fulltrúar Félags bókagerðarmanna, Samtaka iðnaðarins og Menntamálaráðuneytisins. Segi þeir í áliti sínu m.a.: „Prentun bókarinnar er mjög misjöfn (misdökkar síður). Það er mat okkar að þegar séð var hversu dökkar sumar myndir bókarinnar voru, hefði hiklaust átt að stöðva prentun og hafa samband við verkkaupa og gefa honum kost á að gera athugasemdir (t.d. með samanburði við frummyndir). Fráleitt hafi verið að halda áfram að prenta myndir sem auðsjáanlega voru ónothæfar.“

Ennfremur benda þeir á dskj. nr. 17 þar sem segi m.a.: „Myndir eru of dökkar og teikningu í skuggum ábótavant, öllum ber saman um það.“

Stefndu telja að verkið sé augljóslega gallað og þurfi enga sérfræðinga til þess að kveða upp úr með það, það sjái hver maður af gögnum málsins. Í bréfi lögmanns stefnanda sé því hafnað að um galla sé að ræða á bókinni, sbr. dskj. nr. 11.

Stefnandi hafi hins vegar viðurkennt galla á fundum með stefndu. Megindeiluefnið hafi þó ekki verið hvort gallar séu á bókinni, heldur hvort um galla sé að ræða sem stefnandi beri ábyrgð á, sem stefndu telja ótvírætt.

B.  Ábyrgð stefnanda á göllum:

Orsök gallanna virðist vera tvíþætt að mati matsmanna o.fl. Í matsbeiðni sé spurt um orsakir gallanna og sé því svarað í matsgerðinni á dskj. nr. 14 svo að orsakir liggi í tveimur atriðum þ.e.a.s. skönnun og prentun. Matsmaður láti gera prufur á útprentun sem sé nánar lýst í matsgerðinni, en útprentanirnar séu lagðar fram á dskj. nr. 28. Að þessu athuguðu sé niðurstaða matsmanns sú að af þessari prentun megi sjá að hvorki skönnun mynda né prentun var eins og best varð á kosið. Matsmaðurinn segi síðan að stefnandi hafi verið búinn að farga öllum prentplötum þegar matið hafi farið fram og því hafi ekki verið hægt að dæma um þá verkhlið málsins, en síðan segi matsmaðurinn að því sjálfgefnu að plötutaka hafi verið eðlileg væri ekki annað að sjá en farvagjöf í prentun hafi verið gróflega misjöfn og víða farið offari.

Stefndu geri athugasemd við þá aðgerð stefnanda að farga prentplötum og hljóti það að vekja grunsemdir um að ekki hafi verið allt með felldu með plöturnar vegna þess að stefnandi vissi mætavel að gerðar höfðu verið athugasemdir við verkið og hafi honum borið að halda til haga gögnum vegna þess svo að hann gæti sannað fullyrðingar sínar um að plötutaka hafi verið með eðlilegum hætti.

Matsmaður gefi sér að plötutaka hafi verið í lagi og bendir síðan á galla í prentverki. Hins vegar hljóti stefnandi að bera hallann af vafa um að plötutaka hafi verið með eðlilegum hætti þar sem hann fargar þeim sönnunargögnum sem honum bar að halda til haga. Orsakir gallanna virðast vera samofnir þ.e.a.s. bæði galli í skönnun og galli í prentun og erfitt að greina þar á milli og segja til um í hve miklum mæli gallarnir séu vegna mistaka í prentun og að hve miklu leyti vegna galla í skönnun. Hins vegar telji stefndu að það skipti ekki máli hvort skönnun hafi verið góð eða slæm, gallarnir séu alltaf stefnanda að kenna, vegna þess að hann hafi átt að fylgjast með gæðum verksins.

Stefnandi hljóti að hafa séð að gallar voru á verkinu og í stað þess að halda áfram og binda bækur átti hann að gefa stefndu kost á að sjá prentaða örk og láta stefndu ákveða hvað ætti að gera í stöðunni. Þess í stað hafi stefnandi lokið við verkið þó hann vissi að það væri ekki boðlegt. Þannig hagi góður og gegn fagmaður ekki vinnu sinni jafnvel þó gallar væru mögulega að einhverju leyti vegna verkþátta sem hann sjái ekki um. Þessu til hliðsjónar bendir hann á gr. 21.2. í ÍST 30, sbr. dskj. nr. 29, sem hljóði svo: „Verktaki ber enga ábyrgð á gæðum eða nothæfi efnis sem verkkaupi leggur til, nema honum hafi mátt vera ljóst að slíkt efni væri ekki fullnægjandi og hann hafi vanrækt að vekja athygli verkkaupa á því.“

Stefndu hafi því verið rétt að grípa til vanefndaúrræða gagnvart stefnanda vegna þessa. Verkefni stefnanda hafi verið að prenta bókina og koma henni í band í boðlegu ástandi, þetta hafi hann ekki gert. Þó svo að mögulegt sé að einhverju leyti að kenna verkliðum er hann annaðist ekki, þ.e.a.s. skönnun mynda, þá hafi hann séð um að færa myndir af tölvudiski á filmur og þaðan á plötur og á pappír. Í þessu ferli hafi stefnandi átt að vera búinn að taka eftir því að gallar voru á verkinu hvort sem það var vegna skönnunar eða annars og grípa inn í. Gæðaeftirliti hans hafi verið ábótavant í þessu tilfelli og á því beri hann ábyrgð. Prentsmiðjan Petit hf. hafi séð um skönnun og umbrot og stefnandi um annað í vinnslu bókarinnar. Starfsmenn Prentsmiðjunnar Petit hf. komu með tölvugögn sín beint til stefnanda er hann átti að vinna úr. Samskipti voru því með beinum hætti milli þessara aðija og hafi stefndu ekki farið þar inn á milli.

Stefnandi hafi vitað að stefndu höfðu ekki skoðað verk Prentsmiðjunnar Petit hf. né lagt blessun sína yfir það, enda hafi það verið stefnandi sem í fyrstu atrennu hafi fundið galla í verki Prentsmiðjunnar Petit hf. Hafi stefnandi þá kallað aðilja á sinn fund og verkið þá verið unnið upp á nýtt. Hafi þetta verið rétt aðferð og eðlilegt gæðaeftirlit hjá stefnanda, sem síðan hafi brugðist og prentunin hjá stefnanda og verkið orðið gallað.

Í matsbeiðni sé að því spurt hvort hægt sé að bæta úr göllum eins og þeir liggi fyrir nú og matsmaður svari þessu í matsgerð sinni þannig: „Spurning er um hvaða kröfur eru gerðar til mynda í bókinni. Unnt væri að prenta bókina eftir sömu filmu, tempra farvagjöf og fá með því „boðleg eintök” besti kosturinn væri að skanna inn myndir aftur og keyra út nýjar filmur.“ Matsmaðurinn telji sem sé að ef mistök hefðu ekki orðið við prentun bókarinnar hefðu eintök orðið boðleg. Á þessu beri stefnandi fulla ábyrgð þ.e.a.s. hann ber ábyrgð á því að bókin var ekki boðleg.

C. Úrræði stefndu vegna galla, riftun og vangildisbætur:

Vegna galla á verkinu varða að rifta samningi við stefnanda og skila verkinu. Stefnandi hafi hvorki boðið afslátt né að vinna verkið upp á nýtt. Það hafi ekki verið fyrr en í mars 1995 þegar matsgerðin á dskj. nr. 14 lá fyrir að stefnandi bauð afslátt og þá ekki nema 10-15% sem sé alltof lítill miðað við umfang gallanna. Stefndu hafi orðið fyrir miklu tjóni, vinna þeirra varð að engu við verkið, bæði sú sem hafði verið lögð í Árbók Akureyrar 1993 og í áframhaldandi ritröð í því verki. Vísað er til matsgerðarinnar þar sem fram komi að hefðu allar bækurnar selst hefðu kr. 1.222.000,- runnið til útgefenda.

Gallarnir á verkinu séu verulegir þegar um svo persónulegt verk sem bókverk sé að ræða, þ.e. verk sem að menn leggja nafn sitt við og byggja framtíð sína á frekari útgáfu, þá verði slíkt verk að vera í lagi. Ekki sé þolandi að á slíku verki séu gallar sem rýri orðstír höfunda og þar með möguleika þeirra til að selja framtíðarverk sín. Hafandi þetta í huga þá verði að gera strangar kröfur til gæða í prentverki sem þessu.

Með nútíma tækni sé auðveldlega hægt að skila prentverki af sér með sóma. Gæðaeftirlit stefnanda hafi brugðist og verkið hafi verið prentað og bundið þrátt fyrir að augljóst væri að bókin fullnægði ekki nútíma kröfum um gæði. Alls ekki sé hægt að krefjast þess að stefndu hefðu átt að taka við verkinu og selja með þeim rökum að með því hefðu þeir verið að takmarka tjón sitt. Stefndu hefðu ekki takmarkað tjón sitt heldur þvert á móti. Fjártjón þeirra hefði einungis komið seinna og orðið meira. Þeir hefðu skemmt orðstír sinn og nafn sem höfunda og þar með framtíðarsölu á verkefnum sínum. Frágangur bóka sem þessarar sé annað hvort í lagi eða ekki. Ef frágangur sé ekki í lagi þá eigi að prenta verkið að nýju.

Í matsgerðinni segi að prentvinnsla Árbókarinnar sé ekki fullnægjandi, en í dekkri eintökum séu myndir alls engan veginn boðlegar. Matsmaður komist sem sé að þeirri niðurstöðu að verkið sé ekki boðlegt.

Þar sem stefnandi hafi ekki fengist til að prenta verkið að nýju þá hafi riftun verið eini kostur stefndu í stöðunni. Stefndu hafi gefið stefnanda kost á að semja um afslátt, þann kost hafi stefnandi ekki nýtt sér, heldur dregið málið á langinn á allan máta. Hafi hann vitað að stefndu lá á að byrja sölu bókarinnar vegna takmarkaðs sölutíma hennar, en hann hafi verið helstur sem næst viðfangsefninu þ.e.a.s. atburðum ársins 1993. Hafi stefnandi eflaust talið að stefndu myndu gefast upp á kvörtunum sínum ef málið drægist. Þegar staða stefnanda var ljós hafi stefndu ekki séð sér annað fært en að rifta samningum, en með riftuninni falli niður kröfur stefnanda um endurgjald fyrir prentverkið og eigi því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda um endurgjald fyrir prentverkið og réttarstaða stefndu eigi að vera líkust því sem að samningurinn hafi aldrei verið gerður.

Stefndu hafa orðið fyrir margvíslegu tjóni og eigi kröfu á vanildisbótum og endurgreiðslu þess sem greitt var inn á verkið og tíundað hefur verið á dskj. nr. 5. Ef ekki verði fallist á að reikningur vegna aukaverks á dskj. nr. 3 og 4 falli niður með staðfestingu á riftun aðalsamnings, er þess krafist að gagnkröfur vegna vangildisbóta sem tíundaðar eru á dskj. nr. 5 og síðar um lækkun á reikningi vegna skaðabótakröfu, afsláttar o.fl. verði notaður til skuldajafnaðar að fullu á móti reikningum vegna aukaverks.

E. Stefnandi uppfyllti aldrei samninginn um fjölda eintaka:

Stefnandi skilaði aldrei öllu upplaginu, sem var 1.000 eintök, heldur skilaði hann eingöngu 900 eintökum eða 90% af verkinu. Teljist þetta galli sbr. 50. gr. laga nr. 39/1922. Lagaákvæðið gildi vitanlega ekki beint um verksamninga, en hafa megi það til hliðsjónar og jafnvel til lögjöfnunar. Annars liggi það í eðli máls að um galla er að ræða þegar ekki sé skilað fullum eintakafjölda. Þetta styðji enn frekar réttmæti riftunar stefndu og sé þetta tíundað ásamt með öðru á dskj. nr. 5, en stefnandi í engu svarað eða fallist á tillögu um úrbætur annað en að bjóða 10-15% afslátt. Með þessu hafi stefnandi í raun samþykkt riftun þar sem hann bætti ekki úr þessum galla á verkinu.

Varakrafan.

A. Skipt ábyrgð:

Í upphafi hafi verið samið við stefnanda um að skipta reikningnum þannig að hvor stefndu bæri ábyrgð á greiðslu helmings verksins. Þessu til sönnunar sé vísað til dskj. nr. 3 og 4 þar sem reikningarnir eru stílaðir á sinn hvorn stefndu. Enn fremur er vísað til dskj. nr. 8, sem er bréf lögmanns stefnanda til stefnda Jóns þar sem segi: „Samkvæmt samkomulagi sem þú gerðir við umbjóðanda minn var kostnaði skipt milli þín og Halldórs Wiums.“ Sama segi á dskj. nr. 9 sem sé bréf lögmanns stefnanda til stefnda Halldórs, sem sé efnislega samhljóða. Með þessu hljóti að teljast sannað að umsamið hafi verið í upphafi verks að hvor stefndu bæri helming af kostnaði við verkið. Ábyrgð þeirra væri skipt, en ekki væri hægt að sækja annan hvorn um greiðslu alls verksins eins og stefnandi geri í máli þessu.

B. Upplagið ekki allt prentað.

Svo sem áður er rakið hafi stefnandi ekki skilað öllu verkinu. Hafi hann einungis lokið við 90% af því. Sé þetta galli og sé krafist lækkunar á dómkröfunni vegna þessa. Tekjur af heildarsölu hefðu verið kr. 1.222.000,-, sbr. matsgerðina á dskj. nr. 14. Fjártjón vegna þessa galla hefði því verið kr. 122.200,- og er gerð krafa um lækkun á stefnukröfu um þá fjárhæð vegna galla.

C. Kröfur vegna aukaverks.

Samið hafi verið við stefnanda um að vinna verkið fyrir kr. 410.000,- auk vsk. kr. 50.225,-, þ.e. alls kr. 255.225,- á hvorn stefnda, eða alls kr. 510.450,-. Nú sé stefnandi hins vegar að krefja hvorn stefnda um kr. 88.065,- til viðbótar vegna aukavinnu við filmugerð, sbr. dskj. 3 og 4. Þessum kostnaðarlið er sérstaklega mótmælt sem allt of háum og ósönnuðum. Stefnandi haldi því fram að hann hafi verið búinn að keyra alla bókina út á filmu, vinna við setningu og filmugerð og prenta hluta bókarinnar þegar gallinn var uppgötvaður. Stefndu benda hins vegar á að stefnandi sá ekki um neina setningu fyrir þá og að gallinn hafi verið svo augljós að hann hefði strax átt að koma í ljós áður en allir þessir verkþættir voru unnir. Stefndu var sýnd ein filma sem gerð hafði verið og hafi verið augljóst fyrir þá sem leikmenn að sjá að filman var stórgölluð og ónothæf. Vafalaust hafi aldrei verið keyrt meira út en þessi eina filma sem stefndu var sýnd. Fullyrðingar stefnanda séu hins vegar með ólíkindum um að allir þeir verkþættir, sem tilgreindir séu í reikningi hafi verið unnir áður en gallinn uppgötvaðist. Stefnandi sé með þessu að halda því fram að öll bókin hafi verið keyrð út á filmur og filmurnar skeyttar saman án þess að nokkur hafi skoðað þær í þessu ferli. Þessi fullyrðing sé mjög ólíkleg og verði að færa sönnur fyrir henni. Verði stefnandi að leggja fram gögn fyrir þessu, þ.e.a.s. filmur af allri bókinni og það sem prentað var og gefa skýringu á verkliðum. Telji stefndu að þessi gögn séu ekki til vegna þess að þau hafi aldrei verið gerð. Stefnandi hafi ekki fengist til að afhenda þessi gögn, sem hann verði að gera ef hann ætli að halda til streitu að innheimta fyrir þetta verk. Hafi það staðið stefnanda næst að halda til haga sönnunargögnum um verkið og verði hann að bera hallann af sönnunarskorti. Matsmaður hafi verið sérstaklega spurður út í þessa verkþætti í spurningum 8 og 9 í matsbeiðni á dskj. 12. Svar matsmanns sé það að strax: „við að sjá stærð skjalanna hefði fagmanni átt að vera ljóst að eitthvað var óeðlilegt við myndirnar auk þess sem við útkeyrslu á fyrstu síðum kemur það strax í ljós. Ef útkeyrsla á filmu hefði verið stöðvuð strax hefði kostnaður orðið mjög óverulegur. Ef bókin hefði öll verið keyrð út á filmu hefði kostnaður orðið u.þ.b. 100.000,- kr.” Á þessu sjáist að langlíklegast sé að stefnandi hafi strax tekið eftir göllunum, jafnvel án þess að keyra nokkuð út á filmur af tölvudiskinum. Kostnaður af þessu hefði verið mjög óverulegur, sbr. matsgerð, varla meiri en kr. 10.000,-. Hins vegar sé reikningurinn í öllu falli of hár þar sem matsmaður komist að því að kostnaður við að keyra bókina alla út á filmu hafi verið u.þ.b. kr. 100.000,-.

D. Skaðabótakrafa til skuldajafnaðar.

Verði ekki fallist á aðalkröfu um riftun þá er farið fram á að dæmdar verði skaðabætur og þeim skuldajafnað við stefnukröfur. Að framan hafi verið rökstudd skaðabótaábyrgð stefnanda. Hafi hann vitað eða mátt vita af því að verkið var gallað, en hann hafi engu að síður lokið við bókina og ekki fengist til að lagfæra gallana. Þannig hagi vandaður fagmaður sér ekki og stefnandi hafi því með athæfi sínu valdið stefndu tjóni og sé ábyrgur skv. almennu skaðabótareglunni. Stefndu eigi skaðabótakröfu sem sé mun hærri en stefnukrafan. Tjón stefndu felist í því að ekki var hægt að selja bækurnar í því ástandi sem þær voru. Stefnandi hafi ekki fengist til að endurprenta þær og stefndu orðið fyrir tekjutapi. Tekjutapið af þessum völdum sé kr. 1.222.000,- sbr. matsgerð. Hefði samningurinn verið efndur hefðu stefndu fengið þessa fjárhæð í tekjur af bókinni. Stefndu hafi uppi þessa gagnkröfu og krefjast skuldajafnaðar við stefnukröfu og sýknu af þeim sökum. Hafi verið nauðsynlegt að prenta verkið upp á nýtt vegna gallanna og kostnaður af því a.m.k. jafnhár stefnukröfu málsins. Þó að verkið væri prentað upp á nýtt þá myndi það ekki nýtast nú, sölutíminn hafi verið frá vori 1994 og eitthvað fram eftir því ári.

E. Afsláttur til skuldajafnaðar.

Verði ekki fallist á skaðabótakröfu stefndu, þá er gerð krafa um lækkun stefnukröfu vegna afsláttar. Svar matsmanns í matsgerð um afslátt er að honum þyki hann hæfilegur á bilinu 10-15% en afslátturinn geti þó verið frá 5% upp í endurvinnslu verksins. Nokkuð mikið svigrúm sé hér hjá matsmanni, þ.e. frá 5% upp í endurvinnslu og telja stefndu að stefnandi hafi átt að endurvinna verkið. Hafi hann ekki boðist til þess og eigi hann því ekki rétt til að krefja um endurgjald fyrir verk sem sé svo meingallað að hann hefði átt að endurvinna það. Því eigi að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Til lagaákvæða vísa stefndu til vaxtalaga varðandi dráttarvexti og um málskostnað til einkamálalaga.

Að því er varðar dómkröfur stefndu telur stefnandi þær ekki samrýmast 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 þar sem ekki sé gagnstefnt, sbr. 101. gr. sömu laga.

Stefndu mótmæla þessu og segja aðalkröfu sína vera sýknu, en það sé málsástæða að riftun hafi farið fram.

Verða nú raktir framburðir aðila, vitna svo og önnur gögn málsins eftir því sem þurfa þykir.

Eyþór Ragnar Jósepsson, stjórnarformaður stefnanda, Háuhlíð 2, Akureyri, bar að stefnandi hafi gert tilboð til stefnda Jóns um að prenta bókina. Forvinnsla hennar hafi verið unnin hjá Prentsmiðjunni Petit, þ.e. innskönnun mynda og umbrot bókarinnar. Hlutverk stefnanda hafi verið filmuútkeyrsla, framköllun, plötutaka, prentun og bókband. Þegar átti að fara að skeyta myndirnar frá Prentsmiðjunni Petit hf. upphaflega þá hafi skönnun ekki verið í lagi og niðurstaðan orðið sú að skanna allar myndirnar aftur inn. Hafi stefnandi ekkert haft með val Prentsmiðjunnar Petit hf.að gera, en hafi bent á að þeir væru nýbyrjaðir að skanna. Verkið hafi svo komið aftur frá Prentsmiðjunni Petit hf.og verið unnið. Á þessum tíma hafi hann verið prentsmiðjustjóri ásamt Bjarna heitnum Sigurðssyni. Þegar verkið kom í síðara skiptið þá hafi það ekki verið skoðað þar sem það átti að vera klárt og það keyrt út á filmu. Það tíðkist að keyra svona verk út þegar forvinnslan sé í annarra höndum. Hafi stefnandi talið að stefndu hafi fylgst með verkinu hjá Prentsmiðjunni Petit hf.Um hafi verið að ræða ný vinnubrögð í sambandi við tölvuvinnslu í sambandi við prentun. Verkið sé afhent eftir prentun 24. maí og 3. júní greiði stefndi Jón sinn hlut í innborgun og tali um að hann sé ekki nógu ánægður með verkið. Síðan hafi verið fundað á skrifstofu stefnda Jóns og málin rædd, en upplagið hafi allt verið prentað. Algengt sé að upplagið sé ekki tekið allt í einu eða bundið heldur sé það gert eftir hendinni, en alltaf sé prentað eitthvað umfram. Sem prentsmiðjustjóri hafi hann aðallega séð um samband við viðskiptavinina, en hann sé ekki prentlærður og ekki unnið í prentsmiðjunni sem fagmaður, heldur hafi hann gripið í verk, kunnað handtök, reynt að læra vinnsluferilinn. Ekki minntist hann þess að hann hefði unnið sjálfur við Árbókina og taldi það ólíklegt, en man ekki hver lýsti filmurnar á plötur. Seinni skönnunin hafi verið gölluð, það vanti punkta í myndirnar og hafi hann séð þetta þegar stefndi Jón kvartaði yfir bókinni þann 3. júní og sjái á filmum eftir á að skönnunin hafi verið gölluð. Allur gangur sé á gæðaeftirliti eftir tölvutæknina þegar forvinnslan sé unnin annars staðar. Mjög fjölbreytt sé hvernig gögnum sé skilað inn í prentsmiðju og menn ráði útliti. Stefndi Jón hafi haft alla möguleika á að skoða myndirnar hjá Prentsmiðjunni Petit hf.og taldi reyndar að hann hafi gert það. Stefnandi hafi eingöngu tekið að sér seinni hluta verksins og fyrri hlutinn hafi átt að koma klár. Stefnda Jóni hafi verið afhentar rúmlega 900 bækur af þessum 1.000 sem um var samið. Aðspurður um prentplötur kvað hann ekki vanalegt að geymdar væru þær sem ekki væru notaðar aftur. Ekki borgi sig að geyma prentplötur því þær hafi þurft sérstaka meðferð við geymslu. Prentplöturnar fyrir Árbókina hafi farið í endurvinnslu og þær hafi ekki verið til staðar þegar farið var að kvarta yfir bókinni. Nánar aðspurður um tilboðið þá hafi það verið munnlegt kr. 410.000,- án virðisaukaskatts og skyldi verkið koma tilbúið til útkeyrslu á filmu. Varðandi fyrri filmuútkeyrsluna sem gölluð var, þ.e. skönnunin þá hafi þetta verið aukaverk vegna galla hjá Prentsmiðjunni Petit hf., sem stefndu beri að greiða. Varðandi þær viðræður er áttu sér stað þá hafi verið rætt um það hvernig hægt væri að ljúka þessu máli, en aldrei rætt um fjárhæð afsláttar þar sem stefnandi hafi ekki viðurkennt að gallinn á verkinu væri þeim að kenna heldur væri um að kenna innskönnun myndanna.

Stefndi, Jón Hjaltason, sagnfræðingur og útgefandi, Byggðavegi 101 B, Akureyri, bar að hann og stefndi, Halldór Wium, hafi unnið að árbókinni árið 1993 og fram á 1994 og hafi farið í þetta 5-6 mánaða vinna. Samið hafi verið við Prentsmiðjuna Petit hf.og stefnanda, þá POB, þar sem sá fyrrnefndi átti að vinna umbrot og skönnun og stefnandi það sem eftir var. Kostnaður - greiðslur - hafi skipst til helminga milli þeirra stefndu. Hann kvaðst hafa lítið tæknilegt vit, en hafi sagt ráðamönnum stefnanda og Prentsmiðjunnar Petit hf.að þeir þyrftu að hafa þetta í lagi. Fyrst hafi verið hóað í þá af stefnanda, hafi augljóslega verið gölluð vinna hjá Prentsmiðjunni Petit hf.þar sem á ljósaborði hafi verið stallar á útlínum myndanna. Hafi Trausti Haraldsson hjá Prentsmiðjunni Petit hf.tekið tölvudiskinn aftur og skannað inn allar myndirnar. Næst hafi hann heyrt af verkinu að það væri tilbúið og hafi verkið farið í plöstun. Hafi hann tekið plast utan af bók og séð að verkið var gallað. Hafi þetta verið í byrjun júní og hann strax kvartað. Hafi hann rætt við Daníel Árnason og fundist forsvarsmenn stefnanda samvinnufúsir, ræddu um að gefa afslátt, en samningar gengið hægt en menn hafi verið jákvæðir. Hafi forsvarsmenn stefnanda viljað athuga málið betur og ekki hafi verð talað um neinar upphæðir. Taldi hann að þeir stefndu hafi verið dregnir á asnaeyrunum allt sumarið, en þeir hafi ætlað sér að koma bókinni í sölu eftir að var búið að ganga frá afsláttarmálum. Bókin hafi farið í sölu í Hagkaup og þeir ætlað að setja hana í húsasölu og hafi haft sölumann til þess. Af bókinni hafi verið seld á bilinu 80-90 eintök. Allar viðræður hafi farið í háaloft í ágúst og hafi þeir þá ákveðið að rifta kaupunum. Áður en þetta kom til hafi hann unnið að útgáfu þriggja eða fjögurra bóka og Prentsmiðjan Petit hf.hafi verið valin þar sem hann hafi talið þá hæfa menn. Hafi hann ekkert fylgst með vinnsluferli bókarinnar eftir fyrri skönnunina í prentsmiðjunni. Hafi hann ekkert fylgst með seinni skönnuninni. Hafi hann eingöngu viljað fá viðunandi prentgrip. Ekki hafi hann fengið afslátt hjá Prentsmiðjunni Petit hf., það hafi ekki komið til tals. Hafi Prentsmiðjan Petit hf.látið prenta út filmu hjá Dagsprenti og hafi þær myndir verið í lagi og hjá Ásprenti einnig þannig að þeir hafi talið alla sökina vera hjá stefnanda þess vegna. Aðspurður um filmurnar sem keyrðar voru út í Dagsprenti og Ásprenti taldi hann að matsmaður hefði ekki skilað þeim.

Annar hinna dómkvöddu matsmanna, Hjörtur Kristinsson, prentsmiður, Bleakstreet 82, Christchurch, Nýja Sjálandi bar að afsláttur gæti verið 5-15% upp í að prenta verkið upp á nýtt, sem hann taldi ekki ósanngjarna kröfu í þessu tilfelli að væri gert. Væri um að ræða ritröð þannig að máli skipti að vinnsla væri góð í upphafi varðandi framhald. Taldi hann mismuninn milli eintaka eingöngu stafa af því að prentunin væri ekki nógu góð. Varðandi spurningu nr. 3 í matsbeiðni væri prentun í lagi þá væri hægt að fá boðleg eintök út. Taldi hann verkkaupa eiga prentplöturnar og væri þeim haldið eftir þar til í ljós kæmi hvort til endurprentunar kæmi. Í þessu tilfelli hafði prentplötum verið fargað. Í matinu hefðu prentplötur verið veigamiklar, hann hafi orðið að framleiða plötur sjálfur eftir filmum sem til voru. Gæðaeftirlit í prentsmiðjunni hefði ekki verið til staðar, en það væri mikilvægur þáttur í starfi prentsmiðju. Eðlileg vinnubrögð hefðu verið að keyra út 1-2 filmur og athuga áður en lengra yrði haldið. Aðspurður hvort bókin væri gölluð þá svaraði hann því játandi, hann hefði séð svona verkum hafnað af útgefendum. Allt of mikill munur væri á eintökum. Skönnunin væri ekki í lagi þannig að báðir ættu sök. Skönnunin gæti verið betri. Spurningu nr. 5 varðandi 10-15% afslátt þá væri afsláttur alltaf samkomulagsatriði. Stæði hann við matið að hæfilegur afsláttur væri 10-15%. Sitt mat jafnvel 30% afsláttur og þætti ekki mikið.

Vitnið Jón Ólafur Sigfússon, prentsmiður, Grundargerði 2 b, Akureyri, verkstjóri í setninga- og filmudeild, bar að hann hafi tekið á móti gögnum og séð um að koma þeim út á filmu. Hafi hann ekki opnað myndirnar. Í fyrra skiptið hafi hann keyrt verkið í heild út á filmu og sé það alla jafna gert að keyra svona verk út í einu, þ.e.a.s. svona stór verk, þ.e.a.s. heilar bækur. Hafi þetta verið unnið á venjulegan máta. Verkið komi í annað sinn frá Prentsmiðjunni Petit hf.á diski og það spilað inn í tölvuna. Ekki mundi vitnið hver lýsti filmurnar á prentplöturnar, en myndirnar hafi ekki verið opnaðar í Photoshop kerfinu í seinna skiptið. Filmurnar hafi verið skoðaðar og þá hafi verið horfinn kanturinn sem sést hafi á myndunum við fyrri skönnunina. Myndirnar hafi verið misjafnar að gæðum í seinna skiptið, verið flatar, illa kontrastaðar, en venjulegt sé að fá myndir misjafnar að gæðum. Ekki hafi komið til álita að kalla á verkkaupa vegna seinni filmanna þó að myndirnar væru misjafnar. Skilaboðin sem fylgdu verkinu að þetta væri komið í lag. Þetta hafi verið verk sem kom utan úr bæ og hann hafi ekki velt galla fyrir sér, menn geti haft mismunandi forsendur í myndgerð. Hafi hann séð að myndirnar voru ekki góðar, en það væri ekkert nýtt.

Vitnið Þór Sigurðsson, prentsmiður, Helgamagrastræti 43, Akureyri, bar að þegar verkið kom fyrst inn þá hafi hann rekið sig á galla við útkeyrslu. Haft hafi verið samband við Trausta Haraldsson hjá Prentsmiðjunni Petit hf.Hafi hann farið með diskinn og föndrað eitthvað við hann. Hafi hann talað við Trausta er hann kom í annað skipti. Hafi hann látið keyra út prufu og sé verkið enn gallað og verkið komi svo í þriðja skiptið. Hafi hann ekkert komið að þessu meir. Þegar kvörtun kom um verkið hafi hann borið saman punktinn á filmum og plötum og það hafði ekkert breyst. Hann sagði að prentplötur væru geymdar af verkum sem væru prentuð aftur og aftur, einnig af bókum ef líkur væru á endurprentun. Ekki vissi vitnið hvernig farið var með prentplöturnar, en þessar plötur hefðu ekki verið geymdar að öllu eðlilegu vegna þess að þetta var árbók. Taldi hann að biðja hefði þurft um að geyma þær. Hann taldi verkkaupa eiga plöturnar, ekki mundi hann hver vann prentplötuvinnsluna, sennilega hafi það verið unnið um helgi. Ekki taldi hann skönnunina gallaða í síðasta skiptið, heldur léleg vinnubrögð hjá Prentsmiðjunni Petit hf. Hafi hann séð þetta á filmunum að þetta hafi verið léleg vinnubrögð, vantað hafi punkta í myndirnar. Hver mynd væri ekki skoðuð, þetta væri ekki augljóst og gífurlega tímafrekt. Hafi hann séð þennan galla þegar búið var að kvarta og þá hafi hann skoðað filmurnar. Væri það huglægt mat hvenær mynd væri svo léleg að hún væri ekki prentuð. Gengið sé út frá því að undirverktakar skili boðlegu verki, mat misjafnt hvað einum finnist gott og öðrum ekki. Hann upplýsti að hann kynni ekki á tölvu, en þessi galli með punkta í myndunum væri skönnunargalli í upphafi. Alltaf væri eitthvað að koma upp í prentsmiðjum, þetta ferli væri svo tímafrekt í tölvum og væri þetta oft keyrt út á nóttunum. Það komi fyrir að vinna þurfi verk upp á nýtt, ef núverandi vinnutilhögun væri ekki viðhöfð væri ekki hægt að vinna mörg verk í prentsmiðjum.

Vitnið Haukur Sigfússon, ofsettprentari, Vestursíðu 6 B, Akureyri, bar að hann hafi prentað verkið. Ekki mundi hann eftir neinu sérstöku í sambandi við það, en að því hafi verið staðið eðlilega. Varðandi gæði þessarar bókar megi alltaf um það deila. Í svarthvítri prentun væru litlir möguleikar að laga myndir með farvagjöf, helst þyrfti að hafa frummynd við hendina því að um leið og myndir væru lýstar að þá gránaði textinn, en þetta væri alltaf matsatriði. Hann taldi sig eitthvað hafa verið að eltast við myndirnar með því að létta á litnum, hafi hann verið einn við prentunina og hafi hann ekki látið vita um þetta sérstaklega. Letur, texti og mynd, allt spili þetta saman.

Vitnið Trausti Axels Haraldsson, ofsettprentari, Rimasíðu 25 D, Akureyri, bar að hann hafi skannað ljósmyndirnar í bókina í Prentsmiðjunni Petit hf., sem gert hafi tilboð í skönnun og umbrot. Ekki hafi verið búið að ákveða hvar bókin yrði prentuð. Fyrsta skönnun hafi verið ónýt og skannað aftur og því lokið 4.-5. maí. Gallinn við fyrri skönnunina hafi verið sá að ekki hafi nægjanleg upplausn í myndum. Í seinna skiptið vissi hann ekki betur en að myndirnar væru í lagi. Hafi hann talið skönnunina í lagi og ekki hafi hann verið látinn vita að svo væri ekki. Eftir að prentun lauk hafi verið fundað með öllum þeim sem komu að verkinu og allir sammála um að bókin væri gölluð. Stefnandi hafi sagt að skönnunin væri ekki í lagi, en þeir hjá Prentsmiðjunni Petit hf. hafi talið hana í lagi og um þetta hafi verið deilt. Þeir Petitmenn hafi sent suður disksíðu úr bókinni og ljósmynd og filmu í Ásprent og Dagsprent, útkoman hjá Ásprent hafi verið í lagi, en ekki fullkomin í Dagsprenti. Áður hafði hann skannað myndir, þarna hafi verið um nýja tækni að ræða og prentsmiðjan verið búin að vera með skanna í tvo mánuði. Hafi hann fengið tilsögn í skönnun hjá Andrési Magnússyni. Í fyrra skiptið hafi verið mannleg mistök við verkið sem hann hafi viðurkennt, í seinna skiptið taldi hann sig hafa skilað fullboðlegu verki. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við verkið fyrr en búið var að prenta verkið. Á þessum tíma hafi prenttæknin verið að fara út í tölvuvinnslu. Mismun á því sem kom út úr prentvinnunni hjá Ásprenti og Dagsprenti taldi hann liggja í mismunandi prenttækjum. Þeir Petitmenn hafi leitað svara og hafi talið allt í lagi hjá sér. Stefndi Jón hafi litið á hvernig verkið gengi, en ekki fylgst með skönnuninni, en til þess hafi hann ekki haft kunnáttu. Hann taldi að í bókinni væru ónýtar myndir, en stefnandi hafi talið allt í lagi með sinn verkþátt og þetta lent í hringli og rugli.

Matsmaðurinn Bragi Þórðarson, bókaútgefandi, og prentsetjari, Dalbraut 17, Akranesi, staðfesti matsgjörðina frá 9. mars 1995. Hafi hann ekki unnið að matinu með Hirti, þ.e. verklega þáttinn. Hafi Hjörtur farið hingað til Akureyrar og vitnið skoðaði í Borgarprenti í Reykjavík það efni sem Hjörtur kom með.

Svo sem áður er greint fór fram dómkvaðning matsmanna að beiðni stefndu með beiðni dags. 15.11.1994 þar sem þeir Bragi Þórðarson og Hjörtur Kristinsson voru dómkvaddir 21. s.m. til að skoða og meta eftirfarandi, eins og greinir í matsbeiðni á dskj. nr. 12:

„1. Eru myndir í Árbók Akureyrar 1993 gallaðar þ.e. of dökkar miðað við frummyndir?

2. Hverjar eru orsakar gallanna?

3. Á hvaða stigi verksins hefði matsþola átt að vera gallarnir ljósir? Hvernig hefði þá verið hægt að bæta úr göllunum eins og þeir liggja fyrir núna og ef svo er þá hvernig og hve mikið kostar það?

4. Er hægt að bæta úr göllunum eins og þeir liggja fyrir núna og ef svo er þá hvernig og hve mikið kostar það?

5. Hver hefði verið hæfilegur afsláttur af prentkostnaði miðað við gallana?

6. Hvað má ætla að mörg eintök hefðu selst af Árbók Akureyrar 1993 út úr búð á kr. 1.990,00 og hve mörg eintök í áskrift og hjá síma- og húsasölufólki á kr. 1.490,00?

7. Hverjum var það að kenna að filmur voru gallaðar í fyrra sinnið eins og lýst er í atvikalýsingu hér að framan?

8. Hefði matsþoli átt að sjá að filmurnar voru gallaðar áður en hann var búinn að ljúka filmuvinnu á allri bókinni? Á hvaða stigi hefði það þá verið og hver hefði verið kostnaðurinn af því verki.

9. Hvað er sanngjarnt að ætla að filmuvinnan hafi verið stór hluti af tilboðsverði Akoplast og POB hf?

Það sem sanna skal.

Matsbeiðendur hyggjast sanna eftirfarandi:

1. Að myndirnar séu gallaðar í Árbók Akureyrar 1993.

2. Að matsþoli beri ábyrgð á göllunum á bókinni. Í fyrsta lagi með því að vinnsla matsþola hefur ekki verið nógu góð á myndunum og í öðru lagi með því að hafa ekki haft nægilegt eftirlit með eigin framleiðslu svo að gallinn uppgötvaðist ekki fyrr en vinnslu var lokið á bókinni og þar með var orðið bæði erfitt og dýrt að bæta úr honum.

3. Hve mikið kostar að bæta úr göllunum.

4. Hve mikilum afslætti matsbeiðendur hefðu átt rétt á.

5. Hve mörg eintök hefðu að líkindum selst af Árbókinni 1993.

6. Að matsþola var um að kenna að filmurnar voru gallaðar í fyrra sinnið.

7. Að matsþoli hefði átt að sjá að fyrstu filmurnar voru gallaðar og því hefði hann getað hætt framleiðslu og takmarkað tjónið þannig að tjónið sem hann metur á kr. 176.130,00 hefði ekki verið neitt nálægt því svo mikið.“

Þess skal getið að stefnandi er nefndur matsþoli.

Matsmaðurinn Bragi Þórðarson skilaði svofelldri álitsgerð, dags. á Akranesi 9. mars 1995, sbr. dskj. nr. 14:

„Álitsgerð.

Samkvæmt beiðni hef ég skoðað Árbók Akureyrar 1993. Einnig sýnishorn prentuð samkvæmt meðfylgjandi matsgerð Hjartar Kristinssonar í Borgarprenti. Ég er samþykkur því mati. Varðandi 6. lið í spurningum matsbeiðenda um markaðs- og bóksölumál Árbókarinnar á Akureyri: Ég tel mig ekki hafa stöðu til að meta þann þátt, en bendi á að útsöluverð bókarinnar var kr. 1.990,-. Nettóverð hennar (að frádregnum v.s.k. og sölulaunum) er kr. 1.222,-. Upplag hennar er 1000. Ef allt hefði selst væru verðmæti bókarinnar kr. 1.222.000. Hafa ber jafnframt í huga, að varla er reiknað með að selja allt upplag bókar. Hins vegnar er það skoðun mín að eðlilegt hefði verið að málsaðilar semdu um afslátt af verkinu, eins og lýst er í greininni MÁLSATVIK, en þar segir m.a.: „Kvartað var yfir göllunum en forsvarsmenn AKOPLAST og POB hf.hétu því að gefa afslátt af verklaunum, enda var ekki deila um það verkið væri gallað. Var því ákveðið að gera gott úr þessu selja bókina ódýrt.“ Þessi niðurstaða hefði verið eðlileg að mínu áliti og réttlætanlegt að setja bókina í sölu samkvæmt því með tilliti til þess hve afmarkaðan sölutíma hún hafði.“

Matsmaðurinn Hjörtur Kristinsson skilaði eftirgreindu ódagsettu mati, sbr. dskj. nr. 14:

„1. Prentvinnsla Árbókar Akureyrar er alls ekki fullnægjandi, kemur það sérstaklega fram í óvenju miklum mun á milli eintaka ef eintök eru tekin af handahófi úr bókastaflanum hjá POB. Í góðum eintökum eru myndir flestar það sem kallast boðlegar í prentverki í dag. En í dekkri eintökum eru myndir alls engan veginn boðlegar. Sjá einnig meðfylgjandi eintök.

2. Orsakir liggja í tveimur atriðum þ.e. skönnun og prentun. Í skönnuninni vantar víða smáatriði í háljósum og skuggum, og jafnframt eru ýmsar myndir full dökkar. Varðandi prentun og plötuupptöku, er um það að segja að þar sem eigendur POB voru búnir að farga öllum prentplötum þegar matið fór fram var ekki hægt að dæma um þá verkhlið málsins. Að því sjálfgefnu að plötutaka hafi verið eðlileg er ekki annað að sjá en að farvagjöf í prentun hafi verið gróflega misjöfn og víða farið offari. Eina færa leiðin til þess að fá raunhæft mat á þessum hlutum var að skanna inn myndirnar aftur og prenta síðan eintök eftir bæði gömlum og nýjum filmum þar sem plötutaka og farvagjöf er eins og hún á að vera.

a.   Prentað eftir sömu filmum og bókin sjálf var prentuð eftir.

b.   Prentað eftir filmum keyrðum út hjá POB í janúar 95.

c.   Prentað eftir filmum keyrðum úr hjá Borgarprent skv. tölvugögnum frá POB.

d.   Prentað eftir filmum keyrðum út hjá Borgarprent myndir skannaðar inn aftur.

Af þessari prentun má sjá að hvorki skönnun mynda né prentun var eins og best var á kosið.

3. Við útkeyrslu verksins á filmu hefði strax mátt sjá að ýmsar myndir voru full dökkar. Auk þess hefði við prentun mátt taka tillit til þess og tempra aðeins farvagjöf og með því móti koma í veg fyrir að myndir yrðu of dökkar. Í þeim tilfellum þar sem myndir þörfnuðust lagfæringa hefði mátt lagfæra þær, keyra út nýjar filmur og taka nýjar plötur. Kostnaður hefði verið u.þ.b. 5.500,- pr. 8 síður 2-4 tilfelli í bókinni.

4. spurning er um hvaða kröfur eru gerðar til mynda í bókinni. Unnt væri að prenta bókina eftir sömu filmum tempra farvagjöfina og fá með því „boðleg eintök” besti kosturinn væri að skanna inn myndirnar aftur og keyra útnýjar filmur.

5. 10-15% afsláttur teldist mér hæfilegur í þessu tilfelli. (Afsláttur er í öllum tilfellum samkomulagsatriði og getur varað frá 5% og allt upp í endurvinnslu verksins).

6. Þar sem undirritaður hefur ekki sérþekkingu á sviði markaðsmála og eða bókasölu treysti ég mér ekki til þess að skila mati á þennan lið.

7. Myndir sem skannaðar voru inn í fyrra sinnið voru í alltof lágri upplausn og engan veginn nothæfar til prentvinnslu.

8. Strax við að sjá stærð skjalanna hefði fagmanni átt að vera ljóst að eitthvað var óeðlilegt við myndirnar auk þess að við útkeyrslu á fyrstu síðu kemur það strax í ljós. Ef útkeyrsla á filmu hefði verið stöðvuð strax hefði kostnaður orðið mjög óverulegur. Ef bókin hefði verð öll keyrð út á filmu hefði kostnaður orðið u.þ.b. 100.000 kr.

9. Filmuvinnsla á Árbók Akureyrar miðað við að gögn komi tilbúin á tölvutæku formi og verkinu verði skilað tilbúnu til plötutöku myndi kosta u.þ.b. 135.000,- + vsk.“

Á dskj. nr. 17 er álitsgerð Offsetþjónustunnar, Faxafeni 10, Reykjavík, stíluð á Eyþór Jósefsson, dags. 14. september, líklega 1995. Segir í álitsgerðinni að hafa beri í huga að sá er álitið gefur hefur ekki sömu gögn í höndum og matsmenn. Síðan segir:

„1. Myndirnar eru of dökkar og teikningu í skuggum ábótavant, öllum ber saman um það. Ég vil ekki tala um galla vegna þess að það er alltaf smekksatriði hvernig myndir eiga að vera.

2. Orsakir eru að mínu mati innskönnun myndanna. Ekki er hægt að sjá að fagmaður hafi unnið verkið eða að notuð hafi verið hágæða tæki. Mjög auðvelt er að sjá þetta með því að fá myndirnar skannaðar inn á hágæðatæki á viðurkenndum stað.

3. Þegar verk kemur til vinnslu og sagt er að það sé tilbúið þá er verkið prentað út á filmur án þess að myndir séu opnaðar hver fyrir sig. það er þess vegna ómögulegt að matsþoli sjái gallana fyrr en verkið kemur á filmur. Að mínu mati er ekki hægt að ætlast til þess að matsþoli geri athugasemdir í tvígang vegna lélegra gæða á myndum. Matsþoli er eingöngu að vinna sitt verk þ.e.a.s. filmuútkeyrslu, prentformagerð, plötugerð, prentun og bókband. Eftirlit með gæðum mynda hlýtur að vera í höndum verkkaupa þar sem hann velur sér vinnsluaðila - verkkaupi hefði getað fengið pappírskópíur af myndum sem gerðar eru eftir prentfilmum ef hann vantreysti þeim sem skönnuðu myndirnar í þriðja sinn. Um kostnað er erfitt að segja en alla vega hefði þurft að skanna allar myndirnar aftur til að fá sambærileg gæði á allar myndirnar og prenta út filmurnar. Verð á svona vinnu er mismunandi eftir stöðum og gæðum. - Það er mitt mat að ekki sé hægt að redda myndunum með mismunandi farvagjöf þar sem að það kæmi niður á textanum.

4. Ekki er hægt að bæta úr svona verki nema að gera allt frá grunni. - Ég held að erfitt sé að greina á milli boðlegra og óboðlegra eintaka.

5. Þar sem að matsþoli ber ekki ábyrgð á innskönnun myndanna þá er að mínu mati ekki hægt að tala um afslátt vegna mynda.

6. ……

7. Eins og áður hefur komið fram er það sá sem ber ábyrgð á skönnun myndanna.

8. Matsþola bar engin skylda til að sjá galla í myndum þar sem að verkið kom tilbúið frá öðrum aðila sem að mati verkkaupa var hæfur til að skanna inn myndir.“

Á dskj. nr. 18 er bréf þeirra Halldórs Gunnars Halldórssonar, Péturs Ágústssonar og Rafns Árnasonar, dags. í Reykjavík 7. nóvember 1995, til stefnda Jóns Hjaltasonar þar sem þeir fjalla um prentvinnslu Árbókar Akureyrar 1993 og geta þess neðanmáls að þeir sem framkvæmi mat þetta skipi sveinsprófsnefnd í prentsmíði, þ.e. séu fulltrúar Félags bókagerðarmanna, Samtaka iðnaðarins og Menntamálaráðuneytisins í prófnefndinni, svohljóðandi:

„Hér með fylgir umsögn okkar undirritaðra um prentvinnslu Árbókar Akureyrar 1993, útgefandi Bókaútgáfan Hólar, 1994: Eftir ítarlega skoðun þeirra gagna sem fyrir okkur voru lögð er niðurstaða okkar þessi:

1. Skönnun margra mynda er ekki eins og best verður á kosið. Æskilegt hefði verið að taka pappírskópíu af myndum, eftir skönnun, til að bera saman við frummyndir.

2. Prentun bókarinnar er mjög misjöfn (misdökkar síður). Það er mat okkar að þegar séð var hversu dökkar sumar myndir bókarinnar voru, hefði hiklaust átt að stöðva prentun og hafa samband við verkkaupa og gefa honum kost á að gera athugasemdir (t.d. með samanburði við frummyndir). Fráleitt hafi verið að halda áfram að prenta myndir sem auðsjáanlega voru ónothæfar.

Meðfylgjandi gögn við ofangreint mat:

a. ca 4-10 eintök bókarinnar eftir lokavinnslu eins og þau eintök voru afhent verkkaupa.

b. Greinargerð dómkvadds matsmanns ásamt meðfylgjandi gögnum (þ.e. myndaprentörk unnin eftir mismunandi gögnum - skönnuðum myndum).“

Álit dómsins:

Dómurinn fellst á þá niðurstöðu matsmanna að prentvinnsla Árbókar Akureyrar hafi alls ekki verið fullnægjandi, sem komi fram í óvenju miklum mun á milli eintaka og orsakanna sé að leita í tveimur atriðum, þ.e.a.s. skönnun og prentun.

Stefnandi hefði átt að stöðva prentun og kalla stefndu til og gefa þeim kost á að gera athugasemdir og taka ákvörðun um framhald þegar séð var hversu dökkar sumar myndir bókarinnar voru. Vegna þessa telur dómurinn hæfilegt að veita stefndu 30% afslátt af tilboðsverðinu kr. 410.000,-, en ekki er fallist á riftunarkröfu stefndu.

Það er álit dómsins að við fyrstu útkeyrslu á bókinni hefði stefnandi átt að sjá við eðlilega aðgæslu að eitthvað hafi verið óeðlilegt við myndirnar og því ekki átt að leggja í þann kostnað að keyra alla bókina út á filmu og eru því stefndu sýknaðir af þeirri kröfu stefnanda, þ.e.a.s. samkvæmt reikningum dagsettum 05.09.1994 að fjárhæð kr. 88.065,-.

Samkvæmt gögnum málsins eru reikningar stefnanda stílaðir á sitt hvorn stefnda svo og innheimtubréf lögmanns hans og er því krafa þeirra um pro rata ábyrgð tekin til greina, sem dómurinn skilur þannig að þar sem stefndu gera í varakröfu sinni kröfu um helmingaskipti skuldaábyrgðar, þ.e. pro rata, að þeir verði dæmdir hvor um sig.

Þá er dráttarvaxtakrafa stefnanda tekin til greina frá stefnubirtingardegi 2. ágúst 1996, en frá 1. október 1994 til þess dags greiði stefndu almenna innlánsvexti.

Samkvæmt þessu ber hvorum stefnda að greiða stefnanda kr. 143.500,- auk virðisaukaskatts kr. 31.158,- eða alls kr. 178.658,- auk vaxta eins og í dómsorð greinir og að frádregnum kr. 85.000,- er stefndi Jón greiddi þann 3. júní 1994.

Rétt þykir eftir atvikum að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kváðu upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum Guðjóni Sigurðssyni, prentsmíðameistara, og Halli Jónasi Stefánssyni, offsetprentara.

Dómsorð:

Stefndi, Jón Hjaltason, greiði stefnanda, Upphafi hf., kr. 178.658,- ásamt almennum innlánsvöxtum frá 1. október 1994 til 2. ágúst 1996, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum kr. 85.000,- er hann greiddi 3. júní 1994.

Stefndi, Halldór Þór Wium Kristinsson, greiði stefnanda, Upphafi hf., kr. 178.658,- ásamt almennum innlánsvöxtum frá 1. október 1994 til 2. ágúst 1996, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.