- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Trúnaðarmaður
|
Fimmtudaginn 2. desember 2004. |
Nr. 204/2004. |
Magnús S. Magnússon (Halldór H. Backman hrl.) gegn Flugþjónustunni Keflavíkurflugvelli ehf. (Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.) og gagnsök |
Ráðningarsamningur. Uppsögn. Trúnaðarmaður.
M var undir lok október 2002 fyrirvaralaust sagt upp starfi sínu sem hlaðmaður hjá F, eftir að ýfingar urðu með honum og hlaðstjóra í afdrepi hlaðmanna, en ágreiningslaust var að M sló kaffibolla úr hendi hlaðstjórans að mörgum mönnum ásjáandi. Var ekki talið sannað, að M hafi tekið á hlaðstjóranum eða gerst sekur um líkamsárás á hann. Þá var ekki litið svo á að þessi háttsemi M hafi verið svo alvarleg í eðli sínu að heimilt hafi verið hennar vegna að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi án undangenginnar áminningar. Var því fallist á að M bæru bætur, sem svöruðu til fullra mánaðarlauna hans í þriggja mánaða uppsagnarfresti, auk þess hluta október sem eftir lifði. Var ekki fallist á að M ætti sem trúnaðarmaður rétt til frekari bóta. Hins vegar þótti sýnt að M hafi orðið af hlutabréfum í Flugleiðum hf., sem starfsmönnum F hafði verið lofað, vegna hinnar fyrirvaralausu uppsagnar. Var F gert að bæta M missi þeirrar launauppbótar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. maí 2004 og krefst þess aðallega að gagnáfrýjandi greiði sér 1.328.039 krónur, en til vara 1.278.039 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af tilgreindum fjárhæðum frá 1. nóvember 2002 til greiðsludags. Í varakröfu er þess einnig krafist að gagnáfrýjandi afhendi aðaláfrýjanda til eignar hlutabréf í Flugleiðum hf. að nafnvirði 10.500 krónur. Aðaláfrýjandi krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 15. júlí 2004 og krefst aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjanda en til vara lækkunar þeirra. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Svo sem í héraðsdómi greinir er mál þetta sprottið af fyrirvaralausri uppsögn aðaláfrýjanda úr starfi hlaðmanns hjá gagnáfrýjanda 23. október 2002, vegna þess atburðar er varð í afdrepi hlaðmanna snemma laugardagsmorguninn 12. sama mánaðar, þegar fyrstu flugvélar dagsins voru að koma inn til lendingar. Þar urðu ýfingar með aðaláfrýjanda og hlaðstjóranum, sem var að kalla menn út til starfa, eins og nánar er lýst í héraðsdómi, en ágreiningslaust er að aðaláfrýjandi sló kaffibolla úr hendi hlaðstjórans að mörgum mönnum ásjáandi. Fallist verður á sönnunarmat héraðsdómara um lýsingu á atburði þessum. Verður fallist á að hann hafi ekki tekið á hlaðstjóranum eða gerst sekur um líkamsárás á hann. Einnig er fallist á með héraðsdómara að þessi háttsemi aðaláfrýjanda hafi ekki verið svo alvarleg í eðli sínu að heimilt hafi verið hennar vegna að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi án undangenginnar áminningar. Er því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að aðaláfrýjanda beri bætur, sem svara til fullra mánaðarlauna hans í þriggja mánaða uppsagnarfresti, auk þess hluta október sem eftir lifði.
Aðalkrafa aðaláfrýjanda er um bætur sem svara til þriggja mánaðarlauna til viðbótar þeim sem honum voru dæmdar í héraði. Er krafan reist á þeim forsendum að hann hafi verið trúnaðarmaður og eigi sem slíkur rétt til frekari bóta samkvæmt dómvenju. Vísar hann til fordæmis í Hrd. 1994 bls. 2768, en þar hafi trúnaðarmanni á vinnustað, sem sagt var upp störfum án áminningar, verið dæmdar bætur sem miðaðar voru við þriggja mánaða laun til viðbótar launum í uppsagnarfresti. Krafa aðaláfrýjanda um sex mánaða laun frá því hann lét af starfi fær ekki stoð í nefndu fordæmi réttarins. Eru ekki skilyrði til að verða við þessum kröfulið hans.
Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi breytt einum kröfulið, sem lýtur að greiðslu vegna áunnins vetrarleyfis. Fellst hann á þá úrlausn héraðsdóms að krafa þessi nemi 25.091 krónu með gjalddaga 1. febrúar 2003. Verður þessi niðurstaða héraðsdóms staðfest sem og niðurstaða hans um orlof. Um aðra kröfuliði aðaláfrýjanda er vísað til forsendna héraðsdóms og fallist á niðurstöðu hans varðandi lífeyrissjóðsgjöld og stéttarfélagsgjöld, enda ósannað um hin síðarnefndu að tilkynning hafi verið send gagnáfrýjanda um að félagsgjöld ætti að greiða til Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis. Hins vegar er sýnt að vegna fyrirvaralausrar uppsagnar varð aðaláfrýjandi af hlutabréfum í Flugleiðum hf., sem lofað var í bréfi forstjóra félagsins 7. mars 2003 til þeirra sem voru starfsmenn gagnáfrýjanda, sem er dótturfélag Flugleiða hf., á árinu 2002 og ekki annað í ljós leitt en hann hefði fengið hefði honum ekki verið sagt upp fyrirvaralaust. Verður því að telja að gagnáfrýjandi þurfi að bæta aðaláfrýjanda missi þessarar launauppbótar og verður krafa hans um markaðsverð hlutabréfanna, 50.000 krónur, tekin til greina.
Samkvæmt framansögðu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda samtals 668.039 krónur (618.039 + 50.000) með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Eftir þessum úrslitum verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi, eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Flugþjónustan Keflavíkurflugvelli ehf., greiði aðaláfrýjanda, Magnúsi S. Magnússyni, 668.039 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 39.706 krónum frá 1. nóvember 2002 til 1. desember sama ár, af 202.833 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2003, af 365.960 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 618.039 krónum frá þeim degi til 7. mars sama ár, en af 668.039 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 550.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. febrúar 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, var höfðað 20. maí 2003.
Stefnandi er Magnús S. Magnússon, Hólagötu 15, Sandgerði.
Stefndi er Flugþjónustan Keflavíkurflugvelli ehf. (IGS), Heiðarbóli 43, Keflavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða 1.360.433 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af 47.009 krónum frá 1. nóvember 2002 til 1. desember s.á., af 210.136 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2003, af 373.263 krónum frá þeim degi til 1. febrúar s.á. og af 1.360.433 krónum frá þeim degi til greiðsludags, auk höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á 12 mánaða fresti í samræmi við ákvæði 12. gr. sömu laga.
Stefnandi krefst þess til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða 1.310.433 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af 47.009 krónum frá 1. nóvember 2002 til 1. desember s.á., af 210.136 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2003, af 373.263 krónum frá þeim degi til 1. febrúar s.á. og af 1.310.433 krónum frá þeim degi til greiðsludags, auk höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á 12 mánaða fresti í samræmi við ákvæði 12. gr. sömu laga. Jafnframt er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að afhenda stefnanda til eignar hlutabréf í Flugleiðum hf. að nafnvirði 10.500 krónur.
Stefnandi krefst málskostnaðar í báðum tilfellum.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar.
Stefndi krefst málskostnaðar.
I.
Stefnandi starfaði við hlaðdeild á Keflavíkurflugvelli allt frá árinu 1991, ýmist sem hlaðstjóri eða hlaðmaður. Í fyrstu hjá Flugleiðum hf., en frá árinu 2000 hjá stefnanda sem er dótturfélag Flugleiða hf. Starf stefnanda var aðallega fólgið í fermingu og affermingu flugvéla. Stefnandi var um árabil trúnaðarmaður starfsmanna Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis og gegndi hann þeirri stöðu er atvik það, er mál þetta á rætur að rekja til, átti sér stað.
Hlaðmenn vinna störf sín í vaktavinnu og eru verkefni þeirra eins og áður greinir mest í tengslum við komur og brottfarir flugvéla. Þess á milli er oft nokkur bið og halda hlaðmenn þá gjarnan til í hvíldar- og kaffiaðstöðu hlaðmanna í flugstöðinni. Ágreiningslaust er að í þessari hvíldar- og kaffiaðstöðu hefur verið komið fyrir með vitund og samþykki stefnda sjónvarpi og tölvu í eigu starfsmanna þeim til afþreyingar. Stefndi kveður starfsmenn þurfa að vera fljóta út við komu flugvélar til að unnt sé að afgreiða vélina á tilsettum tíma þannig að hvorki verði töf á flugi né farþegar þurfi að bíða eftir farangri sínum. Það hafi hins vegar komið fyrir að starfsmenn hafi verið seinir að standa upp þegar hlaðstjórinn, sem er verkstjóri í hlaðdeild og skipar þeim til verka, hefur sagt þeim að fara út að vinna. Þessu síðastnefnda er stefnandi ekki sammála og kveður hann sjónvarpið og önnur afþreyingartæki í hvíldaraðstöðunni almennt ekki hafa valdið vandkvæðum á vinnustaðnum ef frá eru talin atvik er varða hlaðstjórann Pétur Hauksson, sem var fulltrúi stefnda á vinnustaðnum. Hann hafi ítrekað stundað það að slökkva á sjónvarpstækinu er starfsmenn voru að horfa á það og almennt án nokkurs tilefnis, enda hafi notkun tækisins ekki haft áhrif á vinnu starfsmanna frekar en önnur afþreying. Vegna ítrekaðra afskipta Péturs þessa af sjónvarpi starfsmanna hafi þeir leitað til trúnaðarmanna á vinnustaðnum, þ.e., til stefnanda annars vegar og Baldurs Sigfússonar hins vegar og falið þeim að gæta hagsmuna starfsmanna vegna málsins. Af þessu hafi leitt að trúnaðarmennirnir ræddu við flesta hlaðstjóra stefnda án vandkvæða, ef frá er talinn umræddur Pétur. Þessum staðhæfingum mótmælir stefndi sem ósönnuðum og röngum og áréttar að honum hafi ekki verið kunnugt um að ósætti eða ágreiningur hafi verið um notkun sjónvarpsins í aðstöðu hlaðmanna enda hefði það verið þar með samþykki stefnda.
Aðila greinir á um atvik það sem varð í afdrepi hlaðmanna þann 12. október 2002.
Í stefnu er atvikinu lýst svo, að stefnandi hafi verið staddur í afdrepinu ásamt nokkrum samstarfsmönnum sínum er nefndur Pétur Rúnar Hauksson hlaðstjóri hafi komið aðvífandi, gengið beint að sjónvarpinu og slökkt á því orðalaust. Vegna forsögu málsins og stöðu sinnar sem trúnaðarmanns hafi stefnandi mótmælt þessari athöfn harðlega og gengið í átt að sjónvarpinu. Hann og Pétur hafi mæst í þröngri aðstöðu og honum sýnst að Pétur ætlaði að skvetta úr kaffibolla yfir hann. Hafi hann því ýtt við kaffibolla Péturs með þeim afleiðingum að bollinn datt á gólfið. Hann hafi svo haldið áfram að sjónvarpinu en vegna þrengsla hafi þeir Pétur rekist saman. Þar sem Pétur hafi nær misst jafnvægið við þetta hafi hann gripið í hann til að forða falli. Að því búnu hafi hann gengið að sjónvarpinu og ætlað að kveikja á því aftur en Pétur þá fylgt á eftir og reynt að fyrirbyggja það.
Í greinargerð stefnda er atvikinu lýst svo, að umræddan dag hafi Pétur gert sig líklegan til að slökkva á sjónvarpinu, sem hlaðmenn voru að horfa á, þegar honum hafi ekki fundist þeir bregðast við tilmælum sínum um að fara út að vinna. Stefnandi hafi þá gengið að Pétri og slegið kaffibollann, sem hann hélt á úr, höndum hans í viðurvist fjölda annarra hlaðmanna og tekið á honum í kjölfarið.
Til að varpa ljósi á hvað gerðist umrætt sinn verður að rekja stuttlega það helsta sem fram kom í framburði stefnanda og vitna við aðalmeðferð málsins.
Stefnandi kvaðst umrætt sinn hafa verið í kaffi inni í aðstöðu hlaðmanna, en beðið hefði verið eftir næstu flugvél. Þá hefði hlaðstjórinn Pétur Hauksson komið inn, gengið beint að kaffivélinni, fengið sér kaffi og brauð og síðan rokið án freakri orða að sjónvarpi starfsmanna, slökkt á því og síðan tekið strikið út og sagt: “Jæja strákar, allir út á hlað, vélin er komin inn.” Hann hefði brugðist við þessu með því að strunsa að sjónvarpinu en mætt Pétri á leiðinni þangað í þrengslum þar sem Pétur var með kaffibollann fyrir framan sig. Hann hefði óttast að fá úr bollanum yfir sig og því bandað hendinni í bollann sem við það hefði skollið utan í stól og allt úr honum. Hann hefði haldið áfram en rekist utan í Pétur sem hefði fallið við og hefðu þeir þá gripið hvor í annan til þess að Pétur dytti ekki.. Hann hefði síðan haldið áfam að sjónvarpinu, kveikt á því og sagt Pétri að láta það vera. Pétur hefði þá komið og reynt að slíta tækið úr sambandi og sagt að menn ættu að fara út að vinna.
Stefnandi fullyrti að sjónvarpsáhorf starfsmanna hefði aldrei komið niður á vinnu þeirra og ekki hefðu aðrir hlaðstjórar en Pétur komið svona fram gagnvart starfsmönnum. Hann hefði ekki átt von á eftirmálum eftir atvikið enda hefði hann sest að spilum með Pétri þennan sama dag. Fimm dögum síðar hefði hann hins vegar verið boðaður á fund til starfsmannastjóra til að upplýsa málið en ekki til að fjalla um málsbætur . Hann telji sig ekki hafa unnið til brottvikningar úr starfi vegna atviksins.
Pétur Rúnar Hauksson hlaðstjóri stefnda kvað flugvél hafa verið lenta umrætt sinn og verið að renna í stæði. Hefði hann farið inn í kaffiaðstöðu hlaðmanna og tilkynnt að vélin væri lent. Tveir starfsmenn, þ.á.m. stefnandi, hefðu staðið upp og gengið áleiðis út en aðrir setið sem fastast. Hann hefði því ítrekað tilmæli sín, gengið að sjónvarpstæki sem þarna er og slökkt á því. Í því hefði stefnandi komið á fullri ferð, öskrað á hann og skipað honum að láta sjónvarpið vera og slegið í kaffibolla sem hann hélt á þannig að kaffið slettist út um allt. Stefnandi hefði síðan ráðist á hann, tekið í hann og hent honum til. Það sé rangt sem stefnandi haldi fram, að hann hafi tekið í vitnið til þess að verja hann falli. Eftir þetta hefðu allir farið út án þess að töf yrði á afgreiðslu flugvélarinnar. Hann fullyrti að hann hefði sagt mönnum að vélin væri lent og að þeir ættu að fara út að vinna áður en hann slökkti á sjónvarpinu. Hann kannaðist við að hafa slökkt á sjónvarpstækinu einu sinni áður við svipaðar aðstæður og þvertók ekki fyrir að rætt hefði verið við hann um sjónvarpið. Hann hefði ekki hlotið áverka vegna háttsemi stefnanda og ekki hefði hann tilkynnt yfirmönnum sínum um atvikið. Þeir hefðu hins vegar spurt hann um atvikið nokkrum dögum síðar.
Bjarni Ragnarsson starfsmaður stefnda kvaðst hafa verið í afdrepi starfsmanna stefnda umræddan morgun, er í talstöð heyrðist að flugvél væri lent. Þá hefðu menn farið að tygja sig til vinnu. Hlaðstjórinn Pétur hefði þá gengið að sjónvarpi starfsmanna, slökkt á því og sagt mönnum að fara út. Hann hefði mætt stefnanda á leiðinni út þar sem þrengsli eru. Pétur hefði verið með kaffibolla og virst ætla að hella kaffi yfir stefnanda, sem hefði slegið í bollann. Pétur hefði þá misst jafnvægið og tekið í stefnanda sem aftur hefði tekið í Pétur. Stefnandi hefði síðan gengið að sjónvarpinu og kveikt á því en Pétur komið á eftir og reynt að slíta tækið úr sambandi. Eftir þetta hefðu menn farið út og vel farið á með stefnanda og Pétri það sem eftir lifði dags og þeir m.a. tekið í spil. Flestir sem þarna voru hefðu átt að fara út að vinna en þó ekki allir. Hann kvað Pétur hafa haft afskipti af sjónvarpinu áður, en það hefðu aðrir hlaðstjórar ekki gert. Pétur hefði verið erfiður í samskiptum við starfsmenn. Hann kvaðst ekki hafa verið beðinn um upplýsingar um atvikið af yfirmönnum stefnda.
Elvar Örn Brynjólfsson, starfsmaður stefnda, kvaðst hafa verið í afdrepi starfsmanna stefnda er umrætt atvik átti sér stað. Menn hefðu setið og horft á sjónvarpið er Pétur kom inn og fékk sér kaffi. Þá hefði heyrst í talstöð Péturs að vél væri komin. Pétur hefði þá staðið á fætur, slökkt á sjónvarpinu og sagt mönnum að fara út. Stefnandi, sem hafði verið á leiðinni út, hefði þá snúið við og hefðu hann og Pétur mæst á þröngum gangi og rekist saman og við það hefði kaffibolli skollið í vegginn og á stól. Hann hefði litið við og séð hvað var í gangi. Pétur hefði staðið yfir stól eins og hann hefði hrasað og stefnandi haldið í hann. Þeir hefðu rætt saman og stefnandi sagt Pétri að láta sjónvarpið í friði. Stefnandi hefði kveikt aftur á sjónvarpinu en Pétur reynt að hindra það. Nokkur æsingur hafi verið í þeim. Hann kvað starfsmenn ekki hafa dregið lappirnar við að fara út að vinna. Hann kvaðst ekki hafa verið beðinn um upplýsingar um atvikið af yfirmönnum stefnda.
Bartosz Pikat, starfsmaður stefnda, kvaðst hafa setið inni í kaffiaðstöðunni og horft á sjónvarpið er Pétur kom inn og sagði að flugvél væri lent. Nokkrum sekúndum síðar hefði Pétur gengið að sjónvarpinu, slökkt á því og sagt aftur að vél væri lent. Stefnandi hefði þá sagt Pétri að láta sjónvarpið vera og hann svarað því til að þetta væri ekki rétti tíminn til að horfa á sjónvarp og gengið áleiðis út. Stefnandi hefði þá gripið í föt Péturs sem einnig hefði gripið í föt stefnanda. Þeir hefðu togast á og kallað hárri röddu hvor til hins. Þá hefði kaffi slest út um allt. Stefnandi hefði gripið fyrst í Pétur og allt hefði þetta gerst á 10-20 sekúndum. Hann kvað starfsmenn ekki hafa verið byrjaða að fara út er Pétur slökkti á sjónvarpinu, en það taki 10-15 sekúndur að koma sér af stað. Allir hefðu verið klæddir til að fara út. Hann kvað yfirmenn sína hafa spurt hann um atvikið löngu eftir að það átti sér stað og löngu eftir að stefnanda hafði verið sagt upp störfum.
Guðjón Sigurður Rúnarsson starfsmaður stefnda kvaðst hafa verið í kaffiaðstöðunni er nefnt atvik átti sér stað. Pétur hefði komið inn og beðið menn um að fara út að vinna. Hann hefði þá staðið upp ásamt fleiri starfsmönnum, en aðrir hefðu setið sem fastast. Þar sem allir hlýddu ekki skipun Péturs hefði hann gengið að sjónvarpinu og slökkt á því. Er Pétur hefði gengið til baka hefði stefnandi gengið að honum og slegið bolla úr hendi hans. Þá hefðu orðið smástympingar, en Pétur hefði veist að stefnanda er hann missti jafnvægið og hefði stefnandi þá gripið í Pétur og ýtt honum. Hann kvaðst álíta að Pétur hefði dottið ef stefnandi hefði sleppt takinu á honum. Hann kvað Pétur hafa átt í útistöðum við starfsmenn, en hann væri stríðinn og hefði oft verið kvartað undan honum. Pétur hefði áður haft afskipti af sjónvarpinu sem starfsmönnum hefði mislíkað. Ekki hefði verið rétt af Pétri að slökkva á sjónvarpinu í umrætt sinn. Hann kvaðst ekki hafa litið á þetta sem alvarlegt mál. Hann kvað Kjartan Má starfsmannastjóra hafa spurt sig um atvikið áður en stefnandi var rekinn úr starfi.
Kjartan Már Kjartansson, starfsmannastjóri stefnda, kvaðst fyrst hafa frétt af atvikinu þann 14. október 2002. Í kjölfar þess hefði hann haft samband við hlaðstjórann Pétur sem hefði staðfest að atvikið hefði átt sér stað. Hann hefði síðan hitt Pétur sem hefði skýrt frá málavöxtum. Hann hefði einnig rætt við starfsmanninn Guðjón Rúnarsson, sem hefði staðfest frásögn Péturs. Eftir það hefði hann ákveðið að ræða við stefnanda um atvikið. Starfsmaðurinn Svala Guðjónsdóttir hefði verið viðstödd þann fund. Farið hefði verið yfir málið og stefnanda skýrt frá frásögnum Péturs og Guðjóns. Stefnandi hefði ekki viljað gera neina athugasemd við þá frásögn og ekki sagst hafa neinar málsbætur. Hann hefði gert þetta af því að hann væri trúnaðarmaður. Hann hefði síðan hafa rætt málið við rekstrarstjóra stefnda, Huldu, sem hefði, eins og honum, fundist málið alvarlegt. Þá hefði hann rætt við trúnaðarmanninn Baldur sem hefði virst gera sér grein fyrir alvarleika málsins þar sem hann hefði beðið stefnanda vægðar og óskað eftir því að hann yrði ekki rekinn heldur veitt áminning. Hann kvað sér aldrei hafa borist kvartanir vegna Péturs út af afskiptum hans af sjónvarpi og hrekkjum gagnvart starfsmönnum. Eðlilegt hefði þó verið að vekja athygli hans á slíku. Rekstrarstjórinn Hulda hefði síðan tekið endanlega ákvörðun um að víkja stefnanda úr starfi, en upplýsingar um atvik málsins hefði hún fengið hjá sér. Atvikið hefði verið talið það alvarlegt að áminning kæmi ekki til greina. Hann kvað fundinn með ákærða hvorki hafa verið bókaðan né hljóðritaðan. Hann kvaðst hafa talið stefnanda hafa gerst sekan um alvarlegt brot á starfsskyldum sínum með því að leggja hendur á yfirmann. Pétur hefði ekki viljað kæra atvikið sem líkamsárás og sjálfur hefði hann ekki hugleitt kæru á hendur stefnanda.
Svala Erna Guðjónsdóttir starfsmaður stefnda var viðstödd fund Kjartans Más og stefnanda. Hún kvað þau hafa viljað fá hlið stefnanda á málinu. Kjartan Már hefði skýrt stefnanda frá frásögn Péturs af atviki. Henni hefði komið á óvart hvað stefnandi sagði lítið. Hann hefði ekkert sagt sér til málsbóta, en sagst hafa gert þetta af því að hann væri trúnaðarmaður. Hann hefði ekki neitað að hafa ýtt við verkstjóranum. Hann hefði reyndar sagt að þetta sem Pétur gerði hefði gerst áður og að hann hefði verið búinn að fá nóg sem trúnaðarmaður fyrir hönd starfsmanna. Á þessum fundi hefði stefnanda ekki verið sagt að málið væri talið það alvarlegt að til skoðunar væri að víkja honum úr starfi.
Örn Eiríksson, deildarstjóri hjá stefnda, var erlendis er atvik átti sér stað. Hann kvaðst ekki geta fullyrt að hafa aldrei fengið kvartanir vegna hlaðstjórans Péturs frá starfsmönnum. Hann hefði verið spurður álits um atvikið eftir að því hafði verið lýst fyrir honum og hefði hann talið að ekki yrði komist hjá því að víkja stefnanda úr starfi. Hann hefði talið atvikið það alvarlegt. Hann kvað stefnanda aldrei áður hafa hlotið aðvörun eða áminningu. Hann kvað afstöðu sína í málinu hafa ráðist af því að stefnandi hefði lagt hendur á Pétur en ekki því að stefnandi hefði kveikt á sjónvarpinu eftir að Pétur slökkti á því.
Baldur Sigfússon, starfsmaður stefnda og formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis, kvaðst hafa starfað hjá stefnda og áður móðurfélagi stefnda Flugleiðum hf. og þar áður Loftleiðum hf. frá árinu 1965. Hann hefði verið trúnaðarmaður starfsmanna í 4 ár. Hann kvað stefnanda hafa greint sér frá atvikinu. Hann kvað starfsmenn hafa kvartað undan afskiptum Péturs af sjónvarpinu. Sjálfur hefði hann lent í því að skipa Pétri að láta sjónvarpið í friði. Hann hefði ekki klagað Pétur þótt hann ætti það skilið. Hann kvað sjónvarpið aldrei hafa haft áhrif á vinnusemi manna og aldrei hefði stefndi kvartað undan slíku. Kjartan hefði leitað til sín sem trúnaðarmanns og formanns stéttarfélags eftir atvikið og sagst vera í vandræðum með málið. Þá hefði verið búið að víkja stefnanda tímabundið úr starfi. Þeir hefðu hist og hann farið í málið með því hugarfari að leita sátta, sem væri happadrýgst og hefði Kjartan verið því sammála. Hefði verið afráðið að hann ræddi við stefnanda en Kjartan við Pétur. Eftir þetta hefði hann rætt við stefnanda í góðri trú um að sættir yrðu reyndar og lagt að honum að reyna sættir. Hann hefði síðan ekkert vitað um málið fyrr en stefnandi hringdi í hann og sagði að búið væri að vísa honum úr starfi fyrir fullt og allt. Nokkrum dögum seinna hefði hann hitt Kjartan Má á skrifstofu stefnda og hann tjáð honum að hann hefði ekki fengið að ráða ferðinni í málinu. Hann hefði nefnt fund með verkstjórum þar sem ákveðið hefði verið að réttast væri að stefnanda yrði vikið úr starfi.
Borgar Brynjarsson, starfsmaður stefnda, var fyrir utan kaffiaðstöðuna er atvikið átti sér stað. Hann kvaðst vera skráður eigandi margnefnds sjónvarps sem flestir starfsmenn, þ.á.m. verkstjórar eigi og greiði af. Hann kvað samskipti Péturs við aðra starfsmenn hafa verið óeðlileg. Pétur tali niður til manna og leggi í einelti með alls kyns hætti.
II.
Af hálfu stefnanda eru dómkröfur byggðar á því að stefndi hafi brotið gegn lög- og samningsbundnum réttindum stefnanda sem starfsmanns síns og sem trúnaðarmanns á vinnustað. Þannig hafi hvorki legið fyrir fullnægjandi ástæður til fyrirvaralausrar uppsagnar allmennt, né fullnægjandi skilyrði til að segja hafi mátt trúnaðarmanni upp starfi.
Stefnandi hafi aldrei, eða í rúm 11 ár, hlotið áminningu frá vinnuveitanda og ekki hafi honum verið veitt áminning vegna þess atviks er varð til uppsagnar hans af hálfu stefnda. Þá verði ekki séð að stefndi hafi rannsakað atvikið með eðlilegum hætti eða fengið með öðrum hætti fullnægjandi upplýsingar um atvik málsins áður en ákveðið var að segja stefnanda fyrirvaralaust upp störfum.
Stefnandi þvertaki fyrir að hafa ráðist á hlaðstjóra stefnda eða lagt á hann hendur eins og stefndi haldi fram. Þá sé þeirri staðhæfingu mótmælt að stefnandi hafi brugðist lögmætum fyrirmælum verkstjórnanda með þeim hætti sem haldið sé fram. Hann hafi á hinn bóginn brugðist við athöfn viðkomandi verkstjórnanda sem hafi ekkert átt skylt við vinnu og hafði átt sér langa forsögu. Þá hafi aldrei staðið á stefnanda eða öðrum starfsmönnum að hverfa til vinnu þegar boð komu um það frá verkstjórnendum.
Kröfugerð sína byggir stefnandi í grundvallaratriðum á tveimur meginþáttum. Annars vegar sé um að ræða kröfu vegna launa og allra starfsbundinna réttinda, þ.m.t. orlofs, lífeyrissjóðs, félagsgjalda og launauppbóta í 3 mánaða uppsagnarfresti frá 1. nóvember 2002 að telja auk launa fyrir 24. til 31. október sama ár. Hins vegar sé um að ræða bætur sem nema 3 mánaða launum á grundvelli fyrri dómaframkvæmdar um réttarvernd trúnaðarmanna gagnvart uppsögnum.
Kröfur stefnanda sundurliðast svo:
1. Laun frá 24.10.2002 til 31.1.04 0.2002 (163.127123.421) 39.706 krónur.
2. Mismunur á áunnu og greiddu vetrarfríi 7.301
3. Laun í nóvember 2002 163.127
4. Laun í desember 2002 163.127
5. Laun í janúar 2003 163.127
6. Orlof 24.10.2002 til 31.01.2003(529.087x12,07%) 63.861
7. Lögbundið lífeyrissjóðsframlag (529.087x6%) 31.745
8. Viðbótarframlag í lífeyrissjóð (529.087x2%) 10.582
9. Markaðsverð hlutabréfa skv. aðalkröfu 50.000
10. Áunnið vetrarfrí 01.09.2002 til 30.04.2003 50.182
11. Vangoldin félagsgjöld 30.074
12. Bætur vegna ólögmætrar uppsagnar 587.599
Samtals 1.360.433
Kröfur samkvæmt liðum 1 og 3-5 hér að framan, byggir stefnandi á því að samningsbundinn uppsagnarfrestur stefnanda hafi verið þrír mánuðir og að sá frestur hafi ekki byrjað að líða fyrr en 1. nóvember 2002. Þá hafi föst mánaðarlaun stefnanda falist í fjórþættum greiðslum fyrir 100% starf. Í fyrsta lagi mánaðarlaunum 93.941 krónur Í öðru lagi fastri yfirvinnu 23.257 krónur miðað við 23,84 klst. Í þriðja lagi 33% vaktaálag 31.001 krónur og í fjórða lagi umsjónarálag 14.928 krónur. Samtala fastra mánaðarlauna hafi því verið 163.127 krónur.
Kröfur samkvæmt lið 2 og lið 10 varðandi áunnið vetrarfrí byggir stefnandi á því að það sé hluti af kjörum starfsmanna stefnanda að á hverju 12 mánaða tímabili frá 1. september ár hvert til 31. ágúst næsta árs safni starfsmenn upp í inneign í formi frítöku sem nemi 7 vöktum. Fullt starf hjá stefnda hafi numið 15,17 vöktum á mánuði. Samkvæmt því hafi fullt áunnið vetrarfrí numið tæpum helmingi mánaðarlauna eða 75.273 krónum (163.127/15,17x7). Starfsmönnum sé í sjálfsvald sett hvort þessi áunnu réttindi séu tekin út í fríi eða greidd út í peningum. Krafa stefnanda að þessu leyti sé tvíþætt. Annars vegar sé krafist mismunar á áunnu vetrarfríi frá 1. september 2001 til 1. september 2002, þ.e. 75.273 króna og þess sem stefndi greiddi þann 1. nóvember 2002, 67.970 krónur eða samtals 7.303 krónur. Hins vegar sé gerð krafa um útborgun áunnins vetrarfrís frá 1. september 2002 til 30. apríl 2003 er uppsagnarfresti og þriggja mánaða bótatímabili lauk. Þar sé um að ræða 8/12 hluta af fullu vetrarfríi eða 50.182 krónur (75.273/12x8).
Kröfu samkvæmt 6. lið byggir stefnandi á því að samkvæmt kjarasamningi sé orlofsprósenta á laun hans 12,07%. Kröfugerð sé byggð á því að þetta orlof skuli leggjast á öll vangoldin laun að undanskildu ánnu vetrarfríi, og nemi það 63.861 krónum (529.087x12,07).
Kröfu samkvæmt lið 7 byggir stefnandi á að stefnda beri að greiða 6% framlag í lífeyrissjóð stefnanda af öllum vangoldnum launum stefnanda eða 31.745 krónur (529.087x6 %).
Kröfu samkvæmt 8 lið byggir stefnandi á því að auk hins lögbundna 6% framlags stefnda í lífeyrissjóð stefnanda hafi hann búið við þau kjör að stefndi lagði 2% framlag í viðbótarlífeyrisframlag. Sé á því byggt að stefnda beri að greiða þessi lög- og samningsbundnu réttindi til stefnanda beint, enda hafi lífeyrisréttindi hans sætt skerðingu sem nemi sömu fjárhæð. Þetta nemi 10.582 krónum (529.087x2 %).
Kröfu samkvæmt lið 9 byggir stefnandi á því að samkvæmt ákvörðun stjórnar Flugleiða hf. hafi allir starfsmenn félagsins og dótturfélaga sem störfuðu hjá félaginu á árinu 2002 fengið launauppbót í formi hlutabréfa í Flugleiðum hf., að nafnvirði 10.500 krónur, en að markaðsvirði 50.000 krónur. Þar sem stefnandi hafi verið starfsmaður stefnda á árinu 2002 og hefði með réttu átt að vera í ráðningarsambandi a.m.k. til 31. janúar 2003, sé á því byggt að stefnanda beri að fá sambærilega launauppbót.
Kröfu samkvæmt lið 11 byggir stefnandi á því að allt frá aprílmánuði 2002 hafi félags-sjúkra- og orlofssjóðsgjöld vegna stefnanda ekki borist stéttarfélagi hans, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis. Svo virðist sem stefndi hafi greitt gjöld þessi til Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur án heimildar eða fyrirmæla stefnanda. Stefnandi byggi á því að stefnda beri að greiða téð félagsgjöld, sem nema 30.074 krónum, á réttan stað til að stefnandi megi njóta þeirra réttinda hjá sínu stéttarfélagi sem lög kveði á um.
Kröfu samkvæmt lið 12 um bætur vegna ólögmætrar uppsagnar stefnanda sem trúnaðarmanns byggir stefnandi á því að hin fyrirvaralausa uppsögn hafi ekki einungis verið brot á almennum réttindum starfsmanna, heldur hafi stefndi brotið gegn réttindum trúnaðarmanns skv. 11. gr. laga nr. 80/1938 og beri að greiða bætur í formi 3 mánaða launa umfram uppsagnarfrest. Miðist sú kröfugerð við dómaframkvæmd á þessu sviði. Verði stefndi á hinn bóginn ekki talinn hafa brotið gegn fyrrnefndu lagaákvæði sé á því byggt að þessa kröfu beri samt sem áður að taka til greina, enda hafi stefndi, í ljósi stöðu stefnanda, borið að beina til hans áminningu áður en til uppsagnar kom. Fjárhæð kröfunnar sé miðuð við þreföld mánaðarlaun að viðbættu 12,07 % orlofi og 8 % framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð og viðbótarsparnað. Byggt sé á því að þessi krafa hafi gjaldfalli við lok almenns uppsagnarfrests og þann dag er síðasta launagreiðsla átti að fara fram, þ.e. 1. febrúar 2003.
Af hálfu stefnanda er málssóknin byggð á lögfestum og ólögfestum meginreglum vinnuréttar og kröfuréttar og ákvæðum laga nr. 80/1938. Um skuldbindingargildi kjarasamnings er byggt á 1. gr. laga nr. 55/1980. Þá er byggt á ákvæðum laga nr. 30/1987 um orlof og ákvæðum laga nr. 129/1997 um lífeyrisréttindi. Vaxtakröfu byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, málskostnaðarkröfu á ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.
III.
Af hálfu stefnda er sýknukrafa byggð á því að brot stefnanda sé það alvarlegt að óhjákvæmilegt hafi verið að víkja honum úr starfi. Með því að bregðast við lögmætum fyrirmælum yfirmanns síns til starfsmanna með því að veitast að honum, slá kaffibollann úr hendi hans og taka á honum í kjölfarið, hafi stefnandi brotið svo gróflega gegn hlýðnis- og trúnaðarskyldum sínum gagnvart stefnda að réttmætt hafi fyrirvaralausa uppsögn hans án undangenginnar áminningar.
Hlýðni starfsmanna við lögleg fyrirmæli atvinnurekenda eða verkstjórnenda hans séu ein af meginskyldum starfsmanna. Geri starfsmaður sig þar á ofan sekan um að leggja hendur á verkstjórnanda með þeim hætti sem stefnandi gerði séu forsendur fyrri áframhaldandi ráðningu brostnar. Stefnandi viðurkenni að hafa gengið að yfirmanni sínum, hlaðstjóra stefnda, slegið kaffibolla úr höndum hans og skipað honum að láta sjónvarp starfsmanna í friði. Stefndi telji að sú hegðun ein og sér feli í sér nægjanlega alvarlegt brot af hálfu stefnanda til að stefnda hafi verið rétt að rifta ráðningarsamningi hans.
Réttmætt væri að gera þá kröfu til stefnanda sem trúnaðarmanns stéttarfélags síns á vinnustað að hann gæfi gott fordæmi og gætti þess að framfylgja sjálfur eðlilegum og réttmætum starfsháttum. Á því hafi orðið svo alvarlegur misbrestur að stefnandi eigi ekki tilkall til þeirrar sérstöku verndar gegn uppsögnum sem 11. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 hafi verið talin veita trúnaðarmönnum.
Umrætt atvik hafi átt sér stað í vinnutíma og að fjölda starfsmanna ásjáandi. Hlaðstjóri stefnda hafi sem verkstjórnandi verið í fullum rétti til að slökkva á sjónvarpi starfsmanna um leið og hann kvaddi þá til vinnu. Tilvísunum stefnanda til forsögu og fyrri samskipta við viðkomandi hlaðstjóra sé mótmælt sem þýðingarlausum varðandi úrlausn máls þessa og röngum.
Þá er á því byggt að stefnanda hafi borið að fara að lögum við framkvæmd trúnaðarmannastarfa sinna. Það réttlæti engan veginn athafnir stefnanda að hann hafi talið sig vera að sinna trúnaðarmannsstarfa sínum heldur auki það þvert á móti ábyrgð hans. Með saknæmu framferði sínu hafi hann farið langt út fyrir heimildir sínar sem trúnaðarmaður. Kröfur stefnanda verði því ekki byggðar á því að hann hafi verið að sinna lögmætum trúnaðarmannastörfum í hinu umdeilda tilviki.
Þá er byggt á því að uppsögn stefnanda hafi verið trúnaðarmannsstarfa hans með öllu óviðkomandi.
Stefndi kveður mál stefnanda hafa verið skoðað gaumgæfilega áður en ákvörðun var tekin og honum gefinn kostur á að skýra mál sitt án þess að neitt nýtt kæmi fram í því samtali.
Að því er einstaka kröfuliði stefnanda varðar er af hálfu stefnda bent á varðandi kröfu um framlag í lífeyrissjóð, að samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 129/1973, sbr. einkum 2. mgr. 2. gr. þeirra laga og ákvæði kjarasamninga, fari viðkomandi lífeyrissjóður með forræði kröfunnar.
Stefndi telur að sýkna beri stefnda vegna aðildarskorts bæði í aðal- og varakröfu varðandi kröfu um hlutabréf í Flugleiðum hf. Kröfunni sé ranglega beint að stefnda.
Stefndi telur stefnanda þegar hafa fengið það sem honum bar við uppgjör vetrarfrís samkvæmt sérkjarasamningi sem gildi um störf hlaðmanna stefnda. Samkvæmt þeim samningi sé vetrarorlof greitt út í 12/30 hlutum, þ.e.a.s. einn dagur fyrir hvern unninn mánuð frá 1. október til 30. september árið eftir.
Að því er félagsgjöld áhrærir bendir stefndi á að í gildi hafi verið samskiptasamningur milli Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis og fleiri félaga á svæðinu um skiptingu félagsgjalda. Samkvæmt því hafi stefndi skilað félagsgjöldum, sjúkrasjóðs- og orlofsheimilasjóðsgjöldum stefnanda til VSFK sem sjái um að millifæra greiðslur til viðkomandi stéttarfélags. Engin breyting á því fyrirkomulagi hafi verið tilkynnt stefnda. Stefnandi eigi því engar frekari kröfur á hendur stefnda vegna ógreiddra félagsgjalda.
Með tilliti til atvika málsins mótmælir stefndi bótakröfu vegna ólögmætrar uppsagnar sem óréttmætri.
Varakröfu sína styður stefndi þeim rökum að greiðslur vegna atvinnuleysisbóta, styrkja úr sjúkrasjóði, almannatryggingum eða atvinnutekna á því tímabili sem bóta er krafist vegna komi til frádráttar kröfu stefnanda.
Stefndi byggir sýknukröfur sínar aðallega á meginreglum vinnuréttar um riftun ráðningarsamninga og um umboð, starfshætti og vernd trúnaðarmanna, lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, einkum 9.-11. gr., lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 129/1997, kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og sérkjarasamningi um störf hlaðmanna hjá stefnda. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 129. og 130. gr.
Niðurstaða.
Í máli þessu sætir ekki ágreiningi að stefnandi var trúnaðarmaður starfsmanna í samræmi við lög nr. 80/1938 og naut verndar í starfi sem slíku á grundvelli 11. gr. laganna.
Miðað við starfsaldur stefnanda hjá stefnda bar stefnanda þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Í málinu er ekki tölulegur ágreiningur um föst mánaðarlaun stefnanda og önnur kjör hans. Hins vegar er deilt um hvort stefnandi eigi aðild að kröfu um greiðslu iðgjalda stefnda af launum hans í lífeyrissjóð og greiðslu félagsgjalda og eins er því haldið fram að kröfu um hlutafé í Flugleiðum hf. sé ranglega beint að stefnda.
Að framan hefur verið gerð grein fyrir framburði stefnanda og vitna um atburð þann sem varð til þess að stefnanda var vikið fyrirvaralaust úr starfi hjá stefnda. Af þeim framburði og öðru því sem fram hefur komið í málinu má ráða að óánægju hafi gætt meðal hlaðmanna stefnda með framkomu hlaðstjórans Péturs R. Haukssonar í þeirra garð, einkum vegna ástæðulausra afskipta hans af sjónvarpstæki starfsmanna í kaffiaðstöðu, sem aldrei hafi bitnað á störfum þeirra. Upplýst er að starfsmenn kvörtuðu yfir þessu við trúnaðarmennina Baldur Sigfússon og stefnanda.
Vitnum ber ekki saman um hvort umræddur Pétur slökkti á sjónvarpinu áður en hann skipaði mönnum út til vinnu eða hvort hann gerði það í kjölfar þeirrar skipunar. Úr því verður ekki skorið en á hinn bóginn þykir það atriði ekki skipta sköpum í málinu. Stefnanda var misboðið er Pétur slökkti á sjónvarpinu og sagði hann Pétri að láta tækið í friði. Hann gekk í áttina að tækinu en mætti Pétri á leiðinni þar sem hann var á útleið með kaffibolla í hendinni. Stefnandi hefur viðurkennt að hafa slegið bollann úr hönd Péturs. Verður að telja stefnanda hafa gert það í augnabliksreiði og þykir sú skýring stefnanda að hann hafi óttast að Pétur myndi skvetta úr bollanum yfir hann ekki vera haldbær. Á hinn bóginn þykir ósannað að stefnandi hafi ráðist á Pétur með því að taka á honum og ýta honum í gólfið eins og haldið er fram af hálfu stefnda. Sönnu nær er að stefnandi og Pétur hafi gripið hvor í annan er þeir rákust hvor á annan og Pétur hnaut við og þannig hafi falli Péturs verið afstýrt.
Með hliðsjón af framangreindu stenst ekki sú forsenda, sem var ein af forsendum fyrirvaralausrar uppsagnar stefnanda, að stefnandi hafi tekið líkamlega á Pétri eða gerst sekur um líkamsárás á hann.
Í vinnurétti er viðurkennd afstaða að trúnaðarmönnum starfsmanna beri að ganga á undan öðrum starfsmönnum með góðu fordæmi og að sú vernd sem þeir njóta sérstaklega samkvæmt lögum nr. 80/1938 gagnist þeim eigi ef þeir brjóta alvarlega af sér í starfi. Að mati dómsins voru viðbrögð stefnanda umrætt sinn honum ekki sæmandi sem trúnaðarmanni. Honum hefði borið að fara aðrar leiðir til að freista þess að rétta hag starfsmanna gagnvart umræddum hlaðstjóra. Á hinn bóginn verður með engu móti talið að þessi háttsemi hans hafi verið það alvarleg og þess eðlis að heimilt hafi verið að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi án undangenginna áminninga. Verður að telja að einföld áminning hefði átt að duga í þessu tilfelli. Ekki er fallist á að hina fyrirvaralausu uppsögn stefnanda megi rekja til starfa hans sem trúnaðarmanns.
Samkvæmt framangreindu verður að fallast á að stefnanda beri bætur úr hendi stefnda vegna hinnar ólögmætu uppsagnar er svari til fullra mánaðarlauna hans í hinum þriggja mánaða uppsagnarfresti auk þess hluta októbermánaðar er eftir lifði er honum var vikið frá störfum. Eins og áður getur er ekki tölulegur ágreiningur um þennan kröfulið og verður hann því tekinn til greina með samtals 529.087 krónum auk vaxta eins og í dómsorði greinir. Krafa stefnanda um orlof 63.861 krónur sætir ekki andmælum og er hún tekin til greina með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Ekki er tölulegur greiningur um kröfu stefnanda um greiðslur í lífeyrissjóð hans en stefndi telur á hinn bóginn að viðkomandi lífeyrissjóður fari með forræði kröfunnar. Á þetta er fallist og koma þessir kröfuliðir því ekki til álita í málinu. Fallist er á með stefnda að kröfu stefnanda um andvirði hlutabréfa í Flugleiðum hf. í aðalkröfu og afhendingu hlutabréfa í varakröfu sé ranglega beint að stefnda, en að slíkri kröfu verði að beina að Flugleiðum hf. Ber að sýkna stefnda af þessum kröfuliðum vegna aðildarskorts. Eins og fram kom í málinu hefur stefndi greitt félagsgjöld stefnanda til Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur í stað Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis. Byggðist það á samningi sem hafði gilt um þessi efni en ekki var lengur í gildi án þess að stefnda væri um það kunnugt. Verður því að sýkna stefnda af þessum kröfulið en þetta uppgjör verða viðkomandi stéttarfélög að leysa sín í milli. Krafa stefnanda um mismun á greiðslu fyrir vertrarfrí er byggð á röngum forsendum eða að uppgjörstímabilið miðist við 1. september til 31. ágúst ár hvert. Uppgjörið miðast á hinn bóginn við 1. október til 30. september árið eftir. Samkvæmt því er ekki um neinn mismun að ræða og ber því að sýkna stefnda af þessum kröfulið. Á hinn bóginn ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda vegna áunnins vetrarfrís miðað við tímabilið frá 1. október 2002 og til 31. janúar 2003, er uppsagnarfrestur stefnanda var úti. Nemur sú fjárhæð 25.091 og ber dráttarvexti eins og í dómsorði greinir.
Stefnanda ber ekki frekari bætur vegna launamissis en áðurgreind þriggja mánaða laun. Með hliðsjón af atvikum málsins þykja ekki vera fyrir hendi skilyrði til að dæma stefnanda frekari bætur vegna hinnar ólögmætu uppsagnar.
Samkvæmt ofangreindu verður stefndi því dæmdur til að að greiða stefnanda samtals krónur 618.039 (36.706+163.127+163.127+163.127+63.861+25.091) með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.
Dómsorð:
Stefndi, Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli ehf., greiði stefnanda, Magnúsi S. Magnússyni, 618.039 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 39.706 krónum frá 1. nóvember 2002 til 1. desember sama ár, af 202.833 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2003, af 365.960 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, en af 618.039 krónum frá þeim degi til greiðsludags og 350.000 krónur í málskostnað.