Hæstiréttur íslands
Mál nr. 403/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Bráðabirgðaforsjá
- Umgengni
|
|
Fimmtudaginn 25. júní 2015. |
|
Nr. 403/2015. |
M (Guðríður Lára Þrastardóttir hdl.) gegn K (Sveinn Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengni.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem K var falin forsjá dóttur aðila til bráðabirgða samkvæmt 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 að öðru leyti en því að telpan skyldi dvelja hjá M tvívegis í tvær vikur yfir sumartímann eða samkvæmt nánara samkomulagi aðila.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. júní 2015 þar sem varnaraðila var falin forsjá A til bráðabirgða þar til endanleg ákvörðun um forsjá lægi fyrir í máli aðila. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um forsjá stúlkunnar til bráðabirgða. Til vara krefst hann þess að umgengni samkvæmt úrskurði héraðsdóms verði breytt þannig að stúlkan dvelji til skiptis hjá aðilum, eina viku í senn frá föstudegi til föstudagsmorguns. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með héraðsdómi að best þjóni hagsmunum telpunnar að varnaraðila verði falin forsjá hennar til bráðabirgða, sbr. 1. mgr. 35. gr. barnalaga. Verður úrskurðurinn staðfestur að því leyti.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gerðu aðilar við sambúðarslit samkomulag 17. desember 2013 um forsjá barnsins og umgengni. Samkvæmt því átti barnið að dvelja í fjórar vikur hjá sóknaraðila yfir sumartímann. Ekki eru efni til að fella niður þá umgengni en rétt þykir vegna ungs aldurs barnsins og erfiðra samskipta aðila að haga umgengni eins og í dómsorði greinir. Að öðru leyti verður hinn kærði úrskurður staðfestur um umgengni barnsins við sóknaraðila.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að barnið A skal dvelja hjá sóknaraðila, M, tvívegis í tvær vikur í senn, í fyrra skiptið frá 14. til 28. júlí 2015 og hið síðara frá 4. til 18. ágúst sama ár eða samkvæmt nánara samkomulagi aðila.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 2. júní 2015.
Mál þetta var þingfest 11. febrúar 2015 um forsjá barns aðila, A, sem nú er sjö ára. Stefnandi er K, [...], [...], en stefndi er M, [...], [...].
Krafa um forsjá til bráðabirgða var lögð fyrir dóminn 22. apríl 2015 og er sá þáttur málsins nú til úrlausnar. Stefndi skilaði greinargerð í bráðabirgðaforsjárþættinum 29. apríl 2015 og var málið flutt 5. maí sl. og tekið til úrskurðar þann dag.
Stefnandi gerir aðallega þá kröfu að henni verði með úrskurði falin forsjá stúlkunnar A til bráðabirgða eða þar til endanleg ákvörðun um forsjá liggur fyrir í forsjármáli aðila. Hafni dómari kröfu stefnanda um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár er þess krafist að dómari kveði á um að lögheimili barnsins verði hjá stefnanda þar til endanleg ákvörðun um forsjá liggur fyrir í forsjármálinu. Í báðum tilvikum er þess krafist að mælt verði fyrir um umgengni við stefnda til bráðabirgða þannig að A dvelji hjá stefnda aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudags. Í öllum tilvikum gerir stefnandi kröfu um málskostnað úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess að öllum kröfum stefnanda verði hafnað og að stefnandi greiði stefnda málskostnað í þessum þætti málsins.
I
Aðilar málsins kynntust á árinu 2004 og hófu sambúð fljótlega. Flutti stefndi til stefnanda í húseign hennar að [...], [...]. Í sambúð sinni eignuðust aðilar A þann [...] 2008. Stefnandi kveðst hafa viljað slíta sambandinu á árinu 2011 en stefndi hafi viljað láta reyna á frekara samband með því að leita aðstoðar hjónabandsráðgjafa. Ráðgjöfin hafi ekki skilað tilætluðum árangri en aðilar hafi búið áfram saman fram í september 2013 er stefndi flutti út.
Aðilar mættu hjá sýslumanni 17. desember 2013 til þess að ganga frá sambúðarslitum sínum. Var þar bókað að þau væru sammála um sameiginlega forsjá barnsins og að umgengni skyldi vera þannig að barnið yrði til skiptis hjá hvoru foreldri eða aðra hverja viku frá föstudegi til föstudags. Hefur þetta umgengnisfyrirkomulag haldist síðan og jafnframt að barnið hefur dvalið fjórar vikur hjá stefnda yfir sumartímann eftir nánara samkomulagi aðila. Ekki náðist samkomulag um lögheimili barnsins.
Stefnandi segir að fljótlega hafi komið í ljós að stúlkan var ósátt við að vera svona lengi fjarri heimili sínu en stefndi hafi ekki verið reiðubúinn til að endurskoða umgengnina. Aðilar sóttu sáttafund hjá sýslumanni en 30. september 2014 var gefið út vottorð um að sáttatilraunir hefðu verið árangurslausar. Þann 1. október 2014 var málinu vísað frá sýslumanni.
II
Krafa stefnanda um að henni verði falin forsjá barnsins til bráðabirgða er reist á 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Segir stefnandi að rökin að baki heimildinni séu einkum þau að hagsmunir barnsins kunni að kalla á nauðsyn þess að máli þessu verði skipað til bráðabirgða þar sem meðferð forsjármáls getur tekið langan tíma. Um sé að ræða bráðabirgðaráðstöfun sem beitt verði án þess að rækileg könnun fari fram á aðstæðum og högum foreldra og barns af hálfu dómara.
Stefnandi kveður ástæður þess að stefnandi telur sig knúna til þess að setja fram kröfu um bráðabirgðaforsjá vera einkum þær að í hvert skipti sem stefnandi leiti til stefnda í tengslum við atriði er snúa að barninu eða hagsmunum þess hreyti hann ónotum í stefnanda og minni hana á að milli þeirra verði stríð þar til hún hafi greitt honum það sem hann fer fram á við eignaskipti. Hún kveður stefnda vera jafn reiðan og hann var í september 2013 er hann flutti út af heimili stefnanda vegna samvistarslitanna. Stefndi skeyti ekki um A í þessu sambandi og verði hún fyrir barðinu á reiði stefnda. Skemmst sé frá því að segja að stefndi hafi reynt að koma í veg fyrir að A ætti þess kost að fara með stefnanda í venjulegt frí til sólarlanda sumarið 2014 án nokkurrar ástæðu. Hafi hann einungis gefið þá ástæðu að hann myndi reyna að standa í vegi fyrir öllum fyrirætlunum stefnanda þar til hún væri reiðubúin að ganga frá kröfum hans um eignaskiptin. Stefnandi hafi þá leitað til sýslumanns sem hafi heimilað för barnsins með úrskurði. Stefnandi hafi aftur óskað þess við stefnda að hann leyfði barninu að fara í ferðalag til útlanda sumarið 2015 en nú eigi stefnandi þess ekki kost að leita til sýslumanns því að stefndi hafi synjað um endurnýjun ferðaskilríkja. Ljóst sé að barnið geldur þessa ágreinings foreldra og því sé nauðsynlegt að höggvið verði á þann hnút sem samskipti aðila eru í með úrskurði dómara.
Hafni dómari kröfu stefnanda um að henni verði með úrskurði falin forsjá barnsins til bráðabirgða sé þess krafist að dómari ákveði með úrskurði að lögheimili barnsins verði hjá móður. Kröfuna byggir stefnandi á 2. mgr. 35. gr. barnalaga. Gera megi ráð fyrir að forsjármálið geti tekið langan tíma en á meðan séu aðstæður barnsins í uppnámi. Ljóst sé að aðilar þessa máls geti ekki unnið sameiginlega að málefnum barnsins vegna óuppgerðra tilfinninga stefnda og reiði hans í garð stefnanda en hún heldur því fram að barnið sé farið að gjalda þess. Nauðsynlegt sé að öðru foreldrinu verði falið vald til að taka ákvarðanir í málefnum sem upp koma í daglegu lífi barnsins, svo sem samskiptum barnsins við móður sína og móðurfólk meðan á umgengni hjá stefnda stendur, notkun barnsins á farsíma sínum, samskiptum foreldra til að greiða fyrir því að barnið fái notið sambærilegra tækifæra og vinkonur þess svo að eitthvað sé nefnt. Slíkt muni hlífa barninu við ágreiningi aðila og óvissu þar sem stefndi neiti að ræða sameiginleg mál við stefnanda sem valdi aftur kvíða og óöryggi hjá barninu. Stefnandi telur eðlilegt að lögheimili barnsins verði ákveðið á heimili þess að [...] í [...] en með því verði aðstæður þess óbreyttar frá því sem verið hefur. Það heimili hafi verið heimili A frá því að hún fæddist og þar búi einnig eldri bróðir hennar svo og vinkonur og móðurfólk í nágrenninu. Stefndi hafi hins vegar neitað að flytja lögheimili sitt af [...] til samræmis við raunverulega búsetu hans.
Krafa um að dómari taki af skarið og ákvarði um umgengni barnsins við stefnda sé reist á 2. mgr. 35. gr. barnalaga. Stefnandi heldur því fram að við ákvörðun um umgengni verði fyrst og fremst að miða við þarfir barnsins en bann við samskiptum við móður aðra hverja viku fari greinilega í bága við hagsmuni A. Regluleg umgengni barnsins við stefnda aðra hverja helgi miði að því að varðveita tengslin milli barnsins við stefnda eins og áskilið sé í 2. mgr. 35. gr. laganna.
Aðalástæðan fyrir þessari kröfu um breytta umgengni sé sú að stefndi hafi komið í veg fyrir að barnið hafi samskipti við móður sína og móðurfólk meðan það dvelur hjá stefnda. Stefnandi hafi margítrekað reynt að tala um fyrir stefnda með því að benda á að telpan verði að fá leyfi til að vera í samskiptum við báða foreldra sína, einkum þar sem hún dvelji langdvölum fjarri móður sinni. Stefndi hafi til dæmis ekki leyft stefnanda að heyra í barninu þegar hún óskaði eftir því í fjögurra vikna samfelldu sumarfríi 2014 og hafi það valdið barninu kvíða. A hafi lýst því fyrir móður sinni hve mikið hún hafi saknað hennar og þeirri angist að hafa ekki fengið að heyra í móður sinni allan þennan tíma sem hún var í sumarfríi með föður sínum.
Síðasta sumar hafi stefndi farið með barnið á fjöll. Hann vinni við akstur á fjöllum og trússi fyrir ferðalanga sem séu á gönguferð um hálendið. Stefnandi hafi enga tryggingu fyrir því að þessar aðstæður séu viðunandi fyrir barnið uppi á hálendinu í ýmsum veðrum við mismunandi aðstæður og fjarri allri byggð. Vegna samskiptaerfiðleika og neikvæðrar framkomu stefnda hafi ekki fengist upplýsingar um fyrirhuguð ferðalög seinasta sumar sem sé tortryggilegt og óviðunandi fyrir barnið. Þá hafi A verið haldin miklum aðskilnaðarkvíða þegar hún hafi komið aftur til móður sinnar eftir sumarfríið 2014 með stefnda.
Þá hafi stefndi ekki farið með barnið í skólann þegar hann hafi sjálfur verið veikur þrátt fyrir að hann viti að stefnandi sé reiðubúin að sækja telpuna til að koma henni í skólann.
Þrátt fyrir að stefndi hafi borið því við að barnið vilji ekki tala við móður sína eða biðji ekki um að fá að hringja til hennar telur stefnandi það hafið yfir allan vafa að barninu hafi í upphafi verið bannað að hringja til móður sinnar og nú sé svo að komið að telpan þori ekki að biðja um að fá að hringja. Í hvert skipti sem stefnandi hringi í stefnda og biðji um að fá að tala við barnið sé því synjað af hálfu stefnda en þá komi hann jafnan með afsakanir sem ekki séu sannar, til dæmis þær að barnið sé úti að leika sér þrátt fyrir að stefnandi hafi heyrt í því og þrátt fyrir að barnið hlusti á föður sinn segja móður ósatt um þetta. Stefnandi hafi fest kaup á farsíma fyrir stúlkuna svo hún gæti hringt þegar hún vildi heyra í móður sinni en stefndi hafi meinað stúlkunni að hringja í móður sína og tekið símann af barninu. Stefnandi mótmælir því sem röngu að hún hafi sýnt barninu póstsamskipti aðila eins og fram komi hjá stefnda. Hið rétta sé að sími stefnanda hafi bilað og þá hafi hún fært símkortið sitt yfir í síma barnsins en við það hafi samskipti aðila við stefnda flust yfir. Gleymst hafi að fjarlægja þennan póst og hafi það ekki komið að sök því að telpan sé ekki læs ennþá og ekki fær um að fara inn á slíka samskiptamiðla.
Þá hafi stefndi bannað stúlkunni að tala við stefnanda um dvöl sína hjá stefnda og segja frá því sem þau hafi verið að gera, hvern þau hafi heimsótt eða hitt. Þetta hafi skerpt gjána á milli tveggja heima barnsins sem hafi aukið kvíða og óvissu og vanlíðan hjá stúlkunni. Krafa stefnanda taki mið af þessu og því leggi hún til að stúlkan fái að dvelja hjá föður sínum aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudags. Með því fyrirkomulagi dragi úr óhagræðinu af því sambandsleysi sem stúlkan þurfi að búa við.
III
Að mati stefnda hefur fyrirkomulag jafnrar umgengni gengið vel og virðist barnið una hag sínum vel. Aðilar málsins séu þó enn ósáttir, enda sé fjárskiptum þeirra á milli enn ekki lokið en stefnandi búi á fyrrverandi sameiginlegu heimili aðila og hafi neitað að greiða stefnda út sinn hlut í búi þeirra. Samskipti aðila hafi því gengið brösuglega og hafi stefndi brugðið á það ráð að halda samskiptum sínum við stefnanda í algjöru lágmarki til þess að komast hjá því að barnið lendi á milli í deilum aðila.
Sú lýsing sem dregin sé upp af stefnda í kröfu stefnanda sé alröng. Af þeirri lýsingu megi ætla að stefndi haldi barninu í heljargreipum þá viku sem hún dvelur hjá honum og hún fái ekki að eiga samskipti við aðra en hann. Þetta sé fjarri sanni og fullyrðir stefndi að stúlkunni líði ágætlega hjá honum. Stúlkan fari auðvitað í skóla og tómstundir líkt og hún geri hjá stefnanda og hitti að auki vinkonur sínar. Þá hitti feðginin fjölskyldu stefnda allar helgar og njóti barnið samskipta við hana en þar séu mörg börn á hennar aldri.
Fullyrðing stefnanda um að stefndi hafi ekki látið barnið fara í skóla vegna veikinda stefnda sé alröng. Í umrætt skipti hafi barnið verið veikt og stefndi talið rétt að halda því heima. Stefnandi geri mikið úr því að barnið sé ekki í samskiptum við hana eða móðurfólk sitt þá viku sem hún dvelji hjá stefnda. Undir þetta tekur stefndi en telur rétt að árétta að hið sama gildi þá viku sem barnið dvelji hjá stefnanda. Til að byrja með hafi báðir aðilar haft samskipti við barnið í gegnum síma er það var í umgengni. Eftir því sem á leið hafi stefndi tekið eftir vanlíðan hjá barninu í sambandi við þessi samskipti og því tekið þá ákvörðun að hætta að hringja í barnið þegar hún var í umgengni hjá stefnanda. Telur hann enga ástæðu til þess að setja barnið í þær aðstæður að þurfa sífellt að svara símtölum og spurningum frá hinu foreldrinu í umgengni. Ástæður þess að stefndi tók umræddan síma úr vörslu barnsins sé sú að í símanum hafi verið að finna tölvupóstsamskipti milli aðila er vörðuðu deilur þeirra og fjárskipti og forsjárskipan. Stefndi hafi talið það algjörlega ótækt að barnið hefði aðgang að þessum samskiptum og því tekið símann úr vörslu barnsins. Stefndi mótmælir því að barnið sé ólæst, enda sé það að ná tökum á lestri. Stefndi hafi því enga tryggingu fyrir því að barnið lesi ekki umrædd samskipti.
Stefnandi hafi ítrekað gerst sek um að hindra samskipti feðginanna. Stefndi hafi hins vegar aldrei neitað barninu um að hafa samband við stefnanda og muni hann ekki gera það óski barnið eftir því. Stefndi hafi þá skoðun að sjö ára gömul börn eigi ekki að bera farsíma. Þau séu of ung til að bera ábyrgð á slíkum tækjum auk þess sem það sé ekki hollt fyrir svo ung börn að verða sífellt fyrir því áreiti sem því fylgir.
Varðandi sumarleyfi barnsins með stefnda tekur stefndi fram að stefnanda sé fullkunnugt um starf stefnda á fjöllum yfir sumarið. Dóttir aðila hafi oft áður farið í slíkar ferðir og hafi stefnandi aldrei gert athugasemdir við það eða lýst áhyggjum á aðbúnaði barnsins þar. Dóttir aðila hafi mikla unun af ferðalögum um hálendi Íslands og viti fátt betra en að dvelja með stefnda á fjöllum á sumrin.
Stefndi gerir alvarlegar athugasemdir við kröfugerð stefnanda um umgengnisfyrirkomulag. Stefndi hafi sinnt barninu allt frá fæðingu þess til jafns við stefnanda. Krafa stefnanda um svo skerta umgengni sé augljóslega ekki sett fram með hagsmuni barnsins að leiðarljósi heldur litist kröfugerðin af fjandskap og andúð stefnanda í garð stefnda og hafi ekkert með velferð barnsins að gera.
Kröfur sínar í þessum þætti málsins byggir stefndi á því að skilyrði 35. gr. barnalaga hr. 76/2003 séu ekki uppfyllt í málinu. Hvorki sé um að ræða nauðsyn á að breyta þessu fyrirkomulagi né sé nauðsyn brýn. Barninu stafi engin hætta af veru sinni hjá stefnda. Öllum skyldum barnsins sé sinnt og hafi aðilar gert með sér samkomulag um tilhögun sumarleyfis. Stefndi hafi aldrei gerst sekur um að tálma umgengni mæðgnanna og hafi hann staðið í einu og öllu við sinn hlut umgengnissamkomulags aðila frá 17. desember 2013. Aðila greini á um símnotkun barnsins og hafi stefndi boðið stefnanda að hringja í barnið þegar hún dvelji hjá honum. Sönnunarbyrðin um að brýn nauðsyn sé fyrir hendi sé alfarið hjá stefnanda og hafi slík sönnun fráleitt tekist. Þvert á móti hafi barnið unað vel við núverandi fyrirkomulag allt frá hausti 2013.
IV
Í forsjármáli þessu gerir stefnandi kröfu um að henni verði einni falin forsjá dóttur aðila. Forsjá hefur verið sameiginleg frá samvistarslitum haustið 2013 og umgengni verið vika á víxl. Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að henni verði falin forsjá stúlkunnar til bráðabirgða eða þar til dómur gengur í máli aðila. Til vara krefst stefnandi þess að lögheimili barnsins verði hjá stefnanda. Í báðum tilvikum er gerð krafa um að mælt verði fyrir um umgengni.
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 77/2003 hefur dómari heimild til að úrskurða til bráðabirgða hvernig fara skuli með forsjá barns eftir því sem barni er fyrir bestu. Jafnframt getur dómari kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða. Grundvallarsjónarmið við slíka ákvörðun er ávallt hvað sé barni fyrir bestu. Í 2. mgr. 35. gr. barnalaga segir að hafni dómari kröfu um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár meðan forsjármál er til meðferðar fyrir dómi geti hann kveðið á um lögheimili barns, umgengni og meðlag til bráðabirgða. Dómari getur ennfremur ákveðið að barn skuli búa hjá foreldrum sínum á víxl, enda þyki slíkt fyrirkomulag samræmast hagsmunum barnsins. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að barnalögum segir að almennt megi líta svo á að æskilegt teljist að forsjá haldist sameiginleg meðan máli er ráðið til lykta. Ákvæði 35. gr. barnalaga lýtur einnig að því að koma í veg fyrir að annar aðili í forsjármáli geti skapað sér betri rétt með því að fá forsjá barns til bráðabirgða á meðan að forsjármálið er rekið fyrir dómstólum.
Kröfu sína í þessum þætti málsins byggir stefnandi á því að stefndi hafi meinað stefnanda að hafa samband við barnið, sem nú er sjö ára, þegar það er í umgengni hjá stefnda frá föstudegi til föstudags aðra hverja viku. Er fram komið í málinu að stefndi hefur neitað stefnanda að tala símleiðis við barnið í umgengni hjá stefnda og tók stefndi farsímann af barninu, sem stefnandi hafði látið stúlkunni í té, og telur stefndi að svo ung börn eigi ekki að hafa farsíma í fórum sínum. Þann 27. apríl féllst stefndi þó á að símatími yrði ákveðinn á miðvikudögum kl. 19:45. Þá liggur einnig fyrir í málinu að stefndi neitaði stefnanda að hafa tal af barninu er það dvaldi hjá stefnda í fjórar vikur samfleytt síðastliðið sumar.
Sumarið 2014 óskaði stefnandi eftir samþykki stefnda fyrir því að þær mæðgur færu í frí til útlanda en hann hafnaði því. Með úrskurði sýslumannsins 16. júlí 2014 var stefnanda heimiluð för með stúlkuna í utanlandsferð til Evrópu í allt að tvær vikur. Þá liggur fyrir í málinu að stefndi hyggst ekki samþykkja útgáfu vegabréfs, sem nú er útrunnið, til handa barninu vegna fyrirhugaðrar utanlandsferðar mæðgnanna á sumri komanda. Segir í tölvubréfi lögmanns hans, án frekari skýringa eða rökstuðnings, að stefndi hafi áhyggjur af öryggi og velferð barnsins fari það af landi brott með móður.
Í framlögðum tölvupósti milli aðila kemur glögglega fram að stefnandi hefur reynt að tala um fyrir stefnda og reynt að fá hann til samstarfs um hagsmuni barnsins en án árangurs. Í tölvupóstsamskiptum þeirra kemur fram mikil reiði stefnda í garð stefnanda og verður ekki annað lesið af þeim en að reiði hans stafi af því að hann telur sig hlunnfarinn af stefnanda við búskipti. Ósk lögmanns stefnanda um fund með aðilum til þess að reyna að færa samskipti aðila til betri vegar var hafnað af hálfu stefnda. Tilmælum dómara í þinghaldi til lögmanns stefnda um að samskiptabanni barns og móður símleiðis yrði aflétt meðan málið væri til meðferðar fyrir dómi var einnig hafnað af stefnda en fallist á símatíma einu sinni í viku.
Í þinghaldi 5. maí sl. um flutning málsins um kröfu stefnanda um bráðabirgðaforsjá lagði stefnandi fram tölvupóst stefnanda til lögmanns síns þar sem fram kemur frásögn stefnanda af því að aðilar hafi hist á [...]sýningu hjá A 24. apríl sl. Þar hafi stefndi hrint stefnanda og elt hana með barnið í fanginu og kallað ítrekað á eftir stefnanda: „Hvenær ætlar þú að ljúka fjárskiptum?“ Barnið hafi orðið skelfingu lostið. Þau hafi hist aftur 29. apríl sl. í skóla barnsins og þá hafi stefndi aftur hafið tal um fjárskipti fyrir framan barnið og kennarann. Þótt ekki verði byggt á þessari frásögn stefnanda hefur henni ekki verið mótmælt og stefndi kom ekki fyrir dóm til að gefa skýrslu.
Það er mat dómsins að allt framangreint bendi eindregið til þess að stefndi hafi ekki velferð barnsins í fyrirrúmi heldur stjórnist af reiði í garð stefnanda. Reiði hans gangvart stefnanda hefur m.a. birtist í því að hann hefur lokað á öll samskipti mæðgnanna meðan telpan hefur veið í umgengni hjá honum, hvort sem það hefur verið í vikuumgengni eða samfleytt í fjórar vikur að sumarlagi. Reiði hans birtist einnig í því að hann hefur neitað stefnanda að fara með barnið í frí til útlanda án tækrar skýringar.
Matsmaður var dómkvaddur í málinu 29. apríl sl. Fyrir liggur að aðalmeðferð málsins getur ekki farið fram fyrr en í september nk. Stefndi hefur ekki að mati dómsins sýnt nægilegan sáttarvilja í þessum þætti málsins til þess að hagsmunir barnsins verði fyllilega tryggðir þangað til dómur gengur. Samkvæmt samningi aðila fer í hönd í sumar fjögurra vikna dvöl A hjá stefnda og liggur ekki annað fyrir en að áframhaldandi samskiptabann móður og barns verði við lýði af hálfu stefnda þann tíma. Brýnir hagsmunir barnsins krefjast þess að gripið sé inn í til þess að koma á stöðugra og eðlilegra ástandi. Slá má því föstu að núverandi ástand komi niður á líðan barnsins. Með vísan til þess svo og að öðru leyti til þess sem að framan greinir verður talið að skilyrði 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 séu uppfyllt. Verður því ekki hjá því komist að fallast á kröfur stefnanda um að henni verði úrskurðuð forsjá barnsins til bráðabirgða meðan málið er rekið fyrir dómstólum.
Rétt þykir eins og málsatvikum er háttað að skipa umgengni stefnda við barnið á þann veg að hann hafi umgengni aðra hverja helgi. Skal hann sækja telpuna eftir skóla á föstudögum og skila henni í skóla á mánudagsmorgnum. Rétt þykir að umgengni verði með sama hætti í sumar.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Stefnandi, K, skal fara með forsjá stúlkunnar A til bráðabirgða þar til endanleg ákvörðun um forsjá liggur fyrir í forsjármáli aðila.
Umgengni stefnda, M, við dóttur aðila skal vera aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudagsmorguns. Stefndi sæki barnið í skóla á föstudögum og skili því í skóla á mánudegi. Í sumar verði umgengni með sama hætti.
Ákvörðun um málskostnað bíður endanlegs dóms í málinu.