Hæstiréttur íslands

Mál nr. 151/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræðissvipting


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. apríl 2009.

Nr. 151/2009.

A

(Bjarni Hauksson hdl.)

gegn

B

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Lögræði. Sjálfræðissvipting.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði sviptur sjálfræði í tvö ár á grundvelli a. og b. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. mars 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2009, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og  kærumálskostnaðar.  

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá er þess krafist að skipuðum talsmanni hennar verði dæmd þóknun vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti ásamt kærumálskostnaði.

Fallist er á með héraðsdómi að skilyrði séu til að svipta sóknaraðila sjálfræði í tvö ár frá 20. mars 2009 með heimild í a. og b. lið 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Sóknaraðili, A, er sviptur sjálfræði í tvö ár frá 20. mars 2009.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 124.500 krónur handa hvoru, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2009.

Með beiðni, dagsettri 14. janúar 2009, hefur B, kt. [...], [...], Mosfellsbæ, krafist þess að sonur hennar, A, kt. [...], með lögheimili að [...], Reykjavík, sem nú dvelst á réttargeðdeildinni á Sogni, verði sviptur lögræði ótímabundið með vísan til a- og b-liða 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild sóknaraðila vísast til a-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.

Við meðferð málsins fyrir dómi hafði sóknaraðili uppi varakröfu um að varnaraðili verði sviptur sjálfræði ótímabundið, verði ekki fallist á aðalkröfu um lögræðissviptingu.

Varnaraðili mótmælir kröfunni.

Í kröfu sóknaraðila er rakið að varnaraðili hafi til fjölda ára átt við geðræn vandamál að stríða, auk alvarlegs fíkniefnavanda. Hafi hann margsinnis vistast á geðdeildum og meðferðarheimilum, átt viðkomu á flestum geðdeildum og fíkniefnameðferðarheimilum. Hann hafi verið sviptur sjálfræði tímabundið í eitt ár með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2005. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2008 í málinu nr. S-966/2008 hafi varnaraðili verið sakfelldur fyrir rán og hótunarbrot. Hafi hann verið dæmdur til að sæta fangelsi í 3 ár og skyldi hann taka út refsingu sína á stofnun samkvæmt 2. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga. Hafi varnaraðili verið vistaður á réttargeðdeildinni á Sogni frá því í apríl 2008, er hann sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Erfiðlega hafi gengið að ná samvinnu milli varnaraðila og lækna hans á Sogni og hafi hann neitað allri meðferð. Telji sóknaraðili nauðsynlegt að svipta varnaraðila lögræði svo að hægt verði að veita honum meðferð. Krafist sé ótímabundinnar lögræðissviptingar þar sem vægari úrræði, þar með talið tímabundin sjálfræðissvipting, hafi verið fullreynd.

Meðal gagna málsins er skýrsla C geðlæknis um geðrannsókn, dagsett 2. apríl 2007, sem unnin var í tengslum við lögreglurannsókn vegna meints nauðungar- og hótunarbrots sem varnaraðili hafði orðið uppvís að. Í skýrslunni kemur fram að varnaraðili greinist með aðsóknargeðklofa og fjöllyfjafíkn, auk langvarandi vírus lifrarbólgu. Varnaraðili hafi frá árinu 2001 legið 14 sinnum á ýmsum deildum geðsviðs Landspítala. Hann hafi strítt við mikla vímuefnafíkn frá unga aldri. Hann hafi einnig á tímabilum verið mjög sturlaður, haft ofheyrnir, misskynjanir, ofskynjanir og ranghugmyndir. Lengst af hafi hann verið í mikilli afneitun gagnvart alvarlegum geðrofseinkennum. Var niðurstaða geðheilbrigðisrannsóknarinnar sú að varnaraðili hefði verið haldinn alvarlegum geðrofssjúkdómi á verknaðarstundinni og því alls ófær á þeim tíma að stjórna gerðum sínum, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga. Kemur fram í greinargerð sóknaraðila að fallið hafi verið frá saksókn í málinu.

Meðal gagna málsins eru endurrit nefnds dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. 966/2008 og skýrsla D geðlæknis um geðrannsókn, dagsett 1. júlí 2008, sem unnin var í tengslum við meðferð þess máls. Var niðurstaða geðrannsóknar sú að ákærði hefði ekki verið ósakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga þegar hann framdi brotin. Hins vegar væri ólíklegt að refsing bæri árangur, sbr. 16. gr. laganna. Í skýrslunni voru færð rök fyrir því að vista skuli varnaraðila á meðferðarstofnun, til dæmis réttargeðdeildinni á Sogni. Með slíkri vistun mætti koma á skýrri meðferðaráætlun vegna fíknivanda varnaraðila með virkri meðferð og reglulegu mati geðlæknis. Þessi leið myndi jafnframt tryggja meðferðarheldni. Í framburði læknisins fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kom fram að meðferð þar sem tekið væri á mikilli hvatvísi ákærða og vímufíkn hans á stofnun eins og réttargeðdeildinni á Sogni og eftirmeðferð á Krýsuvíkurheimilinu gæti verið mjög gagnleg fyrir hann. Mætti hugsa sér að meðferðartíminn yrði um það bil tvö ár alls og það komið undir ákvörðun lækna hvenær varnaraðili færi af Sogni til Krýsuvíkur.

Niðurstaða dómsins var sú að varnaraðili hefði verið sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga þegar hann framdi brotin sem ákært var fyrir í málinu. Aftur á móti hefði glögglega verið leitt í ljós með geðrannsókn D geðlæknis og skýrslu hans fyrir dómi að ákærði hefði, vegna gríðarlegrar og langvarandi vímufíknar, dómgreindarleysis, ístöðuleysis og hvatvísi, verið svo andlega miður sín og truflaður á þessum tíma að 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga þætti eiga við um ástand hans. Þótti dóminum ekkert standa í vegi fyrir því að ákærða yrði gerð refsing í málinu og að hann yrði látinn afplána hana á stofnun sem uppfyllti skilyrði 2. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga. Eftir að sú lagagrein hefði tekið gildi hefði orðið til í landinu stofnun sem uppfyllti þetta skilyrði, réttargeðdeildin að Sogni í Ölfusi.

D kom fyrir dóminn sem vitni og áréttaði niðurstöður sínar í nefndri geðrannsókn vegna refsimálsins. Vitnið kvað varnaraðila þarfnast langtíma meðferðar vegna vímufíknar, sem gæti farið fram á meðferðarheimilinu í Krýsuvík.

Meðal gagna málsins er vottorð E, geðlæknis á réttargeðdeildinni að Sogni, dagsett 17. febrúar 2009, þar sem kemur fram að varnaraðili hafi staðfastlega hafnað reglulegri lyfjameðferð, jafnvel þótt þörfin á slíku sé stundum greinileg. Til greina komi að varnaraðili fari til framhaldsmeðferðar á Krýsuvíkurheimilinu í a.m.k. sex mánuði.

E kom fyrir dóminn sem vitni og bar að varnaraðili þarfnaðist greinilega læknismeðferðar. Hefði hann hafnað meðferð fyrst eftir komu að Sogni, en það hefði þó breyst mikið til batnaðar. Sótt hefði verið um dvöl fyrir varnaraðila á meðferðarheimilinu í Krýsuvík. Vitnið kvaðst telja nauðsynlegt að mögulegt væri að grípa inn í með einhverjum þvingunarúrræðum ef til þess kæmi að varnaraðili sinnti ekki læknismeðferð.

Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann kvaðst vinna eftir AA-sporunum jafnhliða meðferð á Sogni. Þá upplýsti varnaraðili að hann væri eignalaus og að einu tekjur hans væru bætur frá Tryggingastofnun ríkisins sem næmu um 40.000 krónum á mánuði.

Niðurstaða.

Af hálfu varnaraðila hefur verið á það bent að dómari geti vísað málinu frá dómi ex officio þar sem það sé höfðað á röngu varnarþingi, en varnaraðili dveljist að Sogni í Ölfusi og hefði átt að reka málið í þeirri þinghá. Samkvæmt 9. gr. lögræðislaga er meginreglan sú að krafa um sviptingu lögræðis skal borin upp við héraðsdómara í þinghá þar sem varnaraðili á lögheimili. Ef varnaraðili hefur fastan dvalarstað í annarri þinghá en þar sem lögheimili hans er skal þó bera fram kröfu í þeirri þinghá. Segir í greinargerð með frumvarpi um þetta ákvæði að ljóst megi vera að oft muni maður sem krafist er að verði sviptur lögræði dveljast á sjúkrahúsi eða dvalarheimili. Þegar þannig hagi til sé augsýnilega heppilegra að reka málið í þeirri þinghá þar sem varnaraðili hefur fastan dvalarstað ef hann er annar en þar sem lögheimili hans er. Verður ekki talið að það varði frávísun málsins þótt það hafi verið höfðað í þinghá þar sem varnaraðili á lögheimili, enda verður ekki séð að vandkvæði hafi hlotist af því og sætti það ekki andmælum af hálfu varnaraðila.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðili verði sviptur lögræði ótímabundið. Viðhlítandi rök hafa ekki verið færð fyrir því að varnaraðili sé ekki fær um að ráða fé sínu og er kröfu um að hann verði sviptur fjárræði því hafnað.

Varnaraðili afplánar nú refsidóm á réttargeðdeildinni á Sogni og mun fyrirhugað að hann fái inni á vistheimili til meðferðar vegna vímufíknar. Afplánun refsidómsins hefur í för með sér að frjálsræði varnaraðila er skert, en þýðir hins vegar ekki að hann ráði ekki persónulegum högum sínum að öðru leyti. Við svo búið verður varnaraðila ekki gert að sæta læknismeðferð gegn vilja sínum. Af fyrirliggjandi læknisfræðilegum gögnum og vætti geðlæknanna D og E hefur verið sýnt fram á að varnaraðili sé, vegna alvarlegs geðsjúkdóms og vímufíknar, ófær um að ráða högum sínum sjálfur í skilningi a- og b-liðar 4. gr. lögræðislaga, þannig að ekki verði tryggt að hann muni hlíta nauðsynlegri læknismeðferð. Því þykir augljós hætta á að meðferð varnaraðila fari úr skorðum og að einkenni geðsjúkdóms hans magnist. Verður varnaraðili sviptur sjálfræði til að tryggja megi að hann njóti læknismeðferðar við sjúkdómi sínum. Er svipting sjálfræðis miðuð við tvö ár frá uppkvaðningu úrskurðar þessa, eða til 20. mars 2011, en sama dag lýkur afplánun refsidómsins samkvæmt dómsorði.  

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að dæma málskostnað 223.306 krónur úr ríkissjóði, þar með talið þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Þyríar Steingrímsdóttur héraðsdómslögmanns, og skipaðs verjanda, Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur til hvors um sig. Þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Harðardóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði í tvö ár.

Málskostnaður, 223.306 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talið þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Þyríar Steingrímsdóttur héraðsdómslögmanns, og skipaðs verjanda, Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur til hvors um sig.