Hæstiréttur íslands

Mál nr. 348/2001


Lykilorð

  • Lögreglumaður
  • Kjarasamningur


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002.

Nr. 348/2001.

Íslenska ríkið

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

gegn

Ólafi Tryggva Ólafssyni

(Gylfi Thorlacius hrl.)

 

Lögreglumenn. Kjarasamningur.

Ó hóf nám á fyrri önn í Lögregluskóla ríkisins 1. september 1997. Samkvæmt þágildandi ákvæði 4. mgr. 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 5. gr. reglugerðar nr. 490/1997 skyldu nemar í starfsþjálfun og þeir sem stunduðu nám á síðari önn skólans teljast til lögreglumanna og skyldi starf þeirra vera launað. Í desember 1997 var Ó ráðinn tímabundið í starfsnám til lögreglunnar og skyldi um laun hans fara eftir gildandi kjarasamningi, sem var frá 30. ágúst 1997. Í 1. gr. þessa kjarasamnings var kveðið á um að áður gildandi samningur ætti að framlengjast væri ekki önnur skipan á gerð. Þar sem það var ekki gert gilti ákvæði 10.1.1 fyrra samnings áfram um laun lögreglunema, en þar var svo fyrir mælt að lögreglumenn sem stunduðu nám í Lögreglu­skóla ríkisins ættu auk fastra launa að njóta vaktaálags, ákveðins ferða­kostnaðar og fá greiddan hæfilegan dvalarkostnað. Krafa Ó um greiðslur var í samræmi við þetta og ekki var tölulegur ágreiningur í málinu. Voru kröfur Ó því teknar til greina. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 11. september 2001. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Samkvæmt þágildandi ákvæði 4. mgr. 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 5. gr. reglugerðar nr. 490/1997 um Lögregluskóla ríkisins, sem sett var með heimild í 39. gr. þeirra laga, skyldu nemar í starfsþjálfun og þeir sem stunduðu nám á síðari önn skólans teljast til lögreglumanna og skyldi starf þeirra vera launað. Stefndi var ráðinn tímabundið í starfsnám til lögreglunnar á Akureyri og skyldi um laun hans fara eftir gildandi kjarasamningi Landssambands lögreglumanna, sem var frá 30. ágúst 1997, en 3.5 grein samningsins sagði fyrir um laun lögreglunema. Í 1. gr. þessa kjarasamnings var kveðið á um að áður gildandi samningur ætti að framlengjast væri ekki önnur skipan á gerð. Þar sem það var ekki gert gilti ákvæði 10.1.1 fyrra samnings áfram um laun lögreglunema, en þar var svo fyrir mælt að lögreglumenn sem stunduðu nám í Lögregluskóla ríkisins ættu auk fastra launa að njóta vaktaálags, ákveðins ferðakostnaðar og fá greiddan hæfilegan dvalarkostnað. Eru kröfur stefnda í samræmi við þetta og er ekki tölulegur ágreiningur með aðilum. Með þessari athugasemd, en annars með skírskotun til raka héraðsdóms ber að staðfesta hann.

Samkvæmt þessum úrslitum ber áfrýjanda að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

                                                              Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Ólafi Tryggva Ólafssyni, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2001

                Mál þetta, sem dómtekið var 18. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ólafi Tryggva Ólafssyni, kt. 111075-3609, Sólvöllum 5, Akureyri, á hendur Sólveigu Pétursdóttur dóms- og kirkjumálaráðherra, f.h. Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Lögregluskóla ríkisins, og Geir H. Haarde fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, með stefnu sem birt var 22. nóvember 2000.

                Dómkröfur stefnanda eru að hann fái greitt vaktaálag, dagpeninga og ferðakostnaðar úr hendi stefndu „í samræmi við ákvæði í kjarasamningi ríkisins og Landsambands lögreglumanna" samtals að fjárhæð 710.295 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 118.941 kr. frá 01/02/1999 til 01/03/1999, en þá af 287.882 kr. frá 0l/03/1999 til 01/04/1999, en þá af 471.823 kr. frá 0l/04/1999 til 0l/05/1999, en þá af 575.764 kr. frá 01/05/1999 til 01/06/1999, en þá af 710.295 kr. frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.

                Dómkröfur stefnda, íslenska ríkisins, eru aðallega að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og tildæmt málskostnaður að mati dómsins.  Til vara er gerð krafa um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda og í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður.

Málavextir eru þeir að stefnandi var settur lögreglumaður við sýslumannsembættið á Akureyri frá 1. júní 1997 til 1. september 1997 en þá hóf hann nám á fyrri önn í lögregluskólanum, sbr. 4. mgr. 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 [breytt nú  sbr. 1. gr. laga nr. 49/2000].  Lagaákvæðið hljóðaði þannig:  Nám í lögregluskólanum skiptist í tvær annir og skal nám á fyrri önn ólaunað.  Áður en nám á síðari önn hefst skal ríkislögreglustjóra sjá nemum fyrir starfsþjálfun í lögreglu ríkisins í a.m.k. átta mánuði.  Nám á síðari önn skólans skal vera launað.

                Stefnandi lauk námi á fyrri önn í lögregluskólanum.  Þann 12. desember 1997 var gerður tímabundin ráðningasamningur milli hans og sýslumannsins á Akureyri fyrir tímabilið 15. desember 1997 til 31. maí 1999 með starfsheitinu lögreglunemi og heiti á tegund starfs starfsnám í lögreglu.  Þar er og greint frá því m.a. að vinnutímaskipulag sé vaktavinna og starfshlutfall 100%.

                Í byrjun árs 1999 hóf stefnandi nám á seinni önn í lögregluskólanum sem stóð til maí loka sama ár.

                Ágreiningur aðila varðar kröfu stefnanda um greiðslu vaktaálags, dagpeninga og ferðakostnaðar þann tíma sem hann stundaði nám á seinni önn í lögregluskólanum.

Stefnandi kveðst byggja á því að laun lögreglumanna séu bundin í kjarasamningi lögreglumanna og ríkisins, sem var endurnýjaður með samkomulagi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna 30. ágúst 1997.  Í grein 10.1.1 í kjarasamningi sé skýrt kveðið á um að lögreglumenn sem stunda nám við Lögregluskóla ríkisins skuli fá greidd föst laun og vaktaálag, ferðakostnað og dvalarkostnað en orðrétt segi þar:  Lögreglumenn, sem stunda nám í Lögregluskóla ríkisins eða sækja fræðslu­- eða þjálfunarnámskeið að beiðni lögreglustjóra, skulu halda föstum launum og vaktaálagi.  Lögreglumenn sem af þessum sökum þurfa að búa fjarri heimilum sínum, skulu fá greiddan ferðakostnað til og frá heimili sínu við upphaf og lok námstímabils.  Auk þess eina slíka ferð á fyrri önn Lögregluskóla ríkisins og 2 slíkar ferðir á síðari önn skólans.  Þeir skulu ennfremur fá greiddan hæfilegan dvalarkostnað skv. mati nefndar...  Greininni fylgi til skýringar eftirfarandi:  Skv. ákvörðun ferðakostnaðarnefndar frá 27. nóvember 1974, skulu dagpeningar lögreglumann sem stunda nám í Lögregluskóla ríkisins vera 2/3 hlutar fullra dagpeninga ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands á vegum ríkisins.

Stefnandi segir að lögreglumenn við nám í Lögregluskóla ríkisins hafa lengi fengið greidd laun í samræmi við framangreint ákvæði kjarasamnings.  Við endurnýjun hans 30. ágúst 1997 hafi þetta ákvæði haldist óbreytt.  Inn í grein 1.3.5.4 hafi verið bætt eftirfarandi orðum:  Um laun og önnur starfskjör lögreglunema, sem lokið hefur námi á fyrri önn Lögregluskóla ríkisins með fullnægjandi árangri og er í starfsnámi eða á síðari önn Lögregluskóla ríkisins, gilda ákvæði þessa kjarasamnings.  Samkomulag þetta hafi verið samþykkt af fulltrúum stefndu tveimur mánuðum eftir að lögreglulög 90/1996 tóku gildi.  Með þessu telur stefnandi vafalaust að kjör nema á seinni önn Lögregluskóla ríkisins haldist óbreytt eftir gildistöku lögreglulaga.  Fullyrðingar ráðuneytis um að breytingar, sem gerðar voru á námsfyrirkomulagi við Lögregluskóla ríkisins með lögreglulögum 90/1996, hafi haft í för með sér, að vaktaálag, dagpeningar og ferðakostnaður til handa lögreglunemum hafi fallið niður, eiga sér ekki lagastoð.  Telur stefnandi að hann eigi skýran rétt á að fá greitt vaktaálag og dvalar- og ferðakostnaðar til viðbótar þeim launum, sem hann fékk greidd þegar hann stundaði nám á seinni önn Lögregluskóla ríkisins.  Þá verði einnig að líta til þess að sem lögregluskólanemi á síðari önn hafi hann algerlega verið háður þeim launum sem hann þáði frá stefndu enda nám hans ekki lánshæft eins og annað nám á sama námsstigi.

Tölulega gerir stefnandi grein fyrir kröfufjárhæðinni þannig:  Vaktaálag lögreglumanna er ákveðið í kafla 1.6. í kjarasamningi ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna.  Og fyrir störf sín hjá lögreglunni á Akureyri frá september 1998 til byrjun janúar 1999 fékk stefnandi greitt mánaðarlega vaktaálag.

                                                         33% vaktaálag                                            45% vaktaálag

      Þann 1. september ´98            kr.                5.746.-                                      kr.              24.026.-

      Þann 1. október ´98                kr.                5.932.-                                      kr.              22.524.-

      Þann 1. nóvember ´98            kr.                5.932.-                                      kr.              22.024.-

      Þann 1. desember ´98             kr.                7.044.-                                      kr.              23.525.-

      Þann 22. desember ´98 kr.      5.932.-                kr.                                      22.024.-

      Samtals                                     kr.              30.586.-                                      kr.            114.123.-

      Að meðaltali                            kr.             6.117.-                                      kr.           22.824.-

                Vaktaálag til stefnanda á þessu tímabili var því að meðaltali á mánuði samtals 28.941 kr.  Kveðst stefnandi krefjast þess að stefndu greiði sér þessa fjárhæð auk fastra launa fyrir hvern mánuð, sem hann sat síðari önn Lögregluskóla ríkisins frá byrjun janúar 1999 og til loka maí 1999, þ.e. fyrir fimm mánuði samtals 144.705 kr.

Þá kveðst stefnandi byggja á því að dvalarkostnaður skuli samkvæmt ákvörðun ferðakostnaðarnefndar vera 2/3 hlutar af fullum dagpeningum ríkisstarfsmanns á ferðalagi innanlands, sbr. ákv. 10.1.1. kjarasamnings ríkisins og Landssambands lögreglumanna.  Með auglýsingu nr. 4/1998 hafi ferðakostnaðarnefnd ákveðið dagpeninga til greiðslu gisti- og fæðiskostnaðar ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands fyrir gistingu og fæði í einn sólarhring 7.500 kr. en 2/3 hlutar af því sé 5.000 kr.  Krefst hann og viðurkenningar á rétti til dagpeninga fyrir hvern dag, sem hann þurfti að dveljast í Reykjavík vegna námsins á síðari önn Lögregluskóla ríkisins 1999, 18 dagar í janúar, 28 dagar í febrúar, 31 dagur í mars, 15 dagar í apríl og 15 dagar í maí.  Því sé krafist dagpeninga fyrir 107 daga, samtals að fjárhæð 535.000 kr.  Þá eigi nemar á seinni önn lögregluskólans að fá greiddan kostnað þriggja ferða til og frá heimili sínu, sbr. kjarasamning ákv. 10.1.1. Krefst stefnandi greiðslu ferðakostnaðar fyrir fjárhæð samtals 30.590 kr. frá og með lokum náms hans í maí 1999.

                Stefnandi sundurliðar kröfufjárhæðina á eftirfarandi hátt:

      Janúar 1999                                                                                                                               Höfuðstóll

                      Vaktaálag                                                 kr.       28.941.-                                                                                               Dagpeningar (18 x 5.000.-)  kr.            90.000.-                                                                                                                                       Samtals      kr.                  118.941.-                   kr.                            118.941.-                 Febrúar 1999                                                                                                                                                                                 Vaktaálag     kr.        28.941.-                                                                                                        Dagpeningar ( 28 x 5.000.-) kr.      140.000.-                                                                                                                                                          Samtals  kr.            168.941.-                 kr.                            287.888.-

      Mars 1999                                                                                                                                                                                       Vaktaálag               kr.            28.941.-                                                                                                                                           Dagpeningar (31 x 5.000.-)        kr.        155.000.-                                                                                                      Samtals  kr.            183.941.-       kr.                                                                              471.823.-                Apríl 1999                                                                                                                      Vaktaálag               kr.            28.941.-                                                                                                                                                 Dagpeningar (15 x 5.000.-)     kr.            75.000.-                                                                                         Samtals  kr.                                                              103.941.-                kr.                              575.764.-                      Maí 1999                                                                                                                                      Vaktaálag                                                 kr.       28.941.-                                                                                               Dagpeningar (15 x 5.000.-)  kr.            75.000.-                                                                                                                           Ferðakostn. (9.930+10.330x2)   kr.        30.590.-                                                                                                        Samtals  kr.            134.531.-       kr.                                                                              710.295.-

 

Af hálfu stefnda er byggt á því að verulegar breytingar hafi orðið á ákvæðum lögreglulaga er varði aðgengi nema að Lögregluskóla ríkisins og skipun þeirra í starf.  Skorti því nú lagaskilyrði til að verða við kröfum stefnanda.  Í umsögn fjármálaráðuneytisins um aðdraganda breytinganna segi:

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 56/1972, um lögreglumenn, skyldi starfræktur lögregluskóli við embætti lögreglustjórans í Reykjavík, er veitti lögreglumönnum undirstöðumenntum í lögreglufræðum.  Tekið var fram í 2. málslið ákvæðisins að að jafnaði ætti ekki að skipa aðra í lögregluþjónsstöðu en þá, er staðist höfðu próf í skólanum.  Á grundvelli laganna setti dóms- og kirkjumálaráðherra reglugerðar nr. 660/1981 um veitingu lögreglustarfs, lögregluskóla o.fl.  Í I. kafla reglugerðarinnar er fjallað um veitingu starfs í lögregluliði.  Gert var ráð fyrir því að sérstök valnefnd sem starfaði við skólann yfirfæri umsóknir um lögreglumannsstöðu og sendi álitsgerð til hlutaðeigandi lögreglustjóra.  Ef umsækjandi var ráðinn í lögreglumannsstarf, skyldi líta á fyrsta starfsár hans sem reynslu- og námstíma, sem skiptist í grunnnám og starfsnám.  Í 7. gr. reglugerðar nr. 660/1981sagði síðan, að lögreglumenn, sem ráðnir væru til reynslu, skyldu kvaddir til náms í lögregluskólann, svo fljótt sem því yrði við komið að mati lögreglustjóra (Alþt. 1988, A-deild, bls. 1067).  Í tíð laga nr. 56/1972 mun framkvæmd við ráðningu lögreglumanna almennt hafa verið með þeim hætti, að umsækjendur sóttu um starf lögreglumanns hjá hlutaðeigandi lögreglustjóraembætti.  Það réðst af fjárveitingum til embættisins, hvort auglýst var eftir lögreglumanni.

Með setningu lögreglulaga nr. 90/1996 var komið á annarri skipan.  Rofin voru þau tengsl sem verið höfðu milli einstakra lögreglustjóra og Lögregluskólans, að því er snerti ráðningu lögreglumanna og menntun þeirra.  Samkvæmt 36. gr. laga nr. 90/1996 er Lögregluskóli ríkisins sjálfstæð stofnun.  Við skólann er m.a. starfrækt grunnnámsdeild, er veitir lögreglunemum menntun í almennum lögreglufræðum.  Um inntöku nýnema og námstilhögun er fjallað í 38. gr.  Samkvæmt ákvæðinu auglýsir ríkislögreglustjóri eftir nemum við skólann um allt land.  Hann ákveður fjölda þeirra sem hefja nám ár hvert á grundvelli áætlunar um endurnýjun í lögreglu ríkisins.  Samkvæmt 3. mgr. velur valnefnd nema í lögregluskólann.  Í 4. mgr. segir síðan að nám við skólann skiptist í tvær annir og er nám á fyrri önn ólaunað.  Gert er ráð fyrir því að áður en nám á síðari önn hefjist skuli ríkislögreglustjóri sjá nemum fyrir starfsþjálfun í lögreglu ríkisins í a.m.k. átta mánuði og að nám á síðari önn skuli vera launað...  Á grundvelli lögreglulaga setti dóms- og kirkjumálaráðherra reglugerð nr. 490/1975, um Lögregluskóla ríkisins.  Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir að nemar í starfsþjálfun og þeir sem stunda nám á síðari önn teljist lögreglumenn og að starf þeirra og nám skuli vera launað.

Kjarninn sé sá, að veruleg breyting hafi orðið á skipan fræðslu lögreglunema við gildistöku nýju laganna frá 1996.  Hafi verið lagt af það fyrirkomulag sem áður var að lögreglunemar væru sendir frá ákveðnum lögregluembættum til náms í skólanum á óbreyttum launum með vaktaálagi auk þess að nokkrir fengu aukalega dagpeninga og greiddan ferðakostnað.  Eftir gildistöku nýju laganna séu lögreglumenn ekki lengur sendir til náms heldur sæki þeir um skólavist.  Í athugasemdum með frumvarpi að lögunum frá 1996, sbr. Alþingistíðindi, þskj. 783 á 120. löggjafarþingi, í umfjöllun um 4. mgr. 38. gr. segi, að rétt hafi verið að taka slíkt ákvæði í lög þar sem með því sé lögð sú grundvallarbreyting á kjörum nemenda við skólann, að þeir verði ekki ráðnir til lögreglustarfa í upphafi skólavistar eins og áður tíðkaðist heldur séu þeir ólaunaðir á fyrr önn skólans.  Standist þeir próf í lok fyrri annar verði þeir ráðnir í starfsþjálfun í lögreglu ríkisins.  Seinni önn námsins er aftur á móti launuð.  Þannig sé ljóst að vaktaálag, dagpeninga og ferðakostnaður til handa lögreglunemum féllu niður.

Um ákvæði 10.1.1 í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Lands­sambands lögreglumanna hafi verið samið í tíð eldri laga.  Þessi ákvæði taki mið af námsskipan eins og hún var þá.  Í upphafi ákvæðisins komi skýrt fram, að viðkomandi hafði verið ráðinn til starfa sem lögreglumaður við ákveðið embætti og sendur þaðan til námsins.  Þessu hafi hins vegar verið breytt eins og að framan greinir og með lögreglulögunum frá 1996 sé það ríkislögreglustjóri sem sjái nemum fyrir starfsþjálfun eins og áður var rakið og nemar fái greidd laun frá Lögregluskóla ríkisins á síðari önn skólans.

Þá byggir stefndi á því að 30 ágúst 1997 hafi fjármálaráðherra og Landssamband lögreglumanna gert með sér samkomulag um breytingu og framlengingu á kjarasamningi aðila.  Þar sé tekið fram að um laun og önnur starfskjör lögreglunema, sem lokið höfðu námi á fyrri önn Lögregluskóla ríkisins með fullnægjandi árangri og séu í starfsnámi eða á síðari önn lögregluskólans, gildi ákvæði kjarasamnings aðila.  Þrátt fyrir þessa breytingu hafi engin breyting verið gerð á grein 10.1.1 í kjarasamningi aðila.  Hvorki ákvæði lögreglulaga né reglugerð um Lögregluskóla ríkisins mæli nánar fyrir um hvaða laun skuli greiða í starfsnámi á seinni önn skólans.  Þó svo að kjarasamningur aðila geri ráð fyrir því að lögreglunemar taki laun samkvæmt kjarasamningnum leiði það ekki til þess, að þeir falli beint undir ákvæði 10.1.1.  Í því sambandi skipti máli að starfsnámið sem slíkt verði ekki jafnað til skipunar eða setningar í starf.  Starfsnáminu sé komið á fyrir tilstuðlan ríkislögreglustjóra og því ekki um það að ræða að stefnandi hafi verið sendur í Lögregluskólann að beiðni lögreglustjóra.  Eftir þær breytingar sem hafi orðið með lögreglulögunum og áður var lýst taki tilvitnað ákvæði til lögreglumanna sem hlotið hafa skipun eða setningu í starf og eru sendir í Lögregluskólann eða til að sækja þjálfunarnámskeið.  Það taki ekki til annarra.

Niðurstaða:  Í 4. mgr. 38. gr. laga nr. 90/1996, svo sem ákvæðið hljóðaði á þeim tíma er hér skiptir máli, segir m. a. að nám á síðari önn skólans skuli vera launað.  Í máli þessu er deilt um hvaða laun sé að ræða, hvort stefnandi eigi rétt á vaktaálagi, dagpeningum og ferðakostnaði til viðbótar við föst laun, er stefnandi var við nám á síðari önn í Lögregluskóla ríkisins.

                Af hálfu stefnanda er byggt á því að kjarasamningur lögreglumanna og ríkisins, sem var endurnýjaður með samkomulagi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna 30. ágúst 1997, svo sem rakið hefur verið hér að framan, gildi í þessu efni.  Aftur á móti er á því byggt af hálfu stefnd að þó kjarasamningur aðila segi að vísu, að lögreglunemar taki laun samkvæmt kjarasamningi, þá leiði það ekki til þess, að þeir taki laun samkvæmt kjarasamningi á meðan þeir stundi nám í Lögregluskóla ríkisins, enda verði námi í lögregluskólanum ekki jafnað til skipunar eða setningar í starf.

                Í ráðningasamningi stefnanda, er undirritaður var 12. desember 1997, segir m.a. að um starfskjör hans fari samkvæmt þessum samningi og samkvæmt kjarasamningi Landssambands lögreglumanna.  Þá er í ráðningarsamningi mælt fyrir um að nemanda verði greidd laun fyrir yfirvinnu, vaktaálag, ferðakostnað og akstursgjald, án fyrirvara um að það gildi ekki meðan nemandi er við nám í lögregluskólanum.  Þá segir í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 490/1997 um Lögregluskóla ríkisins að nemar í starfsþjálfun og þeir, sem stunda nám á síðari önn, teljist til lögreglumanna og skuli starf þeirra og nám verða launað.  Ekki er þess getið í reglugerðinni að vaktaálag, ferðakostnaður og dagpeningar sé ekki hluti af launum nemanda á meðan hann stundar nám í lögregluskólanum.  Af kjarasamningi lögreglumanna og ríkisins, lögum og reglugerðum verður engan veginn ráðið með óyggjandi hætti að nemar á síðari önn í lögregluskólanum njóti ekki fullra réttinda samkvæmt grein 10.1.1 í umræddum kjarasamningi þó að nemendur séu ekki lengur formlega sendir í lögregluskólann að beiðni lögreglustjóra eins og áður var, heldur fari í skólann samkvæmt ráðningarsamningi, sbr. 42. gr. laga nr. 70/1996.  Skipun eða setning í starf lögreglumanns getur ekki alfarið ráðið því, hvort nemandi eigi rétt á vaktaálagi, dagpeningum og ferðakostnaði til viðbótar við föst laun eins og kjarasamningur kveður á um, þegar hann er við nám á síðari önn í Lögregluskóla ríkisins.  Verður að telja að fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssamband lögreglumanna hafi verið heimilt að semja um kjör nema í lögregluskólanum svo sem gert var samkvæmt lagaboði að nám á síðari önn skólans væri launað.  

                Samkvæmt framangreindu verður fallist á kröfur stefnanda sem ekki er tölulegur ágreiningur um.

                Rétt er að stefndi greiði stefnanda 267.259 krónur alls í málskostnað.

                Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

                Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Ólafi Tryggva Ólafssyni, 710.295 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 118.941 kr. frá 1. febrúar 1999 til 1. mars 1999, en af 287.882 kr. þeim degi til 1. apríl 1999, en af 471.823 kr. frá þeim degi til 1. maí 1999, en af 575.764 kr. þeim degi til 1. júní 1999, en þá af 710.295 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 267.259 krónur alls í málskostnað.