Hæstiréttur íslands

Mál nr. 411/2005


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. mars 2006.

Nr. 411/2005.

Gunnar Sigurðsson

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Vinnuslys. Gjafsókn.

Í júlí 1993 varð G fyrir slysi er hann var við vinnu sína hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Daginn eftir leitaði hann til læknis og varð niðurstaða hans sú að hann hefði hlotið mar og tognanir á læri og mjóbaki við slysið. Kvaðst G hafa æ síðan þjáðst af verkjum í baki og niður í ganglimi en leitaði þó ekki læknis af þessum sökum fyrr en nokkrum árum síðar. Þrátt fyrir það var talið upplýst að hann hefði hlotið áverka við slysið og með vísan til matsgerðar dómkvaddra matsmanna, sem ekki hefði verið hnekkt, yrði að telja nægilega fram komið að núverandi einkenni G og örorka væru afleiðingar þess. Þar sem vinnufélagi G hafði sýnt af sér gáleysi er slysið varð var talið að varnarliðið bæri skaðabótaábyrgð á því. Samkvæmt 2. tölul. 12. gr. fylgiskjals með lögum nr. 110/1951 hvíldi greiðsluskylda á Í af þessum sökum og var því fallist á kröfu G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 13. september 2005. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.436.924 krónur með 2% ársvöxtum frá 26. júní 1999 til 26. júní 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að stefnukrafan verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi slasaðist áfrýjandi við vinnu sína hjá varnarliði Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli 1. júlí 1993, þar sem hann hafði unnið frá 1984. Var hann að vinna við losun á gámi ásamt vinnufélaga sínum, sem var á lyftara. Reyndu þeir að koma lyftaragöfflum undir trékassa og fór áfrýjandi fyrir framan kassann til að lyfta honum upp, en vinnufélaginn ók lyftaranum áfram og náði ekki að stöðva hann í tæka tíð þannig að áfrýjandi klemmdist milli gálga lyftarans og kassans. Bar vinnufélaginn fyrir dómi að lyftarinn hefði farið of langt og hann ekki náð að stöðva hann. Daginn eftir leitaði áfrýjandi til læknis og í bókun læknisins kemur fram, að hann hafi við þetta hlotið áverka á læri og í mjóbaki vinstra megin. Var það túlkað sem mar og tognanir og fékk hann bólgueyðandi töflur, en að öðru leyti taldi læknirinn að þetta myndi lagast af sjálfu sér. Áfrýjandi hélt áfram vinnu sinni hjá varnarliðinu en fékk auðveldara starf við að keyra út létta pakka. Áfrýjandi kveðst æ síðan hafa þjáðst af verkjum í baki og niður í ganglimi og í byrjun október 1997 leitaði hann til nuddara vegna þess, auk þess sem hann fór í sjúkraþjálfun 2001. Þá leitaði hann til læknis 12. nóvember 1999 og var þá frá vinnu í þrjá daga vegna bakverkja. Hinn 15. febrúar 2002 leitaði áfrýjandi til Sigurjóns Sigurðssonar læknis og var þá í fyrsta skipti tekin tölvusneiðmynd af lendhrygg. Komu í ljós slit og rýrnunarbreytingar í bakinu auk skriðs á hryggjarlið, og taldi læknirinn töluverðar líkur vera á því, að einkenni þau sem áfrýjandi hefði væru af völdum slyssins.

Að beiðni lögmanns áfrýjanda og skaðabótanefndar samkvæmt lögum nr. 110/1951 um varnarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna mátu Atli Þór Ólason læknir og Ingvar Sveinbjörnsson hæstaréttarlögmaður tímabundnar og varanlegar afleiðingar slyssins með matsgerð 11. mars 2003. Þeir töldu óvissu ríkja um það, hvort núverandi einkenni áfrýjanda tengdust slysinu 1. júlí 1993, en töldu svona slys geta leitt til álíka óþæginda og áfrýjandi teldi sig búa við. Þeir treystu sér ekki til að fullyrða, að tengsl væru milli núverandi einkenna áfrýjanda og slyssins, en ef svo væri þá væru mjóhryggjareinkennin metin til 5% varanlegs miska. Tímabundin og varanleg örorka væri engin.

Að ósk áfrýjanda voru dómkvaddir tveir matsmenn, Torfi Magnússon læknir og Magnús Thoroddsen hæstaréttarlögmaður, til að meta tímabundna óvinnufærni áfrýjanda vegna slyssins, veikindadaga með og án rúmlegu, varanlegan miska og varanlega örorku. Skiluðu þeir matsgerð sinni 10. júní 2004 og komust að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið um tímabundið atvinnutjón að ræða, áfrýjandi hefði ekki verið rúmliggjandi eftir slysið en þeir mátu honum þjáningarbætur í einn mánuð eftir slysið með vísan til 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þeir töldu varanlegan miska vera 5% og varanlega örorku 10%. Matsgerð þessi er mjög ítarleg og komast matsmenn að rökstuddri niðurstöðu um hvaða einkenni stafi af slysinu 1. júlí 1993 og hver ekki. Er niðurstaða matsgerðarinnar rakin í héraðsdómi.

Þótt langur tími hafi liðið frá slysi áfrýjanda þar til hann leitaði læknis vegna þess, er í ljós leitt að hann varð fyrir áverka við slysið, sem staðfest var af lækni daginn eftir slysið. Með vísan til matsgerðar dómkvaddra manna, sem ekki hefur verið hnekkt, verður að telja nægilega fram komið að núverandi einkenni áfrýjanda og örorka séu afleiðingar slyssins 1. júlí 1993.

II.

Aðdraganda slyssins 1. júlí 1993 er lýst hér að framan. Með því að aka lyftaranum á áfrýjanda sýndi vinnufélagi hans af sér gáleysi, sem vinnuveitandi hans, varnarliðið á Keflavíkurflugvelli, ber skaðabótaábyrgð á. Greiðsluskylda stefnda hvílir á 2. tölulið 12. gr. fylgiskjals með lögum nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess.

Bótakrafa áfrýjanda er reist á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna og er sundurgreind í héraðsdómi. Samtals nemur krafan 1.436.924 krónum. Var endanleg dómkrafa sett fram 14. júní 2004. Verður krafa áfrýjanda tekin til greina með vöxtum, svo sem í dómsorði greinir.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms skal vera óraskað.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Gunnari Sigurðssyni, 1.436.924 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 26. júní 1999 til 14. júlí 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og veðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms skal vera óraskað.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2005.

I

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 25. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Gunnari Sigurðssyni, kt. 240863-4139, Álfholti 42, Hafnarfirði, með stefnu birtri 25. júní 2003 á hendur íslenzka ríkinu.

        Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 1.436.924, með 2% vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 1. júlí 1993 til 26. júní 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr. l. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafizt málskostnaðar að mati dómsins, með hliðsjón af málskostnaðarreikningi, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur.

        Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður, að mati réttarins.  Til vara er gerð krafa um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda, og í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður.

II

Málavextir

Málavextir eru þeir, að stefnandi lenti í vinnuslysi þann 1. júlí 1993, þar sem hann starfaði hjá varnarliði Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli.  Vildi slysið þannig til, að vinnufélagi stefnanda, Magnús Konráðsson, sem vann á lyftara við losun á gámi í einni af birgðastöðum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, óskaði eftir aðstoð stefnanda við að lyfta upp kassa, sem var inni í gáminum, þar sem gaffall lyftarans komst ekki undir kassann.  Stefnandi kveður kassann hafa verið ílangan, um 50 cm á hæð og um 30 kg að þyngd.  Stefnandi fór inn í gáminn og lyfti upp enda kassans.  Við það sneri hann baki að lyftaranum.  Samkvæmt frásögn stefnanda fyrir dómi bað hann Magnús síðan um að koma aðeins með gafflana á lyftaranum undir kassann, svo hann gæti farið frá.  Magnús ók lyftaranum að stefnanda, þannig að gafflar hans lentu hvor sínum megin við annað læri stefnanda, en einhverra hluta vegna náði hann ekki að stöðva lyftarann í tæka tíð, þannig að stefnandi klemmdist milli gálga lyftarans og kassans.

        Stefnandi kveður höggið frá lyftaranum hafa komið á brjóstkassa og bak sitt, og hafi hann strax kennt sér meins, sérstaklega í baki.  Einnig kveðst hann hafa snúizt illa á vinstra hné í slysinu.  Hann var þó við vinnu þann dag allan, en kveðst þó einungis hafa setið og svarað í síma.  Daginn eftir leitaði stefnandi til læknis, þar sem kemur fram að hann hafi hlotið áverka framan á hægra læri og á bak, en læknirinn taldi, að meiðslin myndu lagast af sjálfu sér.  Stefnandi kveðst æ síðan hafa þjáðst af verkjum í baki og niður í ganglimi.  Hann leitaði þó ekki læknis vegna bakverkja fyrr en allmörgum árum síðar. 

        Verkstjóra stefnanda var tilkynnt um slysið, en vinnueftirlit var ekki kallað til.

        Stefnandi kveðst hafa verið færður til í léttari vinnu eftir slysið, meðan hann var að jafna sig.  Þegar hann treysti sér til hafi hann farið til fyrri starfa, en hafi þó ekki verið í sömu erfiðisvinnu og áður, hann hafi verið í útkeyrslu á litlum kössum, en ekkert verið í gámum.  Hann kveður bakverki hafa ágerzt, eftir því sem árin liðu. Kveðst hann nú með herkjum geta unnið fullan vinnudag; hann geti ekki setið lengi í sömu stellingu, t.d. í bíl, og hafi þurft að gefa upp á bátinn ýmsa tómstundaiðju, s.s. körfubolta, vegna bakverkja.  Að auki hafi verkirnir skapað stefnanda mikil vandkvæði við umönnun fatlaðrar dóttur sinnar, sem hann eigi t.d. mjög erfitt með að halda á vegna bakverkja.

        Stefnandi kveðst hafa leitað sér aðstoðar vegna bakverkjanna, m.a. hafi hann farið í sjúkraþjálfun og leitað til nuddara frá árinu 1996 til ársins 2002.  Þann 12. nóvember 1999 hafi hann leitað til Hreggviðs Hermannssonar læknis vegna bakverkjanna, en þá hafi hann verið óvinnufær vegna verkjanna í þrjá daga.  Hafi læknirinn gefið út óvinnufærnisvottorð vegna þessa.  Þá kveðst hann hafa leitað til heimilislæknis síns í Hafnarfirði á árinu 2001 vegna bakverkja og hafi í kjölfarið verið sendur til sjúkraþjálfara.  Hafi hann hlotið nokkurn tímabundinn bata af þeirri meðferð.

        Þann 15. febrúar 2002 kveðst stefnandi hafa leitað til Sigurjóns Sigurðssonar læknis vegna verkja í vinstra hné og baki.  Hafi bak hans þá í fyrsta skipti verið myndað eftir slysið, og hafi komið í ljós slit og rýrnunarbreytingar í bakinu, auk skriðs á hryggjarlið, sem hafi numið 1 cm.  Hafi læknirinn talið, að slysið væri orsök þessara skemmda í bakinu, enda geti slíkt skrið aðeins orsakast af meðfæddum galla eða þungu höggi, líku því, sem stefnandi fékk í slysinu.  Þá komi fram í vottorði læknisins, dags. 5. apríl 2002, að töluverðar líkur séu fyrir því, að rifnað hafi upp úr innra liðþófa í vinstra hné stefnanda í slysinu. 

        Atli Þór Ólason læknir og Ingvar Sveinbjörnsson hrl. mátu tímabundnar og varan­legar afleiðingar slyssins á stefnanda með matsgerð, dags. 11. marz 2003.  Er niðurstaða matsmanna, að þeir treysta sér ekki til að fullyrða, að tengsl séu á milli núverandi einkenna stefnanda og slyssins.  Af þeim sökum telja þeir ekki forsendu til að leggja mat á, hvenær heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt eftir slysið.  Segja þeir í matsgerð, að ef talið verði, að tengsl séu milli slyss og núverandi einkenna, séu mjóhryggjareinkenni metin í heild til 5% varanlegs miska.  Tímabundin og varanleg örorka stefnanda sé engin.

        Skaðabótanefnd skv. lögum nr. 110/1951 um varnarsamning milli Íslands og Banda­ríkjanna hefur neitað að greiða stefnanda bætur.  Þann 19. júní 2004 óskaði lögmaður stefnanda eftir yfirlýsingu frá framangreindri skaðabótanefnd, f.h. stefnda, um að fallið yrði frá 10 ára fyrningu krafna stefnanda, á meðan nauðsynlegra læknisfræðilegra gagna yrði aflað og örorka stefnanda endurmetin.  Ekki var fallizt á það og höfðaði stefnandi því mál þetta innan fyrningarfrests, þótt endanleg kröfufjárhæð lægi ekki fyrir. 

        Að ósk stefnanda voru dómkvaddir tveir matsmenn til að meta tímabundna óvinnufærni stefnanda vegna slyssins, veikindadaga með og án rúmlegu, varanlegan miska og varanlega örorku, allt með vísan til skaðabótalaga.  Dómkvaddir voru Torfi Magnússon læknir og Magnús Thoroddsen hrl.  Er matsgerð þeirra dagsett 10. júní 2004.  Er niðurstaða þeirra sú, að ekki hafi verið um tímabundið atvinnutjón að ræða.  Hann hafi ekki verið rúmliggjandi eftir slysið, en með vísan til undanþáguheimildar í 3. gr. skaðabótalaga meta þeir honum þjáningarbætur í einn mánuð eftir slysið.  Varanlegan miska af völdum slyssins meta þeir 5% og varanlega örorku 10%.

        Endanlegar dómkröfur sínar byggir stefnandi á matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á hendur stefndu á þeirri meginreglu íslenzks skaðabótaréttar, að vinnuveitandi ber skaðabótaábyrgð á saknæmri háttsemi starfsmanna sinna.  Vinnufélagi stefnanda, sem ók lyftaranum á hann, hafi sýnt af sér ólögmæta og saknæma háttsemi með akstrinum og bakað þannig vinnuveitanda sínum bótaskyldu.  Það hafi verið vinnufélagi stefnanda, sem gaf fyrirskipun um, að stefnandi skyldi lyfta upp kassanum svo gafflar lyftarans kæmust að gáminum.  Vinnufélagi stefnanda hafi haft mun betri yfirsýn yfir verksvæðið úr lyftaranum og því stjórnað verkinu.  Með því að aka lyftaranum í átt að stefnanda, hafi vinnufélagi hans lagt hann í óþarfa hættu, en það, sem mestu varði, sé, að með því að aka lyftaranum á stefnanda, hvort sem um sé að kenna, að vinnufélagi stefnanda hafi ekið of hratt og ekki náð að bremsa, eða einhverjum öðrum þáttum í aksturslagi vinnufélaga stefnanda, hafi vinnufélagi stefnanda sýnt af sér mikið gáleysi.  Vinnuveitandi stefnanda og vinnufélaga hans sé varnarlið Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli.

         Stefndi, íslenzka ríkið, beri greiðsluskyldu, f.h. varnarliðsins samkvæmt 2. tl. 12. gr. fylgiskjals með lögum nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess.

         Fjárhæð bótakröfunnar sé byggð á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna og sundurliðist þannig:

1.      Þjáningarbætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga:

         Matsmenn telji, að stefnandi hafi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í einn mánuð, eða 30 daga.  Samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga nemi þjáningabætur kr. 980 á dag, eða kr. 29.400 í 30 daga.

2.      Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga:

         Matsmenn telji varanlegan miska stefnanda 5% vegna afleiðinga slyssins.  Vegna þessa þáttar sé því krafizt, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, 5% x kr. 5.628.000, eða kr. 281.400.

3.      Varanleg örorka samkvæmt 5. – 7. gr. skaðabótalaga:

        Matsmenn telji varanlega örorku stefnanda vegna afleiðinga slyssins 10%. Tekjur hans árið fyrir slysið hafi numið kr. 1.501.499.

        Samkvæmt framansögðu nemi bætur vegna varanlegrar örorku kr. 1.501.499 x 7,5 x 10%, eða kr. 1.126.124.

        Samtals nemi krafa stefnanda kr. 1.436.924.

         Stefnandi vísar varðandi vaxtakröfu til skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og þau voru í gildi á slysdegi.  Dráttarvaxtakrafa stefnanda byggir á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.  Miðist upphafsdagur dráttarvaxta við þingfestingardag máls þessa í héraði.  Málskostnaðarkrafa stefnanda er studd við 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.  Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur.  Um varnarþing vísar stefnandi til 3. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda

Stefndi kveður skorta mjög á, að glöggar upplýsingar væru um óhapp stefnanda og að um verulegt tómlæti sé að ræða hjá stefnanda í málinu.

         Einu samtíða gögnin séu slysaskýrsla verkstjóra frá 5. júlí 1993 á dskj. 3 og ritun læknis í sjúkradagbók frá 2. júlí 1993, sbr. dskj. 6, en þar segi:

Vinnur hjá Varnarliðinu. Klemmdist á milli lyftara og kassa i gær. Fékk áverka framan á hæ. læri og aftan á gluteal svæði vi. megin. Mar og hvellaumur við palpation. Ég held að þetta jafnist að sjálfu sér.  Fær 20 stk af vostar 1x3 á dag, annars exp.."

 

         Í slysaskýrslu verkstjóra frá 5. júlí 1993 á dskj. 3 segi:

Gunnar Sigurðsson og Magnús Konráðsson voru að vinna við losun á gám. Reyndu þeir að koma lyftaragöfflum undir trékassa og fór Gunnar fyrir framan kassann til að lyfta honum upp þegar Magnús keyrir áfram og á Gunnar. "

 

         Í skýrslunni sé einnig tilgreint, að ástæða óhappsins hafi verið röng vinnuaðferð.  Því sé haldið fram, að slíkt sé ekki á ábyrgð stefnda, heldur stefnanda sjálfs, en hann hafi sýnt af sér gáleysi, og sé því byggt á eigin sök hans.  Því sé mótmælt, að vinnufélagi stefnanda hafi átt sök á óhappinu og ekkert í gögnum málsins, sem styðji það.  Sé svo, sé því haldið fram, að vinnufélagi stefnanda beri persónulega ábyrgð á ætluðu tjóni stefnanda.

         Athygli sé vakin á mismunandi atvikalýsingu í stefnu og í matsgerð á dskj. nr. 12.  Í stefnu segi, að stefnandi hafi verið að lyfta kassa og hafi staðið hálfboginn inni í gámnum með kassann í fanginu og snúið baki í lyftarann, en vinnufélagi stefnanda hafi ekið lyftaranum að stefnanda.  Annar gaffall lyftarans hafi farið á milli fóta stefnanda en hinn til hliðar við hann.  Vinnufélaginn hafi ekið lyftaranum á stefnanda, og hafi hann klemmst á milli lyftarans og kassans, sem hann hélt á, sem hafi skorðazt upp við gáminn.  Þessi frásögn eigi sér stoð í bréfi stefnanda á dskj. nr. 5, en þar segi, að hann hafi snúið baki í lyftarann, og hafi höggið lent á hryggnum og vinstra hné.  Í matsgerðinni á dskj. nr. 12 á bls. 4 segi aftur á móti, að annar lyftugaffallinn hafi farið á milli fóta Gunnars og hinn til hliðar við hann.  Lyftarinn hafi ekki stöðvazt, og hafi hann keyrt áfram, þannig að teinn hafi rekizt í bak stefnanda og hann klemmzt á milli lyftarans og kassans.  Frásögnin í matsskýrslunni sé höfð eftir stefnanda.   Þannig sé ekki fullkomið samræmi í því, hvernig slysið hafi átt sér stað, og ekki liggi fyrir skýrsla sjónarvotts af óhappinu.

         Í gögnum málsins komi fram, að óhappið hafi átt sér stað upp úr hádegi, og hafi stefnandi kennt sér meins í baki og vinstra hné.  Hann hafi þó haldið vinnu áfram það sem eftir var dagsins og hafi ekkert verið frá vinnu vegna þess.

         Sú spá læknisins hinn 2. júlí 1993, sem fram komi í sjúkradagbók, að áverkinn jafnist að sjálfu sér, virðist standa, sbr. það sem fram komi í matsgerð Atla Þórs Ólasonar dr. med. og Ingvar Sveinbjörnssonar hrl. á dskj. nr. 12, en þar segi á bls. 5.

,,Í sjúkradagbók Heilsugæslu Suðurnesja kemur fram að Gunnar hafi á árinu 1993 komið tvívegis, á árinu 1994 fimm sinnum,á árinu 1995 þrisvar sinnum, á árinu 1996 átta sinnum og 1997 einu sinni á stöðina í ýmsum tilgangi en aldrei minnst á óþægindi frá baki eða hnjám.  Þann 12.11.1999 leitaði Gunnar til Hreggviðs Hermannssonar vegna bakverkja til að fá læknisvottorð þar sem hann hafði verið frá vinnu í þrjá daga og fengið slíkt vottorð.  Í átta ár frá slysi kom Gunnar 24 sinnum á heilsugæslustöðina, þar af 18 sinnum fyrstu þrjú árin, en kvartaði fyrst um bakverk sex árum eftir slysið.  Í sjúkradagbók Sólvangs eru 72 færslur og er þar ekki minnzt á bakverki eða óþægindi frá hnjám  að öðru leyti en því að aðgerð Sigurjóns Sigurðssonar er skráð."

 

         Í matsgerðinni komi einnig fram á bls. 4, að stefnandi hafi legið á sjúkrahúsi í október 2001 og í tengslum við þá dvöl hafi hann farið í ítarlega, líkamlega skoðun og allt reynzt eðlilegt.  Í matsgerðinni komi einnig fram, að á árinu 2002 leitaði stefnandi til Sigurjóns Sigurðssonar, og hafi hann þá haft einkenni frá vinstra hné og baki, og hafi hann farið í liðþófaaðgerð á vinstra hné.  Niðurstaða matsmannanna hafi verið sú, að rifinn liðþófi á vinstra hné væri óháður óhappinu 1993, og óvissa ríkti um það, hvort mjóbakseinkennin tengist óhappinu 1993.  Ef tengsl séu, þá sé varanlegur miski í heild metinn til 5% og engin varanleg örorka og ekkert tímabundið atvinnutjón, sbr. nánar bls. 8 í matsgerð.  Af hálfu stefnda sé því haldið fram, að ekki sé um neitt tjón að ræða vegna óhappsins 1. júlí 1993.  Því beri að sýkna stefnda.

         Til vara sé gerð krafa um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda, og í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður. 

         Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga um meðferð einkamála.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum og enn fremur vitnið Magnús Konráðsson.

        Það liggur fyrir, að stefnandi varð fyrir vinnuslysi hinn 1. júlí 1993.  Ágreiningur stendur hins vegar um það, hvort áverkar stefnanda, sem hann byggir kröfur sínar á, stafi af slysinu.

        Það liggur fyrir, að stefnandi leitaði læknis vegna meiðsla sinna daginn eftir slysið, en síðan liðu um 6 ár, þar til hann kvartaði næst yfir þeim verkjum, sem hann rekur nú til slyssins.  Engu að síður bera gögn málsins með sér, að á því tímabili hafi hann leitað alloft til læknis vegna ýmissa kvilla, án þess að minnzt væri á bakverki þá, sem nú hrjá hann. 

        Hinir dómkvöddu matsmenn komast að þeirri niðurstöðu í mati sínu, að varanlegur miski af völdum slyssins sé 5% og varanleg örorka 10%.  Segir svo m.a. í kafla X í matsgerðinni: 

“...Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um þau einkenni er matsbeiðandi hafði næstu ár í kjölfar slyssins, en matsmenn telja ekki efni til að rengja þær upplýsingar er fram koma hjá matsbeiðanda um að einkennin hafi verið viðvarandi, versnað við álag og hafi hamlað honum nokkuð.

Eftir slysið hafa komið fram einkenni frá hné, sem leitt hafa til aðgerðar vegna rifu í liðþófa.  Strax í kjölfar slyssins er ekki fyrirliggjandi nein lýsing á einkennum frá vinstri hnélið, og telja matsmenn ólíklegt að liðþófarof í vinstra hné sé afleiðing slyssins.

Matsbeiðandi hefur haft einkenni frá hálsi og herðum og að undanförnu einnig frá hægri öxl, og jafnframt hefur hann átt við kvíða og þunglyndi að stríða.  Þessi einkenni komu öll fram mörgum árum eftir slysið og fyrir liggur að geðræn einkenni matsbeiðanda þróuðust í kjölfar fæðingar dóttur hans, sem á við fötlun að stríða.  Þessi einkenni telja matsmenn ótengd slysinu.

Þau einkenni, sem matsmenn telja afleiðingar slyssins, eru verkir í mjóbaki, vinstra þjóhnappssvæði og aftanverðu vinstra læri.  Þessi einkenni komu fram strax í kjölfar slyssins og virðast hafa hegðað sér sem tognunaráverki í mjóbaki og einnig kom í ljós mar á þessu svæði.  Þessi einkenni voru verst í byrjun, en fóru smám saman hjaðnandi en hurfu aldrei alveg og hafa haft nokkrar varanlegar afleiðingar.

Á árinu 1996 eða 1997 virðast einkenni matsbeiðanda í baki hafa farið að versna.  Virðast þau síðan hafa verið versnandi og hamlað vinnufærni hans heldur meira en áður var.  Rannsóknir hafa leitt í ljós, að um skrið á 5. lendliðbol er að ræða, og telja matsmenn að þau einkenni, sem hafa þróazt frá 1996 eða 1997 megi að talsverðu eða öllu leyti rekja til þessa liðþófaskriðs.  Matsmenn telja ólíklegt að liðþófaskrið þetta hafi orsakazt af slysinu, heldur sé sjálft skriðið ótengt því, en hafi sennilega verið meðvirkandi þáttur í því að einkenni matsbeiðanda hafi orðið langvinn.  Þá versnun, sem orðið hefur frá árinu 1996 eða 1997 telja matsmenn því ekki tengjast slysinu nema að hluta til.

Í ljósi framansagðs telja matsmenn að núverandi einkenni matsbeiðanda í mjóbaki, vinstra þjóhnappssvæði og aftanverðu vinstra læri, ásamt dofa í vinstra fótlegg, sem kemur af og til, séu að hluta til afleiðing slyssins á árinu 1993.  Nánar tiltekið telja matsmenn, að helming þessara einkenna megi rekja til umrædds slyss.”

       

        Enda þótt framangreindri matsgerð hafi ekki verið hnekkt með yfirmati, er það álit dómsins, að gegn andmælum stefnda verði hún ekki lögð til grundvallar sem sönnunargagn um það, að áverka stefnanda megi rekja til umrædds slyss, í ljósi þess, að engum upplýsingum er til að dreifa í málinu, sem staðfesta þessar upplýsingar stefnanda, sem niðurstaða matsmanna byggir á.  Það kemur skýrt fram í matsgerðinni, að niðurstaða matsmanna að þessu leyti sé byggð á því, að þeir telji ekki efni til að “rengja þær upplýsingar er fram koma hjá matsbeiðanda um að einkennin hafi verið viðvarandi, versnað við álag og hafi hamlað honum nokkuð”. 

        Með því að stefnandi hefur ekki á annan hátt, með gögnum eða vætti vitna leitt líkur að því, að áverka hans megi rekja til slyssins, og með því að í læknisfræðilegum gögnum málsins kemur fram, að stefnandi á við bakverkjavandamál að stríða, sem ekki verða rakin til slyssins, ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. 

        Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.

        Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 1.000.000, greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn útlagður kostnaður, kr. 415.243, samkvæmt framlögðum kvittunum.  Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenzka ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu.

        Málskostnaður fellur niður.

        Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 1.000.000, greiðist úr ríkissjóði.